Frásögn í sjómannablaði Vesturlands 2014 II

Björgun skipsbrotsmanna af Svani ÍS 214

Einar HáldánssonEftir gifturíka björgun kom Sólrúnin í land í Bolungarvík um ellefu að kvöldi, töluvert ísuð enda tommu þykk stögin orðin um fet að gildleika. Í viðtali við fréttaritara Morgunblaðsins sagði skipstjórinn, Hálfdán Einarsson, að þeir hefðu verið að veiðum um tvær mílur norður af staðnum þar sem Svanurinn fórst. Varðskipið Þór hafði heyrt neyðarkall þar sem það lá undir Grænuhlíð og kallaði út á flotann hvort menn hefðu heyrt í neyðarbylgju á 2182. Neyðarkallið var skýrt og fumlaust þar sem gefin var nákvæm staðsetning slyssins.

 

 

 

Feðgarnir Háldán Einarsson og Einar Hálfdánar

Hálfdán brást fljótt við og byrjaði umsvifalaust að skipuleggja leit að skipbrotsmönnum, enda staðfest að þeir hefðu komist í björgunarbát. Þröstur Sigtryggson skipherra á varðskipinu tók síðan við skipulagningu leitar en leitarskilyrði voru afleit, hvassviðri og mikil sjór og gekk á með éljum.

Það var byrjað að skyggja og hugðist Hálfdán biðja skipsbrotsmennina um að skjóta upp blysi þar sem erfitt var að koma auga á gúmmí bát við þessar aðstæður. Hann áttaði sig á að sendistyrkur neyðartalstöðvarinnar fór að dofna og taldi því víst að hann væri að fjarlægjast björgunarbátinn. Hálfdán tók þá afdrifaríka ákvörðun um að snúa við og við það varð styrkur sendingar frá skipsbrotsmönnum sterkari. Þegar hér var komið var komið myrkur og þreifandi bylur og var komin upp sú hugmynd að fresta leit fram í birtingu næsta dag. Eftir að hafa haldið til baka frá flotanum í nokkurn tíma fann hann björgunarbátinn.

Haft var eftir Hálfdáni í Morgunblaðinu „neyðartalstöðin var farin að dofna en skyndilega heyrðum við skýrt í stöðinni og skyndilega birtist ljósið á toppi björgunarbátsins við bakborðshlið Sólrúnar upp úr klukkan sex, en þá vorum við staddir um 18 mílur norður af Deild". Hálfdán taldi betra að láta varðskipið taka skipsbrotsmennina um borð, bæði væri betri aðstaða og tæki til björgunar til að ná mönnum um borð í myrkri og ólgusjó. Áhöfnin á Sólrúnu vissi ekkert um líðan mannanna um borð í gúmbátnum en um 20 til 30 mínútur liðu frá því að þeir fundu bátinn þar til skipsbrotsmenn voru komnir í öruggt skjól um borð í Þór. Það kemur fram í umfjöllun Morgunblaðsins að skipstjórar í Bolungarvík sem þátt tóku í leitinni, báru mikið lof á Jón, skipverja Svansins sem hafði með talstöðina að gera í gúmbátnum, leikni hans og kunnáttu ásamt yfirvegun við þessar aðstæður. Jónvar einmitt nýkominn af björgunarnámskeiði og kunni því vel til verka. Augljóst má vera að hefði hann ekki gefið út staðsetningu á slysstað strax í upphafi hefði leitin orðið mun ómarkvissari. Með staðsetningu höfðu björgunarmenn upphafspunkt og gátu út frá honum reiknað út rek gúmbátsins af völdum strauma og vinds.

thor.jpgHálfdán Einarsson átti einstaklega gæfuríkan feril sem skipstjóri og var eftirsótt að komast í skipsrúm með honum. Hann var hógvær maður, en bar svo sterkan persónuleika að allir hlustuðu þegar hann lagði eitthvað til málanna. Þekkt var það að hann byrsti sig sjaldan. Ef hann þurfti sem skipstjóri að skipa mönnum fyrir og honum þótti ekki nægilega vel eða hratt brugðist við, endurtók hann orð sín, án þess að hækka róminn og bætti við, „segi ég". Það nægði alltaf. Einar Hálfdánsson sonur hans var stýrimaður þennan örlagaríka dag með föður sínum. Einar naut sömuleiðis mikillar virðingar allan sinn starfsferil og það mjög að verðleikum. Báðir voru þeir feðgar miklir aflamenn, fóru vel með og einstaklega glöggir og minnugir á alla hluti.

Fyrir margt löngu heyrði undirritaður viðtal við Þröst Sigtryggson skipherra á varðskipinu Þór þar sem minnst var á þessa atburði. Bar hann mikið lof á skipstjóra Sólrúnar sem hann sagði að hefði átt frumkvæði að skipulagi leitar, þar sem hann reiknaði út strauma og rek og síðan var flotanum raðað upp í einfaldri röð og siglt yfir það svæði sem líklega var að gúmbátinn væri að finna. Hann naut aðstoðar Hálfdáns við að skipuleggja leitina enda vandfundinn betri maður sér við hlið í krefjandi verkefni.

Þungu fargi var létt af Bolvíkingum þegar fréttir bárust af björguninni en mikil blóðtaka hafði verið meðal sjómanna við Djúp árin á undan.


Frásögn í sjómannablaði Vesturlands I

Svanur ÍS 214 ferst út af Deild

Það var ágætis veður en þungt í sjóinn og töluverð snjókoma þegar Svanur ÍS 214 lagði upp í veiðiferð frá Súðavík 29. janúar 1969. Klukkan var níu um kvöldið og við stjórnvölinn var ungur öflugur skipstjóri, Örnólfur Grétar Hálfdánsson frá Bolungarvík. Hann var aðeins tuttugu og fjögurra ára og nýlega tekinn við sinni fyrstu skipstjórn. Spáin var frekar slæm og allra veðra von, en Svanurinn þótti traustur bátur á þeim tíma, rúmlega 100 tonna og gerður út á línu. Það voru fimm manns í áhöfn auk Grétars; Brynjólfur Bjarnason stýrimaður, Þórður Sigurðsson matsveinn, Jón Ragnarsson vélstjóri, Jóhann Alexandersson háseti og Kjartan Ragnarsson háseti. Stefnan var tekin í norður út frá Deild og byrjað að leggja upp úr miðnætti um 20 mílur frá landi.

 Svanur ÍS

 

 

 

 

 

 

Búið var að leggja línuna, 42 bala, um klukkan fjögur um morguninn og þá tekin baujuvakt. Það var byrjað að hvessa og orðið þungt í sjóinn og hitastigið komið niður fyrir tíu gráðu frost. Byrjað var að draga línuna um átta leytið og enn herti vindinn og fljótlega var kominn norðaustan stormur og töluverð ísing. Fullur af eldmóð stóð hinn ungi skipstjóri vaktina með stjakann til að ná þeim fiskum sem goggarinn missti af línunni og rak aftur með bátunum. Þannig gat hann staðið við brúarhurðina og snarað sér út til að ná í fiskinn sem datt af línunni. Grétar var orðin rennandi blautur enda gaf hressilega á bátinn og hann ekki klæddur í skjólfatnað.

Um tvöleytið var lokið við að draga og báturinn gerður sjóklár fyrir heimstím, skálkaðar lúgur og gengið frá öllu lauslegu. Að því loknu snaraði Grétar sér aftur í bestik, sem var aftan við brúna, til að hafa fataskipti enda orðin blautur og kaldur og þegar hér var komið var skollið á fárviðri. Þar sem hann stóð á nærfötunum einum fata, reið brot þvert yfir á bátinn framan til á bakborða, skellti honum á stjórnborðshliðina og færði hann á kaf. Grétar kastast fyrst í vegginn og endar síðan í kojunni. Sjór hafði komið inn um reykháfinn það drapst á vélinni og ljósin slokknuðu. Báturinn lá á hliðinni á bólakafi í sjó og mátti sjá grængolandi sjóinn utan við gluggana. Grétar gerði sér strax grein fyrir því að Svanurinn var að sökkva og með einhverjum hætti komst hann fram í stýrishúsið þar sem fjórir af áhöfninni voru saman komir en sem betur fer héldu allar rúður þannig að enginn sjór hafði komist þar inn. Hann skipar áhöfninni að fara upp á brúarþak og koma björgunarbátnum í sjóinn. Þegar Svanurinn kom úr kafi og réttir sig aðeins við, notuðu þeir tækifærið til að koma sér upp á brúarþak og losa um björgunarbátinn.

Grétar gerði sér nú grein fyrir að einn úr áhöfninni vantar en Kjartan var sofandi niður í káetunni undir brúnni. Enn var töluverður halli á bátnum en Grétar gat með einhverjum hætti komist niður með því að skríða með stiganum en erfitt var að athafna sig í myrkrinu. Kjartan hafði vaknað við brotið og kastast fram úr kojunni. Ný vaknaður og vissi ekkert hvað á sig stóð veðrið og vissi ekki hvað var upp né niður enda gekk hann á veggþilinu. Hann var algerlega ósjálfbjarga þegar Grétar ruddist inn í klefann hans og hjálpaði honum að komast upp í stýrishúsið. Grétar minnist þess hversu óraunverulegt og erfitt var að fóta sig í myrkri, í heimi sem var bæði á hreyfingu og upp á rönd. Honum tókst þó að koma þeim „upp" í stýrishúsið þar sem hann greip með sér neyðartalstöð og rétti Jóni vélstjóra  áður en þeir komu sér upp á brúarþakið. Hann hafði áður reynt að nota talstöð skipsins sem ekki virkaði vegna rafmagnsleysis.

 

Fljótlega voru þeir komnir til félaga sinna sem höfðu komið björgunarbátnum á flot og blásið hann upp. Ekki tókst betur til en svo að báturinn blés upp undir rekkverkinu á brúnni sem reif af þakið og gerði gat á neðra flotholtið. Grétar minnist þess ennþá að honum fannst allt í einu eins og sjórinn væri sléttur og varð varla var við að fárviðri geisaði og hitastigið var komið niður í mínus 12 gráður. Þeir komu sér um borð í það sem eftir var af björgunarbátum og en héldu ennþá stjóra við Svaninn.

Grétar gerði sér fljótlega grein fyrir að staða þeirra var vonlaus í rifnum björgunarbátnum og engin von til þess að halda lífi um borð í honum við þessar aðstæður. Hann vissi af öðrum björgunarbát í kistu fram undir hvalbak hjá skælettinu, en hann hafði nýlega komið honum þar fyrir. Þetta var lánsbátur þar sem þeirra bátur var í yfirhalningu og hafði hann þá stungið beittum hnífi með tjóðrinu, bleyttum í olíu til að verja hann ryði. Í þá daga var ekki sjálfvirkur sleppibúnaður og bátar því oft kyrfilega bundnir á sínum stað. Hann vissi að hann þyrfti að sækja bátinn ef þeir félagar ættu að eiga von á björgun úr þessum háska og hann minnist þess að áður en hann fleygði sér til sunds í ísköldum sjónum (2°C) sá hann að fyrstu tveir stafirnir í nafni Svansins á brúnni voru komnir á kaf í sjó vegna halla. Hann komst fram á hvalbakinn og án nokkurs hiks svipti hann kistulokinu af og þreifaði eftir hnífnum til að skera bátinn lausan. Honum tókst að koma bátnum upp úr kistunni og bisa honum aftur eftir skipshliðinni í átt að félögum sínum sem biðu í rifnum björgunarbátnum. Honum varð aftur litið á brúna og sá að nú var aðeins síðasti stafurinn í nafninu upp úr sjónum þannig að báturinn sökk hratt. Grétar minnist þess að hann hikaði aldrei við að sækja björgunarbátinn, hann taldi sig bera ábyrgð á áhöfninni og því enginn vafi í hans huga að honum bæri að gera þetta. Enginn tími var til hræðslu og því voru öll handtök æðrulaus og ákveðin.

Félagar hans tóku við hylkinu um borð í björgunarbátinn og slepptu tauginni sem bundu þá við Svaninn. Þegar þeir voru komnir frá hinu sökkvandi skipi blésu þeir upp björgunarbátinn og komu sér síðan um borð í hann. Það var myrkur og þreifandi bylur ásamt sjávarlöðrinu og þeir sáu augnablik grilla í Svaninn eftir að þeir slepptu sér lausum. Jóni vélstjóra hafði tekist að senda út neyðarkall en loftnetið á talstöðinni brotanaði af við hamaganginn við að komast á milli björgunarbáta þannig að þeir áttu erfitt með samskipti við hugsanleg björgunarskip. Um borð í bátunum voru m.a. þurr ullarföt sem Kvennadeild Slysavarnarfélags Súðavíkur hafði gefið í bátinn og hjálpaði það þeim mikið til að halda á sér hita. Þeir röðuðu sér vindmegin í bátinn þannig að rokið næði ekki undir hann á úfnum öldurtoppum og gæti þannig hvolft honum. Klukkan var rúmlega tvö og byrjað að bregða birtu.

Með loftnetið brotið gátu þeir látið vita af sér en heyrðu ekki í björgunarmönnum, þeir vissu þó að þeir höfðu náð neyðarkallinu og byrjað var að leita að þeim. Það veitti þeim mikla sálarró að vita af því, en þeir voru komnir um 24 mílur frá landi þegar brotið reið yfir, og ljóst að þeir myndu reka á haf út ef þeir fyndust ekki. Grétar rifjar það upp að allt hafi þetta tekið aðeins nokkrar mínútur og fram að þessum tíma hafði hann aldrei haft tíma til að verða hræddur. Menn fóru bara í þau verk sem þurfti að vinna til að komast af! Enginn tími til að velta neinu fyrir sér og markmið hins unga skipstjóra var að bjarga áhöfn sinni frá bráðri lífshættu og koma þeim öruggum heim til ástvina sinna. Við þessar aðstæður hlýða menn sínum skipstjóra og því voru öll handtök ákveðin og fumlaus.

Grétar veltir því fyrir sér hversu hratt Svanurinn sökk! Ekki hafði komið sjór í káetuna né brúnna en greinilegt var að sjór lak hratt í bátinn, enda sökk hann á nokkrum mínútum. Grétar trúir því að brotið hafi hreinlega rifið gat á skipið þannig að stór rúm, vélarrúm eða lest hafi fyllst af sjó á skömmum tíma. Hann telur að aðeins hafi liðið um tíu mínútur frá því að brotið reið yfir bátinn og hann var sokkinn í hafið.

Ullarfötin komu sér vel í kuldanum, en Grétar lét áhöfnina klæða sig í en sjálfur var hann fáklæddur og blautur. Vissan um að þeirra væri leitað var mikilvæg og þeir ríghéldu í vonina um björgun. Línubátar voru flestir á sjó þennan dag, þrátt fyrir slæma spá, þannig að töluverður floti byrjaði strax leit að þeim. Það dimmdi fljótt eftir að þeir komu um borð í björgunarbátinn og var skyggni lítið sem ekkert. Talstöðin gerði þeim kleift að fylgjast með leitinni en björgunarmenn virtust ekki heyra til þeirra, enda loftnetið brotið. Vistin var ömurleg og Grétar minnist þess hversu kalt honum var, illa klæddur og rennandi blautur. Þeim hafði tekist að blása upp botn bátsins sem einangraði þá frá ísköldum sjónum og gerði þeim mögulegt að þurrka botn hans. Grétar segir að andrúmsloftið um borð hafi verið sérstakt en þeir ræddu mikið sín á milli meðan þeir biðu björgunar. Þeir heyrðu allan tímann í leitarskipunum og gátu metið eftir styrk móttöku hvort þau voru að nálgast þá, en þeir gátu ekki látið í sér heyra. Jón, sem var nýlega kominn af björgunarnámskeiði, sá um neyðartalstöðina allan tímann.

solrun_s_399_1965.jpgFljótlega var komið niðamyrkur, þreifandi bylur og kolvitlaust norðaustan fárviðri. Eftir um fimm tíma volk í bátnum sjá þeir allt í einu ljós og síðan birtist Sólrún ÍS 399 við hliðina á þeim. Grétar telur það einstakt að skipstjóra Sólrúnar skyldi takast að finna þá við þessar aðstæður, og í rauninni var þetta eins og að leita að nál í heystakk miðað við skyggni og veður. Þegar þeir fundust höfðu þeir rekið um 8-9 mílur í vestur.

Það var mögnuð stund þegar Sólrúnin birtist þeim og þá vissu þeir að þeim væri borgið. Báturinn hélt sjó í námunda við þá en áhöfnin treysti sér ekki til að taka þá um borð sökum veðurofsans og biðu eftir komu varðskipsins til að taka skipsbrotsmennina um borð til sín. Varðskipið Þór kom síðan upp að þeim á hléborða, en það var gert til að það myndi ekki velta ofaná björgunarbátinn og létu hann reka meðfram síðunni. Á síðunni var kaðalstigi og um leið og báturinn rann með síðunni greip Grétar kastlínu frá varðskipsmönnum og þeir drógu björgunarbátinn að stiganum. Grétar fór fyrstur til að prófa aðstæður og þrátt fyrir slæmt kal á höndum tókst honum að komast um borð. Allt gekk þetta vel þar til komið var að Þórði matsveini, en hann hafði farið úr axlalið í látunum við að komast í björgunarbátinn. En einhvernveginn tókst þetta allt og áður en varði voru þeir komnir í öruggt skjól um borð í Þór, þar sem þeirra beið heit sturta og þurr og hlý föt ásamt heitu kaffi.

Varðskipið skutlaði þeim til Ísafjarðar en bæði Óshlíðin og Súðavíkurhlíð voru lokaðar vegna snjókomu og veðurs. Þórður fór á sjúkrahús en Grétari var ekið heim til föðursystur sinnar upp á Sjónarhæð. Ekki var svo mikið sem litið á kalsárin, hvað þá að menn fengju áfallahjálp eftir hrikalega lífsreynslu.

Ljóst er að slík reynsla sem þessir menn gengu í gegn um þennan dag í janúarlok getur skilið eftir ör á sálinni. Einn úr áhöfninni hætti til sjós eftir slysið og annar var aldrei rólegur þegar brældi, þó sjómennska yrði hans lífsstarf. Grétari leið ekki vel á sjó fyrstu mánuðina eftir þetta sjóslys, en jafnaði sig þegar á leið. Hann gat hinsvegar ekki talað um þessa lífsreynslu sína fyrr en liðnir voru áratugir eftir slysið. Rétt er að taka því fram að Þórður matsveinn varð síðar tengdafaðir Grétars.

Lokaorð Grétars í þessu viðtali  voru þau, að litið hefði verið til með þeim meðan á þessu gekk og þess vegna hafi þeir bjargast. Þegar hann var spurður hver hefði gert það var svarið stutt og laggott; „Guð almáttugur"

Grétari voru veitt afreksverðlaun  Sjómannadagsins í Reykjavík 1969 fyrir þetta björgunarafrek, enda talið að hugdirfska hans og snarræði hafi bjargað áhöfninni af Svani ÍS 214 frá Súðavík.


Leiðari í sjómannablaði Vesturlands 2014

Í þessu blaði er sögð saga sem gerðist fyrir fjörutíu og fimm árum síðan og lýsir vel þeim framförum sem átt hafa sér stað í öryggismálum sjómanna frá þeim tíma. Sagan er þrískipt og lýsir í fyrsta lagi sjóslysi sem varð þegar Svanur ÍS fórst út af Deild í slæmu veðri og áhöfnin með hugrekki og æðruleysi tekst að komast í björgunarbátinn. Síðan er kastljósi varpað á björgunarmenn um borð í Sólrúnu ÍS sem áttu því láni að fagna að finna skipbrotsmenn og bjarga þannig lífi þeirra. Að síðustu er hugað að ættingjum sem fylgjast með í gegnum öldur ljósvakans, milli vonar og ótta í langan tíma þangað til þau heyra í skipstjóra Sólrúnar segja að hann sjái ljós og staðfestir síðan að báturinn sé fundinn.

Það er vart hægt að setja sig í spor eiginkonu matsveinsins á Svaninum þegar hún fær tilkynningu um að báturinn hafi farist og leitað sé að áhöfninni við mjög slæmar aðstæður í úfnu hafi í vetrarkulda og náttmyrkri; en hún hafði aðeins ári áður fengið tilkynningu um að sonur hennar hefði farist með m/b Trausta frá Súðavík. Um þetta leyti var mikil blóðtaka í sjávarplássum við Djúp þar sem ættingjar og ástvinir þurftu að horfa á eftir sjómönnum í hafið, oftar en ekki ungum mönnum sem áttu svo margt eftir ógert í þessu lífi.

Enginn vafi er að umræða um öryggi sjómanna og stofnun Slysavarnafélags Íslands hafi bjargað mörgum sjómanni frá votri gröf. Tilkynningaskyldan var sett á eftir að áhöfnin á Stíganda ÓF hafði verið á reki í björgunarbát í marga daga árið 1967, norður í ballarhafi án þess að nokkur vissi af því eftir að skipið sökk. Slysavarnarskóli sjómanna, tilkynningarskyldan, staðsetningarbúnaður, sjálfvirkur losunarbúnaðar, neyðartalstöðin og margt fleira hefur aukið öryggi sjómanna. Sjómennska er erfitt og hættulegt starf og hvílir sú skylda á Íslendingum að auka öryggi við þessa höfuðatvinnugrein af fremsta megni.

Við þessa frásögn verður manni hugsað til hvernig svona mál voru afgreidd hér áður fyrr. Engin áfallahjálp né hugað að sálarlífi ungra manna sem heimtir voru úr helju eftir hrikalega lífsreynslu. Aldrei unnið úr þeim miklu sálarkvölum sem aðstandendur stóðu frammi fyrir þennan kalda janúardag 1969 þar sem fylgst var með atburðum á bátabylgjunni.

Það er viðeigandi að huga að þessum málum á sjómannadegi. Til hamingju með daginn sjómenn.


Ekki rétt að ræða þessi mál í hálfkæringi

Það er ekki rétt hjá Bjarna að ræða þessi mál í hálfkæringi. Ástandið í flokknum er ekki gott og hann ber mikla ábyrgð á því. Það eru margir sjálfstæðismenn ósáttir við samstarfið við Framsókn, engin furða!

Skuldalækkunin er eitt mesta lýðskrum og kosningabrella aldarinnar. Allir sem setja sig inn í málið vita að engin forsenduábrestur varð og ríkið mun greiða kostnaðinn með peningaprentun. Gömlu úreltu aðferðirnar sem menn vita að ganga ekki upp. Þetta er ekki leið til að bæta lífskjör þjóðarinnar, sem er orðin láglaunaþjóð. 


mbl.is Finnur aðeins fyrir þrýstingi í hnénu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grein í Útvegsblaðinu maí 2014

Framfarir í sjávarútveg

Breytingar

Við tökum ekki alltaf eftir breytingum meðan þær gerast en áttum okkur eftirá að ákveðin bylting hafi átt sér stað og heimurinn eins og við þekktum hann hefur gjörbreyst. Ég trúi því að við Íslendingar séum á slíkum tímamótum í veiðum og vinnslu á botnfiski. Þó Íslendingar hafi lengi gert sér grein fyrir mikilvægi réttrar meðhöndlunar á fiski, í gegnum alla virðiskeðjuna, tekur oft tíma að nota hana til að bæta verðmætasköpun.

Samstarf aðila í sjávarútveg

Undanfarin ár hefur Matís unnið með Skaganum og 3X Technology ásamt aðilum í sjávarútvegi á þróun búnaðar fyrir meðhöndlun á fiski um borð í veiðiskipum, þar sem lögð var áhersla á blæðingu og kælingu. Afrakstur þeirrar vinnu er Rotex búnaður 3X Technology sem þegar hefur verið seldur um borð í fiskiskip og vinnslur um allan heim. Þessi vinna hefur verið studd af AVS sjóðnum og Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða.

Í svona samstarfi sameinast kraftar greinarinnar, frumkvöðulsins og vísindanna til að þróa búnað framtíðar sem mun tryggja verðmætasköpun morgundagsins. Við þróun á búnaði er stuðst við þá þekkingu sem áralangar rannsóknir hafa skilað og eins er niðurstaða þróunar staðfest með vísindalegum rannsóknum. Hægt var að sýna fram á aukin gæði þorsks með réttri blæðingu við stýrðar aðstæður. Blóð í fiskafurð er ekki bara lýti á vörunni heldur hvetur skemmdarferla og hefur skaðleg áhrif á bragðgæði og útlit afurða við geymslu sem fersk, söltuð og frosin. Með því að nota Rotex búnað er tryggt að allur fiskur fái rétta meðhöndlun og blóðtæmingu með eins góðum hætti og mögulegt er.

Rétt meðhöndlun afla

Blóðtæming og kæling um borð í veiðiskipi er forsenda fyrir gæðum seinna í virðiskeðjunni. Með rannsóknum hefur verið sýnt fram á aukin líftíma ferskra afurða, betri nýtingu við vinnslu og aukin gæði á markaði. Í verkefnum Matís og 3X Technology var þróaður kælibúnaður sem byggir á Rotex búnaði þar sem fiskur er kældur niður undir 0°C strax eftir blóðgun og slægingu. Minni bátar sem ekki geta komið slíkum búnaði fyrir geta haft góða stjórn á bæði blæðingu og kælingu með réttri notkun á sjóskiptum við blæðingu og krapa við kælingu. Matís dreifir nú smáforriti fyrir ísreikni sem ásamt öðru getur verið gott hjálpartæki fyrir minni báta til að stjórna kælingu um borð til að hámarka gæði og verðmæti. Rétt meðhöndlun um borð er forsenda verðmætasköpunar seinna í virðiskeðjunni.

Næsta stig í þróuninni er að kæla fiskinn enn meira, en hann frýs ekki fyrr en við -1°C, og halda honum þannig frá veiðum og alla leið í gegnum vinnsluna. Margt vinnst með þessu; í fyrsta lagi hægir þetta á dauðastirðnun sem kemur í veg fyrir los í holdi, bætir afköst í vinnslu og tryggir að stærri hluti flaksins fer í dýrari afurðir. Með hægari dauðastirðnun minnkar ekki bara los heldur bætir það stýringu gæða í gegnum virðiskeðjuna. Engir skemmdarferlar byrja fyrr en eftir að dauðstirðnun lýkur og með því að fresta þeim tíma um sólarhring verður öll vinnsla markvissari. Þegar fiskur er undir 0°C er holdið stífara, ekki frosið, sem gerir flökun og roðrif mun auðveldara sem kemur í veg fyrir flakagalla. Heilli flök í vinnslunni bæta nýtingu í dýrari afurðir.

Ferskar afurðir og markaðsyfirburðir

Ferskar afurðir skila mestri verðmætasköpun í dag, og gefur Íslendingum tækifæri til að ná yfirburðrum á markaði. Norðmenn eiga ekki sömu möguleika og við til að vinna fersk flök þar sem flutningaleiðir á markað eru ekki fyrir hendi. Kaupandinn vill einmitt ferskan fisk og með nýjum aðferðum við blóðgun og kælingu í gegnum virðiskeðjuna, geta Íslendingar enn aukið á markaðsyfirburði sína í ferskum fiski. Ný tækni við flökun og niðurskurð gefa síðan enn frekar tækifæri til að bæta verðmætasköpun. Sem dæmi eru afköst í vinnslu á laxaflökum yfir 200 kg/manntíma en í þorski aðeins um 40 kg/manntíma. Það eru mikil sóknarfæri í Íslenskum sjávarútveg.


Sigur Þjóðernissinna í Evrópu

Ég verð stundum hissa þegar talað er um þjóðernissinna sem "hægri öfgamenn" og velti því fyrir mér hvað átt sé við með "hægri". Í riti sínu "Leiðin til ánauðar" útskýrir Hayek skilmerkilega hvað þjóðernissinnar standa fyrir og það á ekkert skylt við það sem ég stend fyrir í pólitík. Þjóðernissinnar, eins og kommúnistar, standa fyrir skipulagningu atvinnulífsins með áætlanabúskap þar sem stjórnmálamenn taka ákvarðanir. Svipta einstaklingin því valdi sem þeir hafa í þjóðfélagi einkareksturs og flytja það vald yfir á hið opinbera!

Í stjórnmálum trúi ég fyrst og fremst á réttarríkið, borgaraleg réttindi, einkaframtak og markaðsbúskap. Engin markaðsbúskapur getur virkað nema með samkeppni. Þess vegna t.d. einkavæðum við ekki lögreglu en erfitt er að sjá hvernig ætti að reka slíkt í samkeppnisumhverfi. Ekkert af því sem ég stend fyrir hugnast þjóðernissinnum og því á ég ekkert skylt með þeim!

Umræðan hér á landi er að mörgu leiti óhugarleg þegar kemur að því sem maður hefði talið vera kjarninn í stefnu sjálfstæðismanna; einstaklingsfrelsi, markaðsbúskapur með samkeppni og stétt með stétt. Maður hittir fólk sem hefur alla tíð stutt Sjálfstæðisflokkinn en hefur tapað allri trú á einkaframtakið og telur betra að skipulag atvinnulífsins sé á höndum hins opinbera. Það er þá ekki við góðu að búast þar sem ekki er hægt að ætlast til að krafa um markaðshagkerfi komi frá vinstri mönnum?

Mín afstaða í Evrópumálum snýst ekki um að koma okkur í ESB. Hún snýst um að bæta lífskjör landsmanna og snúa af þeirri braut að Ísland festist í sessi sem láglaunaland. Staðreyndin er sú að við myndum búa við sömu lífskjör og Grikkir ef við legðum sömu vinnu af mörkum og þeir (MacKinsey skýrslan). Til að bæta lífskjör þarf að fara í ýmsar kerfis breytingar, ásamt því að taka upp gjallmiðil sem hægt er að treysta. Núverandi stjórnvöld stefna í allt aðra átt, eins og sést á heimskulegum aðgerðum í skuldaniðurfellingu heimilanna. Þar verður farið út í hefðbundnar íslenskar aðgerðir og peningarnir sem notaðir verða í verkefnið verða prentaðir. Með seðlaprentunarvaldið hjá óábyrgum stjórnvöldum verður ekki snúið af leið láglauna stefnu á Íslandi og ekki möguleiki á að bæta framleiðni og þar af leiðandi lífskjör.

Ef hægt væri að tryggja stöðugt hagkerfi, auka framaleiðni og tryggja eignir með stöðugum gjaldmiðli án þess að ganga í ESB þá er það í góðu lagi. En það stendur upp á flokkinn að útskýra hvernig hann ætlar að fara að því. Ekkert í efahagstefnunni bendir til að snúa eigi af hefðbundnum leiðum og þeirri rússíbanareið sem íslenskt hagkerfi hefur búið við.

 Sigur þjóðernissinna hljóta að vera mikill sigur fyrir þau öfl í Sjálfstæðisflokknum sem vilja útiloka samræðu um hvernig við tryggjum best markaðshagkerfi og samkeppnisumhverfi til að auka framleiðni og lífskjör. Eins og þeir tala þá fellur málflutningur þessara afla nokkuð vel að stefnu þeirra flokka sem sigruðu í kosningum til Evrópuþingsins á dögunum. En sú stefna mun ekki leiða til hagsældar fyrir mig og mína fjölskyldu og því styð ég hana ekki. Við Íslendingar þurfum önnur og betri ráð til að tryggja hagsæld framtíðarinnar.


Grein í Fiskifréttum 15. maí 2014

Markaður eða ráðstjórn

Verðmætasköpun

Íslendingar verða að gera upp við sig hvort þeir vilja reka sjávarútveg sinn á markaðslegum forsendum eða með ráðstjórn þar sem stjórnmálamenn ákveða hver veiðir hvað, hvernig og hvar. Markaðurinn er ekki fullkominn en hann er forsenda fyrir verðmætasköpun í sjávarútvegi til að standa undir lífskjörum þjóðarinnar. Grundvöllur verðmætasköpunar er framleiðni þar sem við hámörkum framleiðslu með lágmarks fyrirhöfn.

Samkvæmt skýrslu McKinsey erum við töluverðir eftirbátar þeirra þjóða sem við viljum bera okkur saman við þegar kemur að framleiðni og verðmætasköpun. Við höfum hinsvegar haldið uppi lífskjörum með lengri vinnudegi. Án yfirvinnu værum við á pari við Grikkland hvað varðar lífskjör. McKinsey telur að sóknarfæri Íslendinga til að bæta lífskjör til framtíðar liggi í aukinni framleiðni; og til að skilja betur grundvöll hugtaksins er rétt að benda á það sem mestu máli skiptir er að með framleiðni vinnuafls hámörkum við framleiðslu með lágmarks vinnuframlagi og framleiðni fjármagns snýst um að hámarka nýtingu fjármagns.

Alþjóðlegur samanburður

Í skýrslunni kemur hinsvegar fram að sjávarútvegur sker sig úr í íslensku atvinnulífi hvað varðar framleiðni og verðmætasköpun. Ef við miðum okkur við aðrar fiskveiðiþjóðir þá erum við með umtalsvert meiri verðmætasköpun en norðmenn. Á meðan við skilum 57% nýtingu á sjávarafla eru Norðmenn með 41% og verðmæti á veitt kíló hjá okkur er 380 kr. en 280 hjá Norðmönnum. Í töflunum hér að neðan má sjá samanburð á framleiðni- vinnuafls og fjármuna hjá þessum tveimur þjóðum.

Framleiðni vinnuafls

Framleiðni fjármagnsÞrátt fyrir að Norðmenn hafi fjárfest mikið í skipum, á meðan slíkt hefur verið botnfrosið hjá okkur,  eru þeir langt að baki okkur hvað þetta varðar. Hjá Færeyingum er framleiðni bæði veiða og vinnslu á botnfiski neikvæð og hefur verið um nokkurn tíma, þ.e.a.s. að meira er lagt í veiðar og vinnslu heldur en þær skila.

Veiðigjöld

Með núverandi hugmyndum um veiðigjöld munu Íslendingar ekki halda þessari stöðu sinni. Íslenski flotinn, ef smábátaútgerðinni er haldið utan sviga, er sá elsti frá upphafi. Aldur togara er kominn yfir40 ár og flest stærri línuskip orðin gömul og úrelt. Vinnsluskip flotans eru flest komin yfir tvítugt og orðin úrelt og úr sér gengin. Ekki er möguleiki á að halda uppi framleiðni með úreltum skipum. Lítið hefur verið fjárfest í botnfiskvinnslum á Íslandi sem mun fyrr en síðar koma niður á samkeppnishæfni Íslendinga gagnvart keppinautum.

Óvissa er óvinur

Óvissa í stjórnun fiskveiða og óhófleg veiðigjöld koma í veg fjárfestingu í sjávarútveg, sem er forsenda þróunar. Stjórnmálamenn vilja nota sjávarútveg til að leysa byggða „vanda" og fjárþörf ríkissjóðs, en það verður alltaf á kostnað verðmætasköpunar í greininni. Óvissa er óvinur sjávarútvegs númer eitt og nýlegt dæmi sýnir að fjárfestar hika við fjárfestingar í öflugu sjávarútvegsfyrirtæki. Það þarf að breyta viðhorfum til þessarar atvinnugreinar og tryggja henni alþjóðlega samkeppnishæfni og örugga framtíð.

 


Erindi á fundi Gangnamannafélags Austurdals á aðalfundi 7. mars

Á aðalfundiEftir gönguferð Hallgríms Bláskógs um Austurdal 2010, í skála sleðamanna að Laugafelli, byrjaði smalaævintýri okkar Einars Kristins. Undir sterkum áhrifum frá dalnum, fegurð hans og áhrifamætti, sem ágerðist þegar leið á kvöldið þar sem við drukkum í okkur minningar undanfarinna daga, króuðum við Gísla Rúnar af til að koma okkur í smölun að hausti, enda höfðu margar sögur flogið frá honum á leið Hallgríms fram dalinn.

Í ágúst að áliðnum slætti vorum við teknir inn til prufu, og sagt að mæta í smölun í september. Sjálf smalaferðin hófst í verslun Bjarna Har, frænda Einars, þar sem við þáðum hádegisverð undir fréttum  gömlu góðu gufunnar, sem var svona nostalgía fyrir mig. Ég gerði mér þá hræðilegu skömm til að stinga upp á við matarborðið að við Einar færum saman í Kaupfélagið að kaupa skrínukost. Bjarna Har líkaði það ekki vel!

Ég hafði aldrei hitt Stefán Hrólfsson áður og leið eins og ég væri að hitta Clint Eastwood, miðað við sögur og lýsingu á manni dalsins. Hafði reyndar séð bíómynd með kappanum en viðkynnin við hann ollu engum vonbrigðum Stebbi stóðst allar væntingar. þrátt fyrir mikla eftirvæntingu.

Við komum að Keldulandi, akandi, og hugmyndin var að skilja bílinn eftir við Ábæ enda töldum við reiðtúr alla leið fullmikið fyrir viðvaningana að vestan, the city slickers. Okkur var boðið í eldhús þar sem miklir mannkostir voru fyrir. Ásamt gestgjafa voru þarna mættir Siggi Hansen, Guðmundur sonur hans, Þórólfur, Bjarni, Gísli Rúnar, Gísli Frosta, Magnús á Íbishóli og Sigurður frá Réttarholti. Nú var rjúkandi kaffi hellt í fanta og ég spurður hvort ég vildi fá Kristalskvettu út í! Græninginn ég vissi ekki hvað á mig stóð veðrið og spurði hvort þeir ættu ekki mjólk? Eftir hrossahlátur var Kristalnum skvett í kaffið og eftir nokkrar áfyllingar kom ekki til greina hjá okkur Vestfirðingum að aka spönn lengra. Kjarkurinn og manndómurinn hafði aukist mikið við Kristalinn og vildum við ólmir ríða úr hlaði og töldum ekki eftir okkur að skondrast á hestum í Hildarsel það kvöldið.

Reglulega var stoppað til að tala kjark í okkur Einar og þenja raddböndin, segja sögur og njóta samvista í Dalnum. Þótt við Vestfirðingar kæmumst ekki með tærnar þar sem Skagfirðingarnir höfðu hælana í söng og kveðskap, reyndum við að bæta úr með sögum að vestan, reyndum að gefa samræðunum nýjan blæ og gerðum samferðarmenn okkar forvitna um athafnir og uppátæki sveitunga okkar sem við kunnum af sögur.  Kannski það hafi verið mynni Austurdalsins sem tók svona vel á móti okkur, umvafði og örvaði okkur til sagna þar sem við létum gamminn geysa í glensi og gríni, ölvaðir af fegurð og veðurblíðu andartaksins. Hér höfðum við töglin og hagldirnar og vellíðan streymdi um hverja taug við notalegar hreyfingar hestsins.

Í Ábæ logaði vestrið í dalsmynni þegar húmaði að. Við stóðum bergnumdir við gömlu réttina í Ábæ og horfðum á þessi undur náttúrunnar og hvernig kvöldroðinn töfraði sjónarspil sem tók ímyndaraflinu fram.  Veðrið skartaði sínu fegursta og byrjað að frysta við heiðskýruna. En okkur var ekki til setunnar boðið og áfram skyldi haldið að Hildarseli þar sem okkar biði skjól og ylur í þessari smalamennsku. Það var orðið aldimm þegar við sprettum af hestunum og komum við þeim fyrir í gerðinu áður en gengið var í bæ að Hildarseli.  Þar nutum við þess að láta þreytu dagsins úr okkur líða og meðan einhver dugur var í mannskapnum var lífsandinn vökvaður og sagðar enn fleiri sögur og vísur kyrjaðar og nokkur lög sungin.  En hætta skal leik þegar hæst stendur að lokum sigrar þreytan og svefninn tekur yfir. Ég klöngraðist upp á loft og sofnaði undir angurværum söng smalafélaganna.

ÞyrlunefndÞeir kalla okkur Einar Vestfirðingana og við hljótum að hafa staðist kröfur þeirra um manndóm og karlmennsku. Að kvöldi fyrsta smaladag vorum við teknir í Gangnamannafélag Austurdals með pompi og prakt. En haldi menn að Austurdalurinn hafi tjaldað öllu sem til var í fegurð og rómantík fram að þessu, skjöplast þeim heldur betur.  Komið var frost í heiðskýrunni og stjörnur blikuðu á lofti.  Allt í einu teygði máninn sig upp yfir fjallsbrúnina í vestri.  Ekki veit ég hvort það var eitthvað sem hann sá eða heyrði en allavega fór hann bara hálfa leið og dró sig síðan til baka og hvarf.  Hann taldi sig ekki standast samkeppnina! En Karlsvagninn benti okkur á Pólstjörnuna í norðri og uppljómaður Júpíter heilsaði gildum limum Gangnamannafélags Austurdals. Ekkert gæti stöðvað okkur Einar héðan af svo lengi sem við drögum lífsandann og vökvum lífsblómið. Smalahelgi í september og fyrsti föstudagur í mars yrði héðan af frátekin, sama hvað. Ég veit ekki betur en í dag föstudaginn 7.mars 2014 hafi alþjóðafundur þingforseta verið frestað um viku, enda mikilvægar mál á dagskrá. Mál sem hafa forgang.

 

 

 


Ómöguleiki ákvarðana ríkisstjórnar

Ómöguleiki ákvarðana ríkisstjórnarinnar er enn að taka á sig nýja mynd, og alltaf sökkva þeir dýpra í vandræðaganginum. Nú var Sigumundur Davíð staðin að ósannsögli ásamt utanríkisráðherra um að ESB hafi þrýst á ákvörðun í umsóknarferli Íslands. Enn eru sjálfstæðimenn sporgöngumenn Framsóknar þar sem formaður utanríkisnefndar Þingsins, tekur upp hanskann fyrir þeim félögum. Reyndar hefur hann þá fyrir því að forsvarsmenn ESB hafi sagt þetta við þá félaga, en hann virðist trúa þeim blint og ver þá með öllum ráðum. Í raun er Birgir Ármannsson að gera vandræði Sjálfstæðisflokksins ennþá dýpri.

Það sem liggur fyrir núna er að Sjálfstæðisflokkurinn er búinn að svíkja klárt kosningaloforð og um það verður ekki deilt. Menn spyrja sig hinsvegar hvers vegna í ósköpunum þessi vegferð var farin? Það þarf ekki mikla stjórnvisku til að sjá að láta málið eiga sig var eini kosturinn fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Engin ástæða var til að kljúfa hann í herðar niður í átökum um mál sem engin þörf var á í stöðunni. En þingflokkur og ráðherrar flokksins höfðu val milli sátta eða illinda; og tóku seinni kostinn með tilheyrandi átökum. Maður segir bara „Jóhanna hvað"?

Þetta snýst ekki um hvort við viljum ganga í ESB eða ekki. Þetta snýst um gildismat og heilindi.  Það er rangt að svíkja loforð og rangt að skrökva. Svo bíta menn höfuðið af skömminni með öllu því bulli sem borið er á borð fyrir landsmenn. Að þeir hafi neyðst til að taka þessa ákvörðun vegna kröfu frá ESB, gegn loforði um annað, og þrátt fyrir að stjórnarsáttmálinn segi allt annað. Að engu máli skipti að slíta viðræðum þar sem alltaf sé hægt að hefja þær aftur! Það þarf samþykki 28 þjóðþinga til að byrja ferilinn upp á nýtt! Að í skýrslan gefi tilefni til þessara viðbragða. Það er ekki boðlegt að bera svona á borð fyrir okkur.

Tíminn mun leiða í ljós hversvegna í ósköpunum forystumenn sjálfstæðismanna völdu þessa leið, á tímum þegar samheldni og styrkur Sjálfstæðisflokksins skiptir öllu máli fyrir velferð þjóðarinnar. Erfiðar ákvarðanir eru framundan, í efnahagsmálum, peningamálum, ásamt átökum á vinnumarkaði. Sterkur heill Sjálfstæðisflokkur skiptir öllu máli til að takast á við þau vandamál. Þau átök sem sett hafa verið á stað eru bara til að skemmta skrattanum og dregur úr möguleikum þjóðarinnar til að ná vopnum sínum og bæta lífskjör í landinu!


Fullveldi

Nú þegar rykið nær aðeins að setjast í ESB umræðunni veltir maður fyrir sér hvað hafi vakað fyrir þingmönnum Sjálfstæðisflokksins að hefja þetta feigðarflan? Sáu þeir þetta ekki fyrir eða eru þeir svo forhertir í andstöðu sinn við ESB, sama hvað, að það hafi blindað þeim sýn. Hvað veldur og hvers vegna gera menn svona hluti?

Það er alveg ljóst að umræða um landbúnað kom þessu af stað. Eins og hjá hinum harða kjarna gegn ESB viðræðum, taka stuðningsmenn landbúnaðar aldrei efnislega og rökræna umræðu. Þeir ráðast á persónur gagnrýnanda kerfisins og krefjast þess að þeir verði reknir úr starfi. Þórólfur Mattíasson hefur birt vel rökstuddar og fræðilegar greinar um landbúnaðarkerfið og Rúv hefur fjallað ítarlega um mál sem upp hafa komið undanfarði sem fletta ofanaf fáránleika landbúnaðarkerfisins og hvernig það gengur þvert gegn hagsmunum almennings. Það kemur engum á óvart að Framsókn styðji þetta kerfi en sjálfstæðismenn hafa varið þessa sérhagsmuni í gegnum tíðina, þó það gangi þvert gegn stefnu flokksins. En landbúnaðarumræðan er einmitt nátengt driffjöður andstæðinga sjálfstæðismanna gegn ESB, sem er þjóðernishyggjan.

En hvað er þjóðernishyggja? Snýst innganga í ESB um sjálfstæði þjóðarinnar? Er Svíþjóð frjálst ríki eða hjáleiga frá Brussels? Erum við Íslendinga einstakir og betur komnir einir og sér? Svona svolítið eins og Bjartur karlinn í Sumarhúsum.

Það er reyndar eðli mannsins að vera sjálfselskur og hugsa einungis um sjálfan sig fram í rauðan dauðann (Thomas Hobbes 1588-1679), að hver maður sé eyland og einhlýtur sjálfum sér. En hegða þjóðríki sér eins og einstaklingar? Reyna þjóðríki að hámarka hagnað sinn og hagsmuni? Eru til einhver dæmi um alþjóðleg samskipti þar sem þjóðríki hegða sér af „góðmennsku" en fylgja ekki utanríkisstefnu sem hámarka hagsmuni ríkisins?

Og hvað er fullveldi? Er Svíþjóð fullvalda? Hugtakið er nátengt hugmynd um sjálfstæði og frelsi ásamt fyrirbærinu þjóð. Fullveldi er gildishlaðið hugtak sem mikið er notað í umræðunni, og oftar en ekki misnotað. Hugtakið er Íslendingum sérstaklega hugleikið enda stutt síðan við töldumst fullvalda þjóð. En hvert er svarið við spurningunni hér að ofan? Hvaðan kemur þetta fullveldi og hvað felst í því? Hver er handhafi þess og hver ráðstafar því? Hafa stjórnvöld leyfi til að gera samninga þar sem þjóðin undirgengst yfirþjóðlegt vald? Við höfum í gegnum tíðina gert marga slíka samninga; innganga í Sameinuðu þjóðirnar, NATO, Evrópudómstólinn, EFTA, EES ásamt mörgum örðum aljóðasamningum. Höfum við fórnað fullveldi með þessum alþjóðasamningum? Meðal þjóðanna eru ríki sem skera sig úr hvað þetta varðar og hafa ekki gert slíka samninga, t.d. Norður Kórea. Búa Norður Kóreubúar þá við meira fullveldi en Íslendingar? Er það fullveldi gott fyrir þjóðina?

Þessa skilgreiningu á fullveldi lærði ég í skóla; „Fullveldið kemur frá þegnunum. Það eru þeir sem hafa réttinn til að ráða sér sjálfir og hafa fullt vald yfir málum sínum. Það er þeirra náttúruréttur sem ekki verður af þeim tekið" Getur verið að þegnar Norður Kóreu búi við þessa skilgreiningu þó þeir hafi á engan hátt undirgengist yfirþjóðlegt vald?

Það er einmitt fullveldi einstaklingana með réttindum þegnana sem skiptir máli ásamt fullveldi þjóða til að tryggja það. Nútíma samfélög hafa einmitt farið þá leið að tryggja lýðræði og borgarleg réttindi, með samningum þjóða á milli til að tryggja réttindi og lífskjör þegnana. Evrópuþjóðir fóru endalaust með hernað hvor á aðra og fórnaði heilu kynslóðunum á altari átaka um persónulega hagsmuni landsfeðrana. Á því byggir evrópustefnan og stofnun ESB að koma í veg fyrir að það endurtaki sig. Að viðskiptalegir hagsmunir verði það miklir að þjóðir Evrópu sjá sér ekki hag í hernaði hver gegn annarri.

Í lögfræði er fullveldishugtak þjóða skilgreint þannig:

1.      Þjóðin hefur yfir landi að ráða

2.      Hún lýtur eigin stjórn

3.      Er viðurkennd af öðrum ríkjum og getur því tekið þátt í samfélagi fullvalda ríkja

Skyldi Sviðjóð standa undir þessum skilgreiningum?

 Fullveldisumræðan er ekki einföld og hún er venjulega tilfinningaþrungin. Erfitt er að draga mörk í stjórnarskrá um hversu langt má ganga. Margir halda því fram að EES samningurinn sér brot á stjórnarskrá! Það sé lengra gengið í alþjóðasamstarfi en leyfilegt sé og sjálfsagt spurning um fleiri samninga þar sem þjóðin undirgengst yfirþjóðlegt vald.

Í þessari umræðu allri kemur upp sagan af því þegar Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson landlæknir gengu fyrstir manna á Heklu. Þeir höfðu fengið bónda til að fylgja sér sem leiðsögumann. Á þessum tíma trúðu menn að útilegumann, tröll og forynjur og ernir með stálklær byggju á hálendinu. Bóndinn var skelfingu lostinn og þegar þeir komu í um 200 metra hæð lagðist hann niður með magakveisu og komst ekki lengra. Þeir félagar héldu förinni áfram og komust á toppinn og heilir á höldnu til baka og fundu bónda stálsleginn á bakaleiðinni.

Sagan lýsir fáfræði og heimsku Íslendinga á þessum tíma. Sama viðhorfið gagnvart Evrópu er nú uppi og menn sjá fyrir sér illmenni og kerfiskalla í Brussels sem vilja okkur allt illt. Stela af okkur fiskimiðunum og guð má vita hvað. Við viljum fá að hafa okkar Sumarhús í friði, sjálfstæð, og skiptir þá ekki máli þó við verðum svolítið fátæk.

 


Ræða Bjarna

Þetta eru erfiðir tímar fyrir margan sjálfstæðismanninn og því miður var ræða formanns áðan lítil huggun fyrir frjálslynda arminn í flokknum. Mér leið eins og talað væri niður til mín af Bjarna og það er ekki gæfulegt til að þjappa fólki saman. Kannski er það markmiðið að hrekja óværuna úr flokknum og hann sé betur komin án þessa frjálslynda fólks sem trúir á samstarf við vestræn ríki. En hræddur er ég um að lítil endurnýjun verði í slíkum flokki þar sem ungt fólk gengur ekki upp í sérhagsmunagæslu og þjóðerniskennd. Ungt fólk sem vill fá tækifæri í framtíðinni mun ekki trúa á óbreytta efnahagsstefnu á Íslandi enda hræða sporin í þeim efnum undanfarna áratugi.

Bjarni talar líka niður til okkar sem höfum viljað ræða Evrópumálin, en komið að tómum kofanaum í Sjálfstæðisflokknum. Engin rökræn umræða hefur átt sér stað innan flokksins, en hún hefur einskorðast við upphrópanir og stóryrði, þar sem fólk er sorterað í svartan og hvítan kassa, góða og vonda og andstæðingar úthrópaðir og kallaðir sósíalistar.

Sjálfur er ég ekki einharður Evrópusinni en vil skoða hvort innganga geti bætt lífskjör þjóðarinnar. Ég geri mér fulla grein fyrir að erfið mál þarf að semja um og engar varanlegar undanþágur eru í boði frá megin reglum sambandsins. Ég kannast ekki við þessa umræðu um undanþágur sem Bjarni talar um og mér finnst hann gera lítið úr mér og þeim sem vilja skoða þessi mál.

Hinsvegar stendur upp á hann núna að útskýra hvernig hann ætlar að bæta efnahagsumhverfi Íslendinga, og hvernig hall ætlar að gera hlutina allt öðruvísi en við höfum gert í fortíðinni. Fyrir utan síðustu tvo daga hefur hann lítið rætt stóru málin, gjaldeyrishöft, verðbólgu og ónýta peningamálastefnu þjóðarinnar. Sem kostar okkur vel á annað hundrað  miljarða (MILJARÐA) króna á ári. Ef hann hefði sagst ætla að taka upp vinnubrögð Svía, sem hafa náð undraverðum árangri í sinni efnahagstefnu undanfarna áratugi, með aðhaldi í ríkisfjármálum og stöðugleika sænsku krónunnar, þá myndi ég hlusta! Svíar vita ekki hvað fjáraukalög eru og gera ráð fyrir að staðið sé við fjárlög. Á Íslandi standa stjórnarþingmenn í stórræðum að styðja stofnanir sem ítrekað eru með frammúrkeyrslu á fjárlögum og leggja allt undir að standa með þeim í slíku.

Bjarni talar um hallalaust fjárlög! Fjárlög hækkuðu um 25 milljarða í meðförum þingsins og því var reddað með auknum sköttum. Reyndar á banka og slitastjórnir, en það er ekki sjálfbært. Það vantar ógnar mikið upp á að Bjarni blási trú á efnahagslega framtíð landsins og stefnumótun hans sé skýr. Sjálfur ber ég ekkert traust til samstarfsflokksins og það sem hann stendur fyrir. Sá flokkur stendur fyrir hagsmunagæslu á kostnað almennings og er ekki trúverðugur í að bæta lífskjör þjóðarinnar.

Upp úr stendur að Bjarni lofaði þjóðaratkvæðagreiðslu, undir sömu forsendum og ríkja í dag, og hann kemst ekki undan því með því að tala niður til Evrópusinna. Stjórnarsáttmálinn segir að beðið skuli úttektar á stöðunni (skýrsla Hagfræðistofnunar), málið rætt ýtarlega á Alþingi og síðan eigi sér stað umræða í samfélaginu. Hefur verið staðið við það?


ESB og landbúnaðurinn

Ég vil benda á frábæra grein eftir Þórólf Mattíasson í Fréttablaðinu í dag. Þar bendir hann á að fyrirhugaður stórfeldur útflutningur á skyri verður kostaður af almenning, beint eða óbeint. Þetta hlýtur núverandi stjórnarflokkum að hugnast, verja þannig sérhagsmuni á kostnað almennings.

Þetta er eitt af því sem útskýrir lága framleiðin á Íslandi, hún er á pari við Grikkland, þar sem ekki er hugað að verðmætasköpun við atvinnuuppbyggingu. Ekki er hægt að koma auga á neina áætlun stjórnvalda um að breyta hér um og bæta þannig lífskjör með verðmætasköpun og bættri framleiðni.

Við búum síðan við það sjálfstæðismenn í N-vestur kjördæmi að annar maður á lista er einn helsti varðhundur úrelts landbúnaðarkerfis og heyrist aldrei í honum nema því til stuðnings. Ekki skrýtið að hann hafi greitt atkvæði í þingflokkunum um að loka á samningaferli við ESB!

Vilhjálmur Bjarnason sagði í fréttum í gær að hann myndi standa keikur í lappirnar við að verja lífskjör þjóðarinnar. Þess vegna greiðir hann atkvæði gegn þeirri aðför sem meirihluti sjálfstæðismanna gerði fyrir helgina. Aðeins tveir þingmenn flokksins virðast bera hag almennings fyrir brjósti, en hinir virðast vilja gæta sérhagsmuna. Þjónka sérhagsmunum á kostnað almennings. Það er ekki pólitík sem gengur upp til lengdar.


Grein í Fiskifréttum 20. feb 2014

Fjárfesting í frystitogurum

Deilur um fiskveiðimál

Íslenskur sjávarútvegur er dínamískur og aðlagar sig hratt að breyttum aðstæðum. Engin spurning er  að fiskveiðistjórnunarkerfið ræður þar mestu og aðgreinir Íslendinga frá öðrum keppinautum. Velgengi íslenskrar útgerðar hefur hinsvegar valdið  pólitískum deilum meðal þjóðarinnar þar sem sjávarútvegsumræðan yfirgnæfir öll önnur mál. Reyndar deilir engin lengur um kvótakerfið en umræðan snýst nú um veiðigjöld og engu líkara en útgerðin sé óþrjótandi brunnur fjármagns sem ríkið geti tekið til sín og m.a. fjármagnað „skapandi" greinar. Það gleymist að einhverstaðar liggur lína þar sem gengið er á hagsmuni allra með of mikilli gjaldtöku og vegið að heilbrigðum rekstri sem standast þarf alþjóðlega samkeppni.

Hnignun frystitogara

Frystitogarar hafa skilað miklum verðmætum fyrir íslenskt þjóðarbú og gert það mögulegt að nýta fiskistofna á fjarlægum miðum, t.d. í Barentshafi og djúpt út af Reykjaneshrygg. Með hækkandi olíuverði og í samkeppni við landvinnslu hefur  þeim fækkað úr 35 þegar þeir voru flestir, í 16 togara í dag. Launakerfi á frystitogurum hefur jafnframt mikil áhrif en þau eru um 43,95% sem hlutfall af aflaverðmæti og þannig  í grunninn gert að það kemur í veg fyrir alla fjárfestingu í búnaði, skipum eða þróun framleiðslu. Í þessu samhengi er rétt að nefna að launakjör á rússneskum frystitogara er um 20%, en þeir hafa stórbætt framleiðslu sína og bjóða nú sambærileg gæði íslenskir togarar. Ofan á þetta þurfa íslenskir frystitogarar að greiða veiðigjald til ríkisins og aðra skatta sem gerir þá ósamkeppnishæfari og  grefur undan tilveru þeirra.

Allt þetta veldur því að þróun vinnsluskipa er lítil sem engin og þau komin til ára sinna, eru úrelt með litla möguleika á að þróa búnað eða framleiðslu til að bæta samkeppnishæfni og skila meiri verðmætum. Það kostar um 6 miljarða að byggja nýjan frystitogara sem gæfi meiri möguleika á fullvinnslu afla, en mikið af verðmætum er fleygt í sjóinn í dag. En hvað þarf til að fjárfesting í frystitogurum og þróun sem því fylgir geti átt sér stað?

Skattheimta ríkisins

Vergur hagnaður, EBITDA, er stærð sem oft er notuð til að sýna fram á rekstarhæfni, sem er hagnaður áður en tekið er tilliti til vaxta, skatta (+ veiðigjald), afskrifta og arðgreiðslna. Til að standa undir afskriftum og endurnýjun ásamt eðlilegum arðgreiðslum til eiganda, þarf vel rekin útgerð um 38% af EBITDA. Hér er ekki tekið tillit til þess að útgerð er mjög áhættusöm atvinnugrein og rétt að bæta við 6% áhættuálagi og gera ráð fyrir að hlutur útgerðar verði því 44%. Nauðsynlegt er að reikna með viðhaldi eignar og að hún rýrni ekki á rekstrartíma ásamt því að tryggja fjárfestum eðlilega ávöxtun á eigið fé. Ef gert er ráð fyrir endurnýjun á skipi þarf að gera ráð fyrir a.m.k. 27% af EBITDA fari til lánadrottna , þá yrði hlutur ríkisins 29%. Í þeim hugmyndum sem fyrrverandi ríkisstjórn lagði til var gert ráð fyrir að veiðigjaldið færi í 70% en þá fengi útgerðin um 3% í sinn hlut.

Fjárfesting í frystiskipum

Enginn myndi fjárfesta við þessar aðstæður í frystiskipi og enginn banki  lána til útgerðar. Ekki væri hægt að standa undir viðhaldi búnaðar, hvað þá þróun hans eða afurða. Í raun fengi ríkið ekkert í sinn hlut þar sem engin útgerð myndi starfa við slíka skattlagningu. Sjávarútvegur er skapandi grein og ekkert tilefni til að færa fjármuni þaðan í aðrar „skapandi" greinar. Við eigum að gera þá kröfu til stjórnmálamanna að þeir hugsi um þjóðarhag þegar ákvarðanir eru teknar sem varða afkomu þjóðarinnar en sjávarútvegur er undirstaða lífskjara í landinu.

Gunnar Þórðarson viðskiptafræðingur


Svik við sjálfstæðismenn

Tómleiki er rétta orðið til að lýsa líðan mans þessa dagana. Sú skrýtna staða er kominn upp að undirritaður sem var harður stuðningsmaður formanns Sjálfstæðisflokksins, Bjarna Benediktssonar, þegar hann átti undir högg að sækja, ómaklega, í Vafningsmálinu. Í dag hefur stuðningur breyst í harða andstöðu og fullt vantraust á formanninum. Ég ber ekki traust til ríkisstjórnarinnar né meirihluta þingmanna flokksins sem hafa tekið jafn afdrifaríka ákvörðun og raunin er í Evrópumálum, með því að hætta við aðildarferlið við ESB. Þrátt fyrir gefið loforð, og samþykkt á Landsfundi, um að undan slíkri ákvörðun væri þjóðin spurð í þjóðaatkvæðagreiðslu. Ég þannig snúist úr stuðningsmanni í andstæðing Sjálfstæðisflokksins í landsmálum. Þetta er sérstaklega erfitt þar sem framundan eru sveitarstjórnarkosningar þar sem boðið verður fram undir merkjum flokksins.

Það eina sem hægt er að gera er að fjarlægja sig eins mikið og hægt er að gera frá þingmönnum flokksins og vona að þeir dagi okkur ekki niður í kosningum framundan.

Þingmenn flokksins virðast ætla að ganga veg hagsmunagæslu af gamla skólanum fyrir fá útvalda, og hirða ekki um möguleika á að bæta lífskjör hjá almenning.

Manni rennur kalt vant milli skinns og hörunds þegar horft er til aðfarar að seðlabankastjóra.  Nú vilja menn fara gömlu leiðina þar sem fyrrverandi stjórnmálamenn verða settir til að stjórna „sjálfstæðum" Seðlabanka.

Þetta er dapur dagur fyrir Íslendinga og mun ekki bæta ímynd okkar erlendis, sem var ekki burðug fyrir. Erlendar fréttastofur segja frá því að ríkisstjórnin losi sig við seðlabankastjóra sem ekki lætur nógu vel að stjórn. Í raun eins og framsóknarmenn hafa hagað sér undanfarið áttum við að slíta stjórnarsamstarfinu við þá. Ef ekki hefði tekist að mynda ríkisstjórn að fara í kosningar. Þá hefði Framsókn tapa óverðugu fylgi frá síðustu kosningum, sem gengu út á lýðskrum aldarinnar. Skuldaniðurfelling er ekkert annað en töfrabrögð sem þjóðin sjálf þarf að borga fyrir. Í þeirri leið er engin lausn fólgin.  


Fiskveiðar og ESB

Þegar andstæðingar ESB komast í rökþrot er gripið til sávarútvegs og við séum að gefa frá okkur fiskveiðiauðlindina. Talað er um að engar undanþágur frá meginreglum ESB séu í spilunum, og það er alveg rétt. Við munum þurfa að heimila erlenda fjárfestingu í sjávarútveg, það er ekki umsemjanlegt! En er það svo slæmt? Skiptir það máli hvort Óðinn selji 50% í Ísalandssögu til breskrar verslunarkeðju? Bretar keyptu í upphafi hluti í norsku laxeldi til að tryggja sér frábæra vöru, en engin ein vara hefur átt jafn mikla velgengi í smásölu í Bretlandi undanfarna áratugi. Alltaf fersk, alltaf til og „náttúrleg" afurð. Svona eins og Íslandssaga býður upp á nema enn betra. Bretar hafa reyndar ekki flutt norska laxeldið til Bretlands!

Það er mikið talað um sameiginlega fiskveiðistefnu ESB en ekkert mælir gegn því að við höldum okkar kvótakerfi, Fiskistofa sér um eftirlit með sömu reglum og við höfum í dag og afli verður ákveðin eftir ráðgjöf íslenskra vísindamanna.

  • Þetta er sameiginlega fiskveiðistefna ESB

-       að tryggja sjálfbærar veiðar, sem í raun felur í sér að miða þær við Maximum Sustainable Yield

-       Sá grunnur muni skila hámarks framleiðni í greininni og þar með hámarka tekjur þeirra sem byggja lífsafkomu sína á veiðum, tryggja réttláta skiptingu fiskveiðiarðsins ásamt því að gæta hagsmuna íbúa strandsvæða og neytanda

Auðvitað virka þetta ekki svona í ESB, en það gerir það á Íslandi. En þetta eru möguleikar okkar í samningum:

  • Hafa verður í huga að fiskveiðiauðlind er berskjölduð gegn rányrkju útlendinga
  • ESB mun ekki breyta stofnsamþykktum sínum fyrir Íslendinga
  • Fiskveiðistefna ESB byggir á meginstoðum sambandsins, fjórfrelsinu
  • Geta Íslendingar náð ásættanlegum samningum við ESB?
  • Ráðherraráðið ítrekað tekið fram fyrir hendurnar á Framkvæmdastjórninni í fiskveiðimálum
  • Staðbundnir stofnar vs. flökkustofnar
  • Íslandsmið skilgreind sem sérstakt veiðisvæði með sérstöku svæðaráði

Og hvað er í pokanaum?

  • Svæðisráðin eru skipuð fulltrúum frá hagsmunaaðilum í sjávarútvegi að tveimur þriðju, en að einum þriðja fulltrúum frá öðrum aðilum sem eiga hagsmuna að gæta varðandi sameiginlegu sjávarútvegsstefnuna
  • Íslendingar myndu fá allan kvóta við landið
  • Íslendingar gætu haldið í kvótakerfið, eða breytt því
  • Fiskveiðieftirlit yrði í höndum Íslendinga
  • Gætu Íslendingar bannað löndun erlendis nema hafnir uppfyllti kröfur Fiskistofu?
  • Reyna að koma í veg fyrir kvótahopp og fiskveiðiarðurinn renni til þjóðarinnar
  • En hvað um flökkustofna?

Það sem við verðum að hafa í huga að fiskveiðilögsögur ESB ríkja liggja saman og því mjög erfitt að stjórna veiði á staðbundnum stofnum. Við myndum vilja fá 5 fiskveiðisvæðið þar sem ákvarðanir væru teknar af okkar vísindamönnum, veiðireglur, um aflamagn. Þetta er umsemjanlegt og þarf ekki varanlegar undanþágur. Raunar er fjórfrelsið það sem við einmitt þurfum til að bæta lífsgæði okkar. ESB stendur fyrir markaðsbúskap og samkeppni, eitthvað sem við eru alls ekki að stunda! Í samhengi bendi ég á umræðu um verðbólgu og hvernig þrýst er á fyrirtæki og stofnanir að hækka ekki verð. Það er semsagt ekki samkeppnisumhverfi á Íslandi og frekar kerfi eins og var við lýði í fyrrum ráðstjórnarríkjum!

En svo eru það hvalveiðar sem ESB mun aldrei samþykkja. Við eigum að láta þá borga vel fyrir það enda engin vísindi sem mæla gegn veiðunum. Reikna framtíðarvirði hvalveiða, það er risaupphæð og dugar vel til að greiða allar erlendar skuldir Íslands, og láta þá borga okkur fyrir að hætta. Þetta er allt á tilfinninganótum hjá blessuðum mönnunum hvort eða er!

Andstæðingar ESB reka sitt mál á tilfinningum og mjög erfitt að fá hlutlægar skynsamar umræður. Hvað er þjóðernisumræða? Við tökum það fyrir í næsta pistli.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 46
  • Frá upphafi: 283918

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 40
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband