Jól á Sri Lanka 2007

Það leið að jólum á Sri Lanka árið 2007 og danskir vinir okkar stóðu fyrir jólaboði í siglingaklúbbnum í Colombo. Það var heilmikið fjör með öli og snaps, sungið og sagðar sögur þar sem setið var við langborð í notalegri veðráttu norð-austan monsoon, sem er ríkjandi á Frukostþessum árstíma. Á miðri mynd vinstra megin má sjá félaga minn Árna Helgason yfirmann í sendiráði Íslands á Sri Lanka. Það lá fyrir að ég tæki vaktina í sendiráði Íslands yfir jólahátiðina, stýrði málum sem chargé d'affaires og yfirmaður átta manna starfsliðs. Til að bæta upp einmannaleikann yfir hjátíðarnar bauð ég syni mínu Nonna að koma í heimsókn, en hann stundaði þá nám í Sterling háskólanum í Skotlandi.

 

Ég bjó mjög vel í Colombo, í stórri íbúð með tvö gestaherbergi og því myndi fara vel um okkur feðgana fram yfir áramótin. Ég vildi gera vel við son minn og skipulagði því jólaferð á suðurströnd Sri Lanka, en þar eru helstu ferðamannastaðirnir. Ég hafði ráfært mig við vini mína og samstarfsmenn á NARA, sem er rannsóknarstofnun sem sinnir svipuðu hlutverki og Hafró og Matís samanlagt. Þeir voru algerlega með þetta á hreinu, hjálpuðu mér að bóka „frábært“ hótel á „æðislegri“ strönd, sem átti að að sæma konungum og hertogum. Það var ákveðið að skella sér þangað á Þorlákmessu og njóta verunnar yfir jólahatíðina.

 

FjölmenniEn fyrst þurfti að sinna vinnu skyldum fyrir sendiráðið. Eftir að hafa sótt Nonna á flugvöllinn og koma honum fyrir í íbúðinni, fór ég í að skipleggja afhendingu á löndunarstöð sem Íslendingar höfðu byggt fyrir heimamenn, nálægt Negombo. Þetta var unnið í samstarfi við sjávarútvegráðuneyti landsins, en sendiráðið var í miklu samstarfi við það, sérstaklega ráðuneytisstjórann. Að þessu sinni skyldi aðstoðarráðherrann taka þátt í verkefninu fyrir hönd Sri Lanka.

Viðburðurinn átti að halda þann 22. desember, daginn fyrir Þorláksmessu. Ég var með einkabílstjóra frá sendiráðinu sem ók okkur Nonna á svæðið seinni part dags að löndunarstöðinni. Stöðin hafði verið í byggingu undanfarin tvö ár og var nú tilbúin til formlegarar afhendinar. Þegar við Nonni mættu á svæðið tókum við eftir stórum vörubíl með tengivagni, sem reyndist vera hlaðinn hátölurum. Þegar skyggja tók voru hátíðaljós tendruð og síðan kveikt á tónlistinni. Og þvílík tónlist og þvílíkur hávaði! Hárið stóð beint aftur af okkur og ekki nokkur leið að tala saman vegna hávaða. Við heyrðum ekkert hvor í öðrum, þó svo að tónlistin væri spiluð útivið. Við Nonni flúðum niður á ströndina, og þegar við vorum komnir í um 200 metra fjarlægð, gátum við heyrt hvor í öðrum með því að öskra.

 

gefa moneyÞegar til baka var komið var fjöldi fólks mætt á svæðið, búið að setja upp hátíðarpall og heldri manna bekk beint á móti. Ég var ekki alveg viss um hlutverk mitt á þessari hátíð, og ekkert annað að gera en láta sig fljóta með og uppfylla skyldur mínar. Þarna voru mættir fulltrúar hins veraldlega valds, vara- sjávarútvegsráðherra og forystu menn sveitarfélagsins, ásamt fulltrúum geistlega valdsins. Flestir þarna voru búdda trúar og því við hæfi að hafa fulltrúa andlegs valds og trúarlega athöfn. Byrjað var á að kveikja á „gullhananum“ sem einskonar lampi með fjölda kerta, sem er tendraður til að tryggja velgengni og hamingju. Enn heyrðist ekkert fyrir hávaða frá hátölurunum, en að lokum gat ég gert mig skiljanlegan um að nauðsynlegt væri að lækka í tónlistinni, enda búið að koma fyrir hljóðnema á sviðinu þar sem merkileg athöfn var að hefjast.

 

GunniSagan segir að ég hafi haldið mikla ræðu, blaðalaust! Búið að lækka í tónlistinni svo ekkert færi nú fram hjá gestum viðburðarins. Áður en ég vissi af var ég farinn að gefa sjómönnum utanborðsmótara og síðan að rétta öðrum umslög með peningum. Ekki hafði ég hugmynd um hvernig þessir einstaklingar voru valdir en reiknaði með að þetta væri allt hið besta mál, enda á kostnað ríkisins. Þegar athöfninni lauk tók sjávarútvegsráðherrann okkur Nonna upp á sína arma og bauð í heimsókn í nálægt hús. Ekki veit ég hvort hann þekkti fólkið en það rann upp fyrir mér, þegar ég tók eftir Jesú mynd á veggnum, að fjölskyldan og ráðherrann voru kaþólikkar. Þarna var boðið upp á alls kyns hressingu, enda eru Sri Lanka búar einstaklega gestrisið fólk. Eftir ánægjulega stund á þessu notalega heimili var farið í ráðherrabílinn og ekið um stund.

 

 

í partýNæsta sem tók við var annað boð, í þetta sinn mun ríkmannlegra heimili, í eitthvað sem sýndist í fyrstu vera brúðkaup. Þessi fjölskylda hafði á sínum tíma komist til Ítalíu, með ólöglegum hætti, unnið þar í 10 ár og safna nokkrum sjóði. Þeir voru ítalskari en Silvio Berlusconi, og beittu ítölsku fyrir sig í öðru hverju orði. Við Nonni þurftum að draga fram okkar fínustu frasa á ítölsku til að falla vel í hópinn, reyndar náði það ekki lengra en það sem Dean Martin hafði kennt okkur: "Buona sera, signorina". Mínum manni hefði ekki leiðst í þessari veislu, enda flaut viskíið. Þetta svo kallað heimkomu veisla, sem er viðburður sem boðið er í eftir að brúðhjónin koma úr brúðkaupsferðinni. Þá er slegið upp annarri veislu, sambærilegri við brúðkaupið, þar sem brúðhjónin mæta í fullum skrúða og gestir í sínu fínasta pússi. Þetta var heljarinnar partí og ekkert til sparað. Viskíið flaut og vel veitt í mat og drykk. Þetta voru að sjálfsögðu kaþólikkar, en þeir eru alla jafna mun fjörugri en Búdda trúar. Enda skorti ekkert á gleðina og stóð veislan fram á nótt.

 

 

Home comingÞað var komið langt fram yfir miðnætti þegar við Nonni höskuðum okkur heim. Eftir góðan nætursvefn var hafist handa við undirbúning jólaferðarinnar. Á þessu tíma hafði ég litla reynslu í að aka í vinstri umferð og rataði ekki mikið um Colombo. Ég var alltaf með bílstjóra og eina sem ég keyrði sjálfur var korters skutl á Water Egde golfvöllinn eftir vinnu. En einhvern tímann er allt fyrst og tími kominn til að ná tökum á vinstrihandar umferð. Reyndar náði ég góðum tökum eftir þetta, sérstaklega eftir ársdvöl í Úganda án einkabílstjóra. Þannig að við Nonni ókum af stað suður eftir eyjunni í ferðamannaparadísina sem vinir mínir í NARA höfðu skipulagt fyrir okkur. Við ókum af stað suður eftir Galle þjóðveginum en einmitt á þeirri leið hrifsaði flóðaldan mikla árið 2005 járnbrautalest með 1500 manns innanborðs.

 

Gunni og ráðherra2Ferðin sjálf var hin mesta þrautarraun, ekki bara vegna bílstjórans, heldur aðallega vegna adrenalínfíklanna á bakvið stýri á rútum á Sri Lanka. Þeir t.d. kippa sér ekkert upp við það að gefa frammúr annarri rútu við tvöfalda óbrotna línu í blindbeygju. Sá sem mætir þessum rútum á fleygiferð verður umsvifalaust að víkja, geri hann það ekki er ekki spurning hver lifir af. Það er erfitt að byrja að keyra í vinstri umferð. Maður les bílinn vitlaust og allt er röngu megin við mann, gírar stefnuljós og einnig farþeginn. Ég var á 60 km hraða þegar ég rak hliðar spegilinn hægra megin í hjólreiðarmann, sem betur fer varð honum ekki meint af. Eftir þessa hættuför komum við loksins á hótelið um nónleytið, komum okkur fyrir og drifum okkur á ströndina. Það runnu á okkur tvær grímur þegar við skoðuðum herlegheitin, fullt af miðaldra Þjóðverjum og stöndin ekki til að hrópa húrra fyrir. Lágur veggur greindi hótelsvæðið frá almenning, og yfir þennan vegg streymdu sölumenn með alskyns varning til að selja okkur. Það var ekki nokkur friður þarna og fljótlega gáfumst við upp og drifum okkur inn.

 

 

gefa moneyVið mættum til kvöldverðar og ekki var veitingasalurinn burðugur, jólamaturinn baðaður blikkandi flúorljósum og plastfilmum raðað yfir ólystugt hlaðborðið. Ósamstæð hnífapör og diskurinn minn með djúpri sprungu og hékk saman á lyginni. Maturinn var í takt við aðbúnaðinn og ekki laust við að setti að okkur kvíða að eyða jólunum við þessar aðstæður. Við komum snemma upp á herbergi og þegar við höfðu slökkt ljósin og við tilbúnir að fara yfir í óminni svefnsins, heyrðist í Nonna, "Pabbi, getur verið að við höfum lent í slysi á leiðinni og við séum fastir í hreinsunareldinum?" Við tókum þegar þá ákvörðun að koma okkur út af þessu hóteli, og fyrir allar aldir vorum við búnir að pakka niður, koma töskum í bílinn og lagðir af stað í norður. Ég vissi af fimm stjörnu hóteli miðja vegu til Colombo, sem heitir Blue Water, og þar hafði ég verið með vinnufund yfir helgi og þekkti því vel til.

 

 

Gefa mótorÞetta er heilmikið hótel með risa strönd fyrir gesti, sem fá frið fyrir sölumönnum og annarri slíkri óværu. Reyndar var fíll í bakgarðinum sem hægt var að fá sér smá reiðtúr á. Það var meira að segja jólasveinn við innganginn, frekar ólíkur því sem við áttum að venjast, en bara skemmtilegt. Ef fyrra hótelið var hreinsunareldurinn þá komumst við loksins til himna og jólamaturinn var sjö rétta máltíð sem samanstóð meðal annars af laxi, kalkún, ástralskri nautasteik og súpu með silfurlaufum. Og þarna dvöldum við í góðu yfirlæti fram á annan í jólum. Á gamlárskvöld snæddum við kvöldverð á Mango Tree, sem sérhæfir sig í Indverskum karrí-réttum. Kvöldinu eyddum við niður á ströndinni við Galle Face hótelið, þar sem fjöldi fólks fagnaði áramótum með tónlist og flugeldum. En ævintýrið var ekki úti enn og við feðgarnir ákváðum að skella okkur til Nuwara Elia, sem er hálendi á Sri Lanka í rúmlega 2000 metra hæð. Loftslagið þarna er eins í Evrópu og því vinsælt að hvíla sig frá 30 °C hita og njóta svalans í fjöllunum. Á leiðinni þangað er ekið í gegnum te plantekrur, en te var lengi helsta útflutningsvara Sri Lanka (áður British Ceylon). Um 150 km akstur er þangað, en tekur um sjö til átta tíma að keyra þessa leið, enda umferðin svakaleg. En við ætluðum okkur að spara okkur aksturinn og taka lest, sem við reiknuðum með að kæmist á leiðarenda á fjórum tímum.

 

 

IMG_6817Við mættum á lestarstöðina klukkan sex um morguninn, í myrkri og mistri við illa upplýsta brautastöðina. Lestin var ævagömul og allt minnti okkur á upphaf síðustu aldar. Við áttum alveg eins von á að rekast á Hercule Poirot þarna, sem hefði verið skemmtilegt, en líka áhættusamt. Það er alltaf einhver myrtur þar sem hann er og einhverjar líkur á að við lentum öðru hvoru megin, sem lík eða morðingjar. Við vorum á fyrsta farrými, í aftasta vagninum, sem var bogalagaður með glugga allan hringinn. Þarna voru sæti fyrir 10 manns og lestin skrölti rólega af stað. Allt gekk eins og í sögu og fljótlega rann dagur og sólin kom upp. Fljótlega eftir að við lögðum í fjallið stoppaði lestin. Eftir hálftíma stopp voru flestir farþegarnir komnir út og röltu við ferðlausa lestina. Eftir klukkutíma stopp, sem engin skýring fékkst á, gaf lestarstjórinn merki með flautu og lestin lullaði að stað upp brekkurnar. Þessi óútskýrðu stopp endurtóku sig allnokkru sinnum. Það var lán í óláni að matsala var á fyrsta farrými og því vorum við vel haldnir. Það var ekki fyrr en ellefu tímum eftir brottför sem við komum á brautarpallinn í Nuwara Elia. Við héldum strax upp á Club House, enda var ég meðlimur þar.

 

 

IMG_6866Þetta er hótel frá upphafi síðustu aldar, byggt sem lúxus hótel fyrir breska yfirstéttar menn til að slaka á og hvíla sig á suðupottinum í Colombo. Ég tala um menn en gæti sagt karlmenn, því þó konur fái inni í dag í gistingu, þá komast þær ekki í klúbbinn og mega ekki fara á barinn. Þar fyrir utan er skilti sem segir „men only“ En klúbbhúsið er dásamlegt, þjónustan á heimsmælikvarða og maturinn æðislegur og þjónar með hvíta hanska. Í borðstofunni var mynd af Elísabetu ll og þegar við fórum í bókaherbergið til að dreypa á viskí, var risastór mynd af foringjanum sjálfum, Winston Churchill. Þar logaði eldur í arninum og við nutum þess að dreypa á viskíinu og njóta ylsins frá eldinum. Þegar við komum upp á herbergin okkar var búið að koma fyrir flösku með heitu vatni undir sænginni, til að ylja upp rúmið áður en lagst er til hvílu enda lítið um kyndingu þarna. Bara að troða sér undir þykka dún-sængina og falla síðan í djúpan svefn við drauma aðstæður. Morguninn eftir beið okkar golfhringur á 18 holu velli í Nuwara Elia.

 

Ísl fáninn


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.12.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 8
  • Frá upphafi: 285680

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband