Í Austurdal - Dagur 3

sunnudagsmorgun.jpgEnn fagnaði okkur fagur dagur með stillu, heiðskýru og sól í fjallsbrúnum.  Sannkallaður sunnudagur.  Það var um fjögurra gráðu frost og sindraði á hrímhvíta fjallstinda þar sem döggin frá deginum áður hafði Þéttst og frosið.  Það var létt yfir mannskapnum eftir morgunverkin og ekkert að vanbúnaði að leggja á hestana og drífa sig í göngur.

Fjallakóngurinn, Stebbi á Keldulandi, skipti liði og gaf fyrirskipanir um leitar dagsins.  Dagskipun mín var að smala Tinnárdal ásamt Gísla Rúnari og Bjarna Maronssyni og var lítið stoppað fyrr en komið var að ármótum þar sem Tinnáin mætir Austari- jökulsá.

Við riðum norðan megin árinnar og áttum stutt stopp við bæjarrústir í dalsmynni.  Það er um margt að spjalla og forvitnast um hagi samferðamanna sem ekki hafa þekkst áður.  Maður er vegin og metinn og spurður um menn og málefni og getur ráðið um hvort vinskapur verður varanlegur eða ekki.  Menn hafa mismunandi gildismat og lífsviðhorf en ekki er það nú pólitíkin sem ræður dilkadrætti á slíkum samkomum.  Frekar viðhorf til manna og málleysingja, lundarfarið og húmorinn.

go_ir_saman.jpgEn áfram var haldið fram dalinn og nú versnuðu aðstæður með bröttum hryggjum og leggjabrjótum.  Oft var stigið af baki til að létta á hestunum yfir verstu ófærurnar, en fljótlega sáum við fyrstu kindurnar í ferðinni.  Þar var ákveðið að binda hestana og við Gísli Rúnar fórum gangandi fram dalinn en Bjarni ætlaði að smala saman þeim skjátum sem þarna voru, en sumar hverjar voru langt upp í klettum.

Hvað dregur kindur upp í kletta er kaupstaðarbúanum hulin ráðgáta svo spurningin er látin vaða þó hún opinberi þekkingarleysi í sauðfjárrækt.  Jú þannig er það að ljúfustu og safaríkustu nýgræðingarnir vaxa oft í klettum og kringum urðarskriður.  Það er eins og við mannfólkið þekkjum að það sem er eftirsóknarvert er oft erfitt að nálgast.  Ég held að Austurdalurinn baðaður sólskyni á fögrum haustdegi, með sína hrímhvítu kletta hafi verið minn nýgræðingur í klettabelti.  Ferð með einkaþotu og gistingu á Savoy hótelinu í London ásamt kvöldverði á dýrasta veitingastað þar sem vínið kostar hálfa milljón flaskan, var sem hjóm við hliðina á því sem ég nú upplifði.  Ekkert í veröldinni gat jafnast á við þessa tilfinningu sem hríslaðist um hverja taug þannig að brosið bókstaflega braust fram með kiprum í kinnum.  ,,Ef þú stendur við sjóinn kyrran sumardag og horfir á skýin speglast í djúpinu; eða liggur í grænum hvammi um jónsmessubil og það líður lækur framhjá; eða þú geingur í sinunni á árbakkanum fyrir sumarál og heyrir fyrstu helsíngjana gella, - finnurðu þá ekkert sértakt?" (H.K.L. Heimsljós)

Áð í mynni TinnárdalsEn nú tók alvaran við og við Gísli paufuðumst fram dalinn í leit að kindum.  Handan Tinnár töldum við yfir 25 hesta í stóð sem er í eigu Steppa á Keldulandi.  Þeim er smalað í lok október, í kringum fyrsta vetrardag, ásamt eftirleit að fé.  Hér var gangan orðin nokkuð strembin og rétt að gæta sín og kunna fótum sínum forráð.  Við sáum nokkrar kindur í viðbót og það vakti athygli mína hversu hvítar og hreinar þær voru.  Það rifjaðist upp frá göngu minni í júlíbyrjun að samferðarfólk mitt þá hafði einmitt orð á þessu.  Þetta hafði ekkert með birtu dagsins að gera né þeim hughrifum sem umhverfið olli mér í augnablikinu.  Kindurnar eru bara ótrúlega hvítar og fallegar í Austurdal.

Við gengum hratt upp með Tinná þar til við náðum síðasta leiti og sáum fram í endarana Tinnárdals.  Gengum úr skugga um að engin kind væri eftir áður en við snérum við til Bjarna; og nú hófst reksturinn. 

Við komum með tíu kindur úr Tinnárdal og fjórar bættust við handan ár úr suðurhlíðum dalsins, en þar smöluðu Magnús og Þórólfur.  Við mættum fjallakónginum og Gísla Frostasyni á sitthvorum bílnum þegar komið var niður á engin neðan við dalinn.  Þeir höfðu komið auga á kindur sem farið hafði framhjá smalamönnum og því ekkert annað að gera fyrir þLétt yfir mönnum í Ábæjarréttá félaga Magnús og Þórólf en ríða til baka og sækja þær.

Við Gísli Rúnar rákum hinsvegar féð áfram og fyrsti áfangastaður var Ábær.  Bílarnir komu hummandi á eftir og reglulega buðu bílstjórarnir reiðmönnum upp á hressingu.  Þegar við komum seinnipart dags niður á Ábæjarrétt var ákveðið að borða miðdegisverð og bíða eftir öðrum smalamönnum áður en haldið yrði áfram niður að Merkigili þar sem áð yrði um nóttina.Áð í Ábæjarrétt

Það kom berlega í ljós að við Vestfirðingarnir kunnum ekki að útbúa okkur í svona ferð.  Nestið sem við smurðum í Bjarnabúð og settum í plastpoka var orðið að grautarmylsnu.  Svona bland í poka þar sem brauðið, rúgkökurnar, hangikjötið og lifrakæfan ægði öllu saman og maður veiddi þetta upp með fingurgómunum.  Á sama tíma voru heimamenn með sitt kælibox á bílnum, með sviðakjamma, rófustöppu, hangiket með kartöflumús og heitan uppstúf á hitabrúsa.  Ég horfði löngunaraugum á samferðamenn mína um leið og ég stakk hendinni niður í Olíspokann og náði kuski úr honum og tróð upp í mig.  Þannig er mál með vexti að ég bý við mikla verkaskiptingu í mínu hjónabandi.  Ég sé um smíðar, skúringar og uppvask en konan um að strauja, sauma og nota bene; smyrja nesti.

Þórólfur lagar beisliðÞað var frost í dalnum þetta síðdegi og því kominn hrollur í mannskapinn þegar riðið var saman úr Ábæjarrétt.  Það tók nokkurn tíma að koma kindunum yfir ána sem rennur niður með réttinni en þær skirrtust við að halda út í vatnið.  Einn lambhrútur tryllst og rann alla leið niður að jökulánni og stökk út í.  Við horfðum á Austari- jökulsá hrífa hann niður strauminn þar til hann hvarf okkur sjónum og möguleiki hrútsins í þessari baráttu var nánast engin.

Við rákum kindurnar hægt og höfðu heimamenn miklar áhyggjur af ákafa Vestfiringa i rekstrinum.  Rollurnar voru spikfeitar eftir ofgnótt Austurdals og máttu alls ekki við því að renna hratt niður dalinn.  En skyndilega tók ein á rás, ásamt lambi, og stefndi niður að árgljúfrum jökulsár.  Ekki var tauti við hana komandi, en greinilegt var á ullinni að hún hafði gengið úti að minnsta kosti einn vetur.  Þetta var villidýr!

Ég reið vini mínum Vatnarauð þegar hér var komið sögu.  Eins og hugur manns lét hann fullkomlega að stjórn og öll átján árin ásamt ótal svaðilförum um Austurdal virtust ekkert hafa markað þennan gæðing.  Við eltum rolluskjátuna niður á brún gljúfursins og án þess að hika lét hún sig vaða niður snarbratt klettabeltið.  Hér stoppaði Vatnarauður og neitaði að elta þrátt fyrir að ég væri farinn af baki og teymdi hann.  Ég sagði við hann rólega að varla gæti hann verið minni maður en kindarskömmin, og með sínar fjórar fætur hefði hann mikið framyfir mig í þessi átök.  Hann hló við og benti mér á við þessar aðstæður reyndust hendur betur en hófar, en kindin hefði þó klaufir.

Ég hlaut að fallast á þessi rök Vatnarauðs og losaði tauminn öðru megin, tók af mér hjálminn og setti í hann stein og notaði til festu.  Síðan skrölti niður í gljúfrið eftir villidýrinu.  Hér skildi ekki gefist upp og nú gæti ég sýnt þessum Skagfirðingum hvað byggi í Hornstrending.

Útilegurkindur á gnípuÉg paufaðist eftir kindunum og reyndi að reka þær upp á brún en þess í stað náðu þær að snúa við og stefndu upp með ánni.  Ég náði þeim eitt sinn standandi fram á gnípu með þverhnípi allt í kring og taldi mig þá hafa töglin og hagldirnar í baráttunni. (sjá mynd)  Ég náði að rífa í ullina á útilegukindinni og augnablik horfði ég í tryllt augu hennar.  Þessi kind ætlaði ekki að gefast upp og reif sig lausa og þeyttist yfir mig og stefndi áfram upp með Austari- jökulsá.

Það var farið að rökkva en ég sá þó móta fyrir félögum mínum á brúninni þar sem þeir báru við himinn í þverrandi birtu.  Þeir gáfu mér merki um að koma og þegar þangað kom var mér sagt að láta þetta eiga sig.  Þetta væri vonlaus barátta og nota þyrfti aðrar aðferðir við þessar aðstæður.  Mér varð hugsað til smölunar í Tálkna og áttaði mig á í hversu vonlausri stöðu ég hafði verið í þessu stríði.

Það var ægifagurt að líta um öxl og horfa fram Austurdal á leiðinni niður að Merkigili.  Það var komið myrkur þegar þangað kom og töluvert frost.  En móttökurnar voru hlýjar í bænum þar sem ilmur af steiktu lambakjöti kitlaði vitin.  Það er hefð fyrir því að íbúar Merkigils bjóða gangamönnum til veislu og gistingar þegar áð er á leið niður að Keldulandi úr smölun, sem er áfangastaður rekstursins.  Veislan tók öllu fram og boðið upp á kaffi á eftir.  Hér myndu skilja leiðir þar sem við Einar höfðum ekki tíma til að klára reksturinn niður að Keldulandi, enda nægur mannskapur til þess án okkar.  Okkur var því skutlað niður í VarmahlíFjallakóngurinn Stebbi í Keldulandið þar sem við áttum bókað á hóteli, og komum þangað undir miðnætti.

Áður en við runnum inn í draumalandið áttuðum við okkur á því að heimurinn hafði snúist í tæpa þrjá sólarhringa án síma og útvarps.  Við höfðum ekki hugmynd um atburði heimsins, fyrir utan litla hópinn okkar við smalamennskuna í Austurdal.  Áður en ég sofnaði fullvissaði ég vin minn um að ekkert merkilegt hefði gerst á hans vinnustað þennan tíma.  Honum væri óhætt að koma af fjöllum þegar hann mætti þangað á mánudagsmorgun.

 

Fjarskiptin þau eru ekki okkar vandi

því alltaf hefur helgur andi

heyrt í Stebba á Keldulandi (Sig. H.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 4
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 41
  • Frá upphafi: 285832

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 30
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband