Fyrsti dagur á Sri Lanka

fáninnÞá er fyrsti vinnudagurinn í Colombo að baki. Ég lenti hérna að kvöldi þriðjudags og var sóttur á flugvöllinn af skrifstofustjóra sendiráðsins, Mr. Dias og bílstjóranum mínum Mr. Kumara. Þeir skutluðu mér upp í íbúðina sem verða heimkynni mín næstu tvö árin og er á 7. hæð á Hyede Park Resident í miðborg Colombo. Frábær íbúð, 160 m2með öllum hugsanlegum þægindum. Húsið og íbúðin minna svolítið á lúxushótel enda verustaður fyrirfólks hér í borginni.

Kumara er að verða mikilvægasti maðurinn í mínu lífi þessa daganna. Ég gæti ekki án hans verið. Hann sækir mig á morgnana og ekur mér heim á kvöldin. Fari ég á bar eða veitingahús eftir vinnu skutlar hann mér þangað og bíður eftir mér. Þurfi ég að komast í golf yfir helgina, sér hann um það.

Fyrsti dagurinn var ljúfur hér í sendiráðinu og mín beið rúmgóð og notaleg skrifstofa. Allt uppsett og tilbúið og komið á tölvusamband og bein símalína til Íslands (gunnar@iceida.is)

Sri LankaÉg ætla ekki að þylja upp upplýsingar um Sri Lanka en bendi á tengil Þróunarsamvinnustofnunar til upplýsinga.

Í hádeginu matreiddi ráðskona sendiráðsins kjúkling í karrý en um kvöldið var ákveðið að hitta landa okkar í friðargæslusveitunum. Eftir vinnu fórum við tveir Íslendingarnir sem vinnum í sendiráðinu á Gulf hotel sem er eitt það glæsilegasta í borginni, hér rétt hjá niður við sjóinn. Hótelið er í klassískum nýlendustíl og ekki laust við að manni líði eins og breskum nýlenduherra þegar þangað er komið. Þjónarnir bókstaflega stjana við mann og eru á hverju strái. Það merkilegasta þennan daginn upplifði ég einmitt á Gulf hotel. Það var krákuvörðurinn. Krákuvörðurinn stendur með langa leðuról í hótelgarðinum og heldur þessum fuglum frá gestunum og kemur í veg fyrir óþægindi af þeirra völdum. Það er ekkert til sparað að láta manni líða vel í þessu landi.

Seinna hittum við þrjá landa okkar á Gallery resturant sem var byggt upp á vinnustofu frægasta arkitekts Sri Lanka. Þau voru þrjú úr friðargæslusveitum Íslands og við tveir úr sendiráðinu sem jafnframt eru skrifstofur ICEIDA á Sri Lanka. Það eru átta Íslendingar að vinna fyrir SLMM (friðargæslan) og starfa við erfiðar aðstæður og oft hættulegar. Tveir borðfélagar þetta kvöldið voru að störfum í Colombo en sú þriðja var að koma úr hvíld frá Tælandi eftir margra mánaðar veru í norður Afganistan við friðargæslustörf þar.

Mér leið eins og skólastrák sem væri á fyrsta degi í heimavistaskóla þegar ég hlustaði á sessunauta mína þetta kvöld. Tveir höfðu unnið við friðargæslu í Bagdad og Afganistan og voru núna að fást við átökin á Sri Lanka. Þeirra beið ferð á ófriðarsvæðin á norð- austur hluta eyjarinnar, sem var vel undirbúin, enda hættuleg við vaxandi átök milli stjórnarinnar og Tamil Tígrana. Starf þeirra byggist mikið á að vinna með báðum aðilum, hafa traust þeirra til að afla sem bestra upplýsinga um ástandið og meta hvað er framundan. Meðal annars fáum við starfsmenn sendiráðins trúnaðarupplýsingar um ástandið á Sri Lanka þannig að við getum haldið okkur frá átökum eins og mögulegt er. Átökin gera starfið erfitt þar sem stór hluti af verkefnum okkar eru á þeim svæðum sem mestu átökin eru í dag.

Stúlkan í hópnum starfar við friðargæslu í Afganistan eins og áður segir og verður þar allavega næstu sex mánuðina. Hún hefur mikla reynslu og hefur meðal annars starfað í Afríku í tvö ár og talar fimm eða sex tungumál.

Við fengum okkur hestaskál á The Kriket Club sem er eins enskt og hugsast getur. Mér er sagt að vilji ég vera samræðuhæfur í þessu landi verði ég að fylgjast með þjóðaríþróttinni, Krikket, og skilja leikinn og fyljast með því sem þar er að gerast. Ég lærði á hafnarbolta í Kanada svo Krikket getur ekki verið svo flókið. Reyndar tekur einn leikur upp í heila viku en þolinmæðin er lykilorð hér á Sri Lanka.

ColomboÁ leiðina í vinnuna í morgun helli rigndi enda er tími vestur monsún síðsumars og á haustin. Besta veðrið er í desember og fram í apríl en þá er þurrt og bjart og sjórinn hér við suðurströndina verður heið blár og tær. Fyrsta verk mitt var að ráða húshjálp sem sjá mun um að halda íbúðinni hreinni, elda fyrir mig morgunmat og þvo og strauja. Það verða viðbrigði fyrir undirritaðan sem tekið hefur fullan þátt í húsverkum hingað til að sjá óhreinukörfuna breytast í straujaðar samanbrotnar skyrtur eins og um töfra væri að ræða. Ég held ég þurfi að aflæra alla þessa rauðsokkumenningu frá Íslandi meðan ég dvel hérna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 30
  • Frá upphafi: 284009

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 29
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband