Tilurð kvótakerfis á Íslandi (Fiskifréttir Apríl 2016)

Jarðvegur kerfisins

Upphaf kvótakerfis við stjórn fiskveiða á Íslandsmiðum má rekja til umræðunnar við útkomu hinnar svokölluðu ,,svörtu skýrslu" Hafrannsóknarstofnunar árið 1975. Þar sagði að útlit væri fyrir verulegan viðkomubrest ef ekki yrði gripið til nauðsynlegra ráðstafana. Í framhaldi var ,,skrapdagakerfinu" komið á árið 1977. Þar mátti hlutfall þorsks hjá togurum ekki fara upp fyrir ákveðið hlutfall af afla tiltekna daga á ári.

Að öðru leyti voru veiðar frjálsar og þrátt fyrir tillögu Hafró um 275 þúsund tonn þetta ár var veiðin 340 þúsund tonn. Sóknarþungi jókst stórum og náði þorskveiðin hámarki árið 1981 þegar veidd voru tæp 470 þúsund tonn. Þrátt fyrir þessa miklu veiði fór afkoma útgerðar stöðugt versandi. Á annað hundrað skuttogarar bættust við flotann á þessu tímabili sem hluti af stefnu stjórnvalda í atvinnu- og byggðamálum.

Upphafið

Augljóst var að frjáls aðgangur að auðlindinni skilaði ekki þeim markmiðum sem stjórnvöld settu sér við nýtingu hennar. Þannig benti Jakob Jakobsson fiskifræðingur t.d. á gríðarlega sóun við síldveiðar árið 1979, þar sem 170 skip veiddu 35 þúsund tonna ársafla. Tíundi hluti þess flota hefði staðið undir veiðunum.

Austfirðingar hreyfðu fyrst við hugmyndum um kvótakerfi á Fiskiþingi árið 1978. Þeim var illa tekið af útvegsmönnum, sérstaklega Vestfirðingum, sem töldu frjálsar veiðar sér í hag vegna nálægðar við fiskimiðin. Austfirðingar reyndu á ný árið eftir en allt fór á sama veg. Á Fiskiþingi 1981 mátti hins vegar greina vaxandi áhuga á kvótasetningu á þorski. Umræðan var orðin upplýstari og menn gerðu sér grein fyrir að stjórnlaus veiði á endurnýjanlegri auðlind ógnaði jafnt fiskistofnum sem afkomu útgerðarinnar.

Kvótakerfi verður að lögum

Fram að þessum tíma hafði svokölluð millifærsluleið verið farin í stjórnun sjávarútvegs. Flókið sjóðakerfi var notað sem tæki til að taka fjármuni af heildinni og færa öðrum. Heildarfjármunir voru teknir frá þjóðinni með launalækkun í gegnum gengisfellingar. En til að gera langa sögu stutta fór svo að mælt var fyrir frumvarpi um kvóta í desember 1983 og það varð að lögum árið 1984.

Kvótakerfið var samþykkt til eins árs í senn þar til 1988 þegar það var fest í sessi. Til að milda m.a.Vestfirðinga var jafnframt gefin kostur á sóknarkerfi, sem þó gekk sér til húðar enda ýtti það undir sóknarþunga og dró úr hagkvæmni og sérstaklega aflagæðum. Veiðarnar gengu út á að veiða sem mest á sem stystum tíma ýtti undir menningu sem kallaði magn umfram gæði.

Fljótlega kom í ljós að án framsalsréttar á aflaheimildum væri takmarkaður ávinningur af kvótakerfinu. Framsal var lögfest 1988. Ljóst var að nauðsynlegt var að fækka skipum og draga úr sóknarþunga til að auka arðsemi veiða og án framsalsheimilda væri það borin von.

Stjórnmálaflokkar voru klofnir í afstöðu sinni til málsins en margir álitsgjafar voru atkvæðamiklir í umræðunni. Í henni kristölluðust meginstraumar í hugmyndum um kvótakerfi; hvort ríkið ætti að útdeila fiskveiðiheimildum eða hvort nýtingarréttur yrði færður til útgerðarinnar og hún látin bera ábyrgð á eigin afkomu. Sú leið sem farin var - að nota reiknireglur til að skipta aflaheimildum niður á skip - var því í anda einkaframtaks í stað ríkisafskipta.

Lítil sátt um kvótakerfi í upphafi

Það er nokkuð ljóst að kvótanum var þröngvað upp á útvegsmenn á sínum tíma þar sem frjáls veiði án afskipta ríkisins hugnaðist þeim betur. Sú aðferð að færa nýtingarréttinn til útgerða, byggðan á aflareynslu, getur varla talist vafasöm aðgerð. Í ljósi fjárhagsstöðu útgerðarinnar á þessum tíma var ekki var borð fyrir báru til að greiða háar upphæðir fyrir aflaheimildir til ríkisins. Einnig verður að líta til þess að aflakvóti var einskis virði á þessum tíma enda tapið botnlaust hjá útgerðinni og kvótasetningin því forsenda arðsemi.

Skoðun

Það sem ritað er hér að framan er ekki skoðun höfundar heldur söguleg upprifjun og um hana þarf ekki að deila. Það er hinsvegar skoðun hans að byggt á staðreyndum eru margar mýtur í umræðunni sem ekki standast.

  • Gjafakvótinn var aldrei til þar sem aflaheimildir voru verðlausar á sínum tíma. Veiðigjöld eru hinsvegar rétt leið til að sækja umframhagnað, ef hann er fyrir hendi.
  • Það var hárrétt ákvörðun að færa útgerðinni veiðiréttinn og láta þá síðan bera ábyrgð á eigin rekstri. Þjóðin var uppgefin á sífeldum gengisfellingum og óðaverðbólgu til að bjarga útgerðinni.
  • Þessi ákvörðun var einmitt tekin til að koma atvinnugreininni inn í samkeppnisrekstur í anda markaðshagfræði og er undirstaða velgegni greinarinnar í dag.
  • Ekki er með nokkru móti hægt að sjá fyrir sér að ríkisafskiptaleiðin hefði skilað árangri. Ríkið hefði áfram borið ábyrgð á afkomunni og útilokað að stjórnmálamenn hefðu getað minkað flotann og dregið úr sóknarþunga, sem var grundvöllur viðsnúnings í rekstri greinarinnar.
  • Engin leið var að stýra því ferli án þess að það kostaði breytingar á landslagi í íslenskum sjávarútveg!

Gunnar Þórðarson, viðskiptafræðingur

 


Virðiskeðja Fiskframleiðslu


Staðsetning í virðiskeðju
Eitt það mikilvægasta í heimsviðskiptum er að staðsetja sig í virðiskeðjunni. Kínverjar hafa fundið fyrir því, að þrátt fyrir efnahagslega velgengni sem er einsstök í sögunni, hafa þeir að sumu leyti náð ákveðnum endamörkum í hagvexti og lífskjarasókn. Kína hefur verið framleiðsluhagkerfi heimsins með mikinn fjölda starfsmanna og skilað ótrúlegum afköstum og góðri framleiðni. Þar hefur átt sér stað einir mestu lýðfræðilegu flutningar sögunnar, þar sem fátækir sveitamenn hafa bætt hag sinn með flutningi í borgir til að vinna í verksmiðjum. Undanfarið hafa vinnulaun hækkað um 10% á ári en því hefur verið mætt með aukinni tæknivæðingu og þar með framleiðni.
En takmörk þeirra eru bundin við staðsetningu í virðiskeðjunni þar sem þeir sjá nánast eingöngu um framleiðsluþáttinn, en hönnun og sala eru meira og minna í höndum erlendra aðila. Það eru einmitt hönnun og sala ásamt fjárfestingu í vörumerkjum sem skila mestum verðmætum. Reikna má með að framleiðsla á t.d. farsíma kosti um 10—15% af smásöluverði og vinnulaunin eru e.t.v. um 10% af því. Ekki þarf flókna stærðfræði til að sjá hversu stór hlutur verðmætasköpunar á sér stað utan Kína.
Íslenskur fiskur
Útflutningur á ferskum flakastykkjum hefur skilað miklum verðmætum fyrir Íslendinga undanfarin ár. Þannig hafa framleiðendur staðsett sig á markaði og boðið upp á vöru sem t.d. Kínverjar geta ekki afhent, en þeir hafa verið mjög fyrirferðamiklir á markaði með frosinn fisk. Gera má ráð fyrir að innlend framlegð sé um 50% af smásöluverði í Evrópu; hráefni, vinnsla og flutningur, en erlendis leggst til dreifing og smásala. Í rauninni hafa Íslendingar staðið sig frábærlega á þessum mörkuðum og mikil sóknarfæri eru enn með vöruþróun og bættum gæðum. Með aukinni tækni, nýjum aðferðum og bættri þekkingu getur íslenskur sjávarútvegur sótt frekar fram á þessum markaði og aukið enn frekar verðmætasköpun greinarinnar, þjóðinni til heilla.
Hvar liggja sóknarfærin
Bylting á sér stað í niðurskurði á flökum með nýrri íslenskri tækni. Tölvubúnaður stýrir vatnskurði sem getur hlutað flakið niður í fyrirfram ákveðnar stærðir og lögun sem hentar markaðinum. Þrátt fyrir að þrengt hafi að á breskum markaði hafa aðrir opnast t.d. í Frakklandi og nú síðast í Bandaríkjunum. Í Bretlandi hefur bakslag orðið vegna samkeppni frá norskum fiski, sem fluttur er inn frosinn/hausaður, þíddur upp og flakaður og seldur sem kæld vara (chilled product). Neytandinn gerir sér þá hugmynd út frá nafninu að um ferskan fisk sé að ræða, en markaðurinn tekur ferskan fram yfir frosinn.
Með bættri þekkingu og framleiðslustýringu hefur opnast möguleiki á að flytja ferskan fisk út með skipagámum í stað flugs. Slíkt sparar á annað hundrað krónur á kílóið í kostnað sem er töluverð upphæð miðað við umfangið, en um 33 þúsund tonn voru flutt út árið 2014, og var um tæplega helmingur þess fluttur með skipagámum.
Flugið mun þó áfram skipta miklu máli þar sem styttri flutningstími eykur líftíma vöru, og eins opnar það fjarlæga markaði. Með endurnýjun flugflota Icelandair munu möguleikar á Ameríkumarkaði aukast mikið og hugsanlega verður hægt að bjóða upp á ferskan íslenskan fisk í Asíu í framtíðinni.
Með auknu laxeldi munu möguleikar íslendinga með þétt flutningskerfi skipa og flugvéla bjóða upp á mikil sóknarfæri. Með nýrri tækni ofurkælingar verður hægt að bjóða upp á mikil gæði á ferskum laxi á mörkuðum í framtíðinni, og opna fyrir möguleika á Amaríkumarkað. Opnist möguleiki á flugi til Asíu mun ofurkæling bjóða upp á einstakt tækifæri þar sem ekki þarf að flytja ís með laxinum, sem sparar bæði mikla fjármuni og lækkar sótspor flutninga umtalsvert.
Markaðstarf og vörumerki
Tækifæri framíðar mun ekki síst ráðast af markaðstarfi íslensks sjávarútvegs, þar sem byggt verður upp vörumerki fyrir ferskan íslenskan fisk. Markaðstarf snýst ekki um að hringja í heildsala til að selja þeim fisk, heldur að koma þeim upplýsingum á framfæri við almenning að íslenskur fiskur sé einstakur og auki virði neytanda, þó svo hann sé dýrari en samkeppnisvaran.
Þar komum við einmitt að staðsetningu í virðiskeðju þar sem við verðum ekki bara framleiðendur á fiski; heldur þróum við nýjungar, framleiðum einstaka vöru og seljum undir vörumerki. Það er kominn tími til að Íslenskur sjávarútvegur verði spennandi starfsvettvangur fyrir ungt velmenntað hugmyndaríkt fólk. Allt of mikil áhersla hefur verið auðlindaumræðu í Íslenskum sjávarútveg og tímabært að sinna markaðsmálum betur. Mikil tækifæri felast í því fyrir íslenska þjóð.


Slegist við vindmillur

Umræða með ólíkindum
Umræðan um veiðigjöld er oftar en ekki með ólíkindum. Andstæðingar atvinnugreinarinnar hafa ítrekað haldið því fram í þjóðfélagsumræðunni að ekki sé hægt að halda úti velferðakerfi vegna þess að núverandi ríkisstjórn hafi svo gott sem fellt niður veiðigjöldin (þau eru nú um 10 milljarðar á ári), enda borgi útgerðin engan veginn sanngjarnt gjald fyrir afnotin. Formenn Vinstri Grænna og Samfylkingarinnar tilheyra þessum hópi og ekki annað að skilja en þau muni vilja halda áfram vegferð síðustu ríkistjórnar í sjávarútvegsmálum. En hvað eru sanngjörn veiðigjöld og hvernig á að finna þau út? Þeir sem hæst tala um gjafakvóta og hækkun veiðigjalda hafa aldrei útskýrt hvernig atvinnugreinin á að lifa þær villtu hugmyndir sem síðasta ríkisstjórn lagði til! Ákvörðun veiðigjalda er alvarlegt mál og nauðsynlegt að skoða afleiðingar þeirra á alla sem málið varða, þjóðarbúið, sjávarbyggðir, stafsfólk og atvinnugreinina. Ábyrgðalausar upphrópanir til að ná eyrum væntanlegra kjósenda eru í besta falli lýðskrum.
Góð framleiðni sjávarútvegs
Góð afkoma sjávarútvegsfyrirtækja gefur ekki tilefni til að hækka veiðigjöld. Verðmætasköpun og framleiðni í greininni er ein af forsendum lífskjara þjóðarinnar og hefur áhrif á kaupmátt í samfélaginu. Íslenskur sjávarútvegur er sú grein á Íslandi sem skilar bestri framleiðni og framundan gætu verið miklir framfaratímar, með sterkum fiskistofnum og nýrri tækni og þekkingu, til að sækja enn frekar fram á því sviði. Ef aðrar atvinnugreinar, og hið opinbera, gætu fylgt í fótspor sjávarútvegs væri lítið mál að auka almennan kaupmátt í samfélaginu.
Rekstraraðilar útgerða búa við mikla óvissu þegar kemur að veiðum og verðmætasköpun, og eru háð veðurfari og ástandi veiðistofna. Til viðbótar kemur pólitísk óvissa en þar hefur álagning veiðigjalda vegið einna þyngst. Rétt er að taka því fram að útgerðin greiðir skatta og aðrar skyldur til viðbótar við veiðigjöld.
Feigðarflan vinstri manna
Ef veiðigjöld hefðu orðið eins og fyrri ríkistjórn lagði upp með, stæði útgerð á Íslandi ekki undir sér. Hugmyndin var að ríkið tæki til sín 69,5% af vergum hagnaði, en reyndar hefði sjávarútvegur ekki þurft að greiða tekjuskatt þar sem veiðigjöld tækju af allan hagnað. Við þær aðstæður myndi enginn fjárfesta í greininni þar sem fyrirfram væri ljóst að hlutfé myndi hverfa í taprekstri og enginn banki myndi lána til sjávarútvegs. Eru stjórnmálamenn tilbúnir að ganga svo langt til að sækja jaðarfylgi í pólitík?
Annað sem bent hefur verið á sem afleiðing veiðigjalda er samþjöppun í útgerð þar sem smærri og veikari fyrirtæki gefast upp og þau stærri, sem ráða yfir stórum hluta virðiskeðjunnar, taka þau yfir. Þetta kann að vera hið besta mál til að bæta verðmætasköpun og framleiðni en stjórnmálamenn verða að gera ráð fyrir afleiðingum þessa og áhrifin á margar sjávarbyggðir landsins. Í dag standa stærstu og smæstu útgerðir landsins vel en skuldir margra millistórra eru meiri en reksturinn stendur undir. Þær skuldir eru að mestu tilkomnar við kaup á aflaheimildum, eru semsagt vegna nýliðunar í greininni!
Rekur sig allt á annars horn
Andstæðingar atvinnugreinarinnar tala eins og ríkisvaldið eigi að stilla veiðigjöld þannig af að ef vel gangi taki veiðigjöldin hagnaðinn til ríkisins, og væntanlega skrúfa niður í þeim þegar harðnar á dalnum; svona skammta úr hnefa. Hvernig í ósköpunum á að stilla það af og hverjir eiga að taka þær ákvarðanir? Ef góður hagnaður við veiðar og vinnslu markíls undanfarin ár hefði átt að renna að miklu leyti til ríkisins, eins og áður var lagt upp með, hvernig átti þá að slaka á þegar þessi hagnaður dregst verulega saman? Eða er meiningin að þetta verði allt stillt af í ráðuneytinu og þeir sem best standa sig verða ofurskattlagðir og hinum sem verr standa bætt að upp? Svona ný tegund af millifærslukerfi? Þegar menn eygja ný tækifæri vegna nýrra markaða eða tækni þá hækki tollheimtumennirnir veiðigjaldið til að keisarinn fái sitt?
Ef undirritaður ætti auðlindina einn og fengi aðila til að nýta hana fyrir sig, myndi hann aldrei setja svo hátt nýtingargjald að þeir gætu ekki rekið fyrirtæki sín með góðu móti til langs tíma. Ofurskattlagning í skamman tíma væri ekki hagsmunir leigusala. Er trúlegt að sósíalískt kerfi skapi nægilega hvatningu fyrir fyrirtæki og mannauð til að vera á tánum og hámarka verðmætasköpun í sjávarútveg? Stemmingin í umræðinni er eins og málið sé að sigra óvininn (sjávarútveginn) og minnir oft óneitanlega á Don Quijote og slagsmálin við vindmyllurnar.
Gunnar Þórðarson viðskiptafræðingur


Auka framleiðni á Íslandi

Þetta er einmitt það sem allt snýst um. Sérhagsmunahópar draga verulega úr framleiðni á Íslandi og draga úr eðlilegri samkeppni. Auðvelt er að benda á greinar eins og landbúnað og leigubílstjóra í því sambandi.

Það er komin tími til að fólk átti sig á því að launahækkanir umfram framleiðni ganga ekki upp og munu alltaf, eins og hingað til, hækka verðlag. Það þarf að mynda þjóðarsátt um einmitt þetta. Framleiðni á Íslandi er langt að baki þeim þjóðum sem við viljum bera okkur saman við. Það væri traustvekjandi hjá núverandi stjórnvöldum að hætta þessari hagsmunagæslu og taka til í reglugerðarruglinu til að bæta samkeppni og framleiðni. Byrjum á því stærsta sem er landbúnaður, en hann kostar skattgreiðendur 15 miljarða beint á ári, en í raun miklu meira. Heldur bændum í ánauð fátæktar og skilar okkur lélegri og dýrri vöru.

Leigubílstjórar eru annað rugl. Það þarf ekki löggildingu til að auka neytandavernd,frekar en hjá bakara eða ljósmyndara. Allir geta í dag aflað sér upplýsinga um hvaðeinað og þarf ekki ríkisvaldið til að passa okkur!


mbl.is „Hækkar verð en eykur ekki gæði“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjávarútvegur í kröppum dansi

Viðskiptaþvinganir Vesturveldanna
Það er ef til vill að bera í bakkafullan lækinn að ræða um innflutningsbann Rússa á matvæli frá Íslandi, en um slíka hagsmuni þjóðarinnar er að ræða og mörgum spurningum ósvarað um tilurð og vegferð þessa máls. Að vel athuguðu máli settu Vesturveldin viðskiptaþvinganir á Rússa sem ekki var ætlað að beinast gegn almenningi né fyrirtækjum, heldur valdaklíkunni í Moskvu. Þessar aðgerðir voru vel úthugsaðar og fyrir hefur legið mat á viðbrögðum Rússa, sem brugðust við með banni á innflutningi matvæla frá þeim löndum sem stóðu að þvingunaraðgerðum. Í upphafi var Ísland ekki á bannlista Rússa, sem vakti reyndar nokkra undrun á sínum tíma.
Innflutningsbann á Íslenskar matvörur
Mikilvægasta hlutverk ríkisvaldsins er að gæta öryggi þjóðarinnar og það verður ekki gert hvað Ísland varðar nema með vestrænni samvinnu sem hefur verið hornsteinn utanríkisstefnu Íslands frá stofnun lýðveldisins. Hinsvegar vekur aðgerðarleysi íslenskrar utanríkisþjónustu í öllu þessu máli undrun, svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Var ekki skoðað hvaða afleiðingar meðreiðin gæti kostað Íslenskt samfélag, þar sem Rússland er eitt mikilvægasta útflutningsríki landsins? Miðað við gríðarlega hagsmuni sjávarútvegs á mörkuðum í Rússalandi var ekki talin ástæða til að ræða málin við vinaþjóðir okkar og finna leið til að komast hjá tjóni upp á tugi milljarða króna vegna tapaðra markaða? Eins rækilega og það kom fram fyrir rúmu ári síðan að menn voru undrandi yfir að Ísland væri ekki á bannlista Rússa, var þá ekki ástæða til að bregðast við og skoða allar leiðir til að koma í veg fyrir lokun markaða í Rússlandi? Sváfu menn algjörlega á verðinum og ráku ráðalausir að feigðarósi á slíkri ögurstundu?
Hlutverk ríkisvaldsins
Hér hefur verið minnst á mikilvægasta hlutverk ríkisvaldsins en það á einnig að halda upp lögum og reglum í samfélaginu. Því ber m.a. að tryggja sjávarútvegi starfsskilyrði með almennum reglum til að tryggja þjóðinni hámarks afraksturs fiskveiðiauðlindarinnar. Slíkt er gert með því að tryggja sjálfbærni veiða og reyna að hámarka verðmætasköpun, m.a. með kvótakerfinu. Stjórnmálamenn hafa reyndar oftar en ekki viljað ganga lengra og oftar en ekki tekið ákvarðanir sem ganga gegn þessum grundvallar forsendum. Alls kyns afsláttur frá samkeppnisreglum er gefinn til að auka „sátt“ í sjávarútveg, en slíkt er alltaf á kostnað verðmætasköpunar og bitnar þannig á lífskjörum þjóðarinnar. Í síðustu ríkisstjórn vildu menn setja reglur um hvernig ætti að vinna uppsjávarfisk, þar sem stjórnvöld treystu ekki greininni til að taka ákvörðun um hagkvæmustu vinnslu. Settar eru reglur notkun veiðarfæra, stærð skipa, vélarstærð o.s.f. þar sem stjórnmálamenn telja sig betur komna til að taka ákvarðanir um hver eigi að veiða, hvað, hvar og hvernig. Þetta er kallað ráðstjórn!
En stjórnvöld eiga einmitt að skapa greininni starfskilyrði og þar skiptir utanríkisþjónustan miklu máli í að tryggja markaðsaðgengi fyrir íslenskan sjávarútveg. Í þessu máli hefur hún fengið falleinkunn og hefðu hausar verið látnir fjúka fyrir minni mistök en hér hafa átt sér stað.
Utanríkisráðherra
Nokkrum dögum áður en Rússar settu Ísland á bannlistann fullyrti utanríkisráðherra í fjölmiðlum að ekkert væri að gerast í þessum málum og menn biðu bara átekta, og var frekar á honum að skilja að allt væri í stakasta lagi. Getur verið að ári eftir að Rússar setja innflutningsbann á matvælum frá Vesturlöndum, þar sem öllum til undrunar að Ísland var ekki með, að utanríkisráðuneytið hafi ekkert verið að aðhafast og látið sleggju ráða kasti?
Þegar ljóst var að Ísland var komið á þennan lista og stórtjón blasti við er eðlilegt að hagsmunaaðilar bregðist við og gagnrýni beinist að ráðherranum. Í stað þess að bregðast við og upplýsa þá um málatilbúnað, þá er útgerðarmönnum hótað að svipta þá aðgengi að auðlindinni! Það var skoðun ráðherrans að útvegsmenn sem ekki gerðu sér grein fyrir mikilvægi vestrænnar samvinnu væru ekki nógu ábyrgðarfullir til að nýta fiskveiðiauðlindina!
Það er semsagt í hans valdi að ákveða hverjir fá að veiða og ef þeir haga sér ekki vel verður kvótinn tekinn af þeim? Skilningsleysi þeirra á stefnu stjórnvalda geri þá óábyrga og óhæfa til að nýta fiskveiðiðiauðlindina! Andstæðingar markaðsbúskapar ríða ekki við einteyming þegar þeir hafa jafn öflugan stuðningsmann í hagsmunagæslu sinni gegn íslenskum sjávarútveg.


Laun í fiskvinnslu

Dreifing hagnaðar
Umræðan um sjávarútveginn heldur á og verður síst málefnalegri en áður. Nú er verið að „gefa“ makrílkvóta og gleymist alveg að veiðigjöld eru lögð á allar veiðar atvinnumanna í sjávarútveg. Erfitt er að ímynda sér tvöfalt kerfi þar sem ríkið annarsvegar leigir kvótann og leggur síðan veiðigjöld á veiðarnar, fyrir utan skattgreiðslur af hagnaði. Rétt er að hafa í huga að veiðigjöld eru lögð á til að sneiða ofan af umframhagnaði, en eru ekki beinlínis til að auka tekjur ríkisins. Það eru auðvitað mjög góð tíðindi að svo vel gangi í íslenskri útgerð að ríkið telji nauðsynlegt að dreifa ofurhagnaði í sjávarútveg.
Hvað er ofurhagnaður?
Til að útskýra betur ofurhagnað er rétt að líta til olíulinda í miðausturlöndum þar sem kostnaður við að sækja olíuna er innan við fimm dollarar á fatið, en er selt á 80 til 90 dollara. Það hefur oftar en ekki verið þrautin þyngri að dreifa slíkum ofurhagnaði til almennings á sem bestan hátt. Ef um ofurhagnað er að ræða hjá útgerðinni, vinstri stjórnin lagði auðlindaskatt á vinnsluna líka, þá er spurningin hversu langt má ganga í að fleyta ofan af án þess að skaða rekstrarhæfi og samkeppnisstöðu íslensks sjávarútvegs. Að gjaldtakan verði þjóðhagslega hagkvæm og snúist ekki um ímyndað réttlæti og umræða og ákvarðanir séu ábyrgar og byggðar á rökum frekar en pólitík eða tilfinningum.
Íslenskur sjávarútvegur í sókn
Íslenskur sjávarútvegur er einstakur í heiminum hvað varðar framleiðni og verðmætasköpun. Það má lesa m.a. í McKinsey skýrslunni sem gefin var út fyrir nokkrum árum. Þar kemur fram að helsta vandamál íslensks atvinnulífs sé lág framleiðni, sem er á pari við Grikkland, en sjávarútvegurinn skeri sig úr hvað það varðar.
En það er ekki bara að sjávarútvegurinn gangi vel heldur eru tækifærin mikil til framtíðar til að bæta gæði vöru og afhendingar til viðskiptavina ásamt því að skapa íslenskum sjávarafurðum samkeppnisforskot með aukinni kynningu og bættri markaðssetningu. Loksins eru fjárfestingar í geininni komnar á skrið, eftir áralanga stöðnun, sem átti sér frekar en annað pólitískar rætur. Með nýjum skipum og búnaði verða til enn meiri tækifæri til að sækja fram og auka verðmætasköpun í sjávarútveg.
Kvennastörf og lág laun
Það sem hinsvegar vantar í myndina er aukið réttlæti þegar kemur að kjörum fiskvinnslufólks. Sjómenn eru hátekjufólk, enda búa þeir við aflahlutakerfi sem tryggir hlutdeild í aukinni framleiðni. Fiskvinnslufólk, meirihluti konur, hefur hinsvegar ekki notið góðs af velgengni sjávarútvegs og eru láglaunastétt á Íslandi; og búa við helmingi lakari kjör er starfsbræður þeirra í áliðnaði.
Stórt iðnfyrirtæki í Svíþjóð stóð frammi fyrir átökum við starfsmenn sína á sama tíma og samkeppnisstaða þess fór hnignandi, með tapaðri markaðshlutdeild á heimsmarkaði. Ef laun yrðu hækkuð myndi það enn skerða stöðu fyrirtækisins gagnvart keppinautum. Niðurstaðan var samningur milli fyrirtækisins og starfsmanna að sameiginlega myndu þeir auka framleiðni og bæta á sama tíma gæði vöru og þjónustu. Starfsmenn fengju hinsvegar hlutdeild á árangri og niðurstaðan varð sú að launakjör þeirra tvöfölduðust á næstu árum á eftir. Ekki bara það heldur varð þetta eftirsóttur vinnustaður þar sem betri skilningur myndaðist milli aðila, báðum til framdráttar.
Einstakt tækifæri
Ef íslenskur sjávarútvegur gerði samning við fiskvinnslufólk um að bæta enn frekar framleiðni og þjónustu við viðskiptavini, gæti það skilað miklum verðmætum í framtíðinni. Að vísu má búast við að með aukinni tækni muni starfsmönnum fækka, en þekking þeirra aukast til að takast á við flóknari verkefni og laun þeirra myndu aukast verulega. Saman færu betri kjör fiskvinnslufólks og aukin verðmætasköpun ásamt því að með hærri launagreiðslum mun draga úr þörfum ríkisins til að fleyta ofurhagnaði af greininni. Ekki er hægt að ímynda sér betri dreifingu á ofurhagnaði en hækka laun starfsmanna en slíkt dregur ekki úr verðmætasköpun eða framleiðni og gæti aukið þá sátt sem er þjóðinni nauðsynleg í mikilvægustu atvinnugrein Íslands.


Grein í Fiskifréttum 30. apríl 2015

Kraftmikill sjávarútvegur

Sýningin í Brussel
Það var gaman að heimsækja Brusselsýninguna í síðustu viku og upplifa bjartsýni í íslenskum sjávarútvegi eftir áratuga stöðnun. Allt á fullri ferð og spennandi hlutir að gerast. Ef litið er til veiða og vinnslu, standa Íslendingar öðrum framar og helst að miða við laxeldi til að sjá eitthvað sem kemst með tærnar að hælum greinarinnar. Það var tími kominn til en sjávarútvegur mátti búa við alltof hátt gengi fram eftir síðasta áratug, sem hélt uppi innistæðulausum lífskjörum og launum landsmanna sem áttu sér engar forsendur. Síðan kom hrunið og í framhaldi af því ríkisstjórn sem var mjög andsnúin atvinnulífinu og sérstaklega sjávarútvegi. Öll framtíðarsýn hvarf og óvissa ríkti um hvort greinin yrði í raun þjóðnýtt þar sem stjórnvöld ætluðu sér að halda í alla spotta og draga sjávarútveg út úr markaðshagkerfinu.
Framtíðarsýn í sjávarútvegi
Þrátt fyrir að pólitísk óvissa sé enn fyrir hendi, hafa stjórnendur í greininni greinilega fengið trú á framtíðina og fjárfesta af miklu afli í skipum og búnaði. Vonandi styttist í að greinin fjárfesti að sama skapi í mannauði sem er ekki síður mikilvægur þáttur í góðri afkomu til framtíðar. Skaginn og 3X Technology kynntu ofurkælingu um borð í veiðiskipum sem valda mun straumhvörfum meðhöndlun á ferskum fiski fyrir verðmæta ferskfiskmarkaði okkar. Með ofurkælingu verða skipin umhverfisvænni þar sem hugtakið ísfisktogari mun heyra sögunni til og talað verður um ferskfisktogara í staðinn, þar sem enginn ís verður notaður um borð. Fiskurinn verður ofurkældur strax sem gerir ís óþarfan og tryggir gæði og líftíma vöru sem aldrei hefur sést fyrr. Mikill orkusparnaður fylgir ofurkælingu þar sem meðaltogari notar um 50 tonn af ís í hverri veiðiferð, sem bæði kostar orku að framleiða, og sigla með ásamt vinnu fyrir sjómenn að nota ísinn. Í flutningum á ferskfiskmarkaði verður óþarfi að nota ís sem sparar umtalsverða fjármuni og dregur verulega úr sótsporum í íslenskum sjávarútvegi.
Marel og Valka
Annað sem vakti mjög mikla athygli á Brusselsýningunni voru vatnsskurðarvélar frá Marel og Völku. Hér er ekki um neitt minna að ræða en byltingu í vinnslu á bolfiski á Íslandi. Það er ekki bara að vélin spari átta til tíu störf og auki þannig framleiðni; heldur er það möguleikinn sem felst í jöfnum úrskurði beina og nýtingar á flaki sem bætir hana um 2%. Þegar beinagarðurinn er farinn er flakið skorið niður af mikill nákvæmni í staðlaða bita sem henta nákvæmlega kröfuhröðustu kaupendum. Þegar búið er að skera burt verðmætasta bitann, hnakkastykkið, og taka burtu þunnildi verður eftir eftir afurð sem kölluð er bakflak; sem í raun er lítið flak sem hentar markaðinum afskaplega vel og fæst mun betra verð fyrir en sporð og miðstykki.
Þróun sjávarútvegs
Ljóst er að tími stærri vinnslustöðva er runninn upp. Erfitt verður fyrir litlar vinnslur að keppa við þær stærri og öflugri sem hafa burði til að fjárfesta í dýrum búnaði til að auka framleiðni. Þetta mun kalla á samþjöppun í greininni, sem vonandi verður ekki stöðvuð af misvitrum stjórnmálamönnum, því slík framleiðni er forsenda betri launa á Íslandi og lífskjara landsmanna. Það er kominn tími til að taka þann beiska kaleik af sjávarútveginum að draga vagn byggðastefnu á Íslandi. Að sjálfsögðu eru til aðrar leiðir til að aðstoða byggðir í vandræðum ,en að útdeila kvóta til að tapa á honum. Þar verður engin verðmætasköpun og er tap fyrir alla landsmenn.
Pólitíkin
Nú eru umræður um að breyta veiðileyfagjaldi á þann veg að það verði lagt á fyrirtæki eftir árangri þeirra í rekstri. Sem þýðir í raun og veru að verðlauna eigi skussann og refsa þeim sem betur stendur sig. Þetta er alröng hugsun og eina vitið að hafa gjaldið fast á hvert kíló af fiski. Allir greiða það sama og allir sitja við sama borð í samkeppni um nýtingarréttinn. Tökum alla rómantík út fyrir sviga og horfum á sjávarútveg sem öfluga atvinnugrein sem getur verið hornsteinn góðra lífskjara á Íslandi.
Gunnar Þórðarson viðskiptafræðingur


Munaðarlaus í stjórnmálum

Slit á viðræðum við ESB

Það fylgir því tómleikatilfinning að finna sig ekki lengur heima í Sjálfstæðisflokkum, eftir 45 ára þátttöku, og eins og að verða munaðarlaus. Nú hafa öfgahóparnir algerlega náð völdum og rekið smiðhöggið í að losna við frjálslynda frjálshyggjumenn eins og mig úr flokkunum.
Bjarni sagði í sjónvarpi í gær að engu skipti hvort umsóknin væri dauð eða steindauð. Ef svo er þá hefði hann átt að láta málið liggja kyrrt. Stóri munurinn þarna á milli liggja í því að með því að loka endanlega á umsóknarferlið verður það ekki hafið aftur nema með þinglegri ákvörðun allra ESB ríkjanna. Það er meiriháttar mál og má segja að með þessu hafi þjóðernissinnar lokað á inngöngu í náinni framtíð, jafnvel þó þjóðin vildi það!
Miðað við þau stóru átakamál sem ríkisstjórnin stendur frammi fyrir er þetta svona eins og maður sem sundríður straumharða jökulá; tvísýnt er hvor hinum bakkanum er náð og allt lagt undir vegferðina. Þegar komið er yfir út í harðasta strauminn byrjar hann að berja á hestinum og skamma hann fyrir gamlar syndir, þó svo að það geti orðið báðum að fjörtjóni.
Miðað við ástandið í efnahagsmálum Íslendinga í dag er óskiljanlegt að hefja þau átök sem fylgir endanlegri lokun á viðræður við ESB. Margt orkar tvímælis um inngöngu eins og málum er háttað í Evrópu í dag, en ekkert réttlætir þó að útiloka enn valkostinn til að bæta lífskjör á Íslandi. Við erum að fást við risavaxin mál þessa dagana og óskiljanlegt að hefja þessi átök við þjóðina, og marga sjálfstæðismenn.

Markaðsbúskap eða pólitíska fyrirgreiðslu

Sem sjálfstæðismaður trúi ég á markaðshagkerfi og frelsi einstaklingisins. Ég er algerlega á móti pólitískum aðgerðum þar sem gengið er á hag margra til að tryggja hag fárra. Reyndar trúði ég því að þetta væri inngreypt í stefnu Sjálfstæðisflokksins. Við þurfum að losa um gjaldeyrishöftin, sem er hættuleg aðgerð og nauðsynlegt að hafa sem flesta með í stökkinu þegar það er tekið. Ríkisvaldið er með yfir 60% af íslenskum lánamakaði og það ásamt krónunni kostar um 2-3% hærri vaxtamun en gengur og gerist í nágrannalöndunum. Íslenska króna kostar okkur yfir 100 milljarða á ári, miðað við skýrslu Seðlabankans um peningamál, og engin sýn að það muni breytast. Íslendingur sem tekur íbúðarlán til langs tíma greiðir því íbúðina sína tvisvar miða við sænskan nágranna sinn. Bakbeinið í ESB er markaðshagkerfi og samkeppni, hvortveggja sem mikill skortur er á á Íslandi. Hér er umræðan þannig að verðlag byggi á góðvild kaupmannsins en ekki samkeppni. Ríkið er á fullu á samkeppnismarkaði og mest munar þar um Íbúðalánasjóð sem einn og sér heldur uppi hluta af háum vaxtamun ásamt stórkostlegum meðgjöfum úr ríkissjóð.
Bjarni var ekki trúverðugur í gær og reyndi ítrekað að sveigja hjá að hann er eð ganga bak orða sinna við mig sem kjósanda flokksins. Hann reiknar með að 80% af þjóðinni séu kjánar og fullyrti að ekkert hefði komið útúr samningaferlinu við ESB. Sannleikurinn er að búið var að loka flestum köflum nema landbúnaði og sjávarútveg. Hvað landbúnaðinn varðar er ekki hægt að gera verr en staðan er í dag og allir samningar við ESB mun bæta lífskjör á Íslandi. Hvað sjávarútvegsmálin varðar þá hef ég sett mig vel inn í þau mál og vel mögulegt að semja um málaflokkinn. Hefði það ekki tekist hefði samningur aldrei verið samþykktur hvort sem er.
Það hefur verið ömurlegt að fylgjast með umræðum andstæðinga þessara viðræðna og lítið verið um rök og málefnalega umræðu. Hæst stendur í þessari umærðu Staksteinar, sem eru skrifaðir eins og höfundur gangi ekki heill til skógar, slíkir öfgar og öfugmæli hafa leitað á þær síður. Helst mætti skilja að Evrópuþjóðir væru okkar helstu óvinir og betra að halla sér að Rússlandi og Kína.

Pólitískur ómöguleiki

En hvert leita pólitískir utangarðsmenn eins og ég? Á ég þá hvergi heima? Er það svo að frelsi, markaðshagkerfi og samkeppni eigi ekki hljómgrunn í íslenskri pólitík. Nokkuð sem er undirstaða velmegunar í vestrænum ríkjum. Framsóknarflokkurinn er ómögulegur samstarfsflokkur en það er Samfylkingin líka. Flokkur sem gengur gegn grundavallar atriðum til að halda uppi öflugri verðmætasköpun á Íslandi á ekki að hafa völd. En vill Sjálfstæðisflokkurinn ganga þá leið? Flokkurinn er ekki að hugsa um þjóðahag þessa dagana og allt annað sem býr undir þessari gerræðislegu ákvörðun. Flest allt ungt fólk á hægri væng stjórnmálanna sem ég hef rætt við er því sammála.


Mikilvægi eignarréttar

Stjórn fiskveiða
Í grein sem Guðjón Arnar Kristjánsson ritar í Fiskifréttir undir heitinu „Er leitað að sátt?“ ræðir höfundur um innleiðingu kvótakerfisins og telur það hafa verið sett á vegna hruns í þorskstofninum. Þetta er mikill misskilningur en kvótakerfið var sett á 1984 til að ná efnahagslegum markmiðum, þar sem veiðiflotinn var orðin miklu öflugri en afkastageta veiðistofna gaf tilefni til. Það þurfti ekki kvótakerfi til að takmarka veiðar og byggja upp fiskistofna! En aðrar hugmyndir að stjórnun veiða s.s. sóknarmarksleiðin kölluðu á mikla sóun og var metin nánast ómöguleg til að byggja upp atvinnugrein sem skila myndi arðsemi til framtíðar. Guðjón var mikill talsmaður sóknarkerfis og ásamt mörgum bentu á þá leið sem Færeyingar ákváðu að fara við stjórnun fiskveiða. Staðan hjá frændum okkar í dag er sú að botnfiskveiðar þeirra hafa hrunið og greinin er rekin með miklu tapi, þar sem kostar fleiri krónur að sækja fiskinn en hann skilar í verðmætum. Færeyingar hafa farið ranga leið með sína fiskveiðistefnu og lítið ber á þeim núna sem um áratuga skeið börðust fyrir innleiðingu sama kerfis hér á Íslandi. Það er rétt að benda á aðra staðreyndavillu í máflutningi greinarhöfundar um að LÍÚ hafi barist fyrir kvótasetningu, en hún var mjög umdeild í þeirra röðum.
Neikvæð umræða
Umræðan um þetta mikla hagsmunamál þjóðarinnar hefur verið á neikvæðum nótum þar sem reynt hefur verið að gera íslenska útgerðamenn tortryggilega og nánast að óvinum þjóðarinnar. Þessi aðferð er svo sem vel þekkt í sögunni, en fer alveg á mis við faglega og skynsamlega umræðu. Upphrópanir og frasar eins og; „kvótagreifar“og „sægreifar“ er notað í röklausri umræðu og hagsmunasamtök þeirra kölluð „grátkór“, sem er mjög gildishlaðið orð. Þessi umræða er engum til sóma og sérstaklega ekki fólki sem á stöðu sinnar vegna að taka ábyrga afstöðu í einu mesta hagsmunamáli þjóðarinnar, t.d. þingmenn. Þrátt fyrir einstakan árangur íslensks sjávarútvegs hafa forsvarsmenn atvinnugreinarinnar þurft að sitja undir slíkri umræðu. Þegar Guðjón talar um velgegni norsks sjávarútvegs gleymist að nefna að íslenskur sjávarútvegur skilar mun hærra framlegðarhlutfalli en norskur, einmitt vegna þess að við búum við skynsamara og betra stjórnkerfi fiskveiða en þeir.
Eignarréttur og spilling
Það sem áðurnefndur greinarhöfundur virðist ekki skilja, er að einmitt vegna eignarréttar á nýtingu afla við Íslandsmið hefur þjóðin náð þessum árangri í sjávarútvegi, þar sem bein tenging veiða, vinnslu og markaðar hámarkar verðmætasköpun. Í bókinni „The Rational Optimist“eftir Matt Ridley, er rætt um mikilvægi eignarétta á afkomu þjóða. Þar kemur fram að ein ástæðan fyrir fátækt í Afríku er skortur á eignarétti og einmitt í þeim löndum innan álfunar sem búa við tryggan eignarétt ganga hlutirnir betur. Þrátt fyrir að Botswana hafi gengið í gegnum allskyns hremmingar, jafnvel á Afrískan mælikvarða, hefur ríkið búið við mesta hagvöxt í heimi þrjátíu ár eftir sjálfstæði, um 8% á ári. Einmitt vegna menningar sem byggir á eignarétti og tryggir hann. Öðru máli gegnir í Egyptalandi þar sem eignaréttur ekki virtur og tekur um 14 ár að fá lóð undir íbúðarhús. Nánast enginn bíður eftir því og íbúar landsins byggja því ólöglega. Fyrst hæð handa sjálfum sér og síðan nokkrar hæðir ofaná fyrir ættingja og vini, til að fjármagna bygginguna. Ekki er hægt að veðsetja ólöglega eign og því ekki hægt að fá lán. Til þess að þetta gangi nú upp þarf að múta embættismönnum til að fá frið, en spilling fylgir fast á eftir skorti á eignarétti. Kostnaður samfélagsins er óhóflegur vegna þessa þar sem komið er í veg fyrir eðlilega nýtingu fjármagns.
Pólitísk úthlutun gæða
Þetta væri einmitt raunveruleikinn ef Halldór Ásgrímsson hefði ekki með harðfylgi komið kvótanum á í íslenskum sjávarútveg og ríkið hefði fengið yfirráðarétt yfir nýtingu sjávarafla. Með því tryggði hann eignarétt á nýtingarétti afla og snéri þannig viðvarandi tapi útgerðar í arðsemi sem er einstök á heimsvísu. Flestar þjóðir stefna nú í þessa átt með sinn sjávarútveg.
Byggðakvótinn er einmitt gott dæmi um um skort á eignarétti þar sem pólitískir aðilar útdeila gæðum til þeirra sem eru þeim þóknanlegir. Ekki er horft til arðsemi við þá úthlutun og mörg dæmi um misbeitingu á þessu valdi, enda er hver höndin upp á móti annarri við úthlutun byggðakvóta. Á hverju ári hafa menn tekist á um þessa úthlutun í mínum heimabæ og er árið 2015 þar engin undantekning og lítil sátt um ráðslagið.


Eigið fé í sjávarútvegi - Grein í Fiskifréttum 5. des 2014

Endurgjald til eiganda fyrirtækja
Á sjávarútvegsráðstefnunni á dögunum tókust Daði Már Kristófersson og Steingrímur J. Sigfússon á um arðgreiðslur sjávarútvegfyrirtækja í tengslum við veiðigjöld. Sá síðarnefndi átti ekki orð yfir því að sum fyrirtæki greiddu hluthöfum hærri arð en veiðigjöld til ríkisins og taldi að þjóðin væri með því hlunnfarin. En er það svo og er eitthvað óeðlilegt við að greiða arð til hluthafa?
Í markaðshagkerfi þykir það eðlilegasta mál að hluthafar greiði sér arð af eign sinni. Ef það væri ekki myndu fáir fjárfesta í fyrirækjum og því erfitt um vik að fjármagna rekstur sem venjulega er fjármagnaður með hlutafé eða lánsfé, þar sem það fyrrnefnda er venjulega dýrara en það síðarnefnda. Eðlilega þar sem hluthafinn tekur meiri áhættu með því að leggja eigið hlutafé undir um að reksturinn gangi, en lánveitandi tryggir sig með veðum eða ábyrgðum. Þetta er reyndar grunnurinn að hlutafélagaforminu þar sem atvinnurekandi leggur hlutaféð undir en ber venjulega ekki ábyrgð umfram það. Enska heitið dregur einmitt dám af því eða takmörkuð ábyrgð (limited liability company) en þetta félagaform er eitt af grunnstoðum vestrænnar velmegunar.
Sjávarútvegur og markaðshagkerfi
Þar sem hlutaféð er dýrari kosturinn þarf að finna jafnvægi í því hversu mikið eigið fé fyrirtækja er, of lítið eigið fé gerir lánveitanda órólegan sem krefst þá hærri vaxta og of mikið eigið fé krefst meiri hagnaðar til að skila fjárfestum eðlilegu afgjaldi af eign sinni. Ekki er langt síðan N1 greiddi út háa arðgreiðslu til eiganda sinna, til að stilla þetta af, enda lánin ódýrari en hlutaféð. Í umræðu um arðgreiðslur í sjávarútveg þarf að líta til þess hvort greinin sem heild er að greiða óeðlilegar arðgreiðslur, en ekki tala um einstök félög í því samhengi.
En er sjávarútvegur eitthvað frábrugðinn öðrum rekstri? Á ekki að reka hann á markaðslegum forsendum? Er það þannig að veiðigjald eigi að vera það hátt að best reknu sjávarútvegsfyrirtækin geti ekki greitt hluthöfum endurgjald af eign sinni? Er líklegt að einhver vilji fjárfesta í slíkum rekstri? Miðað við umræðuna mætti skilja vilja vinstri manna til að stilla veiðigjöldin þannig að best reknu fyrirtækin skili litlum sem engum arði til eiganda sinna en verst reknu fyrirtækjunum verði tryggður rekstur. Hvernig er það hægt og hver er þá hvatinn fyrir fjárfesta að leggja fé sitt í sjávarútveg?
Markaðsbúskapur í sjávarútvegi
Stjórnmálamenn verða að svara þeirri spurningu hvort þeir vilja reka sjávarútveg á markaðslegum forsendum eða félagslegum. Það er reyndar með ólíkindum ef kratar á Íslandi tala fyrir slíkum sósíalisma og skera sig þá algerlega frá skoðanabræðrum sínum á hinum norðurlöndunum. Það verður ekki bæði sleppt og haldið í þessum efnum og nauðsynlegt að velja hvaða leið skuli farin, á ábyrgan hátt. Sú ákvörðun verður að byggja á því að hámarka heildarhag þjóðarinnar en ekki að snúast um hugmyndafræði eða lýðskrum.
Það eru til aðrar leiðir en sósíalismi til að dreifa fiskveiðiarði, ef það er rétt að kvótakerfið virki svo vel að um mikinn umframarð sé að ræða í greininni. Núverandi launakerfi sjómanna er einmitt gott dæmi um það,enda fer góð afkoma sjávarútvegsfyrirtækja og þeirra mjög vel saman. Það er gott að sjómenn hafi góð laun, enda besta leiðin til að dreifa umframhagnaði. Annað gott ráð væri að skikka stærri sjávarútvegsfyrirtæki til að fara á markað. Þannig geta allir sem hafa borð fyrir báru keypt hlut í þeim á réttu verði. Það yrði kærkomið tækifæri fyrir lífeyrisjóði að ávaxta lífeyri okkar almennings með góðri afkomu sjávarútvegs og eðlilegum arðgreiðslum til hluthafa. Þessi fyriræki voru flest á markaði en einhverra hluta vegna drógu þau sig út. Annar kostur er við þessa leið er að fyrirtæki í kauphöll þurfa að birta opinberlega reikninga sína ársfjórðungslega sem eykur verulega gegnsæi í rekstri þeirra.

 


Grein í Fiskifréttum okt. 2014

Glöggt er gestsaugað

Tilfinningar eða skynsemi

Oft tölum við um að glöggt sé gestsaugað, enda lyftir hann sér yfir bæjarþrasið og horfir meira hlutlægt á málin og lætur tilfinningar minna ráða afstöðu sinni. Þó oftar en ekki séu álit erlendra sérfræðinga umdeild á Íslandi, þá er rétt að taka mark á slíku og nota sem innlegg í umræðuna og ákvarðanatöku um hvernig við viljum haga málum með almannahag í huga.

Skýrsla OECD

Á bls. 77 í skýrslu OECD um umhverfismál sem kom út síðsumar, er fjallað um sjávarútveg á Íslandi. Það er athyglisvert hvaða augum sérfræðingar í París líta á Íslenskan sjávarútveg og þá sjávarútvegsstefnum sem hér er fylgt. Eftirfarandi er lausleg þýðing höfundar á hluta umfjöllunar og er birt á hans ábyrgð:

Sjávarútvegur er mikilvægur fyrir efnahag Íslands og skapar um 25% af verðmæti heildar útflutningi þjóðarinnar. Íslendingar hafa stýrt veiðum sínum á sjálfbæran hátt með hámörkun verðmætasköpunar sem markmið. Grunnurinn að árangri Íslendinga við stjórnun fiskveiða byggir á setningu heildarkvóta á leyfðan afla (TAC), og aflamarkskerfi með framseljanlegum kvóta (ITQ) , og er kjarninn í árangursríkri fiskveiðistjórnun Íslendinga. Heildarkvóti er byggður á vísindalegum grunni til að tryggja líffræðilega sjálfbærni veiða og hagkvæma veiðistofna.  Framseljanlega kvótakerfið tryggir veiðirétt sem er ígildi eignaréttar, sem ýtir undir hámörkun á verðmæti landaðs afla. Veiðimaður sem fær úthlutað tilteknu magni af afla reynir þannig að hámarka þau verðmæti sem hægt er að fá fyrir hann. Þetta er ólíkt því sem víðast þekkist þar sem notast er við ólympískar veiðar þar sem skammtíma hagur ræður för og allri reyna að ná sem mestum afla á sem skemmstum tíma.

Í upphafi var kvóta úthlutað án endurgjalds en verðmæti hans hefur aukist í samræmi við þá auknu verðmætasköpun sem kerfið hefur skapað. Skynsamleg nýting fiskistofna hafa enn ýtt undir þessi verðmæti þar sem ódýrara er að nýta sterka veiðistofna sem gefur mun meira í aðra hönd, þ.e.a.s. eykur verðmætasköpun. Þrátt fyrir að margir vilji vinda ofanaf þessu „vandamáli" þá virðist fátt um „lausnir" fyrir stjórnvöld sem ekki myndu draga úr þeirri verðmætasköpun sem kerfið hefur skapað.

Veiðileyfagjald er þó ein leið til að sækja umframhagnað til greinarinnar, en það var sett á 2001, en því var umbylt 2012. Upphafleg hugmynd af veiðigjaldi var að ríkið endurheimti þann kostnað sem rekstur fiskveiðistjórnunarkerfis kallar á. Veiðileyfagjald er leiguskattur til að ná í þann umframhagnað sem myndast í sjávarútveg, munurinn á milli söluvirði og framleiðslukostnaði, að meðtöldum sanngjörnu afgjaldi af fjárfestingu. Þegar búið er að skilgreina veiðigjald á þorsígildistonn, er það sett á 65% af því gjaldi samkvæmt skilgreiningu lagana. Gert var ráð fyrir að gjaldið skilaði 9 milljörðum króna 2013, eða 0,5% af GDP.

Kerfið er í endurskoðun þar sem álagning gjaldsins ögrar afkomu greinarinnar og þessi aukna skattbyrði veldur áhyggjum, ekki síst hvernig hún leggst mismunandi á hinar ýmsu greinar sjávarútvegs. Það hefur sýnt sig að erfitt er að reikna út sanngjarnt veiðigjald en sérstök nefnd átti að ákveða þá upphæð.

Árið 2014 var gjaldið lækkað á botnfiskveiðar en bætt í á uppsjávarveiðum og vinnslu, sem hafa skilað betri afkomu. Hafa ber í huga að vel útfært veiðigjald getur verið góð skattlagningaleið og haft ýmsa efnahagslega yfirburði yfir aðra skattlagningu. Hinsvegar verður að varast að skattur eins og veiðigjald sé ekki svo hár, að hann valdi skaða á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Jafnframt að verulegur hluti ávinnings af kvótakerfinu hefur þegar verið tekin út úr kerfinu með kvótasölu síðan 1984.

Umræða um sjávarútveg á Íslandi

Þetta er athyglisverð lesning og það er augljóst að umsóknaraðilar telja íslenska kvótakerfið vera hagkvæmt og hámarki verðmætasköpun í sjávarútveg. Ásamt skynsamlegri nýtingu sem byggir á ráðleggingum vísindamanna Hafró. Umræða margra stjórnmálamanna í gegnum tíðina um sjávarútveg á Íslandi hefur byggst á fjandskap og gengur gegn hagsmunum þjóðarinnar. Hvað gengur því ágæta fólki til?

Gunnar Þórðarson MSc í alþjóðaviðskiptum


Sósíalisminn í Frakklandi

Reglulega kenna andstæðingar ESB sambandinu um atvinnuleysi og öðrum vesaldómi í Frakklandi. Þetta er auðvitað ekki rétt og óþarft að fara yfir lækinn til að finna sökudólg í Brussel. Málið er að franskt efnahagslíf er helsjúkt eins og vel kemur fram hjá efnahagsráðherranum. Vinnumálalöggjöfin er svo brengluð að fyrirtæki þora ekki að ráða, þó vel gangi, þar sem nánast ómögulegt er að reka starfsmenn eða fækka þeim aftur.

Það er einhvernveginn þannig að vinstri menn hafna hvötum í kerfinu og halda sig við ákvðein barnaskap. Rétt eins og umræðan er hér á landi um vsk og matarskattinn. Í raun ætti að taka skrefið til fulls og hafa eitt vsk stig. Málið er ekki flækjustig við að rukka skattinn heldur hvernig svona gloppur í skattlagningu brengla markaðinn.

Litlar líkur eru á að dusilmennið hann Hollande breyti efnahagsástandinu í Frakklandi. Hann veit reyndar að hann þarf að taka hægri beygju, en sósíallistarnir í flokknum hans hafna því. Þannig mun áfram fjara undan Frökkum. og það er ekki Þjóðverjum að kenna.


mbl.is „Frakkland er sjúkt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grein í Fiskifréttum 7. ágúst

Sjávarútvegur - undirstaða lífskjara

Atvinna eða afþreying

Undirritaður átt spjall við kunningja sinn um daginn. Hann stundar strandveiðar og kom þeirri skoðun sinni á framfæri að það væri fleira en arðsemi og hagnaður sem skipti máli í sjávarútvegi; strandveiðar væru lífsstíll og hann vildi einfaldlega mæla afkomuna í öðru en krónum og aurum. Miðað við skoðun kunningja míns þá  eru strandveiðar ekki atvinnugrein heldur afþreying og þá kemur upp í hugann spurning um hvort Íslendingar hafa efni á að nota sjávarútveg sem áhugamál og lífsstíl? Við erum að ræða um undirstöðu atvinnugrein sem þjóðin byggir lífsafkomu sína á! Sund og golf eru skemmtun og hvorugt stendur undir sér fjárhagslega en þar erum við klárlega að tala um afþreyingu. Slíkt bætir vissulega lífsgæði en kemur afkomu þjóðarinnar lítið sem ekkert við og hefur ekki áhrif á verðmætasköpun, gengi krónunnar eða kaupmátt Íslendinga. Sjávarútvegur er hinsvegar allt annað mál og afkoma hans hefur bein áhrif á lífskjör á Íslandi.

Botnfiskveiðar og vinnsla í Færeyjum

Færeyingar búa við neikvæða verðmætasköpun í botnfiskveiðum og vinnslu með árlegt tap upp á milljarð króna, sem sækja þarf þá í aðrar atvinnugreinar, t.d. laxeldi. Á Íslandi hafa botnfiskveiðar og vinnsla skilað um 15% hagnaði sem skilar um 46 milljörðum króna á ársgrundvelli. Verðmætasköpun er reyndar enn meiri vegna greiddra launa sem koma inn í hagkerfið og skapa áfram verðmæti. Ef við rækjum okkar sjávarútveg eins og frændur okkar í Færeyjum færu milljarða tugir forgörðum í Íslensku hagkerfi, sem draga myndi úr verðmætasköpun og lækka útflutningstekjur umtalsvert.

Efnahagsleg áhrif

Áhrifin yrðu mikil á efnahag landsmanna þar sem minni verðmætasköpun myndi m.a. lækka gengi krónunnar og þar af leiðandi kaupmáttur launa minnka með hækkun á verði innfluttrar vöru í krónum. Einhvern veginn er rómatíkin farin að fölna við þessa sviðsmynd og alvara lífsins fer að blasa við. Málið er að verðmætasköpun í sjávarútveg er ekki einkamál aðila í greininni; en hún hefur bein áhrif á afkomu Íslendinga og því mikið ábyrgðarmál að sjávarútvegur sé skynsamlega rekinn á Íslandi.

Samkeppnisyfirburðir

En hvernig stendur á þessum mun og hvað er það sem gefur Íslendingum slíka samkeppnisyfirburði, ekki bara yfir Færeyingum heldur flestum öðrum sjávarútvegsþjóðum? Það eru einkum tvö atriði sem skipta sköpum, kvótakerfið sem ýtir undir verðmætasköpun með aukinni framleiðni framleiðslu og fjármagns, og skynsamleg nýting fiskveiðiauðlindarinnar. Þó tekist sé á um ráðgjöf Hafró hefur stofnunin reynst góður ráðgjafi og mikill árangur náðst með skynsamlegri nýtingu þó oft hafi ákvarðanir verið sársaukafullar. Með stækkandi þorskstofni hefur t.d. kostnaður á veitt kíló snarlækkað og þannig ýtt undir verðmætasköpun.

Laun í fiskvinnslu

En þrátt fyrir velgengni í sjávarútvegi hefur ekki tekist að gera fiskvinnslu eftirsóknaverða og eru lág laun greininni til vansa. Sjávarútvegur þarf að vera eftirsóttur til fjárfestinga og laða að hæfa starfsmenn til að standa undir lífskjörum Íslendinga. Á því byggist afkoma sjávarbyggða og snýst reyndar um lífsbaráttu en ekki rómantík!

Gunnar Þórðarson MSc í alþjóðaviðskiptum


Grein í Fiskifréttum 3. júlí 2014

Sjávarútvegur og byggðastefna

Verðmætasköpun í sjávarútvegi

Íslendingar standa sig ekki vel þegar kemur að framleiðni í samfélaginu og erum við þar á pari með suðurlöndum í samanburði, langt að baki hinum norðurlöndunum. Framleiðni er undirstaða verðmætasköpunar og lífskjör verða ekki bætt nema með kerfisbreytingum stjórnvalda.

Sjávarútvegur stendur upp úr þegar kemur að verðmætasköpun, hvort sem miðað er við sjávarútveg annarra landa eða aðrar starfsgreinar hérlendis. Með skýrri stefnu stjórnvalda í sjávarútvegsmálum þar sem hvatning væri til fjárfestingar, nýsköpunar og markaðssetningu á íslenskum fiski, væri enn hægt að bæta verðmætasköpun greinarinnar. En því miður er ríkisstjórnin stefnulaus þegar kemur að sjávarútvegsmálum og ráðherrar hóta útgerðinni nýjum lagasetningum vilji hún ekki axla ábyrgð á byggðastefnu stjórnvalda. Ríkið heldur á einum stærsta kvóta á Íslandsmiðum, 30,500 tonna þorskígildi, sem ekki hefur dugað til að snúa við byggðaþróun samfélaga sem eru í vanda. Núverandi stjórnvöld ætla að auka þennan kvóta enn frekar.

Sjávarútvegur og byggðastefna

Framundan eru miklar áskoranir í íslenskum sjávarútvegi og lykilatriði að honum sé búið umhverfi til að standast aukna erlenda samkeppni. Um þetta þarf að byggja pólitíska sátt í landinu og síðan snúa sér að öðrum þáttum sem geta aukið velmegun og verðmætasköpun þjóðarinnar. Með skuldugan ríkissjóð og krefjandi verkefni í heilbrigðis og lífeyrismálum er ekkert annað í stöðunni til bæta hér úr ef við viljum miða lífskjör okkar við aðrar norðurlandaþjóðir.

Það er ekkert náttúrulögmál að sjávarútvegur beri ábyrgð á byggðastefnu í landinu. Skoða þarf hvort betra sé að aðstoða byggðir með uppbyggingu á nýjum atvinnugreinum, í stað þess að einblína á byggðakvóta. Hóflegt veiðigjald gæti runnið í markaðssetningu á íslenskum fiski, í rannsóknir og þróun og hóflegur hluti gæti runnið í fjárfestingasjóð til að aðstoða byggðir í vanda. T.d. kostar 400 tonna byggðakvóti um 100 milljónir króna, og í raun meira ef litið er til þeirrar sóunar sem pólitísk úthlutun veldur. Þannig gæti sjávarútvegurinn hjálpað til að framfylgja byggðastefnu án þess að draga úr verðmætasköpun greinarinnar.

Tækifæri í laxeldi á Íslandi

Í Færeyjum eru botnfiskveiðar og vinnsla rekin með neikvæðri framlegð og hefur verið svo meira og minna um árabil. Öðru máli gegnir um laxeldi í Færeyjum en ársframleiðsla þar er komin upp fyrir 70 þúsund tonn. Engin atvinnugrein í Færeyjum skilar betri afkomu, þ.e.a.s. vergum hagnaði og launagreiðslur í fiskeldi eru rúmlega sex milljarðar króna og er þessi atvinnugrein undirstaða útflutnings þjóðarinnar með 40% hlutdeild. Á meðan störfum í sjávarútvegi hefur fækkað hefur störfum við eldi fjölgað, en um 750 manns höfðu atvinnu við fiskeldi í fyrra, á sama tíma voru starfandi 1.500 sjómenn. Athygli vekur að þar sem fiskeldi hefur tekið yfir störf í hefðbundnum sjávarútveg hafa laun hækkað.

Framleiðsla í fiskeldi á Íslandi var í fyrra um átta þúsund tonn en gert er ráð fyrir nærri þrettán þúsund tonnum í ár. Landfræðilega mun laxeldi framtíðarinnar byggjast upp á svæðum sem átt hafa í mestum byggðavanda. Á Íslandi er gert ráð fyrir að fiskeldi í sjó fari í 40 - 50 þúsund tonn á næstu 15 - 20 árum sem gera verðmæti upp á 30 milljarða á ári. Gætu verið tækifæri fyrir íbúa Dýrafjarðar og Önundarfjarðar í slíkri framtíðarsýn?

Það eru spennandi tímar framundan og mikil tækifæri fyrir íslendinga í fiskeldi. Gangi vonir manna um laxeldi eftir er staða íbúa á Vestfjörðum öfundsverð. Stjórnmálamenn þurfa að tryggja framgang fiskeldis á Íslandi en leyfa sjávarútveg að blómstra og skapa verðmæti fyrir þjóðarbúið.


Frásögn í sjómannablaði Vesturlands 2014 III

Beðið milli vonar og ótta á Hóli í Bolungarvík

„Það voru gleðitíðindi þegar við fréttum að Sólrún væri komin að gúmbjörgunarbátnum - það er ekki hægt að þræta fyrir það" sagði faðir Grétars, Hálfdán Örnólfsson í viðtali við Morgunblaðið daginn eftir slysið. „Það var opið fyrir bátabylgjuna í útvarpinu heima og þar heyrði dóttir mín, Kristín, þegar tilkynnt var að Svanur hefði sokkið og mennirnir væru komnir um borð í gúmmíbjörgunarbát. „Það dimmdi yfir, er þessi fregn kom og líðanin hjá okkur var ekki góð, þótt við reyndum að vera sæmilega róleg. Við fylgdumst með með því sem fram fór á bátabylgjunni í allan dag og heyrðum þegar kallað var í gúmmíbátinn, en heyrðum aftur á móti ekki í honum. Þegar fregnin kom um að Sólrún væri búinn að finna hann þá létti okkur mikið"

Þór

Í þá daga var algengt að fylgjast með fjölskyldu og ástvinum á sjónum í gegnum bátabylgjuna, 2182, í útvarpinu. Mánudagurinn 29. janúar 1969 líður Kristínu Hálfdánsdóttur seint úr minni. Hún var tólf ára gömul og hafði fengið hettusótt og var því ein heima á Hóli. Þennan dag hafði pabbi hennar beðið hana endilega að hlusta á bátabylgjuna fyrir sig og fylgjast með hvernig gengi hjá Grétari syni sínum á sjónum. Hálfdán hafði áhyggjur þar sem veðurspáin var slæm og búast mátti við slæmu veðri þennan dag.

Kristín kveikti á útvarpinu og kom sér vel fyrir í stofunni heima á Hóli og fylgdist samviskusamlega með bátunum, stundum þurfti að leggja eyrun upp að útvarpinu til að heyra því misjafnlega heyrðist í mönnum. Þess á milli lá hún á stofugólfinu og las í bók. Allt í einu heyrir hún mjög skýra rödd Hálfdáns Einarssonar á Sólrúnu þar sem hann tilkynnti að heyrst hafi neyðarkall frá Svaninum. Báturinn væri sokkinn og mennirnir hefðu komist í gúmmíbát og nú þyrfti að hefja skipulega leit strax. Hann sagði að veðrið færi versnandi og stutt væri í myrkur því þyrftu allir bátar að tilkynna hvar þeir væru til að geta hafið skipulega leit.

Við þessar fréttir brá Kristínu mikið, hentist niður í símann og innan skamms var öll fjölskyldan komin heim og sat saman steinþegjandi við útvarpið þar sem þau hlustuðu á skipstjórana tala saman um leitina. Í fyrstu var fjölskyldan bjartsýn, en síðar dofnaði vonin eftir því sem leið á daginn og þegar Hálfdán skipstjóri sagði í stöðinni að nú væri komið myrkur og veðrið svo slæmt að líkur væru á  að leit yrði hætt í bili , þá fór Kristín að hágráta. Hún upplifði að Grétar bróðir hennar og áhöfn hans hefðu hlotið sömu örlög og sjómennirnir á Heiðrúnu sem fórust árið áður og þau sömu og áhafnir á Traustanum og Freyjunni frá Súðavík ásamt Svaninum frá Hnífsdal. Þögnin í stofunni að Hóli var þrúgandi og enginn sagði neitt en sama hugsunin sótti þó að öllum. Svo leið dálítil stund og allt í einu heyrðist til Hálfdáns Einarssonar segja að hann teldi sig hafa séð rautt ljós á stjórnborða og ætlaði að skoða það nánar. Svo kom hann aftur og sagðist næstum því hafa keyrt á gúmmíbátinn, hann væri við hliðina á þeim og þar væru allir skipbrotsmenn heilir á húfi.

Grétar og Kristín

Það er ekki erfitt að ímynda sér gleðina sem braust út í stofunni á Hóli þegar fjölskyldan faðmaðist og fullvissuðu síðan hvort annað um að allan tímann hefðu þau verið sannfærð um að báturinn myndi finnast. En það liðu tveir dagar áður en þau sáu Grétar sem var veðurtepptur inn á Ísafirði og þegar samfundir loksins urðu var þetta allt orðið svolítið óraunverulegt. Kristínu er það minnisstætt hversu sár hún var yfir því að Grétar bróðir hennar kæmi ekki strax heim að Hóli, en faðmlagið sem hún fékk við endurfundinn gleymist aldrei og þá vissi hún að þessi martröð væri á enda.

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 21
  • Frá upphafi: 283728

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 21
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband