Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2007

Lífið í Colombo

Starfið á Sri Lanka 

tuk tuk 1Það væri auðvelt að miskilja skrif mín á þann hátt að lítið væri að gera í vinnunni og ég væri ekki sinna störfum fyrir forseta vorn og þjóð. En það er misskilningur og rétt að benda á að störf okkar hér eru flókin og vandasöm þannig að mestur tími minn hefur farið í að setja mig inn í málin. Í grófum dráttum gengur starfið út á að bæta lífsgæði fólks hér í sjávarútvegi, sem eru með fátækustu stéttum landsins. Þá erum við að tala um fátækt þar sem fólk hefur minna en 2 $ á dag í laun. Ekki spurningu um hvort foreldrar hafi efni á að kaupa fartölvu fyrir börnin sín.

Reyndar varð mér alveg um og ó þegar ég leit yfir þau verkefni sem ég á að bera ábyrgð á í starfi mínu og vissi varla hvar átti að byrja. Svo notuð séu myndhvörf þá má líkja þessu við að ætla sér að éta fíl og vita ekki hvar eigi að byrja. Bíta aðeins í rófuna eða naga hann í hnéð? Til að ráða betur við þetta mun ég fara á laugardaginn í boði Dan, lögfræðings Aury, til að skoða fíla. Eins gott að vita hvernig þessar skepnur líta út áður ég fer fræðilega að skera þær niður í steikur.

Ég mun semsagt láta það bíða aðeins að fjalla um starfið og segja frá því þegar ég er kominn betur inn í málin, frekar en að bulla eitthvað sem lítið mark er á takandi. Útskýra umhverfið og lífið hér til að byrja með og láta aðal atriðið sæta afgangi í bili.

Pólitíkin

Í pólitíkinni eru það stríðið og verðbólgan sem eru efst á baugi. Síðan 2003 - 2004 hefur verð á nauðsynjum hækkað mikið. Brauðið úr 3 kr. í 14 kr, 100 gr. af mjólkurdufti úr 80 kr. í 103 kr. og bensín úr 48 kr ltr í 70 kr. Kostnaður vegna varnarmála hefur farið úr 30 milljörðum kr. í 80 milljarða síðan 2003 en harðnandi átök við Tamila hafa þar mest áhrif.

Umferðin

Tuk tukÉg hef áður sagt frá því hvernig forsetin ferðast um en eðlilegar ástæður liggja fyrir slíkum ferðamáta. Það sem Tamilarnir hafa reynt að stilla sig inná er að mæta þessum bílalestum og sprengja sig upp um leið og þeir mæta bílnum sem forsetinn, eða einhver annar háttsettur embættismaður, er í. Þetta hefur verið reynt hér reglulega og hefur því miður oft kostað líf óbreyttra borgara. Til að útiloka þessa aðferð var ákveðið fyrir nokkrum mánuðum að allar götur í Colombo yrðu einstefnugötur. Engin kynning var gerð á þessu heldur vöknuðu menn upp einn daginn við breytinguna. Það var mikil handagangur í öskjunni næstu daganna á eftir þegar menn reyndu að rata í vinnuna eftir nýja kerfinu. En flestir eru þó á því að þetta sé til bóta. Umferðin gengur betur fyrir sig og flæðið er betra.

Það ver mikið búið að hræða mig á umferðinni hér í Colombo þar sem hún væri algjörlega vitfirrt og ruddaleg. Sri Lanka er með vinstri umferð að gömlum og góðum enskum sið sem gerir þetta svolítið erfiðara en umferðin er ekki svo slæm. Reyndar rennur hún ótrúlega ljúflega og stundum fimlega. Ökumenn eru eins og klettaklifrari sem er með öll skilningarvit á fullu við að stýra í gegnum öngþveitið og þar með heyrnina. Flautið er engin ruddagangur eða frekja. Það er stanslaust verið að gefa merki til næsta bílstjóra til að láta vita afsér en þetta hefur ekkert með dónaskap að gera. Ég ætla fljótlega að hefja akstur hér í borginni, algerlega óragur við að kasta mér út í öngþveitið óreiðuna sem virðist ríkja á götum bæjarins. Þetta er miklu betra en það lítur út fyrir að vera.

Það er rétt að segja frá fyrirbæri sem heitir túk túk og eru þriggja hjóla faratæki og eru notaðir hér sem leigubílar. Allar götur eru fullar af þessum fyrirbærum sem eru einskonar blanda af bíl og mótorhjóli. Allt tilheyrir þetta neðanjarðarhagkerfi þar sem engin ökumælir er og ekkert gefið upp til skatts. Verðið fyrir þjónustan ræðst af útliti (ríkur - fátækur) og hörku viðskiptavinarins í að prútta um verðið. Þessi tæki taka lítið pláss og henta því vel, sérstaklega þegar haft er í huga að engin opinber bílastæði eru í borginni.

Klúbbarnir

Picture 010Ég fór á Rótarýfund hjá Rotary Club of Colombo West í gær. Skemmtilegur fundur og maturinn eins og á fjögurra gafla veitingahúsi í París. Byrjað var á að hylla þjóðfánann en það er reyndar gert á hverjum morgni á öllum stofnunum á Sri Lanka. Síðan var ég látin koma upp og kynna mig og minn litla klúbb á Ísafirði. Ég notaði tækifærið og montaði mig af tengslum mínum við Sri Lanka og þeim ávexti sem af þeim hafa sprottið. Ritari og forseti klúbbsins buðu mér inngöngu og yrði hún afgreidd á stjórnarfundi nú í ágúst. Fundarstaðurinn er á Cinnamon hótelinu sem er í tveggja mínútna fjarlægð frá vinnustaðnum. Svona álíka langt eins og var að heiman yfir á Hótel Ísfjörð, þar sem Rótarýklúbbur Ísafjarðar fundar.

Um kvöldið var mér boðið út að borða á Colombo Swimming Club og gengið frá boði um inngöngu. Það er fínasti klúbbur bæjarins og er í tveggja mínútna gang frá skrifstofunni.

 

Hyde Park Corner

Picture 007Mér var bent á það í gær af vini mínum að í London stendur karlinn á kassanaum á Hyde Park Corner og heldur ræður yfir vegfarendum. Ég bý einmitt á Hyde Park Corner og má líkja blogginu mínu við að ég standi á kassa við hina rafrænu þjóðbraut og láti móðan mása. Besta mál ef einhver hefur gaman af því, þó ekki væri annar en ég sjálfur.

 

 

 

Vedda þjóðflokkurinn

innfæddirÍ dag 9. ágúst er alþjóðadagur innfæddra. Á Sri Lanka eru um eitt þúsund innfæddir, Vedda þjóðflokkurinn, og búa þeir í Oya National Park á austurströnd eyjarinnar. Tæplega 19% þeirra eru læsir og rúmlega 58% eru atvinnulausir. 41% vinna við landbúnað en tæp 9% hafa framfæri af veiðum. Tæp 2% vinna við ferðaþjónustu en það gæti aukist ef þeir byggju ekki á miðju átakasvæði. Vedda þjóðflokkurinn var fjölmennastur um þar síðustu aldamót þegar þeir voru 5000. Þeim hefur stöðugt fækkað síðan.


Klúbbar og kveðjustund

  Klúbbar í Colombo

Royal Colombo Golf ClubÞá er komið að klúbbunum hér í Colombo. Í gær var mér boðið til hádegisverðar í Royal Colombo Golf Club. Eftir stutt spjall við Club Captain var ekkert því til fyrirstöðu að gerast meðlimur. Nú er bara að byrja að æfa af kappi og ná niður forgjöfinni. Það er auðvelt þegar maður byrjar með fullt hús stiga.

Næst er það Rotaryklúbbur hér í borg. Á miðvikudag er mér boðið á fund á Cinnamon Grand hótel. Ég veit enn ekki hvað klúbburinn heitir en það verður gefið upp seinna.

Síðan er það Swiming Club of Colombo, sem er gamall enskur fyrirmannaklúbbur. Ekki er hægt að sækja um inngöngu, frekar en í Rótarý, heldur verður að mæla með þér af meðlim. Eitt af skilyrðum fyrir inngöngu er að viðkomandi komi ekki frá þjóð sem háð hefur styrjöld við Breta síðustu 100 árin. Ég heyrði einmitt sögu af því þegar bjóða átti Þóri Hinrikssyni í klúbbinn að honum var neitað vegna Þorskastríðsins. Það þurfti að beygja til reglur og tala menn til svo hann gæti orðið meðlimur. Vonandi hafa Bretar fyrirgefið Íslendingum þessa smán þannig að ég fái nú inngöngu í þennan rómaða klúbb.

Aury kvödd

GoflvöllurÍ gærkvöldi var svo komið að kveðjustundinni fyrir Aury. Vinir hennar buðu til veislu á Trans Asia hótelinu hér í Colombo. Enn eitt glæsihótelið, með lifandi indverskri tónlist í anddyrinu og flottheitin yfirgengileg. Allar tegundir af ferskum fiski, rækjum og humar lá á ís utan við veitingastaðinn, sem var tælenskur.

Þegar við förum út að borða þá er tilgangurinn ekki að borða sig saddan eða fá næringu. Þó það sé reyndar megin tilgangur með því að matast, per se. Hugmyndin er að njóta matarins og upplifa eitthvað sérstakt eða notalegt. Láta leika við bragðlaukana og ekki síður að tryggja umhverfi og félaga sem lætur manni líða vel. Hér var allt þetta fyrir hendi og skortir lýsingarorð til að útskýra upplifunina.

 

Tælenskur matur

Frænka ShriansMér dettur helst í hug að nota myndhvörf og maður ímyndi sér að hann ætli í gönguferð upp á Himmelbjerg í Danmörku. Lítill hóll sem ku vera grasi vaxinn og varla að maður taki eftir hækkuninni á leiðinn upp á toppinn sem er í um 200 metra hæð. En ferðin er raunverulega farin í heiðskýru upp á Hlöðufell, Snækoll eða verður ganga um Hornvík. Það sem fyrir augun ber er svo ótrúlega fallegt og upplifunin svo sterk að lýsingarorð skortir. Nema þá helst í bundnu máli. Ég treysti mér ekki til að yrkja um tælenska matinn í gærkvöldi en bragðlaukarnir fóru í íslenska fjallgöngu í björtu hlýju sumarveðri á Fróni. Það var dekrað við þá, þeim endalaust komið á óvart og þeim strokið og stundum fengu þeir hressilegt nudd.

Hópurinn var skemmtilegur og áfram fékk ég að njóta þess að vera í ,,fjölskyldunni" og vera tekið sem slíkum. Mikið spurt um Jón Gunnar, sameiginlegan erfingja okkar Aury og minnið í símanum mínum er að fylllast af númerum vina minna í Colombo.


Pólitík í hitabeltinu

Mount Lavinia

Hotel Mount Lavinia

Eftir heimsóknir til ættingja Aury og skoðun á húsinu hennar í Colombo var farið á Mount Lavinia Hotel þar sem við áttum stefnumót við Ron og Dan.

Þetta glæsilega hótel var byggt af landstjóra Breta á Sri Lanka, Sir Thomas Maitland, snemma á nítjándu öld. Hótelið heitir í höfuð á hjákonu hans sem hann byggði hús fyrir við hliðina á landstjórasetrinu og lét reyndar gera leynigöng á milli til að auðvelda heimsóknir í dyngju hennar. Lavinia var af portúgölskum ættum en Portúgalar voru fyrstir til að leggja Sri Lanka undir sig sem nýlendu. Þeir náðu reyndar aldrei hálendinu í Kandy undir sig frekar en Hollendingar seinna en Bretunum tókst að ljúka því verki árið 1815.

Hótelið er stórglæsilegt, byggt við ströndina í útjaðri Colombo og eftir góðan sundsprett í lauginni fengum við okkur hádegisverð á hlaðborði hússins, sem var dæmigerður Sri Lankan matur. Mikið af karrý, bæði fiskur og kjöt með hrísgrjónum og fersku salati. Útsýnið yfir ströndina er stórfenglegt og utan við gluggan rugguðu pálmatrén rólega í vestan golunni. Í fjarska mátti sjá World Trade Center turnana þar sem hafði skokkað fyrr um morguninn.

Meiri heimsóknir

Aury og brúðarmærÍ eftirmiðdaginn heimsóttum við Dr. K. Sivasubramaniam sem er fræðimaður á sviði fiskveiða og er sérhæfður í túnfiskum, komin á eftirlaun eftir langt starf fyrir FAO. Hugsanlega getur hann orðið að liði þegar kemur að öflun gagna fyrir meisaritgerðina sem ég stend frammi fyrir og mikill fengur í vináttu hans og væntanlegri hjálp.

Aury þekkir öll stórmennin í Colombo og eftir smá hvíld heima í íbúð er ég sóttur í kvöldverð. Nú á enn einu glæsihótelunum, Cinnamon Grand, með vini hennar og líflækni, ásamt eiginkonu. Með í för er vinkona Aury, milljarðamæringurinn Rohina sem þrátt fyrir sextíu árin heldur sér ótrúlega vel til, hlaðin skartgripum.

Hitabeltið

sunnudd 017Við kvöldverðin var mikið talað um hálendi Sri Lanka og sérstaklega Nuwara Elya þar sem Rohina á stóran og glæsilegan fjallakofa. Það er ákveðið að taka mig þangað en ég held ég bíði eftir heimsókn eiginkonunnar til Sri Lanka í þá ferð. En lýsingar þeirra á þessum dásamlega stað veita fyrirheit um skemmtilega ferð ósnortna náttúru upp í fjöllum eyjarinnar. Dýralíf er fjölskrúðugt þar með fílum, krókódílum, hlébörðum, öpum og hundruðum tegundum af fuglum. Á Sri Lanka eru yfir 540 tegundir af fuglum.

Ég reiknaði út í fljótheitum að miðað við staðsetningu Colombo, 7° Norður, er sólinn enn fyrir norðan okkur í hádegisstað. Það verður ekki fyrr en um 20. september að hún verður beint yfir höfði okkar en eftir það fer hún að halla í suður. 21. desember verður hún beint yfir 22° breiddarbaug suður í hádegisstað.

BlómÉg er sem sagt staddur í miðju hitabeltinu. Enda dýrlífið fjölskrúðugt og ekki síður flóran. Ég fór með Aury í morgunverð til vina hennar Surei og Bobby í morgun. Þau sömu og fyrsti kvöldverður minn var hjá á heimili í Colombo. Þau búa í skógi vöxnu hverfi borgarinnar þar sem skurðir og mýrlendi er sem eru ástæða þess að byggð er ekki þétt þar. Þau rækta all kyns blóm og tré og er litadýrðin ótrúleg. Stoltust eru þau þó af orkendíum sem þau hafa í bakgarðinum en þær voru reyndar ekki í blóma núna. Flestar jurtir blómstra mörgum sinnum á ári enda er lítill munur á árstíðum hvað hitastig varðar.

Sri Lanka pólitík

Blóm2Smá fréttir úr pólitíkinni hér á Sri Lanka. Ríkisstjórninni líkaði ekki hvað smávörukaupmenn hækkuðu vöruverðið og kostuðu með því verðbólgu og ólgu meðala þjóðarinnar. Þá var réðist ríkið í að opna 200 kaupfélög víðsvegar um landið til að tryggja samkeppni. Þetta er nú verðugt umhugsunarefni fyrir okkur Íslendinga hvort við getum náð niður verðbólgunni með svona handstýringu. Einhvernvegin minnir þetta á gamla tíma á Íslandi sem undirritaður saknar lítið. Ég sé þó fyrir mér að Vinstri grænir gætu tekið þetta upp í stefnuskrá og því er hugmyndinni hér með komið á framfæri.

 

Annars er pólitíkin hér í uppnámi þar sem einn stjórnarflokkurinn hefur bakkað út úr ríkisstjórn og eru atkvæði nú hníf jöfn í þinginu. Á Sri Lanka er franska mótelið notað þar sem forseti er kosinn sérstaklega og hann velur sér síðan ráðherra. Reyndar hefur hann sunnudd 021valið bræður sína til setu í mikilvægustu ráðherrastólunum, en hann treystir þeim reyndar best af öllum. Annar þeirra sem sér um varnarmál og bjó í BNA með lifibrauð sem skemmtikraftur (trúður). En það þarf ekki að vera honum til vansa þar sem miklir stjórnmálaskörungar hafa einmitt komið úr skemmtanabransanum. Regan er einn merkasti forseti Bandaríkjanna og óhætt að fullyrða að ekki veiti af Tortímanda til að stjórna fimmta stærsta hagkerfi heims, Kaliforníu. Engin venjuleg vettlingatök hafa dugað þar hingað til og ekki að sjá annað en Arnold Schwarzenegger höndli þetta vel.

 

Dagskráin

sunnudd 013Á mánudag er boðið til hádegisverðar í Konunglega golfklúbbinn sem vonandi leiðir til inngöngu síðar. Á miðvikudag er mér boðið á Rótarýfund á hótel Cinnamon Grand og bölva því nú að hafa ekki tekið með mér fána frá Rótarýklúbbi Ísafjarðar. engin


Að sprengja kultúrmúrinn

 

sendiráðiðÚti að skokka

,,Morning has broken" glymur í ipod-inum meðan ég þýt meðfram ströndinni frá Golfis hótelinu áleiðis að World Trade Center turnunum. Þetta er snemma í morgunsárið en árisulir Colombobúar eru þó mættir á þennan eina skokkstað bæjarins. Og hann er góður. Við hliðina brotar vestan aldan úr Indlandshafi á stöndinni og útifyrir sjást risa flutningaskip og olíuskip. Mér finnst gaman af slíkum skipum og sé hagvöxtinn fyrir mér. Það þarf ekki að afsaka flutningabíla á vegunum heima fyrir mér.

Eftir tvo kílómetra er komið að bannsvæði hersins og ekki annað að gera en snúa við og fara bara fleiri ferðir. Í þriðju ferð þjóta ungir menn úr róðraliði hersins framúr mér eins og ég standi kjurr. Þetta gengur ekki og nú er sprett úr spori. Ég held lengi í við þá en farinn að velta því fyrir mér hvar ég muni detta dauður niður af kappinu. En mér er borgið þar sem þeir halda á inn á bannsvæðið en ég VERÐ að snúa við. Eftir fjórar ferðir fram og til baka er ég sáttur og lít eftir bílstjóranum Kumara.

Redderingar

Þriðji dagurinn minn fór vel í Colombo. Tengdamóðir dóttur minnar sótti mig um ellefu leytið í vinnuna til að arrensera hlutum. Fyrst var farið í bankann til að opna reikning og þar voru að sjálfsögðu vinir hennar við stjórnvölin. Bankastjórinn og framkvæmdastjórinn tóku okkur út í hádegisverð á kínveskan matsölustað. Einhvernveginn var kínamaturinn betri þarna en ég hef áður fengið.

Það er nú tryggt að ég þarf aldrei að fara í biðröð í bankanum mínum þar sem ég fer beint inn til framkvæmdastjórans ef mig vanhagar um eitthvað. Reyndar kom í ljós að þetta útibú Commercial Bank þjónar einmitt sendiráði Íslands og ICEIDA.

Að komast inn í samfélagið

Það athyglisverðasta sem ég upplifði þó í gær var eftir síðdegisdrykk í klúbbhúsi atvinnulífsins með Aury og vinum hennar. Við vorum á leið út í bíl þegar umferðagatan tæmdist utan við klúbbinn. Ég gekk áleiðis að götunni en var stoppaður af hermanni með alvæpni. Allt í einu komu þrjár tvöfaldar raðir af mótorhjólum á fleygi ferð með alvopnaðan farþega að aftan. Síðan komu herjeppar og síðan brynvarður bíll og þar á eftir fleiri mótorhjól og síðan sjúkrabíll og fleiri herbílar. Þarna var varnarmálaráðherrann, bróðir forsetans, á ferð en þetta er nauðsynlegur ferðamáti æðstu manna af öryggisástæðum. Tígranir sitja stöðugt um líf þeirra og því nauðsynlegt að gæta fyllstu varúðar.

Þetta kvöld var snætt á því flottasta veitingahúsi sem ég hef komið á. Staðurinn er á indversku hóteli í miðbæ Colombo og ekkert til sparað að gera staðinn og umhverfið eins glæsilegt og hugsast getur. Aury hafði boðið fjórum góðum vinum sínum til að kynna okkur og vel fór á með hópnum. Það var einmitt þá sem ég uppgötvaði seinna undrið þennan dag. Ég hafði sprengt Kultúrmúrinn með því að fara í gegnum hann á ógnar hraða.

Milli mín og þessa fólks var bókstaflega engin spenna. Mér var tekið eins og ég væri einn af hópnum enda fjölskyldumeðlimur. Saman eigum við Aury einn einsárs gamlan og það dugar til að mér sé algjörlega treyst og komið fram við mig eins og ég hefði alist upp með þeim. Það er býsna notaleg tilfinning.

Meðan á borðhaldinu stóð spilaði indversk hjómsveit tónlist sem bókstaflega tók mann á flug. Maður sveif með tónunum sem voru ljúfir og notalegir. Meðal annars spiluðu þeir lag fyrir Aury um æskuslóðirnar í Anuradhapura þar sem móðir hennar býr nú.

Brennsla eftir veislur

Okkur var ekki til setunar boðið fram á kvöld þar sem næsti dagur yrði tekinn snemma. Ég hafði minnst á við skrifstofustjórann fyrr um daginn hvort bílstjórinn, Kumara, gæti skutlað mér um níu leitið eitthver þar sem hægt væri að skokka. Það var alveg sjálfsagt en níu væri allt of seint. Það væri ekki vit að hlaupa af stað seinna en klukkan sjö.

morgunmaturEftir hlaupið skutlaði Kumara mér í vinnuna en þar er ekki unnið á laugardögum. Ég skellti mér í sturtu sem fylgir skrifstofunni minni og næ hér þriggja tíma vinnu áður en Aury sækir mig til að hitta fleiri vini og vandamenn. Morgunmatinn hafði ég tekið með mér að heiman og læt fylgja hér með mynd af veislunni. Rauði ávöxturinn er einmitt rambutan sem ég smakkaði í fyrsta sinn í morgun og ekki olli hann mér vonbrigðum.

Í Tunguskógi

Í kvöld verður mikil veisla í Birkilaut eins og endranær á laugardegi fyrir verslunarmannahelgi. Yfirleitt hefur verið boðið upp á nautasteik en nú er brugðið útaf með austurlenskum karrýrétt. Þó ég sé fjarri góðu gamni þá veit ég að eldamennskan hjá Shiran mun gleðja bragðlauka fjölskyldu og bestu vina minna sem hafa möguleika á að mæta til þessarar veislu. Ég óska þeim og fjölskyldu minni góðrar skemmtunar og bið að heilsa.


Dagur 2

 

Formáli

Þegar ég réði mig hjá ICEIDA stóð til að ég færi til Afríku, nánar tiltekið til Malavi. Síðan fékk ég hringingu og var spurður hvort mér væri sama þó ég færi til Sri Lanka. Að sjálfsögðu fagnaði ég því þar sem tengsl mín við landið eru töluverð eins og áður hefur verið bent á. Það sem meira er að tengdamóðir dóttir minnar, sem er heimamaður þó hún búi á Íslandi, hefur dvalið hér í allt sumar og nú sér hún til þess að ég falli inn í samfélagið og aðlagist á mettíma.

Aury og PamHúshjálpin

Þegar neyðin er stærst er hjálpin næst. Hvað gerir maður þegar ráða þarf þjónustustúlku og viðkomandi er í fjarbúð frá sinni heitt elskuðu eiginkonu? Til að allt verði nú í góðu lagi þarf að fylgja slíkri ráðningu fullt traust og álit einhvers sem er algjörlega treystandi í slíkum málum. Það besta við þessar aðstæður væri að láta tengdamóður sína velja þjónustustúlkuna, en slíkt er ekki mögulegt í mínu tilfelli.

Næst besta lausnin í málinu var alveg borðleggjandi, það er að láta tengdamóðir dóttur minnar um málið. Eftir hádegið í gær hittust þær hér á skrifstofunni, Aury og Pam Viere. Þær smullu saman og nú var farið að ræða hvernig ætti að hugsa um mig þannig að ég hefði það sem best. Hvernig morgunverð ætti að vekja mig upp með og hvað ég vildi borða þegar Pam sér um kvöldverð fyrir mig. Og síðan hvað vantaði í íbúðina í Hyde Park Residency til að fullnægja öllum þörfum mínum.

Innkaupin

Eftir úttekt á íbúðinni var farið út að versla allar nauðþurftir. Byrjað á pottum, pönnum, diskum og hnífapörum. Meðan ég ræddi við eiganda verslunarinnar um sjávarútveg, góðan vin Aury, sáu konurnar um innkaupin. Það eina sem ég lét mig varða var að bæta tappatogara á innkaupalistann. Að öðru leiti sáu konurnar um málið og hér með hef ég ,,aflært" innkaup. Rétt er að taka fram að ég var heltekin rauðsokkuveikinni heima. Látin skúra, vaska upp, þvo þvott og jafnvel strauja.

Aury krafist þess að borga reikninginn en ég varð þó að greiða henni eina evru sem ég átti í vasanaum. Í innkaupakörfunni var hnífur og slíkt má ekki gefa samkvæmt Búddisma, og því greiddi ég með skiptimyntinni.

Næst var það matarinnkaup og sama var þar uppi á teningnum, fyrir utan yfirheyrslu um hvað mér líkaði og hvað ekki. Það var greinilegt að konunum kom vel saman og tengdamóðir dóttir minnar hafði samþykkt Pam, og eiginkona mín getur treyst þeim dómi. Pam er sextíu og tveggja ára en talar ensku reiðbrennandi. Frænka skrifstofustjórans í sendiráðinu og því er traustið algjört. Hún þarf reyndar frí á sunnudagsmorgnum þar sem hún þarf að fara til kirkju, en ég get vel lifað við það.

Þetta var dásamlegt. Ég elti þær með körfuna án þess að hugsa nokkuð um innkaup og næst sá ég straubretti og straubolta bætast í safnið. Það er toppurinn í tilverunni að fá allt straujað af sér og koma á kvöldin að samanbrotnum skyrtum og buxum.

Heimsókn No 1

Um kvöldið var farið í fyrsta heimboðið til vina Aury. Þau verða fleiri þar sem næstu fjórir dagar eru þétt skipulagðir í að kynna mig og koma mér inní samfélagið.

Húsfreyjan, Sury, er sérfræðingur í skartgripum og eiginmaðurinn lögfræðingur og þau voru ásamt syni sínum og dóttir. Við áttum mjög notalega kvöldstund og maturinn var algjört hnossgæti. Frá því að ég steig fæti inn fyrir þröskuld hússins og þar til ég kvaddi var bara töluð enska. Heimilisfólkið talað ensku sín á milli til að láta mér líða sem best. Ég er ekki viss um að Íslendingar myndu gera það en okkur hættir til að skipta yfir á ilhýra íslenskuna þegar líður á kvöldið þó með séu erlendir gestir.

ávextirAf ávöxtunum skulu þið þekkja þá

Aury hafði tekið mig á markaðinn fyrir kvöldmatinn í gær til að kynna mig fyrir vinum sínum hjá Rathnayaka Food Center sem selja ávexti og grænmeti. Það er erfitt að lýsa ávöxtunum hér á Sri Lanka. Ég fékk að smakka ýmsa sem ég hef aldrei séð áður og bragðið er himneskt. Í morgun voru einmitt þessir ávextir á morgunverðarborðinu mínu. Mengosten er rauður ávöxtur á stærð við tómat, með þykkri leðurkenndri húð að utan en hvítur kjarni inn í sem lítur út eins og hvítlaukur. Og bragðið er ævintýralega gott. Síðan fékk ég það besta Mango sem ég hef nokkurn tíman smakkað. Einnig var þarna Ramuda sem er hvítur ávöxtur inni í gulum berki og í honum eru stórir svartir steinar. Þetta var eins og að vera kominn í Þúsund og eina nótt. Engin ávöxtur sem ég hef bragðað komst í hálfkvist við Ramuda. Enn á ég eftir að smakka Rambutan en nú er einmitt uppskeran á þeim eðal ávöxt. Hann er svo eftirsóttur að verðir gæta trjánna meðan uppskerutíminn er. Ávöxturinn er rauður á litin og með brodda eins og ígulker en í framtíðinni mun koma í ljós hvernig hann er að innan.

Verðir, löggur og hermenn

Talandi um verði. Ég held að annarhvor maður á Sri Lanka sé vörður, lögga eða hermaður. Búningarnir eru í öllum litum og gerðum en þeir eru alls staðar. Það eru tveir hér við hliðið á sendiráðinu. Gatan sem við erum við er lokuð með hliðum og a.m.k. fjórir hermenn með og alvæpni tvær löggur við hvorn enda. Reyndar er skrifstofa forsetans við hliðina á okkur og því er þetta mjög viðkvæmt svæði.

Ég hef áður sagt frá krákuverðinum en í öllum verslunum og öðrum þjónustumiðstöðvum er allt fullt af vörðum. Þrír verðir standa við hliðið þar sem ekið er að Hyde Park Residency. Í lobbíinu eru þrír verðir til viðbótar og sjálfsagt einn eða tveir á bílastæðunum í kjallaranum. En ástandið er reyndar ótryggt hér í landi og dregur þetta alld dám af því.


Fyrsti dagur á Sri Lanka

fáninnÞá er fyrsti vinnudagurinn í Colombo að baki. Ég lenti hérna að kvöldi þriðjudags og var sóttur á flugvöllinn af skrifstofustjóra sendiráðsins, Mr. Dias og bílstjóranum mínum Mr. Kumara. Þeir skutluðu mér upp í íbúðina sem verða heimkynni mín næstu tvö árin og er á 7. hæð á Hyede Park Resident í miðborg Colombo. Frábær íbúð, 160 m2með öllum hugsanlegum þægindum. Húsið og íbúðin minna svolítið á lúxushótel enda verustaður fyrirfólks hér í borginni.

Kumara er að verða mikilvægasti maðurinn í mínu lífi þessa daganna. Ég gæti ekki án hans verið. Hann sækir mig á morgnana og ekur mér heim á kvöldin. Fari ég á bar eða veitingahús eftir vinnu skutlar hann mér þangað og bíður eftir mér. Þurfi ég að komast í golf yfir helgina, sér hann um það.

Fyrsti dagurinn var ljúfur hér í sendiráðinu og mín beið rúmgóð og notaleg skrifstofa. Allt uppsett og tilbúið og komið á tölvusamband og bein símalína til Íslands (gunnar@iceida.is)

Sri LankaÉg ætla ekki að þylja upp upplýsingar um Sri Lanka en bendi á tengil Þróunarsamvinnustofnunar til upplýsinga.

Í hádeginu matreiddi ráðskona sendiráðsins kjúkling í karrý en um kvöldið var ákveðið að hitta landa okkar í friðargæslusveitunum. Eftir vinnu fórum við tveir Íslendingarnir sem vinnum í sendiráðinu á Gulf hotel sem er eitt það glæsilegasta í borginni, hér rétt hjá niður við sjóinn. Hótelið er í klassískum nýlendustíl og ekki laust við að manni líði eins og breskum nýlenduherra þegar þangað er komið. Þjónarnir bókstaflega stjana við mann og eru á hverju strái. Það merkilegasta þennan daginn upplifði ég einmitt á Gulf hotel. Það var krákuvörðurinn. Krákuvörðurinn stendur með langa leðuról í hótelgarðinum og heldur þessum fuglum frá gestunum og kemur í veg fyrir óþægindi af þeirra völdum. Það er ekkert til sparað að láta manni líða vel í þessu landi.

Seinna hittum við þrjá landa okkar á Gallery resturant sem var byggt upp á vinnustofu frægasta arkitekts Sri Lanka. Þau voru þrjú úr friðargæslusveitum Íslands og við tveir úr sendiráðinu sem jafnframt eru skrifstofur ICEIDA á Sri Lanka. Það eru átta Íslendingar að vinna fyrir SLMM (friðargæslan) og starfa við erfiðar aðstæður og oft hættulegar. Tveir borðfélagar þetta kvöldið voru að störfum í Colombo en sú þriðja var að koma úr hvíld frá Tælandi eftir margra mánaðar veru í norður Afganistan við friðargæslustörf þar.

Mér leið eins og skólastrák sem væri á fyrsta degi í heimavistaskóla þegar ég hlustaði á sessunauta mína þetta kvöld. Tveir höfðu unnið við friðargæslu í Bagdad og Afganistan og voru núna að fást við átökin á Sri Lanka. Þeirra beið ferð á ófriðarsvæðin á norð- austur hluta eyjarinnar, sem var vel undirbúin, enda hættuleg við vaxandi átök milli stjórnarinnar og Tamil Tígrana. Starf þeirra byggist mikið á að vinna með báðum aðilum, hafa traust þeirra til að afla sem bestra upplýsinga um ástandið og meta hvað er framundan. Meðal annars fáum við starfsmenn sendiráðins trúnaðarupplýsingar um ástandið á Sri Lanka þannig að við getum haldið okkur frá átökum eins og mögulegt er. Átökin gera starfið erfitt þar sem stór hluti af verkefnum okkar eru á þeim svæðum sem mestu átökin eru í dag.

Stúlkan í hópnum starfar við friðargæslu í Afganistan eins og áður segir og verður þar allavega næstu sex mánuðina. Hún hefur mikla reynslu og hefur meðal annars starfað í Afríku í tvö ár og talar fimm eða sex tungumál.

Við fengum okkur hestaskál á The Kriket Club sem er eins enskt og hugsast getur. Mér er sagt að vilji ég vera samræðuhæfur í þessu landi verði ég að fylgjast með þjóðaríþróttinni, Krikket, og skilja leikinn og fyljast með því sem þar er að gerast. Ég lærði á hafnarbolta í Kanada svo Krikket getur ekki verið svo flókið. Reyndar tekur einn leikur upp í heila viku en þolinmæðin er lykilorð hér á Sri Lanka.

ColomboÁ leiðina í vinnuna í morgun helli rigndi enda er tími vestur monsún síðsumars og á haustin. Besta veðrið er í desember og fram í apríl en þá er þurrt og bjart og sjórinn hér við suðurströndina verður heið blár og tær. Fyrsta verk mitt var að ráða húshjálp sem sjá mun um að halda íbúðinni hreinni, elda fyrir mig morgunmat og þvo og strauja. Það verða viðbrigði fyrir undirritaðan sem tekið hefur fullan þátt í húsverkum hingað til að sjá óhreinukörfuna breytast í straujaðar samanbrotnar skyrtur eins og um töfra væri að ræða. Ég held ég þurfi að aflæra alla þessa rauðsokkumenningu frá Íslandi meðan ég dvel hérna.


« Fyrri síða

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 35
  • Frá upphafi: 283925

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 34
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband