Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Samstarf Matís og Utanríkisráðuneytisins í Filipseyjum

Matís ohf tók þátt í verkefni síðsumars á Filippseyjum sem var hluti af samstarfsverkefni utanríkisráðuneytisins og Alþjóðabankans um að veita aðgang að sérfræðiþekkingu Íslendinga. Hlutverk Matís í þessari ferð var að styðja við tillögur Alþjóðabankans um uppbyggingu á eldi í sjó, með sérstaka áherslu á ræktun á þangi. 

Ræktun á þangi á Filipseyjum

20190903_170129Filippseyjar eru þriðju mestu ræktendur á þangi í heiminum, næstir á eftir Kína og Indónesíu, og rækta um 1,5 milljónir tonna á ári. Megin hluti þessarar ræktunar er notað sem hráefni í carageenens framleiðslu, sem fer síðan í útflutning og meðal annars notað til framleiðslu á matvælum. Ræktun á þangi er mikilvæg fyrir efnahag landsins og afkomu fólks, en um ein milljón manna hafa lifibrauð af atvinnugreininni. En ræktunin er frumstæð og bændur búa við mikla fátækt og óvissu. Hver fjölskylda ræktar þara á svæði sem er um hálfur til einn hektari, og fer ræktunin aðalega fram á grunnsævi til að bændur getið athafnað sig án þess að nota báta. Það eru margskonar ógnir sem bændur búa við, stormar geta lagt ræktunina í rúst og breytingar á hitastigi sjávar eða seltustigi geta valdið sjúkdómum sem eyðileggja uppskeruna. Bændur hafa ekkert borð fyrir báru, og þó að þeir geti náð 4-6 uppskerum á ári, þarf ekki marga bresti til að þeir hafi ekki efni á að kaupa nýjan búnað eða græðlinga og þá er ræktunin sjálfstopp og fjölskyldan án lífsviðurværis.

Að bjarga heiminum

Í skýrslu sem Alþjóðabankinn gaf út fyrir skömmu er dregin upp mynd af því mögulega sem hægt væri að gera til að auka ræktun á þangi í hitabeltinu, svolítið eins í fullkomnum heimi. Þar kemur fram að fram til ársins 2050 þarf að auka heimsframleiðslu á próteini um 50 – 70% til að fullnægja fæðuþörf jarðarbúa. Það verður varla gert með hefðbundnum landbúnaði sem er í dag ein helsta uppspretta gróðurhúsaloftegunda og neikvæðra umhverfisáhrifa og hreinlega ekkert pláss til ræktunar. Mikil tækifæri liggja hins vegar í ræktun í sjó sem jafnframt hefði jákvæð áhrif á lífríki jarðar. Ef ræktun á þara ykist um 14% á ári gæti framleiðslan á þurrvigt orðið 500 milljón tonn árið 2050. Ef tekið er til greina þær miklu framfarir sem hafa orðið á búnaði til ræktunar, þekkingu og tæknilegum lausnum sem liggja fyrir, ætti það að vera mögulegt. Með hefðbundum ræktunaraðferðum ræktar hver bóndi um 20 tonn af hálfþurrkuðum þara (cottonii) en með nútíma tækni og breyttu skiplagi gæti hann framleitt 100 til 120 tonn á ári.

Nýta kaupfélagsformið

20190715_151048Ein hugmyndin til að auka framleiðsluna er að stofna kaupfélög um ræktunina, með um 100 bændum, og til hliðar við það væri tryggður rekstur um ræktun og framleiðslu á græðlingum. Fjármagn væri útvegað til að nútímavæða ræktunina þar sem hún væri færð á meira dýpi og búnaðurinn væri strengdur niður, ekki ósvipað og við þekkjum með laxeldiskvíar hér á landi. Mikilvægt er að finna aðila sem fólkið treystir til að vera í forystu kaupfélagsins, sem greiðir síðan bændum lágmarkslaun allan ræktunartímann, og síðan aukalega fyrir hráefni þegar því er skilað inn. Einnig mun safnast upp höfuðstóll í kaupfélaginu sem bændur eiga og hægt er að nota við fjárfestingar eða greiða árlega út arð, eða takast á við óvæntan mótbyr við ræktun. Kaupfélagið fjárfestir í vöruskemmu og getur því stýrt framboði miðað við eftirspurn, en hægt er að geyma forþurrkaðan þara í allt að þrjú ár. Kaupfélagið selur framleiðsluna beint til verksmiðjunnar og losnar þannig við tvo til þrjá milliliði (kaupmenn) sem starfa í virðiskeðjunni í dag.

Nýjar aðferðir við ræktun

Með því að færa ræktunina á meira dýpi losna bændur við sveiflu í hita og seltustigi sem veldur sjúkdómum og er ein mesta ógnunin í dag. Við fjöruborðið getur selta og hiti breyst mikið við rigningar, sem geta stundum dunið á vikum saman í hitabeltinu. Þannig gætu þessar hugmyndir breytt miklu fyrir íbúa svæða þar sem ræktunin fer fram, sem eru mjög fátækir og lifa fyrir hvern dag fyrir sig í algeru öryggisleysi. Með 500 milljón tonna framleiðslu myndu skapast 50 milljón bein störf við ræktun í hitabeltinu, sem gætu með óbeinum störfum orðið um 100 milljón og skilað 500 milljörðum dollara í verðmætum. En það hangir fleira á spýtunni og þá komum við að umhverfisþætti þess að rækta 500 milljón tonn af þara á ári!

Að fæða heiminn

20190904_150445Slík framleiðsla myndi auka matarframboð heimsins um 10%. Úr þurrkuðum þara má vinna á bilinu 10-30% af próteini, og þannig myndi 500 milljón tonn skila í kringum 150 milljónum tonna af þörungapróteini og 15 milljón tonnum af þörungalýsi. Þörungalýsi getur innihaldið omega 3 fitusýrur og líkist því fiskalýsi. Ef tekið er tillit til mismunandi próteininnihaldi í þörungamjöli og t.d. soyjamjöli gæti framleiðsla á því fyrrnefnda jafnast á við 20% af framleiðslu þess síðarnefnda og framboð af þörungalýsi yrði sjöfalt miðað við framboð af fiskilýsi í heiminum í dag. Ef hægt væri að framleiða fiskifóður úr afurðum þara, sem síðan yrði notað til fiskeldis, sem er umhverfisvænasta próteinframleiðsla sem þekkist, væri búið að leysa hluta af umhverfisvanda heimsins. En þar með er ekki öll sagan sögð!

Gríðarleg umhverfisáhrif

Þari lifir á kolsýru og köfnunarefni. Í dag eru notuð um 150 milljón tonn af áburði (köfnunarefni) en aðeins helmingurinn af því nýtast jurtum, en um 15 – 30% skilar sér í sjóinn. Þetta hefur skapað um 250.000 km2 af dauðasvæðum í heimshöfunum. Þangrækt gæti tekið í sig um 10 milljón tonn af köfnunarefni árlega, eða um 30% af því sem við látum frá okkur í sjóinn. Önnur mengun sem veldur miklum áhyggjum í sjónum er kolsýra (CO2), sem skolast með rigningu úr menguðu andrúmsloftinu og endar í sjónum. Hækkandi sýrustig sjávar er meðal stærstu áskorunum sem maðurinn stendur frammi fyrir, sem þegar er farið að hafa neikvæð áhrif á lífríki hafsins. Með ræktun á 500 milljón tonnum myndi þari taka í sig um 135 milljón tonn af kolsýru, um 3,2% af árlegri mengun sem sjórinn tekur við á ári.

Er þetta hægt?

20190908_143407Allt hljómar þetta eins og ævintýri og sumir myndu segja að væri of gott til að vera satt! Enn er ekki búið að þróa hagkvæmar afurðir úr þara til að nota sem fóður. En til þess að virkja hugvit og frumkraft þarf að sýna fram á framboð í framtíðinni. Trúi menn ekki á framboðið verður ekki til sá hvati sem til þarf að þróa verðmætar afurðir úr þessu grænmeti hafsins. Þannig verður vænt framboð og eftirspurn að fara saman hönd í hönd. Matís hefur þegar komið að tugum rannsókna á nýtingu þörunga og mikill áhugi er meðal erlendra rannsóknaraðila á málinu. Efna- og plastframleiðendur hafa sýnt því áhuga að nota hluta af þangi til framleiðslu sinnar. En hvað þarf til að koma svona hugmyndum á rekspöl? Tæknilega verða engar óyfirstíganlegar hindranir, sem hugvit og frumkvæði geta ekki leyst. Allt mun þetta snúast um mannlega þáttinn, að koma á breytingum og endurskapa núverandi menningu. Breytt hugafar og virkja bændur til að vinna undir skipulagi, bæta þekkingu og mannauð.

Gunnar Þórðarson, viðskiptafræðingur.


Indónesía

20190710_195138Ég verið að vinna í höfuðborg Indónesíu, Jakarta, undanfarið í rúmlega tveggja vikna vinnuferð fyrir Alþjóðabankann. Það er alltaf jafn gaman að vakna snemma og grípa „Moggann“ (The Jakarta News) undan herbergisdyrunum á hótelinu, arka í frábæran morgun verð og lesa um ástandið hér í landi. Reyndar er ástandið nokkuð gott undir styrkri stjórn Jokowi, sem nýlega fékk endurnýjað umboð kjósenda sem forseti landsins. Kosningabaráttunni er nýlega lokið með hans sigri eftir nokkuð hat-römm átök. Það sem vekur athygli gestsins við lestur bæjarblaðsins er hversu margt er skylt því sem gengur á í pólítík annarstaðar í heiminum. Eins og víða um heim eru átökin ekki lengur um hægri og vinstri, sósíalisma eða auðhyggju og hlutverk ríkisins; heldur er hún hér um fjölmenningu eða öfgafulla múslimska hugmyndafræði. Það er ljóst að mörgum er létt yfir sigri Jakowi, talsmanni þess fyrrnefnda og mikill óhugnaður meirihlutans hér í landi yfir því sem minnihlutinn berst fyrir. Sem betur fer eru litlar líkur á að Indónesía verði íslamskt ríki eins og Sádi Arabía eða Íran. Hér ríkir nokkuð frjálslyndi og lýðræði virðist standa traustum fótum. En um þetta er tekist í pólítíkinni. Í Bandaríkjunum er sá flokkur sem ég hefði talið mig aðhyllast, Repúblikanaflokkinn vera á skrítnum stað, þar sem hann stendur fyrir einangrun í heimsviðskiptum með haftastefnu í forgrunni. Flokkur sem hingað til hefur staðið fyrir viðskiptafrelsi, og verið forysturíki í lýðræðisvæðingu í heiminum. Í Bretlandi berst Íhaldsflokkurinn fyrir svipuðum markmiðum, þvert á allt sem hann hefur staðið fyrir frá upphafi. Þessir tveir flokkar eru með elstu stjórnmálaflokkur sem til eru í dag. Á Íslandi er svipaða sögu að segja þar sem fólk sem maður taldi samherja sína og tryðu fyrst og fremst á frelsi einstaklingsins, borgarleg réttindi, réttarríkið og frjáls viðskipti, berjast með hnúum og hnefum gegn viðskiptafrelsi. Virðast ekki skilja muninn á einstaklingsfrelsi og „frelsi ríkisins“ til að ákveða alla hluti. Frjálsasta ríki veraldar í dag, Norður Kórea, hefur ekki undirgengist yfir þjóðlegt vald og er þannig frjálst, en einstaklingarnir eru hins vegar kúgaði þannig þyngra er en tárum taki. Þessir þjóðernissinnar virðast vera á móti frjálsum viðskiptum og markaðhagkerfi, sem er þó okkur borgurunum svo mikils virði og er reyndar grunnur að lífsgæðum okkar. En Indónesía fer vel með mig og hér er gott að vera. Gott fólk og góður matur.


Borgaralegur réttur

Það er svo mikilvægt að gæta að borgaralegum réttindum og dómstólar noti ekki hefnigirni við dóma sína heldur styðjist við lög. Þessi hrunmál á Íslandi er okkur sem þjóð til vansa.  


mbl.is Allir sýknaðir í CLN-máli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grein í BB 23. maí 2019

Loftslagsbreytingar af mannavöldum

Meðalhiti á jörðinni hefur hækkað um 0,85 °síðan 1880 sem vísindamenn tengja við aukningu á CO2 í andrúmsloftinu, frá 278 ppm (1750) upp í 412 ppm í dag. Það er engin spurning að hlýnun jarðar af mannavöldum er stærsta áskorun sem jarðarbúar hafa staðið frammi fyrir. Verkefnið er yfirþyrmandi og mikilvægt að þjóðir heims taki sig saman um lausn málsins og geri sér grein fyrir að um hnattrænan vanda er að ræða.

Undirritaður lítur á sig sem umhverfissinna en oftar en ekki getur hann alls ekki samsamað sér þeim sem mest hafa sig í frammi um þessi mál, og virðast oftar en ekki láta ráðast af ofstæki og pólitískum rétttrúnaði. En vilji Íslendingar hafa áhrif á heimsvísu og mark sé á þeim takandi þurfa þeir að vera til fyrirmyndar, en samstaða hér innanlands er alger forsenda þess. Notast við hlutlægt mat en enn byggja á tilfinningum einum eða láta stjórnmálaskoðun afvegaleiða umræðuna.     

Aukning á losun gróðurhúsalofttegunda skrifast að mestu leyti á bættan efnahag fjölmennra ríkja í Asíu, s.s. í Kína og Indlandi. Þar eru minni kröfur gerðar um útblástur farartækja og orkuvera en t.d. í Evrópu, en skiljanlegt að erfitt sé að sannfæra þessar þjóðir um að draga úr hagvexti til að bjarga heiminum. Aukning á lífsgæðum í þessum löndum skýrir aukningu á orkuþörf og matvælaframleiðslu, fjölgun farartækja og eyðingu skóga í heiminum. Losun gróðurhúsalofttegunda er hnattrænt vandamál og tekur ekkert tillit til landamæra.

„Umhverfissinnar“ viðast ekki sjá skóginn fyrir trjám í baráttu sinni og stað þess að skapa sátt meðal almennings um að bæta umgengni um umhverfið berjast þeir hiklaust gegn jákvæðri þróun sem dregur úr losun á gróðurhúsalofttegundum í heiminum. Tökum dæmi!

Þessi háværi fámenni hópur hefur markvisst barist gegn stóriðju á Íslandi, þó ljóst megi vera að mikilvægasta framlag Íslendinga í loftslagsmálum er einmitt stóriðja sem nýtir umhverfisvæna orku. Álver á Íslandi mengar brot á við álver í Kína sem notar brúnkol sem orkugjafa. Ef við lokuðum öllum álverum á Íslandi myndi það ekki hafa nokkur áhrif á heimsmarkaðinn, þar sem framboðið yrði aukið frá kínverskum álverum en stórauka losun gróðurhúsalofttegunda. Einnig þarf að hafa í huga þegar rætt er um ál að sá málmur er, fyrir utan framleiðsluna sjálfa, mjög umhverfisvænn þar sem hann léttir farartæki og einnig er ódýrt og umhverfisvænt að endurnýta hann.

Mikið er talað um mengun af völdum kísilvera og barist gegn framleiðslu þeirra á Íslandi. Kísill er notaður við framleiðslu á sólarrafhlöðum þannig að taka þarf það inn í myndina þegar talað er um losunina við framleiðsluna, að hann er forsenda þess að nýta umhverfisvæna orku.

„Umhverfissinnar“ berjast með hnúum og hnefum gegn umhverfisvænum virkjunum á Íslandi þó einmitt það sé okkar framlag til að draga úr losun gróðurhúsaloftegunda á heimsvísu. Þeir berjast einnig gegn lagningu flutningslína sem veldur mikilli sóun í Íslenska raforkukerfinu. Með aukningu á bráðun jökla, vegna gróðurhúsalofttegunda, eykst afl virkjana en ekki er hægt að nýta þessa orku þar sem flutningkerfið hefur ekki undan.

„Umhverfissinnar“ berjast gegn laxeldi á Íslandi. Laxeldi er umhverfisvænasta próteinframleiðsla sem til er og samkvæmt úttekt FAIRR (https://www.fairr.org/index/) eru fjögur laxeldisfyrirtæki af fimm próteinframleiðslu með lægstu umhverfisáhættu á heimsvísu, og reyndar sex meðal þeirra öruggustu af 11 fyrirtækjunum í heiminum. Í öllum samanburði við hefðbundinn landbúnað skorar eldi mjög hátt sem umhverfisvæn framleiðsla. Hvalaafurðir skora vel sem umhverfisvænasta kjötframleiðsla sem til er, en „umhverfissinnar“ berjast gegn þeim af miklu offorsi. Þeir berjast gegn notkun áburðar sem er forsenda þess að hægt sé að fæða níu milljarða jarðarbúa. Ef öll framleiðsla yrði „vistvæn“ dygði ekki að höggva alla skóga jarðar fyrir ræktarland og sótspor stóraukast við landbúnað, þar sem framleiðni mynd dragast verulega saman. Þessi barátta gegn umhverfisvænni framleiðslu matvæla hefur verið einstaklega óvægin og tilgangurinn helgar meðalið og ekki skirrst við að halda fram staðleysum og ósannindum. Þessi barátta gegn umhverfisvernd er drifin áfram af auðmönnum sem leggja til umtalsverða fjármuni til áróðurs og afvegaleiða almenning í málinu.

Á sama tíma talar enginn um fílinn í stofunni en hefðbundinn landbúnaður (kjöt- og mjólkurframleiðsla) stendur undir 11% próteinþörf heimsins og notar til þess 83% af ræktarlandi. Enn er verið að höggva skóga í stórum stíl til að auka framleiðslu á kjöti og mjólk. Á Íslandi hafa bændur grafið skurði sen jafngilda vegalengdinni í kringum hnöttinn, til að þurrka upp mýrar. „Umhverfissinnar“ láta sig það í léttu rúmi liggja, enda telur það ekki með í „bókhaldinu“, en um er að ræða mesta skaðvaldinum hér á landi við losun gróðurhúsalofttegunda. Framleiðsla á kindakjöti losar um 40 kg af CO2 við framleiðslu á hverju kíló af kjöti. Ef Íslendingar myndu stilla framleiðslu á kindakjöti við eftirspurn á heimamarkaði væri hægt að minnka framleiðslu um 4.000 tonn af kjöti, sem minnkar losun um 160 þúsund tonn af CO2. Þá er ótalin sótsporin við að flytja kjötið, niðurgreitt af ríkinu, á fjarlæga markaði. Landbúnaður losar um 24% af öllum gróðurhúsalofttegundum í heiminum en samgöngur um 14% þannig að augljóst er hver sökudólgurinn er.

Það er einmitt í samgöngum sem Íslendingar geta verið góð fyrirmynd í umhverfismálum. Sjávarútvegur hefur staðið sig mjög vel og dregið hefur stórkostlega úr sótspori við veiðar og vinnslu. Mestu munar skipulag og stjórnun með kvótakerfi sem hefur aukið veiði miðað við sókn. Fiskveiðiflotinn er einnig mun umhverfisvænni í dag og með þróun á hönnun skipa, bættum vélbúnaði og jafnvel orkuskiptum um borð og í vinnslunni hefur Grettistaki verið lyft. Rafbílavæðing er mikið í umræðunni en ekki er allt sem sýnist í þeim efnum, en sótspor við framleiðslu á rafhlöðum er umtalsverð og dregur verulega úr jákvæðum áhrifum orkuskipta. Bílar eru einungis að losa um 4% af heildarlosun í heiminum þannig það eitt og sér leysir ekki málin.

Það er alltaf stutt í viljann til skattheimtu hjá „umhverfissinnum“ þegar kemur að baráttu við losun gróðurhúsalofttegunda. Umhverfisskattar á almenning eru um fimm milljarðar á ári og krafan um frekari skatta, sérstakleg á fyrirtæki er hávær. Ef Íslendingar skattleggja álverin frá sér með umhverfissköttum aukum við einfaldlega mengun í heiminum. Ef skattar eru ekki settir til að liðka fyrir orkuskiptum, eru þeir ekki umhverfisvænir og ganga einfaldlega út á að auka tekjur ríkissjóðs.  Kolefnisgjald á flug dregur ekki úr sótspori en eykur bara kostnað almennings. Enginn möguleiki er fyrir flugfélög að skipta yfir í umhverfisvænni orku. Varla vilja Íslendingar nota kolefnisskatt til að draga úr ferðalögum almennt séð? Við búun á stjálbýlli eyju og þurfum því meira en aðrir á flugi að halda.

Ef Íslendingar vilja hafa áhrif á heimsvísu og vera til fyrirmyndar er nær að tryggja stuðning almennings. Mikilvægt er að nota hlutlægt mat á losun gróðurhúsaloftegunda og almennt að gera sér grein fyrir því að vandamálið er hnattrænt. Umræðan þarf að byggja á hlutlægum sannleika en ekki huglægum eða pólitískum rétttrúnaði. Huglægur sannleikur dugir vel í trúarbrögðum en er ekki nothæfur í umræðu um umhverfismál og virkja almenning til að draga úr mengun og hnattrænni hlýnun.

Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur


Vinnsla, flutningur og markaðssetning eldisfisks frá Íslandi

Ráðstefnan „Strandbúnaður“ verður haldinn á Grand Hótel Reykjavík dagana 21 – 22 mars n.k. Strandbúnaður vísar til „landbúnaður“ og er vettvangur aðila sem tengjast eldi og ræktun í sjó og vatni. Á ráðstefnunni eru erindi og kynningar á öllu því helsta sem er að gerast í þessari grein og reynt að varpa ljósi á þróun til framtíðar.

Ein málstofa ráðstefnunnar heitir „Vinnsla, flutningur og markaðsetning eldisfisks“ þar sem staðan er tekin og tækifæri metin. Nánast allur lax er fluttur út slægður/ferskur þar sem hann er fullunninn á smásölu- eða veitingahúsamarkað. En hvar liggja tækifæri Íslendinga í að hámarka verðmætasköpun í fiskeldi? Getur eldisgreinin tileinkað sér árangur bolfiskvinnslunnar í framleiðslu og sölu á ferskum flakastykkjum, sem aukið hafa verðmætasköpun á hvítfiski umtalsvert? Með nýjustu tækni og þekkingu hefur íslenskri fiskvinnslu tekist að framleiða vöru samkvæmt ítrustu kröfum neytanda, sem er tilbúinn til að greiða hærra verð fyrir vikið.

Ef allt fellur Vestfirsku eldi til næstu árin, má gera ráð fyrir a.m.k. 50 þúsund tonna framleiðslu á ári, sem myndu skila nærri 50 milljarða framleiðsluverðmætum í þjóðarbúið. Ekki er raunhæft að ætla sér fullvinnslu á öllu því magni en hluti þess gæti verið unninn á neytandamarkað í framtíðinni. En áskoranir fyrir slíkri framleiðslu eru margar og ýmislegt er hugmyndinni mótdrægt; þó tvær hindranir séu helstar, há vinnulaun og miklar vegalendir á markað.

Í dag er töluverður hluti af eldisfiski fluttur til Póllands, þar sem hann er fullunninn á neytandamarkað í Evrópu. Undirritaður hefur átt tækifæri til að heimsækja verksmiðjuna Milarex í Slupsk í Póllandi þar sem ferskur fiskur er fluttur frá Íslandi, Noregi og Færeyjum með skipum og trukkum. Fiskurinn er flakaður, snyrtur og síðan unninn í neytandapakkningar, ferskur, reyktur eða frosinn, og skipta vörunúmer hundruðum. Matís í samstarfi við Skagann 3X og Arctic Fish hefur flutt regnbogasilung í gámum til þessarar verksmiðju þar sem gerð var tilraun með að ofurkæla fiskinn og senda hann íslausan með hitastýrðum gámum sjóleiðina. Þrátt fyrir að flutningur tæki átta til tíu daga, var fiskurinn enn af miklum gæðum og hafði nægjanlegan líftíma til að vera unninn og seldur ferskur á neytandamarkað um alla Evrópu. Slupsk í Póllandi er vel staðsett til að dreifa vöru landleiðina á Evrópumarkað á einum til tveimur dögum.

Vinnslan sem um ræðir er öll hin glæsilegasta, með 500 starfsmönnum og hreinlæti og gæðastjórnun með því besta sem þekkist í heiminum. Það er áleitin spurning hvernig íslensk fyrirtæki gætu keppt við slíka vinnslu í framleiðslu og dreifingu á smásölumarkað Evrópu? Vinnslan er ágætlega tækjum búin, með mjög hæft starfsfólk, á launum sem eru langt að baki því sem gerist hérlendis.

Flutningsmöguleikar skipta máli fyrir útflutning á laxi; héðan eru sjóflutningar stundaðir frá mörgum höfnum á Íslandi, til hafna í Bretlandi og meginlandi Evrópu. En mestu skiptir þó þéttriðið net flugsamgangna, sem teygðu sig til um 100 borga vítt og breitt um heiminn þegar best lét í íslenskri ferðaþjónustu, en heldur hefur dregið úr framboði við samdrátt í fjölda erlendra ferðamanna. Flugfrakt er dýr og skilur eftir sig umtalsvert kolefnisspor, en með nýrri tækni, ofurkælingu, er hægt að minnka það nokkuð. Bæði laxasláturhús landsins nota ofurkælingarbúnað frá Skaginn 3X sem lágmarkar notkun á ís við flutning á fjarlæga markaði.

Skipaflutningar eru mun ódýrari en flugfrakt ásamt því að minka sótspor framleiðslunnar. En sjóflutningar taka tíma á fjarlæga markaði sem minnkar líftíma á ferskri vöru fyrir kaupandann. Þá skiptir máli hvort hægt er að vinna laxinn strax eftir slátrun og  jafnvel fyrir dauðastirðnun. Ódýrara er að flytja flakaðan fisk á markað og losna þannig við dýran flutning með flugi á beinum og haus. Hingað til hefur þurft að geyma laxinn í um fjóra sólahringa áður en hægt er að draga beinagarðinn úr flakinu, en beinin losna ekki fyrr úr vöðvanum. Ef nútímatækni eins og vatnsskurður væri notaður við að skera beinin úr væri hægt að lengja geymsluþol ferskra afurða um þann tíma. Annað tækifæri sem það gefur,  er að hægt er að hluta flakið niður eftir ýtrustu kröfum markaðarins, eins og gert er við hvítfisk í dag, og framleiða þar með algjörlega nýjar vörur á markað; markað sem gæti greitt hærra verð og þannig aukið verðmætasköpun vinnslunnar. Vatnskurðartæknin er líka forsenda þess að lágmarka framleiðslukostnað og skapa samkeppnisforskot gagnvart láglauna svæðum.

Ný tækni við vinnslu þar sem tölvustýrðir þjarkar koma í stað mannshandar eru einmitt forsenda slíks samkeppnisforskots. Ljóst er að fiskvinnsla væri að miklu leyti farin úr landi ef ekki væri fyrir nýjustu tækni við framleiðslu í dag. Fram undan eru tímar tækniframfara með hraða sem menn hafa ekki séð fyrr. Mikilvægt er að Íslendingar tileinki sér nýjustu tækni til að viðhalda samkeppnisforskoti og undirbúi starfmenn til að takast á við nýjar áskoranir og auknar kröfur í framtíðinni. Þannig verða til betri störf og betur borguð í samkeppni við láglaunasvæði.

Ef til vill munu Íslendingar geta boðið upp á nýjar vörur úr ferskum laxi í framtíðinni, laxi sem er upprunninn úr hreinum en köldum sjó. Framleiðslu sem verður sérsniðin að ýtrustu þörfum viðskiptavinarins, með dreifingu víða um heim. Vöru sem hefur jafnvel lengra geymsluþol en samkeppnisaðilinn getur lofað og þannig keppt á kröfuhörðustu mörkuðum heimsins. Íslendingar eiga kost á að ná samkeppnisforskoti með hugviti, tækni og mannauði sínum.

Gunnar Þórðarson, Matís


Umhverfis- og öryggismál í sjókvíaeldi

Ráðstefnan „Strandbúnaður“ verður haldin á Grand Hótel Reykjavík dagana 21 – 22 mars n.k. Strandbúnaður vísar til „landbúnaður“ og er vettvangur aðila sem tengjast eldi og ræktun í sjó og vatni. Á ráðstefnunni eru erindi og kynningar á öllu því helsta sem er að gerast í þessari grein og reynt að varpa ljósi á þróun til framtíðar.

Á málstofunni “Umhverfis- og öryggismál í sjókvíaeldi“ verður fjallað um umhverfisógnanir sjókvíaeldis, bæði gagnvart náttúrinni og rekstrinum. Vestfirðir bjóða upp á marga kosti frá náttúrunnar hendi til strandeldis, hreinn sjór, djúpir og vel varðir firðir ásamt innviðum og mannauði til að stunda sjókvíaeldi. En ógnir Dumbshafsins eru miklar hvað varðar veðurfar auk þess eru umhverfisógnir eins og erfðablöndun við villta laxastofna í íslenskum ám.

Hætta á erfðablöndun vegna sleppinga úr sjókvíum hefur fengið einna mesta athygli og hafa veiðirétthafar laxveiðiáa barist harðri baráttu gegn leifum til laxeldi í sjókvíum á Íslandi. Þrátt fyrir fyrr sátt um að draga línu þar sem eldið er eingöngu leyft á Vestfjörðum, Eyjarfirði og Austfjörðum, hefur sáttin ekki haldið með auknum óbilgjörnum kröfum veiðirétthafa. Að sjálfsögðu eru slysasleppingar alvarlegt mál en með mótvægisaðgerðum má lágmarka áhrif þeirra á náttúruna. Huga þarf að hegðun eldisfisks og spurning hvort hann er raunveruleg ógn í náttúrinni.

Íslensk veðrátta skapar mikla áhættu en ekki þarf að fara langt aftur í tímann til að sjá veðurfar sem myndi skapa mikla áhættu við laxeldi. Um og eftir miðja síðustu öld hafa komið kuldakaflar þar sem hitastig og vindur hafa skapað aðstæður sem eru mjög hættulegar fyrir lax í sjókvíum. Þessu fylgdi jafnframt lagnaðar- og rekís sem geta valdið miklu tjóni á sjókvíum. Farið verður yfir þessi mál á ráðstefnunni og reynt að meta áhættur og hugsanleg viðbrögð til framtíðar.

Sjórinn er kaldari við Ísland en í helstu samkeppnislöndum okkar, sem hefur bæði kosti og galla. Kostir eru að gæði Íslensks lax þykir framúrskarandi og laxalúsin á erfiðra uppdráttar í kaldari sjó. Lágur sjávarhiti veldur hægari vexti og hætt við að það hafi áhrif á næringarþörf og fóðurnýtingu. Hægt er að bregðast við því með útsetningastærð seiða og með þróun á fóðurgerðar og fóðrunar.

Aðstæður á Íslandi eru góðar hvað varðar skjól á fjörðum en aðstæður við t.d. Færeyjum eru erfiðari hvað þetta varðar, enda ölduhæð við eyjarnar langt um meiri en búast má við eldisaðstæður hérlendis. Engu að síður er mikilvægt að búnaðarstaðall, staðarúttektir og festingar standist ýtrustu kröfur, bæði hvað varðar áhættu á sleppingum og eins efnahagslegu tjóni af slíku. Á ráðstefnunni verður kynning á þessum málum og hvernig eftirliti og viðbrögðum er stjórnað.

Það sem skiptir mestu máli í öllu þessu er að hagsmunir náttúrinnar og rekstraraðila fara algerlega saman. Rekstur sjókvía er ómögulegur ef svæði eru ekki hvíld á milli eldis til að koma í veg fyrir mengun og sjúkdóma og eins getur enginn rekstraraðili búið við að missa lax úr kvíum. Velferð fisksins fer saman við afkomu rekstursins.

En það verður áskorun framtíðar að takast á við umhverfisskilyrði við Dumbshaf, nýta kostina en bregðast við ógninni sem því fylgir. Takist það má búast við miklum tekjum af sjókvíaeldi, landsmönnum til hagsmuna með auknum útflutningi og verðmætasköpun. Fyrir svæði eins og Vestfirði skiptir sjókvíaeldi gríðarlega miklu máli til að byggja upp efnahag og byggðafestu til framtíðar.   

 

Gunnar Þórðarson, Matís


Tölvan segir nei (The computer says no)

Það var athyglisvert viðtal við Dr. Ian Kerr í Kastljósi 26. febrúar s.l. Dr.Kerr er einn fremsti vísindamaður hvað varðar gervigreind og notkun vélmenna í heiminum í dag. Hann var að velta fyrir sér lagalegum, félagslegum og siðferðislegum spurningum hvað varðar notkun tölva og vélmenna til að taka við mörgum þeim verkefnum sem menn hafa séð um hingað til, og þá ógn sem gæti stafað af því ef búnaðurinn fer að taka eigin ákvarðanir. Kerr nefndi drápsvélar sem dæmi, en Sameinuðu þjóðirnar fjalla um þessar mundir um að bann á notkun þeirra í hernaði. Í sjálfu sér gæti verið gott að nota tilfinningalausa vél í stað þess að hætta mannslífum í átökum, sem er reyndar þegar gert. Hægt væri að forrita vélina á besta hátt, en með gervigreind mun vélin læra og bæta við sig þekkingu sem nýtist henni til að þjóna manninum betur í framtíðinni. Sama má segja um vélmenni í heilbrigðiskerfinu þar sem þau geta lært að greina sjúkdóma og framkvæma aðgerðir sem maðurinn ræður ekki við. Það geta verið stórkostleg tækifæri í að nýta vélar sem læra til að framkvæma hluti sem maðurinn ræður ekki við og mikið framfaraskref fyrir mannkynið. En það fylgir böggul skammrifi! Það má ekki taka mennskuna út úr dæminu og láta vélar taka ákvarðanir um líf og dauða! Vél sem lærir gæti komist að þeirri niðurstöðu að hún viti betur en forritið segir og ákveðið ný viðmið um aðgerðir. Vélmenni mega alls ekki taka af skarið og mikilvægt að ákvörðunin sé tekin af mönnum! Sem dæmi var prófað að nota tölvur sem dómara í Kína, en niðurstaðan varð hörmuleg þar sem þær skortir algerlega tilfinningar. Nú er það ekki svo að allar mennskar ákvarðanir séu góðar, nema síður sé. Við höfum endalaus dæmi um mannvonsku, hatur og ofbeldi sem rekja má til mannlegra hvata. Engu að síður verða ákvarðanir fortakslaust að vera mennskar á ábyrgði manneskju en ekki vélar! Mannskepnan hefur notað trúarbrögð til að leiðbeina sér við ákvarðanir frá upphafi vega. Mikilvægi kristinnar trúar er gríðarlegt fyrir mannkynið og engin tilviljun að lýðræði og mannréttindi eru að jafnaði betur tryggð í kristnum löndum en öðrum. Jesú Kristur var sennilega merkasti heimspekingur sem uppi hefur verið og hefur haft meiri áhrif en nokkur annar á íbúa jarðarinnar. Þaðan höfum við einmitt okkar gildismat; hvað er rétt og rangt, ljótt og fallegt, vont og gott sem dæmi. Mikilvægasta framlag hans var að kynna til sögunnar guð Nýja testamentisins sem var umburðarlyndur og kenndi fylgjendum sínum m.a. umburðarlyndi og að fyrirgefa. Fyrirgefning er einmitt partur af mennskunni. Fyrirgefning og umburðarlyndi eru systkini! Ástæðan fyrir því að gyðingar viðurkenndu Jesú ekki sem Messías var einmitt vegna þess að þeim hugnaðist ekki þessi umburðarlyndi fyrirgefandi guð, og viltu halda í stríðsóðan guð Gamla testamentisins, enda létu þeir þyrma óbótamanninum Barabbas, og létu krossfesta Jesú. Sjálfur hef ég þurft að biðjast fyrirgefningar, sem er ekki það sama og afsökun en rétt er að hafa í huga að; â€Å¾Maður fyrirgefur ekki öðrum, af því að þeir eigi skilið fyrirgefninguna, heldur vegna þess að maður á það skilið að öðlast frið“ Stórmenni eins og Ghandi og Mandela skildu hvað fyrirgefningin var mikilvæg. Í stað þess að gjalda líkum líkt fyrirgáfu þeir misgjörðarmönnum sínum, til þess að ná árangri fyrir þjóð sína. Það hefði margt orðið öðruvísi í Rwanda og fyrrum Júgóslavíu ef leiðtogar þeirra landa hefðu haft þá mennsku sem þessir miklu menn höfðu. Við getum litið okkur nær! Ofbeldið og hatrið sem fylgdi hruninu tók út yfir allan þjófabálk. Auðvitað átti að refsa mönnum fyrir lagabrot, en dómsstólar mega aldrei byggja dóma á hefnigirni eða undir þrýstingi frá dómstóli götunnar. Dómar eiga að byggja á lögum en vera mennskir. Við sáum þetta líka í svokölluðu Klaustursmáli þar sem almenningur fór úr límingunum og leið mjög illa vegna gengdarlauss haturs á fólki sem hafði ekki brotið annað af sér en röfla á krá hver við annan. Í rauninni hefði enginn skaði orðið ef óprúttinn aðili hefði ekki tekið upp einkasamtal og komið því til fjölmiðla. Það veit guð að ég hef látið út úr mér ýmislegt í góðra vina hópi sem ég kæri mig ekki um að verði birt almenningi en ég hef auðmýktina til að viðurkenna það. Ef til vill erum við Íslendingar á rangri vegferð að draga úr kristinfræðikennslu og boðskap Jesú Krists. Ég vil reyndar halda þjóðkirkjunni utan við þessa umræðu, en mikilvægi boðskapar hans og gildismats kristinnar trúar á fullt erindi við Íslendinga. Hvað sem hægt er að segja um kirkjuna sem slíka hefur þessi boðskapur kennt okkur að meta hvað er gott og vont, fallegt og ljótt og rétt og rangt. Þegar Kaþólska kirkjan er afhjúpuð af ógnarverkum sínum, er engin vafi á að það sem prestarnir aðhöfðust var rangt og ljótt. Slíku er ekki alltaf farið innan annara trúarbragða þar sem viðurkenning á hræðilegum athöfnum liggur fyrir. Við megum ekki láta tilfinningalausar vélar taka ákvarðanir og betra að fólk geri það samviskusamlega með kristnu gildismati. Ekki síst þegar þær snúast um líf og dauða. Gunnar Þórðarson, viðskiptafræðingur


Lýðskrum

Benedikt Jóhannsson skrifar grein í Morgunblaðið 20. nóvember s.l. þar sem hann fjallar um lýðskrum. Nú ber ég mikla virðingu fyrir Benedikt og er honum sammála í einu og öllu sem fram kemur í pistlinum. Svo vitnað sé í fyrrverandi fjármálaráðherra þá lýsir hann lýðskrumaranum í grein sinni með eftirfarandi hætti:

  • Hann finnur sér óvin
  • Vekur ótta
  • Skeytir ekki um sannleikann
  • Sakar andstæðinginn um drottinsvik

Einnig að lýðskrumarinn kunni ekki að skammast sín og biðjist aldrei afsökunar og ráðist á þá sem eru honum ósammála.

Þetta eru orð í tíma töluð hjá Benedikt Jóhannessyni, fátt sem fer meira í taugarnar á undirrituðum en lýðskrum í íslenskum stjórnmálum. Tökum dæmi um efni sem er höfundi er hugleikið:

Íslenskur sjávarútvegur spilar í meistaradeild greinarinnar á heimsvísu og hefur trónað á toppnum um áraraðir. Það veitir honum einstakt samkeppnisforskot og gefur greininni möguleika á að skila mikilli verðmætsköpun fyrir íslenskt efnahagslíf.

Sjávarútvegur hefur ekki alltaf gengið svona vel og fram á níunda áratug síðustu aldar einkenndist íslensk efnahagslíf af gengisfellingum til að leysa vanda útflutningsgreina (sjávarútvegsins), þar sem vandanum var velt yfir á almenning með launalækkunum (gengisfellingum). Almenningur þurfti að bera þann bagga með lakari lífskjörum þar sem launahækkanir brunnu upp á báli verðbólgu og lífeyrissjóðir gufuðu upp. En hvernig sneru Íslendingar þessar óheillaþróun við þar sem landframleiðsla frá árinu 1980 á mann fór úr 3,9 milljónum króna á núvirði í 7,7 milljónum króna? Grundvöllur þessa árangurs voru breytingar í sjávarútvegi þar sem eftirtalin atriði skiptu mestu máli:

Útfærsla landhelginnar var ein af meginstoðum árangurs. Enginn möguleiki var að breyta vörn í sókn án yfirráða Íslendinga yfir auðlindinni. En það dugði ekki til þar sem óskynsamir stjórnmálamenn stóðu fyrir skuttogaravæðingu þar togara var komið fyrir í hverjum firði og vík. Svo var komið í upphafi níunda áratugarins að útgerðin var enn og aftur komin að fótum fram, sóknargeta flotans (með 100 skuttogurum) var tvöföld það sem fiskistofnar gátu gefið af sér. Hvað var þá til ráða? Reynt var að draga úr veiðum með sóknarkerfi sem dregur ekki úr sóknargetu en skapar lélega nýtingu skipakostsins þar sem kapp við veiðar ræður frekar en forsjá.

Stjórnvöld settu því á kvótakerfi og skilaboðin til útgerðar voru; Þið fáið aðgang að auðlindinni miðað við veiðar síðustu fjögurra ára, en þið takið sársaukann við að skera niður flotann og auka framleiðni. Með kvótakerfinu hefur öryggi sjómanna aukist mikið, enda sókn í vondum veðrum dregist mikið saman. Til að bæta kerfið enn frekar var framsal á veiðiheimildum sett í lög í upphafi tíunda áratugarins. Þá fyrst fóru hjólin að snúast til hins betra og vænkaðist nú hagur Strympu, sem var undirstaða þess að ná tökum á hagkerfinu og stöðugleika krónunnar. Ekki hefði verið hægt að koma Þjóðarsáttinni á án þess að útflutningsgreinar stæðu keikar í þeim slag til að ná niður óðaverðbólgu.

Fleiri atriði skiptu sköpun í velgengninni og ber þar fyrst að nefna að ráðamenn ákváðu að leggja tillögur vísindamanna Hafró (veiðiráðgjöf) sem grunn að sókn í fiskistofna. Veiðiregla var sett á mikilvægustu stofna og sá kaleikur tekinn frá stjórnmálamönnum að ákveða sókn, en eðli þeirra var að halda öllum ánægðum með meiri veiði. Stjórnmálamenn geta nú ekki ákveðið sókn í fiskistofna frekar en að ákveða stýrivexti!

En það var fleira sem máli skipti eins og stofnun samkeppnissjóða, AVS og Rannís, sem hafa verið bakhjarlar rannsóknar og þróunar í íslenskum sjávarútveg og gert hann þann tæknivæddasta í heimi og stuðlað að aukinni verðmætasköpun. Með samvinnu útgerðar, fiskvinnslu, rannsóknarstofnana og háskólasamfélagsins hefur náðst ótrúlegur árangur í bættum gæðum sjávarfangs og gert mögulegt að þróa vöru á heimsmælikvarða úr íslensku hráefni. Mikil áhersla er lögð á nýtingu aukaafurða og skapa verðmæti úr aukaafurðum sem áður var hent. Útflutningur á ferskum fiski væri ekki mögulegur án mikillar þekkingar, en sú vara hefur tvöfaldað verðmæti þorsks undanfarin ár. Grundvöllur fyrir þeirri framleiðslu eru mikil gæði og ekki síður afhendingaröryggi, sem kallar á öguð vinnubrögð og mikla þekkingu. Engin leið væri t.d. að afhenda þá vöru allt árið um kring án kvótakerfis, en afhendingaröryggi er grundvöllur á markaði. Norðmenn t.d. taka meginþorra þorskveiði sinnar í mars og apríl, en veiða lítið restina af árinu. Norskur sjávarútvegur er auðlindadrifinn á meðan íslenskur sjávarútvegur er hins vegar markaðsdrifinn. Við förum til viðskiptavinarins og spyrjum hvað hann vill og fetum okkur svo niður virðiskeðjuna, alla leið til veiða, til að tryggja rétta vöru. Allt þetta hefur gert það að íslenskur sjávarútvegur er heimsmeistari og skilar ótrúlegri verðmætasköpun  fyrir samfélagið. Það var því ekki úr takti að stjórnvöld hafi 2002 sett veiðigjald á greinina. Rökin voru þessi; við settum leikreglur sem hafa nýst sjávarútvegi svo vel að ríkið vill fá hlut af umfram hagnaði til að greiða kostnað ríkisins af greininni (Hafró, Fiskstofa o.fl.)

En hvað kemur þetta lýðskrumi við? Í gegnum tíðina hafa margir barist gegn þessari jákvæðu þróun, með odd og eggi. Nú væri hægt að kenna fáfræði um og margir hafi ekki vitað betur. Það má fyrirgefa slíkt, en það gengur ekki upp fyrir fólk sem situr á Alþingi og notar ræðustól þar til að halda fram rökleysu og jafnvel notað uppnefni og níð um sjávarútveg og þá sem þar starfa. Heilu stjórnmálaflokkarnir hafa verið stofnaðir til að kynda undir óánægju almennings við þessa jákvæðu þróun. Nú verður maður að trúa því að fólk sem kosið er á þing og tjái sig um um þessa mikilvægustu atvinnugrein landsmanna, setji sig inn í málin og viti hvað það er að tala um! Nema að þetta sé allt saman lýðskrum, þeir finni sér óvin sem er kvótagreifinn, veki ótta um að hann sé að ræna almenning sameiginlegri auðlind og hafa fjármuni af þjóðinni. Lýðskrumarinn hugar aldrei um sannleikann og sakar þá útgerðarmanninn um drottinsvik.

Ég treysti Benedikt Jóhannessyni vel en hann hefur hins vegar ekki tjáð sig mikið um sjávarútveg, hans yfirburðarþekking liggur annarsstaðar. Það sama verður ekki sagt um núverandi formann Viðreisnar sem hefur meðal annars gengt stöðu sjávarútvegsráðherra. Hún hikar ekki við að halda fram staðleysum um atvinnugreinina, og talar þar örugglega þvert á það sem hún veit. Það þarf ekki mikinn hagfræðing til að sjá að uppboð á aflaheimildum gengur aldrei upp. Lítið mál er að kynna sér það og líta til reynslu þeirra þjóða sem hafa reynt þá helstefnu. Undirritaður er frjálshyggjumaður en gerir sér grein fyrir að fullkomlega frjáls markaður gengur ekki alltaf upp (t.a.m. harmar almennings), Sem sjávarútvegsráðherra hafði núverandi formaður Viðreisnar í hótunum, um að hækka enn frekar veiðigjöld, við fyrirtæki sem stóð í hagræðingu á sínum rekstri. Hún hefur ítrekað talað niður sjávarútveginn og þá sem þar starfa og lítur á veiðigjöld sem tekjustofn fyrir ríkissjóð. Hvort greinin standi undir því og viðhaldi samkeppnisforskoti sínu virðist engu máli skipta.

Viðreisn var stofnuð af fólki með borgaraleg sjónarmið til að sækja um aðild að ESB. Sjálfstæðisflokkurinn hrakti marga frjálslynda kjósendur þangað inn, sem trúa á markaðshagkerfi og frjáls viðskipti milli aðila og landa. Eftir heimskreppuna í lok síðasta áratugs var ljóst að slík umræða átti ekki upp á pallborðið hjá kjósendum. Hvað var þá til ráða fyrir Viðreisn? Sækja á gamlar slóðir og hræða þjóðina með grýlunni um kvótagreifana?

Það er aðeins eitt nafn til yfir slíkt; lýðskrum. 


Frelsi einstaklingsins

Um daginn gekk ég ásamt fleirum hluta af Jakobsveginum á norður Spáni. Við fjalltopp einn komum við að minnisvarða um 92 einstaklinga sem voru teknir af lífi af böðlum fasista í borgarastyrjöldinni þar í landi, sem háð var frá 1936 til 1939. Þetta var fjöldagröf fjölskyldna, fólks á öllum aldri og meðal annars konur og börn. Með morðunum voru fasistar að senda skilaboð til íbúa héraðsins um að standa ekki með sósíalistum og lýðveldissinnum í styrjöldinni. Líkamsleifar fórnarlambanna fundust nýlega, um 80 árum eftir morðin, og reistur hefur verið minnisvarði um þennan hryllilega atburð.

20180901_102522

Nú er það svo, að ganga um Jakobsveginn gengur að hluta út á íhugun og vangaveltum yfir lífinu og tilverunni. Þessi minnisvarði sótti svo á mig og ég upplifið álíka tilfinningu og þegar ég gekk um slóðir Berlínarmúrsins og sá fyrir mér þann þjóðarglæp sem kommúnistar frömdu í Austur Þýskalandi. Það sótti á mig hversu mikilvægt frelsi einstaklingsins, lýðræði og mannréttindi eru, ásamt ríkisvaldi sem þjónar einstaklingum en ekki öfugt. Það sló niður í huga minn þeirri einföldu staðreynd að hefði ég verið uppi á Spáni á þessum tíma hefði ég barist við hliði á sósíalista. Ég hefði aldrei getað fylgt málstað og stefnu fasista. Slíkt er algjörlega á móti öllu því sem ég trúi á og stend fyrir.

Nú er ljóst að sósíalismi er engu betri en fasismi, eins og hann birtist okkur í gegnum söguna. Sporin hræða; frá Sovétríkjunum sálugu, Kína Maos, Kúbu o.sfr. Enn sjáum við hvernig sósíalismi rústar heilu samfélögunum eins og í Venesúela og nú stefnir í hörmungar í Niguracua. Ég geri hér skýran greinarmun á krötum eins og stjórnað hafa í Evrópulöndum, þar sem lýðræði, frelsi og réttindi einstaklingsins eru höfð í hávegum, frá sósíalistum (kommúnistum). Lýðræðissinnaðir kratar notast við markaðshagkerfi til að byggja upp öflugt samfélag sem staðið getur undir velferðarkerfi og jafna kjör.

En hvernig hefði þá hægri maður eins og ég getað barist með sósíalistum á Spáni? Málið er að lýðveldissinnar (lýðræðisöflin) börðust með sósíalistum gegn helstefnu fasismanns. Í raun hefði altaf komið upp til uppgjörs milli þessara aðila ef sigur hefði unnist, en það voru fasistar undir forystu Fransisco Franco sem fór með sigur af hólmi. Fasistar töldu fólki trú um að þeir myndu virða eignarréttinn og halda í gamla góða siði, með stuðningi kaþólsku kirkjunnar og tryggja stöðugleika undir öflugu ríkisvaldi. Það sem fylgdi með í kaupunum var algjört vald ríkisins yfir einstaklingunum. Einstaklingurinn var til fyrir ríkið og fórnir til að viðhalda öflugu ríki, var réttlættur. Þarna kemur samlíkingin við sósíalismann en frjálshyggjan gerir ráð fyrir að ríkið sé til fyrir einstaklinginn.

 

20180901_103050Það er áhugavert að velta fyrir sér stöðunni í dag þegar fasismi er með vind í seglum í Evrópu og jafnvel Bandaríkjunum. Það er trúin á sterkan leiðtoga, sem blæs í seglin, manni sem getur leiðrétt meint óréttlæti og komið skikki á hlutina. Hann lætur verkin tala þar sem embættismenn og kerfið geta ekki staðið í vegi fyrir „leiðréttingunni“.  Eins mikið og það getur litið vel út að sterkur leiðtogi geti gengið í málin vafningalaust án þess að kerfið sé að þvælast fyrir og náð þannig skjótum „árangri“ þá er það dýru verði keypt og uppskeran önnur en sáð er til.

Nákvæmlega eins og Trump er að gera í Bandaríkjunum. Sem forseti getur hann í skálkaskjóli þjóðaröryggis sett reglugerðir um allskyns hluti og breytt samskiptum við vinaþjóðir sem allt í einu eru orðin ógn við þjóðaröryggi. Gengið er gegn þeirri meginstefnu Bandaríkjanna að auka alþjóðaviðskipti og í staðinn koma á einangrunarstefnu; sem verður öllum íbúum jarðarinnar til tjóns. Við upplifum það á þessum skrítnu tímum að brjóstvörn lýðræðisins er farin í stríð við fjölmiðla, og gætu sett kúrsinn í sömu átt og Ungverjar, Tyrkir og Rússar. Sannleikurinn skiptir engu máli og allt snýst um að segja hlutina nógu oft til að þeir verði sannir. Manni rennur kalt vatn milli skinns og hörunds þegar maður rifjar upp þá aðferðafærði úr sögu síðustu aldar.

Það sem undrar mig þó mest er sá stuðningur sem þessi öfl hafa hjá fólki sem maður hélt að tryði á lýðræði og frelsi. Tryði á borgaraleg réttindi, frjáls viðskipti og markaðhagkerfi, en stendur allt í einu með öflum sem geta aldrei samrýmst þeim hugsjónum. Í lokin vil ég hvetja alla til að lesa „Veröld sem var“ eftir Stefan Zweig þar sem lýst er uppgangi nasisma í Þýskalandi og Austurríki á síðustu öld. Það er hugsandi fólki þörf lesning og víti til að varast.


Borgaraleg réttindi á Íslandi

Fátt skiptir mig meira máli en borgarleg réttindi og staða einstaklings gagnvert ríkisvaldinu. Þær tvær pólitísku stefnur sem mest hafa brotið á mannréttindum eru sósíalismi og þjóernishyggja. Fyrrnefnda stefnan er talin hafa tortrýmt 100 milljónum mannslífa og sú síðari um 25 milljónum, bara á síðustu öld.

Þess þvegna hef ég, sem frjálshyggjumaður, verið hugsi yfir því hvernig staðið hefur verið að eftirmálum "hrunsins". Nærtækast í því er aðförin að Geir Haarde sem kallar fram ótta við það fólk sem þar fór fram. En ekki síður hvernig staðið hefur verið að rannsókn og refsingum gagnvart athafnamönnum sem taldir eru valdir af hruninu. Einhvernvegin er eins og ríkisvaldið og saksókn þess stjórnist af hefnigirni og þörfinni á að þóknast blóðþorsta almennings. Slíkt er auðvitað algerlega á skjön við borgaraleg réttindi og réttarkerfið eins og það er hugsað. Refsingar eru til að fæla menn frá því að brjóta lög, betrumbæta þá eða halda hættulegum einstaklingum frá samfélaginu. Alls ekki að þjóðfélagið sé að hefna sín á þeim vegna misgjörða þeirra. Allir eiga sinn einstaklingsrétt og ófært að nánast afmennska menn vegna þess að þjóðin kenni þeim um hrunið. Eftir Kastljósþáttinn í gærkvöldi þar sem Sigga Dögg ræddi við Ólaf í Samskipum er ég mög hugsi yfir því máli. Í rauninni fór hún algerlega halloka í samtalinu. Rökþurrð og komin út í horn. Ég hafði ekki velt þessu máli mikið fyrir mér en við megum ekki gefa okkur að einhver sé glæpamaður og taka þá réttinn af honum sem einstakling. Fjölmiðlar verða að skoða málin án þess að elta almenningsálitið og hafa kjark til greina staðreyndir. Ég óttast að ríkisvaldið og fjölmiðlar hafi farið offörum í þessum hrunmálum!


mbl.is Fordæmisgefandi fyrir fjölda mála
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 13
  • Frá upphafi: 286598

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 13
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband