Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Kafli 3 - Stormur á Ermasundi

Captain CookVið styttum okkur leið til Troon í gegnum Crinan canal og sluppum þannig við að sigla fyrir Mull of Kintyre höfðann.  Enda þreytandi að hökta þetta á vélinni með tilheyrandi titring og hávaða.

Í Troon beið siglan okkar og kranabíll mættur til að koma henni fyrir, enda rúmlega tíu metra há.  Við gátum varla beðið með að sigla út á Írska hafið en stefnan var tekin á Dunmore East á Íralandi.  Ásthildur systir bættist í áhöfnina til að taka þennan áfanga með okkur áður en siglt yrði lengra í suður.

Það var dásamleg tilfinning að finna suðaustan kaldan taka í seglin og Bonny lagðist á stjórnborða við átökin.  Við sigldum seglum þöndum suð-vestur í átt að Írlandi og brakaði í rá og reiða.  Kampakát áhöfnin tók þátt í dagsverkum og skiptist á vöktum meðan sauð á súðum á Bonny.  En allt í einu var gerð uppreisn um borð þegar Ásthildur spurði hversvegna ég væri skipstjóri á skútunni.  Mér varð fátt um svör og áttaði mig á því að hvorki hafði ég hlotið þennan titil með lýðræðislegum hætti, né tók þessi völd frá guði eins og konungar fyrri alda.  Mér tókst þó að stynja upp að það væri vegna þess að ég kynni siglingafræði og þekkti reglur hafskipasiglinga.  Hún lét sér ekki segjast og þusti niður í kortaklefa þar sem hún þreif sjókort, asimot hring og sirkil og byrjaði að setja út stefnur og staðsetningar.  Hún áttaði sig á því að henni yrði ekki sú kápan úr klæðinu að ná tökum á siglingafræði á tíu mínútum, sem tekið hafði okkur Stínu tæp tvö ár að læra.  Uppreisnin gekk því yfir og valdi skipstjóra var ekki hróflað.

guinnesVið komum til Dunmore East að morgni dags og þar biðu írskir vinir okkar John og Paul sem höfðu verið með okkur á Kibbutz í Ísrael og síðan unnið í saltfiski á Ísafirði.  Það tók við tæp viku veisla í Írlandi þar sem við nutum allra lystisemda eyjaskeggja, allt frá þjóðlagatónlist til Guinness.  Vinir okkar báru okkur á höndum sér og tíminn á eyjunni grænu var ógleymanlegur fyrir áhafnarmeðlimi. 

En það var komið að leiðarlokum og áður en ferðinni var haldið áfram kvöddu Bárður, Elli og Ásthildur og héldu heim á leið.  Við Stína vorum tvö eftir í áhöfninni en við tókum tvo farþega til Lands End á suður odda Wales.  John og vinkona hans, Trina, ákváðu að prufa sjómennsku og fljóta með yfir Írska hafið til Bretlands. 

Þau voru óskaplega sjóveik á leiðinni og þegar við komum að höfninni í St. Ives gátu þau ekki beðið með að komast í land.  Eftir kveðju kvöldverð með þeim og góðan nætursvefn um borð í Bonny, héldum við Stína ferðinni til Miðjarðarhafsins áfram.  Við fengum ágætan byr fyrir Lands End og tókum stefnuna síðan á norðurströnd Frakklands.

Eftir fjögurra tíma siglingu út á Ermasundið í góðum byr bilaði sjálfstýringin.  Það var einhver lunta í mér og ég gat ekki losnað við einhver óhug varðandi ferðalagið.  Ég vildi snúa við en Stína tók það ekki í mál.  Við körpuðum um málið í klukkutíma þar til ég fékk að ráða för.  Við snérum við og héldum áleiðis til Falmouth á suðurströnd Bretlands.

Þremur tímum seinna skall á ofsaveður og fljótlega var komið niða myrkur.  Við vorum með stormseglið eitt uppi og reyndum að koma auga á innsiglingarljósin í Falmouth.  Í gegnum storminn og sjávarlöðrið grillti í vita og síðan grænt hafnarljósið.  Veðrið var kolvitlaust og þurfti að nota öryggisbelti til að fara fram á og taka niður seglið.  Við keyrðum á vélinni inn í höfnina og náðum að festa okkur við bauju innan við brimbrjótinn.  Það hrikti í skútunni um nóttina þegar óveðurskviðurnar gengu yfir og okkur var létt að vera komin í örugga höfn.

Lands EndDaginn eftir lásum við um þetta veður í blöðunum, sem var eitt það versta í manna minnum að sumri til í Bretlandi.  Mannvirki í landi höfðu skemmst og þrjár skútur farist skamt undan Falmouth.  Veðrinu olli djúp lægð sem óvænt hafði komið úr vestri, langt fyrir sunnan Ísland og fór beint yfir Ermasundið. 

Það var frá einhverju að segja og skrifa Mogganum um ævintýri okkar, sem birtust umsvifalaust á síðum blaðsins.  Með voru myndir teknar á filmurnar góðu sem ritstjórinn hafði látið færa okkur.


Kafli 2 - Stornoway

Stornoway

Það var komið undir kvöld þegar við sigldum inn í höfnina í Stornoway, sem er höfuðstaður Herbitis eyjaklasans.  Við vörpuðum ankeri í höfninni en áhöfnin var þreytt eftir að kúldrast í veltingi yfir hafið og því hvíldinni fegin.  Við höfðum ekki fest svefn þegar bátur lagði harkalega upp að skútunni og hróp og köll gullu við.  Þegar við komum upp á dekk sáum við björgunarbát frá strandgæslunni og borðalagða náunga sem beindu kösturum að okkur.  ,,Are you Icelandic?" var kallað og þegar við svöruðum því játandi var sem þeim létti.  Skipstjórinn kom um borð til okkar og sagði okkur að kall hefði komið frá Slysvarnarfélags Íslands um að leita að týndri Íslenskri skútu sem ekkert hefði frést af í langan tíma.  Nafnið var einmitt Bonny og kapteininum létt að hafa fundið þessa skipreka áhöfn á lífi.  Við fréttum síðan að Þórður Júl og Grímur Jóns hefðu verið að hringjast á og magnað hvorn annan upp þar til þeir voru orðnir sannfærðir um að við hefðum farist.  Það munaði ekki um minna en hringja í Hannes Hafstein, forseta Slysvarnarfélagsins til að láta kalla á leitarsveitir um allt norður Bretland.  Hannes hafði notað öll þau sambönd sem hann hafði í heimsveldinu til fá viðbrögð við neyðarástandinu.  Það undarlega var að við töldum okkur hafa tilkynnt okkur við Stornoway um leið og við komumst í talstöðvarsamband á VHS og vorum nákvæmlega á réttum tíma miðað við áætlun.

royal rescueVið vöknuðum á fallegum sólríkum degi og léttum akkerum og færðum bátinn inn í höfnina þar sem við lögðumst utan á fiskibát.  Það er alltaf notalegt að finna fast land undir fótum eftir nokkra daga á sjó.  Á leiðinni upp í bæ komum við að bifreið á bílastæði þar sem tveir óðir doberman hundar voru í aftursætinu.  Bárður taldi sig vera sérfræðing í að hemja dýr og bað okkur að taka vel eftir hvernig hann meðhöndlaði svona hvolpa.  Smá rifa var á hliðarúðunni og án umhugsunar tróð hann hendinni inn til að klappa hvuttunum.  Þeir bitu Bárð samtímis og læstu skoltunum um höndina á honum.  Öskrin voru ógurleg en einhvern vegin gat hann náð krumlunni til baka, alblóðugri og alsett tannaförum.  Það var ekki að spyrja að Bárði en hann var reyndar fljótur að jafna sig en við forðuðum okkur frá bílnum undir brjáluðu hundsgelti.

Eftir að hafa verslað inn tókum við Bárður að okkur að koma varningnum um borð í Bonny.  Þegar við komum niður á bryggju hafði fjarað þannig að mannhæð var niður á stýrishúsið á fiskibátnum sem við lágum utan á.  Það er mikill munur á flóði og fjöru á þessum slóðum og ekki að ástæðulausu að Pentillinn, sem er ekki langt þarna frá, er talinn ein erfiðasta siglingaleið í heimi vegna brotsjóa sem orsakast af straumum.  Ég lét mig samt vaða og fann að þakið á stýrishúsinu svignaði undan þunga mínum.  Bárður rétti mér vistirnar og þegar ég hafði komið þeim niður á dekk stökk Bárður.  Það var ekki að spyrja að hann fór í gegnum þakið og ég sá hvar lappirnar á honum dingluðu í gegnum brúargluggann niður um brotið þakið.  Það var ekki nokkur leið að ná honum upp til baka þar sem krossviðurinn hélt á móti.  Það var því ekki annað að gera en ýta honum áfram niður í gegnum gatið.  Hann endaði inn í stýrishúsinu og skreið síðan út um glugga en dyrnar voru harðlæstar.  Bárður var ótrúlegur og endalaust eitthvað að gerast í kringum hann.

StornowayUm kvöldið fórum við á bæjarböbbinn.  Það var ekki neitt smá fjör og við vorum þungamiðjan í öllu saman.  Það var ekki mikið um ferðamenn þarna á þessum árum og koma okkar vakti töluverða athygli.  Löglegur lokunartími á krám í Bretlandi var klukkan ellefu en síðasti bjórinn var seldur þarna rúmlega tvö um morguninn.  Þeir voru ekkert feta þröngan stíg laga og reglna enda var sjálfur lögreglustjórinn aðal fjörkálfurinn.  En þegar átti að halda um borð fannst Bárður ekki.  Við fréttu að hann hafi farið heim með virðulegri húsfreyju úr þorpinu og barþjónninn, ofurölvi, bauðst til að fylgja okkur þangað.  Við komum að tvílyftu húsi og þegar inn var komið var húsfreyjan vel við skál í eldhúsinu og sagði að Bárður væri uppi ömmu að svæfa börnin.  Það stóð heima að minn maður var að segja krökkunum frá víkingum og hetjum upp á Íslandi, þar sem menn kölluðu ekki allt ömmu sína.  Börnin horfðu stórmynt á þennan harðjaxl norðan úr hafi og eru sjálfsagt enn að tala um þessa lífsreynslu sína.

Áhöfnin komst heil á höldnu um borð og við dagrenningu var ferðinni haldið áfram og stefnan tekin á Skoska hafnarbæinn Troon þar sem ný sigla yrði sett á Bonny.


Kafli 1 - Atlanshafið sigrað

WesterlyUm vorið 1979 ákváðum við Stína að sigla Bonny til Miðjarðarhafsins frá Ísafirði.  Við höfðum bæði lokið skipstjórnarprófi og þóttust ráða við siglingafræðina, og á þessum árum var ég háseti á togaranum Páli Pálssyni frá Hnífsdal og því vanur sjómaður.

Tveir félagar okkar höfðu tekið að sér að sigla bátnum til Reykjavíkur, þar sem við ásamt áhöfn myndum taka við honum.  Svo óheppilega vildi til að þeir brutu sigluna út af Súgandafirði á suðurleið.  Þeir höfðu ekki hagað seglum eftir vindi og notuðu allt of stóra fokku með fyrrgreindum afleiðingum.  Þeir komu því bátum aftur í höfn á Ísafirði þar sem vandamálið beið okkar til að leysa.

Eftir athugun kom í ljós að einfaldast og ódýrast væri að sigla bátnum á vél til Skotlands og setja nýtt formastur á hana þar.  Við pöntuðum því sigluna og reiknuðum með að sækja hana til Skoska bæjarins Troon einum mánuði seinna.

Við lögðum af stað á laugardegi um miðjan júnímánuð í logni og blíðu áleiðis til Reykjavíkur.  Í áhöfn með okkur var Bárður Grímsson og Elías Skaftason.  Bárður hafði tekið þátt í heimsiglingu Bonny þremur árum fyrr en hafði nú breyst í klaufskum unglingi í harðan togarajaxl.  Elli var vanur sjómaður og tilbúinn í hvað sem var og því valinn maður í hverju rúmi.

Við sigldum bjarta sumarnótt suður yfir Breiðafjörð og komu að Snæfellsjökli við sólarupprás, á pollsléttum sjó þannig að ekki gáraði á hafflötinn.  Við tókum eftir bát sem var á veiðum með snurvoð í stefnu okkar.  Allt í einu tók hann stímið beint á okkur og renndi upp að hliðinni á skútunni.  Við stoppuðum bátinn og tókum áhöfn Sigurbjargar SH tali.  Þeir buðu okkur til hádegisverðar og við þáðum það.  Við létum Bonny bara reka á meðan og komum okkur fyrir í lúkarnum þar sem lambasteikin kraumaði í ofninum í sólóeldavélinni. 

SkotlandEftir stutt spjall kom í ljós að báturinn sem við vorum komin um borð í var upphaflega smíðaður undir nafninu Gunnvör ÍS 53 fyrir samnefnt fyrirtæki sem meðal annarra var í eigu föður míns, Þórðar Júlíussonar.  Upphaf fyrirtækisins má rekja til strands Gunnvarar SI 53 í Fljótavík, þar sem afi minn Júlíus bjó.  Bræðurnir Þórður og Jóhann keyptu flakið og nýttu úr því allt sem hægt var.  Enn má sjá kjölinn, vélina og stýrishúskappann í sandinum innan við Slysavarnarskýlið í Fljótavík.  Þeir bræður stofnuðu svo útgerðarfyrirtækið Gunnvöru og létu Marzelíus Bernharðsson smíða fyrir sig þennan fjörutíu tonna bát sem við vorum nú komin um borð í.  Félagi þeirra og skipstjóri til langs tíma, Jón B. Jónsson gerðist meðeigandi í fyrirtækinu, sem rann seinna saman við Hraðfrystihúsið í Hnífsdal, undir nafninu Hraðfrystihúsið Gunnvör h/f.

Þetta var skemmtilegur sunnudagsmálsverður og karlarnir hinir skemmtilegustu og létu sig hafa klukkustundar pásu frá veiðunum á meðan við nutum matarins.  Það var boðið upp á kók með matnum sem okkur þótti býsna nýstárlegt á fiskibáti á þessum tíma.  Það voru hlýjar kveðjur þegar við stukku aftur um borð í Bonny til að halda ferðinni áfram til Reykjavíkur.

Við komum í höfn í morgunsárið daginn eftir þar sem þurfti að útvega ýmsa hluti til að halda á siglinunni yfir hafið til Skotlands.  Í fyrsta lagi var kompásinn ónýtur og ákveðið að kaupa nýjan hjá Konna kompás, sem var frægur sérfræðingur á sínu sviði.  Ekki var nóg að kaupa búnaðinn heldur þurfti Konni að koma honum fyrir og setja segulnálar til að rétta hann af.  Það var gert á yrti höfninni í Reykjavík, og sú skekkja sem ekki náðist með seglunum var skráð í logbókina til að nota við að leiðréttingu á leiðarreikningi.

oceanEitthvað fréttist af þessari siglingu okkar og Morgunblaðið vildi fylgjast með ferðalaginu og birta greinar um ferðalagið.  Sigling okkar fjórmenningana vakti töluverða athygli á þessum tíma, enda þótti þetta óvenjulegt á Íslandi á áttunda áratugnum.  Okkur var boðið á fund hjá sjálfum ritstjóranum, Styrmi Gunnarsyni.  Þau Stína fundu út að þau ættu það sameinginlegt að vera bæði ættuð úr Skálavík við mynni Súgandafjarðar.   Þetta var hinn skemmtilegasti fundur sem lauk með því að gengið var frá að við myndum senda reglulega pistla frá okkur og fengum nóg af filmum til að taka myndir fyrir Moggann.

Við lögðum af stað í siglinguna um kvöld og fórum fram hjá Vestmannaeyjum í morgunsárið.  Það var góður andi um  borð og létt yfir áhöfninni.  Bárður er með skemmtilegri mönnum og gat endalaust komið manni til að hlæja.  Mikill húmoristi og hafði svo smitandi hlátur að ekki var annað hægt en hrífast með þegar hann tók rokurnar.  Elli var alltaf í góðu skapi og lét sér ekkert fyrir bjósti brenna.  Við ultum út á Atlantshafið, masturslaus með 24 hp Volvo Penta sem drifkraft.

Stefnan var tekin  á But of Lewis vitann sem er á nyrsta odda Herbitis eyjaklasans vestur af Skotlandi.  Þetta er um 400 mílna sigling og ferðahraðinn milli sex og sjö mílur.  Á siglu veltur skútan eins og korktappi og ekkert að sjá nema öldutoppa í SV kalda á norður Atlantshafi.  Vaktaskipti gengu vel fyrir sig og ágætlega fór um okkur um borð í Bonny.  Við mættum einum togara á leiðinn en það voru einu mannaferðir á siglingunni til Skotlands.

Þegar vitinn birtist í eldingu fimmta ferðadags reyndist stefnan rétt upp á gráðu.  Það voru góð tíðindi fyrir skipstjóra og stýrimann og leiðarreikning þeirra.


Suðrænir fiskar

St. Johns Market 024Pennaleti mín á rætur sínar að rekja til athafna í vinnu og vísindum.  Við höfum verið að ljúka mikilvægum verkefnum hér á Sri Lanka og svo er það meistararitgerðin.  Hana skrifa ég í samstarfi við góða félaga frá Háskólanum á Akureyri.  Tveimur síðustu nóttum hef ég síðan eytt á vettvangi, ekki í gleðihúsum Colombo heldur með fingurinn á slagæð fiskimála eyjarinnar.  Það á vel við fyrir verkefnastjóra fiskimála og ritgerð um virðiskeðju túnfisks á Sri Lanka.

Fyrri nóttinni eyddi ég á Beruwala höfn sem er hér suður af borginni.  Ein mikilvægasta fiskihöfn landsins og að hluta til hönnuð af félaga mínum Saraht.  Það var ótrúlega gaman að virða fyrir sér löndun úr útilegubátum og uppboði á afla.  Þessir bátar eru úti í mánuð eða meira og aflinn er að mestu túnfiskur og marlin (sverð- og seglfiskar) sem er ísaður um borð.  Einnig er töluvert af hákarli sem þykir mikið hnossgæti hér í landi.  Það var gaman að fylgjast með því þegar dagur reis og birti við lok uppboðsmarkaðarins, og fiskurinn flæddi á hina ýmsu markaði í gegnum virðiskeðju til neytanda.

Síðustu nótt eyddi ég á heilsölumarkaðinum í Colombo, St. Johns Fishmarket, þar sem heldur betur er handagangur í öskjunni.  Á milli fimm og sex þúsund manns koma þarna um fjögur leitið til að höndla með fisk frá öllum landsins hornum.  Um 60% af lönduðum afla á markað rennur þarna í gegn, fyrst í gengum heildsala, og síðan yfir í annan hluta markaðarins sem er smásala.  Fyrir hádegi er allt búið fyrir utan þrif og undirbúning fyrir næstu nótt, en markaðurinn er rekinn sjö daga vikunnar.  Þrengslin eru þvílík að eina leiðin til að flytja fiskin frá trukkum sem flytja hann úr höfnum, í mótorhjól eða reiðhjól sem sjá um dreifingu út til neytenda, er að bera hann á höfðinu.  Karlarnir bera rúm 50 kg í körfum og hlaupa með fiskin úr einum hluta markaðarins til annars á hausnum.  Þeir taka tíu krónur fyrir flutning innanhúss en 15 krónur ef hlaupa þarf með hann út á plan til smásala sem þar bíða með faratæki sín.

Gæðin eru misjöfn, allt frá úldnum fiski til lifandi humars.  St. Johns Market 084Ég keypti rækjur sem enn voru spriklandi.  Ég set mynd af þeim hér með en þær eru í ísskápnum og bíða þess að verða steiktar í ólívuolíu og hvítlauk og rennt niður með köldu hvítvíni.  Humarinn bíður betri tíma en hann er seldur hér lifandi.

Ég á von á syni mínum Jóni hingað um jólin en hann er orðin þreklaus af næringarskorti í Skotlandi.  Þeir kunna hvorki að elda mat né bera hann fram, hvort sem horft er til suður eða norður hluta Stóra Bretlands.  Ætli ég prufi ekki humarinn á honum og eldi að hætti gufuklúbbsins á Ísafirði.  Sá klúbbur stendur fyrir humarveislu á miðvikudegi fyrir páska á hverju ári.

 Hafi sonur minn tapað vigt í Skotlandi verður mér ekki skotaskuld úr því að bæta á hann nokkrum kílóum hér á Sri Lanka.  Í skotfæri héðan að heiman er veitingastaðurinn ,,Mango Tree" sem býður upp á Indverska karrý og tanturi rétti með nanbrauði.  Þetta byrjar með tanduri rækjum, síðan kemur karrý kjúklingur og að lokum skál með suðrænum ávöxtum.  Verðið með drykk getur þó nálgast ískyggilega þriggja stafa tölu í Íslenskum krónum.

Síðan eru það Japönsku veitingarhúsin með sushi og sasami, sem er sennilega besti matur í heimi.  Nóg er af steikhúsunum en valið stendur á milli nautakjöts frá Englandi eða Ástralíu.  Steikurnar bráðna í munni manns og síðan skolað niður með úrvals víni frá bestu framleiðendum heims úr öllum heimsálfum jarðar.  Á Galle Face er boðið upp á djúpsteiktar rækjur með köldum bjór á meðan horft er á sólarlag við miðbaug.

En þeir klikka á fiskmetinu hérna.  Steikja það of mikið og setja karrý út á humarinn.  Við leysum úr því með eigin eldamennsku eftir kaupin á nokkrum lifandi humrum á St. Johns markaðinum í Colombo.  Ætli við splæsum ekki á kampavín með herlegheitunum.  Síðan þegar Stína kemur í janúar prufum við krabbana en ég læt myndir af þeim fylgja hér með sem teknar voru snemma í morgun.


Kafli 12 - Sögulok í London

Royal OperaVið komum okkur fyrir á farfuglaheimili í London, í stíl við efnahagslega stöðu okkar um þessar mundir.  Staðurinn var rekinn á sumrin í kaþólskum skóla þannig að Írarnir voru eins og heima hjá sér.  Það voru þrír dagar í flugið heim en Nonni Gríms var ákveðinn í að verða eftir.  Hann  ætlaði að fá vinnu við gangnagerð fyrir náðarjarðarlestakerfi Löndunarborgar.

Við fórum fjögur, Íslendingarnir, saman á enska krá í hádeginu og sátum þar á spjalli.  Allt í einu vindur snaggaralegur náungi sér að okkur og spyr hvort við séum íslensk, á ylhýra móðurmálinu.  Hann sagðist hafa heyrt óminn af tali okkar og sagt við sjálfan sig.  ,,Þetta fólk er annaðhvort Arabar eða Íslendingar" 

Hann kynnti sig sem Svein Laufdal, óperusöngvara við Royal Opera of London í Covent Garden.  Eftir að hafa skolað niður bjór og spjallað bauð hann okkur í heimsókn á vinnustaðinn.  Við tókum neðanjarðarlestina og svei mér þá ef hinn heimsfrægi nýi vinur okkar svindlaði ekki á fargjaldinu með því að vippa sér yfir miðakassann. 

Á leiðinni lét hann móðan mása um heimsfrægð sína og ríkidæmi.  Hann var svo ríkur að hann myndi örugglega syngja ókeypis á styrktartónleikum á Íslandi.  Glæsilegur til fara og stakk verulega í stúf við okkur hin, sem voru eins og ræflar í slitnum gallabuxum og háskólabolum.  Þegar við komum í óperuhöllina virtust allir þekkja hann, allavega þeir starfsmenn sem voru við vinnu svona um eftirmiðdaginn.  Hann var alveg himinlifandi yfir að hafa rekist á okkur og stoltur að sýna okkur vinnustaðinn sinn þar sem hann var vanur að leika hlutverk ástsjúkra aðalsmanna í óperum fyrir fullu húsi á hverju kvöldi.  Drottningin kom oft að hlusta á hann og gott ef hann þekkti hana bara ekki persónulega.  Honum leist svo vel á okkur að hann bauð okkur heim í mat, enda átti hann einmitt frí þetta kvöld.  Vinkona hans, tengdamamma rússneska sendiherrans í London, myndi sjá um eldamennskuna.

Russian AristocratHeima hjá honum beið okkar rússnesk hefðarmær, máluð og tilhöfð, tilbúin í að skenkja okkur vodka.  Það var rífandi fjör um kvöldið, sungin rússnesk lög og drukkinn meiri vodki.  Ekki man ég eftir að kvöldverður hafi verið framreiddur en Sveinn heimtaði að við gistum hjá sér um nóttina.  Honum líkaði sérstaklega vel við Nonna og sagði oftar en ekki, þið eruð svo skemmtileg, en sérstaklega þú Nonni minn.  Ég var orðin helvíti öfndsjúkur út í  Jón og skildi ekkert í þessum vinsældum hans fram yfir okkur hin.  Nonni var verulega upp með sér vegna athyglinnar og naut þeirra sérréttinda sem aðdáun húsráðanda bauð upp á.  Þegar kom að því að fara að sofa krafist Sveinn þess að Nonni svæfi næst honum.  Það fóru að renna tvær grímum á kappann og allt í einu var staða hans sýnu verri en en sýndist í fyrstu.  Það endaði með því að Stína svaf næst óperusöngvaranum, enda virtist henni lítil hætta búin í návist hans.

Um morguninn vildi Sveinn bæta fyrir kvöldverðinn sem ekkert varð úr og bað okkur að hitta sig í óperunni klukkan fimm.  Hann ætlaði að bjóða okkur á flottasta veitingastaðinn í London.  Við mættum tímalega í óperuna þar sem söngarinn beið okkar og hann vildi strax drífa sig af stað í fjörið.  Við bentum honum á að við gætum ekki farið á fágaðan veitingastað svona til fara, en hann svaraði um hæl að það væri ekki vandamál.  Hann myndi redda okkur fötum enda ætti hann nóg af þeim heima.

Hilton hotelVið vorum aftur mætt í íbúðina hans þar sem fataskáparnir voru bókstaflega troð- fullir af flottum rússneskum fötum.  Hann var að vísu lægri  í loftinu en við enda stóðu fötin okkur á beini.  Við Jón vorum í leðurstígvélum sem náðu upp í hné, utanyfir silkibuxur.  Jakkarnir voru klæðskerasaumaðir úr silki og við vorum eins og klipptir út úr gömlu rússnesku ævintýri.  Hjalti var þreknari en við og varð því að taka föt sem höfðu teygjanleika, og náði því ekki  sömu glæsimennsku og við Nonni, sem vorum hreinlega orðnir aðalsmenn við umbreytinguna.  En hvað átti að gera við Stínu? 

Það var ákveðið að koma við í kaþólska skólanum og sækja síðan arabakjól sem hún geymdi þar neðst í bakpokanum sínum.  Þetta myndi allt falla vel saman og augljóst að hér væri á ferð mikilvægt fólk úr austurheimi.

Sveinn pantaði leigubíl og við komum við á farfuglaheimilinu til að sækja kjólinn fyrir Stínu.  Við héldum síðan á Hilton hótelið þar sem við Sveinn átti pantað á dýrasta veitingahúsi borgarinnar á 21. hæð.  Stína í gömlum stigaskóm við kjólinn sem stakk heldur betur í stúf við allan glæsileikann.  Við ákváðum að hún færi úr þeim og hentum þeim í næsta rusladall.  Þegar við komum út úr lyftunni á efstu hæðinni gerði vörður við veitingastaðinn athugasemd við að hún væri berfætt.  Við brostum í kampinn yfir fáfræði starfsmannsins og bentum honum á að kúltúrinn leyfði ekki skófatnað við þennan kjól.  Maðurinn roðnaði og baðst afsökunar og leiddi okkur að borði á besta stað á veitingahúsinu. 

Sveinn sagði okkur að hótelstjórinn væri persónulegur vinur sinn og sérstaklega yrði haft til fyrir okkur við þennan kvöldverð.  Hann reyndist tala reiprennandi ítölsku, en þjónarnir voru allir Ítalir.  Hver krásin eftir aðra barst nú á borðið með dýrustu vínum sem fáanleg eru norðan Alpafjalla.  Við hipparnir sem höfðu undanfarðið hálft ár lifað eins og ræflar fengum nú að kynnast betri hlið lífsins, og við nánast trúðum því að við væru orðin heldra fólk.  Yfirstétt, heimsborgarar og gátum notið allra lystisemda lífsins.  Þessi nýi vinur okkar var magnaður þó Nonni vildi helst ekki sitja við hliðina á honum við borðhaldið.

Eftir matinn pöntuðum við dýrasta koníakið og Havana vindla.  Við Nonni báðum þjóninn að fara með okkur út á svalir og sýna okkur útsýnið yfir borgina.  Ljósin tifuðu í kvöldkyrrðinni í Lundúnaborg og koníakið yljaði okkur meðan við hlustuðum á þjóninn benda á áhugaverðustu staði borgarinnar.  Dýr vindlareykurinn liðaðist út á milli vara okkar milli koníakssopana og okkur leið vel.  Okkur líkaði þetta nýja hlutverk og vonuðumst til að augnablikið entist sem lengst.

En eftir sumar kemur haust en nú skall á hríðarbylur.  Það var komið að því að borga reikninginn og óperusöngvarinn átti ekki eitt pund upp í hann.  Hann sagði okkur að hafa ekki áhyggjur enda hótelstjórinn góður vinur sinn og þetta yrði bara skrifað þar til seinna.  Leikurinn endaði þannig að lögreglan  mætti á svæðið tók félaga okkar með valdi.  Lögreglumaður spurði okkur hvort við gætum greitt reikninginn en við sögðumst vera fátækir flækingar sem hefðu verið véluð í þessa vitleysu.  ,,Ef þið greiðið ekki fyrir manninn fer hann í fangelsi" sagði lögreglumaðurinn við okkur.  Eina svarið sem hann fékk var sakleysislegur svipur okkar og fullkomin uppgjöf gagnvart vandamálinu.  Sveinn fór því í steininn en við fórum í rússnesku fötunum í kaþólska skólann.

Það var heldur betur upplit á félögum okkar Írunum þegar þeir mættu okkur í morgunmat í allri múnderingunni.  Þegar við sögðum þeim sögu okkar síðustu tvo daga hristu þeir hausinn í vantrú.  Nonni tók þá upp gaffal sem hann hafði hnuplað á veitingastaðnum, úr ekta silfri merktur Hilton.  Þeir voru grænir af öfund Írarnir.

Sögulok samskipta okkar við Svein voru þau að við leituðum hann uppi til að skipta um föt.  Hann bar sig vel og sagði að þetta hefði allt verið misskilningur og hótelstjórinn hefði beðið sig margfaldrar afsökunar vegna þessa óheppilega atviks.  Síðan dró hann Stínu afsíðis og gaf henni nafn og símanúmer hjá móður sinni á Íslandi og bað hana að koma til hennar skilaboðum.  Skilaboðin voru þau að kaupa fyrir sig flugmiða heim til Íslands eins fljótt og auðið væri.  Hann var orðin þreyttur á heimsfrægðinni og gjálífinu í London.  Tími kominn til að halda heim. 

Skilaboðin komust á réttan stað og síðar fréttum við af viniinum á Íslandi.  Hann gerði það gott, ekki bara við söng, heldur í tískuheiminum.  En við Stína og Daddi héldum heim á leið til Íslands ásamt Írunum, eftir langt og strangt ferðalag í hálft ár. 


Sonar sonur fæddur

ég og pabbi2Hér verð ég að gera hlé á sögunum til að koma að mikilli frétt.  Í dag varð ég afi í annað sinn þegar sonur minn Gunnar Atli varð faðir og eignaðist 14,5 merkur son með unnustu sinni Maríu Rut Kristinsdóttir.  Ef ég man rétt þá er yngsti bróðir hins afans jafnaldri dóttur minnar og mæður þeirra lágu saman á fæðingadeildinni.  Seinna varð langamman barnfóstra Hafdísar um töluvert langan tíma á Urðarveginum.

Það er á svona stundum sem maður sest niður og hugsar heimspekilega um lífið og tilveruna.  Eitt sinn var ég að aka með vini mínum Óshlíðina, við vorum að koma úr gufu frá Bolungarvík og vorum tveir í bílnum.  Illa mætt í það sinn en gaf okkur rými til að ræða á nótum sem illa passa við stærri hóp.  Við komumst að því að það sem mestu máli skiptir í lífinu væri að koma erfðarefni sínu áfram.  Eins og allar aðrar lífverur er það megin tilgangur okkar mannanna að fjölga okkur. 

 

 

IMG_1221Fyrir á ég einn dóttur son, stór myndarlegan strák, Jón Gunnar, sem er að einum fjórða Sri Lankan.  Ég fékk að hafa hann í tæpa viku í sumar þegar við Stína pössuðum hann í Tunguskógi.  Það var ótrúlega skemmtilegur tími sem seint gleymist.  Eitt sinn þegar við tókum hann í langa gönguferð sitjandi í bakpoka á baki afa síns.  Hann var tæplega eins árs og við spjölluðum um heima og geyma eins og gengur en allt í einu þagnaði hann.  Hann var steinsofnaður og það við Grænagarð.  Það var ekki annað að gera en taka hann í fangið og bera hann alla leið inn í sumarbústað. 

Sennilega hefði ég aldrei tekið þessu starfi ef ég hefði vitað að annað barna barn væri á leiðinn þegar ég tók því. Nógu erfitt samt að missa af öllum þeim framförum sem einn strákur getur náð og hvernig lífið lærist og einstaklingurinn þroskast.

 

 

Ef ég ætti einhvern möguleika á þá myndi ég vera floginn heim til Íslands og sjá nýjustu Doddabókina sem blandast Sólbakka á Flateyri.  En ég á ekki tök á því og verður að bíða betri tíma.

Picture 054En það er ekki nóg að fjölga sér.  Maðurinn er flóknari en svo og er fjölskylduvera.  Það þarf að halda fjölskyldunni vel saman enda mikilvægasta stofnun mannlegs samfélags.


Kafli 11 - Til Grikklands

AppoloniaVið vorum sem sagt búin að fá okkur fullsödd af verunni á Kibbutz Shamir og viðskiptum við heimamenn.  Við lögðum því af stað heim, öll fjögur ásamt vinum okkar Írunum Paul og John.  Fyrst var farið til hafnarborgarinnar Hafia þar sem við tókum hið rómaða skip, Appolonia til Grikklands.  Við keyptum farmiða á þriðja farrými, sem var fram í stafni skipsins og aðeins boðið upp á flugvélasæti til að sofa í.  Við kipptum okkur ekki upp við það en vorum ansi fljót að finna leið eftir rangölum skipsins aftur í fyrsta farrými.  Þar eyddum við öllum stundum en fjárhagurinn bauð ekki upp á að njóta allra lystisemda farrímsins.  Fyrir smá aðstoð í eldhúsinu fengum við kassa af bjór sem umsvifalaust var deild meðal félaga okkar Íranna.

Á örðum degi siglingarinnar þar sem skipið nálgaðist Kýpur, drundi allt í einu við ógnar hávaði.  Við lágum á sundlaugarbarminum í sólbaði og brá heldur betur í brún.  Þetta var Tyrknesk herþota sem flaug lágflug yfir skipinu.  Hávaðinn var óskaplegur og mikil skelfing greip um sig um borð hinu Gríska skipi.  Um þessar mundir var styrjöld milli þjóðanna vegna Kýpur.  Deila sem enn er óleyst en risti djúpt á þessum tímum milli hinna fornu fjenda.

KýpurNú hvarflar ekki að mér að Tyrkir, þrátt fyrir slæma reynslu Íslendinga af þeim úr Tyrkjaráninu (sem reyndar voru Marokkómenn), að þeir færu að skjóta á farþegaskip þótt það væri Grískt, en óttinn var engu að síður til staðar.  Maður treysti þessum Aröbum ekki almennilega á þá daga.  En viti menn kom ekki eins og himnasendin önnur herþota til sögunnar og þaut yfir höfðum okkar með ógnargný og vaggaði vængjunum.  Á stélinu var stjarna hins Ameríska flughers og fagnaðarlætin um borð yfirgnæfðu þrumurnar úr hreyflum þotunnar.  Bjargvætturinn var kominn og hinir lymskulegu múslímar hypjuðu sig á braut.

Ferðin var að öðru leiti tíðindalítil og Hjalti bróðir hélt sér á mottunni í þetta sinn.  Þrátt fyrir bjartar Miðjarðarhafsnætur undir björtum stjörnuhimni gat hann haldið í við hormónana og lét vera að draga kveinþjóðina á tálar uppi á dekki með rómantísku spjalli.  Skipið leið hljóðlaust yfir sléttan hafflötinn fyrir utan ómana af seiðandi tónlistinni af fyrsta farrými.

 Við komum til Aþenu að morgni dags og fundum okkur Youth hostel til að gista á.  Við stákarin vorum saman með þrjátíu öðrum í herbergi en Stína fékk svítu með aðeins sjö stelpum.  Við vorum komin aftur í herforingjaveldið í Grikklandi.

Við fórum strax sama dag að leita uppi Loftleiðaskrifstofuna í Aþenu og fundum hana í bakhúsi í miðborginni.  Við vorum auðvitað staurblönk og þurftum því að komast í samband við Gunnar Jónsson umboðsmann á Ísafirði til að lána okkur fyrir fari heim.  Utan við húsið hékk merki Loftleiða og innan dyra var einn starfsmaður sem greinilega sinnti mörgum fyrirtækjum.  Eftir smá tíma hafði hann náð sambandi heim og ekki stóð á svarinu að flugmiðar yrðu klárir og við tækjum Olympics Airways til London og Lofleiðir þaðan heim. 

bærinn Appolonia í GrikklandiVið áttum tvo daga í Aþenu og notuðum tíman til að skoða þessa merku borg.  Daginn áður en við tókum flugið til London lentum við í miklum mótmælaaðgerðum í miðborginni sem var harla óvenjulegt á þessum tíma í Grikklandi.  Göturnar voru fullar af fólki og allt að verða vitlaust.  Við kipptum okkur ekki upp við þetta en eins og með Feneyjar áður, fréttum við af stórviðburðunum síðar.  Seinna í Loftleiðaflugvélinni á leiðinni yfir Atlantshafið var ég að lesa Moggann sem var uppfullur af fréttum frá Grikklandi.  Herforingjastjórninni hafði verið komið frá með látum og við höfðum verið í miðri hringiðunni án þess að hafa hugmynd um það.  Það er svona hálf hallærislegt að upplifa stóratburði þegar maður fréttir það eftirá.

Við flugum síðan til London þar sem við biðum í nokkra daga eftir flugi heim til Íslands.  Fyrir þá sem lesið hafa þessa tíðindalitlu ferðasögu skal það sagt sem huggun harmi gegn að þá fyrst byrjuðu ævintýrin.  Hafi þessi ferð verið viðburðarsnauð hingað til varð þar breyting á.  Við upplifðum einhver skemmtilegustu ævintýri lífs okkar á þessum dögum.  Nafntogaður Íslendingur blandast þar inn í en nafni hans verður breytt af tillitsemi við hann og fjölskyldu hans.  Við skulum kalla hann Laufdal, en sögurnar verða í næsta kafla.


Kafli 10 - Daglegt líf á Shamir

Við brölluðum margt á Shamir og skemmtum okkur vel í hópi ungs fólks alls staðar að úr heiminum.  Einn sjálfboðaliðinn var frá Puerto Rico og hét Daniel.  Hann var þögull og ómannblendinn sem var nóg til að treysta honum alls ekki og líta hann hornauga.  Ungu fólki hættir til að taka þeim sem eru öðru vísi með fordómum og misskilningi.  Eitt sinn þegar við komum úr skemmtiferð frá Kiryat Shemona og ég hafði drukkið helst til mikið af Goldstar bjór og reyndar höfðum við tekið nokkra snafsa af spíra til að sýna karlmennsku okkar og víkingaskap.  Það fyrsta sem ég sá þegar ég kom út úr rútunni var Daniel og mér fannst hann líta á mig með fyrirlitningaraugum, enda drakk hann ekki.  Þetta dugði ekki og ég bauð honum umsvifalaust upp í slag, eins og ég væri ættaður úr Bolungarvík.  Áhrýnis orð mín virkuðu lítið á þennan hægláta mann og lítið varð úr áflogum.

Kun-fuNokkrum dögum seinna ákváðum við að styrkja varnir okkar og þiggja Kun-fu kennslu hjá bandaríkjamanni sem hét Jim og hafði dvalist um nokkurn tíma á Shamir.  Hinar fimm dýrslegu hreyfingar með tilheyrandi hrópum voru undirstaða þessarar bardagaaðferðar og við vorum sko til í slaginn.  Það greip um sig Kun-fu della á Shamir og mátti sjá menn æfa sig í hverju horni.  Einn félagi okkar, hermaðurinn Brum brum, sagði okkur að hann væri hámenntaður í þessum fræðum.  Hafði lært þetta í hernum og gæti þess vegna auðveldlega lamið þennan kana skratta.  Eitt sinn mætti hann á æfingu ásamt tveimur félögum sínum og höfðu með sér jógúrt dollur.  Byrjaði að hella svívirðingum yfir Jim sem ekki svaraði þeim og lét eins og hann sæi ekki Brúm brúm.  Nú sletti hann jógúrtinu yfir Jim sem lét sér það í léttu rúmi liggja og aðhafðist ekkert.  Atburðir næstu sekúnda gerðust svo hratt að við festum varla auga á þeim.  Brúm brúm gerði sig líklegan til að sparka í Jim sem greip leiftur snöggt í fótinn á honum og þeytti honum í loft upp.  Áður en við vissum af var búið að afgreiða félaga hans tvo og þeir lágu þrír í valnum emjandi af sársauka.

Seinna urðum við vitni að því þegar Brúm brúm réðist á Daniel, sem kom okkur heldur betur á óvart og reyndist vera heil mikill bardagamaður.  Brúm brúm átti aldrei möguleika í hann, þrátt fyrir herþjálfun sína.  Að lokum lá hann í valnum og gafst upp fyrir ofjarli sínum.  Þegar Daniel snéru baki við hann og ætlaði að hverfa á braut, hentist Brúm brúm á fætur og barði hann aftan frá.  Þetta var fantaskapur og löðurmannlegt og urðum við að ganga í milli til að stoppa barsmíðarnar.  Álit okkar á Daniel hafði heldur betur breyst til batnaðar en virðingin fyrir hermanninum félaga okkar hlaut mikla hnekki.

Aðra sögu man ég af Brúm brúm sem ávallt var með Uzi vélbyssuna sína meðferðis.  Við sátum í kringum hann og hlustuðum á frækilegar sögur úr hernum og eitt af því sem hann ætlaði að sýna okkur var hvernig hægt væri að breyta Uzi úr nánast skammbyssu í riffil með einu höggi með berri hendi.  Málið var að slá rétt aftast á byssuna og þá spratt skeftið sjálfkrafa út og hægt að miða með það á öxlinni.  Brúm brúm barði og barði en tókst ekki að láta þetta virka.  Taldi að byssan væri biluð og ætlaði að láta kíkja á hana.  Ég bað hann að leyfa mér að prufa og viti menn, í fyrsta höggi spratt skeftið út og small í rétta stellingu.  Brúm brúm varð forviða á þessari snilld en engin var meira undrandi en ég sjálfur.  Ég hefði sjálfsagt getað prufað þetta hundrað sinnum í viðbót án árangurs.

magicEinn af þeim sem við umgengumst mikið var Itzac, sem var reyndar yfirmaður sjálfboðaliðanna á samyrkjubúinu.  Þetta var eldri maður um þrítugt, fyrrverandi hermaður, og sótti í félagskap okkar unga fólksins.  Sérstaklega hafði hann áhuga á kvennþjóðinni og notaði hvert tækifæri til að ganga í augun á þeim.  Eitt sinn vorum við stödd á pósthúsinu og biðum eftir afgreiðslu á símtölum.  Itzac var að sýna nokkrum stúlkum spilagaldra og var upprifinn yfir aðdáun þeirra á töframættinum.  Við ákváðum að gera svolítið at í honum og Stína þóttist vera að lesa blað og spjalla við Hjalta á Íslensku, á meðan horfði hún á spilin á hendi Itzac og lét mig vita hvaða spil hann myndi draga.  Ég kom því þannig fyrir að Itzac snéri baki við þeim Dadda og Stínu og ég stóð fyrir fram hann.  Ég stokkaði vel og lét hann draga spil og Stína sem ræddi við Hjalta bætti inn í samræðurnar þannig að lítið bar á hvaða spil hann hélt á.  Ég sagði honum hvaða spil hann hefði dregið og lét hann prufa aftur.  Síðan lét ég hann draga þrjú spil og þuldi upp í röð hvaða spil hann hefði á hendi.  Stúlkurnar voru orðnar mjög hissa á þessum magnaða galdramanni og fylgdust með af áhuga.  Itzac vildi nú læra galdurinn en ég neitaði honum að sjálfsögðu.  Þá byrjaði hann að bjóða gull og græna skóga ef ég vildi kenna sér töfrana og sagðist hafa mikinn áhuga á svona málum.  Að lokum lét ég undan, en það hefði ég ekki átt að gera.  Þarna eignuðumst við óvin, sem var yfirmaður sjálfboðaliðana og það kom sér mjög illa fyrir okkur.  Stelpurnar hlógu sig máttlausar og gerður stólpa grín að karl greyinu.

En þegar kom síðsumar var komin órói í okkur Íslendingana og við fórum að huga að heimferð. Það var mikil kveðjuveisla og margir góðir vinir að kveðja.  Írarnir, John og Paul voru ákveðnir í að koma með til Íslands og leita sér að vinnu og frönsku dívurnar ætluðu að koma seinna í sömu erindum.


Kafli 9 - Vinna í Elat

Í vinnu til Elat

ÍsraelÞað var ákveðið að senda okkur Nonna til að leita nýrra tækifæra fyrir hópinn og stefnan sett suður fyrir Sinaeyðimörkina þar sem smjör draup af hverju strái.  Við vorum útbúnir með sokka og nýja skó og nesti í malpokanum.  Fyrst var farið til Kiryat Shemona þar sem rútan var tekin suður eftir Ísrael  til Tel Aviv.  Þar gistum við á Hotel beach, eins og kallað var þegar sofið var á ströndinni.  Við öldurgjálfur Miðjarðarhafsbotnsins fengum við okkur einn Goldstar bjór áður en við sofnuðum undir hálfmána og stjörnubjörtum himni.  Um morguninn röltum við í næstu verslun til að kaupa brauð og ost í morgunmat.  Það var gaman að vera ungur og ör og takast á við ævintýri lífsins.  Engin vandamál og áhyggjur fjarlægari en útjaðar vetrarbrautarinnar.  Lífið var gott og hagsæld hópsins okkar leit vel út í nánustu framtíð.  Við ætluðum að fá vel borgaða vinnu í Elat, sem er hafnarborg við botn Arabíuflóans.  Við vorum vissir um að slegist yrði um starfskrafta okkar og ekki annað eftir en kalla Stínu og Dadda suður í sæluna og tekjurnar.

Við tókum bössinn til Elat um hádegið og stefndum enn í suður.  Við vorum flottir á þessu og tókum lofkælda rútu og fylgdumst með endalausri eyðimörkinni líða hjá fyrir utan gluggann.  Okkur brá heldur betur við þegar við stigum út í Elat í 55°C og svíðandi sól.  Þetta skall á okkur eins og veggur þó liðið væri á daginn.  Við röltum niður á strönd til að gista en þorstinn kallaði fljótt á.  Við höfðum ekki undan svitanum hvort sem við sturtuðum í okkur bjór eða vatni.  Pyngjan var fljót að léttast en ekki þurfti að hafa áhyggjur að slíku, menn sem voru rétt að komast í uppgrip.  Hótel beach brást ekki frekar en fyrri daginn og sandurinn mjúkur og notalegur.  Rétt hjá glitti í hafnarbæ í Egyptalandi og eins og við gætum teygt okkur þangað og ljósin tifuðu í náttmyrkrinu og spegluðust í sjónum.  Á þessum tíma var lítill friður milli landanna og því ógnvekjandi að horfa yfir til óvinarins svona nálægt sér.

Um morguninn var farið að leita að vinnu niður á höfn í svækju hita og sól, með miklum tilkostnaði við kælikerfi líkamans en vökvaþörfin var mikil.  Ekki höfðum við erindi sem erfiði og þrátt fyrir að kröfur um vinnu og laun væru gengisfelld dugði það ekki til og enga vinnu að fá.  Okkur var þá bent á vinnu í koparnámum í eyðimörkinni.  Við ákváðum að láta á það reyna og eftir nætursvefn á ströndinni var haldið af stað í bítið um morguninn.  Stefnan var sett í norður.

Í eyðimörkinni

Við stigum úr rútunni í algjörri auðn.  Sandur og aftur sandur og ekkert nema en sandur.  Skammt frá stoppistöðinni voru nokkur skúrarræksni og það voru koparnámurnar sem við vorum að hefja vinnu í.  Við röltum þangað og hittum fyrir verkstjóra sem leit okkur illu auga en sagði að eftir hálftíma kæmu karlarnir upp í hádegisverð og við skildum bíða þess og skrá okkur síðan í vinnu.

Okkur var verulega brugðið þegar við sáum karlana koma upp, kolsvarta af skít, sveitta og þreytta og leist ekkert á þetta.  Unglingshjörtun börðust um í brjósti okkar og kjarkinn fór að bresta.  Við ákváðum að hætta við allt og koma okkur í ,,öryggið" heima á Shamir.  En nú var komið babb í bátinn því næsta rúta kæmi ekki fyrr en daginn eftir.  Við ákváðum að fara á puttanum til Tel Aviv.

Það er ekki hægt að lýsa gönguferð okkar þennan dag við fáfarna götu í eyðimörkinni.  Sólin gerði sér leik að okkur með tíbrá þannig að vegurinn var eins og á floti.  Við horfðum á þá fáu bíla sem áttu leið um eins og þeir nálguðust ekki heldur virtust ávallt vera í sömu fjarlægð frá okkur.  Þar til allt í einu að þeir ruku fram hjá með þrumu gný.  Við vorum uppgefnir í eyðumerkursólinni og vatnsbirgðirnar voru fljótlega á þrotum.  Ekki tók betra við því ég þurfti að tefla við páfann og hvergi hægt að fara afsíðis til að hleypa brúnum.  Loks var okkur gengið fram hjá búgarði, óhrjálegum með þöglu og sérkennilegu fólki.  Ég fann klósett en það var svo hrikalegt að ég varð að sitja á hækjum mér ofan á brúnum þess til að ljúka mér af.  Við fengum vatn á brúsann hjá íbúunum en ekkert annað.  Enginn talaði ensku en þetta voru arabar og voru greinlega ekki vanir heimsóknum ókunnugra.

Á heimleið

kolanámumennLoks fengum við far og vorum fegnir þegar við stigum út í miðborg Tel Aviv.  Uppgefnir, þyrstir, glorhungraðir og blankir.  Við áttum fyrir rútunni til Kiryat Shemona en ekki mílu lengra.  Ekki krónu fyrir mat eða drykk.  Okkur leið eins og Oliver Twist þegar við hnupluðum ávöxtum á markaðinum með ókvæðisköll að baki, en þjófarnir fengu þó orku í kroppinn til að halda ferðinni áfram.  Við héldum til strandar til að sofa en næsta rúta færi um hádegisbil daginn eftir.

Rútan hefði talist til fjórða farrýmis enda ódýrt að ferðast með henni.  Farþegar voru alls kyns fólk og búfénaður.  Rykið og hristingurinn yfirþyrmandi og aksturslagið brjálæðislegt.  Keyrt eins og druslan dró, enda náði bílstjórinn ræksninu á annað hundrað kílómetra hraða niður brekkur.  Það ver komið undir kvöldmat þegar við komum til Kiryat Shemona.  Við ákváðum að sofa í skemmtigarði bæjarins en fljótlega komu lögreglu menn að og spurðu hvað við hygðumst fyrir.  Þeir bentu okkur á að garðurinn væri alls ekki öruggur staður fyrir okkur, enda hefði ítrekað verið skotið eldflaugum á bæinn og nokkrar þeirra hefðu einmitt lent í garðinum.  Við sögðu þeim að við værum vinnumenn hjá Shamir og yrðum þá að ganga þangað, um 15 km. leið.  Þeir sögðu okkur að það væri nú heldur ekki öruggt þar sem vitað væri um hermdarverkamenn á ferðinni og myrkrið væri okkur hættulegt.  Þegar við spurðum þá ráða, hlógu þeir og sögðust ekki geta gefið okkur önnur ráð en að við fengjum ekki að sofa í garðinum.  Rétt er að geta þess að árið 1972 voru 18 mans drepin af hryðjuverkamönnum í Kiryat Shemona.  Með berum höndum.

Gangan í náttmyrkri

Uzi hríðskotabyssaVið gengum af stað og fljótlega huldi okkur náttmyrkur, sem var algert því engin lýsing er á leiðinni.  Eftir um 6 km komum við að Kibbutz Amir, þar sem Bob Dylan dvaldi í lengri tíma, og báðum um leyfi til að sofa á flötinni hjá þeim.  Þeir neituðu okkur og eins um að gefa okkur að borða, en við vorum sár svangir.  Við héldum því ferðinni áfram til Shamir.

Allt í einu urðum við varir við mannaferðir í myrkrinu og urðum skelfingu lostnir, enda komu áhrínisorð lögreglumannanna frá Kiryat Shemona upp í hugann.  Við forðuðum okkur af veginum og skriðum í skurði til hliðar við hann. Einhvernvegin gátum við klöngrast þetta og sáum ljósin á Shamir framundan.  Við ræddum málið og ákváðum herfræðina.  Hvort áttum við að læðast að búgarðinum eða koma með hávaða og látum?  Ef við myndum læðast tæku verðirnir okkur sem skæruliða og myndu skjóta okkur.  Við ákváðum því að syngja við raust, íslensk ástar og ættjarðarljóð.  Hvorugur okkar er söngmaður, Jón öllu verri en ég, en við kunnum nokkuð af lögum og vorum vissir um að þetta myndi bjarga lífi okkar.

Heim í öryggið á Shamir

Þegar við áttum eftir um fimmtíu metra að varðstöðinni heyrðum við klikkið í vélbyssunum þegar þær voru spenntar upp.  Allt í einu kom Helmud Leitner, félagi okkar frá Svisslandi hlaupandi að hliðinu með köllum og látum.  Hann nánast öskraði á verðina að þetta væru Íslendingarnir og bað þá um að skjóta ekki.  Okkur hafði reyndar aldrei dottið í hug að þeir myndu skjóta okkur, nema að þeim líkaði söngurinn svo illa, enda töldum við atferli okkar ekki minna á hermdarverkamenn.

Við fengum það staðfest margoft eftir að við komum inn á samyrkjubúið að aðeins hefði munað nokkrum sekúndum að við hefðum verið skotnir.  Svisslendingurinn hefði bjargað lífi okkar en hann hafði verið á verði við Gettóið og heyrði í okkur sönginn og þekkti til okkar.  Við vorum bæði hissa og hræddir þegar við gerðum okkur grein fyrir alvörunni á bak við þennan atburð.  Ekki var þetta til að auka álit okkar á innfæddum og viðhorfum þeirra til sjálfboðaliðanna.


Kafli 8 - Fjölskyldu og varnarmál

hliðiðÖryggiseftirlitið á samyrkjubúinu var öflugt, nema hjá okkur sjálfboðaliðunum.  Við bjuggum í þyrpingu kofa í útjaðri búgarðsins og áttum að sjá um okkar varnir sjálf.  Við fengum merkjabyssu sem við áttum að nota til að láta vita ef á okkur yrði ráðist.  Þá myndu umsvifalaust birtast vopnaðir verðir til að bjarga okkur frá arabískum hermdarverkamönnum.

Eitt kvöld vorum við Stína að festa svefn þegar Hjalti bróðir var á vakt ásamt Mick, enskum sjálfboðaliða úr cockney hverfi East End Lundúnaborgar, undir stjörnubjörtum næturhimni Ísraels.  Við vorum að svífa inni í draumaheim undir rólegum samræðum þeirra félaga þegar allt í einu Mick rekur upp lágt óp og kallar til Dadda að hann hafi séð arabískan hermdarverkamann og fleygir sér á grúfu skelfingu lostinn.  Daddi var hinn rólegasti en skaut samt upp flugeldinum til vonar og vara.  Við Stína skriðum undir rúmið en það var talin nokkuð örugg björgunaraðferð undir þessum kringumstæðum.  Svona eins og að setja á sig björgunarvesti í sökkvandi skipi.  Hræðslan var töluverð enda stutt liðið frá hræðilegum atburðum á búgarðinum.

Ekki bólaði á vörðunum svo Hjalti fer að athuga með þessa skæruliða, en þeir reyndust vera kýr á beit skammt frá í náttmyrkrinu.  Hann gekk því að hliðinu að samyrkjubúinu til að athuga með verðina sem áttu samkvæmt áætlun að mæta með alvæpni á svæðið.  Jú þeir höfðu séð flugeldinn en höfðu ekki hugmynd um hvað hann táknaði.  Enginn hafði minnst orði á þessa varúðarráðstöfun vegna sjálfboðaliðanna við þá.

Við kvörtuðum um þetta daginn eftir við yfirmenn Kibbutz Shamir og niðurstaðan var sú að láta okkur hafa riffil til varnar Gettóinu.  Öllum var nú létt og varnarmálin komin í höfn.

Yfirmenn Shamir gerðu sér grein fyrir að vinnuaflið væri ekki nógu ánægt og eitthvað þyrfti til að jafna bilið um væntingar og upplifuð gæði þessara útlendinga keyrðu áfram hakerfi búgarðsins.  Sú frábæra hugmynd kom upp um að við þyrftum fjölskyldu.  Sjálfir ólu þeir börnin sín upp á stofnunum og höfðu því mikinn skilning á þörf einstaklinga til að vera í faðmi fjölskyldunnar.  Kibbutz fjölskylda var lausnarorðið og okkur Stínu var boðið upp ung hjón sem vera áttu okkur stoð og stytta í ótryggri veröldinni undir Gólanhæðum.  Það var ákveðið að Hjalti myndi fljóta með í þessari fjölskyldu og settur upp fundur aðstandenda eitt síðdegið.

Töluvert var haft við og boðið upp á ískaffi og kökur.  Ég byrjaði að gera kröfur eins og óþekkur krakki, nota tækifærið með nýfengna kibbutzforeldra.  Ég vildi fá hest til að geta riðið um nágrennið og tóku foreldrarnir vel í á ósk.  Allt í einu sá ég að þau fölnuðu upp og ekki blóðdropi í andlitum þeirra og þegar ég fylgdi augnaráði þeirra sá ég hvað var að gerast.  Daddi var að naga á sér táneglurnar í miðju fjölskylduboðinu og hafði það svo mikil áhrif á foreldrana að við þrjú urðum munaðarlaus með það sama.  Mér var ekki skemmt og húðskammaði Hjalta á leiðinni heim í Gettó, enda var hestasamningurinn nokkurn vegin komin í höfn.

En lífið tölti áfram sinn vanagang en töluverður kurr var komin í mannskapinn.  Við vorum farin að tala um að breyta til og hugsa okkur til hreyfings.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Okt. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.10.): 4
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 67
  • Frá upphafi: 287448

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 44
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband