Bloggfærslur mánaðarins, september 2007

Á skjálftavaktinni

Ráðherra og ráðuneytisstjórinnRáðstefnan sem ég sótti í dag í NARA hét ,,Workshop on the Ocean Observation Center at NARA and its Contributions Towards Ocean Research and Environmental Security". Hún var haldin í tilefni opnunar nýrrar deildar hjá stofnunni, sem heitir snarað yfir á ylhýra málið okkar, vöktunarstöð sjávarins.  Stofnunin fylgist með jarðskjálftum í Indlandshafi, stormum, skýstrókum ásamt hugsanlegum meiriháttar mengunarslysum.  Markmiðið er að lágmarka tjón af náttúrhamförum með upplýsingaöflun og gefa út viðvaranir. Það er því merkileg tilviljun að jarðskjálftar hristu Indónesíu í gær og dag og setti reyndar ráðstefnuna á annan endann.

Háverðugur sjávarútvegsráðherra átti að ávarpa samkunduna klukkan hálf tíu í morgun en var kallaður á neyðarfund hjá forsetanum vegna atburða síðasta hálfan sólarhringinn. En skyndilega komu boð um að ráðherra myndi mæta og ákveðið að bíða með prógrammið á meðan.  Við fengum að horfa á skemmtilega bíómynd með Al Gore í aðalhlutverki á meðan við biðum.  Fyrir framan okkur hafði neyðarstöðin verið sett upp til að sýna ráðstefnugestum herlegheitin, fjórar tölvur með alls kyns línuritum og súlum.  Allt í einu hvað við viðvörunarhljóð  og rautt ljós blikkaði.  Það hafði orðið jarðskjálfti útaf Indónesíu upp á 7.8 á Rikter.  Reyndar fór neyðarbúnaður af stað tvisvar eftir þetta, áður en dagurinn var allur, en hann lætur vita af öllum jarðskjálftum sem eru 6 eða meira á Rikter skala.

Á skrifstofu ráðuneytisstjóraNú var ráðherra mættur og byrjaði á að heilsa Árna með virktum og tók hann síðan með sér til sætis við háborðið. Þar voru þeir í góðum félagsskap með ráðuneytisstjóranum og stjórnarformanni NARA. Ráðherrann hélt langa langa ræðu á Singalee.  Það eina sem ég skildi var að hann nefndi Árna reglulega þannig að Íslendingar eru honum ofarlega í huga.  Reyndar snúa öll okkar þróunarverkefni hjá ICEIDA að sjávarútveg og við erum þeir einu sem sinnum þeim málaflokki á Sri Lanka.  Það kom því ekki á óvart að við vorum einu útlendingarnir á ráðstefnunni og óhætt að segja að einkar gott samband hefur myndast milli Íslendinga og Sri Lankana á þessu sviði.

Mikil umræða hefur verið um viðvörun sem gefin var út í gærkvöldi með rýmingu á landsvæðum á suður odda landsins.  Á blaðamannafundi eftir ávarp ráðherra þar sem hann ásamt forsvarsmönnum NARA sátu fyrir svörum var talað um úlfur úlfur viðbrögðum hjá fólki.  Ráðherra og stjórnendur NARA vörðust þó og töldu betra að hafa vaðið fyrir neðan sig.  Betra væri að gefa óþarfa viðvörun en skella skolleyrum við hættu sem gæti valdið óskaplegu tjóni.  Ef viðvörunarkerfi og áætlun hefði verið til í desember 2004 hefði manntjón orðið verulega minna en raunin varð.

höfuðstöðvar NARAEftir hádegið var tæknilegur hluti ráðstefnunnar og gaman að sjá hvernig vísindamenn stofnunarinnar afla gagna sem breyta má í upplýsingar sem síðar verða að þekkingu.  Gervihnattaverkefnið okkar bar margoft á góma, enda félagar mínir Raul og Rajapaksa innstu koppar í búri á ráðstefnunni.


Skjálfti í vinnunni....

Tilboðin opnuðÞað var viðburðaríkur dagur í vinnunni í dag. Reyndar hafði ég tíma fyrir hádegisverði með eiginkonunni þar sem sushi nigiri varð fyrir valinu hjá mér. Þrátt fyrir að hafa sett upp heila verksmiðju með Ívari vini mínum til að framleiða þennan góða mat í tuga tonna tali er þessi japanski matur alltaf mitt uppáhald.

Eftir hádegi opnuðum við hjá ICEIDA tilboð í átta löndunarstöðvar sem við munum byggja í Ampara.  Það var fjöldinn allur af verktökum viðstaddir og varð að hleypa þeim inn í fundarherbergið í hollum. Ampara er á austur ströndinni og farið að nálgast átakasvæði í stríðinu við Tamila. Næst opnum við tilboð í sex stöðvar í Battilacoa, og þar erum við komin á landsvæði sem stjórnarherinn náði valdi yfir fyrir nokkrum mánuðum síðan. Ríkisstjórnin leggur mikla áherslu á uppbyggingu á þessum svæðum til að koma daglegu lífi í réttar skorðu og minka þannig líkur á meðaumkun með Tamilum, en þeir eru margir á þessu landsvæði.  Þessu framlagi Íslendinga er því fagnað.  Ég mun segja betur frá þessu löndunarstöðva verkefni seinna en í dag var formlega verið að hefja Gervihnattaverkefnið.

Við Árni með ráðherra, ráðaneytisstjóra ofl.Ég hef áður sagt frá því verkefni sem er á minni ábyrgð gagnvart ICEIDA og gengur út á að sækja gögn í gegnum gervihnetti og búa til upplýsingar til að spá fyrir um staðsetningu flökkufiska eins og túnfisks.  Þó vinna við verkefnið sé þegar hafin var það formlega sett af stað í sjávarútvegsráðuneyti Sri Lanka í dag.

Fyrst var fundur yfirstjórnar verkefnisins sem setti mig ásamt tveimur haffræðingum frá NARA (Hafró Sri Lanka), sem tæknilega stjórnendur verkefnisins. Við það tækifæri var ráðuneytisstjóri sjávarútvegsráðuneytisins viðstaddur ásamt stjórnarformanni NARA og tækninefndinni.

Seinna var fundur með sjávarútvegsráðherranum, ráðuneytisstjóranum, stjórnarformanni Nara ásamt okkur Árna. Íslendingum var mikið hrósað fyrir framlag okkar til sjávarútvegs á Sri Lanka og las ráðherrann upp þrjár síður af lofrullu og tæknilegri lýsingu á verkefninu.  Ráðherrann var frekar lágróma og þurfti að leggja sig allan fram um að ná því sem hann las upp.  Í sófanum sem við höfðum setið áður var hópur fólks kominn og fylgdi því töluvert skvaldur.  Seinna frétti ég að þetta væru ráðgjafar ráðherrans og biðu eftir að ná á hann, enda átti ríkisstjórnarfundur að hefjast innan stundar.

Árni og SjávarútvegsráðherraMér varð nú hugsað til vinar míns Einar Kristins og hvort ekki væri rétt að hann drifi sig í heimsókn til Sri Lanka og hitti fyrir starfsbróður sinn sem virðist vera nokkuð ánægður með samskiptin við Íslendinga.  Það er gaman að segja frá því að núverandi forseti (hér er franska kerfið í gangi) var áður sjávarútvegsráðherra og kom tvisvar til Íslands sem slíkur.

Fundurinn var varla búinn þegar boð byrjuðu að streyma inn um öflugan jarðskjálfta út af Indónesíu.  Við vorum innan um réttu mennina þar sem upplýsingar um jarðskjálfta og flóðöldur eru mótteknar hjá NARA, sem síðan kemur þeim til stofnunnar sem dreifir þeim til almennings.  Stjórnarformaðurinn var því ágæt uppspretta upplýsinga, en eiginkona mín hafði hringt með áhyggjur þar sem fréttin var komin á BBC.  Ég gat því róað hana með öruggar fréttir af því sem væri að gerast.

Allt í einu bankaði ráðherrann í öxlina á mér með gsm síma í hendinni, með þær fréttir að skjálftinn hefði verið enn stærri en í fyrstu var talið, eða 8,2 á Ricter.  Í nokkur augnablik voru menn áhyggjufullir og fylgdust með atburðum í sjónvarpi en sem betur fór reyndist engin hætta á flóðbylgju.  Við félagarnir urðum ráðherranum samferða fram á gang og reyndar í lyftunni niður á jarðhæð í ráðuneytinu.

Ráðherra fylgism með fréttumEn framundan er spennandi verkefni að vinna að með ágætum vísindamönnum.  Annar þeirra er Sinhalee og trúir á Budda en hinn er Tamili og er hindúi.  Á morgun verð ég allan daginn í höfuðstöðvum NARA á ráðstefnum um haffræði, en þar sem verkefnið okkar tengist þeirri grein er reiknað með að ég sýni áhuga og sitji allan daginn og meðtaki fróðleik um hafstrauma, sjávarhita og þörunga.


Fjör á sunnudegi

Gunnar á Mount LaviniaVið Stína byrjuðum þennan sunnudag á morgunverði í boði Surie, vinkonu Aury. Á borðum voru hoppers sem er Sri Lankan speciality, sem búið er til úr hrísgrjónum.

Á leiðinni til þeirra sáum við krókódíla syndandi um síkin, en þau búa í vatnsmýrinni í Colombo. Það var létt yfir þessum félagsskap og engin varkárni eða varnarmúrar á milli okkar og fjölskyldunnar. Benny er eiginmaðurinn og þau eiga son og dóttir sem snæddu með okkur. Brandar fuku og engin menningar vandræði í þessum félagsskap. Við erum bara hluti af fjölskyldunni og þá ríkir algert traust.

 

 

Við Stína fórum síðan á Hotel Mount Laviania sem áður hefur verið sagt frá á þessari síðu, og er glæsilegt strandhótel sem áður hýsti landstjóra Breta hér í landi. Hann átti ástkonu sem var af Portúgölsku bergi brotin og hét Lavinia.

Staðir eins og Mount Lavinia eru ekki til á hefðbundnum ferðamannastöðum Íslendinga, eins og á Spáni eða Ítalíu. Glæsileiki og ótrúlega ljúf þjónusta einkennir þennan fyrrverandi landstjórabústað.

stormur á LaviniaVið vorum varla sest og búin að panta okkur kaldan bjór þegar stormur skall á. Allt lauslegt fauk yfir sundlaugina og staðurinn var í hers höndum. Rafmagnið fór af í miðju lagi, Körukvæði, og kom á óvart að hljómsveitin kynni svona tippikal ,,Íslenskt" lag. En þetta jók bara á upplifunina og við ákváðum að kíkja á ströndina, þrátt fyrir storminn.

Við settumst inn á Seafood Cove sem áður hefur verið sagt frá og birtar myndir af dásamlegu sjávarfangi sem boðið er upp á hvert kvöld vikunnar. Í þetta sinn létum við disk af djúpsteiktum rækjum með bjór duga. Staðurinn er strandbar undir suðurhlíð hótelsins og öldurnar gengu nærri því inna á gólfið hjá okkur. Við vorum einu gestirnir að þessu sinni, enda ekki allir sem hafa gaman af óveðri á strönd, eins og við. Ég tel mig mjög glöggan á veður, gamall togarajaxl, og ákvað að þetta væru átta vindstig á Bufourd skala. Ég hef ekki enn lært inn á þessa metra á sekúndu og læt aðra eftir að reikna það út. Þakið á matsölustaðnum er ofið úr pálmablöðum og þrátt fyrir helli rigningu var þurrt og notalegt inni. Veggirnir eru bambusmottur og virkuðu sem góð vörn gegn óveðrinu.

Í kvöld bjóðum við þeim félögum, Ronny og Dan, út í kvöldverð þannig að nóg er að gera hér við miðbaug  jarðar. Reyndar minnir veðrið á Hornstrandir, fyrir utan hitastigið, S.V. súldar fýla.

Matseðilinn á Seafood CoveÉg hef verið að hugsa um Búddismann og þá kenningu að með góðri hegðun í þessu lífi auki maður líkurnar á því að njóta þess næsta. Tuddist maður í gegnum lífið endar maður sem hundur eða padda. Með endurtekinni góðri hegðun tekur við betra og betra líf þar til maður nær Nirvana, sem er fullkomleikinn.

Ég er farin að halda að ég hafi náð því þó langt sé frá því að ég hafi áunnið mér það með góðri hegðun. Nema það hafi verið á stigum fyrri lífa.

En ég ætla að njóta þess þó ég eigi það ekki skilið.


Leikið á bragðlaukana

Kvöldverður StínaTrans Asia stóð undir væntingum í gærkvöldi. Hótelið sjálft er ótrúlega glæsilegt á hvert sem litið er. Fágaður mjúkur arkitektúr með austurlensku yfirbragði. Úti við sundlaug er sjávarréttarveitingahús með sýnishorni af öllum þeim fisktegundum sem standa til boða. Fiskurinn hreinlega ilmaði af ferskleika og þar mátti sjá humar, rækjur, smokkfisk, red snapper og margar aðrar tegundir. Kvöldið var notalegt með 28° hita og upplýst sundlaugin blasti við borðinu okkar upp á svölum yfir hótelgarðinum.

Og svo byrjaði veislan. Þetta var eins og að hlusta á Pavarotti syngja Nessun Dorma. Svona tilfinning sem færir manni gæsahúð. Bragðlaukarnir voru hreinlega teknir og þeytt upp í hæstu hæðir í ákafa og tilfinningaflóði. Maður trúði ekki sínu eigin bragði og þetta var bara forrétturinn. Við skoluðum þessu niður með hvítvíni frá Chile sem lék undir með fiskréttunum og fyllti vel upp í allar eyður sem skildar voru eftir fyrir bragðlaukana.

Nú var komið að aðalréttingum sem var humar. Ég hafði tekið humar sem kryddaður var með karrý en Stína tók tanduri eldaðan. Það var ekki bara spilað á bragðlaukana hér heldur fékk sjónin sinn skerf. Kvöldverðurinn var hreinlega listaverk og borin fram með notalegri þjónustu. Þetta var fullkomið kvöld enda  félagsskapurinn frábær, sem enst hefur í rúm 30 ár. Getið af sér þrjú börn, eitt Humarbarnabarn og annað á leiðinni.


Málverk og blóm

Það gefst lítill tími til að meitla í Google steininn þessa dagana. Bæði er mikið um að vera í vinnunni og eins er eiginkonan í heimsókn og nauðsynlegt að draga hana um áhugaverða staði hér í borginni, sem nóg er af.

Gunnar með blómVið Kumara sóttum hana á flugvöllinn fyrir allar aldir á miðvikudagsmorguninn.  Það var seinkun á fluginu og því þurfti ég að bíða í rúma tvo tíma á flugvellinum.  Það var reyndar selt inn í móttökusalinn fyrir komufarþega.  Þetta var stór salur og stólar í mörgum röðum fyrir þá sem biðu eftir ættingjum og vinum á leið heim frá hinum ýmsu stöðum. Næstu vélar á undan voru að koma frá Kuwait og Dubai.  Töluvert af múslimum og konum  með blæjur fyrir andlitinu. En það sem vakti athygli mína var stanslaus straumur af fólki sem streymdi inn úr fríhöfninni með ískápa, þvottavélar, þurrkara, eldavélar og ýmis önnur heimilistæki. Þessu var ekið á stórum handvögnum og venjulega porter með til að stýra vagninum. Þetta hafði ég aldrei séð áður á flughöfn.

Ég frétti síðar að eitt af stærstu útflutningsgreinum Sri Lanka eru starfsmenn. Fólk sem fer og vinnur í öðrum löndum og sendir peningana sína heim. Venjulega eru þetta láglaunastörf en fólkið lifir nánast á engu og sendir hýruna til fjölskyldu sinnar heima. Ríkisstjórnin verðlaunar þetta fólk með því að veita þeim leyfi til að versla tæki við heimkomuna, og því lengur sem það er því meira getur það keypt, tollfrjálst. Þeir sem eru í eitt ár geta keypt ísskáp en þeir sem eru í þrjú ár kaupa heila búslóð.

Talandi um þetta þá kom það í ljós þegar eiginkonan fór að ræða málin við þjónustukonuna, Pam, um lífið og tilveruna að hún er nýkomin heim úr sautján ára útlegið í arabalandi. Hún vann sem þjónustukona og sá um að ala börnin upp fyrir ekkil. Hún var ánægð með dvölina en fjarvera frá fjölskyldunni var að sjálfsögðu erfið.  Það voru síðan ættingjarnir sem kröfðust þess að hún kæmi heim til Sri Lanka og vinnan fyrir okkur Stínu er sú fyrsta sem hún fær við heimkomuna. Reyndar líkar mér svo vel við vinnu hennar að ég hækkaði launin um 25% við síðustu mánaðarmót.

Við Stína snæddum hádegisverð á Resturant Gallery sem er frægur staður hér í borg. Í kvöld verður farið á fyrsta flokks Indverskan stað sem er á Tans Asian hótelinu sem stendur beint á móti Gull Face við ströndina hér í Colombo. Við höfum verið á fullu í dag við gera íbúðina heimilislega með kaupum á málverkum og blómum.  Þetta er svona ,,woman touch"


Einn dagur á Sri Lanka

morgun 001Ég hef fengið ábendingar um að skrifa meira um hvað ég sé að gera hér á Sri Lanka, og þá sérstaklega í vinnunni.  Svo það er best að lýsa einum dæmigerðum sólarhring  í mínu lifi hér.

Í gærkvöldi hitti ég tvo félaga úr friðaðgæsluliðinu á Sri Lanka.  Starfandi yfirmann (Actin Head of Mission) og talsmann (Press and Information Officer) fyrir SLMM (Sri Lanka Monitoring Mission)  Við borðuðum saman á Mango Tree, Indveskum matsölustað hér rétt hjá. Ég reyndar labbaði mig til fundar við þá, enda aðeins um 15 mínútna gangur. Þó götulýsingin sé ekki merkileg hér er maður öruggur með sig í skuggalegum götunum, enda hermaður á 30 metra fresti. Maturinn var frábær en þetta er einn af betri matsölustöðum bæjarins.

Ég var kominn heim rúmlega tíu og náði fréttunum á BBC kl. hálf ellefu.  Síðan var að láta sig líða inn í draumalandið enda dagurinn er tekin snemma.  Ég vaknaði fyrir hálf sjö og náði þá aftur fréttunum sem byrja alltaf á hálfa tímanaum. (það munar fjórum og hálfum tíma á Englandi og Sri Lanka)

morgun 002Klukkan korter í sjö var ráðskonan mætt til að útbúa morgunmatinn.  Hún kemur ávallt færandi hendi með dagblaðið með sér, Daily Mirror, og ég næ að lesa forsíðuna áður en morgunmaturinn er tilbúinn.  Það er mikið af ávöxtum á borðum og einnig egg og jógúrt.  Hér er drukkið te þannig að ég klára að lesa blaðið yfir tebollanum áður en haldið er af stað í vinnuna.

Kumara bíður með bílhurðina opna rétt fyrir hálf átta.  Það tekur aðeins nokkrar mínútur að aka í vinnuna svona snemma, enda traffíkin ekki byrjuð.  Klukkan er rétt rúmlega hálf átta þegar ég kem niður í sendiráð þar sem vinnustaðurinn er.

Það var stafsmannafundur klukkan níu og síðan undirbúningur fyrir fund með Dr. Ranjith, yfirmann gæðaeftirlits NARA, head of Post harvesting division.  Sá fundur var klukkan þrjú þannig að góður tími gafst til að borða hádegismat í Swimming Club.  Ég fékk reyndar hringingu frá ritara klúbbsins um að umsókn mín um inngöngu hefði  fengið jákvæða umfjöllun.  Nú get ég sótt formlega um en fyrsta sían snýst um að samþykkja mig sem umsækjanda.  Forseti klúbbsins mun skoða umsókn mína og  síðan verður stjórnarfundur í klúbbnum til að taka ákvörðun.  Inngöngugjaldið er 1500 dollarar en þangað til að það verður er ég háður einhverjum klúbbfélaga til að bjóða mér.

sendiráðiðKlukkan er langt gengin í fimm þegar fundi með Ranjith lýkur og þá er ýmislegt uppsóp eftir og nokkur símtöl við Ísland.  Vegna tímamismunar er ekkert samband heim fyrr en eftir hádegi að okkar tíma.  Við Ranjith vorum meðal annars að skipuleggja þjálfunarferð tveggja sérfræðinga NARA til Íslands.  Íslenskir ráðgjafar koma að málinu þannig að nauðsynlegt er að láta alla hluti ganga upp og skipuleggja málið vel.

Ég var kominn heim rúmlega hálf sex og tími fyrir sundsprett á annarri hæðinni áður en sest er við tölvuna til að blogga.  Í fyrramálið leggjum við Kumara af stað klukkan fimm til að sækja eiginkonuna á flugvöllinn, en hún er að koma í tveggja vikna heimsókn.


Singapúr mótelið

 

SingapúrHér á Sri Lanka heyri ég oft talað um Singapúr og velgengni þessa litla borgríkis í efnahagslegu og pólitísku samhengi og hvernig Singapúr mótelið hefur virkað þjóðinni til góðs. Reyndar skildi ég það á mönnum hér að Singapúr hefði litið til Sri Lanka í leit að fyrirmynd við stofnun ríkisins.

Ég las athyglisvert viðtal sem sérfræðingur Inernational Herald Tribune átti við Lee Kuan Yew, sem gegndi embætti forsætisráðherra frá stofnun Singapúr 1959 til 1990, undir fyrirsögninni ,,við litum til Sri Lanka"  Hann heldur því fram að Singapúr ætti samkvæmt öllum lögmálum ekki vera til. Þjóðin hafi ekki þann grunn sem þurfti til að stofna ríki. Singapúr er ekki uppskrift fyrir þjóð þar sem íbúarnir koma víða að, frá suður- Kína, Indlandi, Pakistan og Bangladess. Klofin niður hvað varðar menningu og tungumál og eiga sér ólík söguleg örlög. Og ekki síður er borgríkið á mikilvægum hernaðarlegum og viðskiptalegum stað sunnarlega í Asíu og tengir sjóleiðir Indlandshafs og Kyrrahafsins, sem er efnahagslega gott en ógnvekjandi fyrir þá í mörgu tilliti.

map-singaporeForsenda tilveru Singapúr telur Lee liggja í alþjóðalögum og samtökum eins og Öryggisráði S.Þ. ásamt stöðuleika á svæðinu sem heldur verndarhendi yfir þeim smáu gegn þeim stóru. Við sjálfstæðið var byrjað á að stofna utanríkisráðuneyti  til að tryggja stuðning alþjóðasamfélagsins og síðan að hervæðast. Koma upp varnarstefnu og eftirliti til að geta uppgötvað ógn í tíma og varist þar til hjálp bærist. (sjálfsagt frá B.N.A.)

En það er ekki nóg ef þjóðin er sundruð og þjökuð af innanlandsátökum. Lee telur það hafa verið lán Singapúr hversu seint þeir fengu sjálfstæði sitt. Þeir höfðu vítin til að varast og þar kemur að Sri Lanka sem ,,fyrirmynd"  Þeir sáu hvað var að gerast á Sri Lanka með þjóðernisátökum milli Sinhala og Tamila. Þar sem rómatíkin yfirtók skynsemina og eitt það versta sem gert var hér í  landi var að afnema ensku og gera Sinhala að þjóðtungu.  Sú ákvörðun var ekki bara sem olía á eld í þjóðernisátökum, heldur dró verulega úr samkeppnishæfni þjóðarinnar á tímum alþjóðarvæðingar.

Singapúr tók ensku upp sem þjóðtungu. Þeir kalla það að vísu vinnumál, en allir skólar kenna á ensku og séð til þess að allri læri það tunguál, óháð menningarlegum uppruna fólks. Þetta ásamt fullkomnu trúfrelsi er lykillinn að sameiningu þjóðarinnar. Ef kínverska hefðir verið tekin upp hefði það kostað átök og eins gert Singapúr menningarlega háða Kínverjum .

Lee segir að strax hafi myndast menningarlegur munur milli sín og barna sinna, en munurinn sé enn meiri milli þeirra og þeirra afkomenda. Það er orðin til ný menning í Singapúr sem á sér enga fyrirmynd. Ólíkt mörgum öðrum ríkjum í kring, eins og Malasíu, ríkir stöðugleiki og friðsemd í Singapúr. Efnahagslegur uppgangur er einstakur í landinu en Lee telur að harðar leikreglur í samfélaginu séu nauðsynlegar með ólíkan uppruna íbúana í huga. Aðspurður um hvernig honum lítist á framtíðina fyrir Singapúr segist hann ekki geta spáð um það.  Singapúr er einstök og engin samanburður til. Við höfum losaða landfestarnar (gömlu menningarheimana) og siglum því óþekktan sjó inn í framtíðina.

 Þetta er umhugsunarefni fyrir Sri Lanka sem líður fyrir þjóðernisátökin í landinu. Átök sem verða aldrei útkljáð með hernaði.  Eina leiðin til að koma á friði er að viðurkenna menningu hins aðilans en byggja ef til vill á nýrri til framtíðar.  Á Sri Lanka eru það Sinhalar sem halda um stjórnvölin en þeir eru buddatrúar. Tamilar eru fjölmennir og koma frá suður Indlandi og eru hindúar. Einnig er allstór hópur múslímar í landinu en tungumál þeirra er tamil.

 



Efnahagsmálin á Sri Lanka

Svimming ClubFyrir utan átökin í norðri við Tamil Tígra er það verðbólgan og efnahagsmálin sem eru fyrirferðamest á síðum dagblaðana hér. Verðbólga mælist í 17.3% og hefur farið vaxandi. Á sama tíma er erlend skuldasöfnun ríkisins mikil á meðan verulega hefur dregið úr erlendum fjárfestingum á Sri Lanka. Hernaðarátökin eru helst nefnd sem ástæða þess og hafa skapað mikið óöryggi og komið í veg fyrir þá efnahagslegu uppbyggingu sem mörg ríki í Suður Asíu njóta í dag.

Stjórnvöld á Sri Lanka hafa tekið hvert erlenda stórlánið eftir annað að undanförnu og er þessa dagana að bæta við einu 500 milljón dollara láni frá banka í Singapore.  Hafa verður í huga að ef þessum fjármunum er varið í hernaðarmál, er afleiddur vöxtur í hagkerfinu enginn. Það ásamt innstreymi af erlendum gjaldeyri vegna þróunaraðstoðar, sem nemur háum upphæðum og er aðallega frá Japan, ætti að skapa eftirspurn eftir rúpíum og halda verðgildi gaddmiðilsins uppi.  Líkt og jöklabréfin gera heima á Íslandi, en einhvernvegin þarf að nýta gjaldeyrinn og til þess þarf að kaupa innlenda mynt.  Lögmál markaðarins ríkja í þessu  sem öðru og við mikla eftirspurn myndast skortur og verð hækkar. Við sjáum þetta vel á háu gengi Íslensku krónunnar í dag. En skildi það vera uppi á teningnum hér á Sri Lanka?

FiskibátarNei aldeilis ekki þar sem stjórnvöld prenta peninga hraðar en eftirspurnin eftir þeim eykst. Rupian er því í frjálsu falli, er núna 113 RSL í US$, en leitnin er að gengið verði 125 áður en langt um líður. Það er svo sem gott fyrir útflytjendur en keyrir upp verðbólguna sem gerir landsmenn æfa.

Það sem vekur furðu í umræðunni hér er hversu mikil tök stjórnvöld hafa á efnahagsmálum á Sri Lanka. Nýlega hækkuðu þeir laun verkamanna á te-ökrum, sem þó eru í einkaeign. Það er talað um að þeir eigi að lækka verð á mjólk og áður hef ég sagt frá því að yfirvöld opnuðu 200 matvöruverslanir víða um eyjuna til að auka samkeppni og lækka vöruverð. Olía og bensín er niðurgreitt til viðskiptavina í gegnum ríkisbatterí. Þetta er svona Mugabe aðferð en sá misvitri maður hefur bannað launa- og verðhækkanir í Simbabwe til að stöðva verðbólguna sem er mokkur þúsund prósent.

Mér líður oft eins og ég horfi í baksýnisspegil þegar ég fylgist með umræðunni hér um efnahagsmál. Hvernig þetta var heima þar sem menn vildu handstýra vöxtum, og höfðu hálft atvinnulífið undir beinni stjórn framkvæmdavalsins og alþingis. Ég fyllist gleði yfir valdaleysi ,,Kolgríms J." og félaga í Vinstri svörtum. Ekkert af hrakspám þeirra um íslenskt efnahagslíf hefur gengið eftir og verði þeirra áhrifaleysi sem lengst. Þvert á móti búum við Íslendingar við öflugt atvinnu- og efnahagslíf og vandamálin eru bara vaxtaverkir.

Á Sri Lanka eru menn þrjátíu árum á eftir okkur og einhvernvegin virðist  málið svo augljóst í ljósi sögunnar. Þeir þurfa að semja frið við Tamila, auka frelsi og bæta lýðræðið.  Með auknu lýðræði og frelsi fjölmiðla til að upplýsa almenning er komið í veg fyrir spillingu sem því miður er landlæg hér.

Annað sem mikið er í fjölmiðlum hér er ergelsi  manna vegna tafa í umferðinni  sem koma til vegna ferða ráðherra um borgina. Stórum umferðargötum er lokað í 10 til 15 mínútur, og stundum mun lengur, til að koma bílalestum pólitíkusanna áfram á fullri ferð frá einum stað til annars. Þetta er gert af öryggisástæðum og koma í veg fyrir sprengjutilræði.  Almenningur er brjálaður út af þessu enda ótrúlega hvimleitt að bíða í langan tíma, en stoppið veldur eðlilega umferðaröngþveiti  eftir á.

HitabeltisblómÞvottur á snúru í miðborginniÉg heyrði góða sögu frá Kongó en gamli forsetinn þeirra ferðaðist ekki öðruvísi en í slíkum bílalestum með brynvörðum bílum. Einn dag fréttist að hann væri hugsanlega að koma til borgar í suðurhluta landsins. Herinn lokaði öllum götum inn í borgina og svo var beðið. Forsetinn kom ekki í þetta sinn en lokunin stóð yfir í átta tíma.


« Fyrri síða

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 34
  • Frá upphafi: 283956

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 34
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband