Erindi á fundi Gangnamannafélags Austurdals á aðalfundi 7. mars

Á aðalfundiEftir gönguferð Hallgríms Bláskógs um Austurdal 2010, í skála sleðamanna að Laugafelli, byrjaði smalaævintýri okkar Einars Kristins. Undir sterkum áhrifum frá dalnum, fegurð hans og áhrifamætti, sem ágerðist þegar leið á kvöldið þar sem við drukkum í okkur minningar undanfarinna daga, króuðum við Gísla Rúnar af til að koma okkur í smölun að hausti, enda höfðu margar sögur flogið frá honum á leið Hallgríms fram dalinn.

Í ágúst að áliðnum slætti vorum við teknir inn til prufu, og sagt að mæta í smölun í september. Sjálf smalaferðin hófst í verslun Bjarna Har, frænda Einars, þar sem við þáðum hádegisverð undir fréttum  gömlu góðu gufunnar, sem var svona nostalgía fyrir mig. Ég gerði mér þá hræðilegu skömm til að stinga upp á við matarborðið að við Einar færum saman í Kaupfélagið að kaupa skrínukost. Bjarna Har líkaði það ekki vel!

Ég hafði aldrei hitt Stefán Hrólfsson áður og leið eins og ég væri að hitta Clint Eastwood, miðað við sögur og lýsingu á manni dalsins. Hafði reyndar séð bíómynd með kappanum en viðkynnin við hann ollu engum vonbrigðum Stebbi stóðst allar væntingar. þrátt fyrir mikla eftirvæntingu.

Við komum að Keldulandi, akandi, og hugmyndin var að skilja bílinn eftir við Ábæ enda töldum við reiðtúr alla leið fullmikið fyrir viðvaningana að vestan, the city slickers. Okkur var boðið í eldhús þar sem miklir mannkostir voru fyrir. Ásamt gestgjafa voru þarna mættir Siggi Hansen, Guðmundur sonur hans, Þórólfur, Bjarni, Gísli Rúnar, Gísli Frosta, Magnús á Íbishóli og Sigurður frá Réttarholti. Nú var rjúkandi kaffi hellt í fanta og ég spurður hvort ég vildi fá Kristalskvettu út í! Græninginn ég vissi ekki hvað á mig stóð veðrið og spurði hvort þeir ættu ekki mjólk? Eftir hrossahlátur var Kristalnum skvett í kaffið og eftir nokkrar áfyllingar kom ekki til greina hjá okkur Vestfirðingum að aka spönn lengra. Kjarkurinn og manndómurinn hafði aukist mikið við Kristalinn og vildum við ólmir ríða úr hlaði og töldum ekki eftir okkur að skondrast á hestum í Hildarsel það kvöldið.

Reglulega var stoppað til að tala kjark í okkur Einar og þenja raddböndin, segja sögur og njóta samvista í Dalnum. Þótt við Vestfirðingar kæmumst ekki með tærnar þar sem Skagfirðingarnir höfðu hælana í söng og kveðskap, reyndum við að bæta úr með sögum að vestan, reyndum að gefa samræðunum nýjan blæ og gerðum samferðarmenn okkar forvitna um athafnir og uppátæki sveitunga okkar sem við kunnum af sögur.  Kannski það hafi verið mynni Austurdalsins sem tók svona vel á móti okkur, umvafði og örvaði okkur til sagna þar sem við létum gamminn geysa í glensi og gríni, ölvaðir af fegurð og veðurblíðu andartaksins. Hér höfðum við töglin og hagldirnar og vellíðan streymdi um hverja taug við notalegar hreyfingar hestsins.

Í Ábæ logaði vestrið í dalsmynni þegar húmaði að. Við stóðum bergnumdir við gömlu réttina í Ábæ og horfðum á þessi undur náttúrunnar og hvernig kvöldroðinn töfraði sjónarspil sem tók ímyndaraflinu fram.  Veðrið skartaði sínu fegursta og byrjað að frysta við heiðskýruna. En okkur var ekki til setunnar boðið og áfram skyldi haldið að Hildarseli þar sem okkar biði skjól og ylur í þessari smalamennsku. Það var orðið aldimm þegar við sprettum af hestunum og komum við þeim fyrir í gerðinu áður en gengið var í bæ að Hildarseli.  Þar nutum við þess að láta þreytu dagsins úr okkur líða og meðan einhver dugur var í mannskapnum var lífsandinn vökvaður og sagðar enn fleiri sögur og vísur kyrjaðar og nokkur lög sungin.  En hætta skal leik þegar hæst stendur að lokum sigrar þreytan og svefninn tekur yfir. Ég klöngraðist upp á loft og sofnaði undir angurværum söng smalafélaganna.

ÞyrlunefndÞeir kalla okkur Einar Vestfirðingana og við hljótum að hafa staðist kröfur þeirra um manndóm og karlmennsku. Að kvöldi fyrsta smaladag vorum við teknir í Gangnamannafélag Austurdals með pompi og prakt. En haldi menn að Austurdalurinn hafi tjaldað öllu sem til var í fegurð og rómantík fram að þessu, skjöplast þeim heldur betur.  Komið var frost í heiðskýrunni og stjörnur blikuðu á lofti.  Allt í einu teygði máninn sig upp yfir fjallsbrúnina í vestri.  Ekki veit ég hvort það var eitthvað sem hann sá eða heyrði en allavega fór hann bara hálfa leið og dró sig síðan til baka og hvarf.  Hann taldi sig ekki standast samkeppnina! En Karlsvagninn benti okkur á Pólstjörnuna í norðri og uppljómaður Júpíter heilsaði gildum limum Gangnamannafélags Austurdals. Ekkert gæti stöðvað okkur Einar héðan af svo lengi sem við drögum lífsandann og vökvum lífsblómið. Smalahelgi í september og fyrsti föstudagur í mars yrði héðan af frátekin, sama hvað. Ég veit ekki betur en í dag föstudaginn 7.mars 2014 hafi alþjóðafundur þingforseta verið frestað um viku, enda mikilvægar mál á dagskrá. Mál sem hafa forgang.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 51
  • Frá upphafi: 283871

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 45
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband