4.8.2010 | 10:37
Gengið á Fimmvörðuháls
Gengið á eldfjallaslóðir á Fimmvörðuhálsi.
Það jafnast ekkert á við að ferðast um Ísland í góðu veðri. Það getur því borgað sig að fresta sumarfríinu um tæpan hálfan mánuð og láta dýpstu sumarlægð frá upphafi mælinga þjóta hjá í byrjun júlí og hefja för um miðjan mánuðinn í staðin. En þá var veðurspáin einmitt eins góð og hún getur orðið á Íslandi.
Við komumst seint af stað og því var ferðinni heitið yfir Þorskafjarðarheiði og áð í Bjarkalundi yfir nóttina. Göngutjaldið tekið upp enda tjaldað til einnar nætur í 18° hita og sól. Síðan var lagt snemma af stað til Reykjavíkur til að bæta á búnað og vistir fyrir tveggja vikna ferð um óbyggðir Íslands.
Það var ákveðið að byrja í Þórsmörk en umhverfið virtist framandi þegar komið var í Landeyjar og framundan blöstu við kolsvartir jöklar Eyjafjallajökuls, Tindafjalla og Mýrdalsjökuls. Við komum aðeins við á Hvolsvelli þar sem við hittum fyrir gamlan Ísfirðing sem lýsti fyrir okkur afleiðingum og hörmungum af eldgosi vetrarins með með gjósku og svifryki sem tróð sér inn í híbýli og fylltu vit og byrgðu sýn. Skepnur og menn voru úrvinda eftir eldgosið í Eyjafjallajökli og í fyrsta sinn báðu íbúar suðurlands fyrir rigningu til að binda ryk og hefta uppblástur. Okkur var sagt að sterk og hlý norðanáttin gæti átt það til að þyrla upp gjósku í Þórsmörkinni og því gætum við fengið smjörþefinn af því sem sunnlendingar máttu þola þennan eldfjallavetur.
Þegar við nálguðumst mynni Markarinnar var skyggnið orðið takmarkað og rétt grillti í Tindafjallajökul í gegnum gjóskuskýið þar sem hann trónir yfir Þórsmörkinni. Okkur leist ekkert á blikuna og bölvuðum því að hafa ekki öndunargrímur meðferðis. Það virtist ekki árennilegt að halda á inn í þennan óskapnað án þess að hafa réttan búnað meðferðis. Við slógum á þráðinn upp í Bása þar sem landvörður varð til svara og ólíkt sterkri norðanáttinni í Austur Landeyjum blakti ekki hár á höfði upp í mörkinni sjálfri. Þar væri brakandi sól og bíða og menn og málleysingjar lausir við gjósku og ryk.
Stefnan var því tekin yfir markafljót og síðan upp með Stóra Dímon en Eyjafjallajökull reis myrkur og ljótur upp á hægri hönd. Við tókum afleggjarann upp að Gígjökli til að sjá ummerki eldgossins og þar var hrikalegt um að litast. Ummerkin eftir hlaupin voru greinleg og sjálfur jökullinn ekki svipur hjá sjón og lónið horfið. Mér var hugsað aðeins þrjú ár aftur í tíman þegar ég lagði á Eyjafjallajökul við þriðja mann, reyndar nokkuð vestan við Gígjökul, og gengum á skíðum á Goðastein. Jökullinn hafði umhverfst síðan og ásamt því að vera kolsvartur af gjóskulagi, hafði heljarkrumla jarðeldana umbreytt öllu landslagi. Skriðjökulinn er aðeins brot af fyrri stærð, sundurtættur af ógnar jökulhlaupum og farvegur hans virðis vera mörgum númerum of stór. Þar sem áður blasti við blátt lónið og tignarlegur hvítur Gígjökull, blasti við eyðimörk eins og dómsdagur væri upp runnin.
En áfram var haldið upp í Bása, sem þrátt fyrir eyðandi öflin í næsta nágrenni, bauð okkur velkomin, iðagrænt í blíðviðrinu. Við tjölduðum stóra tjaldinu enda áætlað að vera tvær nætur i Þórsmörk.
Ferðinni var heitið upp á Fimmvörðuháls til að skoða ummerki fyrra eldgossins frá því í vetur. Við lögðum af stað snemma um morguninn og stefnum upp Kattahryggi. Það er ekki allt sem sýnist í Þórsmörk þessa dagana. Þrátt fyrir gróðurinn er hann ekki svipur hjá sjón. Gjóskan liggur yfir öllu og eins og hárfínn askan hafi slípað allan glansa af gróðrinum og birkið er allt matt og litlaust. Vonandi verður þetta ástand aðeins tímabundið en askan er víst góður áburður þegar til lengri tíma er litið.
Það var ekki komið hádegi þegar við klifum upp á Útgönguhöfða og við tók löng ganga á sléttlendi upp að Heljarkambi. Á leiðinn er útsýnið stórkostlegt þó auðvitað spilli svartri jöklarnir fyrir. Rýna þurfti á Tindafjöll til að koma auga á jöklana sem runnu saman við landslagið. En Rjúpnafellið var iðagrænt og rifjaðist upp fyrri ferð í Þórsmörk þar sem þetta bratta fjall var klifið. Hattfellið er áberandi kennileiti þar sem það rís yfir Hvannadal. Eftir Heljarkamb, sem er bæði brattur og langur, tekur við útsýni yfir jökla Mýrdalsjökuls, Goðalandsjökul, Tungnakvíslarjökul og Krossárjökul. Goðalandið allt er eins og tekið út úr einhverri ævintýrabók og ekki draga ummerki eldgossins úr þeim hughrifum.
Fimmvörðuháls er í u.þ.b. 1000 metra hæð og því um 750 metra hækkun að ræða frá Básum, sem liggur nálægt 250 metra yfir sjávarmáli. Fljótlega eftir Heljakamb er komið að nýja hrauninu og hefur verið stikuð leið yfir það suður yfir hálsinn, fram hjá gígum eldfjallsins. Hraunið er víða sjóðandi heitt viðkomu og rýkur úr þar sem einhver væta er til staðar. Við komum að fólki sem var að rista sér brauð á hrauninu og seinna að hópi sem var að grilla pylsur. Leiðin er þó örugg enda stikuð af staðkunnum og mikilvægt að fylgja þeirri leið. Ég prófaði að stinga göngustafnum niður í gegnu þunna skelina og var hitinn slíkur að plast bullan kom bráðin upp. Það er stórkostleg sjón að sjá þar sem hraunbreiðan hefur stöðvast við jökulinn og þar mætast ís og eldur orðsins fyllstu merkingu.
Við gengum sem leið liggur hálfhring kringum nýja gíginn, sem skartar sýnu fegursta þegar komið er sunnan megin við hann, með ótrúlegu litrófi þar sem rauður gulur og grár litur spinnur sitt listaverk í nýjasta hluta landsins. Í vestri mátti sjá gríðarlegan gufumökk rísa upp frá eldstöðvunum í Eyjafjallajökli þar sem heitt hraunið bræðir ísinn og breytir honum síðan í gufu. Við nutum þessa útsýnis á meðan við snæddum miðdegisverð í sól og blíðu en hrukku upp við drunur í þyrlu sem lenti síðan skotspöl frá okkur. Þyrlan var hulin gjóskuskýi í um hálfa mínútu áður en flugmaðurinn drap á hreyflinum. Ferðamenn stigu út til að skoða ummerki eldgossins og höfðu heldur minna fyrir því en fjallgöngumenn sem lagt höfðu á sig fjögurra tíma göngu frá Básum.
Það er gaman að ganga sömu leið til baka og eins og gengið sé um allt annað svæði. Þar sem við höfðum áður snúið baki við var nú framundan og göngunnar því notið vel, ekki síst þar sem nú hallar undan fæti sem gleður fjallamann sem er byrjaður að finna til þreytu af göngu sinni. Það er alltaf jafn gaman að koma niður úr lífvana Goðalandi niður í grósku Þórsmarkar, þó hún skarti ekki sínu fegursta þessa dagana. Katthryggir eru skemmtilegir og glaður göngumaður hlakkar til endurkomu í Bása þar sem hressing og heit sturta bíða hans og er honum hugfast á lokapretti göngunnar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:38 | Facebook
Um bloggið
Gunnar Þórðarson
Tenglar
Hallgrímur bláskór 2012
- Gengiðr úr Hornvík í Kjaransvík
- Kjaransvík - Sæból
- GEngið á Ryt og Darra
- Gengið á Straumnesfjall
- Gengið á brúnir Grænuhlíðar
Smölun í Austurdal
- Austurdalur -2010 Dagur 1 Smölun í hinum ægifargra Austurdal suður af Skagafirði
- Austurdalur - 2010 Dagur 2 Annar dagur smalamensku í Austurdal í Skagafirði
- Austurdalur -2010 Dagur 3 Lokadagur smölunar fyrir Austudalsfélagið í Skagafirði
- Föstudagur 2011 Smalaferð Göngumannafélags Austurdals í september 2011
- Laugardagur í Austurdal 2011 Smalaferð Göngumannafélags Austurdals í september 2011
- Sunnurdagur í Austurdal - 2011 Smalaferð Göngumannafélags Austurdals í september 2011
- Mánudagur 2011 Smalaferð Göngumannafélags Austurdals í september 2011
Skútukaupin 1976
Við félagarir, undirritarðu, Jón Grímsson og Hjalti Þrórðarson keyptum skútu í Bretlandi og sigldum henni heim til Íslands
- Kafli 1 - Skútukaupin undirbúin
- Kafli 2 - England
- Kafli 3 - lagt í siglinguna miklu
- Kafli 4 - Captain Thordarson
- Kafli 5 - Siglt í norður
- Kafli 6 - Færeyjar - Ísland
- Kafli 7 - Siglt til Ísafjarðar
Ísrael 1974
Sagt frá ævintýri okkar Stínu, Nonna Gríms og Hjalta Bróður þegar við ókum yfir Evrópu 1974. Fórum frá Aþenu til ísrael og unnum þar á samyrkjubúi.
- Kafli 1 - Mótorhjólagengið
- Kafli 2 - Júgóslavía, Grikkland og Ísrael
- Kafli 3 - Á kibbutz undir Gólanhæðum
- Kafli 4 - Í kjölfar árásarinnar
- Kafli 6 - Maðurinn með ljáinn
- Kafli 5 - Endurfundir
- Kafli 7 - Frá rauðu ljósi í Milanó
- Kafli 8 - Fjölskyldu og varnarmál
- Kafli 9 - Vinna í Elat
- Kafli 10 - Daglegt líf á Shamir
- Kafli 11 - Til Grikklands
- Kafli 12 - Sögulok í London
Að Fjallabaki 2012
Suður um höfin 1979
Frá ferðalagi okkar Stínu á seglskútunni Bonny frá Ísafirði til Mallorca í Miðjarðarhafi
Sigling frá Mallorka til Grikklands
- Kafli 1 - lagt af stað til Ítalíu Fimm félagar sigldu Bonny frá Spánar til Grikklands
- Kafli 2 - Sikiley og Grikkland
- Kafli 3 - Kea og Paros
- Kafli 4 - Santorini
Safaríferð í Úganda
- Ferð til Murchison Falls - fyrri hluti Safaríferð inn í frumskóg Úganda
- Ferð til Murchison Falls - seinni hluti
Hálendisferð 2010
- Gengið á Fimmvörðuháls Eldstöðvar Fimmvörðuháls skoðaðar
- Skaftafell og Kristínartindar Gengið á Kristínartinda
- Gengið á Mælifell Ekið Fjallabak syðra norður fyrir Mýrdalsjökul
- Friðland að Fjallabaki Gengið um við Landmannalaugar
- Gengið á Löðmund Gengið á Löðmund við Dómadal
- Gengið á Snæfell Gengið á hæsta fjall Íslands utan jökla, Snæfell
- Gengið í Geldingarfell Ferð um Lónsörævi með frábærum hópi, sumarið 2010
- Gengið í Egilssel Gengið úr Geldingafelli í Egilssel við Lónsöræfi
- Gengið niður Lónsöræfi Þriggja daga göngu norðan og austan Vatnajökuls lokið
Sri Lanka 2007
- Sri Lanka 2006-2008 Starfað á Sri Lanka
Bloggvinir
- astromix
- ekg
- stefanbjarnason
- golli
- vikari
- gunnarpetur
- vestfirdir
- gudni-is
- ea
- ladyelin
- gp
- altice
- hjolaferd
- kaffi
- komediuleikhusid
- rabelai
- ziggi
- huldumenn
- helgi-sigmunds
- sigrunzanz
- hordurhalldorsson
- baldher
- hjaltisig
- lotta
- kjarri
- bjarnimax
- jovinsson
- smjattpatti
- eirmor
- vefritid
- saemi7
- siggisig
- maggij
- lehamzdr
- contact
- gauisig
- jonvalurjensson
- thjodarskutan
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 32
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 26
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.