Gengið á Ryt og Darra

 Á leið á RitEfnislegir hlutir standast ekki tímans tönn, en það gerir góður orðstír.  Hallgrímingar eldast og sumir myndu halda því fram að slíkur hópur þyrfti að sníða sér stakk eftir vexti og halda sig við léttar ferðir þar sem skálað væri í gin og tónik á kvöldin. Ef til vill hafa skipuleggjendur þessarar ferðar haft þetta í huga og ákveðið að hrista slyðruorðið af hópnum í eitt skiptið fyrir öll. Allavega var gönguferð fyrsta dags ekki ætluðu einhverjum aukvisum eða farlama gamalmennum. Gengið var snemma morguns út í Skáladal áður en lagt var á Rytinn. Á leiðinni þarf að fara yfir ófæru sem er ekki heiglum hent, en slík hindrun var ekki að þvælast fyrir þessum galvaska flokki. Það kom sér vel að á RitAndrés var með bandspotta í bakpokanum til að veita stuðning niður bröttustu skriðuna. Það æmti engin né skræmti og síðan var valhoppað út fjörugrjótið þar til komið var í Skáladal, þar sem ættaróðal Jónbjörns stóð á síðustu öld. Jónbjörn og Sirrý voru hinsvegar fjarri góðu gamni og höfðu ekki átt heimangengt að þessu sinni. Flosi og Brynja voru ekki mætt til leiks en voru væntanleg síðdegis næsta dag. Þorsteinn var fararstjóri og með mikilli skipulagningu og þrautseigju göngumanna var Ryturinn sigraður. Fyrst er gengin gróin bratti sem heitir Vesturlönd og þaðan taka við fastar skriður þar til toppnum var náð fyrir hádegi. Þessi vísa kom upp í hugann hjá Viðari þegar hann hugsaði um verkefni dagsins:

Þetta verður stapp og strit,

strembið sem hjá „Karranum" .

við rennum skeiðið upp á Rit,

og ráðumst svo að Darranum.

Viðar Konn

Frelsið variðÚtsýnið var stórkostlegt af toppi Rytsins, Ísafjarðardjúp og Jökulfirðir í suðri, heimahagar hópsins, Ísafjörður og Bolungarvík í vestri og Aðalvík með Straumnes í austri. Það blakti ekki hár á höfði og sólin vermdi land sem lög enda skafheiðskýrt. Skammt undan landi lónaði stórt skemmtiferðaskip, sem reyndar sýndist eins og leikfangabátur í óravíddum af fjallstoppi. Það var ákveðið að æja og taka fram matarföng skammt neðan við hátindinn en hirðskáldið var samt við sitt:

Af erfiði okkar við slitnum,

eldumst,  þyngjumst og fitnum.

en stöllurnar Anna Stína og Díana,

standandi reykj´a upp á Ritnum.

Viðar Konn

Stína við byssuEn þessi dagur var ekki að kvöldi kominn og enn áttum við eftir langa ferð fyrir höndum. Við veltum fyrir okkur hvort leggja ætti í uppgöngu upp á Darra úr Rytaskörðum en það virtist ekki heiglum hent og því ákveðið að fara niður í Mannadal og þaðan upp á Tindafjall.  Dálítið lengri leið en sýndist mun öruggari fyrir svona breiðan hóp af göngufólki.

Stína á DarraÞegar komið var niður í dalinn kom í ljós að það eina sem við höfðum gleymt var að taka með okkur vatn. Þarna er ekkert drykkjavatn, fyrir utan mýrarvilpur og grunnar tjarnir sem setnar voru af fuglum. Enginn þorði að fá sér vatn í afrennslum  þess, vegna fuglsins sem hamaðist við að drita í tjörnina. Grun hef ég um að þessir sömu lækir hafi verið niður á bökkunum, fyrr um morguninn, hvar fyllt var á brúsana fyrir brekkuna miklu upp á Ryt! Hvað um það, fleiri læki var ekki að finna í þessum dal.  Við tókum á það ráð að sjóða vatnið og blanda síðan út það snjó, sem nóg var af í dalnum. Gerðust menn þá orðljótir í sveita síns andlits og hafði Einar Kristinn á orði að verið væri að narra hópinn vatnslausa upp á fjall.

Helvítin Hallgríma narra

hálfvitana þá,

draga þá upp á Darra,

og ekki dropa að fá!

Viðar Konn

Göngumóður á BorgLandslag í dalnum er nokkuð torsótt yfirferðar og erfitt að halda hæð áður en uppganga hefst að ný. Síðan taka við snarbrattar skriðurunnar hlíðar, en nokkuð fast undir fæti samt. Fararstjórinn hvarf okkur sjónir en áður en við gátum skipulagt leit að honum birtist hann á brún Mannfjalls, ferskur og ör, eins og ævinlega. Um talsverða hækkun er að ræða en ekki leið á löngu þar til hópurinn stóð á brún fjallsins, tilbúin að ganga a Darra, sem er skotspölur í vestur.

Á Darra er útsýnið stórbrotið, sérstaklega inn allt Ísafjarðardjúp. Það er gaman að sjá þekkt kennileit frá þessu sjónarhorni, Hestinn upp af Hestfirði og Kistufell milli Ísafjarðar og Bolunarvíkur. Við skoðuðum menjar heimstyrjaldarinnar þar sem Bretar settu upp radarstöð í upphafi fimmta áratug síðustu aldar. Mér varð hugsað til þessara ungu manna sem eyddu hér löngum tíma við erfiðar aðstæður til að byggja upp varnir gegn nasistavá og leggja sitt af mörkum til að verja gildi vestrænna lýðræðisríkja. Dvöl þeirra og athafnir höfðu mikil áhrif á líf íbúa Sæbóls, og margir fengu vinnu við uppbyggingu og rekstur stöðvarinnar.

Þarna stóð Hanna fyrir trúarathöfn til dýrðar sólkonungnum, sem hafði blessað okkur í ferðinni. Menn köstuðu sér flötum eins og múslímar, en hér var það í vestur í stað austurs. Þetta reyndist hafa mikil áhrif og gott veður átti bara eftir að batna.

Það var þreyttur og sæll hópur sem skondraði niður farveg járnbrautarteina sem lagðir voru til að flytja aðföng á herstöðina sem var um tíma útvörður bandamanna í norðurhöfum í seinni heimstyrjöldinni. Það jafnast fátt á við að fá kaldan bjór þegar heim er komið eftir átakadag, sérstaklega heitan og sólríkan eins og þann sem rann nú að kveldi. Í sameiningu var kvöldverður fram reiddur og þreytan látin líða úr sér í tjaldi áður en átök næsta dags hófust.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.12.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 8
  • Frá upphafi: 285680

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband