18.8.2010 | 09:22
Gengið í Geldingafell
Það er got að fá upphitaða kjötsúpu að morgni átakadags, finna hvernig orkan streymir um mann og undirbýr göngu dagsins. Við vorum níu alls sem lögðu upp á fallegum morgni frá Snæfellsskála, sex göngumenn og þrír trússberar; Sigrún, Stebbi, Ívar, Gerður, Kata,Elli, Halla,Gunni og Stína. Við ókum fyrsta spölinn þar til Eyjabakkajökull blasti við í austri, þar sem trússberar voru kvaddir fram að endurfundum í Geldingarfelli að kveldi.
Veðrið lék við okkur með sólskyni og nærri tuttugu stiga hita og ekki skýhnoðri á himni. Kverkfjöll gnæfðu yfir Vatnajökul í vestri, Snæfell í norðri og Eyjabakkar í austri. Þetta var hinn fullkomni dagur til gönguferðar í hrikalegu og fögru umhverfi við sporð stærsta jökuls Evrópu, víðsfjarri mannabyggðum.
Fljótlega vorum við komin að Eyjabakkajökli sem þurfti að fara yfir til að losna við ána. Það er erfitt að komast á skriðjökul þar sem sandbleytur og drullusvað er á mörkum hans. Með útsjónarsemi fundum við leið á jökulinn eftir endalausa krákustíga fram hjá forarvilpum og öðrum hindrunum. Það var notalegt að koma á jökulinn þar sem fast er undir fæti og vegna vikurs og gjósku í ísnum er hann stamur og hálkulaus. Jökulinn er bæði hrífandi og hrikalegur, með sínum ísbláu sprungum og svelgjum þar sem yfirborðslækir steypast niður í hyldýpið. Blái liturinn í sprungum verður til þegar ísinn síar rauðan og gulan lit frá sólu en eftir verður blái liturinn sem gerir sprungurnar hrífandi en ógnvænlegar. Víða þurfti að finna bestu leið og stökkva yfir sprungur og sveigja frá svelgjum. Við áðum eftir um tveggja tíma gang á jöklinum og nutum hádegisverðar á urðarana sem liggur austarlega í honum. Það var komin sunnan strengur ofan af jökli en áfram var skaf heiðskýrt og skyggnið með besta móti. Urðarraninn veitt þó skjól á meðan við nutum matarins og drukkum íslenska blöndu af Cappochino.
Enn áttum við eftir góðan spöl á jökli þar til fast land yrði undir fæti. Við lentum full ofarlega og þurftum að lækka okkur nokkuð til að finna færa leið í land. Þetta minnti nokkuð á völdunarhús þar sem stokkið var yfir sprungur og gegnið eftir jökulrönum, þar sem oft tók við ógöngur og halda þurfti til baka og finna nýja leið. Áin rennur með austurbrún jökulsins, en þegar neðar dregur gengur hún undir hann og þar er fært yfir á bakkann. En sjaldan er ein báran stök og þegar við náðum landi tók við all brattur bakki úr jökulleir sem þurfti að komast upp. Hópurinn kláraði það heill á höldnu og áfram var gengið austur að Geldingarnesi.
Við hverja hæð og bugðu rýndum við í landslagið í austri til að koma auga á skálann. Oft er það þannig í fjallaferðum og gengið er að sæluhúsi, að fyrsta sýnin er glampi á þakið og síðan birtast útlínur með hurð og glugga og að lokum þegar nær dregur sjást smáatriði þessa dásemdar þar sem hvíla má lúin bein eftir átök dagsins. En nú brá svo við að þessi töfrasýn lét á sér standa.
Við töpuðum fljótlega fjölda áa sem þurfti að vaða á þessari leið, og vorum orðin ansi þjálfuð í að snara okkur úr gönguskóm í vaðskó, ösla ánna og síðan aftur í gönguskóna. Í raun getur slík ganga verið gleðirík í veðri eins og þarna, sól og blíðu og tveggja stafa hitastigi, enda notalegt að láta ískalt vatnið hríslast um þreytta og sveitta fæturna.
Þegar rúmur kílómetri var eftir í skálann sást ekki tangur né tetur af honum. Geldingafellið hafði þó blasað við allnokkra stund en ekki komum við auga á skálann. Allt í einu sáum við svipi á ferð upp á hálsi framunda, undir klettabelti. Það var eitthvað í fasi þessa fólks sem sagði okkur að það væri ekki á göngu, og þótti okkur líklegt að þarna væru trússberar okkar að huga að félögum sínum sem voru orðin sein fyrir. Það var því ákveðið að senda Fljótvíkinginn sem undanfara og láta vita af ferðum okkar og róa áhyggjufulla vini okkar, en við sáum hópinn aðeins augnablik áður en þau héldu til baka í skálann. Ég hljóp við fót og elti hnitin í GPS tækinu þar sem engan skála var að sjá, enda kom landslagið í veg fyrir sýn til hans. Eftir að ég hafði hækkað mig um 200 metra sá ég skálann beint fyrir neðan mig en hnit sem fengin voru eftir ,,áræðanlegum" leiðum reyndust röng og settu skálann tæplega tvöhundruð metra of vestarlega. Á leið niður í skálann var kallað til mín og þar var kominn félagi okkar sem var á útkikki, enda við orðin nærri tveim tímum seinni en ráð var fyrir gert.
Það var kominn suð-austan hraglandi með súldarfýlu og skýin hrönnuðust upp. En það var létt yfir mannskapnum enda beið okkar kaldur bjór og fljótlega var búið að kynda upp grillið og dásamleg lambasteik beið okkar. Þegar kvöldaði var vesturhiminn blóðrauður og þá varð mér hugsað til skoskra sjómanna sem hafa fyrir orðatiltæki: Red sky in the morning is the fishermans warning, but red sky at night is the fishermans delight" Það skyldi þó ekki snúast til betra veðurs með morgninum miðað við reynslu Skotanna?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.8.2010 | 09:19
Gengið á Snæfell
Eftir að hafa hlaðið batteríin í þrjá daga að lokinni göngu á Löðmund var ferðinni heitið á hæsta fjall landsins utan jökla, Snæfell. Við vorum fjögur saman í þessari ferð og komum til Egilsstaða í 22°og sólskyni. Við þurftum að bæta við vistir þar sem reiknað var með fjórum dögum á fjöllum. Að Snæfelli gegnu var ferðinni heitið suður í Lónsörævi norðan Vatnajökuls.
Það var hlýtt og gott veður þegar komið var í Snæfellsskála en þokuslæðingar léku um fjallstinda og sást ekki tangur né tetur af áfangastaðnum. Það var komið fram yfir hádegi þegar lagt var af stað en við lentum í smá töfum við árhvísl skammt frá upphafstað göngunnar. Ungt spænst par hafði fest bílinn í miðri ánni og var okkur bæði ljúft og skyld að bjóða fram aðstoð. Bíllinn var af gerðinni Suzuki Shift, sem sumir halda að sé jeppi en í raun og veru er þetta algerlega gagnslaus bíll á hálendi Íslands. Ekki tókst að losa bílinn og renndum við því upp í skála til að leita að kaðli til að draga hann. En enginn var spottinn og því urðum við að skilja parið eftir, reyndar í 20° hita og sólarglennum milli þokulufsunnar. En vandræði þeirra stóðu ekki lengi þar sem við mættum fallgöngufólki strax í upphafi uppgöngu sem vorum með kaðal í jeppa sínum og ætluðu þau að koma Spánverjunum til hjálpar.
Aðspurð sögðu þau okkur að engin fjallasýn hefði verið uppi á Snæfelli vegna þokuslæðu sem umlukti toppinn. Þetta voru vonbrigði en héldum þó ótrauð áfram leiðinni á toppinn sem er í 1.833 metra hæð. Í fyrstu eru brekkur aflíðandi, víða í skriðum en þó greinilegur slóði en fljótlega eykst brattinn og gengið upp skriðurunnar hlíðar. Það er stöðugt á fótinn og í um 1.400 metrum er komið á snjó, en færið var gott og þrátt fyrir bratta var gangan auðveld í öruggum sporum. Á uppleiðinni blasti Hálslón við með eyju sinni, Kárahnjúk, nyrst í stöðuvatninu og rétt við aðal stífluna. Ekki spillti þetta mannvirki í miðri náttúruperlu útsýninu og séð úr þessari fjarlægð og hæð var engu líkara en þetta væri sköpunarverk almættisins. Í raun fylltist maður undrun og smá stolti yfir þeim verkfræðiafrekum sem þarna hafa verið unnin, til að nýta bráðnandi vatn úr Brúarjökli til að skapa tekjur og beinharðan gjaldeyri fyrir Íslenska þjóð. Á sama tíma var hægt að gleðjast yfir því að Eyjabakkasvæðinu væri að mestu borgið og betri kostur frá náttúruverndarsjónarmiðum skyldi hafa verið valin. Að vísu er lítil stífla nyrst á Eyjabakkasvæðinu en þó aðeins svipur hjá sjón miðað við upphaflega áætlun og áður en virkjun Hálslóns kom til.
Þegar við nálguðumst tindinn reif hann þokuna af sér, svona rétt til að opna okkur þá stórkostlegu sýn sem þá tók við. Þekktasta kennileitið var konungur Íslenskra fjalla, Herðubreið sem reis tignarlega í norðri og gnæfði yfir Kárahnjúkum. Góð yfirsýn var yfir Vatnajökul með sín 2.000 metra háu Kverkfjöll næst, en Hvannadalshnúk mátti greinilega sjá syðst í jöklinum. Vel sást til Hofsjökuls og mátti greina Arnafellin tvö í norðvestur. Við virtum fyrir okkur gönguleið næsta dags sem nú lá fyrir fótum okkar. Þá yrði gengið frá Snæfellskála í Geldingarfellskála suður af Eyjabökkum.
Það er stórkostlegt að njóta tindsins eftir erfiða uppgöngu og þegar veðrið dekrar við mann og gefur möguleika á þvílíku augnkonfekti sem útsýni af Snæfelli er. Það fylgir því ákveðin sigurvíma, ekki bara að hafa lagt á sig erfiðið, heldur að njóta heppninnar að þokunni skyldi feykt í burtu á réttum tíma. Fólkið sem gekk á undan okkur hafði ekki árangur sem erfiði þar sem þokan byrgði alla sýn.
En undirritaður var ekki til setunnar boðið á toppi Snæfells. Restin af gönguhópnum var væntanlegur í Snæfellsskála og gert ráð fyrir þeim upp úr kvöldmat. Nú var komið miðaftanbil og því þurfti að hafa hraðar fætur til að koma sér í skálann og taka á móti ferðafélögunum með heitri íslenskri kjötsúpu. Það er ekki laust við að maður finni fyrir því að miðaftanbil er tekið við í lífinu sjálfu þegar hlaupið er niður Snæfell til að elda súpu. En einhvernvegin er hægt að stilla á sjálfstýringu og litli heilinn, sem ræður ósjálfráðum hreyfingum, tekur öll völd og ræður för og hraða og finnur fótum festu í hverju spori.
Það þarf ekki að orðlengja það að súpan var tilbúin á réttum tíma og líkaði vel. Svo vel að Reykjavíkurbörnin í hópnum vildu endilega fá ,,uppskriftina" Svona til að klára frásögn af ferð á Snæfell þá er uppskriftin hér fyrir níu manna hóp:
1 niðursagað lambalæri
Slatti af lauk
Slatti af gulrófum
Slatti af gulrótum
Slatti af kartöflum
Grænkál
Súputeningar
Súpujurtir
Salt og pipar
Til að ekki þurfi hníf og gaffal til að njóta súpunnar er kjötið skorið í teninga og það síðan soðið, ásamt beinum. Á meðan kjötið sýður er grænmetið skorið niður í teninga. Þegar kjötið hefur soðið í rúman klukkutíma er öllu meðlætinu bætt útí og soðið í hálftíma. Slökkt undir og súpan er tilbúin. Nastarovja.
12.8.2010 | 09:53
Löðmundur við Dómadal
Löðmundur ber af sem svipmesta fjall Friðlands að Fjallabaki, og auðþekkt kennileiti víða að. Fjallið er móbergsfjall þar sem gosið hefur ekki náð upp úr jökli til að mynda stapa á toppinn, eins og algengt er á hálendinu. Það gerir fjallið sértakt í útliti og þvi er það auðþekkt langt að. Hæsti tindur Löðmunar er Strókur, sem nær í tæpa ellefu hundruð metra hæð. Auðvelt er að ganga á Löðmund, sem er framúrskarandi útsýnisfjall, hvort sem litið er til fegurðar í fjarska eða næsta nágrenni.
Við tókum afleggjaran frá Dómadalsleið í vestur frá Landmannalaugum, til hægri í átt að Landmannahelli þar sem ákveðið var að tjalda til einnar nætur. Sama leið er ekin til baka nokkurn spöl þar sem beygt er í norður af slóðan upp að Löðmundarvatni þar sem gangan hefst.
Löðmundarvatn er fagurt fjallavatn og liggur við suður rætur fjallsins. Auðveldasta leiðin upp er við vestur hlíðar þess þar sem eru aflíðandi brekkur upp á brúnina. Í fyrri ferð okkar höfðum við farið upp Egilsgil, sem er sú leið sem Ari Trausti talar um í bók sinni 101 fjall. Við ákváðum að reyna nýjan stað austar en þekkt leið er Tæpistígur sem er inn í Skálinni vestan megin. Hún er nokkuð brött með kletta rana á vinstri hönd og farið um mjótt skarð upp á brúnina. Við höfðum ekki góða lýsingu á þessari leið og lentum því vestan megin við klettana en útsýnið ekki síðra en á Tæpastíg. Hlíðin er snar brött en gróin og fast undir fæti. Það fylgir því skemmtileg óvissa þegar komið er upp með klettabelti og ekki víst hvort leiðin framundan er fær. Svo reyndist vera og hægt að mæla með þessari uppgönguleið á Löðmund. Landslagið speglast í blátæru lygnu vatninu og umgjörðin er einstaklega falleg, enda er þetta landsvæði einstakt á heimsmælikvarða hvað fegurð varðar og hefur algjöra sérstöðu í litum og margbreytileika. Vert er að eyða tíma á brúninni þegar upp er komið og njóta fegurðar nærumhverfis suður af Löðmundi, en allnokkur ganga er á toppin eftir að þangað kemur.
Ef gengið er í norður kemur göngumaður fljótlega á merkta gönguslóð að Strók, en landslagið upp á brúnum Löðmundar er allsérstakt. Í fyrri göngu þarna vorum við í þokuslæðing sem létti til á milli og skapaði dulmagnaða sýn, en nú var 18° hiti og sólskyn. Töluverður skafl er upp á fjallinu, enda er það í mikilli hæð yfir sjávarmáli en fljótlega ber Strók við himin og þangað er ferðinni heitið.
Strókur er brattur tindur, keilulaga og með otthvassan topp. Það er ekki mikið pláss uppi en þó fundum við nægilegt rými til að taka af okkur pokna og hafa til nestið. Og hvílíkur staður fyrir hádegisverð! Engvir veitingarstaðir veraldar stæðust samanburð við Strók í skaf heiðskýru og sólskyn með vítt útsýni um stóran hluta landsins. Maður er fljótur að venjast brattanum og ekki leið á löngu þar til maður hljóp i kringum vörðuna til að njóta þessa gleðiríka útsýnis sem býðst á slíkum degi.
Það fyrsta sem fangar athyglina er Hekla sem virðist vera innan seilngar. En það er eins og hún hafi afklæðst skrautklæðum sínum og klæðst svörum sorgarbúning. Enda meðferð Eyjafjallajökuls síðastliðin vetur á drotningu Íslenskra fjalla svakaleg. Það þurfti að rýna á Heklu til að koma auga á skaflana, sem venjulega eru hvítir en eru nú að mestu svartir vegna gjósku eldgossins í Eyjafjallajökli.
Þarna sjást allir meginjöklar landsins og mörg örnefni koma upp í hugan þegar litið er í kringum sig frá Stók. Hofsjökull er þó greinlegastur með Kerlingafjöll í vestri og Arnarfellin í austri. Vatnajökull breiðir úr sér í austri en Langjökull í vestri. Í suðri sér ofaní Þórsmörkina og allt í einu dregur hann upp þykkan mökk sem verður nokkuð áberandi í heiðskýrunni. Greinilegt er að komin er ákveðin sunnan átt sem þyrlar upp gjósku frá því í vetur og stefnir bakkinn í átt að okkur. Að öllum líkindum er um sterkan sólfarsvind að ræða og nú stefnir eldfjallagjóskan norður yfir friðlandið.
Við fórum hefðbundnu leiðina niður fjallið, niður Egilsgil og komum að bílnum við Löðmundarvatn um miðjan dag. Á þeim stutta kafla sem ekinn er í Landmannahelli byrjaði gjóskan að hellast yfir okkur og skyggnið var komið niður í tæpan kílómetra. Þegar við komum á tjaldstæðið voru aðstæður allt annað en notalegar þar sem gjóskan smýgur um all og maður finnur fyrir hárfínum sandinum í bitinu milli tannana. Það var ekkert annað að gera en pakka saman og haska sér í burtu af þessum annars dásamlega og friðsæla stað í fjallasal. Það þurfti ekki að aka nema í u.þ.b. hálftíma til að komast úr öskunni, og í þetta sinn var ekki farið í eldin, heldur 18° hita og sólskyn í Þjórsárdal.
9.8.2010 | 13:41
Friðlandið að Fjallabaki
Næsti áfangastaður eftir Skaftafell var Friðland að Fjallabaki og ókum við í hlaðið við tjaldstæðið í Landmannalaugum í 18° hita og sól, en smá strekking. Hér leggur maður ekki í að setja upp stóra tjaldið og göngubúnaðurinn látin duga, enda erfitt að reka tjaldhælana í harðan jökuleirinn, en enginn jarðvegur er á þessu svæði. Notast er við steinhnullunga til að halda við stögin, sem dugar ágætlega fyrir göngutjöld.
Við ákváðum að fara í ,,stuttan göngutúr" fyrir kvöldið og ganga á Bláhnjúk. Ferðin reyndist hinsvegar fjögurra tíma gangur, en var hverra mínútu virði. Við höfðum áður gengið á þetta fjall og reyndar víðar í kringum Landmannalaugar, en útsýni yfir líparít fjöllin er stórkostlegt. Bláhnjúkur er ekki hæsta fjallið á svæðinu en ber þó af t.d. Háöldu hvað karakter snertir. Það er vel á fótinn að ganga upp bratta skriðurunna brekkuna, en góður stígur er þó alla leið, enda fjölfarin leið. Á toppnum er útsýniskífa og því frábært að virða fyrir sér umhverfið og átta sig örnöfnum nær og fjær. Vel sést til Vatnajökuls og Sveintinds, sem vekur upp góðar minningar um góða ferð á tindinn yfir Langasjó fyrir nokkrum árum. Torfajökull og Mýrdalsjökull í suðri og síðan frábært útsýni yfir nágrenni Landmannalauga, Brennisteinsöldu og Laugarhrauns. Eins og innan seilingar má sjá Löðmund sem verður næsti áfangastaður okkar, sem er tilkomumesta fjall í Friðlandinu.
Í Landmannalaugum og Hrafntinnuskeri er mikið af hrafntinnu. Hrafntinna er svart eldfjallagler, venjulega úr líparít sem hefur storknað hratt á yfirborði og ekki gefist tími til kristalmyndunar, og þykir hún sérlega falleg á Torfajökulsvæðinu, dílalaus, svört og gljáandi. Laugahraun er líparíthraun sem storknað hefur sem kolsvör hrafntinna og virkar bæði stórkostlegt og hræðilegt þar sem það heldur utanum Landmannalaugar og virðist hafa stöðvast nákvæmlega á réttum stað til að veita skjól án þess að flæða yfir laugarsvæðið.
Við gengum niður að norðanverðu, upp undir Brennisteinsöldu, og síðan í krákustíga í gegnum hraunið þar til komið er i Grænagil. Gilið dregur nafn sitt af grænu líparíti en blár litur er einnig ríkjandi í því. Þarna er villugjarnt en leiðin er stikuð og því auðvelt að rata rétt leið.
Við mynni gilsins hittum við fyrir verslunarstjóra ,,Mountain Mall" sem er gróin verslun í Landmannalaugum og státar ekki bara af miklu vöruúrvali, heldur góðu verði. Upphaf verslunarinnar, sem rekin er í gömlum herrútum, var sala á silung sem grisjaður var úr vötnum í nágrenninu og hugkvæmdist stofnanda verslunarinnar að selja fiskinn ferðamönnum. Hægt er að fá kaffisopa í versluninni og við hlið hennar er upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn.
Eftir góða gönguferð var hressandi að bregða sér í laugina og skola af sér ferðarykið. Þetta er sennilega þekktasta náttúrulaug landsins og örugglega sú mest sótta af ferðamönnum. Volgur lækur rennur í gegnum laugina þannig að vatnið er alltaf hreint og tært, þrátt fyrir fjölda gesta frá morgni til kvölds.
5.8.2010 | 10:13
Gengið á Mælifell
Eftir góðan nætursvefn að Básum var lagt af stað snemma dags áleiðis í Skaftafell. Ákveðið að fara lengri leiðina og aka upp Fljótshlíðina og síðan Fjallabak syðra norður fyrir Mýrdalsjökul. Þetta er ægifögur leið og auðveldlega ekin á óbreyttum jeppa og ekki spillti veðrið fyrir, 18° hiti og sólskyn með nokkra góðviðrisbólstra við hæstu tinda. Þegar komið var upp á Fauskaheiði var bíllinn stöðvaður til að njóta útsýnisins. Nú sáust svartir jöklar Tindfjalla vel og þarna við fótskör Einhyrnings var útsýnið í suður til Eyjafjallajökuls stórkostlegt. Nú sást gígur eldfjallsins greinilega og opið sárið niður Gígjökul eftir hamfarahlaupin, eins og risavaxið ör á svörtum jöklinum. Gufustrókur stóð langt upp af gígnum og mátti sjá slá í rauðan lit á gufunni annað slagið næst eldstöðvunum. Jökullinn hefur haft hamskipti síðan fyrir gos og enn verður mér hugsað til skíðaferðar fyrir þremur árum upp að Goðasteini, og þeim umskiptum sem orðið hafa síðan.
En ferðinni er haldið á og ákveðið að koma við í Strút til að snæða hádegisverð og skila kveðju frá landverði í Básum til staðahalda skálans. Á leiðinni kíktum við í Markafljótsgljúfrum og dáðumst að hrikalegri stærð þeirra og ekki laust við lofthræðslu þegar litið er niður í gljúfrin. Við renndum í gegnum hlaðið á Krók sem er eins og vin í eyðimörk þessa svæðis. Nú vorum við komin á Laugarveginn þar sem hann liggur framhjá Álftavatni og Emstrum og margir á göngu eftir þessari vinsælu leið. Við villtumst aðeins af leið og snérum við að Hvanngili áður en ferðin var haldið á austur Fjallabak syðra. Síðar komum við á Mælifellssand þar sem ekið marga kílómetra er eftir blautum sandinum eftir stikum,og dregur nokkuð niður í bílnum við mestu sandbleyturnar. Við fundum afleggjarann norður að Strútsskála og renndum í hlað að þessum afskekta en fallega skála um nónbil. Staðahaldarar voru hjón með ungan son sinn tóku okkur vel og sögðu okkur að þetta væri besti dagur sumarsins, enda væri allra veðra von á þessum slóðum. Strútsskáli býður upp á fyrsta flokks gönguleiðir en smá heppni þarf til þar sem hér er opið fyrir suðvestan og norðaustan áttum og því er súldarfíla og kalsi nokkuð algeng.
Þau ráðlögðu okkur að ganga á Mælifell sem er aðeins steinsnar frá Strút enda væri það frábært útsýnisfjall þó ekki væri nema rúmlega 300 metra hækkun upp á það.
Það er gaman að ganga á Mælifell eftir þurrka og í góðu veðri. Mosinn verður fastur undir fæti og gefur lítið eftir og nánast eins og ganga upp tröppur upp snarbratta hlíðina. Það tók ekki langan tíma að ganga á toppinn en útsýnið og veðrið teygðu vel á tíma fjallgöngunnar.
Í suðri rís Mýrdalsjökull, að þessu sinni svartur og úfinn. Greinlegt útsýni var til Langjökuls og eining Mýrdalsjökuls með Arnarfell sín í forgrunni. Litafegurð Strútsalda naut sín vel frá þessum sjónarhól og langt í austri mátti grilla í Vatnajökul með Þórðarhyrnu og Hamarinn, jökulsker upp úr hvítum jöklinum. Það sást vel til Kerlingafjalla, Hrútsfells og Bláhnjúk sem öll liggja við Kjalveg. Sjónarveislan var ótrúleg og þá skal ekki undanskilja nærumhverfi norður undir fótskör Mýrdalsjökuls.
Göngumaður var léttur í spori eftir stórkostlegan tíma á toppnum og eftir að hafa sneytt hjá efsta hluta fjallsins og framundan var rúmlega 200 metra fallhæð niður að bílnum, lét hann gamminn geysa og hljóp eins og fætur leyfðu niður snarbratta hlíðina.
Leiðin suður með austurbrún Mýrdalsjökuls er ægifögur þar sem vel sést upp á skriðjöklana; Öldufellsjökul, Sandafellsjökul og Kötlujökul. Staldrað var við Hólmsárfoss þar sem gróin reitur hefur myndast vegna úðans frá fossinum. Margar ár eru á þessari leið og eru þær flestar brúaðar. Komið er niður á þjóðveginn tæplega 20 kílómetra vestur af Kirkjubæjarklaustri sem var síðasti áfangastaðurinn á leið í Skaftafell.
Þegar komið var að Lómagnúp blasti Öræfajökull við í allri sinn dýrð. Nánast óraunverulega fallegur í kvöldsólinni. Nær mátti sjá Kristínartinda sem ganga átti næsta dag eftir að hafa safnað kröftum í Vatnajökulsþjóðgarði í Skaftafelli.
5.8.2010 | 09:11
Í Skaftafelli
Gengið á Kristínartinda
Undirritaður hefur oft komið í Skaftafell en aldrei gengið á Kristínartinda fyrr. Staðurinn öðlaðist nýja merkingu fyrir hann eftir að hafa lesið bók Jack Ives ,,Skaftafell í Öræfum" um síðustu jól. Það varð ekki undan því vikist að heimsækja staðinn aftur og upplifa hughrif höfundar á landslagi og menningu Skaftafells. Bókin er einskonar ástarjátning til Skaftafells og íbúanna, sérstaklega Ragnars Stefánssonar sem var bóndi að Skaftafelli og einn af forvígismönnum þjóðgarðsins. Ragnar hafði tekið á móti Jack þegar hann kom til að undirbúa jöklarannsóknarleiðangur frá Bretlandi 1951. Jack heillaðist af þessum einstaka manni og ekki síður Skaftafelli sem hann átti eftir að kynnast vel í mörgum heimsóknum til staðarins síðar. Kristínartindar voru honum sérstaklega hugleiknir hafði hann klifið þá ótal sinnum til að njóta þessa mesta útsýnisfjalls landsins.
Gangan hefst á tjaldstæðinu við Skaftafell og gengið er upp með Bæjargili. Fljótlega er komið að Hundafossi og síðan rafstöðinni við bæinn Bölta sem liggur vestan við gilið. Lítið eitt vestar er Sel, en þar voru búðir Jack Ives og félaga í rannsóknarleiðöngrum á Morsárjökli við Vatnajökul 1953 og 1954.
Við lögðum lykkju á leið okkar til að skoða Svartafoss, sem steypist fram af svörtum stuðlabergi og er með fegurstu fossum Íslands. Grænn gróðurinn í gilinu og uppi á brúnum þess stingur í stúf við svartan hamarinn og myndar einstaklega fallega umgjörð um fossinn og nágrenni hans. En áfram er haldið upp með Hvarfi og síðan austur undir Skerhól og smátt og smátt nær maður hæð og yfirsýn yfir stórkostlegt umhverfi Morsárdals. Þegar komið er upp á Skorar og horft fram af Skorabrúm blasa Skaftafellsfjöll við upp af Kjósinni. Litskrúðug líparít einkennir þessi fjöll þar sem svartur, grár, rauður, grænn og blár litur er áberandi ásamt skrúðgrænum gróðurlit við rætur fjallana. Til að undirstika sjónarveisluna er hvítur sandur Kjósarinnar, sennilega gjóska frá Öræfagosinu 1362, í botni hennar þar sem leifar jökulsár rennur en skriðjökulinn er horfinn.
Þegar kemur í Gemludal taka við brattar skriður en þægilegt er að halda sig í slóðinni sem liggur upp á milli syðri og nyrðri Kristínartinda. Í kvosinni á milli tindanna er varða þar sem leiðir skilja niður að brúnum Skaftafells með útsýni yfir Skaftafellsjökul eða sveigt útaf til norðurs upp á nyrðri tindinn. Sá tindur er hærri, 1126 metrar og þangað er förinni heitið. Fljótlega tekur við smá klettaklifur en þó á allra færi að fást við. Þegar hinsvegar er litið upp til tindsins virðist hann með öllu ókleifur með snarbröttum hamraveggjum hvert sem litið er. En þessi klettastígur er milku auðveldari og hættuminni en á horfir og það ótrúlega gerist þegar ofar dregur að í staðin fyrir snarbratta hamra taka við aflíðandi þægilegar brekkur, alla leið á toppinn.
En toppurinn stenst allar væntingar, og rúmlega það. Skyggnið var ekki fullkomið en þokuslæðingur feyktist til og frá og byrgði útsýn yfir Morsárjökul og Skaftafellsjökul, en skaf heiðskýrt og bjart til vesturs yfir Kjósina og alla leið að Lómagnúp. Súlutindar bera við Gnúpinn og enn nær breiðir Breiðamerkurjökull úr sér niður á aurarnar. Litadýrðin í Skaftafellsfjöllum er nánast óraunveruleg og gæti tilheyrt framandi reikistjörnu. Mann rekur í roga stans og trúir varla eigin augum. Og hafi fegurðarskynið fengið ofbirtu við augnakonfektið þá tók ekki betra við þegar þokan leystist upp og Morsárdalurinn birtist með sínum 380 metra háu ísfossum. Það var eins og við manninn mælt að skyndilega hrundi stórt stykki niður austurfossinn með gríðarlegum drunum sem bergmáluðu um fjallasali umhverfisins. Ferðafélagi minn átti afmæli þennan dag og ekki hægt að hugsa sér betri stað til að halda upp slík á tímamót, en hún er fædd fimm árum eftir fyrstu komu Jack Ives til Skaftafells.
Ísfossarnir í Morsárdal voru einmitt rannsóknarefni Jack Ives og félaga í upphafi sjötta áratug síðustu aldar. Þá náðu jöklarnir saman neðan fossana og runnu saman í einn skriðjökul niður Morsárdalinn, en nú er eystri taumurinn aðskilin frá þeim vestari og endar skammt fyrir neðan fossinn. Þetta er stórkostlegt náttúruundur og drunur fossanna voru íbúum Skaftafells daglegt brauð, en þær heyrðust á góðum dögum alla leið niður að bæ.
Þokan sveipaði umhverfinu dulmögnuðum blæ og feyktist til og frá. Eina stundina hvarf Morsárjökull og allt í einu var eins og tjald væri dregið frá og við okkur blasti þessi tilkomumikla fegurð. Vel sást yfir á Öræfajökul með Hvannadalshnúk hnarreistan þó Hrútsfjallið virtist hærra vegna nálægðar við Kristínartinda. Þokan náði ekki í þessa hæð og vel sást norður eftir Vatnajökli að Þuríðartind, og norðar voru Þórðarhyrna og Geirvörtur ásamt Bárðarbungu. Lengst í norðri töldum við okkur grilla í Kverkfjöll.
Ekki sást niður til Skaftafellsjökuls vegna þokunnar sem ekki vildi láta undan í austurhlíðum Bröttuhálsa í Kristínartindum. Við vonuðum að úr því rættist á niðurleið þar sem hægt er að ganga suður brúnir ofan skriðjökulsins.
Til vesturs eru Kristínartindar þverhníptir niður að jökulfarveg Morsárjökuls og álíka fall niður að vestan megin niður að Skaftafellsjökli. Tindurinn sjálfur er öruggur og þægilegur til að njóta veislunnar. Slétt flögugrjót og nægilegt pláss til að athafna sig og því upplagt að njóta hádegisverðar á þessum stórkostlega stað. Rúgkökur með hangiketi og kæfu brögðuðust sérlega vel við þessar aðstæður.
Ferðin niður gekk vel og þegar komið er niður í kverkina milli tindana er tekin vinstri beygja til að fara suður brúnir Skaftafellsjökuls. Slóðin var örlítið ógreinleg á kafla og erfitt að ná áttum þegar þokan læddist yfir. Allt í einu blasti við okkur gríðarlegur gígtappi í gegnum þokuna og kom þá upp í hugan umræða um reðurtákn og karlmennsku sem fram fór í ferðum okkar um Skagafjörð fyrr um sumarið með Hallgrími Bláskóg. Þar var talað um að ,,mastra" eins og gert var á víkingaskipum áður en siglt , þegar mastrið var reyst og seglið dregið að húni. Þetta var heldur betur reisulegt mastur hefði sómt sér hvar sem er innan um manngerðar súlur karlmennsku víða um heim.
Skaftafellsjökull lét ekki að sér hæða og þegar við komum niður á brúnir Austurheiðar hafði þokan hörfað og við blasti útsýni yfir jökulinn. Tröllaukinn kraftur þyngdaraflsins þar sem ákoma jökulsins þrýstir honum niður brattar hlíðar fjallsins, sverfur og mótar landslagið með mikilúðlegum hætti. Hlíðarnar eru víða snarbrattar þar sem er kafsprungin jökullinn rífur sér leið niður dalinn og skilur eftir greinilegan urðarana sinn sem hann sverfur úr jökulskeri nálægt austurjaðrinum.
Við komum heim í tjaldið sjö tímum eftir brottför, þreytt og ánægð eftir nánast ofgnótt fegurðar og stórfengleika dagsins. Í austri lúrði Hvannadalshnúkur yfir okkur, baðaður kvöldsólinni og Dyrhamar rétt sunnan hans. Með tár af rauðvíni í glasi og minningar dagsins ásamt þessari fögru kvöldsýn virtist tilveran vera fullkomin.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.8.2010 | 10:37
Gengið á Fimmvörðuháls
Gengið á eldfjallaslóðir á Fimmvörðuhálsi.
Það jafnast ekkert á við að ferðast um Ísland í góðu veðri. Það getur því borgað sig að fresta sumarfríinu um tæpan hálfan mánuð og láta dýpstu sumarlægð frá upphafi mælinga þjóta hjá í byrjun júlí og hefja för um miðjan mánuðinn í staðin. En þá var veðurspáin einmitt eins góð og hún getur orðið á Íslandi.
Við komumst seint af stað og því var ferðinni heitið yfir Þorskafjarðarheiði og áð í Bjarkalundi yfir nóttina. Göngutjaldið tekið upp enda tjaldað til einnar nætur í 18° hita og sól. Síðan var lagt snemma af stað til Reykjavíkur til að bæta á búnað og vistir fyrir tveggja vikna ferð um óbyggðir Íslands.
Það var ákveðið að byrja í Þórsmörk en umhverfið virtist framandi þegar komið var í Landeyjar og framundan blöstu við kolsvartir jöklar Eyjafjallajökuls, Tindafjalla og Mýrdalsjökuls. Við komum aðeins við á Hvolsvelli þar sem við hittum fyrir gamlan Ísfirðing sem lýsti fyrir okkur afleiðingum og hörmungum af eldgosi vetrarins með með gjósku og svifryki sem tróð sér inn í híbýli og fylltu vit og byrgðu sýn. Skepnur og menn voru úrvinda eftir eldgosið í Eyjafjallajökli og í fyrsta sinn báðu íbúar suðurlands fyrir rigningu til að binda ryk og hefta uppblástur. Okkur var sagt að sterk og hlý norðanáttin gæti átt það til að þyrla upp gjósku í Þórsmörkinni og því gætum við fengið smjörþefinn af því sem sunnlendingar máttu þola þennan eldfjallavetur.
Þegar við nálguðumst mynni Markarinnar var skyggnið orðið takmarkað og rétt grillti í Tindafjallajökul í gegnum gjóskuskýið þar sem hann trónir yfir Þórsmörkinni. Okkur leist ekkert á blikuna og bölvuðum því að hafa ekki öndunargrímur meðferðis. Það virtist ekki árennilegt að halda á inn í þennan óskapnað án þess að hafa réttan búnað meðferðis. Við slógum á þráðinn upp í Bása þar sem landvörður varð til svara og ólíkt sterkri norðanáttinni í Austur Landeyjum blakti ekki hár á höfði upp í mörkinni sjálfri. Þar væri brakandi sól og bíða og menn og málleysingjar lausir við gjósku og ryk.
Stefnan var því tekin yfir markafljót og síðan upp með Stóra Dímon en Eyjafjallajökull reis myrkur og ljótur upp á hægri hönd. Við tókum afleggjarann upp að Gígjökli til að sjá ummerki eldgossins og þar var hrikalegt um að litast. Ummerkin eftir hlaupin voru greinleg og sjálfur jökullinn ekki svipur hjá sjón og lónið horfið. Mér var hugsað aðeins þrjú ár aftur í tíman þegar ég lagði á Eyjafjallajökul við þriðja mann, reyndar nokkuð vestan við Gígjökul, og gengum á skíðum á Goðastein. Jökullinn hafði umhverfst síðan og ásamt því að vera kolsvartur af gjóskulagi, hafði heljarkrumla jarðeldana umbreytt öllu landslagi. Skriðjökulinn er aðeins brot af fyrri stærð, sundurtættur af ógnar jökulhlaupum og farvegur hans virðis vera mörgum númerum of stór. Þar sem áður blasti við blátt lónið og tignarlegur hvítur Gígjökull, blasti við eyðimörk eins og dómsdagur væri upp runnin.
En áfram var haldið upp í Bása, sem þrátt fyrir eyðandi öflin í næsta nágrenni, bauð okkur velkomin, iðagrænt í blíðviðrinu. Við tjölduðum stóra tjaldinu enda áætlað að vera tvær nætur i Þórsmörk.
Ferðinni var heitið upp á Fimmvörðuháls til að skoða ummerki fyrra eldgossins frá því í vetur. Við lögðum af stað snemma um morguninn og stefnum upp Kattahryggi. Það er ekki allt sem sýnist í Þórsmörk þessa dagana. Þrátt fyrir gróðurinn er hann ekki svipur hjá sjón. Gjóskan liggur yfir öllu og eins og hárfínn askan hafi slípað allan glansa af gróðrinum og birkið er allt matt og litlaust. Vonandi verður þetta ástand aðeins tímabundið en askan er víst góður áburður þegar til lengri tíma er litið.
Það var ekki komið hádegi þegar við klifum upp á Útgönguhöfða og við tók löng ganga á sléttlendi upp að Heljarkambi. Á leiðinn er útsýnið stórkostlegt þó auðvitað spilli svartri jöklarnir fyrir. Rýna þurfti á Tindafjöll til að koma auga á jöklana sem runnu saman við landslagið. En Rjúpnafellið var iðagrænt og rifjaðist upp fyrri ferð í Þórsmörk þar sem þetta bratta fjall var klifið. Hattfellið er áberandi kennileiti þar sem það rís yfir Hvannadal. Eftir Heljarkamb, sem er bæði brattur og langur, tekur við útsýni yfir jökla Mýrdalsjökuls, Goðalandsjökul, Tungnakvíslarjökul og Krossárjökul. Goðalandið allt er eins og tekið út úr einhverri ævintýrabók og ekki draga ummerki eldgossins úr þeim hughrifum.
Fimmvörðuháls er í u.þ.b. 1000 metra hæð og því um 750 metra hækkun að ræða frá Básum, sem liggur nálægt 250 metra yfir sjávarmáli. Fljótlega eftir Heljakamb er komið að nýja hrauninu og hefur verið stikuð leið yfir það suður yfir hálsinn, fram hjá gígum eldfjallsins. Hraunið er víða sjóðandi heitt viðkomu og rýkur úr þar sem einhver væta er til staðar. Við komum að fólki sem var að rista sér brauð á hrauninu og seinna að hópi sem var að grilla pylsur. Leiðin er þó örugg enda stikuð af staðkunnum og mikilvægt að fylgja þeirri leið. Ég prófaði að stinga göngustafnum niður í gegnu þunna skelina og var hitinn slíkur að plast bullan kom bráðin upp. Það er stórkostleg sjón að sjá þar sem hraunbreiðan hefur stöðvast við jökulinn og þar mætast ís og eldur orðsins fyllstu merkingu.
Við gengum sem leið liggur hálfhring kringum nýja gíginn, sem skartar sýnu fegursta þegar komið er sunnan megin við hann, með ótrúlegu litrófi þar sem rauður gulur og grár litur spinnur sitt listaverk í nýjasta hluta landsins. Í vestri mátti sjá gríðarlegan gufumökk rísa upp frá eldstöðvunum í Eyjafjallajökli þar sem heitt hraunið bræðir ísinn og breytir honum síðan í gufu. Við nutum þessa útsýnis á meðan við snæddum miðdegisverð í sól og blíðu en hrukku upp við drunur í þyrlu sem lenti síðan skotspöl frá okkur. Þyrlan var hulin gjóskuskýi í um hálfa mínútu áður en flugmaðurinn drap á hreyflinum. Ferðamenn stigu út til að skoða ummerki eldgossins og höfðu heldur minna fyrir því en fjallgöngumenn sem lagt höfðu á sig fjögurra tíma göngu frá Básum.
Það er gaman að ganga sömu leið til baka og eins og gengið sé um allt annað svæði. Þar sem við höfðum áður snúið baki við var nú framundan og göngunnar því notið vel, ekki síst þar sem nú hallar undan fæti sem gleður fjallamann sem er byrjaður að finna til þreytu af göngu sinni. Það er alltaf jafn gaman að koma niður úr lífvana Goðalandi niður í grósku Þórsmarkar, þó hún skarti ekki sínu fegursta þessa dagana. Katthryggir eru skemmtilegir og glaður göngumaður hlakkar til endurkomu í Bása þar sem hressing og heit sturta bíða hans og er honum hugfast á lokapretti göngunnar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.5.2010 | 14:14
Nýjar hugmyndir vinstri manna um sjávarútvegsmál
Bloggari hefur dvaldist í Asíu og Afríku á undanförnum árum. Eitt af því sem menn óttast þar er hættulegt smit sem moskító flugan ber með sér. Á Sri Lanka kallast sjúkdómurinn Deng en í Afríku Malaría. Moskítóflugan lifir reyndar ekki nema í um tvo sólarhringa og þarf að fyrst að stinga sýktan einstakling áður en hún getur borið smitið í næsta mann. Miðað við að hún ferðast venjulega ekki út fyrir 200 metra ratíus er auðséð að hættan er þar sem sýktir einstaklingar eru fyrir.
Til að lækna malaríu var og er notað kínin sem er eitur. Það drepur ekki bara sýkinguna heldur hálfdrepur einstaklingin sem á að lækna. Þetta er því svona örþrifaráð þar sem malaría dregur oftar en ekki einstaklingin til dauða.
Þetta rifjast upp þegar hugsað er til fundar vinstrimanna í Edinborgarhúsinu á Ísafirði sem haldin var s.l. miðvikudagskvöld um sjávarútvegsmál. Þar voru frummælendur mikill hagfræðingur og reynd fiskvinnslukona sem fer fyrir Fiskvinnslu án útgerðar. Þar kynntu þau þær hugmyndir að rétt væri að láta sjávarútveginn hrynja til grunna og byggja síðan nýjan á rústunum. Það á sem sagt að gefa útgerðinni eitur, sem ólíkt kínin, á að örugglega að drepa greinina. Allt er þetta gert í þágu ,,réttlætis" og til að losna við þá sem nú stunda útgerð og koma öðrum inn í staðinn.
Það versta við þessa hugmyndafræði er að ólíkt moskítóflugunni nær hún meiri útbreiðslu og hefur lengri líftíma. Gagnsemin er hinsvegar af svipuðum toga og ekkert gott sem af henni leiðir. Hugmyndirnar eru reyndar svo geggjaðar að það gæti verið móðgun við moskító að líkja þessu saman.
Nú þegar sýnt er að fyrningin aflaheimilda er ófær og það sem sagt hefur verið gegn henni verið staðfest af Háskólamönnum á Akureyri og Reykjavík, að þá er gripið til nýrra hugmynda. Nú skal stefnt að því að rústa sjávarútvegnum. Grímulaust.
11.2.2010 | 15:26
Markaður á fiski
Það er ekki nóg að veiða fisk, það þarf að selja hann. Þetta er eitt það mikilvægasta þegar kemur að verðmætasköpun og fiskveiðiarð og skiptir því fiskimannasamfélög miklu máli. Fyrsti markaður fyrir fisk er sala yfirleitt fiskimanns til fiskverkanda (primary production). Margir eru á því að þessum markaði sé best borgið með opnum uppboðsmörkuðum og það skili hámörkun arðsemi. Setja eigi lög um að allur fiskur verði settur á markað. En er þjóðhagslega hagkvæmt?
Þegar bloggari gerði rannsókn sína á virðiskeðju sjávarútvegs á Sri Lanka 2008 var það einmitt óvænt niðurstaða að stundum virka uppboðsmarkaðir illa. Það á sérstaklega við þegar um einstaka vöru er að ræða og t.d. eru gerðar miklar kröfum um gæði. Á Sri Lanka hefur útflutningsmarkaður nýlega rutt sér til rúms þar sem miklu hærra verð er í boði en kröfur um gæði allt aðrar en á innanlandsmarkaði. Mjög illa gengur að fá réttu gæðin frá uppboðsmörkuðum og sóunin er gríðarleg.
Norsk rannsókn sem gerð var árið 2004 sýnir einmitt að opnir tilboðsmarkaðir virki vel fyrir einsleita vöru, en illa þegar sérstakar þarfir, eins og gæðakröfur, er að ræða. Því meiri kröfur því mikilværa er samstarf milli aðila. Fyrir ,,einstaka" vöru virkar uppboðsmarkaðurinn verst, samvinna fiskimans og verkanda betur, samningur milli aðila enn betur en eign fiskverkanda á útgerð best. Þannig hefur verkandinn fulla stjórn á virðiskeðjunni frá veiðum til vinnslu og getur því skipulagt hana með þarfi viðskiptavinarins í huga.
Þetta er reyndar vel þekkt í þróuðum iðngreinum eins og bílaiðnaði þar sem náið samstarf við birgja hefur nánast alfarið tekið yfir tilboð og uppboð frá á þeim markaði. Þekking og reynsla er miðlað upp og niður virðiskeðjuna til að hámarka virði viðskiptavinarins.
Þetta sést vel hjá fyrirtækjum eins og H.G. sem sinna kröfuhörðum markaði fyrir ferskan unnin fisk á Bretland, sem skilar bestu verðum og hámarkar virðisauka. Íslendingar hafa verið að færa sig inn á þessar brautir til að aðgreina sig frá frosnum hvítum fiski og þannig samkeppni við lágkostnaðarframleiðendur t.d. frá Kína. En til að sinna þessum markaði þarf einstök gæði, fiskurinn er kældur í -1°C staks eftir veiði og togarinn landar fyrir vinnslu alla mánudagsmorgna. Kaupandi slíkrar vöru, stórmarkaðir í Bretlandi, gera kröfu um stöðuga afhendingu allt árið í kring, en H.G. getur tryggt slíkt vegna kvótaeignar, öflugs veiðiskips og aðgangs að eldisfiski þegar á þarf að halda. Íslandssaga tryggir sína afhendingu með samstarfi við fjögur fyrirtæki á Snæfellsnesi, sem geta þá skaffað þegar bræla er á Vestfjörðum.
Hversu miklu máli skiptir þetta? Í fyrsta lagi er verð á ferskum fiski umtalsvert hærra í Bretlandi en frosnum. Í örðu lagi skiptir stöðugt framboð miklu máli þegar kemur að dreifingarkostnaði í virðiskeðjunni. Laxabóndi í Noregi, sem hefur fullkomna stjórn á framboði sinnar vöru, selur beint á verslunarkeðjur og heldur eftir um 30% af smásöluverði vörunnar. Hefðbundinn útgerðarmaður í Noregi sem frystir sina vöru heldur eftir milli 11 og 12% af smásöluverðinu. Hér er því um gríðarlega hagsmuni fyrir fiskimannasamfélög, eins og Vestfirði, að ræða.
Önnur norsk rannsókn sem gerð var á Hambersvæðinu í Bretlandi kannaði þennan mikilvægasta markað fiskverkanda við Norður Atlantshaf. Í ljós kom að íslenskir innflytjendur á fiski höfðu nánast lagt þennan markað undir sig og ýtt norðmönnum út. Ástæðan var samkvæmt viðtölum við innflytjendur að Íslendingar byðu upp á stöðugt framboð af fiski, árið umkring, en Norðmenn tækju ekkert tillit til eftirspurnar og framboðið réðist t.d. af veiðum strandveiðiflotans seinni hluta vetrar. Þannig yfirfylltust markaðir þegar þessar veiðar hæfust, enda um ólympískar veiðar að ræða, þar sem hver keppist um að veiða sem mest meðan leyfilegt er.
Einnig var innflytjendum tíðrætt um gæði aflans og voru þeir sammála um að íslenski fiskurinn væri mun betri en sá norski. Of hvaða ástæður skyldu þeir hafa nefnt fyrir þessu? Jú að vegna kvótakerfisins og eignarhaldi íslenskra útgerðarmanna á nýtingarréttinum, skipulögðu þeir sínar veiðar með markaðinn í huga, til að hámarka verðmætasköpun.
Þetta er nauðsynlegt að hafa í huga þegar stjórnun fiskveiða ber á góma, enda um sameiginlega hagsmuni íslensku þjóðarinnar að ræða, og tilverugrundvöll veiðimannasamfélaga, eins og á Vestfjörðum að ræða.
5.2.2010 | 15:18
Strandveiðar
Eru strandveiðar þjóðhagslega hagkvæmar?
Varla getur það verið þjóðhagslega hagkvæmt að auka við sóknargetu veiðiflotans. Kvótakerfinu var komið á til að draga úr sóknarþunga til að bregðast við gegndarlausu tapi útgerðarinnar. Tapi sem skapaðist meðal annars af óstjórn og afskiptum stjórnmálamanna. Innflutningi á togurum og úthlutun þeirra til valinkunnra manna allt í kringum landið. En er þá hægt að auka hagkvæmni með því að auka sóknarþunga og bæta við skipaflotann?
Til eru þeir aðilar sem hafa reiknað út að trillur, sem stunda strandveiðar, séu miklu hagkvæmari en önnur veiðiskip. Einn stjórnmála- og fræðimaður hefur haldið því fram að fyrirtæki eins og H.G. ætti að selja alla sína togara og kaupa 30 til 50 trillur í staðinn, enda sé það miklu hagkvæmari kostur. Hann hefur reiknað þetta allt út og birt opinberlega. Getur verið að hann hafi eitthvað til síns máls?
Það er rétt að gera sér grein fyrir því að hér er um hreinan og ómengaðan kommúnisma að ræða. Að yfirvöld eigi að skipuleggja atvinnugreinar og reikna út hvað sé best að framleiða, hvenær og hvernig. Bloggari taldi að slíkar aðferðir heyrðu sögunni til og hefðu verið fleygt á ruslahauga sögunnar.
Auðvitað veit útgerðarmaðurinn hvað er hagkvæmast og hvernig best er að reka sína útgerð. Hvorki menntamenn né pólitíkusar eiga að blanda sér í slíkt, enda engar líkur á að þeir geti gefið góð ráð. Ekki frekar en að koma við hjá bókabúðinni, flugfélaginu eða prjónabúðinni með útreikninga og tillögur um hvað skuli framleitt, hvernig og hvenær. Í rauninni er þetta svo augljóst að óþarfi er að taka þátt í þessari umræðu.
H.G. þarf að tryggja rétt gæði afla og bjóða upp á afhendingaröryggi til að geta selt ferskan unnin fisk á erlendan markað. Stjórnendur fyrirtækisins vita þetta og skilja að ferlinum lýkur ekki á fiskmarkaðinum við Sindragötu enda nær virðiskeðjan til neytandans í Bretlandi. Miklar kröfur um gæði og afhendingu kalla á öflug skip sem eru sérstaklega útbúin fyrir þessa virðiskeðju ferskfisks. Fiskurinn er kældur í niður fyrir -1°C staks eftir slægingu. Líftíminn þarf að vera nægjanlegur fyrir flutning og dreifingu til neytandans. Öflug skip skapa öryggi um afhendingu og gæði.
En eru þá strandveiðar réttlátar?
Hver sér réttlætið með sínum augum. Bloggara finnst það ekkert sérstaklega réttlátt að þeir sem gefist hafa upp á núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi og selt sig úr því, fá á ný tækifæri til að byrja upp á nýtt. Það er morgunljóst að þegar um endurnýjanlega auðlind er að ræða eins og fiskimið, að ekki er hægt að afhenda einum án þess að taka af öðrum. Þau 6.000 tonn sem fyrirhugað er að veiða í strandveiðikerfi á þessu ári eru þannig tekin að þeim sem stunda atvinnugreinina í dag. Miðað við nýlega skýrslu Sjávarútvegsráðuneytisins um strandveiðar kemur fram að um þriðjungur þeirra sem stunduðu þessar veiðar á nýloknu ári höfðu selt sig út úr kerfinu áður. Margir komu úr öðrum starfsgreinum og notuðu sumarfríið sitt til að veiða. Minnst af þessum afla kom til vinnslu hér á svæðinu og því var atvinnusköpun í lágmarki. Reyndar var ekkert talað um þjóðhagslegan ávinning af veiðunum í skýrslunni, en slíkt verður ekki mælt nema taka alla virðiskeðjuna til kaupandi í Bretlandi.
Mikið er talað um að strandveiðar stuðli að nýliðun í greininni. Varla þarf strandveiðar til þess þar sem nýliðun hefur verið mikil, t.d. hér á norðarnverðum Vestfjörðum, en nánast engin sem hélt um útgerð upp úr 1990 er enn við lýði. Nýir menn hafa tekið við og enn eru ungir dugandi menn að koma sér í útgerð og kaupa skip og veiðiheimildir. Það þarf engin ríkisafskipti til að hagkvæmni finni sér bestu leiðir og menn uppgötvi nýjar arðbærar aðferðir í útgerð og fiskvinnslu. Og reyndar ekki ráð frá menntamönnum eða pólitíkusum.
Þjóðhagslegur ávinningur
Hvernig sem þessu máli er velt upp verður ekki séð að þessar veiðar séu þjóðhagslega hagkvæmar né réttlátar. Ef til vill þjónar þetta allt saman einhverjum pólitískum hagsmunum, en það gerir það ekki réttlátt. Hinsvegar ef menn gera sér ekki grein fyrir að fiskveiðar þurfa að vera sjálfbærar og nauðsynlegt að takmarka aðganginn að auðlindinni, er erfitt að ræða þessi mál við þá. Sá skilningur er grundvallaratriði til skynsamlegra umræðu um fiskveiðimál og nauðsynlegur til að hægt sé að taka vitrænar ákvarðanir um sátt í þessum umdeildu málum. Sátt sem leiði til þjóðhagslegs ávinnings.
4.2.2010 | 16:18
Kvótakerfi og arðsemi veiða
Takmörkuð sjálfbær auðlind
Félagi bloggara gaf honum gott ráð á dögunum í viðræðum um sjávarútvegsmál. ,,Ef viðmælandi þinn skilur ekki að fiskveiðar eru takmörkuð sjálfbær auðlind, og nauðsynlegt er að takmarka aðgang að henni, hættu þá viðræðum við hann" Skilaboðin eru sem sagt þau að þeir sem ekki skilja þetta séu ekki hæfir til umræðu um stjórnun fiskveiða og ekki á vetur setjandi í viðræðum við þá.
Í greinarkorni bloggara um daginn var Atli Gíslason mærður og talinn maður sátta og umræðu sem hefði skilning á sjávarútveg. En þó var minnst á eitt atriði þar sem hann skriplaði á skötunni í umræðunni. Hann misskilur algjörlega kvótakerfið og hvers vegna það var sett á og hvaða jákvæðu áhrif það hefði á hagkvæmni sjávarútvegs. Hann taldi að kvótinn væri til að takmarka afla og ef hægt væri að taka viljann til að stunda veiðar í burtu, væri allt í besta lagi og afnema mætti kvótakerfið.
Hér er um alvarlegan misskilning að ræða og nauðsynlegt að ýta honum til hliðar þannig að hægt sé að takast á um fiskveiðistjórnun á uppbyggilegum nótum. Tryggja að niðurstaðan verði þjóðhagslega hagkvæm. Aðal málið er að geta aðskilið takmörkun á veiðimagni og kvótasetningu í umræðunni. Svona eins og vísindamenn gera að takast á við flókna hluti með því að einfalda umræðuna og komast þannig að kjarna málsins.
Kvótakerfi og leyfilegur hámarksafli
Bloggari hefur margoft bent á að kvótakerfi stjórnar ekki veiðimagni og hefur því ekkert með lífræði að gera, þ.e.a.s. að byggja upp fiskistofna. Það er á öðrum vetfangi þar sem aflamagn er ákveðið eftir að stofnstærðarmat hefur farið fram og reiknað út hagkvæmasta veiðimagn til að hámarka afrakstur stofnsins. Á erlendu máli er þetta kallað Maximum Sustainable Yield" (hámarks nýting fiskistofna)
Eftir að ákvörðun um leyfilegan hámarksafla liggur fyrir er komið að því að ákveða hagkvæmustu leið til að sækja þann afla. Ljóst er að um endurnýjanlega auðlind er að ræða og því nauðsynlegt að takmarka aðgang sjómanna til veiða. Um þetta eru flestir sammála, en eins og tekið var til hér í upphafi eru þeir ekki hæfir í umræðuna sem skilja það ekki.
Ólympískar veiðar
Það er nokkuð augljóst að ,,frjálsar" veiðar á takmökuðum afla, svokallaðar ,,ólympískar veiðar" eru í eðli sínu mjög óhagkvæmar. Mikið kapp um aflann kallar á of-fjárfestingu í sóknargetu með allt of stórum skipastól þar sem allir reyna að skara eld að eigin köku. Við kappið eru gæði fyrir borð borin eins og sýndi sig hér á árum áður þegar fiski var mokað upp án tillits til vinnslu og hámörkun verðmæta. Fiski var ekið í bræðslu og hann var hengdur upp á hjalla í skreið fyrir Afríkumarkað og sóunin var mikil.
Ekki þarf annað en líta til makrílveiða Íslendinga undanfarið til að sjá til hvers ólympískar veiðar leiða. Kapp sjómanna um aflann verður til þess að honum er mokað upp í keppni um tonnin og landað í bræðslu. Bent hefur verið á að hægt væri að auka verðmæti kolmunaaflans um sjö milljarða króna þar sem hlutur sjómanna gæti verið á þriðja milljarð í aukin hlut, með því að fullvinna aflann til manneldis. En þetta skilur hæstvirtur sjávarútvergráðherra ekki en hyggst grípa til gamalla ráða kommúnisma, að handstýra ráðstöfun aflans. Ráðuneytið ætlar að stýra veiðiskipum frá skrifstofu í Reykjavík, um hvort þau megi landa í mjöl eða til manneldis. Einföld kvótasetning aflans á hvert skip myndu duga hér vel og hvert skip gæti síðan hámarkað verðmæti sín þar sem keppnin um tonnin er tekin í burtu.
Markaðir og kvótakerfið
Um það snýst kvótakerfið og það gefur sjómönnum einnig tækifæri til að dreifa sínum veiðum jafnt yfir árið, og þannig sinnt viðskiptavinum sínum erlendis vel, sem leggja aukna áherslu á afhendingaröryggi árið um kring. Undanfarin ár hefur orðið mikil aukning á útflutningi á ferskum fiski sem unninn er fyrir verslunarkeðjur sem borga hæstu verð fyrir góð gæði og örugga afhendingu. Þannig hafa Íslendingar getað hámarkað verðmæti fiskútflutnings og aðgreint sig frá ódýrum frosnum, hvítum fiski frá t.d. Kína.
Við þetta verða til mikil verðmæti og fiskveiðiarður myndast, sem er þessari þjóð svo mikils virði. Sumir hafa reyndar haldið því fram að þessi fiskveiðiarður hafi valdið hruninu á Íslandi þar sem þjóðin hafi ekki kunnað með peningana að fara. Sömu menn hljóta þá að líta til samfélaga eins og Norður Kóreu eða Kúbu sem fyrirmynd, þar sem engar hagsveiflur eru en menn liggja fastir örmagna á botninum.
Að koma ,,spænskt fyrir sjónir"
Góður vinur bloggara var í opinberri heimsókn í Katalóníu á Spáni fyrir nokkru árum. Þar ræddi hann við sjávarútvegráðherra héraðsins og fiskveiðistjórnun barst í tal. Katalóníubúinn sagði að nánast engin fiskveiðastjórnun væri þarna enda taldi hann enga þörf á slíku. Félagi bloggara spurði þá hvernig þeir stýrðu aðgangi að auðlindinni, sem sannarlega hlyti að vera takmörkuð. Svarið var að tekjurnar væru svo lágar í greininni að ungt fólk vildi miklu frekar gerast þjónar á veitingarstöðum heldur en að sinna sjómennsku. Þannig að fátæktin var fiskveiðistjórnun Spánverjanna við norðurströnd Miðjarðarhafsins. Þetta er reyndar þekkt fyrirbæri víða um heim og hefur bloggari kynnst slíku við dvöl á Nýfundnalandi, Sri Lanka og eins við Viktoríuvatnið í Úganda.
Mikilvægi arðsemi veiða fyrir fiskimannasamfélög
Það er einmitt þarna sem Atli Gíslason skriplar á skötunni. Þó honum takist að draga svo úr arðsemi veiða að áhugi manna verður þverrandi og það leiði til lítillar sóknar, er ekki þar með sagt að einhverri óskastöðu sé náð. Ekki þarf annað en að sjá fyrir sér þrisvar sinnum stærri flota við þorskveiðar í dag til að ímynda sér slíkt ástand. Þá er það kostnaðurinn sem stjórnar sókninni og menn róa þrátt fyrir neikvæða afkomu. Sjómönnum myndi reyndar fjölga gríðarlega en þeir væru allir fátækir. Engin arður væri til skiptana og því þyrfti þjóðin ekki að rífast um skiptingu hans. Fiskimannasamfélög yrðu fátæktargildrur og ættu sér enga möguleika. Öll framþróun myndi stöðvast enda engir peningar til að fjárfest í arðsömum tækjum og tólum til veiða. Þetta er einmitt ástand sem er vel þekkt um allan heim. Ríkari þjóðir sem rekið hafa sjávarútveg sinn á styrkjum hafa bolmagn til að halda slíkum samfélögum á floti, en með lítilli reisn og skertri sjálfsvirðingu íbúanna.
Það er einmitt gríðarlega mikilvægt fyrir Íslendinga að reka sinn sjávarútveg á hagkvæman hátt. Sérstaklega er það mikilvægt fyrir fiskimannasamfélög eins og á norðanverðum Vestfjörðum, sem byggja á öflugum sjálfbærum veiðum sem skila góðri arðsemi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
3.2.2010 | 21:54
Hámörkun á nýtingu fiskistofna (MSY)
Við stjórnun á fiskveiðaauðlind er mikilvægt að átta sig þeirri sérstöðu sem nauðsyn á sjálfbærni setur henni og þær takmarkanir sem því fylgja. Allt annað er uppi á teningnum við stjórnun á námum, sem ekki eru sjálfbærar en þær minka eftir því sem af er tekið. Við olíuvinnslu er því hægt að taka ákvörðun um hvort nýta eigi auðlindina á tíu, tuttugu eða þrjátíu árum. Hér er um hreint efnahagslegt og félagslegt mat að ræða og í lokin stendur náman eftir tóm og fullnýtt. Við stjórnun fiskveiðaauðlindar þarf að gæta að hámarki jafnstöðuafla (Maximum Sustainable Yield), það er að auðlindin er endurnýjanleg og við ákvörðun um nýtingu og það magn sem árlega er tekið þarf að hámarka afraksturinn. Hér er rétt að taka því fram að kvótakerfi hefur ekkert með þessi mál að gera og því umræðu um það haldið utan við viðfangsefnið.
Á Íslandsmiðum er notast við aflareglu til að ákvarða hámarksveiði úr hinum ýmsu fiskistofnum og því til stuðnings eru settar reglur um t.d. lokun svæða, verndun smáfisks, lokanir á veiðisvæðum yfir hrygningartíma, takmarkanir á notkun ýmissa veiðarfæra og reglur um möskvastærðir í netum og trolli.
Hér á landi sér Hafrannsóknarstofnunin um stofnstærðarmælingar á fiskistofnum, sem aðallega byggjast á svokölluðu ,,ralli" ásamt mælingum á stærðar- og aldurgreiningu á veiddum fiski. Reglur sem settar eru til fiskverndar eru byggðar á líffræðilegum forsendum og í sumum tilfellum á pólitísku mati á réttlæti, t.d. eins og að skapa rými fyrir smærri báta á grunnslóð og halda stærri og öflugri skipum fyrir utan 12 mílur. Líffræðilegur hluti rannsókna er fyrir utan sérsvið bloggara og verður hér látið staðar numið í þeirri umfjöllun. En hagfræðilegur hluti fiskveiðastjórnunar verður hér gerður að umtalsefni.
Talið er að um 50 milljarðar dollara glatist árlega í heiminum öllum vegna ofveiði og ekki sé hugað að hámörkun jafnstöðuveiða á fiskistofnum (FAO 1993, Garcia Newton 1997). Að sóknin sé nærri því tvöfalt meiri en hagkvæmasta sókn og helmingi stærri stofnar gætu skapað nánast sömu tekjur með miklu minni kostnað. Það er einmitt dýrt að ofveiða fisk þar sem mikið er lagt á sig til að ná í síðustu tonnin úr ofnýttum fiskistofni. Góð veiði er einmitt eðlilegt ástand og kostnaður við að sækja hvert tonn í sterka stofna er miklu minni en þar sem ofveiði er stunduð.
Fátækt er fylgifiskur fiskimannasamfélaga þar sem aðgangur er óhindraður og ekki settar reglur um hámarksafla né aðrar takmarkanir á sókn. Þá er veitt þar til stofninn hrynur og nánast allar tekjur fara í kostnað og engin fiskveiðaarður eftir til að skila fiskimönnum eða samfélagi.
Fiskveiðar eru eins og hver önnur atvinnugrein sem á að skila hámarks verðmætum með sem minnstum tilkostnaði. Tilgangur með fiskveiðistjórnun á að vera að framleiða verðmæti á sjálfbæran hátt til langs tíma. Tilgangurinn er ekki að skapa atvinnu, vernda fiskistofna né náttúruvernd. Heldur til að hámarka afrakstur af fiskveiðiauðlindinni með sem minnstum tilkostnaði sem skilar sér sem arður til samfélagsins. Slík hámörkun langtímaarðs tryggir í rauninni viðkomu fiskistofna og verndar umhverfið.
Hér á landi hefur mikil umræða verið um ráðgjöf Hafró og margur kappsamur sjómaðurinn vill veiða meira og krefjast þess að stjórnöld bæti við aflaheimildir. Góð veiði er einmitt notuð sem mælikvarði á að þorskstofninn hér við land sé vannýttur. En það er einmitt góð veiði sem bendir til að menn séu á réttri leið í sókn í stofna. Góð veiði er eðlilegt ástand og gefur fyrirheit um að stofninn sé nýttur á skynsamlegan hátt. Of mikil sókn dregur úr veiði á sóknareiningu og eykur kostnað sem aftur dregur úr arðsemi. Arðsamar fiskveiðar eru Íslendingum sérlega mikilvægar þar sem um er að ræða undirstöðu atvinnugrein þjóðarinnar.
2.2.2010 | 08:45
Skotgrafahernaður
Tilgangur kvótakerfisins
Það var athyglisvert að hlusta á Ingva Hrafn rekja garnirnar úr Atla Gíslasyni, formanni sjávarútvegsnefndar Alþingis á sjónvarpsstöðinni Ínn. Að vísu gætti svolítils misskilning hjá Atla um tilgang kvótakerfisins, en hann taldi það sett á til að vernda fiskistofna. Það má öllum vera ljóst sem kynna sér upphaf og tilurð kerfisins að það var sett á til að auka arðsemi og draga úr gegndarlausu tapi útgerðar, sem komin var til vegna allt of mikillar sóknargetu flotans. Útgerðarmönnum var boðin nýtingarréttur auðlindarinnar í skiptum fyrir þann beiska kaleik að skera niður flotann. Í þessu samhengi er rétt að geta þess að ekki þarf kvótakerfi til að vernda fiskistofna, enda hægt að setja hámarksafla á hverja tegund fyrir hvert ár og leyfa síðan frjálsar veiðar. Slíkt myndi tryggja viðgang fiskistofna miðað við réttar forsendur um hámarksafla en myndi kalla á mikla sóun í útgerð og hrun á mörkuðum. Um það snýst kvótakerfið.
Skotgrafahernaður
Að öðru leiti mátti skilja á Atla Gíslasyni að hann væri maður sátta og vildi forðast ,,skotgrafahernað" í málefnum sjávarútvegs, ólíkt varaformanni sjávarútvegsnefndar sem notar hvert tækifæri til tala niður til atvinnugreinarinnar. Atli taldi slíkt ekki vænlegt til árangurs og fullvissaði áhorfendur um að engin hætta væri á að varaformaðurinn tæki við formensku, enda tilheyrði það embætti Vinstri Grænum.
Atli virðist vera vel að sér um sjávarútveg og vera nokkuð vel tengdur við aðila í greininni. Hann hvatti útvegsmenn og fiskverkendur til að koma að ,,sáttarnefndinni" sem þeir hafa gengið frá vegna átaka við sjávarútvegsráðherra, og taldi það líklegast til að ná sáttum sem þjóðin og sjávarútvegurinn gætu unað við. Nauðsynlegt væri að tala saman og aðilar fengju tækifæri til að útskýra sína hlið á málunum og hvernig sameiginlegir hagsmunir yrðu tryggðir. Hvort hægt væri að bæta núverandi sjávarútvegsstefnu með þjóðarhag að leiðarljósi.
Þjóðarsátt um þjóðarhagsmuni
Þetta er alveg rétt hjá formanni sjávarútvegsnefndar og gefur von til að málin verði leyst með þeim hætti að fiskveiðiauðlindin gefi hámarks arðsemi fyrir Íslendinga í framtíðinni. Öfgafullur ,,skotgrafahernaður" í þessum málum er ekki leiðin til að rata þann veg, þar sem þekking og fagmennska víkur fyrir alhæfingum, upphrópunum og fullyrðingum. Við getum lært það af sögunni að slíkar aðferðir eru árangursríkar fyrir einstaklinga, stefnur og strauma, en eru ekki líklegar til tryggja sátt eða þjóðarhag.
Auðlindin er þjóðareign Íslendinga og mikilvægt að ákvarðanir sem teknar eru um framtíðarskipan hennar taki mið af því. Þetta snýst um fiskveiðiarð og skiptingu hans. Það verður erfitt að byggja slíkar ákvarðanir á hugtökum einum saman eins og réttlæti og sanngirni, en sitt sýnist hverjum í þeim efnum. Stjórnvöld þurfa að ganga til sátta í þessu máli, ólíkt því sem á undan er gengið, og málflutningur Atla Gíslasonar gefur von um slíkt.
Gunnar Þórðarson
27.1.2010 | 20:31
,,Gjafakvótinn"
Umræðan um stjórn fiskveiða hefur verið í skötulíki undanfarin ár. Flestir þeirra sem hæst láta virðast gera sér litla eða enga grein fyrir því að kvótakerfinu var komið á fyrir 25 árum til þess að auka arðsemi í íslenskum sjávarútvegi og beita skynsamlegri nýtingu til að vernda ofveidda fiskistofna. Það vill gleymast, að fæstir útvegsmenn voru hlynntir kvótakerfinu á sínum tíma. Með þessum hugmyndum þótti þeim vegið að frelsi sínu til fiskveiða. Í dag deilir hins vegar enginn ábyrgur útgerðarmaður um ágæti þessa fyrirkomulags sem notað er við stjórn fiskveiða hér á landi.
Hvað lá að baki?
En hvernig var tilurð kvótakerfisins og hvað lá þar að baki? Upphaf umræðunnar má tengja við útkomu hinnar svokölluðu ,,svörtu skýrslu" Hafrannsóknarstofnunar árið 1975. Þar sagði að útlit væri fyrir verulegan viðkomubrest ef ekki yrði gripið til nauðsynlegra ráðstafana. Í framhaldi var ,,skrapdagakerfinu" komið á 1977. Þar mátti hlutfall þorsks hjá togurum ekki fara upp fyrir ákveðið hlutfall af afla tiltekna daga á ári.
Að öðru leyti voru veiðar frjálsar og þrátt fyrir tillögu Hafró um 275 þúsund tonn þetta ár var veiðin 340 þúsund tonn. Sóknarþungi jókst stórum og náði þorskveiðin hámarki árið 1981 þegar veidd voru tæp 470 þúsund tonn. Þrátt fyrir þessa miklu veiði fór afkoma útgerðar stöðugt versandi. Á annað hundrað skuttogarar bættust við flotann á þessu tímabili sem hluti af stefnu stjórnvalda í atvinnu- og byggðamálum.
Hugmyndinni illa tekið í fyrstu
Augljóst var að frjáls aðgangur að auðlindinni skilaði ekki þeim markmiðum sem stjórnvöld settu sér við nýtingu hennar. Þannig benti Jakob Jakobsson fiskifræðingur t.d. á gríðarlega sóun við síldveiðar árið 1979, þar sem 170 skip veiddu 35 þúsund tonna ársafla. Tíundi hluti þess flota hefði staðið undir veiðunum.
Austfirðingar hreyfðu fyrst við hugmyndum um kvótakerfi á Fiskiþingi árið 1978. Þeim var illa tekið af útvegsmönnum, sérstaklega Vestfirðingum, sem töldu frjálsar veiðar sér í hag vegna nálægðar við fiskimiðin. Austfirðingar reyndu á ný árið eftir en allt fór á sama veg. Á Fiskiþingi 1981 mátti hins vegar greina vaxandi áhuga á kvótasetningu á þorski. Umræðan var orðin upplýstari og menn gerðu sér grein fyrir að stjórnlaus veiði á endurnýjanlegri auðlind ógnaði jafnt fiskistofnum sem afkomu útgerðarinnar.
Kvótakerfið verður að lögum
Fram að þessum tíma hafði svokölluð millifærsluleið verið farin í stjórnun sjávarútvegs. Flókið sjóðakerfi var notað sem tæki til að taka fjármuni af heildinni og færa öðrum. Heildarfjármunir voru teknir frá þjóðinni með launalækkun í gegnum gengisfellingar. En til að gera langa sögu stutta fór svo að mælt var fyrir frumvarpi um kvóta í desember 1983 og það varð að lögum árið 1984.
Kvótakerfið var samþykkt til eins árs í senn þar til 1988 þegar það var fest í sessi. Fljótlega kom í ljós að án framsalsréttar á aflaheimildum væri takmarkaður ávinningur af kvótakerfinu. Framsal var lögfest 1988. Ljóst var að nauðsynlegt var að fækka skipum og draga úr sóknarþunga til að auka arðsemi veiða og án framsalsheimilda væri það borin von.
Einkaframtak í stað ríkisafskipta
Stjórnmálaflokkar voru klofnir í afstöðu sinni til málsins en margir álitsgjafar voru atkvæðamiklir í umræðunni. Í henni kristölluðust meginstraumar í hugmyndum um kvótakerfi; hvort ríkið ætti að útdeila fiskveiðiheimildum eða hvort nýtingarréttur yrði færður til útgerðarinnar og hún látin bera ábyrgð á eigin afkomu. Sú leið sem farin var - að nota reiknireglur til að skipta aflaheimildum niður á skip - var því í anda einkaframtaks í stað ríkisafskipta.
Kvótanum þröngvað upp á útvegsmenn
Það er nokkuð ljóst að kvótanum var þröngvað upp á útvegsmenn á sínum tíma þar sem frjáls veiði án afskipta ríkisins hugnaðist þeim betur. Sú aðferð að færa nýtingarréttinn til útgerða, byggðan á aflareynslu, getur varla talist vafasöm aðgerð. Í ljósi fjárhagsstöðu útgerðarinnar á þessum tíma var ekki var borð fyrir báru til að greiða háar upphæðir fyrir aflaheimildir til ríkisins. Einnig verður að líta til þess að aflakvóti var einskis virði á þessum tíma enda tapið botnlaust hjá útgerðinni og kvótasetningin því forsenda arðsemi.
Ríkisafskipti með pólitískri útdeilingu gæða eins og aflaheimilda er ekki líkleg til að skila hámarks arðsemi af fiskveiðum sem hlýtur að vera meginkrafa íslensku þjóðarinnar. Skipting þess fiskveiðiarðs með réttlátum hætti er hinsvegar pólitískt viðfangsefni hverju sinni.
Höfundur er viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum
27.1.2010 | 20:23
Skuldir útgerðarinnar
Ólína Þorvarðardóttir ritar grein í B.B. 20. janúar undir fyrirsögninni ,,Gjöfin dýra - skuldabagginn" Höfundur hefur nokkuð til sín máls að þeim sem treyst er fyrir nýtingu auðlindarinnar, fari vel með það traust. Réttilega er bent á að ábyrgðarleysi með gengdarlausum erlendum lántökum hafa áhrif á fiskveiðiarð og koma þjóðinni því við. Þjóðin á kröfurétt á þá sem hún treystir fyrir nýtingu mikilvægustu auðlind sinnar, sjávarútvegnum, að þeir gæti hagsmuna hennar í hvívetna.
Gott dæmi um ábyrgðaleysi útgerðarmanna er stöðutaka með krónunni síðsumar 2008 fyrir tugi miljarða króna. Þetta var útskýrt sem áhættustýring fyrir útgerð og fiskvinnslu, en flestir sem til þekkja sjá að þau rök standast illa og nær að kalla gjörninginn hreinlega brask. Þessi mál eru ekki uppgerð ennþá en gæti haft veruleg áhrif á skuldastöðu útgerðarinnar í heild sinni. Rétt er að taka fram að lífeyrissjóðirnir voru enn kræfari í þessu braski og viðbúið að skellur þeirra verði á annað hundrað milljarða króna í uppgjöri við bankana.
Það er nú þannig að rónarnir koma óorði á brennivínið og auðvitað er ekki hægt að setja alla útgerðarmenn undir sama hatt. Ekki hafa nöfn útgerða hér í Ísafjarðarbæ verið nefnd í þessu samhengi og vonandi er staða þeirra því sterkari en hinna sem eiga hlut að máli.
Ekki er þó ástæða til að breyta hagkvæmu fiskveiðistjórnunarkerfi á þeim forsendum að einstakir útgerðarmenn fari fram úr sér og sökkvi sér í skuldafen. Þau fyrirtæki fara einfaldlega í þrot, líkt og önnur fyrirtæki í þeirri stöðu, hvort sem um bílaumboð eða bóksala er að ræða. Nýir menn taka þá við og erlendir lánadrottnar tapa kröfum sínum. Við yfirtöku nýju bankana af þeim gömlu hefur þetta allt verið skoðað og ráð fyrir því gert.
Margir andstæðinga kvótakerfisins tala um að menn veðsetji kvótann, sem sé siðlaust þar sem þjóðin eigi auðlindina. Þetta er í besta falli einföldun, en verra ef það er notað til að blekkja fólk. Málið er að menn veðsetja fjárstreymi í útgerð eins og öðrum rekstri. Reiknað er út hversu miklum skuldum fyrirtæki geti staðið undir miðað við fjárstreymið. Það liggur hinsvegar fyrir að útgerð sem rekin er með eigin kvóta hefur jákvæðara fjárstreymi en önnur sem þarf að leigja hann til sín.
Íslendingar verða að reka sinn sjávarútveg á hagkvæman hátt með arðsemi í huga. Við höfum einfaldlega ekki efni á öðru. Stjórnvöld eiga ekki að skipta sér af rekstri einstakra fyrirtækja, heldur setja almennar leikreglur. Það er ekki í verkahring stjórnmálamanna að reikna út hvort eitt útgerðarform sé hagkvæmara en annað né hver hagkvæmasta skuldastaðan er, heldur hvers fyrirtækis fyrir sig.
Miðað við árangur íslenskra stjórnmálamanna undanfarið virðast þeir hafa fangið fullt án þess að gerast ráðgjafar í rekstri fyrirtækja.
Um bloggið
Gunnar Þórðarson
Tenglar
Hallgrímur bláskór 2012
- Gengiðr úr Hornvík í Kjaransvík
- Kjaransvík - Sæból
- GEngið á Ryt og Darra
- Gengið á Straumnesfjall
- Gengið á brúnir Grænuhlíðar
Smölun í Austurdal
- Austurdalur -2010 Dagur 1 Smölun í hinum ægifargra Austurdal suður af Skagafirði
- Austurdalur - 2010 Dagur 2 Annar dagur smalamensku í Austurdal í Skagafirði
- Austurdalur -2010 Dagur 3 Lokadagur smölunar fyrir Austudalsfélagið í Skagafirði
- Föstudagur 2011 Smalaferð Göngumannafélags Austurdals í september 2011
- Laugardagur í Austurdal 2011 Smalaferð Göngumannafélags Austurdals í september 2011
- Sunnurdagur í Austurdal - 2011 Smalaferð Göngumannafélags Austurdals í september 2011
- Mánudagur 2011 Smalaferð Göngumannafélags Austurdals í september 2011
Skútukaupin 1976
Við félagarir, undirritarðu, Jón Grímsson og Hjalti Þrórðarson keyptum skútu í Bretlandi og sigldum henni heim til Íslands
- Kafli 1 - Skútukaupin undirbúin
- Kafli 2 - England
- Kafli 3 - lagt í siglinguna miklu
- Kafli 4 - Captain Thordarson
- Kafli 5 - Siglt í norður
- Kafli 6 - Færeyjar - Ísland
- Kafli 7 - Siglt til Ísafjarðar
Ísrael 1974
Sagt frá ævintýri okkar Stínu, Nonna Gríms og Hjalta Bróður þegar við ókum yfir Evrópu 1974. Fórum frá Aþenu til ísrael og unnum þar á samyrkjubúi.
- Kafli 1 - Mótorhjólagengið
- Kafli 2 - Júgóslavía, Grikkland og Ísrael
- Kafli 3 - Á kibbutz undir Gólanhæðum
- Kafli 4 - Í kjölfar árásarinnar
- Kafli 6 - Maðurinn með ljáinn
- Kafli 5 - Endurfundir
- Kafli 7 - Frá rauðu ljósi í Milanó
- Kafli 8 - Fjölskyldu og varnarmál
- Kafli 9 - Vinna í Elat
- Kafli 10 - Daglegt líf á Shamir
- Kafli 11 - Til Grikklands
- Kafli 12 - Sögulok í London
Að Fjallabaki 2012
Suður um höfin 1979
Frá ferðalagi okkar Stínu á seglskútunni Bonny frá Ísafirði til Mallorca í Miðjarðarhafi
Sigling frá Mallorka til Grikklands
- Kafli 1 - lagt af stað til Ítalíu Fimm félagar sigldu Bonny frá Spánar til Grikklands
- Kafli 2 - Sikiley og Grikkland
- Kafli 3 - Kea og Paros
- Kafli 4 - Santorini
Safaríferð í Úganda
- Ferð til Murchison Falls - fyrri hluti Safaríferð inn í frumskóg Úganda
- Ferð til Murchison Falls - seinni hluti
Hálendisferð 2010
- Gengið á Fimmvörðuháls Eldstöðvar Fimmvörðuháls skoðaðar
- Skaftafell og Kristínartindar Gengið á Kristínartinda
- Gengið á Mælifell Ekið Fjallabak syðra norður fyrir Mýrdalsjökul
- Friðland að Fjallabaki Gengið um við Landmannalaugar
- Gengið á Löðmund Gengið á Löðmund við Dómadal
- Gengið á Snæfell Gengið á hæsta fjall Íslands utan jökla, Snæfell
- Gengið í Geldingarfell Ferð um Lónsörævi með frábærum hópi, sumarið 2010
- Gengið í Egilssel Gengið úr Geldingafelli í Egilssel við Lónsöræfi
- Gengið niður Lónsöræfi Þriggja daga göngu norðan og austan Vatnajökuls lokið
Sri Lanka 2007
- Sri Lanka 2006-2008 Starfað á Sri Lanka
Bloggvinir
- astromix
- ekg
- stefanbjarnason
- golli
- vikari
- gunnarpetur
- vestfirdir
- gudni-is
- ea
- ladyelin
- gp
- altice
- hjolaferd
- kaffi
- komediuleikhusid
- rabelai
- ziggi
- huldumenn
- helgi-sigmunds
- sigrunzanz
- hordurhalldorsson
- baldher
- hjaltisig
- lotta
- kjarri
- bjarnimax
- jovinsson
- smjattpatti
- eirmor
- vefritid
- saemi7
- siggisig
- maggij
- lehamzdr
- contact
- gauisig
- jonvalurjensson
- thjodarskutan
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.2.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 28
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 9
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar