Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
25.2.2008 | 14:44
Nuwara Eliya
Enn og aftur var skroppið til fjalla, nánar tiltekið til Nuwara Eliya til að spila golf. Við gistum á lúxus hóteli sem byggt er um miðja síðustu öld í nýlendustíl. Allt minnir á England og maður sér fyrir sér nýlenduherrana njóta veðurblíðunnar í fjöllunum þegar hitinn er kæfandi niður í Colombo.
Við ókum á föstudagskvöldi og náðum síðbúnum kvöldverði á Grand Hotel. Við komum út skömmu eftir birtingu á laugardagsmorgun og hitastigið var sex gráður. Maður fann lyktina af kuldanum. Svona eins og heima og ekki laust við smá heimþrá. Golfvöllurinn er í nokkurra mínútna göngu við vorum byrjaðir að spila fyrir kl. átta. Fallegur sólskinsdagur og náttúrufegurðin ólýsanleg. Við fengum okkur hádegisverð í klúbbnum eftir góðan hring á vellinum. Það var ekki svitadropi á okkur enda hitastigið rétt um 25° C. Í golfferðum er bara drukkið límonaði, þó maður leyfi sér rauðvínstár að kvöldi. Smá Viskí fyrir svefninn, en menn fara í háttinn upp úr klukkan tíu.
Nuwara Eliya er langt fyrir ofan regnskóginn sem umlykur mest alt Sri Lanka. Teakrar teygja sig yfir hæðótt landslagið ,,Hill Country" og allt er iðagrænt. Enn er hagstætt að heimsækja svæðið og verðlag ótrúlega hagstætt fyrir Íslendinga. Það breytist hinsvegar í apríl þegar vertíðin byrjar upp til fjalla. Verðlag þrefaldast en þá er reyndar allt í blóma og svæðið skartar sínu fegursta.
Eftir góðan hring á sunnudagsmorgun og hádegisverð á hótelinu var ekið af stað í bæinn. Við komum við í teverksmiðju þar sem hægt er að kaupa úrvals te á góðu verði. Single Estate Fine Te frá Mackwoods verksmiðjunni sem er í nærri 2000 metra hæð. Bragðmesta og besta teið er ræktað hátt upp í fjöllum. Ég keypti nóg til að færa vinum mínum heima sem kunna að meta þennan eðaldrykk. Sjálfur hætti ég að drekka kaffi fyrir þremur mánuðum síðan og nú er drykkurinn te. Bjórinn settur út á gaddinn og límonaði tekið inn. Það er ekki pláss fyrir bjór með vinnu, ritgerðarsmíð og golfsveiflu. Svo hann varð að víkja.
19.2.2008 | 12:03
Golfsveifla

Það er sólskyn og blíða á sjöttu gráðu norður, og skuggarnir frekar stuttir. Svitinn perlar af berum handleggjum og rennur niður í lófann sem heldur um kylfuna. Ég gríp um skaftið, fyrst með vinstri hendinni, með svokölluðu sterku lokuðu gripi. Kylfan liggur í fingrunum þannig að kverkin milli vísifingurs og þumals bendir í átt að hægri öxl. Ég sé greinilega þrjá hnúa á hendinni þegar ég gríp með þeirri hægri neðan við vinstri höndina. Þumalinn leggst vinstra megin við skaftið og eins og áður bendir bilið milli vísifingurs og þumals á hægri öxl. Vinstri höndin lætur aðdráttaraflið ráða og liggur beint niður en kylfan hallar frá að austurhveli kúlunnar.
Hnén láta aðeins eftir og ég halla mér fram með bakið beint. Ég færi vinstri fótinn aðeins fram fyrir hnöttinn og síðan hægri fótinn jafn langt aftur. Fæturnir eru í lóð við axlir og fjarlægðin frá höndum að líkama er um þverhandarbreidd. Það er komið að "take off autapilot" og aftursveiflan hefst þegar kylfan er dregin af stað í andhverfa stefnu við skotlínu. Varlega snýst upp á líkamann um mjaðmir og axlir og báðir handleggir beinir þar til kylfan er lárétt í 270° frá skotstefnu. Þunginn er nú allur kominn á hægri fótinn, sem er örlítið útskeifur til að auðvelda snúninginn upp á líkamann. Höfuðið stöðugt enda augun á höggpunkti kúlunnar, og passað að rétta ekki úr hægra hné. Nú fer að myndast brot á vinstri úlnlið og hægri olnbogi fer að gefa eftir. Aftursveiflan heldur á þar til snúningur á mjöðm og öxlum hefur náð um 90 gráðum og ég horfi yfir öxlina á kúluna. Kylfu hausinn bendir nú fram og niður fyrir ofan höfuðið á mér.
Hér er komið að hárfínu augnabliki þar sem aðdráttarafl jarðar tekur þátt í ævintýrinu í brot úr sekúndu. Tilfinningin er að kylfan byrji að falla og hægri olnbogi leggur af stað í átt að líkamanum. Hér tekur vinstri höndin öll völd og byrjar framsveifluna. Tilfinningin er að ég sé að berja ryk úr teppi sem hengt hefur verið upp við hliðina á mér.
Vinstri höndin dregur kylfuna með auknum hraða þar til augnabliki fyrir árekstur við kúluna, að það réttist úr úlnliðinum. Þarna tekur hægri höndin völdin og klárar sveifluna.
Það má líkja þessu við þegar nagli er negldur með hamri. Ef reynt er að negla með beinum úlnlið er mjög erfitt að reka niður tommu nagla. Með því að sveigja úlnliðinn og rétta úr honum á réttu augnabliki reynist auðvelt að negla niður fimm tommu gaur.
Við vindingin ofan af úlnlið samfara sveiflunni fer kylfuhausinn á um 150 km hraða, akkúrat áður en snertingin á sér stað og kúlan flýgur um 110 metra leið í beinum fögrum boga. Tregðulögmálið í sveiflunni dregur líkamann upp og þunginn flyst allur yfir á vinstri fótinn en sá hægri er kominn á loft með tána niður. Tregðan er svo mikil í sveiflunni að kylfan er komin aftur fyrir hnakka þegar búið er að stöðva hana. Allan tímann hafa mjaðmir ekkert sveiflast til, heldur bara snúist upp á þær.
Þetta var hin fullkomna golfsveifla. Stundum er talað um að hugur og hönd þurfi að vinna saman en líffræðilega er þetta samstarf á milli litla og stóra heila. Sá stóri hugsar en litli framkvæmir lærðar endurteknar hreyfingar. Eins og að stikla á steinum í stórgrýttri fjöru eða hreinlega að aka bíl.
Ánægjan sem fylgir hinu fullkomna höggi er ólýsanleg. Eins og rauðvínssmökkun er golfsveiflan list. Þeir sem stunda hið fyrrnefnda hafa fundið alls kyns samlíkingar til að útskýra hið fullkomna bragð og tilfinningu við snertingu víns og skynfæra.
4.2.2008 | 10:45
Þorri á Sri Lanka

Nú er frost á fróni og búið að vera töluvert kuldakast undanfarið. Ég hef reyndar bara fréttir af því þar sem hér er sól og blíða upp á hvern dag. Ég læt nokkrar myndir fylgja með frá Kandy þar sem við félagarnir eyddum helginni í golfi. Kandy er reyndar í um þúsund metra hæð og því örlítið svalara heldur en hér niður í borginni.
Við gistum tvær nætur, fyrst í Viktoríuklúbbnum þar sem völlurinn er en síðari nóttinni á fimm stjörnu hóteli í Kandy. Við nutum kvöldverðar á veitingastað hótelsins, sem er sennilega besti matur sem ég hef fengið um ævina. Sjö réttir og hver með réttu vínglasi til að harmonera við frábæran matinn, sem var Tælenskur að uppruna.
Á næsta borði sat fyrrum forsætisráðherra landsins og núverandi forystumaður stjórnarandstöðunnar landsins. Hann hafði hinsvegar valið Sri Lanka útgáfu matseðilsins. Fyrir utan gluggann mátti sjá öryggisverði leita með vasaljósum innan um hitabeltisgróðurinn, að einhverju sem lítið tengdist upplifuninni innandyra.
En golfið var frábært þó ekki næðist hin einstaka sveifla. Það verður að bíða betri tíma. Í dag er þjóðhátíðardagur Sri Lanka en hræðilegir atburðir undanfarna daga skyggja á gleðina.
30.1.2008 | 16:09
Bókin á náttborðinu
Þessa dagana er ég með bókina Undir Snjáfjöllum eftir vin minn Engilbert S. Ingvarsson á náttborðinu. Bókin er góð lýsing á lífi fólks undir Snæfjallaströnd á fyrri hluta síðustu aldar. Þetta er mér hugleikið enda á ég ættir mínar að rekja þangað en afi minn í móður hætt, Hjalti Jónsson, var fæddur á Skarði.
Ég hef í tvígang gengið ströndina frá Berjadalsá að Dalbæ sunnan við Unaðsdal. Það er reyndar með ólíkindum hversu fögur bæjarnöfn og örnefni eru á þessum slóðum. Berjadalsá, Gullhúsaá, Unaðsdalur, Snæfjöll, Tyrðilmýri, Sandeyri og Lyngholt.
Í fyrra skiptið gekk ég undir leiðsögn Jóns Reynis félaga míns og jafnaldra og síðar með öðrum skólafélaga, Snorra Grímssyni. Báðir eru þeir miklir viskubrunnar og þekkja vel til sögu strandarinnar og þess mannlífs sem hún ól á sínum tíma. Nú er stöndin komin í eyði fyrir utan sumargesti sem koma og fara án þess að treysta á þær auðlindir sem náttúran gaf íbúum fyrr alda.
Þó ströndin líti kuldalega út séð frá Ísafirði er það að hluta til blekking. Skaflarnir safnast undir hjalla í hlíðinni en skjól við norðanáttinni veitir aðhald og gerði útræði auðvelt á gjöful fiskimið í Ísafjarðardjúpi. Einnig er sólríkt á Snæfjallaströnd og nær sólin að verða æsæ þegar hún er hæst á lofti í kringum jónsmessu.
Það sem vakti mig til umhugsunar við lestur bókarinnar var sá félagslegi kraftur sem Engilbert lýsir í í bók sinni þar sem stofnun og rekstur ungmennafélaga á þriðja og fjórða áratug tuttugustu aldar ber hæst. Þrátt fyrir bág kjör og litla peninga voru menn tilbúnir að leggja fé og vinnu við að byggja upp félagsaðstöðu til að halda leiksýningar, böll og stóðu fyrir útgáfu menningarrits. Efniviður til húsbygginga var keyptur frá austanverðum ströndum, rekaviður sem lónað hafði með straumum í mörg ár frá skógarhöggi í Síberíu, og síðan sagað niður í borð með handsög. Með samtakamætti reistu menn síðan Ásgarð sem varð félagsheimili íbúa við Snjáfjallaströnd.
Ég sagði frá því í gær að ég kom við í þorpi sem reyst var fyrir fólk sem misst hafði heimili sín í tsunami flóðinu 2004. Fyrr um daginn hafði ég séð um afhendingu löndunarstöðvar sem var gjöf frá Íslensku þjóðinni til fiskimannasamfélags hér í landi. Mér varð hugsað til þess að íbúar þessara fiskimannasamfélaga eru ekkert verr settir hvað efnahag varðar en íbúar Snæfjallastrandar voru í upphafi síðustu aldar. En þarna er hinsvegar grundvallar munur á framtaki og þrótti við að halda uppi félagslegum þáttum en lítið ber á slíku hér í fiskimannasamfélögum Sri Lanka. Hvergi heyrist í tónar eða ber á öðrum listviðburðum. Lífið einskorðast við að hafa í sig og á okki rúm fyrir neitt annað.
Í sveitum Íslands í fátækt fyrri aldar var alltaf einhver sem komst yfir harmonikku sem dugði til að halda gott ball. Enda kemur fram í bók Engilberts að slíkar samkomur voru haldnar, fyrst í heimahúsum og síðar í félagsheimilum sem íbúarnir komu sér upp.
Ekki kann ég skýringu á þessum mun sem hér er nú og var við svipaðar efnahagslegar aðstæður 1930 á Snæfjallaströnd, en það væri frekar hlutverk mannfræðinga að finna út úr því en hagfræðinga.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.1.2008 | 15:42
Löndunarstöð í Nilwella
Það var annarsamur dagur í dag og óhætt að fullyrða að unnið var myrkrana á milli. Lagt af stað fyrir sólarupprás á suðuodda Sri Lanka til að afhenda löndunarstöð frá Íslensku þjóðinni til fiskimálasamfélagsins í Nilwella. Eftir klukkutíma ræðuhöld og veislu var lagt af stað heim aftur en komið við hjá frænda bílstjórans okkar sem stýrði okkur í gegnum ótrúlega kúnstuga umferð landsins.
Við komum að byggð sem reist hafði verið fyrir fórnarlömb tsunami, um 400 hús alls. Ekkert nema íbúðarhús, engin vinna né þjónusta á staðnum. Fólkið hafði lifað af sjónum fyrir flóðölduna en var nú sett upp í afdal án tilgangs í tæplega átta kílómetra fjarlægð frá ströndinni.
En það var tekið á móti okkur með kostum og kynjum og boðið upp á fisk og kjöt í karrý og bjór til að skola niður. Það var gaman að spjalla við fólkið en alls bjuggu sex fjölskyldur í þessu húsi sem var um hundrað rúmmetrar. Umræðurnar fóru í gegnum tíu ára stúlku sem talaði reiðbrennandi ensku.
Ég frétti af syni mínum Jóni á þessum slóðum og við höfðum mælt okkur mót til tedrykkju í virkinu í Matara. Jón er á flakki um Sri Lanka en kemur heim til sín (á Hyde Park Residency) á miðvikudags kvöld. Ekkert varð af feðrafundi í þetta sinn þar sem rútan tafðist sem hann tók úr fjöllum niður á strönd. En við höfum ákveðið aðra golf ferð til Nuwara Eliya um helgina.
Golf og aftur golf. Lífið snýst um það þessa stundirnar og reynt að ná tökum á sveiflunni. Kuma, golfkennari, er með okkur báða í meðhöndlun til að gera okkur að golfleikurum. Það gengur betur með Nonna en mig en karlinn er orðin heltekin af því að temja mig inn í þessa göfugu íþrótt. Örugglega metnaðarfyllsta hlutverk sem hann hefur tekið sér fyrir hendur. Fá mig til að vera mjúkur og nota ekki krafta. Töfraorðið er bros til að ná spennunni úr skrokknum og ná þessar einu sönnu mjúku sveiflu. Sú sveifla verður tekin í tvö þúsund metra hæð um helgina. Ég held að sjálfur fari ég í sextíu þúsund fet ef það tekst.
24.1.2008 | 13:51
Nuwara Eliya

Við félagarnir og feðgarnir Nonni og undirritaður skelltum okkur upp í fjöll um síðustu helgi. Nánar tiltekið til Nuwara Eliya, sem oft er kallað litla England. Bærinn er í 2000 metra hæð og því allt annað loftslag og langt fyrir ofan regnskógarbeltið, og minnir töluvert á Enskar sveitar.
Við vorum á leið í golf og ákveðið að gista á gömlum Enskum herragarði sem heitir Hill Club. Hann er reyndar aðeins fyrir meðlimi en sem útlendingar gátum við fengið tímabundna aðild. Við höfðum ákveðið að fara með lest upp í fjöllin þar sem umferðin er hræðileg á Sri Lanka. Lestaferðin átti að taka um fjóra og hálfan tíma og við bókað á fyrsta farrými í lúxusklefa. Brottför var klukkan sex á föstudagsmorgun.
Það hafði gengið erfiðlega að fá miða á fyrsta farrými og okkur sagt að ekkert væri laust. Tekonan okkar á skrifstofunni hvíslaði þá að mér hvort hún ætti að kippa í spotta og redda þessu fyrir okkur. Það gekk hratt fyrir sig og upp úr hádegi á fimmtudag var búið að afhenda miðana á borðið hjá mér og kostnaðurinn var heilar sjö hundruð krónur fyrir okkur báða. Það var síðan hringt í mig um kvöldið af manni sem sagðist myndi taka á móti okkur fyrir brottför og fylgja í klefann.
Þegar við komum á lestastöðina var eins og maður væri kominn á nýlendutímann og í sögu eftir Agatha Christie. Það vantaði bara Hercule Poirot. Lestin hefur örugglega verið smíðuð á þeim tíma sem hann var að leysa morðgátur en glæsileikinn fölnaður sökum aldurs. Nú var bara að passa sig á að verða hvorki sá myrti eða glæpamaðurinn. Í öllum sögum um þennan frækna leynilögreglumann fer illa fyrir báðum þessum aðilum.
Við settumst öfugt, aftast í síðasta vagninn, og lestin skrölti af stað inn í morgunsárið. Hraðinn var mestur um 60 - 70 km og ójafnir teinarnir rugguðu lestinni til og frá. Þetta var býsna notalegt og við horfðum á Colombo hverfa í fjarskann og framundan voru fjöllin. Velgerðarmaður okkar hafði komið með fyrsta legginn til að tryggja að vel færi um okkur, en hann starfar fyrir járnbrautirnar.
Hafi lestin minnt á Poirot þá kom tilefnið til morðsins fljótlega. Við byrjuðum að stoppa hvar sem hægt var, á brautarstöðum og utan þeirra. Lengsta stoppið voru þrír tímar, óútskýrt og þegar spurt var um brottför var svarið ævinlega að lagt yrði af stað eftir fimm mínútur. Ég var á leið í morðingjahlutverkið.
Ellefu tímum eftir brottför komum við á brautarstöðina sem næst er Nuwara Eliya. Eftir hálftíma ferð með leigubíl vorum við komnir á áfangastaðinn, Hill Club. Byggður 1886 og eins enskur og hugsast getur. Við byrjuðum á að kíkja á barinn sem eingöngu er ætlaður karlmönnum. Blandaði barinn er handan við hornið. Myndirnar á veggjunum voru af Churchill, Elísabetu og Karli prins. Okkur leist mjög vel á okkur en komið var undir kvöldverð og ekkert yrði af golfi þennan daginn.
Það er ,,dress code" í klúbbnum og skilda að mæta í jakkafötum með bindi til kvöldverðar. Þjónarnir með hvíta hanska og margréttuð máltíð borin fram. Á eftir settumst við í bókaherbergið með Wiskey fyrir framan arininn, en hitastigið úti var eins og á góðum sumardegi heima í Tunguskógi. Þegar við skriðum upp í rúmið seinna um kvöldið barst um okkur unaðstilfinning þegar við fundum fyrir hitapoka sem komið hafði verið fyrir meðan við mötuðumst, til að halda á okkur hita inn í draumalandið.
Við fórum snemma á fætur og drifum okkur í golfið. Það er innan við fimm mínútna gangur á völlinn frá klúbbnum og kaddy captain tók á móti okkur. Við fengum sinn hvorn kylfusveininn og síðan var byrjað að spila. Völlurinn er stórglæsilegur og teygir sig út um bæinn og þarf að fara yfir aðalgötuna á leið um hann. Á einum stað var boðið upp á drykki og áður en við vissum af voru átján holur búnar og okkar beið staðgóður hádegisverður á veitingarstað klúbbsins. Síðan var bara að drífa sig annan hring og þegar honum lauk um hálf sexleytið fengum við okkur ölkrús og veltumst um af hlátri yfir golfbröndurum. Notaleg þreytan leið úr manni í djúpum stólum á veröndinni meðan áhrifin af ölinu hríslaðist um hverja taug og við nutum félagsskapsins af hvor öðrum og horfðum yfir kvöldhúmið leggjast yfir iðagrænan golfvöllinn.
Eftir heita sturtu á Hill Club fengum við okkur Vískí og síðan drifum við okkur í jakkafötin og skelltum okkur í kvöldverðin. Þetta var orðið betra en besta skíðaferð.
Á sunnudagsmorgun vorum við mættir klukkan hálf átta á völlinn þar sem kylfusveinarnir biðu okkar og átján holurnar spilaðar í þessu óvenju fallega umhverfi. Veðrið eins og best gerist heima á Íslenskum sumardegi með hitastigið rétt yfir 20° C.
Upp úr hádeginu tókum við bíl heim í borgina en stoppuðum á leiðinni í stórri teverksmiðju til að kaupa sitt hvort kílóið af fyrsta flokks tei. Náttúrfegurðin er mikil í Nuwara Eliya þar sem iðagrænir teakrarnir teygja sig um hóla og hæðir. Ár og fossar flæða niður hlíðar og þverhnýptir klettar bera við himin. Þetta var góð ferð í góðum félagsskap.
15.1.2008 | 11:11
Mannréttindamál
Það er með ólíkindum að fylgjast með umræðu um meint mannréttindabrot íslenskra stjórnvalda héðan frá Sri Lanka. Ekki hafði ég heyrt af þessari mannréttindanefnd Sameinuðu Þjóðanna, en Álit þeirra á fiskveiðikerfi Íslendinga vekur upp efasemdir um þekkingu þeirra tólfmenninga sem sitja í nefndinni.
Mér er reyndar alvarlega misboðið að ræða um fiskveiðistjórnunarkerfið með þessum hætti í samhengi við mannréttindabrot. Mannréttindi eru hornsteinn lýðræðis og fáar þjóðir njóta þeirra í meira mæli en Íslendingar. Þeir Erlingur Haraldsson og Örn Sveinsson brutu íslensk lög og voru dæmdir fyrir það. Lög sem sett voru af lýðræðiskjörnu löggjafarþingi Íslendinga, og eru reyndar mjög gegnsæ og auðskilin. Eftirlit með þessum lögum er síðan í höndum eftirlitsaðila sem vinna kerfisbundið og án pólitískra áhrifa og þeir sem staðnir eru af brotum á þessum lögum eru dæmdir af sjálfstæðum dómstólum.
Ég sá að Morgunblaðið, í forystugrein, sá ástæðu til þess að óska lögbrjótunum til hamingju með álit þessarar dæmalaus mannréttindanefndar S.Þ. Morgunblaðið hefur að vísu alltaf verið á móti kvótakerfinu en það vekur hinsvegar athygli að blaðið skuli styðja lögbrjóta.
Látum nú mannréttindamálin liggja milli hluta í þessu máli og spyrjum okkur að því hvað skuli koma í staðin fyrir kvótakerfið, ef það er svona óréttlátt. Eða þarf ekkert að takmarka ásókn í fiskimið Íslendinga? Er þetta óþrjótandi auðlind? Dettur einhverjum heilvita manni í huga að halda því fram?
Ég sit hér á Sri Lanka og meðal annars skrifa meistararitgerð mína sem fjallar um virðiskeðju í sjávarútvegi landsins. Því fylgir að lesa mikið af rannsóknarskýrslum og ritgerðum, meðal annars mikið af efni frá Matvælastofnun Sameiniðuþjóðanna (FAO). Það gengur eins og rauður þráður í gegnum þessar skýrslur að ein helsta ástæða fyrir fátækt fiskimanna og lítillar tekjumyndunnar í sjávarútveg þróunarlanda, eins og Sri Lanka, er það sem kallað er frjáls aðgangur að auðlindinni (open access). Skortur á einkarétti á nýtingu auðlindarinnar kemur í veg fyrir hagræðingu þar sem harmleikur almenninga (Tragety of the Common) er alls ráðandi. Ég kannast ekki við að hafa lesið neitt í þessum lærðu skýrslum frá S.Þ. sem mælir með frjálsum aðgangi að fiskveiðum. Ég held að allir lærðir menn átti sig á þessu en ritstjóri Morgunblaðsins lætur hinsvegar stjórnast af barnalegri rómatík sinni í þessu mikla hagsmunamáli þjóðarinnar.
Ekki veit ég hvort tólfmenningarnir í mannréttindanefnd S.Þ. hafa séð eitthvað af þessum skýrslum fræðimanna stofnunarinnar á sviði fiskveiðimála en það er alveg á hreinu að þeim veitti ekki af að lesa sig svolítið til. En hvers vegna er dómstóll á vegum S.Þ. að gefa álit sitt á slíkum málum? Mér skilst að þessi dómstóll hafi aldrei gefið nein álit á Norður Kóreu, Mayamar, Kína eða öðrum slíkum löndum. Þeir hafa hinsvegar verið ósínkir á álit sitt á mannréttindabrotum í Hollandi, Svíþjóð og núna síðast á Íslandi. Þetta er náttúrlega allt saman djók, nema óábyrg afstaða Morgunblaðsins.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.12.2007 | 06:16
Harmleikur almenninga
Umræðan um fiskveiðistjórnun Íslendinga hefur verið áberandi undanfarna tvo áratugi, og ekki að furða sig á því þar sem miklir hagsmunir þjóðarinnar eru í húfi. Íslendingar skera sig úr í samfélagi þjóðanna þegar kemur að stjórnun fiskveiða og umgengni um auðlindina og eru ein af örfáum þjóðum heims sem reka fiskveiðar á viðskiptalegum grunni þar sem greinin er hagnaðardrifin.
Mér varð hugsað til þessa þegar ég dvaldi á strandhóteli á Sri Lanka yfir jólin og fylgdist með veiðum fiskimanna með strandnót. Notaðir eru tveir bátar til að róa með nótina út á víkina og henni síðan kastað í hálfhring. Úr hverjum væng liggur lina upp á land sem síðan er dregin upp á höndum, en við töldum 47 manns við ádráttinn. Nótin er gríðarstór og þessi var framleidd úr snæri ofnu úr kókoshnetum, fyrir utan pokann sem var úr gerviefni. Nótinni var kastað um sjö leitið um morguninn og búið að draga hana upp á strönd fyrir hádegi. Aflinn var um 20 kg á aðfangadag en aðeins um 5 kg á jóladag. Við reiknuðum út að afrakstur fiskimannsins væri að meðaltali u.þ.b. einn dollar fyrir dagsverkið. Eigandi nótarinnar tekur helminginn og hitt skiptist á milli þátttakanda við ádráttinn.
Á átti síðar samræður við menn sem vel þekkja til fiskveiða á Sri Lanka og kom fram hjá þeim að fyrir 20 árum hafi verið algengt að veiðin væri nokkur hundruð kíló í kasti. Ef marka má frásögn þeirra (sérfræðinga í veiðum) er veiðin 10% af því sem hún var áður. Almennt eru menn sammála um að ofveiði sé um að kenna á grunnslóð landsins en lítið fer fyrir veiðistjórnun stjórnvalda.
Gerrett Harding skrifaði fræga grein árið 1968 sem hann kallaði Tragety of the Common" (harmleikur almenninga) Í einföldustu útfærslu má lýsa þessu fyrirbæri með sögu af fimm bændum sem búa í kringum dal þar sem þeir deila sameiginlegum bithaga. Bithaginn er almenningur og fljótlega er hann fullnýttur, þ.e.a.s. ágangur er jafn mikill og afrakstur hans. Þá er komið að svolítilli leikjafræði en hver bóndi hugsar með sér að hagkvæmt sé að bæta við hjörðin, enda sé lítill sem engin breytilegur kostnaður samfara því. Hver bóndi hugsar einnig á þann veg að ef hann fjölgi ekki þá munu hinir gera það. Þrátt fyrir að allri bændurnir geri sér fulla grein fyrir afleiðingunum sem þetta kallar á, ofbeit á bithagann, fjölgar hver um sig í hjörðinni. Niður staðan er harmleikur almenningsins þar sem ofbeitin veldur hríðfallandi fallþunga og í framhaldi af því minnkandi tekjum allra bændanna. Til lengri tíma verður landið örfoka, blæs upp og hrun verður í dalnum.
Nákvæmlega það sama gerist þar sem um sameiginlega fiskveiðiauðlind er að ræða. Á Sri Lanka er haldið á að veiða ofveidda stofna og veiði á sóknareiningu hefur hrunið, öllum þeim sem stunda greinina til tjóns. Hefðu Íslendingar ekki tekið þá sársaukafullu ákvörðun að setja á kvótakerfi upp úr níunda áratug síðustu aldar, væru lífskjör þjóðarinnar með öðrum og verri hætti en raunin er. Íslendingar eru í efsta sæti þjóða heims í lífsgæðum, ef marka má nýlega úttekt sem framkvæmd er af alþjóðastofnum og meðal annars rataði inn í helstu fréttastofur á Sri Lanka í síðasta mánuði.
Fiskveiðistjórnun er samt meira en kvótakerfi, en það var sett á vegna gríðarlegs taps á útgerðinni þar sem fiskveiðiflotinn var orðin allt of stór miðað við afrakstur auðlindarinnar. Við notum vísindamenn Hafrannsóknarstofnunnar til að fylgjast með ástandi nytjastofna og gera tillögur um veiðimagn. Einhverskonar kerfi þarf til að ákveða síðan veiðimagn sem vonandi er í takt við ráðleggingar vísindamanna okkar. Hafrannsóknarstofnun leggur síðan til friðun svæða til að gefa fiskistofnum möguleika á að viðhalda sér. Fiskistofa fylgist með veiðileyfum báta og lönduðum afla og ásamt Landhelgisgæslunni sér um eftirlit með að lögum og reglum sé hlýtt. Allt gengur þetta út á að hámarka fiskveiðaarðinn, fiskiðnaðinum til heilla og ekki síður Íslensku þjóðinni.
Í dæmi um veiðar á Sri Lanka sem hér er talað um fer öll innkoman í kostnað. Engin af þeim sem stunda veiðarnar geta lagt hluta af innkomunni til hliðar til að auka afkomuöryggi fjölskyldu sinnar. Ef einhver arður væri myndi hann fara í bankann sem síðar myndi lána hann út að jafnið níu sinnum. Slíkt eykur hagvöxt og möguleika á nýjum sóknarfærum fyrir þjóðina alla. Þó að kvótaleiga kunni að fara í taugarnar á fólki, sem telur að gengið sé á réttlæti fyrir hagkvæmni, er sá ,,kostnaður" hluti af fiskveiðaarðinum. Þar eru fjármunir sem streyma úr fiskiðnaði sem arður og hægt að nota við ný sóknarfæri þjóðarinnar.
En umræðan hefur oft verið í skötulíki á Íslandi. Margur maðurinn ræðst fram með skoðanir sínar án þess að taka tillit til þessara grunnþátta. Slá um sig meiningar litlum stóryrðum og setja sig aldrei inn í málin. Benda ekki á hvaða leiðir séu færar vegna harmleiks almenninga og tilgangurinn snýst oftar en ekki um persónulega hagsmuni þeirra. Þessir aðilar eiga það sameiginlegt að skilja ekki að einhver geti borið hagsmuni þjóðarinnar fyrir brjósti og geti litið út fyrir þrönga eiginhagsmuni sína. Það verður að gera kröfu til þess að menn haldi sig við rök en ekki upphrópanir, sérstaklega þá sem hafa mikil áhrif á þessa umræðu.
26.12.2007 | 01:54
,,Réttlæti" veiðigjalds
Ég hef fylgst með umræðu um lækkun kvótagjalds sem sjávarútvegráðherra beitti sér fyrir vegna niðurskurðar veiðiheimilda í þorski á yfirstandandi fiskveiðiári.
Það er alveg með ólíkindum að íbúar Vestfjarða skuli styðja slíka skattheimtu sem með beinum hætti vegur að kjörum þeirra. Þessi skattur var hugsaður til að sætta sjónarmið vegna kvótakerfisins og hugmyndin sú að útgerðaaðilar væru að greiða fyrir afnot af sameiginlegri auðlind þjóðarinnar, fiskimiðunum. Þannig sé ákveðnu réttlæti náð og huggun harmi gegn vegna ,,gjafakvótans"
Ég minnist þess að hafa lesið fyrir margt löngu dálk um heimspeki í Morgunblaðinu þar sem sagði frá hversu nauðsynlegt það væri öllum að sættast við fortíðina og horfa fram á veginn. Ég þekki einmitt nokkra sem ekki geta lifað fyrir framtíðina þar sem þeir bruna í gegnum lífið, horfandi í baksýnisspegilinn. Það má líkja þessu ,,réttlæti" veðiðgjaldsins við slíkt ferðalag, þar sem fólk sér ekki möguleikana framundan vegna þess að horfir bara um öxl.
Ef við tökum þá sem upp úr standa í útgerð á Vestfjörðum í dag er ljóst að lítill hluti þeirra notar ,,gjafakvóta" til að braska með hann. Flestir hafa þurft að kaupa sig inn í greinina, eftir að kvótinn var settur á, og þeir sem hafa fengið hann í arf eru að nota hann við veiðar og vinnslu. En upp úr stendur að tæplega 90% kvótans hefur gengið kaupum og sölum síðan kerfinu var komið á.
Ríkið þarf skatttekjur af illri nauðsyn til að fjármagna umsvif sín. Öll skattlagning er óhagkvæm en þó misjafnlega mikið eftir því hvers eðlis hún er. Neysluskattar eru skárri en tekjuskattur, sem dregur úr vinnuvilja og kallar á ólöglega starfsemi. En skattar á atvinnugreinar, eins og veiðigjaldið, er verst af þessu öllu. Skattur sem hugsaður er sem réttlætisaðgerð er í sjálfu sér mjög óréttlát og mismunar atvinnugreinum, og þannig landsvæðum.
Sjávarútvegsráðherra átti ekki að leggja til lækkun á veiðigjaldi heldur afnámi. Vestfjörðum er það nauðsynlegt að sjávarútvegur blómstri og standist samkeppni um mannauð við aðrar greinar atvinnulífsins. Íslenskur sjávarútvegur er sá fremsti í heimi en það kemur ekki af sjálfu sér. Við megum ekki við því að leggja óhagkvæman og óréttlátan skatt á grein sem Íslendingar hafa byggt góð lífskjör sín á.
18.12.2007 | 13:34
Einkavæða rafmagnsframleiðslu
Við Gísli Marteinn erum skoðanabræður í þessu máli. Það er alveg merkilegt eins og oft er talað illa um stjórnmálamenn, þá virðast fjöldi manna treysta þeim best til að standa í rekstri framleiðslufyrirtækja. Hlutverk stjórnvalda er að tryggja lög og reglu, öryggi ásamt því að sjá um menntun og heilsugæslu. Stjórnvöld eiga ekkert erindi í framleiðslu á samkeppnismarkaði, enda hefur það aldrei verið til heilla.
Sem betur fer hafa íslensk stjórnvöld verið að draga sig út úr slíku með umfangsmikilli einkavæðingu undanfarin ár. Hagurinn er ekki fólgin í söluverði fyrirtækjanna heldur þeim krafti einstaklingsframtaks sem losnar úr læðingi. Eins og sást vel með bankana.
Gunnar Þórðarson
Sri Lanka
![]() |
Vill einkavæða Landsvirkjun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Um bloggið
Gunnar Þórðarson
Tenglar
Hallgrímur bláskór 2012
- Gengiðr úr Hornvík í Kjaransvík
- Kjaransvík - Sæból
- GEngið á Ryt og Darra
- Gengið á Straumnesfjall
- Gengið á brúnir Grænuhlíðar
Smölun í Austurdal
- Austurdalur -2010 Dagur 1 Smölun í hinum ægifargra Austurdal suður af Skagafirði
- Austurdalur - 2010 Dagur 2 Annar dagur smalamensku í Austurdal í Skagafirði
- Austurdalur -2010 Dagur 3 Lokadagur smölunar fyrir Austudalsfélagið í Skagafirði
- Föstudagur 2011 Smalaferð Göngumannafélags Austurdals í september 2011
- Laugardagur í Austurdal 2011 Smalaferð Göngumannafélags Austurdals í september 2011
- Sunnurdagur í Austurdal - 2011 Smalaferð Göngumannafélags Austurdals í september 2011
- Mánudagur 2011 Smalaferð Göngumannafélags Austurdals í september 2011
Skútukaupin 1976
Við félagarir, undirritarðu, Jón Grímsson og Hjalti Þrórðarson keyptum skútu í Bretlandi og sigldum henni heim til Íslands
- Kafli 1 - Skútukaupin undirbúin
- Kafli 2 - England
- Kafli 3 - lagt í siglinguna miklu
- Kafli 4 - Captain Thordarson
- Kafli 5 - Siglt í norður
- Kafli 6 - Færeyjar - Ísland
- Kafli 7 - Siglt til Ísafjarðar
Ísrael 1974
Sagt frá ævintýri okkar Stínu, Nonna Gríms og Hjalta Bróður þegar við ókum yfir Evrópu 1974. Fórum frá Aþenu til ísrael og unnum þar á samyrkjubúi.
- Kafli 1 - Mótorhjólagengið
- Kafli 2 - Júgóslavía, Grikkland og Ísrael
- Kafli 3 - Á kibbutz undir Gólanhæðum
- Kafli 4 - Í kjölfar árásarinnar
- Kafli 6 - Maðurinn með ljáinn
- Kafli 5 - Endurfundir
- Kafli 7 - Frá rauðu ljósi í Milanó
- Kafli 8 - Fjölskyldu og varnarmál
- Kafli 9 - Vinna í Elat
- Kafli 10 - Daglegt líf á Shamir
- Kafli 11 - Til Grikklands
- Kafli 12 - Sögulok í London
Að Fjallabaki 2012
Suður um höfin 1979
Frá ferðalagi okkar Stínu á seglskútunni Bonny frá Ísafirði til Mallorca í Miðjarðarhafi
Sigling frá Mallorka til Grikklands
- Kafli 1 - lagt af stað til Ítalíu Fimm félagar sigldu Bonny frá Spánar til Grikklands
- Kafli 2 - Sikiley og Grikkland
- Kafli 3 - Kea og Paros
- Kafli 4 - Santorini
Safaríferð í Úganda
- Ferð til Murchison Falls - fyrri hluti Safaríferð inn í frumskóg Úganda
- Ferð til Murchison Falls - seinni hluti
Hálendisferð 2010
- Gengið á Fimmvörðuháls Eldstöðvar Fimmvörðuháls skoðaðar
- Skaftafell og Kristínartindar Gengið á Kristínartinda
- Gengið á Mælifell Ekið Fjallabak syðra norður fyrir Mýrdalsjökul
- Friðland að Fjallabaki Gengið um við Landmannalaugar
- Gengið á Löðmund Gengið á Löðmund við Dómadal
- Gengið á Snæfell Gengið á hæsta fjall Íslands utan jökla, Snæfell
- Gengið í Geldingarfell Ferð um Lónsörævi með frábærum hópi, sumarið 2010
- Gengið í Egilssel Gengið úr Geldingafelli í Egilssel við Lónsöræfi
- Gengið niður Lónsöræfi Þriggja daga göngu norðan og austan Vatnajökuls lokið
Sri Lanka 2007
- Sri Lanka 2006-2008 Starfað á Sri Lanka
Bloggvinir
-
astromix
-
ekg
-
stefanbjarnason
-
golli
-
vikari
-
gunnarpetur
-
vestfirdir
-
gudni-is
-
ea
-
ladyelin
-
gp
-
altice
-
hjolaferd
-
kaffi
-
komediuleikhusid
-
rabelai
-
ziggi
-
huldumenn
-
helgi-sigmunds
-
sigrunzanz
-
hordurhalldorsson
-
baldher
-
hjaltisig
-
lotta
-
kjarri
-
bjarnimax
-
jovinsson
-
smjattpatti
-
eirmor
-
vefritid
-
saemi7
-
siggisig
-
maggij
-
lehamzdr
-
contact
-
gauisig
-
jonvalurjensson
-
thjodarskutan
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (8.10.): 3
- Sl. sólarhring: 23
- Sl. viku: 66
- Frá upphafi: 287447
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 43
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar