Kafli 10 - Daglegt líf á Shamir

Við brölluðum margt á Shamir og skemmtum okkur vel í hópi ungs fólks alls staðar að úr heiminum.  Einn sjálfboðaliðinn var frá Puerto Rico og hét Daniel.  Hann var þögull og ómannblendinn sem var nóg til að treysta honum alls ekki og líta hann hornauga.  Ungu fólki hættir til að taka þeim sem eru öðru vísi með fordómum og misskilningi.  Eitt sinn þegar við komum úr skemmtiferð frá Kiryat Shemona og ég hafði drukkið helst til mikið af Goldstar bjór og reyndar höfðum við tekið nokkra snafsa af spíra til að sýna karlmennsku okkar og víkingaskap.  Það fyrsta sem ég sá þegar ég kom út úr rútunni var Daniel og mér fannst hann líta á mig með fyrirlitningaraugum, enda drakk hann ekki.  Þetta dugði ekki og ég bauð honum umsvifalaust upp í slag, eins og ég væri ættaður úr Bolungarvík.  Áhrýnis orð mín virkuðu lítið á þennan hægláta mann og lítið varð úr áflogum.

Kun-fuNokkrum dögum seinna ákváðum við að styrkja varnir okkar og þiggja Kun-fu kennslu hjá bandaríkjamanni sem hét Jim og hafði dvalist um nokkurn tíma á Shamir.  Hinar fimm dýrslegu hreyfingar með tilheyrandi hrópum voru undirstaða þessarar bardagaaðferðar og við vorum sko til í slaginn.  Það greip um sig Kun-fu della á Shamir og mátti sjá menn æfa sig í hverju horni.  Einn félagi okkar, hermaðurinn Brum brum, sagði okkur að hann væri hámenntaður í þessum fræðum.  Hafði lært þetta í hernum og gæti þess vegna auðveldlega lamið þennan kana skratta.  Eitt sinn mætti hann á æfingu ásamt tveimur félögum sínum og höfðu með sér jógúrt dollur.  Byrjaði að hella svívirðingum yfir Jim sem ekki svaraði þeim og lét eins og hann sæi ekki Brúm brúm.  Nú sletti hann jógúrtinu yfir Jim sem lét sér það í léttu rúmi liggja og aðhafðist ekkert.  Atburðir næstu sekúnda gerðust svo hratt að við festum varla auga á þeim.  Brúm brúm gerði sig líklegan til að sparka í Jim sem greip leiftur snöggt í fótinn á honum og þeytti honum í loft upp.  Áður en við vissum af var búið að afgreiða félaga hans tvo og þeir lágu þrír í valnum emjandi af sársauka.

Seinna urðum við vitni að því þegar Brúm brúm réðist á Daniel, sem kom okkur heldur betur á óvart og reyndist vera heil mikill bardagamaður.  Brúm brúm átti aldrei möguleika í hann, þrátt fyrir herþjálfun sína.  Að lokum lá hann í valnum og gafst upp fyrir ofjarli sínum.  Þegar Daniel snéru baki við hann og ætlaði að hverfa á braut, hentist Brúm brúm á fætur og barði hann aftan frá.  Þetta var fantaskapur og löðurmannlegt og urðum við að ganga í milli til að stoppa barsmíðarnar.  Álit okkar á Daniel hafði heldur betur breyst til batnaðar en virðingin fyrir hermanninum félaga okkar hlaut mikla hnekki.

Aðra sögu man ég af Brúm brúm sem ávallt var með Uzi vélbyssuna sína meðferðis.  Við sátum í kringum hann og hlustuðum á frækilegar sögur úr hernum og eitt af því sem hann ætlaði að sýna okkur var hvernig hægt væri að breyta Uzi úr nánast skammbyssu í riffil með einu höggi með berri hendi.  Málið var að slá rétt aftast á byssuna og þá spratt skeftið sjálfkrafa út og hægt að miða með það á öxlinni.  Brúm brúm barði og barði en tókst ekki að láta þetta virka.  Taldi að byssan væri biluð og ætlaði að láta kíkja á hana.  Ég bað hann að leyfa mér að prufa og viti menn, í fyrsta höggi spratt skeftið út og small í rétta stellingu.  Brúm brúm varð forviða á þessari snilld en engin var meira undrandi en ég sjálfur.  Ég hefði sjálfsagt getað prufað þetta hundrað sinnum í viðbót án árangurs.

magicEinn af þeim sem við umgengumst mikið var Itzac, sem var reyndar yfirmaður sjálfboðaliðanna á samyrkjubúinu.  Þetta var eldri maður um þrítugt, fyrrverandi hermaður, og sótti í félagskap okkar unga fólksins.  Sérstaklega hafði hann áhuga á kvennþjóðinni og notaði hvert tækifæri til að ganga í augun á þeim.  Eitt sinn vorum við stödd á pósthúsinu og biðum eftir afgreiðslu á símtölum.  Itzac var að sýna nokkrum stúlkum spilagaldra og var upprifinn yfir aðdáun þeirra á töframættinum.  Við ákváðum að gera svolítið at í honum og Stína þóttist vera að lesa blað og spjalla við Hjalta á Íslensku, á meðan horfði hún á spilin á hendi Itzac og lét mig vita hvaða spil hann myndi draga.  Ég kom því þannig fyrir að Itzac snéri baki við þeim Dadda og Stínu og ég stóð fyrir fram hann.  Ég stokkaði vel og lét hann draga spil og Stína sem ræddi við Hjalta bætti inn í samræðurnar þannig að lítið bar á hvaða spil hann hélt á.  Ég sagði honum hvaða spil hann hefði dregið og lét hann prufa aftur.  Síðan lét ég hann draga þrjú spil og þuldi upp í röð hvaða spil hann hefði á hendi.  Stúlkurnar voru orðnar mjög hissa á þessum magnaða galdramanni og fylgdust með af áhuga.  Itzac vildi nú læra galdurinn en ég neitaði honum að sjálfsögðu.  Þá byrjaði hann að bjóða gull og græna skóga ef ég vildi kenna sér töfrana og sagðist hafa mikinn áhuga á svona málum.  Að lokum lét ég undan, en það hefði ég ekki átt að gera.  Þarna eignuðumst við óvin, sem var yfirmaður sjálfboðaliðana og það kom sér mjög illa fyrir okkur.  Stelpurnar hlógu sig máttlausar og gerður stólpa grín að karl greyinu.

En þegar kom síðsumar var komin órói í okkur Íslendingana og við fórum að huga að heimferð. Það var mikil kveðjuveisla og margir góðir vinir að kveðja.  Írarnir, John og Paul voru ákveðnir í að koma með til Íslands og leita sér að vinnu og frönsku dívurnar ætluðu að koma seinna í sömu erindum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Gunnarsson

Þegar ég les þessar sögur átta ég mig á því hvað ég er mikið kraftaverk. Þetta er ekki sjálfdýrkunin að tala, heldur er ótrúlegt að þú hefur lifað allt þetta af til að búa mig til.

Jón Gunnarsson, 20.11.2007 kl. 16:29

2 Smámynd: Ívar Pálsson

Góðir, feðgar! Ég vil nota tækifærið og hvetja það fólk sem les þessar sögur og hefur gaman af, til þess að senda inn smá línu á Gunnar hér, þó að það sé ekki nema eitt hvetjandi orð. Það hvetur verulega til skrifta. Ég vona amk. að Gunnar haldi áfram á þessari braut. Það er nóg af sögum eftir, lyginni líkastar.

Ívar Pálsson, 20.11.2007 kl. 21:17

3 Smámynd: Gunnar Þórðarson

Takk fyrir það Ívar.  Ég hef nú fengið rækilega hvatningu frá þér.

Við Nonnsi fáum tækifæri fyrir ævintýrin yfir áramótin.  Hann ætlar að dvelja með mér hér á Sri Lanka frá 20. des til 9 febrúar 2008.  Jólin verða notuð í köfunarnámskeið á kóralrifi undan suðurströndinni. 

Gunnar Þórðarson, 21.11.2007 kl. 12:32

4 Smámynd: Hafdís Gunnarsdóttir

Já brósi, við ættum eiginlega að þakka guði fyrir að pabbi skyldi lifa þetta allt af því annars værum við ekki hér. Eða kannski ættum við að hafa upp á þessum svisslendingi og þakka honum.

Ég man nú eftir að hafa heyrt margar af þessum sögum áður en það er samt sem áður ótrúlega gaman að lesa þær. Hann Nonni frændi í Ameríku er auðvitað einstakur karakter og hefur ekki verið leiðinlegt að ferðast með honum. Nú skil ég betur hvaðan Nonni bróðir fær sína ævintýraþrá og sitt flökkugen.

Hafdís Gunnarsdóttir, 21.11.2007 kl. 14:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 20
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 20
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband