Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Þróun sjávarútvegs á Íslandi

Óábyrg umræða

Neikvæð umræða um sjávarútveginn er stöðugt undrunarefni, sérstaklega í ljósi mikilvægi atvinnugreinarinnar. Álitsgjafar og viðmælendur fjölmiðla byggja málflutning sinn oftar en ekki á vanþekkingu og meira á tilfinningum en rökhyggju. Enn og aftur er gripið til uppnefna í umræðunni og talað um „grátkórinn“ þegar bent er á áhrif gengisstyrkingar á samkeppnishæfni íslensks sjávarútvegs og talað er um hótanir um að flytja vinnsluna úr landi ef gengið verði ekki lækkað. Á meðan íslenskur almenningur upplifir aukinn kaupmátt og ódýrari utanlandsferðir vegna „hagstæðs gengis“er hin hliðin á peningnum að helstu útflutningsgreinar okkar sjávarútvegurinn og ferðaþjónustan eiga virkilega í vök að verjast.

Erlend samkeppni

Í raun er aðeins verið að benda á þá staðreynd að með hækkun krónunnar aukast líkurnar á að fiskvinnslan flytjist úr landi, alla vega ef gengið er út frá því að íslenskur sjávarútvegur sé rekinn á markaðslegum forsendum. Hér er engin hótun á ferðinni heldur aðeins bent á þá staðreynd að fiskvinnsla verður ekki rekin á landinu nema hún standist samkeppni við erlenda keppinauta. Ekki er langt síðan óunninn gámafiskur var fluttur til vinnslu í Evrópu í miklu magni, sem hefur nánast verið óþekkt undanfarin ár. Fullvinnsla hefur hinsveger aukist mikið á Íslandi undanfarin ár, bæði í bolfiski og uppsjávarfiski. Íslenskur sjávarútvegur hefur sýnt mikla aðlögunarhæfni og brugðist við hækkun á innlendum kostnaði með aukinni hagræðingu og tæknivæðingu.

„Sátt“ um veiðigjöld

Veiðigjöld hafa jafnframt mikil áhrif á samkeppnishæfni og verið bent á það í umræðunni að þau auki samþjöppun í greininni, og því hærri sem þau eru munu færri og stærri aðilar veiða og vinna fisk á Íslandi. Stór fyrirtæki sem ráða yfir allri virðiskeðjunni frá veiðum til heildsölu munu einfaldlega yfirtaka smærri fyrirtæki sem ekki hafa borð fyrir báru til að standa undir íþyngjandi skattlagningu. Þetta er í sjálfu sér ekki alvont þar sem það eykur framleiðni og verðmætasköpun en rétt að menn geri sér grein fyrir þessu og láti það ekki koma sér á óvart þegar það raungerist. Séu þá með áætlun um hvernig bregðast eigi við t.d. byggðaröskun sem óumflýjanlega fylgir slíku róti í atvinnugreininni. Það veldur vonbrigðum að heyra sjávarútvegsráðherra hóta hækkun á veiðigjöldum til að neyða sjávarútveginn til að uppfylla; það sem honum finnst vera samfélagsleg ábyrgð. Það er mikilvægt að ráðamenn geri sér grein fyrir áhrifum veiðigjalda og hækkun á þeim verður varla gerð í sátt við atvinnugreinina.

Tæknivæðing

Með aukinni tæknivæðingu og sjálfvirkni er óumflýjanlegt að fækka þarf vinnsluhúsum og færri munu starfa við greinina í framtíðinni. Því fylgja nýjar áskoranir og ný tækifæri sem geta enn aukið á verðmætasköpun í greininni, eins og gerst hefur í uppsjávarvinnslu okkar Íslendinga. Einn fylgifiskur aukinnar tæknivæðingar er meiri þörf á fjármagni til að standa undir stórauknum fjárfestingum í greininni. Þetta virðist oft gleymast þegar álitsgjafar fjandskapast út í arðgreiðslur fyrirtækja, en enginn mun fjárfesta í þessari grein frekar en í annari án þess að reikna með ávöxtun þeirra fjármuna til framtíðar.

Hvað er samfélagsleg ábyrgð?

Samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja getur varla byggst á því úr hvaða Keflavíkinni er róið og jafn sárt er að loka vinnustað í Reykjavík og á Akranesi. Með nýrri tækni eins og vatnskurðarvélum og þjörkum aukast afköst á manntíma og þannig mun starfssmönnum og vinnsluhúsum fækka. Slíkri þróun geta þó fylgt mikil tækifæri þar sem í stað erfiðisvinnu verða til betur launuð tæknistörf. Það ætti að vera forgangsmál hjá sveitarfélögum og launþegahreyfingunni að taka þátt í slíkum breytingum með sjávarútvegsfyrirtækjum og tryggja hlutdeild starfsmanna í aukinni framleiðni í framtíðinni. Það er hin raunverulega samfélagslega ábyrgð að fyrirtæki, starfsmenn og samfélög leggist á eitt til að viðhalda samkeppnishæfni og verðmætasköpun í íslenskum sjávarútveg til framtíðar. Að taka þátt í þróuninni og hafa áhrif hana á jákvæðan hátt er einmitt samfélagsleg ábyrgð.


Áralangt markaðsstarf í hættu

Verkfall er ofbeldi

Það er að æra óstöðugan að blanda sér í deilur sjómanna og útgerðar en verkfallið er ekki einkamál deilenda. Sjávarútvegur er mikilvægasta atvinnugrein landsmanna, með meira en 40% af vöruútflutningi þjóðarinnar og um 24 þúsund manns starfa við sjávarútveg. Sjávarútvegur er sú grein sem sker sig úr þegar kemur að verðmætasköpun og framleiðni, hvort heldur er vinnuafls eða fjármuna. Íslenskur sjávarútvegur ber af í alþjóðlegum samanburði og hefur skilað íslenskum sjómönnum kjörum sem eru með þeim bestu sem þekkjast í heiminum.

Ritari er gamall verkalýðsforkólfur og þekkir á eigin skinni kjarabaráttu og átök við útgerðarmenn. Hann stóð fyrir löngu verkfalli á Ísfirskum fiskiskipum í lok áttunda áratugar síðustu aldar sem stóð vikum saman. Ekki það að hann vilji hreykja sér af því en á þessum tíma voru sjómenn á skuttogurum með þreföld bankastjóralaun. Með aldrinum vitkast menn og átta sig á því að verkfall er alltaf ofbeldi þar sem sneitt er hjá markaðslausnum og notast við þvinganir til að ná fram kröfum sínum. En margt hefur þó breyst síðan þetta var og rétt að benda á nokkur atriði.

Markaðsdrifinn sjávarútvegur

Á þessum tíma var íslenskur sjávarútvegur það sem kalla má auðlindadrifinn. Enn voru ólympískar veiðar stundaðar og fiskistofnar voru ofnýttir og sóknarþunginn allt of mikill. Það er ljóslifandi í minningunni þegar skipstjóri rakst í góðan afla á Halamiðum þá var  eins og hendi væri veifað komnir  100 togarar á vettvang og ljósin eins og að horfa yfir stórborg. Það stóð heima að menn náðu tveimur til þremur góðu hölum og svo var ævintýrið úti. Það tók oft á tíðum tíu daga að skrapa saman 100 tonnum, sem tekur í dag aðeins nokkra daga. Í dag er íslenskur sjávarútvegur markaðsdrifinn, einn af örfáum í heiminum, þar sem leitað er markaða og fiskurinn veiddur til að uppfylla þarfir viðskiptavinarins. Ólíkt auðlindadrifnum sjávarútveg sem gengur út á að lækka kostnað, snýst allt um að hámarka verðmæti. Selja afurðir inn á best borgandi kröfuharða markaði og stýra veiðum og vinnslu eftir þörfum neytandans.

Fiskveiðistjórnun í Færeyjum

Það er ekki tilviljun að í nýlegri skýrslu sérfræðinga sem unnin var fyrir stjórnvöld í Færeyjum er lagt til að Færeyingar verði sporgöngumenn Íslendinga við stjórnun fiskveiða sinna. Eftir áralanga óstjórn skila botnfiskveiðar frændum okkar engum verðmætum þar sem kostnaður er hærri en tekjur. Öll verðmætasköpun í veiðum kemur annarsvegar frá uppsjávarveiðum úr flökkustofnum og hinsvegar þorskveiðum í Barentshafi. Meginniðurstöður sérfræðinganna eru; byggja upp veiðistofna, koma á aflareglu, koma á aflamarkskerfi (í dag nota þeir sóknarkerfi), bæta verðmætasköpun, takmarka erlent eignarhald og koma í veg fyrir of mikla samþjöppun í eignarhaldi. Rétt er að taka fram að ein forsenda verðmætasköpunar er að fyrirtæki geti sinnt allri virðiskeðjunni, frá veiðum til markaðar. Slíkt er ekki leyft í Noregi og er einn helsti Akkilesarhæll norsks sjávarútvegs hvað varðar verðmætasköpun. Höfundar færeysku skýrslunnar telja reyndar að forsenda verðmætasköpunar sér að taka upp kvótaerfi og leyfa frjálst framsal, eins og reyndar flestar fiskveiðiþjóðir hafa tekið upp eða stefna að. 

Verðmætasköpun í sjávarútveg

Helstu ástæður verðmætasköpunar og framleiðniaukningar í íslenskum sjávarútveg eru einkum þrjár:

  1. Sterkari veiðistofnar
  2. Skynsamlegt fiskveiðistjórnunarkerfi
  3. Markaðsdrifin virðiskeðja

Aflaverðmæti íslenskra skipa hefur tvöfaldast síðustu 30 árin sem einkum má skýra með fyrri tveimur atriðunum. Þriðja atriðið er ekki síður mikilvægt en það reyndar byggir á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Eina leiðin til að markaðsvæða virðiskeðjuna er einmitt eignarhald útgerðar á nýtingu auðlindarinnar. Ein af mikilvægum breytingum í markaðsmálum sjávarútvegs er sala á ferskum afurðum, en neytandinn er tilbúinn að greiða umtalsvert meira fyrir ferskan fisk í staðinn fyrir frosinn. Forsenda fyrir framleiðslu á ferskum afurðum er betri meðhöndlun á fiskinum í gegnum alla virðiskeðjuna. Gott dæmi um framfarir við þessa framleiðslu er nýsmíði togara sem eru mun betur útbúnir til að tryggja aflagæði en eldri skip. Hönnun skipanna gengur út á að tryggja betri meðhöndlun við blæðingu og kælingu ásamt því að létta störfin um borð og auka afköst sem eru einmitt forsenda framleiðniaukningar.

Verkfall veldur miklu tjóni

Nú eru hins vegar blikur á lofti og virðist sem áralangt markaðstarf sé fyrir bí vegna verkfallsins. Kaupendur í BNA og Evrópu snúa sér annað enda hafa þeir enga samúð með verkfalli á Íslandi. Það er undarlegt að sjómenn, sem búa við aflahlutdeildarkerfi, hafi engan áhuga á þessum þætti. Það ætti að vera stórmál fyrir þá að þessir markaðir tapist ekki, enda ef það gerist hefur það strax áhrif á fiskverð og þar af leiðandi kjör sjómanna. Hér er um miklu mikilvægara mál að ræða en þau sem deilt er um þessa dagana. Tjón vegna tapaðra markaða gætu haft áhrif á fiskverð í framtíðinni og þannig lækkað laun sjómanna. Það ætti að vera sameiginlegt markmið útgerðar og sjómanna að hlúa að þessum mörkuðum til að tryggja verðmætasköpun til framtíðar.

 

 


Áfengi og hamingnja

Áfengi

Ég hef ákveðið að hætta að drekka; um stundasakir! Hvers vegna? Ekki að þessi gleðigjafi sem áfengið getur verið hafi verið eitthvað vandamál, heldur er um heimspekilega spekúlasjón að ræða.

Hamingja

Þetta snýst allt um hamingju og hámarka hana eins og kostur er. Ég tel mig reyndar vera hamingjusaman em lengi má gott bæta. Hamingjan er nefnilega heimsálfa á meðan gleði, nautn og ánægja eru bara litlar eyjar eða tindar á leið manns um hamingjulandið. Inn á milli eru svo sorg og sút, svona skurðir og gil, sem einnig verða á leið mans. Án þeirra væri reyndar ekkert viðmið og erfitt að tala um hamingju ef óhamingja væri ekki til. Summa þessa alls ráða hamingjunni og því meira af því fyrrnefnda, eyjum og tindum, því líklegra að maður verði hamingjusamur.

Þá erum við komin að kjarna málsins! Áfengi getur verið mikill gleðigjafi, losað um spennu og fátt er betra en fá sér kaldan bjór eftir líkamleg átök eða fá sér rauðvínstár með elskunni sinni. Svo ekki sé talað um viskítár fyrir sálina. En áfengi fylgja vandamál, þó þau séu ekki félagsleg eða líkamleg hjá mér. Þekkt er að of mikil neysla getur spillt heilsu og margir eiga við mikil hegðunarvandamál að stríða vegna neyslunnar. Þó svo að ég standi ekki frammi fyrir slíkum vandamálum í dag þá vekur það forvitni mína hvort áfengi bæti líf mitt eða dragi úr lífsgæðum. Svo er það líka dýrt!

Efnafræði og boðefni

En málið er að við höfum innbyggt kerfi til að njóta tilfinninga eins og gleði, nautnar og ánægju, svo nokkuð sé upp talið. Heilinn býr yfir allskonar efnavirkni til að láta okkur líða vel, svokölluð boðefni. Við fáum adrenalín til að bregðast við hættu, dópamín til að örvunar og hvatningar, serótónín til að miðla málum og sættast, noradrenalín stendur fyrir kappakstur og hraða og hækkar blóðþrýsting og kemur í veg fyrir taugaáfall. Oxýtósín gerir okkur að einkvænisverum og veldur því að við sjáum ekki galla makans í allt að sjö ár; nógu lengi til að koma afkvæminu á legg og við fáum vellíðunartilfinningu þegar við höfum reynt mikið á okkur (endaorfin). Boðefnin veita okkur sælutilfinningar, munaðar og nautnar; hver kannast ekki við ástarbríminn þegar við erum ástfangin og svo ekki sé talað um samfarir. Sýnt hefur verið fram á að fólki líður vel þegar það gerir gott fyrir aðra og svo líður manni vel með sínum nánustu. Allir þekkja það þegar fjölskylda hittist yfir jólin hvaða vellíðunartilfinning það er að vera öll saman.

Heimsálfa hamingjunnar

En hamingja er heimsálfa og jólin geta ekki verið alltaf. Þetta er meira upp og niður en mikilvægt að samanlagt sé það gott. Þá er það spurningin; dugar heilinn til að sjá um þetta eða þurfum við hjálpartæki eins og áfengi? Um það snýst málið og ég lít á mig nú sem landkönnuð þar sem þetta er skoðað. En þá dugar ekki að ganga einn dal (eina viku) heldur þarf að fara lengri leið til að bera saman lífið með eða án áfengis. Það þarf nokkuð lengra tímabil en viku til að skera úr um það hvort heilinn, með sína efnaframleiðslu og tilfinningar geti séð betur um hamingjuna án utanaðkomandi hjálpar. Reyndar veldur súkkulaði unaði og spurningin hvort rétt er að halda því inni, svona í hófi.

Leiði ferðalag mitt til þess að samanburðurinn verður áfenginu í hag mun ég taka upp fyrri iðju. Að sjálfsögðu þar sem markmiðið er jú að auka hamingjuna.


Útflutningur á ferskum fiski

Fersk flakastykki er fullvinnsla

Íslendingar fluttu út ferskar fiskafurðir fyrir 54 milljarða í fyrra og um 7 milljarða af eldisfiski. Hluti af þessari framleiðslu er fluttur út með skipum en meirihlutinn með flugi, enda skiptir hraði á markað öllu máli þar sem líftími vöru er takmarkaður og kaupmaðurinn sem selur afurðir í smásölu þarf a.m.k. viku til að selja fiskinn. Segja má að fersk flakastykki sé fullvinnsla þar sem varan er ekkert frekar unnin áður en hún er afhent neytanda til sölu. Neytandinn er tilbúinn að greiða hærra verð fyrir ferskan fisk sem kemur beint úr köldum hreinum sjó og er lítið sem ekkert meðhöndlaður sem hráefni. Eðli málsins samkvæmt er hraði viðskiptanna mikill þar sem búið er að neyta fisksins innan tveggja vikna frá því að hann var veiddur, lítill sem engin lagerkostnaður og greiðslur berast fljótlega eftir að aflanum er landað. Íslendingar hafa náð miklum árangri á þessum markaði og hafa náð að aðgreina sig frá frystum og fullunnum fiski t.d. frá Kína.

Mikil tækifæri við flutning

Ein ástæða velgengni við útflutning á ferskfiskafurðum eru tíðar og beinar flugferðir víða um heim, en bara Icelandair flýgur til 44 áfangastaða í Evrópu og Bandaríkjunum. Grundvöllur fyrir fluginu eru vinsældir Íslands sem ferðamannastaðar og þannig hafa opnast möguleikar á flutningi á ferskum fiski til fjölda borga beggja megin Atlantshafsins. Þessi útflutningur er hinsvegar vandasamur þar sem lítið má út af bera með líftíma vöru og eins eru miklar kröfur um stöðugan afhendingartíma. En hvernig skyldi okkur ganga að fást við þær áskoranir sem felast í löngu flugi, oft í tveimur leggjum og sumarhita sunnar á hnettinum?

Vörumerki í ferskfiskútflutning

Eitthvað af þessum fiski rennur út á tíma og þarf að farga en ekki liggja fyrir upplýsingar hversu mikið það er. Ef við gerum ráð fyrir að slík gæðarýrnun sé 5% væri tjónið um 3 milljarðar króna á ári. Það er því til mikils að vinna og ekki víst að þarna séu um mestu verðmætin að ræða. Í viðskipablaðinu í s.l. mánuði var viðtal við upplýsingafulltrúa Einkaleyfastofu þar sem hann gerði að umtalsefni mikilvægi þess að halda utan um verðmæti þekkingar og byggja upp vörumerki. Ef Íslendingar gætu byggt upp vörumerki í ferskfiskútflutningi gæti það skapað mikil verðmæti, rétt eins og nýtingaréttur í auðlindina er. En hvað þarf til að markaðssetja ferskan íslenskan fisk og skapa vörumerkjavitund um afurðina?

Fagmenn aðgreini sig frá skussunum

Fyrsta skilyrðið er að varan sé að einhverju leiti einstök! Ef íslenskir ferskfiskútflytjendur gætu ábyrgst 10 daga líftíma vöru, eftir afhendingu, væri varan einstök! Ef hægt væri að fullvissa markaðinn um að íslenskur ferskfiskur væri af betri gæðum og skilaði þannig auknu virði til neytanda, væri varan einstök og hægt að byggja upp vörumerki. En er hægt að segja að ferskur íslenskur fiskur sé einstakur og þekktur fyrir að vera betri en frá keppinautunum?

Verðmætasköpun með hugviti

Stutta svarið við því er því miður nei! Of mikið af framleiðslunni stenst ekki ýtrustu gæðakröfur. Ennþá er fiski landað á markað við hitastig langt yfir ákjósanlegu marki sem síðan er flakaður í ferskfiskútflutning. Mikið vantar uppá að kælikeðjan sé síðan í lagi í gegnum vinnslu, pökkun og flutninga sem dregur verulega úr gæðum og líftíma vöru, sem er viðskipavininum svo mikilvæg. Hvað er hægt að gera til að bæta þetta ferli og bæta stöðugleika í gæðum? Spurningin er sú hvort hægt er að setja staðla fyrir þessa framleiðslu og selja hana undir vörumerki. Enginn fengi að nota vörumerkið nema standa undir þeim kröfum sem atvinnugreinin myndi setja framleiðendum. Þeir sem ekki stæðust staðla yrðu þá að standa utanvið vörumerkið og örugglega selja á lægra verði til langs tíma litið. Með slíku vörumerki væri hægt að byggja upp mikil verðmæti fyrir iðnaðinn ásamt því að minnka það tjón sem óumflýjanlega fylgir slugshætti við framleiðslu á viðkvæmri vöru. Mikið hefur verið talað um nauðsyn þess að auka útflutning á hugviti frekar en bara auðlindum. Uppbygging á vörumerki og markaðssetning í framhaldi er einmitt gott dæmi um útflutning á hugviti sem gæti aukið verðmætasköpun í Íslenskum sjávarútvegi.

Gunnar Þórðarson viðskiptafræðingur

 


Uppboðsleið - Lýðskrum í kosningabáráttu

Uppboðsleið

Viðreisn vill fara uppboðsleið við úthlutun aflaheimilda á Íslandsmiðum til að auka tekjur ríkisins og nota til innviðauppbyggingar. Í stuttu máli telur flokkurinn að íslensk þjóð sé hlunnfarin og útgerðin skili ekki sanngjörnu afgjaldi fyrir nýtingu á auðlindarinnar. Miðað við umræðuna mætti halda að íslenskur sjávarútvegur sé endalaus uppspretta auðs og málið snúist aðeins um hugmyndaflug til að ná honum til ríkisins. Sem dæmi skrifar virtur fræðimaður grein í Fréttablaðið 24. ágúst s.l. og fullyrðir að Færeyingar hafi fengið í uppboði á aflaheimildum fimmfalt verð fyrir þorskkílóið miðað við Íslendinga, 24 sinnum meira fyrir makrílkílóið og 25 sinnum meira fyrir kíló af síld. Þetta eru engar smá tölur ef haft er í huga að íslenskur sjávarútvegur hefur verið að greiða frá 5 til 10 milljarða á ári í veiðigjöld og ættu því að vera margir tugir milljarða?

Fræðin og tölulegar staðreyndir

Í Fiskifréttum  var grein nýverið eftir Sigurð Stein Einarsson um reynslu Rússa og Eista af uppboðsleið. Niðurstaðan er hrollvekjandi og ætti ein og sér að duga til að henda slíkum hugmyndum fyrir róða. Undirritaður tók þátt í útgáfu skýrslu 2014 þar sem reiknað var út hve há veiðigjöld mættu vera til að útgerð frystitogara gæti fjárfest í nýjum skipum og búnaði. Niðurstaðan var skýr, byggð á hlutlægum staðreyndum. Ef hugmyndir síðustu ríkistjórnar um veiðigjöld hefðu náð fram að ganga hefði enginn fjárfest í skipi og enginn hefði getað rekið útgerð á Íslandi. Í greiningu framkvæmdastjóra Vinnslustöðvarinnar í Fiskifréttum nýverið kemur fram að skilaverð á makríl er um 122 krónur. Hlutur sjómannsins er því um 40% af því eða 44 krónur. Ef útgerðin hefði greitt 66 kr/kg, sem er nálægt hugmyndum Viðreisnar, fyrir veiðiheimildir þá væru eftir 12 krónur til að greiða olíu, veiðarfæri, viðhald, löndunar og flutningskostnað ásamt fjármagnskostnaði.

Uppboð á aflaheimildum

Ef aflaheimildir verða boðnar upp til skamms tíma í senn mun enginn fjárfesta í nýju skipi. Þá myndi borga sig að kaupa gamla Pál Pálsson þegar sá nýi kemur, losna við fjármagnskostnaðinn og reyna að ná sem mestu upp á sem skemmstum tíma. Að sjálfsögðu myndi aðeins dýrasti fiskurinn veiðast þar sem standa þyrfti undir leigugjöldum, eins og reyndin var hjá Rússum. Enginn myndi fjárfesta í nýjum skipum ef fullkomin óvissa ríkti um hvort aflaheimildir fengjust á næsta ári.

En þá er bara að leigja til lengri tíma, t.d. 10 ára, segja Viðreisnarmenn! Tökum sem dæmi að aflaheimildir hefðu verið boðnar upp í upphafi síðasta árs. Þá ríkti mikið góðæri í sjávarútvegi. Síðan þá hefur einn mikilvægasti markaður Íslendinga, Rússland, lokast vegna ákvarðana ríkisins. Breska pundið hefur hrunið sem er einn mikilvægasti gjaldmiðill sjávarútvegsins. Skeiðarmarkaður í Nígeríu er nánast lokaður vegna gjaldeyrisvanda heimamanna og loðnan er horfin. Allt þetta hefur gerst á tæpum tveimur árum og má fullyrða að miklar áskoranir séu fyrir íslenskan sjávarútveg að takast á við þennan vanda. Ef útgerðin hefði boðið há verð fyrir aflaheimildir á þessum bjartsýnistímum; hvernig myndu menn bregðast við því nú? Láta þetta allt fara á hausinn og byrja upp á nýtt? Eða mun RÍKIÐ bregst við öllum óvæntum áskorunum sem upp koma? Til dæmis ef fiskvinnsla á Suðureyri nær ekki í eitt einasta kíló á uppboðinu? Mun RÍKIÐ koma í veg fyrir að öflugustu útgerðirnar, sem hafa yfir allri virðiskeðjunni að ráða frá veiðum til smásölu, geti leigt allar veiðiheimildir?

Jaðarverð

Til að útskýra fyrir sérfræðingum Viðreisnar hvernig þetta virkar þá er jaðar- verð/kostnaður mikilvægt hugtak í hagfræði. Ef flugfélögin myndu selja alla sína miða á verði þeirra ódýrustu, þar sem er verið að fylla í síðustu sætin, þá færu þau öll lóðbeint á hausinn. Sá litli hluti kvótans sem leigður er milli manna segir ekkert um hvert raunverulegt verðmæti heildarkvótans er, eins og sérfræðingar Viðreisnar halda fram. Oft ganga þessi leiguviðskipti út á að láta frá sér eina tegund til að fá aðra sem hentar betur, sem er grundvallaratriði til að hámarka verðmætasköpun í sjávarútvegi. Eða til að leigja til sín þorsk til að geta stundað aðrar veiðar þar þorskurinn er meðafli. Eins og með flugfélögin er búið að gjaldfæra fjárfestingakostnað og því um jaðarkostnað að ræða við leiguna.

Íslenskur sjávarútvegur

 Íslenskur sjávarútvegur gengur vel og hefur ótrúlega aðlögunarhæfni til að bregðast við áföllum eins og þeim sem dunið hafa yfir undanfarið. Íslenskur sjávarútvegur á heimsmet í verðmætasköpun sem er mikilvægasta málið. Það er hörmulegt að stjórnmálamenn sem kenna sig við markaðsbúskap tali fyrir því að snúa til baka til ríkisafskipta þar sem sporin hræða í íslenskri útgerðarsögu.

Höfundur er viðskiptafræðingur.


Tímaeyðsla

Hvers vegna í ósköpunum getur manneskjan ekki bara svarað Bjarna á FaceBook? Taka frá tíma í þjóþinginu í svona nöldur! Helsta vandamál Íslands, í efnahagsmálum, er lítil framleiðni. Það væri hægt að auka framleiðni í þinginu með því að kenna þingmönnum á Facebook og hlífa okkur við að nota þennan ræðustól í dægurþras.


mbl.is „Þung orð“ Bjarna um fjölmiðla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grein í Fiskifréttum 28. ágúst 2016

Varúðarregla í sjávarútvegi

Sterkari veiðistofnar

Það er áhugavert að lesa greinar Kristjáns Þórarinssonar stofnvistfræðing SFS í Fiskifréttum. Sú jákvæða þróun sem orðið hefur á Íslenska þorskstofninum er gríðarlega mikilvæg fyrir þjóðarbúið. Að sjálfsögðu er það þó sjávarútvegurinn sem nýtur þess helst, með lægri kostnaði við veiðar, minni vinnu og meiri tekjum fyrir sjómenn. Allir græða á öflugum veiðistofnum og varúðarleiðin, eins og Kristján kallar þá stefnu sem farin var, hefur heldur betur skilað árangri. Eins og Kristján bendir á þá hefur tekist að stækka stofninn á undangegnum árum, þrátt fyrir tiltölulega lélega nýliðun í þorskstofninum.

Lækkun kostnaðar

Þegar undirritaður var togarasjómaður stóðu túrar frá 7 til 10 daga og þótti gott ef skrapað var saman 100 tonnum. Þrátt fyrir að öllum ráðum væri beitt, þ.m.t. flottrolli sem góðu heilli er nú bannað, var veiði pr. úthaldsdag hjóm hjá því sem er í dag. Flotinn var allt of stór og sjómenn almennt löptu dauðann úr skel. Í dag ganga veiðarnar út á að taka nógu lítil höl til að hámarka gæði aflans, en fiskaflinn er nægur og kostnaður við að sækja hvert kíló hefur lækkað umtalsvert. Olíueyðsla á hvert kíló hefur snarminnkað, sem bæði lækkar kostnað og minnkar sótspor við veiðar. Í dag eru togveiðar sennilega hagkvæmasti kosturinn við þorskveiðar og með nýjum skipum mun togarflotinn verða sá umhverfisvænsti á Íslandsmiðum.

Freistnivandi stjórnmálamannsins

En það er ekki sjálfgefið að slíkur árangur náist og ekki hafa allir verið sammála um vegferð varúðarleiðarinnar. Smábátasjómenn eru enn að tala um að auka afla, ekki byggt á neinum vísindum heldur brjóstviti. Sjómenn hafa ekki allir verið sammála um þessa stefnu stjórnvalda og hafa oftar en ekki talað gegn henni. Aðferðin sem byggir á að veiða 20% af veiðistofni hefur oft verið til umræðu og margur stjórnmálamaðurinn hefur talað fyrir því að hækka þetta hlutfall. Sem betur fer hafa vísindamenn okkar staðið fast í fæturna og barist fyrir varúðarleiðinni, reyndar með góðum stuðning útgerðarmanna sem virðast hafa litið til langatímahagsmuna frekar en skammtíma.

Ýsuveiðin

Eitt gleggsta dæmið um rangar ákvarðanir var þegar veidd voru um 100 þúsund tonn af ýsu, þrátt fyrir að vitað væri um lélega nýliðun stofnsins. Það kom ekki vísindamönnum á óvart að í fyrstu veiddist mest smáýsa og síðan þegar frá leið var ekkert orðið eftir annað stórýsa. Ef notuð hefði verið varúðarleið á þessu tíma og veiðin miðuð við t.d. 60 þúsund tonn og verið jöfnuð út yfir nokkur ár hefði verðmæti útflutnings hugsanlega stóraukist. Hinsvegar hafðist ekkert undan að vinna ýsuna í veiðitoppnum og verðmæti útflutnings hrundi.

Umræðuhefðin

Undirritaður sótti marga fundi þar sem vísindamenn Hafrannsóknarstofnunar töluðu fyrir varúðarleiðinni og sátu undir ótrúlegum dónaskap frá fundarmönnum sem vildu bara veiða meira. Ég man sérstaklega eftir slíkum fundi á Hótel Ísafirði þar sem undirritaður tók undir sjónarmið fiskifræðinga og var úthrópaður fyrir vikið. Á útleið af fundinum fékk ég fúkyrðaflaum yfir mig og ég kallaður illum nöfnum, eins málefnalegt og það nú er.

Fiskifræði sjómannsins eru engin fræði, enda eru margar útgáfur til af henni sem litast af þrengstu hagsmunum á hverjum stað, eftir því hvort menn eru að veiða loðnu, þorsk í net, krók,eða troll. Eitt dæmið um slíka vitleysu er herför gegn dragnót, sem engin vísindaleg rök standa undir. Aðeins vegna þrýstings frá smábátasjómönnum, en vegna fjölda þeirra hafa þeir mikil áhrif á umboðsmenn sína á þingi.

Það er lífsspursmál fyrir Íslendinga að stunda ábyrgar veiðar og gera allt sem hægt er til að viðhalda sterkum fiskistofnum á Íslandsmiðum. Það er eitt af grundvallaratriðum til að halda uppi verðmætasköpun í sjávarútveg og lífskjörum í landinu.

 


Sjávarútvegsumræðan

 

Samkeppnishæfni  sjávarútvegs

Umræðan um sjávarútveginn hefur oftar en ekki verið óvægin og ósanngjörn, sérstaklega ef tekið er tillit til þess að um mikilvægustu atvinnugrein þjóðarinnar er að ræða og engin grein skilar meiri tekjum í ríkissjóð. Sem er reyndar óvenjulegt í alþjóðlegu samhengi þar sem í flestum öðrum löndum er sjávarútvegur rekinn með ríkisstyrkjum. Íslendingar ættu að hafa áhyggjur af samkeppnishæfni íslensks sjávarútveg og það ætti að vera þjóðinni kappsmál að hægt sé að viðhalda yfirburðum okkar. Sem dæmi njóta helstu samkeppnisaðilar okkar, Norðmenn, umtalsverðra styrkja frá ríkinu. Það var einmitt niðurstaða McKinsey skýrslunnar um Íslenskt efnahagslíf að sjávarútvegur stæði sig best varðandi framleiðni fjármagns og vinnuafls. En hvað veldur þessum fjandskap og slæmu umræðu um þessa mikilvægu atvinnugrein?

Mikil verðmætasköpun

Á sama tíma og íslenskur landbúnaður kostar hvert mannsbarn á Íslandi um hundrað þúsund króna á ári í hærra vöruverði og skattgreiðslum, og sjávarútvegurinn skilar rúmlega þeirri upphæð í samneysluna, eru þeir síðarnefndu oftar en ekki skotmark í þjóðfélagsumræðunni, uppnefndir og þeim fundið allt til foráttu. Eitt dæmi um umræðuna er þegar eitt öflugasta útgerðar og fiskvinnslufyrirtæki landsins vildi kynna nýja tækni fyrir starfsmönnum sínum, og ákváðu við tímamótin að bjóða þeim upp á ís í tilefni dagsins, var því snúið upp á andskotann og ekki stóð á fjölmiðlunum að hamra á málinu á sem neikvæðastan hátt.

Framfarir í sjávarútveg

Undirritaður hefur einmitt verið við vísindastörf í umræddu fyrirtæki og tók sérstaklega til þess hve vel er gert við starfsmenn á vinnustaðnum. Tekið er á móti starfsfólki með kjarngóðum morgunverði við upphaf vinnudags, á borðum liggja ávextir og meðlæti með kaffinu í huggulegum matsal, og í hádeginu er boðið upp heitan mat. Þetta er ekki undantekning í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum og orðin frekar regla, enda skilja stjórnendur að mikilvægt er að halda í góða starfsmenn, minnka starfsmannaveltu og lágmarka fjarvistir. Miklar framfarir hafa orðið í þessum efnum, bæði til sjós og lands í sjávarútveg á undanförnum árum, ekki vegna opinberra krafna heldur vex skilningur atvinnugreinarinnar á mikilvægi mannauðs í rekstrinum.  Með aukinni tæknivæðingu þarf að bæta menntun í fiskvinnslu til að takast á við auknar kröfur framtíðar og í framhaldi ættu launin að hækka. Líkt og raunin er hjá sjómönnum þarf fiskvinnslufólk að fá hlutdeild í þeim miklu tækifærum sem ný tækni býður upp til að auka framleiðni.   

Gróa gamla á Leiti

En hvað veldur þessari neikvæðu umræðu og hverjir kynda undir og viðhalda þessar slæmu ímynd sjávarútvegs á Íslandi? Nýlega var forystugrein í BB á Ísafirði þar sem fyrrverandi þingmaður skrifaði um öflugasta sjávarútvegsfyrirtæki Vestfjarða. Dylgjurnar og óhróðurinn er slíkur að Gróa á Leiti hefði roðnað af skömm. Hvergi er minnst á staðreyndir heldur byggt á sögusögnum og fullyrt að ástæðan fyrir því að öll þessi meintu mál voru látin niður falla, hafi verið fyrir„húk“ lögreglunnar, svo notað séu orð höfundar. Í sömu grein vitnar hann í fyrsta maí ræðu verklýðsforingjans á staðnum þar sem hann stillir launþegum upp sem kúgaðri stétt sem sé undir hælnum á atvinnurekendum. Uppstillingin er gamalkunn og þar er þessum aðilum stillt upp sem óvinum og ekki sé hægt að bæta hlut sinn nema á kostnað hins. Það er illt að hafa svona óábyrga verkalýðsleiðtoga sem ekki sjá möguleikana á því að bæta hag beggja þar sem hagsmunir atvinnurekanda og launþega fara algjörlega saman. Báðir þessir aðilar ættu að gera sér grein fyrir að um 80% af hagkerfi Vestfjarða byggir á sjávarútveg og samstöðu en ekki sundrung þarf til að snúa neikvæðri þróun byggðar við í fjórðungnum. Viðurkenna það sem vel er gert og taka þátt í framförum í Íslenskum sjávarútveg í stað þess að níða hann niður.

 


Finnbogi og Sjálfstæðiflokkurinn

Oftar en ekki er erfitt að átta sig á pólitískum stefnumálum vinstrimanna og hver sér raunveruleg málefni sem þeir berjast fyrir. Stundum virðist manni að hatur þeirra á Sjálfstæðiflokknum sér pólitískur drifkraftur þeirra og það sé mikilvægara að ná sér niður á honum en vinna samfélagi sínu gagn. Eitt dæmið er héðan úr Ísafjarðarbæ þar sem þeir fengu bæjarfulltrúa flokksins til að verða bæjarstjóraefni sitt fyrir síðustu sveitarsjónarkosningar, vitandi að hann var ekki heppilegur í embættið, en það var aukaatrið miðað við hugsanlegt tjón hjá óvininum. Þetta skín í gegnum allar umræður í dag þar sem allt er gert til að sverta flokkinn, jafnvel þó að sameignlegt tjón sér mikið og trúverðugleiki stjórnmálanna sé í húfi, Þá er það tilvinnandi til að koma fólki með ákveðna lífskoðun illa.

Í BB um daginn ræðst Finnbogi Hermannsson fram á ritvöllinn með sögulegar skýringar á því hversu spilltur Sjálfstæðisflokkurinn er og það fólk sem styður stefnu hans. Líkt og með Göbbels forðum skiptir sannleikurinn engu máli, þegar sama lygin er sögð nógu oft verður hún að sannleika. Ein saga hans er nægilega gömul til að treysta megi að engin muni hvernig hún var í raun, og hún sögð með þeim hætti að sanni hverslags spillingarbæli Sjálfstæðisflokkur er. Sagan er um þegar Guðmundur Marinósson var ráðin sem forstjóri Fjórðungssjúkrahússins og tekin fram yfir þáverandi bæjarfulltrúa vinstri manna, Hall Pál. Á þessu árum var Sjálfstæðiflokkurinn í minnihluta með fjóra fulltrúa í bæjarstjórn. Stungu þeir fyrst upp á Guðmundi í starfið og greiddu honum atkvæði sitt. Hallur Páll gat ekki stillt sig og greiddi mótatkvæðin en aðrir sátu hjá. Það sem þeir gerðu sér ekki grein fyrir var að þar með var atkvæðagreiðslunni lokið með ráðningu Guðmundar.

Svona var nú þessi saga en það sem hún sýnir að Hallur Páll, umsækjandi um starfið, sat ekki hjá eða vék af fundi þó hann ætti mikilla persónulegra hagsmuna að gæta. Vinstri menn í bæjarstjórn höfðu ákveðið að ráða hann til starfans, með hans atkvæði, en skripluðu á skötunni í fundarsköpun.

Tilgangurinn helgar meðalið og Finnboga finnst greinilega eðlilegt að ganga í spor Gróu á Leiti til að ná sér niður á óvininum og þá skiptir sannleikurinn engu máli. Hálfkveðnar vísur, getgátur og skrök er hiklaust notað, enda málstaðurinn „góður“


Miskilningur hjá Magnúsi Orra

Magnús orri tekur vitlaustan pól í hæðina hvað varðar stuðning við Samfylkinguna! Ef málin eru skoðuð með norrænum augum sést að Ísland sker sig úr hvað varðar stuðning við jafnaðarmenn og áhrif jafnaðarmanna flokka á landsstjórn. Hver skyldi nú vera helsti munurinn á Þessum flokkum á hinum norðurlöndunum og á Íslandi? Það er fjandskapur íslenskra jafnaðarmanna út í atvinnulífið og skilningleysi á verðmætasköpun. Íslenski kratar virðast ekki skilja mikilvægi þess að skapa verðmæti til að hægt sé að byggja upp öfluga samfélgsþjónustu. Þeir erða því að gera það upp við sig hvort þeir vilja vera kommar eða kratar.


mbl.is „Við eigum að stofna nýja hreyfingu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 28
  • Frá upphafi: 283945

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 28
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband