Kafli 12 - Sögulok í London

Royal OperaVið komum okkur fyrir á farfuglaheimili í London, í stíl við efnahagslega stöðu okkar um þessar mundir.  Staðurinn var rekinn á sumrin í kaþólskum skóla þannig að Írarnir voru eins og heima hjá sér.  Það voru þrír dagar í flugið heim en Nonni Gríms var ákveðinn í að verða eftir.  Hann  ætlaði að fá vinnu við gangnagerð fyrir náðarjarðarlestakerfi Löndunarborgar.

Við fórum fjögur, Íslendingarnir, saman á enska krá í hádeginu og sátum þar á spjalli.  Allt í einu vindur snaggaralegur náungi sér að okkur og spyr hvort við séum íslensk, á ylhýra móðurmálinu.  Hann sagðist hafa heyrt óminn af tali okkar og sagt við sjálfan sig.  ,,Þetta fólk er annaðhvort Arabar eða Íslendingar" 

Hann kynnti sig sem Svein Laufdal, óperusöngvara við Royal Opera of London í Covent Garden.  Eftir að hafa skolað niður bjór og spjallað bauð hann okkur í heimsókn á vinnustaðinn.  Við tókum neðanjarðarlestina og svei mér þá ef hinn heimsfrægi nýi vinur okkar svindlaði ekki á fargjaldinu með því að vippa sér yfir miðakassann. 

Á leiðinni lét hann móðan mása um heimsfrægð sína og ríkidæmi.  Hann var svo ríkur að hann myndi örugglega syngja ókeypis á styrktartónleikum á Íslandi.  Glæsilegur til fara og stakk verulega í stúf við okkur hin, sem voru eins og ræflar í slitnum gallabuxum og háskólabolum.  Þegar við komum í óperuhöllina virtust allir þekkja hann, allavega þeir starfsmenn sem voru við vinnu svona um eftirmiðdaginn.  Hann var alveg himinlifandi yfir að hafa rekist á okkur og stoltur að sýna okkur vinnustaðinn sinn þar sem hann var vanur að leika hlutverk ástsjúkra aðalsmanna í óperum fyrir fullu húsi á hverju kvöldi.  Drottningin kom oft að hlusta á hann og gott ef hann þekkti hana bara ekki persónulega.  Honum leist svo vel á okkur að hann bauð okkur heim í mat, enda átti hann einmitt frí þetta kvöld.  Vinkona hans, tengdamamma rússneska sendiherrans í London, myndi sjá um eldamennskuna.

Russian AristocratHeima hjá honum beið okkar rússnesk hefðarmær, máluð og tilhöfð, tilbúin í að skenkja okkur vodka.  Það var rífandi fjör um kvöldið, sungin rússnesk lög og drukkinn meiri vodki.  Ekki man ég eftir að kvöldverður hafi verið framreiddur en Sveinn heimtaði að við gistum hjá sér um nóttina.  Honum líkaði sérstaklega vel við Nonna og sagði oftar en ekki, þið eruð svo skemmtileg, en sérstaklega þú Nonni minn.  Ég var orðin helvíti öfndsjúkur út í  Jón og skildi ekkert í þessum vinsældum hans fram yfir okkur hin.  Nonni var verulega upp með sér vegna athyglinnar og naut þeirra sérréttinda sem aðdáun húsráðanda bauð upp á.  Þegar kom að því að fara að sofa krafist Sveinn þess að Nonni svæfi næst honum.  Það fóru að renna tvær grímum á kappann og allt í einu var staða hans sýnu verri en en sýndist í fyrstu.  Það endaði með því að Stína svaf næst óperusöngvaranum, enda virtist henni lítil hætta búin í návist hans.

Um morguninn vildi Sveinn bæta fyrir kvöldverðinn sem ekkert varð úr og bað okkur að hitta sig í óperunni klukkan fimm.  Hann ætlaði að bjóða okkur á flottasta veitingastaðinn í London.  Við mættum tímalega í óperuna þar sem söngarinn beið okkar og hann vildi strax drífa sig af stað í fjörið.  Við bentum honum á að við gætum ekki farið á fágaðan veitingastað svona til fara, en hann svaraði um hæl að það væri ekki vandamál.  Hann myndi redda okkur fötum enda ætti hann nóg af þeim heima.

Hilton hotelVið vorum aftur mætt í íbúðina hans þar sem fataskáparnir voru bókstaflega troð- fullir af flottum rússneskum fötum.  Hann var að vísu lægri  í loftinu en við enda stóðu fötin okkur á beini.  Við Jón vorum í leðurstígvélum sem náðu upp í hné, utanyfir silkibuxur.  Jakkarnir voru klæðskerasaumaðir úr silki og við vorum eins og klipptir út úr gömlu rússnesku ævintýri.  Hjalti var þreknari en við og varð því að taka föt sem höfðu teygjanleika, og náði því ekki  sömu glæsimennsku og við Nonni, sem vorum hreinlega orðnir aðalsmenn við umbreytinguna.  En hvað átti að gera við Stínu? 

Það var ákveðið að koma við í kaþólska skólanum og sækja síðan arabakjól sem hún geymdi þar neðst í bakpokanum sínum.  Þetta myndi allt falla vel saman og augljóst að hér væri á ferð mikilvægt fólk úr austurheimi.

Sveinn pantaði leigubíl og við komum við á farfuglaheimilinu til að sækja kjólinn fyrir Stínu.  Við héldum síðan á Hilton hótelið þar sem við Sveinn átti pantað á dýrasta veitingahúsi borgarinnar á 21. hæð.  Stína í gömlum stigaskóm við kjólinn sem stakk heldur betur í stúf við allan glæsileikann.  Við ákváðum að hún færi úr þeim og hentum þeim í næsta rusladall.  Þegar við komum út úr lyftunni á efstu hæðinni gerði vörður við veitingastaðinn athugasemd við að hún væri berfætt.  Við brostum í kampinn yfir fáfræði starfsmannsins og bentum honum á að kúltúrinn leyfði ekki skófatnað við þennan kjól.  Maðurinn roðnaði og baðst afsökunar og leiddi okkur að borði á besta stað á veitingahúsinu. 

Sveinn sagði okkur að hótelstjórinn væri persónulegur vinur sinn og sérstaklega yrði haft til fyrir okkur við þennan kvöldverð.  Hann reyndist tala reiprennandi ítölsku, en þjónarnir voru allir Ítalir.  Hver krásin eftir aðra barst nú á borðið með dýrustu vínum sem fáanleg eru norðan Alpafjalla.  Við hipparnir sem höfðu undanfarðið hálft ár lifað eins og ræflar fengum nú að kynnast betri hlið lífsins, og við nánast trúðum því að við væru orðin heldra fólk.  Yfirstétt, heimsborgarar og gátum notið allra lystisemda lífsins.  Þessi nýi vinur okkar var magnaður þó Nonni vildi helst ekki sitja við hliðina á honum við borðhaldið.

Eftir matinn pöntuðum við dýrasta koníakið og Havana vindla.  Við Nonni báðum þjóninn að fara með okkur út á svalir og sýna okkur útsýnið yfir borgina.  Ljósin tifuðu í kvöldkyrrðinni í Lundúnaborg og koníakið yljaði okkur meðan við hlustuðum á þjóninn benda á áhugaverðustu staði borgarinnar.  Dýr vindlareykurinn liðaðist út á milli vara okkar milli koníakssopana og okkur leið vel.  Okkur líkaði þetta nýja hlutverk og vonuðumst til að augnablikið entist sem lengst.

En eftir sumar kemur haust en nú skall á hríðarbylur.  Það var komið að því að borga reikninginn og óperusöngvarinn átti ekki eitt pund upp í hann.  Hann sagði okkur að hafa ekki áhyggjur enda hótelstjórinn góður vinur sinn og þetta yrði bara skrifað þar til seinna.  Leikurinn endaði þannig að lögreglan  mætti á svæðið tók félaga okkar með valdi.  Lögreglumaður spurði okkur hvort við gætum greitt reikninginn en við sögðumst vera fátækir flækingar sem hefðu verið véluð í þessa vitleysu.  ,,Ef þið greiðið ekki fyrir manninn fer hann í fangelsi" sagði lögreglumaðurinn við okkur.  Eina svarið sem hann fékk var sakleysislegur svipur okkar og fullkomin uppgjöf gagnvart vandamálinu.  Sveinn fór því í steininn en við fórum í rússnesku fötunum í kaþólska skólann.

Það var heldur betur upplit á félögum okkar Írunum þegar þeir mættu okkur í morgunmat í allri múnderingunni.  Þegar við sögðum þeim sögu okkar síðustu tvo daga hristu þeir hausinn í vantrú.  Nonni tók þá upp gaffal sem hann hafði hnuplað á veitingastaðnum, úr ekta silfri merktur Hilton.  Þeir voru grænir af öfund Írarnir.

Sögulok samskipta okkar við Svein voru þau að við leituðum hann uppi til að skipta um föt.  Hann bar sig vel og sagði að þetta hefði allt verið misskilningur og hótelstjórinn hefði beðið sig margfaldrar afsökunar vegna þessa óheppilega atviks.  Síðan dró hann Stínu afsíðis og gaf henni nafn og símanúmer hjá móður sinni á Íslandi og bað hana að koma til hennar skilaboðum.  Skilaboðin voru þau að kaupa fyrir sig flugmiða heim til Íslands eins fljótt og auðið væri.  Hann var orðin þreyttur á heimsfrægðinni og gjálífinu í London.  Tími kominn til að halda heim. 

Skilaboðin komust á réttan stað og síðar fréttum við af viniinum á Íslandi.  Hann gerði það gott, ekki bara við söng, heldur í tískuheiminum.  En við Stína og Daddi héldum heim á leið til Íslands ásamt Írunum, eftir langt og strangt ferðalag í hálft ár. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.12.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 8
  • Frá upphafi: 285680

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband