Listi "skynsamra" frambjóðenda

Fjölpóstur var sendur með nöfnum "skynsamra" frambjóðenda þar sem mitt nafn er á meðal 26 nafna.  Augljóst er hverjum þetta hugnast og hverjum kemur þetta illa.  Þetta eru verk óprúttinna illvirkja sem vilja koma höggi á pólitíska andstæðinga sína á síðustu stundu.  Sent inn að morgni kjördags þannig að ekki vinnist tími til að verja sig.  Megi þeir skömm hafa sem tóku sér þetta fyrir hendur.

Það er augljóst af viðvaningslegu orðalagi að pósturinn er ekki faglega unnin.  Eins er ljóst að slíkur listi sem sendur er undir þessum formerkjum kemur þeim illa sem á honum eru.  Aldrei hefur verið borið undir mig hvort ég vilji vera á slíkum lista.  Enda hefði ég neitað því staðfastlega.  

Eitt get ég fullyrt og það er að mitt fólk myndi aldrei vinna svona.  

Það er athyglisvert að bréfið birtist í DV áður en ég fékk það sent.  Hvað segir það okkur?  Ég veit um menn sem eru trúnaðarmenn flokksins og fengu bréf frá formanninum í gærkvöldi um allt annað málefni, en fengu ekki þetta bréf.  Það segir mér að þessir fantar hafa ekki komist yfir trúnaðarmannalista Sjálfstæðisflokksins.  En mikil vinna hefur verið lögð á sig fyrir þessa óhæfu.


Landsbyggðin og spillingin

Steingrímur J. hrindi í þáverandi félagsmálaráðherra og hótaði honum að skrúfa fyrir alla fyrirgreiðslu til ráðaneyti hans ef hann leysti ekki vandamál sem komið hafði upp í kjördæmi fjármálaráðherrans.  Málið snérist um að ,,bæta" vinum hans fjárhagslegt tjón sem þeir urðu fyrir vegna forsendubrests í samningum við ríkið.  Það er auðvelt að láta skattgreiðendur borga slíkt og ekki vafðist fyrir þingmanni sjálfstæðismanna að bakka upp gjörninginn, enda hann úr sama kjördæmi og um sameiginlega vini hans og fjármálaráðherrans að ræða.  Steingrímur er engin veifiskati þegar kemur að því að greiða fyrir vinum og vandamönnum í kjördæminu en sem landbúnaðarráðherra lét hann ríkið kaupa loðdýrahús fyrir á annað hundrað milljóna á núvirði, af vinum sínum heima í héraði.  Sá gjörningur var dæmdur ólöglegur í Hæstarétti í október 1993.

En hvað segir fyrrverandi félagsmálaráðherra og núverandi viðskiptaráðherra við þessu öllu?  Eftir að hafa látið undan hótunum fjármálaráðherrans og greitt vinum hans 30 milljónir til að ,,leysa" málið, sagði hann í viðtali í sjónvarpinu í gær:  „Þetta sýnir að landið þarf að vera eitt kjördæmi og þess vegna styð ég það að landið verði gert að einu kjördæmi"

Þýðing höfundar á orðum viðskiptaráðherra:  Landsbyggðarþingmenn eru svo spilltir að við þurfum að losa okkur við þá.  Ef við gerum landið að einu kjördæmi þá losnum við þá alla á einu bretti.  Þannig er hægt að leysa vandann með einfaldri stjórnarsárbreytingu.

Þetta eru haldgóð rök hjá Árna Páli.  Það er alveg rétt að með því að gera landið að einu kjördæmi, svo ekki sé talað um persónukjör, þá losna Íslendingar við alla landsbyggðarþingmennina.  Og það er hægt að koma þessu á með einfaldri breytingu á stjórnarskránni.

Þetta er mikið áfall fyrir okkur sem viljum standa vörð um landsbyggðina og tryggja málsvara hennar á þingi.  Þetta er hinsvegar vatn á myllu þeirra sem vilja færa öll völd á suð-vestur hornið og telja okkur ekki treystandi fyrir þeim völdum sem landsbyggðin hefur á Alþingi.  Þetta er svona dæmi um að rónarnir koma óorði á brennivínið.

Ég hef áður bent á að algjör jöfnun atkvæða gengur ekki upp.  Slíkt er viðurkennt um allan hinn lýðræðislega heim þar sem fámennum héruðum eru tryggð hlutfallslega meiri völd en þéttbýli.  Það er hinsvegar vandrötuð lína að draga og fullkomlega eðlilegt að hún hafi verið færð til undanfarna áratugi við þá miklu flutninga fólks af landsbyggð á höfuðborgarsvæðið.  En fyrr má rota en dauðrota.

Það er erfitt að bregðast við svona snillingamálum og enn erfiðara að leysa þau í stjórnarskrá.  Það þarf að siðvæða pólitíkina og besta leiðin er sú að almenningur taki vel við sér þegar svona hlutir gerast.  Þarna skipta fjölmiðlar sköpum að geta sett sig inn í slík mál og upplýsa almenning um hvað er að gerast.  Svona mál er hægt að leysa án þess að breyta grundvelli lýðræðis í gegnum stjórnarskrá.  


Stjórnarskrá og auðlindir

Er nauðsynlegt að setja inn ákvæði í stjórnarskrá um auðlindir og umhverfismál?

Mörg ríki Evrópu hafa sett slík ákvæði í sínar stjórnarskrár.  Í Noregi er lögð áhersla á rétt allra til að njóta heilnæms umhverfis og náttúru og vernda fjölbreytni og grósku.  Að ekki skuli gengið á rétt komandi kynslóða í nýtingu á náttúruauðlindum.  Einnig er lögð áhersla rétt borgara fyrir upplýsingar um ástand og fyrirhugaðar framkvæmdir.  Í Finnlandi er lögð áhersla á ábyrgð á umhverfinu og að þjóðararfurinn sé á ábyrgð allra en í stjórnarskrá ESB er talað almennt um að náttúruvernd sé á háu stigi og hluti af stefnu sambandsins.  Frakkar eru með svokallaðan umhverfissáttmála í sinni stjórnarskrá sem leggur ábyrgð á almenning að taka þátt í að framfylgja umhverfisstefnunni ásamt rétti hans til upplýsinga um umhverfismál.  Í Svissnesku stjórnarskránni segir ,, Sambandsríkið skal móta meginreglur um fiskveiðar og skotveiðar í því augnamiði að vernda fjölbreytni fiskjar, villibráðar og fugla"

Allt eru þetta almennar reglur sem ekki útiloka skynsamlega nýtingu auðlinda og varla það sem margir ræða um hér á landi.  Í tillögu frá árinu 2000 lagði auðlindanefnd til að tekið væri upp nýtt ákvæði í stjórnarskrá um að náttúruauðlindir sem ekki eru háðar einkaeignarrétti yrðu lýstar þjóðareign; og var tillagan svo hljóðandi: ,,Náttúruauðlindir og landsréttindi, sem ekki eru háð einkaeignarrétti, eru þjóðareign eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Handhafar löggjafar- og framkvæmdarvalds fara með forsjá, vörslu og ráðstöfunarrétt þessara auðlinda og réttinda í umboði þjóðarinnar"

Hér er rétt að staldra við og velta fyrir sér hver sé tilgangurinn með því að setja slík ákvæði inn í stjórnarskrá.  Ætlum við að nota stjórnarskrána til að leysa áratuga pólitíska deilu, eða ætlum við að setja grundvallarreglur um umhverfis og auðlindamál?

Það er grundvallarmál að við hámörkum nýtingu fiskistofna, göngum ekki á þá með ofveiði og rányrkju.  Ekkert er því til fyrirstöðu að setja ákvæði um slíkt inn í stjórnarskrá, sem myndi þá væntanlega koma í veg fyrir að stjórnmálamenn ákveði auknar veiðar til að afla sjálfum sér stundar vinsælda, þó það gengi gegn þeirri vísindalegu þekkingu sem veðþol væri byggt á!  Einnig liggur það fyrir að þjóðin hefur umráðarétt yfir auðlindinni, þar sem yfirvöld setja lög og reglur um hvernig auðlindin skuli nýtt og heldur úti eftirliti með að þeim reglum sé hlýtt.  Þá er ekki annað eftir en að tryggja að þjóðin njóti ávaxtanna, fiskveiðiarðsins, sem skynsamleg fiskveiðistjórnun skapar.

Allir sem til fiskveiða þekkja vita að um endurnýjanlega auðlind er að ræða og nauðsynlegt að takmarka aðganginn að henni.  Á Íslandi höfum við, að mestu, notað aðferðir samkeppni þegar kemur að ákvörðun um hver skuli veiða.  Hluti veiðanna er að vísu stjórnað af stjórnvöldum, svokölluð skipulagsleið.  Almennt er litið svo á að um meiri sóun sé að ræða með pólitískum afskiptum af því hver skuli veiða, í stað þess að láta þann sem gerir það á hagkvæmasta hátt um það.

Þessi umræða þarf að liggja utan stjórnarskrár, en hægt er að hnykkja á því að þjóðin eigi auðlindina og hafi ráðstöfunarréttin yfir henni, en það má ekki setja í stjórnarskrá að hún, þjóðin, megi ekki nýta auðlindina á sem hagkvæmastan hátt.

Ef farið verður að sáttatillögu hagsmunaaðila og Alþingis frá því í sumar, samningaleið, þá verður aflahluta úthlutað til tiltekins tíma, t.d. 25 ára.  Þannig getur þá útgerðarmaður afskrifað skip, frystahús og kvóta á tilteknum tíma.  Sama fyrirkomulag er með nýtingu á orkuauðlindum og aðeins deilt um hversu langan tíma eigi að taka í afskriftir.

Þjóðin þarf að koma sér saman um þetta með það takmark í farteskinu að hámarka arðsemi auðlinda og tryggja eðlilega dreifingu afraksturs til þjóðarinnar.  Eins og niðurlag tillögurnar frá árinu 2000 hljómar þá kemur það ekki í veg fyrir hagkvæma nýtingu á auðlindum: ,, Náttúruauðlindir og landsréttindi í þjóðareign ber að nýta á sem hagkvæmastan hátt og á grundvelli sjálfbærrar þróunar og skal arði af þeim varið til þess að vernda auðlindirnar, rannsaka þær og viðhalda þeim, svo og til hagsældar fyrir þjóðina að öðru leyti"

Spurningin er hvort margir þeir sem vilja setja ákvæði um umhverfis- og auðlindarmál vilja gera það til að þjóna þröngum hagsmunum sínum eða skoðunum.  Þá er betra heima setið en af stað farið enda er stjórnarskráin sáttmáli þjóðarinnar, en ekki tæki til að leysa pólitísk dægurmál.

Það allavega ljóst að miðað við umræðuna stefna Íslendingar á nýjar slóðir miðað við nágrana sína í stjórnarskrármálum ef þeir trúa því að deilumál um nýtingu auðlinda verði leyst með texta í grundvallarskrá stjórnskipunar og mannréttinda.


Á léttum nótum um stjórnarskrá

Breyting á stjórnarskrá

Það er athyglisvert að skoða viðhorf fólks til stjórnarskrár og þeim breytingum sem þurfi að gera á henni.  Reyndar virðast margir tengja þörf á breytingum við bankahrunið, sem er svolítið galið.  Ekki get ég ímyndað mér að plagg sem fáir lásu hefði breytt þeirri allsherjar firringu sem ríkti á Íslandi árin fyrir hrun.  Málið er að þjóðin tók nánast öll þátt í dansinum á Hruna, þó sumir hafi rokkað meira en aðrir.  Til að laga það þarf ekki að breyta stjórnarskrá heldur þurfa Íslendingar að átta sig á því að við erum  aðeins 330 þúsund, svona eins og lítið hverfi í erlendri stórborg. 

Hafi mönnum þótt langt bankamenn kræfir þá voru stjórnvöld lítið betri, án þess að það komi stjórnarskrá nokkurn skapaðan hlut við.  Gott dæmi er stórmennskan um að sækjast eftir sæti í öryggisráðinu, og þar komu a.m.k. þrír utanríkisráðherrar við sögu.  Þeir flugu um allan heim, stundum í einkaþotum auðmanna, til að veiða atkvæði smáríkja Sameiniðuþjóðanna.  Bjóða m.a. eyjaskeggjum í Karabíahafi þróunaraðstoð  í formi slökkvibíla og skóla.  Þarna var lagt í vegferð þar sem versta niðurstaðan var að ná árangri.  Við hefðum þurft að ráða 2.000 sérfræðinga til að sitja stólinn.  Sérfræðinga í miðausturlöndum, Kasmír héraði, Afganistan og svo videre.  Það hreinlega gleymdist að kasta tölu á þjóðina  áður en við lögðum upp í þessa vitlausu vegferð.

Skýrleiki og hefð

En það þarf að laga stjórnarskrá þó hún hafi ekki valdið hruninu.  Ég tek undir að bæta má textann og gera hann hnitmiðaðri og skiljanlegri, þannig að ekki þurfi sprenglærðra lögspekinga til að túlka það sem þar stendur.  Menn verða að koma sér saman um hvað átt sé við í hverri grein og endurskrifa hana svo á mannamáli.  Það verður erfitt að byggja túlkunina á hefð, sem kemur til af ungum aldri lýðveldisins og þjóðin svo rótlaus að hún brýtur hefðir eins og hvert annan Frónkex.

Í Bretlandi er engin stjórnarskrá en þeir treysta lýðræðið með aldagömlum siðum.  Við setningu þingsins kemur ,,svartstafur" (sendiboði drottningar) og ber að dyrum.  En hann er virtur að vettugi og áfram lemur hann stafnum árangurslaust við hurðina.  Hurðin sem er fírtommu eikarhurð er farin að láta sjá af þessum látum og djúp hola er komin eftir aldalangar barsmíðar svartstafs.  En þegar þingið hefur sýnt honum hæfilegt áhugaleysi er loksins opnað fyrir honum.  Í framhaldi mætir drottningin/kóngurinn til að lesa þinginu stefnuræðu ríkistjórnarinnar.  Þegar hennar heilagleiki mætir í salinn hefja þingmenn hávært skvaldur , til að sýna henni ákveðna óvirðingu.  Þetta er gert til að sýna konungsvaldinu að þingið sé sjálfstætt og hlíti ekki yfirráðum krúnunnar.  Þetta leikrit er leikið árlega við setningu þingsins og hluti af þeim hefðum sem Bretar nota í staðinn fyrir stjórnarskrá.  Það er vonandi að á Íslandi sé ekki komin hefð fyrir að berja olíutunnur við þingsetningu okkar eða kasta eggjum í biskupinn.

Ráðning æðstu embættismanna

Það er mikið rætt um nauðsyn þess að afnema vald forseta til að ráða æðstu embættismenn og færa það til þingsins eða einhverjar valnefndar.  Sérstaklega er talað um dómara í þessari umræðu.  Í BNA þarf þingið að samþykkja hæstaréttardómara og héraðsdómarar eru kosnir af almenningi.  Hvorugt hugnast mér og satt að segja vil ég ekki losa ráðherra undan þeirri ábyrgð sem valdinu fylgir.  Ég vil hafa það á hreinu hver ber ábyrgð og hún fljóti ekki um allt.  Þetta er í mínum huga klárlega hlutverk framkvæmdavaldsins, og þegar hafa verið settar reglur sem minnka líkur á pólitískri ráðningu dómara.

Ég sé reyndar ekki alvarlega hnökra hvað þetta varðar í okkar samfélagi.  Ég viðurkenni að ráðningar dómara hafa verið umdeildar og grunar að ekki hafi alltaf verið gætt fullkominnar fagmennsku og vinar og frændsamfélagið hafi oft spilað inní.  Það er ekki gott en besta ráðið til að útiloka slíkt er opin umræða, öflugt grasrótarstarf í pólitík og að ráðherra sem skriplar á skötunni í jafn mikilvægum málum fái að finna til tevatnsins.

Dómstólar

Lítill styr hefur staðið um íslenska dómarastétt og ekki annað að sjá en hún hafi unnið sína vinnu af fagmennsku og óhlutdrægni.  Í BNA snýst málið um að koma að dómurum að sem eru með eða á móti fóstureyðingum.  Málaflokkur sem klýfur þjóðina í tvennt.  Hér hefur ekki verið um slíkt að ræða og þó íslenskir dómarar hafi þurft að taka á umdeildum pólitískum málum, s.s. kvótakerfinu, verður því varla haldið fram að þeir hafi dregið taum eins né neins í þeim úrskurðum.  Þetta er bara í góðu lagi!

Þingið á að setja lög og hafa eftirlit með framkvæmdavaldinu.  Þeir eiga ekki að ráða dómara eða aðra embættismenn.  Ég hef nú samt velt því fyrir mér hvort ráðherrar eigi að sitja á þingi.  Ég tel að reynsla okkar af utanþingsráðherrum hafi verið mjög góð og  verið til bóta.  Það þarf klárlega að skerpa skilin milli þings og framkvæmdavalds, en það gerist ekki með því rugla þeim reitum meira saman en orðið er. 

Sníðum forsetanum stakk eftir vexti

Við þurfum að taka málskotsréttinn af forsetanum og tryggja að hann verði sú puntudúkka sem hann á að vera.  Núverandi forseti hefur tekið embættið á nýjar slóðir, sem engum hafði dottið í hug að myndi gerast.  Ég velti því fyrir mér hvort þingið kjósi ekki forsetann eins og gert er í Þýskalandi.  Það myndi spara okkur forsetakosningar og í leiðinni myndum við stemma þetta embætti niður í eitthvað lítið og sætt. 

Til að þjóðin geti síðan veitt Alþingi aðhald gætu 25.000 manns krafist þjóðaratkvæðagreiðslu gegn umdeildum lagasetningum.  Þetta þarf að skilgreina vel og undanskilja fjárlög og skattamál.  Ef slíkt vald væri fært þjóðinni myndu þingmenn, eða framkvæmdavald, ekki setja fram lagafrumvörp sem klárlega gengu gegn þjóðarvilja.  Ef til vill myndi það verða til þess að íslensk pólitík yrði málefnalegri og yfirvegaðri.  Lögum yrði ekki troðið í gegnum Alþingi með ofbeldi þar sem þingmenn væru tuktaðir til hlýðni við slæman málstað.  Menn yrðu að tala saman og komast að yfirvegaðri niðurstöðu með þjóðarhagsmuni í huga.


Frjáls markaður með fisk

Reglulega kemur upp í umræðunni krafa um að öllum fiski skuli landað í gegnum fiskmarkaði, til að tryggja hámarks verð og markaðurinn sé þannig látin stjórna verðmætamyndun á afla.  En er málið svona einfalt og mundi slík regla hámarka fiskveiðiarð og þannig þeim tekjum sem renna til þjóðarinnar frá fiskveiðum?

Rannsóknir haf a verið gerðar sem sýna fram að málin séu alls ekki svona einföld og fleira komi til en opin frjáls markaður (fiskmarkaðir) til að hámarka verðmætasköpun í sjávarútveg.   Í þessu sambandi má benda á að mörg fremstu framleiðslufyrirtæki heimsins hafa horfið frá uppboðsmörkuðum við t.d. kaup á hráefni og fært sig meira í átt til samvinnu við birgja.  Fremst í flokki er fyrirtæki eins og Toyota sem byggir starfsemi sína á nánum samstarfi við byrgja þar sem fyrirtækið jafnvel sér um innleiðingu gæðakerfa og þjálfun starfsmanna hjá þeim.

Málið snýst um flækjustig viðskiptana þar sem einföld viðskipti með einsleita vöru gagnast opin markaður á meðan flóknari viðskipti þar sem miklar kröfur eru gerðar um t.d. gæði, kalla á nánara samstarf við birgja.  Hér að neðan eru fimm stigum viðskiptasamskipta lýst með skilgreiningu á hversu náin samvinna fylgir hverju fyrir sig.

 picture1.png

Í fyrsta lagi getur frjáls markaður hentað útgerðarmanni sem vil hámarka verðmæti landaðs afla, sem er þá í eðli sínu einsleitur þar sem hann selur afla þegar honum þykir best henta.  Verðið endurspeglar þá áhættu sem tekin er á markaði og nokkur greiðsla gengur síðan til þess sem sér um uppboðið, fiskmarkaðarins. 

Í öðru lagi gæti fiskverkandi gert samning við útgerðarmann um að skaffa tiltekin afla, á markaðsverði en með nokkuð öruggri afhendingu.  Flækjustigið hefur nú aukist þar sem útgerðarmaður er ekki lengur sjálfráður um hvenær hann afhendir fiskinn.

Í þriðja lagi getur fiskverkandi gert samning við útgerð um að landa öllum afla í vinnslu en hann tekur sameiginlega áhættu á markaði, en er vel umbunað ef vel gengur.  Hér gæti verið gerðar meiri kröfur um gæði, ferskari fisk, betur kældur eða ákveðnar stærðir o.s.f til að þóknast kröfuhörðum kaupanda á markaði. 

Joint Venure er þá náið viðskiptasamband útgerðar og fiskvinnslu, án formlegrar sameiningar, en notast við sameiginlegan rekstur að mörgu leiti.  Þarna geta menn komið sér saman um stefnu í framleiðslu og útgerðarmaðurinn breytir vinnslufyrirkomulagi um borð til að skila vöru fyrir sérlega kröfuharðan kaupanda.  Hér gæti verið um kröfu um snögg kælingu niður í -1°C straks eftir blóðgun og nákvæma tölvu skráningu á veiði-tíma og staðsetningu veiða, sem fylgir fiskinum á markað.

Með sameiningu getur fyrirtækið skipulagt veiðar og vinnslu með þeim hætti sem hámarkar verðmæti framleiðslunnar.

Gott dæmi um slíkt skipulag er sala á ferskum hnakkastykkjum frá Íslandi til Bretlands.  Kaupandinn er stórmarkaður eða veitingarhús sem gera kröfu um mikil gæði ásamt afhendingaröryggi.  Til að tryggja afhendingu er notast við öflug skip sem róið geta í misjöfnum veðrum.  Til að tryggja gæðin er allur fiskur kældur niður fyrir 0°C eins fljótt eftir veiði og mögulegt er sem gefur allt að tíu daga líftíma fyrir ferskan fisk.  Veiðistaður og stund eru skráð og haldið utan um í tölvutæku formi.  Veiðiskip landar síðan afla sínum á mánudögum og síðdegis þann dag fer fyrsta sending af ferskum hnökkum í flug til Bretlands. 

Hér er um gríðarmikla hagsmuni að ræða þar sem stórmarkaðir og veitingahús greiða hæsta verð fyrir ferskan ófrosin fisk, en mikil hefð er fyrir slíkri vöru í Bretlandi.  Sérstök meðhöndlun aflans tryggir gæðin og skipulag veiða afhendingaröryggið. 

Hér er um mikið skipulag og samþættingu veiða og vinnslu að ræða sem gerir kaup af frjálsum uppboðsmarkaði erfitt og ótraust.

Skortur á afhendingaröryggi er mjög kostnaðarsamt á markaði.  Norsk rannsóknir sýnir að laxabóndi sem selur beint til stórmarkaða fær greitt allt að 35% af smásöluverði fyrir vöruna, en útgerðarmaður á Íslandi fær aðeins að meðaltali um 12,5 % af verði þorsks.  Vegna þess öryggis sem laxabóndinn getur tryggt í afhendingu, fækkar milliliðum og viðskiptin verða einfaldari, enda þarf stórmarkaðurinn ekki lengur á heildsala að ræða við innkaupin.  Sama þróun er hjá nokkrum íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum sem hafa fært sig nær markaðinum og með því að tryggja afhendingu komast í beint samband við þann aðila sem selur neytanda á markaði.  Sumir tryggja sig með öflugum skipum.  Aðrir hafa farið út í þorskeldi og geta slátrað þegar illa viðrar eða veiðar bregðast um stundarsakir af öðrum ástæðum.  Sumir framleiðendur gera samninga við kollega sem eru staddir á öðrum veðursvæðum um sameiginlega afhendingu.  T.d. getur framleiðandi í Súgandafirði samið við aðila á Snæfellsnesi og annan á Reykjanesi um sameiginlega afhendingu á ferskum fiski í flug.  Líklegt er að þessir aðilar geti tryggt afhendingu þó upp komi óvæntar tafir á veiðum á einu eða tveimur svæðum.

Hér er um gríðarmikla hagsmuni Íslendinga að ræða þar sem stærri hluti viðskiptana endar í íslensku hagkerfi, og minna endar hjá milliliðum erlendis.  Einnig er verð á ferskum fiski að jafnaði hærra en á frosnum, þar sem menn neyðast til að keppa við ódýra framleiðslu frá t.d. Kína.  Þetta eru hinir raunverulegu hagsmunir þjóðarinnar í verðmætasköpun í sjávarútveg, en ekki hvaða verð fæst fyrir fiskinn á uppboðsmörkuðum í höfnum landsins.

Íslendingar eiga alls ekki að takmarka frelsi a markaði með því að neyða alla til að landa afla sínum á uppboðsmarkaði.  Einnig er varasamt að draga úr frelsi við útflutning á ferskum fiski, jafnvel þó hann sé óunninn, en ferskur fiskur á breskan markað mun ávallt skila bestu verðunum.


mbl.is Vilja að allar sjávarafurðir verði unnar á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Landið eitt kjördæmi?

KJÖRDÆMASKIPAN

Er ástæða til að breyta stjórnarskrá og gera Ísland að einu kjördæmi?  Mun það auka lýðræði og réttlæti í samfélaginu?  Núverandi stjórnarskrá gefur nokkuð svigrúm til að jafna atkvæðisrétt milli landshluta og spurning hvort ekki er nóg að gert.  Stjórnarskráin gerir ráð fyrir að hægt sé að breyta mörkum kjördæma með lagasetningu ásamt því að hnika til fjölda þingmanna í hverju kjördæmi til jöfnunar.  Að auki getur landskjörstjórn fært þingsæti milli kjördæma ef fjöldi á kjörskrá eru helmingi færri í einu kjördæmi en öðru í því skyni að jafna vægi atkvæða á landinu.  Er lýðræðinu og réttlætinu fullnægt með því?

 

JAFNT VÆGI ATKVÆÐA Í EVRÓPUSAMSTARFI

Það dytti engum í hug að jafna að fullu atkvæðavægi þjóðríkja innan ESB.  Með nýju stjórnarskránni (Lissabonsáttmálanum) var þessu jafnað nokkuð en engu að síður er Lúxemborg með 6 þingmenn á Evrópuþinginu en Þýskaland með 99.  Það jafngildir að rúmlega 83 þúsund landsmanna eru bak við hvern þingmann í Lúxemborg en 707 þúsund í Þýskalandi.  Þetta er nýleg niðurstaða sem kom í kjölfar stækkunar ESB úr 15 í 25 og síðar 27.  Ef menn hefðu komist að þeirri niðurstöðu að jafnt atkvæðamagn bak við hvern þingmann væri réttlát og sanngjarnt, væri Lúxemborg með aðeins einn þingmann.

 

Þegar bandaríska stjórnarskráin var samþykkt 1787 var tvennt ofarlega í huga höfunda; aðskilnaður þings og framkvæmdavalds og  jafna vægi fámennra fylkja gagnvart fjölmennum.  Þannig litu höfundar til mikilvægis þess að minni fylki yrðu ekki undir gagnvart þeim stærri.

 

Það má heita regla frekar en undartekning í lýðræðisríkum að tryggja réttindi þeirra sem minna mega sín og að raddir þeirra heyrist við ákvarðanatöku sem varðar grundvallar réttindi og lífsgæði.  Hægt er að spyrja sig þess hvort slík jafnaðarhugsjón sé réttlát og sanngjörn.

 

Á AÐ ENDURVEKJA TVÍSKIPTINGU ALÞINGIS?

Þær hugmyndir hafa heyrst að endurvekja tvískipt Alþingi til að verja hagsmuni landsbyggðar gagnvart því ofurvaldi höfuðborgarsvæðis sem alger jöfnun atkvæðavægis myndi hafa í för með sér ef landið yrði gert að einu kjördæmi.   Sagt hefur verið að það mætti til dæmis gera með því að efri deild þingsins væri endurvakin þar sem sætu fulltrúar landshlutanna.  En er þetta rétta leiðin?  Er ekki verið að auka flækjustigið í stjórnsýslunni.  Er þá ekki betur heima setið en af stað farið og betra að hafa kerfið einfalt og skilvirkt með einni þingdeild.

Við verðum að muna að Íslendingar eru aðeins 330 þúsund talsins.  Efri og neðri deild þingsins voru einmitt sameinaðar sínum tíma af því að ekki var talið tilefni til tvískiptingar Alþingis.  Sú ákvörðun sem er tæpra tveggja áratuga gömul, hefur lítið verið gagnrýnd síðan.

 

LANDSBYGGÐINNI VEITIR EKKI AF ÁHRIFUM SÍNUM

Landsbyggðin á sannarlega undir högg að sækja.  Atvinnulífið er víða of einhæft og einkennist af  frumframleiðslu, þar sem atvinnutækifærum hefur fækkað við aukið vægi þjónustu í hagkerfinu.  Stór hluti skatttekna landsbyggðarinnar endar í Reykjavík, enda er þar nánast öll stjórnsýsla og stærsti hluti þjónustunnar.  Á þetta hafa fræðimenn nýlega bent.   

Það væri því verið að bæta gráu ofan á svart ef íþyngja ætti landbyggðinni með því að gera landið að einu kjördæmi.  Þá fyrst myndi rödd landsbyggðarfólks hljóðna í þjóðmálaumræðunni  og áhrif þeirra á Alþingi stórlega minnka. 

Landsbyggðinni veitir ekki af þeim áhrifum sem hún hefur í dag, ef hún á að komast af í framtíðinni.  Að gera Ísland að einu kjördæmi er rothögg fyrir hinar dreifðu byggðir landsins.  Vilji menn feta þann veg þá verður sú stefnumótun að liggja fyrir.  Að það sé þjóðarvilji að leggja niður landsbyggðina.


Breytingar á stjórnarskrá

Stjórnarskrárfélagið, sem er félag áhugafólks um stjórnarskrána, hélt fund 20. október s.l. til að gefa frambjóðendum til Stjórnlagaþings tækifæri til að kynna sig og sínar áherslur.  Viðtal var á RÚV við formann félagsins að fundinum loknum þar sem hann lýsti yfir þörf á að umbylta stjórnarskránni, þar sem hún væri gömul og úr sér gengin og það sem væri öllu verra að hún væri útlensk.  Tími væri komin til að semja ,,íslenska" stjórnarskrá fyrir íslenskar aðstæður til að leysa þann pólitíska vanda sem þjóðin stæði frammi fyrir. 

Í þessu samhengi er rétt að benda á að í stjórnarskránni er að finna ákvæði um meðferð ríkisvalds, hlutverk helstu handhafa þess og samspil þeirra á milli. Enn fremur er þar lýst yfir hver réttindi borgararnir hafa í samskiptum við ríkisvaldið og hömlur lagðar við því að á þessi réttindi sé gengið.  Lýðræðið er ekki íslenskt fyrirbæri og grundvöllur valdreifingar með þrískiptu ríkisvaldi er ekki íslensk uppfinning og mannréttindakaflinn er saminn upp úr Evrópurétti.  Reyndar er stjórnarskrá okkar saminn upp úr þeirri dönsku, en Danir sömdu sína upp úr þeirri belgísku.  Það skiptir engu hvaðan gott kemur og aðalatriðið er að tryggja hófstillt ríkisvald, lýðræði og mannréttindi sem grundvöll til framfara og góðra lífskjara þjóðarinnar.

Slíkur heimóttaskapur sem formaðurinn opinberaði í þessu viðtali er ekki góður leiðavísir til breytinga á stjórnarkrá.  Gæði stjórnarskrárinnar hefur ekkert með aldur hennar að gera þó vissulega þurfi að aðlaga hana breyttum tímum geta meginhlutar hennar staðist tímans tönn.  Bandarískar stjórnarskráin er sú elsta í vestrænu lýðræðisríki, síðan 1778, og stendur vel fyrir sínu enn þann dag í dag.  Það mætti lagfæra orðalag í íslensku stjórnarskránni, einfalda það og skýra betur innihaldið með auðskildum texta.  Sníða af þá vankanta að orðalag sé óskýrt og tvírætt þannig að dómstólar þurfi að skera úr hvað átt sé við.

Rétt er að vara við því að leysa dægurmál stjórnmála með breytingu á stjórnarskrá.  Ekkert er að því að setja almenn ákvæði t.d. um nýtingu auðlinda og umgengni um náttúruna, til að tryggja hagsmuni þjóðarinnar til langs tíma.  Við getum sett ákvæði um yfirráð þjóðarinnar á auðlindum og náttúrvernd í stjórnarskrá, en slíkt má ekki koma í veg fyrir skynsamlega og arðbæra nýtingu auðlinda.

Stjórnarskráin þarf að vera hafin yfir átök stjórnmálanna, en lög og reglur sem sett eru af Alþingi og framkvæmdavaldi endurspegla þá pólitísku vinda sem blása hverju sinni.  Stjórnarskráin á hinsvegar að lýsa þeim leikreglum sem stjórnvöld verða að fylgja við setningu laga og reglugerða.   

Stjórnarskráin er kjölfesta samfélagsins og hornsteinn skipulags ríkisins sem tryggir lýðræðislega stjórnarhætti og kemur í veg fyrir lagasetningu sem gengur gegn borgaralegum réttindum þegnana.  Um hana á að vera breið samstaða þjóðarinnar þar sem einfaldur meirihluti þvingar ekki breytingar í gegn til að ná pólitískum markmiðum sínum.  Stjórnarskráin fjallar um; stjórnarformið og grundvöll stjórnskipunarinnar, forseta og framkvæmdarvald, alþingiskosningar,  Alþingi, dómstólana, þjóðkirkjuna og trúfrelsi og mannréttindi.  Við getum endurraðað efnisþáttum og aðlagað stjórnarskrá að breyttum tímum með skýrara orðalagi, en við hróflum ekki við henni til að leysa dægurmál stjórnmálanna.  Stígum varlega til jarðar í breytingum á stjórnarskrá.

 


Beint lýðræði

Aukin krafa hefur orðið í lýðræðisríkjum um beina aðkomu íbúa að ákvörðunum (beint lýðræði) og fara þannig fram hjá kjörnum fulltrúum sínum (fulltrúa lýðræði).  Slíkt myndi veita stjórnmálamönnum aukið aðhald og kæmi í veg fyrir að teknar séu ákvarðanir sem gengu gegn hagsmunum og vilja þjóðarinnar.  Ef ákveðið hlutfall kosningabærra manna, t.d. 25% gætu krafist þjóðaratkvæðagreiðslu, myndu stjórnvöld hugsa sig um áður en mál væru þvinguð í gegnum þingið, eins og gerðist með IceSave málið 2009.  Þannig yrði málskotsréttur forsetans óþarfur þar sem þjóðin sjálf gæti gripið til sinna ráða, án milligöngu hans.  Hér þarf hinsvegar að skilgreina þau mál sem alls ekki henta til þjóðaratkvæðagreiðslu, s.s. frumvörp um fjárlög og skattamál. 

Einnig þarf að huga að samþykktarþröskuldum við þjóðaratkvæðagreiðslu, en í sumum löndum er niðurstaða aðeins ráðgefandi ef þátttaka er undir 50% kosningabærra manna.  Rétt er að geta þess að Feneyjanefnd Evrópuráðsins hefur talið að samþykkisþröskuldar séu æskilegri en þátttökuþröskuldar vegna þess hætt er við að kjósendur séu hvattir til að

sitja heima til þess að ógilda kosninguna.

Í Danmörku er ákvæði í stjórnarskrá um að þriðjungur þingmanna geti vísað málum til þjóðaratkvæðagreiðslu.  Fari málið fyrri þjóðina þarf þátttöku 30% atkvæðabærra manna en einfaldur meirihluti ræður þar úrslitum.  Það er umhugsunarvert hvort slíkt ákvæði henti Íslendingum, sem stunda meiri átakapólitík en frændur þeirra Danir.  Hætt er við að alþingismenn myndu misnota þetta vald og nægilegt að færa það til þjóðarinnar sjálfrar.

Tækni nútímans getur gert framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu miklu auðveldari og ódýrari.  Spurning er hvort hægt er nota tölvutækni við atkvæðagreiðslu, en nánast allir landsmenn hafa aðgang að tölvu og netsambandi.

Það er trú mín að aukið grasrótarstarf í stjórnmálum sé árangursríkast í að bæta lýðræði og eftirlit með ríkisvaldinu.  Til þess að það blómstri þarf að tryggja upplýsingar til kjósenda, sem síðan geta tekið málið í sínar hendur ef þurfa þykir.  Ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslu í stjórnarskrá gæti einmitt verið vopnið sem almenningur þarf til að tryggja upplýsingaflæði og veita stjórnvöldum aðhald og tryggja hófsamt ríkisvald.


Tilgangur stjórnarskrár

Breytingar á stjórnarskrá

Stjórnarskrárfélagið, sem er félag áhugafólks um stjórnarskrána, hélt fund 20. október s.l. til að gefa frambjóðendum til Stjórnlagaþings tækifæri til að kynna sig og sínar áherslur.  Viðtal var á RÚV við formann félagsins að fundinum loknum þar sem hann lýsti yfir þörf á að umbylta stjórnarskránni, þar sem hún væri gömul og úr sér gengin og það sem væri öllu verra að hún væri útlensk.  Tími væri komin til að semja ,,íslenska" stjórnarskrá fyrir íslenskar aðstæður til að leysa þann pólitíska vanda sem þjóðin stæði frammi fyrir. 

Í þessu samhengi er rétt að benda á að í stjórnarskránni er að finna ákvæði um meðferð ríkisvalds, hlutverk helstu handhafa þess og samspil þeirra á milli. Enn fremur er þar lýst yfir hver réttindi borgararnir hafa í samskiptum við ríkisvaldið og hömlur lagðar við því að á þessi réttindi sé gengið.  Lýðræðið er ekki íslenskt fyrirbæri og grundvöllur valdreifingar með þrískiptu ríkisvaldi er ekki íslensk uppfinning og mannréttindakaflinn er saminn upp úr Evrópurétti.  Reyndar er stjórnarskrá okkar saminn upp úr þeirri dönsku, en Danir sömdu sína upp úr þeirri belgísku.  Það skiptir engu hvaðan gott kemur og aðalatriðið er að tryggja hófstillt ríkisvald, lýðræði og mannréttindi sem grundvöll til framfara og góðra lífskjara þjóðarinnar.

Slíkur heimóttaskapur sem formaðurinn opinberaði í þessu viðtali er ekki góður leiðavísir til breytinga á stjórnarkrá.  Gæði stjórnarskrárinnar hefur ekkert með aldur hennar að gera þó vissulega þurfi að aðlaga hana breyttum tímum geta meginhlutar hennar staðist tímans tönn.  Bandarískar stjórnarskráin er sú elsta í vestrænu lýðræðisríki, síðan 1778, og stendur vel fyrir sínu enn þann dag í dag.  Það mætti lagfæra orðalag í íslensku stjórnarskránni, einfalda það og skýra betur innihaldið með auðskildum texta.  Sníða af þá vankanta að orðalag sé óskýrt og tvírætt þannig að dómstólar þurfi að skera úr hvað átt sé við.

Rétt er að vara við því að leysa dægurmál stjórnmála með breytingu á stjórnarskrá.  Ekkert er að því að setja almenn ákvæði t.d. um nýtingu auðlinda og umgengni um náttúruna, til að tryggja hagsmuni þjóðarinnar til langs tíma.  Við getum sett ákvæði um yfirráð þjóðarinnar á auðlindum og náttúrvernd í stjórnarskrá, en slíkt má ekki koma í veg fyrir skynsamlega og arðbæra nýtingu auðlinda.

Stjórnarskráin þarf að vera hafin yfir átök stjórnmálanna, en lög og reglur sem sett eru af Alþingi og framkvæmdavaldi endurspegla þá pólitísku vinda sem blása hverju sinni.  Stjórnarskráin á hinsvegar að lýsa þeim leikreglum sem stjórnvöld verða að fylgja við setningu laga og reglugerða.   

Stjórnarskráin er kjölfesta samfélagsins og hornsteinn skipulags ríkisins sem tryggir lýðræðislega stjórnarhætti og kemur í veg fyrir lagasetningu sem gengur gegn borgaralegum réttindum þegnana.  Um hana á að vera breið samstaða þjóðarinnar þar sem einfaldur meirihluti þvingar ekki breytingar í gegn til að ná pólitískum markmiðum sínum.  Stjórnarskráin fjallar um; stjórnarformið og grundvöll stjórnskipunarinnar, forseta og framkvæmdarvald, alþingiskosningar,  Alþingi, dómstólana, þjóðkirkjuna og trúfrelsi og mannréttindi.  Við getum endurraðað efnisþáttum og aðlagað stjórnarskrá að breyttum tímum með skýrara orðalagi, en við hróflum ekki við henni til að leysa dægurmál stjórnmálanna.  Stígum varlega til jarðar í breytingum á stjórnarskrá.

 


Stígum varlega til jarðar í breytingu á stjórnarskrá

Stígum varlega til jarðar í breytingu á stjórnarskránni

Markmið stjórnarskrárinnar er að endurspegla þjóðarvilja ásamt því að skapa umgjörð fyrir góð lífskjör íbúanna og tryggja mannréttindi með hófstilltu ríkisvaldi.

Stjórnarskráin er kjölfesta samfélagsins og hornsteinn skipulags ríkisins sem tryggir lýðræðislega stjórnarhætti og kemur í veg fyrir lagasetningu sem gengur gegn borgaralegum réttindum þegnana.  Stjórnarskránni á ekki að hrófla við nema til þess séu ærnar ástæður og rétt að breytingar á henni séu vel ígrundaðar og hófstilltar.  Það á ekki að breyta henni af því að hún sé ,,dönsk" eða gömul eða vegna pólitískra væringa í augnablikinu.  En þarf að breyta stjórnarskránni?  Svarið er hiklaust já en rétt að menn komi sér saman um það fyrst hverju þurfi að breyta og hvers vegna. 

Beint lýðræði

Aukin krafa hefur orðið í lýðræðisríkjum um beina aðkomu íbúa að ákvörðunum (beint lýðræði) og fara þannig fram hjá kjörnum fulltrúum sínum (fulltrúa lýðræði).  Það er mín skoðun að slíkt geti veitt stjórnmálamönnum aukið aðhald og komið í veg fyrir að teknar séu ákvarðanir gegn vilja þjóðarinnar.  Gott dæmi um slíkt eru slæm vinnubrögð framkvæmdavaldsins í IceSave samningnum. 

Setja þarf reglur þar sem ákveðið hlutfall kosningarbærra manna geta krafist þjóðaratkvæðagreiðslu, sem myndi gera málskotsrétt forseta óþarfan.  Setja þarf reglur um samþykktaskilyrði og eins að undanskilja mál sem ekki henta í þjóðaratkvæði, s.s. fjárlög og skattamál.  Hér er um grundvallarrétt þegnanna að ræða og því full ástæða til að taka slíkar reglur inn í stjórnarskrá.

Valdsvið forseta

Miklar umræður hafa verið um valdsvið forsetans, sérstaklega hvað varðar synjunarvald hans til staðfestingar á lögum frá Alþingi og málsskotsrétt til þjóðarinnar.  Fræðimönnum  ber ekki saman um hvernig beri að túlka 26. grein stjórnarskrá og ríkir því óvissa um þetta mikilvæga mál í stjórnskipun lýðveldisins.  Þessi mál hafa valdið miklum deilum í samfélaginu og nauðsynlegt að setja skýrari ákvæði um valdsvið forseta.  Rétt er að benda á skort á leiðbeiningum í stjórnarskrá um myndun ríkisstjórnar og reyndar ekki minnst á lykilhlutverk hennar í stjórnskipuninni og stjórnarskráin hafi ekki fylgt þeirri þróun sem átt hefur sér stað s.l. öld.

Þrískipting valdsins

Þrískipting valdsins í; löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald er grundvöllur íslenskrar stjórnskipunar.  Töluverður styr hefur staðið um mörkin þarna á milli,  sérstaklega milli löggjafarvalds og framkvæmdavalds og talað er um ,,virðingu" Alþingis í því samhengi, þar sem margir telja að framkvæmdavaldið sýni Alþingi oft á tíðum yfirgang.  Mörg dæmi eru um pólitísk átök vegna þessa á undanförnum árum.  Einnig hefur verið bent á að flest frumvörp til Alþingis komi frá ráðherrum sem umfram þingmenn hafi aðgang að sérfræðingum úr sínum ráðuneytum til undirbúnings og ráðgjafar.  Það er mín skoðun að engu þurfi að breyta í stjórnarskrá vegna þessa en bæta þurfi starfsumhverfi þingsins með aukinni sérfræðiaðstoð við samningu lagafrumvarpa, til að tryggja gæði þeirra og að þau samrýmist stjórnarskrá. 

Landsdómur

Framkvæmd Landsdóms stenst ekki mannréttindakafla stjórnarskrár þar sem ,,sakborningur" nýtur ekki sjálfsagðra mannréttinda eins og stöðu sakbornings við rannsókn máls og spurning um aðlögun að reglum almenna dómskerfisins.  Greina þarf á milli hinnar pólitísku og lagalegu ábyrgðar ráðherra.  Það er bein ógn við lýðræðið ef ráðherrar eru saksóttir fyrir pólitíska stefnu eða stefnuleysi.

Þjóðkirkjan

Umræða hefur verið um þjóðkirkjuna þar sem á togast frelsi einstaklinga til trúariðkunar og mikilvægi kristilegrar menningararfleifðar fyrir samfélagið.  Þrátt fyrir trúleysi er ég mjög íhaldsarmur í þessum málum og tel að hlúa þurfi að sameiginlegu gildismati þjóðarinnar sem hornstein siðvöndunar.  62 grein stjórnarskrárinnar má standa óbreytt en draga má úr afskiptum ríkisins og fjárhagslegum stuðningi við lútersku kirkjuna með breytingu á lögum.  Stjórnarskráin tryggir að öðru leyti trúfrelsi í landinu.

Umhverfis- og auðlindamál

Ég er til umræðu um að taka þessa mikilvægu málaflokka inn í stjórnarskrána.  Það verður þó að vera almennt orðalag þar sem við viljum tryggja skynsamlega nýtingu auðlinda í þágu þjóðarinnar og ekki sé gengið á náttúru landsins á kostnað komandi kynslóða.  Ekki má nota stjórnarskrána til að leysa þau dægurmál sem uppi eru í samfélaginu.  Við höfum löggjöf sem á að tryggja þau meginmarkmið sem hér eru nefnd og þeim á að breyta ef þjóðarvilji er til þess.

Að lokum

Ég vil standa vörð um stjórnarskrána og koma í veg fyrir að ráðist sé í breytingar á henni vegna pólitískra dægurmála.  Stjórnarskráin er kjölfesta lýðræðis og lýðræðið tryggir síðan að henni sé fylgt.  Stjórnarskrá án lýðræðis er marklaust plagg.  Við þurfum því ekki síður að tryggja að stjórnarskráin sé það sem hún stendur fyrir og henni sé fylgt í stjórnskipun og lagasetningu.  Lýðræði og þátttaka almennings í stjórnmálum tryggir það best.  Stígum varlega til jarðar í breytingum á stjórnarskránni.


Í Austurdal - Dagur 3

sunnudagsmorgun.jpgEnn fagnaði okkur fagur dagur með stillu, heiðskýru og sól í fjallsbrúnum.  Sannkallaður sunnudagur.  Það var um fjögurra gráðu frost og sindraði á hrímhvíta fjallstinda þar sem döggin frá deginum áður hafði Þéttst og frosið.  Það var létt yfir mannskapnum eftir morgunverkin og ekkert að vanbúnaði að leggja á hestana og drífa sig í göngur.

Fjallakóngurinn, Stebbi á Keldulandi, skipti liði og gaf fyrirskipanir um leitar dagsins.  Dagskipun mín var að smala Tinnárdal ásamt Gísla Rúnari og Bjarna Maronssyni og var lítið stoppað fyrr en komið var að ármótum þar sem Tinnáin mætir Austari- jökulsá.

Við riðum norðan megin árinnar og áttum stutt stopp við bæjarrústir í dalsmynni.  Það er um margt að spjalla og forvitnast um hagi samferðamanna sem ekki hafa þekkst áður.  Maður er vegin og metinn og spurður um menn og málefni og getur ráðið um hvort vinskapur verður varanlegur eða ekki.  Menn hafa mismunandi gildismat og lífsviðhorf en ekki er það nú pólitíkin sem ræður dilkadrætti á slíkum samkomum.  Frekar viðhorf til manna og málleysingja, lundarfarið og húmorinn.

go_ir_saman.jpgEn áfram var haldið fram dalinn og nú versnuðu aðstæður með bröttum hryggjum og leggjabrjótum.  Oft var stigið af baki til að létta á hestunum yfir verstu ófærurnar, en fljótlega sáum við fyrstu kindurnar í ferðinni.  Þar var ákveðið að binda hestana og við Gísli Rúnar fórum gangandi fram dalinn en Bjarni ætlaði að smala saman þeim skjátum sem þarna voru, en sumar hverjar voru langt upp í klettum.

Hvað dregur kindur upp í kletta er kaupstaðarbúanum hulin ráðgáta svo spurningin er látin vaða þó hún opinberi þekkingarleysi í sauðfjárrækt.  Jú þannig er það að ljúfustu og safaríkustu nýgræðingarnir vaxa oft í klettum og kringum urðarskriður.  Það er eins og við mannfólkið þekkjum að það sem er eftirsóknarvert er oft erfitt að nálgast.  Ég held að Austurdalurinn baðaður sólskyni á fögrum haustdegi, með sína hrímhvítu kletta hafi verið minn nýgræðingur í klettabelti.  Ferð með einkaþotu og gistingu á Savoy hótelinu í London ásamt kvöldverði á dýrasta veitingastað þar sem vínið kostar hálfa milljón flaskan, var sem hjóm við hliðina á því sem ég nú upplifði.  Ekkert í veröldinni gat jafnast á við þessa tilfinningu sem hríslaðist um hverja taug þannig að brosið bókstaflega braust fram með kiprum í kinnum.  ,,Ef þú stendur við sjóinn kyrran sumardag og horfir á skýin speglast í djúpinu; eða liggur í grænum hvammi um jónsmessubil og það líður lækur framhjá; eða þú geingur í sinunni á árbakkanum fyrir sumarál og heyrir fyrstu helsíngjana gella, - finnurðu þá ekkert sértakt?" (H.K.L. Heimsljós)

Áð í mynni TinnárdalsEn nú tók alvaran við og við Gísli paufuðumst fram dalinn í leit að kindum.  Handan Tinnár töldum við yfir 25 hesta í stóð sem er í eigu Steppa á Keldulandi.  Þeim er smalað í lok október, í kringum fyrsta vetrardag, ásamt eftirleit að fé.  Hér var gangan orðin nokkuð strembin og rétt að gæta sín og kunna fótum sínum forráð.  Við sáum nokkrar kindur í viðbót og það vakti athygli mína hversu hvítar og hreinar þær voru.  Það rifjaðist upp frá göngu minni í júlíbyrjun að samferðarfólk mitt þá hafði einmitt orð á þessu.  Þetta hafði ekkert með birtu dagsins að gera né þeim hughrifum sem umhverfið olli mér í augnablikinu.  Kindurnar eru bara ótrúlega hvítar og fallegar í Austurdal.

Við gengum hratt upp með Tinná þar til við náðum síðasta leiti og sáum fram í endarana Tinnárdals.  Gengum úr skugga um að engin kind væri eftir áður en við snérum við til Bjarna; og nú hófst reksturinn. 

Við komum með tíu kindur úr Tinnárdal og fjórar bættust við handan ár úr suðurhlíðum dalsins, en þar smöluðu Magnús og Þórólfur.  Við mættum fjallakónginum og Gísla Frostasyni á sitthvorum bílnum þegar komið var niður á engin neðan við dalinn.  Þeir höfðu komið auga á kindur sem farið hafði framhjá smalamönnum og því ekkert annað að gera fyrir þLétt yfir mönnum í Ábæjarréttá félaga Magnús og Þórólf en ríða til baka og sækja þær.

Við Gísli Rúnar rákum hinsvegar féð áfram og fyrsti áfangastaður var Ábær.  Bílarnir komu hummandi á eftir og reglulega buðu bílstjórarnir reiðmönnum upp á hressingu.  Þegar við komum seinnipart dags niður á Ábæjarrétt var ákveðið að borða miðdegisverð og bíða eftir öðrum smalamönnum áður en haldið yrði áfram niður að Merkigili þar sem áð yrði um nóttina.Áð í Ábæjarrétt

Það kom berlega í ljós að við Vestfirðingarnir kunnum ekki að útbúa okkur í svona ferð.  Nestið sem við smurðum í Bjarnabúð og settum í plastpoka var orðið að grautarmylsnu.  Svona bland í poka þar sem brauðið, rúgkökurnar, hangikjötið og lifrakæfan ægði öllu saman og maður veiddi þetta upp með fingurgómunum.  Á sama tíma voru heimamenn með sitt kælibox á bílnum, með sviðakjamma, rófustöppu, hangiket með kartöflumús og heitan uppstúf á hitabrúsa.  Ég horfði löngunaraugum á samferðamenn mína um leið og ég stakk hendinni niður í Olíspokann og náði kuski úr honum og tróð upp í mig.  Þannig er mál með vexti að ég bý við mikla verkaskiptingu í mínu hjónabandi.  Ég sé um smíðar, skúringar og uppvask en konan um að strauja, sauma og nota bene; smyrja nesti.

Þórólfur lagar beisliðÞað var frost í dalnum þetta síðdegi og því kominn hrollur í mannskapinn þegar riðið var saman úr Ábæjarrétt.  Það tók nokkurn tíma að koma kindunum yfir ána sem rennur niður með réttinni en þær skirrtust við að halda út í vatnið.  Einn lambhrútur tryllst og rann alla leið niður að jökulánni og stökk út í.  Við horfðum á Austari- jökulsá hrífa hann niður strauminn þar til hann hvarf okkur sjónum og möguleiki hrútsins í þessari baráttu var nánast engin.

Við rákum kindurnar hægt og höfðu heimamenn miklar áhyggjur af ákafa Vestfiringa i rekstrinum.  Rollurnar voru spikfeitar eftir ofgnótt Austurdals og máttu alls ekki við því að renna hratt niður dalinn.  En skyndilega tók ein á rás, ásamt lambi, og stefndi niður að árgljúfrum jökulsár.  Ekki var tauti við hana komandi, en greinilegt var á ullinni að hún hafði gengið úti að minnsta kosti einn vetur.  Þetta var villidýr!

Ég reið vini mínum Vatnarauð þegar hér var komið sögu.  Eins og hugur manns lét hann fullkomlega að stjórn og öll átján árin ásamt ótal svaðilförum um Austurdal virtust ekkert hafa markað þennan gæðing.  Við eltum rolluskjátuna niður á brún gljúfursins og án þess að hika lét hún sig vaða niður snarbratt klettabeltið.  Hér stoppaði Vatnarauður og neitaði að elta þrátt fyrir að ég væri farinn af baki og teymdi hann.  Ég sagði við hann rólega að varla gæti hann verið minni maður en kindarskömmin, og með sínar fjórar fætur hefði hann mikið framyfir mig í þessi átök.  Hann hló við og benti mér á við þessar aðstæður reyndust hendur betur en hófar, en kindin hefði þó klaufir.

Ég hlaut að fallast á þessi rök Vatnarauðs og losaði tauminn öðru megin, tók af mér hjálminn og setti í hann stein og notaði til festu.  Síðan skrölti niður í gljúfrið eftir villidýrinu.  Hér skildi ekki gefist upp og nú gæti ég sýnt þessum Skagfirðingum hvað byggi í Hornstrending.

Útilegurkindur á gnípuÉg paufaðist eftir kindunum og reyndi að reka þær upp á brún en þess í stað náðu þær að snúa við og stefndu upp með ánni.  Ég náði þeim eitt sinn standandi fram á gnípu með þverhnípi allt í kring og taldi mig þá hafa töglin og hagldirnar í baráttunni. (sjá mynd)  Ég náði að rífa í ullina á útilegukindinni og augnablik horfði ég í tryllt augu hennar.  Þessi kind ætlaði ekki að gefast upp og reif sig lausa og þeyttist yfir mig og stefndi áfram upp með Austari- jökulsá.

Það var farið að rökkva en ég sá þó móta fyrir félögum mínum á brúninni þar sem þeir báru við himinn í þverrandi birtu.  Þeir gáfu mér merki um að koma og þegar þangað kom var mér sagt að láta þetta eiga sig.  Þetta væri vonlaus barátta og nota þyrfti aðrar aðferðir við þessar aðstæður.  Mér varð hugsað til smölunar í Tálkna og áttaði mig á í hversu vonlausri stöðu ég hafði verið í þessu stríði.

Það var ægifagurt að líta um öxl og horfa fram Austurdal á leiðinni niður að Merkigili.  Það var komið myrkur þegar þangað kom og töluvert frost.  En móttökurnar voru hlýjar í bænum þar sem ilmur af steiktu lambakjöti kitlaði vitin.  Það er hefð fyrir því að íbúar Merkigils bjóða gangamönnum til veislu og gistingar þegar áð er á leið niður að Keldulandi úr smölun, sem er áfangastaður rekstursins.  Veislan tók öllu fram og boðið upp á kaffi á eftir.  Hér myndu skilja leiðir þar sem við Einar höfðum ekki tíma til að klára reksturinn niður að Keldulandi, enda nægur mannskapur til þess án okkar.  Okkur var því skutlað niður í VarmahlíFjallakóngurinn Stebbi í Keldulandið þar sem við áttum bókað á hóteli, og komum þangað undir miðnætti.

Áður en við runnum inn í draumalandið áttuðum við okkur á því að heimurinn hafði snúist í tæpa þrjá sólarhringa án síma og útvarps.  Við höfðum ekki hugmynd um atburði heimsins, fyrir utan litla hópinn okkar við smalamennskuna í Austurdal.  Áður en ég sofnaði fullvissaði ég vin minn um að ekkert merkilegt hefði gerst á hans vinnustað þennan tíma.  Honum væri óhætt að koma af fjöllum þegar hann mætti þangað á mánudagsmorgun.

 

Fjarskiptin þau eru ekki okkar vandi

því alltaf hefur helgur andi

heyrt í Stebba á Keldulandi (Sig. H.)


Í Austurdal - dagur 2

Lagt í hann frá HildarseliÞað var fallegur dagur sem tók á móti okkur á laugardagsmorgun.  Ekki skýhnoðri á himni, hitinn um 0° C og héla á lynginu.  Sólin sleikti fjallstoppana en náði ekki niður í þröngan dalinn.  Austari - jökulsá lykkjaðist suðandi niður dalinn, eyðandi og mótandi af þolinmæði árþúsunda og tekur við af mætti skriðjökulsins sem áður teygði sig frá Hofsjökli til Drangeyjar.  Eftir staðgóðan morgunverð var okkur ekkert að vanbúnaði til smölunar í Austurdal.

Fyrsti áfangastaður reiðmanna var að Hjálmarsseli þar sem boðið var upp á kakala, sem heitir í höfuðið á Þórði nokkrum sem kom við sögu í Örlegstaðabardaga.  Hér hafði Bóluhjálmar sel meðan hann bjó á Ábæ, en átti í miklum átökum við nábúa sína, sem meðal annars ásökuðu hann um sauðaþjófnað.  Ein sagan er sú að Guðmundur nokkur, sem þá var hreppstjóri og nágranni Hjálmars, varð var við ferðir hans norður dalinn og ákvað að sitja fyrir honum og veita honum skráveifu við heimkomuna.  Ekki tókst honum betur til en svo að Hjálmar fór austan megin hóls en hreppstjórinn beið vestan megin og missti af bráðinni.  Í þá daga var æran tekin af mönnum af miskunnarleysi og þeim brigslað um sauðaþjófnað, og oftar en ekki að ósekju.

En ríkidæmi reiðmanna var mikið, enda Sigurður Hansen, þjóðskáld Austurdals með í för og viðeigandi í Hjálmarsseli að fara með eina stöku eftir hann um leið og kakalinn er látinn ganga:

 

Heldur fer að lifna yfir hugansþeli

og telst ei mál þó tæmist peli

við tóftirnar á Hjálmarsseli

 

_fagraskogi.jpgNæsti áfangastaður er Fagriskógur þar sem vex hávaxið sjálfsprottið birki og tilvalið að fá sér hressingu á meðan tínd voru birkifræ fyrir Landgræðsluna.  Það er gaman að ríða í gegnum skóginn sem er orðin nokkuð þéttur og var að klæðast haustbúningi þessa dagana. 

Þegar við komum að minni Hvítárdals sagði Sigurður okkur frá því er hann dvaldi hér fyrir 20 árum og vaknaði einn fagran sumarmorgun við nið Hvítárinnar.  Þá hvolfdist skáldagyðjan yfir hann og þessi vísa varð til á staðnum.

 

 

 Dalaskáldið Sigurður Hansen

Gang þú til fjalla ef leið þín er lund

og löngun og þrár eru í dvala

Það vermir þitt hjarta á viðkvæmri stund

ef vitjar þú öræfadala

 

Og háttaðu einn undir himinsins sæng

og hlustaður á þögnina tala

þar mófuglamóðirinn vermir með væng

vorgróður öræfadala

 

Gefðu þér tíma og fangaðu frið

sem fýkur með morgunsins svala

er heyrir þú svanina hefja sinn klið

af heiðabrún öræfadala

 

birkifraein_tind.jpgEn hér var hópnum skipt upp og ég sendur ásamt Sigga Hansen og Guðmundi syni hans til að smala Hvítárdal.  Í fyrstu þurfti að ríða upp hálsinn vestan við dalinn, og nauðsynlegt að létta á hestunum upp mestu brekkurnar og rölta með þeim.  En dalinn sjálfan þarf að fara fótgangandi og tók Siggi við taumnum hjá mér og ég skondraði niður brattar en grónar hlíðar Hvítárdals.

Veðrið var óskaplega fallegt, glampandi sól og logn og ég settist á árbakkann og hlustaði á niðinn í Hvítá þegar hún spilaði á sína hundrað strengja hörpu.  Það hvolfdist yfir mig höfgi og áður en ég vissi var ég lagstur í mosann og sökk í meðvitundarlausan fastan svefn.  Þetta á ekki að vera hægt og er í fyrsta sinn í yfir 20 ár sem ég hef getað lagt mig um miðjan dag.  Mér hafði verið sagt að ekkert lægi á og ég skyldi taka tímann minn í Hvítárdal og þau heilræði greinilega móttekin.

ri_i_upp_halsin.jpgÉg vaknaði ekki fyrr en eftir rúman hálftíma og án þess að opna augun, hlustaði ég á suðið í Hvítá og hafði ekki hugmynd um stund né stað.  Ég kom algerlega af fjöllum og vissi ekkert hvar ég var staddur, né hvaða ljúfu tónar höfðu laðað mig til meðvitundar.  Ég harkaði af mér og lyfti lokum og horfið upp í heiðan himinn og skondraði þeim svo um sólbaðaðar hlíðar dalsins.  Ef þetta var himnaríki þá var ég í góðum málum!

En veruleikinn skilaði sér og ekki var hann slæmur.  Sennilega hafði kakalinn hans Sigga hjálpað til að flýja vit og veruleika á náðir svefnsins en endurkoman var góð og ekkert annað að gera en drífa sig á fætur og leita að kindum.  Sem betur fer voru þær engar í dalnum en hann þykir erfiður til smölunar.  Þarna er mikið af leggjabrjótum og snarbrattar hlíðar á báða vegu sem rollurnar eiga til að hlaupa uppí.

stornarfundur_i_austurdalsfelaginu.jpgSiggi hafði sagt mér að fara alls ekki alla leið niður í mynni dalsins, þar sem tækju við ófærur.  Ég ætti að stefna upp vesturhlíðina áður en þangað kæmi.  Ég skundaði hratt upp brattann og á brúninni lagðist ég til hvíldar að öðru sinni þennan dag.  Það leið ekki á löngu þar til ég heyrði köll og félagi minn orðin áhyggjufullur yfir seinlegri endurkomu minni og bíðandi með hestinn tilbúinn.  Það var ekki erfitt að útskýra fyrir Sigurði Hansen að ég hafi gefið mér tíma til að fanga öræfafrið og hlustað á þögnina tala.

Engin kind hafði fundist á þessu slóðum og því fóru leitarmenn því fjárvana heim að Hildarseli.  Við komum í hlað fyrir rökkur og sprettum af hestunum og nú var undirritaður gerður ábyrgur fyrir kvöldmatnum, sem var kjötsúpa.  Félagar okkar sem farið höfðu upp fyrir Fossá skiluðu sér í myrkri og nú var glatt á hjalla í Hildarseli.  Sungið, farið með vísur og endalausar sögur flugu milli manna.  Ósköp vorum við Einar Kristinn ánægðir með uppátæki sveitunga okkar fyrr og síðar sem verða tilefni til sagna seinna meir í góðra vina hópi.  Vestfirðingum er nú ekki alls varnað þegar kemur að uppátækjum og skemmtilegheitum og sögurnar blönduðust vel við Skagfirskar frásagnir.

aldursforseti_fagnar_nyli_anum.jpgUm kvöldið var haldin stjórnarfundur í Austurdalsfélaginu og við Einar teknir formlega inn sem gildir limir.  Formfesta var mikil á fundinum þó vísur fengju að fljúga milli dagskráliða.  Búið var að reyna okkur félagana við leitar og stóðumst við allar kröfur sem gerðar eru til meðlima.  Undirritaður er mikill jafnréttissinni en rétt er þó að hér komi fram að þetta var staður og stund fyrir karlmennsku.  Ekkert rúm fyrir svo mikið sem umræðu um annað og hefðu Clint Eastwood og Charlton Heston sómt sér vel í hópnum, en Merlin Monroe hefði ekki átt nokkurt erindi í Hildarsel þetta kvöld.

 

Hér verður ein vísa eftir Sigurð dalaskáld látin fylgja með:

 Viskíflaskan virðist mér

veraldlegur auður

loks þá henni lokið er

liggur maður dauður

 

En haldi menn að Austurdalurinn hafi tjaldað öllu sem til var í fegurð og rómantík fram að þessu, skjöplast þeim heldur betur.  Komið var frost í heiðskýrunni og stjörnur blikuðu á lofti.  Allt í einu teygði máninn sig upp yfir fjallsbrúnina í vestri.  Ekki veit ég hvort það var eitthvað sem hann sá eða heyrði en allavega fór hann bara hálfa leið og dró sig síðan til baka og hvarf.  En Karlsvagninn benti okkur á Pólstjörnuna í norðri og uppljómaður Júpíter heilsaði gildum limi Austurdalsfélagsins.


Ævintýri í Austudal - dagur 1

Það hafði gerst í júlíbyrjun í skála sleðamanna í Laugafelli, norðan Hofsjökuls, að eftir söng og gleði að lokinni frækinni för Hallgríms Bláskógs suður Austurdal í Skagafirði, vorum við Einar Kristinn vinur minn undir sterkum áhrifum af dalnum og fegurð hans.  Svo römm var sú taug sem tengdi okkur við þennan fjalladal að við notfærðum aðstöðu okkar og króuðum farastjórann okkar, Gísla Rúnar, sem er einn af forvígismönnum Austurdalsfélasins.  Til að gerast gildur limur í þeim félagsskap verður maður að fara í göngur í Austurdal og höfðu margar góðar sögur flogið frá Gísla úr slíkum ferðum þarna um kvöldið.

KeldulandVið stundum upp erindinu við Gísla Rúnar sem tók beðni okkar vel og sagðist mundi bera þetta upp á næsta fundi félagsins seinna um sumarið þegar göngur í dalinn yrðu skipulagðar.

Það var síðan í águst að afliðnum slætti að boð bárust úr Skagafirði um að við Austurdalsmenn væru tilbúnir að taka okkur i prufugöngu þann 17. september n.k.

Við lögðum snemma af stað í Skagafjörðinn þann 16. september, annar úr suðri en hinn úr norðri, og veðrið skartaði sínu fegursta.  Við byrjuðum á að fara á Krókinn til að afla vista og að sjálfsögðu í Verslun Haraldar Júlíussonar þar sem við hittum fyrir Bjarna Haralds, móðurbróður Einars og eiganda verslunarinnar.  Kaupfélagið á Sauðárkróki hefur verið helsti keppinautur Bjarna í gegnum tíðina og því gátum við ekki gert honum það að versla við framsóknarfélagið.  Einar hafði tekið kæfu og hangiket að sunnan í nesti, en brauðið fékkst handan götunnar en allt annað í verslun H.J.

Í MerkigiliÞað er gaman að koma í verslunina og endalaust hægt að skoða það sem til sölu er.  Slóvenskir gúmískór, kveikir í olíuluktir, kaffi  kex og nánast allt nema kælivara.  Verslunin er jafnframt elsta umboð Olís á Íslandi.   Við skruppum inn í eldhús til húsfreyjunnar til að smyrja nesti fyrir Austurdalsferðina en Bjarni lokaði búðinni á slaginu tólf og bauð okkur til stofu í hádegisverð.  Við vorum sammála um að þjóðfélagsumræðan væri á lægstu nótum þessa dagana og samþykktum því að slökkva á útvarpinu og nota tímann við notalegt spjall.  Þetta var á föstudegi og ekki óraði okkur Einar fyrir því að næsti fréttatími sem byðist yrði á mánudagsmorgni.

Við nutum félagskaparins og ræddum landsins gagn og nauðsynjar og áður en við vissum af var klukkan orðin eitt og Bjarni þurfti að opna fyrir viðskiptavinum sem nú streymdu í verslunina til innkaupa.

Riðið úr MerkigiliVið lögðum af stað upp í sveit fljótlega upp úr hádegi, en um klukkutíma akstur er upp í dal þar sem smalaferðin hófs, hjá Stefáni Hrólfssyni í Keldulandi.  Mér leið eins og ég væri að hitta Charlton Heston eða Clint Eastwood, að hitta frægan leikara eins og Stebba.  Reyndar hefur hann bara leikið sjálfan sig í kvikmynd um Austurdal, en það er engu að síður mjög merkilegt.  Karlinn hefur ótrúlega smitandi hlátur og þrátt fyrir sín 82 ár er hann léttur og hress og í hans huga eru vandamál ekki til heldur bara skemmtilegar lausnir á verkefnum.

Okkur var strax boðið inn í eldhús þar sem rjúkandi kaffikanna stóð og skenkt var í kaffifantana.  Fljótlega fjölgaði í eldhúsinu og þarna voru mættir Siggi Hansen, Guðmundur sonur hans, Þórólfur, Bjarni, Gísli Rúnar, Gísli Frostason, Sigurður frá Réttarholti, Magnús ásamt fjallakónginum sjálfum Stebba í Keldulandi.  Ekki leið á löngu þar til boðið var upp á skvettu af Kristal út í kaffið, enda þykir sá góði drykkur liðka menn á hestbaki, en hestastóðið beið okkar tilbúið í gerðinu við bæinn.  Þarna fuku fyrstu sögurnar og hlátrarsköllin, sem áttu eftir að einkenna ferðina, fengu tárin til að renna og vísur flugu af vörum Skagfirðinganna.

En nú var allt reiðubúið vi_gjorningur_i_merkigili.jpgog þegar lagt hafði verið á hesta og þeir beislaðir, hurfum við félagarnir með jóreyk áleiðs að fyrsta áfangastað smalamennskunnar, Merkigili.  Reyndar var fljótlega áð á leiðinni þar sem hrossin voru rekin í rétt á meðan lífsblómið var vökvað og fleiri sögur sagðar.  Þótt við norðanmenn kæmumst ekki með tærnar þar sem Skagfirðingarnir höfðu hælana í sögum og kveðskap, er við því að búast að alvörugefnir Vestfirðingar gæfu samræðunum nýjan blæ og gerðum samferðarmenn okkar forvitna um athafnir og uppátæki sveitunga okkar sem við kunnum af sögur.  Kannski það hafi verið mynni Austurdalsins sem tók svona vel á móti okkur, umvafði og örvaði okkur til sagna þar sem við létum gamminn geysa í glensi og gríni, ölvaðir af fegurð og veðurblíðu andartaksins.

Mér fannst mér fara fram á hestbaki við hvert stopp.  Það var mjög gott fyrir sjálfstraustið, sem var illilega laskað eftir snautleg afrek sumarsins í golfíþróttinni.  En hér virtist ég vera á heimavelli og hver taug var tengd við hestinn sem lét fullkomlega að stjórn minni.  Hér hafði ég töglin og hagldirnar og vellíðan streymdi um hverja taug við notalegar hreyfingar hestsins.

Við ÁbæjarréttMónika Helgadóttir, sem Guðmundur Hagalín skrifaði bókina ,,Konan í dalnum og dæturnar sjö" bjó að Merkigili.  Gilið sjálft er nokkuð neðar í dalnum og er yfir það að fara á leið leið upp í dalinn.  Fyrir nokkrum árum fórst í gilinu hjálparhella Móniku og bústjóri Merkigils, en hann rann á klaka fram af hömrum niður í gilið.  Hann hét Helgi og er hann jarðsettur í kirkjunni við Ábæ ofar í dalnum.

En gilið er hættulaust yfirferðar að sumri til og leiddum við hestana niður í gilið þar sem menn hvíldu lúin bein og léttu á pelunum áður en haldið var upp á bakkann sunnaverðan.  Eftir skamman reiðtíma komum við heim að Merkigili þar sem heimilisfólkið tók vel á móti okkur.  Húsfreyjan bauð til stofu þar sem boðið var upp á hressingu, kaffi og fleira ásamt ilmandi kjötsúpu.  Eftir frábæran viðgjörning í Merkigili var haldið af stað óþreyttum hestum og fékk ég goðsagnakenndan hest undir mig sem heitir Vatnarauður.  Vatnarauður er átján ára gamall og hefur marga hildi háð í Austurdal og gæti sagt margar sögur væru honum gefið mál.  Þrátt fyrir háan aldur var Vatnarauður viljugur og sætti sig ekki við neitt annað en vera fyrstur.  Ef einhver nálgaðist aftan að okkur bætti hann við sprettinn til að halda forystunni.  Svei mér þá ef okkur varð ekki vel til vina og fyndum ýmislegt sameiginlegt í okkar fari.

VatnarauðurÞegar við komum í Ábæ var farið að rökkva og dalurinn sýndi allt sitt fegursta.  Himinn bókstaflega logaði í vestri og mynni dalsins í norðri, sem minnti á konuskaut, var eins og tendrað með skæru ljósi.  Við stóðum bergnumdir við gömlu réttina í Ábæ og horfðum á þessi undur náttúrunnar og hvernig kvöldroðinn töfraði sjónarspil sem tók ímyndaraflinu fram.  Veðrið skartaði sínu fegursta og byrjað að frysta við heiðskýruna.  Mér varð hugsað til skoska orðatiltækisins „Red sky at night is the horseriders delight"  Svona heimfært úr sjómannamáli yfir á smalamennsku en allavega lofaði þetta góðum komandi degi.Hildarsel

En nú dimmdi hratt og ekki vildum við hitta fyrir Ábæjarskottu sem kunn er á þessu svæði og hefur gert mörgum manninum skráveifu.  Við kláruðum reiðina heim í Hildarsel sem yrði okkar skjól í dvöl okkar í Austurdal næstu tvær næturnar.  Það var orðið aldimm þegar við sprettum af hestunum og komum þeim fyrir í gerðinu áður en gengið var í bæ að Hildarseli.  Þar nutum við þess að láta þreytu dagsins úr okkur líða og meðan einhver dugur var í mannskapnum var lífsandinn vökvaður og sagðar enn fleiri sögur og vísur kyrjaðar og nokkur lög sungin.  En hætta skal leik þegar hæst stendur að lokum sigrar þreytan og svefninn tekur yfir.  Sem betur fer enda þarf að huga að kröftum fyrir morgundaginn við krefjandi smölRoðinn í vestriun í Austurdal.Komið í Hildarsel


Gengið niður Lónsöræfi

Lagt af stað frá EiglsseliÞað hafði birt upp um morguninn en nokkur ský voru þó um hæstu fjöll sem byrgðu á útsýnið.  En veðrið var gott og gleðirík ganga fram undan niður í Lónsöræfi en ferðinni var heitið fram hjá Múlaskála, upp á Illakamb og þaðan niður gilið niður að Eskifelli.  Þetta er drjúg dagleið eins og tvær þær fyrri í ferðinni, frá Snæfellskála í Geldingarnes og þaðan í Egilssel.

Við EgilsskálaVið gengum niður Leiðartungur og tókum sveig að Tröllakrókum, þar sem við skoðuðum þetta hrikalega náttúruundur.  Tröllakrókar teygja sig upp í 800 metra hæð yfir sjávarmál og er myndaðir úr mó- og stuðlabergi og vert að taka á sig smá krók til að skoða þá.

En áfram var gengið og nú tekur gróður við þar sem birki ræður ríkjum og þegar komið er niður að Jökulsá taka við birkiskógar.  Það má segja að við værum blálúsug eftir göngu í gegnum skógin, en þar iðaði allt af birkiflugu sem lítur út eins og lús, og blá á litinn.  Skemmtileg leið er niður með ánni niður að Múlaskála, þar sem oft er gengið í bröttum skriðum árbakkans og á einum stað þarf að fara fyrir tæpu hátt yfir beljandi jökulfljótinu.  Keðjur eru til halds og trausts og því er þessi leið hættulaus en getur kitlað lofthrædda nokkuð.  En það er gaman að sigrast á aðstæðum og sérstaklega á sjálfum sér þegar engin önnur leið er í boði en sú sem farin er.

Tið TröllakrókaÞað var engin í Múlaskála þegar við komum þangað, en greinilegt að gestkvæmt var þar og íbúar sennilega í gönguferð um Lónsöræfi.  Við tókum okkur bessaleyfi og settumst á pallskörina, tókum upp prímusinn og snæddum hádegisverð.  Fegurð Lónsöræfa er stórbrotin þar sem sundurskorið landslagið af gljúfrum og giljum eru áberandi og litardýrðin ótrúleg.  Svæðið er talið eitt áhugaverðasta göngusvæði landsins og kom ekki á óvart þegar við horfðum upp Jökulsá í Lóni þar sem birkigróðurinn festir rætur við árbakkana, en ofar taka við gil og gljúfur í bláum, grænum og rauðum litum.  Vel sést upp á jökul og rétt ofan við skálann er göngubrúin yfir fljótið, en síðan liggur gatan aftur niður með vesturbakkanum upp á Illakamb.  gengi_um_lonsoraefi.jpg

Leiðin upp á Illakamb tekur vel í, enda snarbrött og um þrjúhundruð metra hækkun að ræða.  Útsýnið niður gljúfur Jökulsá í Lóni er stórbrotið, með Stafafellsfjöll í austri, brött og hrikaleg en ægifögur og litrík.  Með nýrri göngubrú við Eskifell sem byggð var fyrir tveimur árum hefur leiðin niður gljúfrin opnast, en nauðsynlegt er að komast austur fyrir ána eftir göngu niður að vestanverðu.  Gljúfrið er ógengt austan megin og ekki bílfært að Eskifelli vestan megin við Jökulsá í Lóni.  Áður luku menn ferðinni á Illakamb og tóku fjallabíla niður að Stafafelli, en þessi leið er stórbrotin og frábær viðbót við göngu um Lónsöræfi.

Einstigi við JökulssáÞegar við áttu eftir tveggja tíma göngu niður að Eskifelli mættum við trússurunum okkar, sem gengið höfðu til móts við okkur.  Framundan var einstigi eitt mikið sem liggur ofan við þverhnípta kletta í snarbrattri skriðu.  Það var léttara en á horfðist að ganga einstigið og algjörlega hættulaust ef gætt er að sér.  Lausamölin á þessu svæði er mynduð úr glerhörðu bergi og ólíkt skriðunum á Vestfjörðum er mölin aflöng og ótrúlega föst fyrir.  Maður haggast ekki í slóðinni og rennur ekki undan brekkunni og því hefur maður fulla öryggiskennd við slíkar aðstæður.joklasyn.jpg

Þau eru drjúg síðustu sporin eftir langa dagleið og hríslaðist um mann vellíðan að koma að 90 metra langri göngubrúnni yfir fljótið og vita af bílunum handan við hana.  Eftir að hafa fengið kaldan öl við bílana fórum við úr skónum og fengum okkur fótabað í ískaldri jökulánni.  Þetta var toppurinn á tilverunni en nauðsynlegt að vinna sér inn þá vellíðun sem fylgir því að slappa af eftir mikil átök.  Maður þarf að vera þreyttur til að njóta hvíldar og ekki spillir fyrir að safna smá óhreinindum á langri göngu um óbyggðir.  Sú vellíðan sem fylgir heitri sturtu eftir útileguna er milljón dollara virði.

Við ókum árfarveginn niður að Stafafelli þar sem gist var um nóttina.  Frábærri göngu norðan og austan Vatnajökuls var lokið.  Við KollumúlaskálaTrússberar mæta okkur

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 _reyttir_skor.jpg

 

 

 


Gengið í Egilssel

Lagt af stað úr GeldingarfelliÞað dettur ekki nokkrum manni í hug að taka mark á veðurspá frá Skota!  Alla vega ekki fyrir hálendi Íslands en samkvæmt þeirra fræðum átti nú að vera brostin á blíða í Geldingafelli, eftir blóðrautt sólarlag kvöldið áður (red sky at night is the fishermans delight).  Það hrikti í kofanum þegar fjallabylgjur skullu á honum og úti var súldarfýla, eða jafnvel grenjandi rigning.  Það skipti reyndar svolítið í tvo horn hvað fólki fannst um veðrið og það sem sumir kölluðu fjallagust kölluðu aðrir óveður.  Yfir vötnum messaði púkinn á fjósbitanum, þ.e.a.s. vonin um að losna við erfiði og hætta för, sem alltaf er freistandi þegar setið er inni með glóandi kamínu og rokhljóðin berast inn um þunna veggina frá heiðinni.  Tekist var á um þetta og niðurstaðan var þó að halda á för ef veðurútlitið væri betra til lengri tíma litið.  Ákveðið var að hringja í ,,vin"!  Haft var samband við einn sem allt veit um veður norðan Vatnajökuls og hefur nef fyrir því sem framundan er.  Við náðum sambandi í gegnum NMT símann í bílnum og niðurstaðan var sú að rok og rigning myndi haldast fram eftir degi en útlitið væri gott eftir það.  Hann myndi snúa sér meira í norðrið og þorna upp.  Það var sem sé ákveðið að halda út í slagveðrið og bjóða því byrginn.Gerfihnattarsamband

Það getur verið skemmtilegt að ganga í slagviðri og góð tilbreyting eftir tíu daga blíðviðri.  Slík ganga er öðru vísi þar sem ekki dugar að ræða við félagana í gegnum rok og rigningu þar sem ekkert heyrist nema öskrið í vindinum og hetturnar reyrðar um höfuðið.  Skyggni var lítið og því ekkert að sjá og því hvarflar hugurinn út um víðan völl og menn eru einir með sjálfum sér.  Allir hafa gott af slíku og hægt að mæla með þessari aðferð og það fullyrt að hún taki jóga fram og sé mannbætandi.  Heimspekilegar hugleiðingar sjálfsins eru góðar en gefast sjaldan í dægurþrasi samtímans.

Áð í roki og rigninguÞað kom sér vel að hafa GPS tæki þar sem landslagið er algerlega ruglandi og upp og niður segir ekkert til um stefnu á áfangastað.  Landslagið er ójafnt og þegar skyggnið er hundrað metrar eru engin viðmið fyrir ferðina.  En á sinn hátt er þetta spennandi og oft var stoppað þar sem farastjórinn, Stebbi, bar sig saman við hópinn áður en stefnan var ákveðin.  Eitt sinn komum við að vaði og rætt um hvort rétt væri að fara yfir það, en góðar stiklur voru yfir ána.  En ákveðið var að halda niður með ánni og sjá til með annan stað.  Eftir stutta göngu stóðum við á gnípu með þverhnípi í allar áttir, nema þaðan sem komið var.  Við vorum stödd á nesi þar sem tvö árgil mættust í gegnum þokuna virtust árnar sem þarna sameinuðust vera litlir lækir, um hundrað metrum neðar.  Það var ekki annað að gera en ganga til baka og stikla yfir á fyrri staðnum og gekk það allt að óskum.

Um nónbilið fengum við okkur nesti undir klettanös sem veitti skjól fyrir næðingnum og nú fundu menn fyrir að búnaðurinn var farin að gefa sig og rigningin farin að smeygja sér inn úr hlífðarfötunum.  En Íslenskt Cappochino hressti hrakta göngumenn og áfram héldum við ótrauð áleiðis í Egilssel.

Gengið að EgilsseliFljótlega eftir áninguna stytti upp og smá saman gaf þokan eftir og einstaka sinnum sáum við bregða fyrir fjarlægum kennileitum.  Við sáum glitta í Axarjökul og eins töldum við okkur sjá Goðahnjúka.  Ferðin fékk nú á sig annan blæ og við frelsuð úr einangrun einveru og eigin hugsana og við tók skemmtilegt spjall um heima og geima við samferðamenn.  Hér var ekki verið að ræða IceSafe eða ESB heldur miklu skemmtilegri hluti eins og fyrri afrek í fjallamennsku og hugarflug þar sem grunnur að næstu ferðum var lagður.  Öllum bar þó saman um að ákvörðunin um að halda á um morguninn hafi verið rétt, enda mikilvægt að ná þeim markmiðum sem maður setur sér og klára þá ferð sem byrjað hafði svo vel.

Eins og fyrri daginn var farið að skima eftir næturstaðnum, Egilsseli.  Á kortinu mátti sjá að kofinn væri á suðurbakka fjallavatns, og ímyndaraflið kallaði myndina fram í hugann, þar sem skálinn speglaðist í friðsælu spegilsléttu vatninu.  Reyndar tók veruleikinn ímyndinni fram þar sem hugmyndaflugið hafði ekki náð að setja himbrima á vatnið sem söng með sinni sérstæðu röddu þegar við nálguðumst.  Við sáum skálann nokkuð að og þurfti að ganga hálfhring í kringum vatnið áður en komið var að honum.

Egilssel við fjallavatniðSkálinn er í eigu Ferðafélags Fljótdalshéraðs og er sá notanlegasti sem ég hef komið í.  Einstaklega hlýlegur og umgjörðin, eins og áður er lýst, ótrúlega falleg.  Sækja þurfti vatn í fötu niður í affallið og blasir þar neðan við mikið stuðlabergsgljúfur.  Út á spegilsléttu vatninu synti himbriminn og allt í einu var hann kominn með maka og tvo unga.  Þessi norður Ameríski fugl tekur sér óðal við fjallavötn þar sem hann verpir  og heldur því fyrir sig og fjölskylduna og hleypir engum öðrum að.  Hann getur verið mjög grimmur og hikar ekki við að drepa aðra fugla sem slæðast inn á yfirráðasvæði hans.  Aðeins um 300 himbrimapör halda sig á Íslandi, en hann verpir hvergi annarsstaðar í Evrópu.

Um kvöldið var komið besta veður og útlitið gott fyrir göngu morgundagsins.  Undir söng himbrimans héldum við pastaveislu sem jafnaðist á við hvaða ,,þriggja gafla" veitingastað út í heimi, enda umgjörðin og andrúmið óviðjafnanlegt.Himbrimi

Þögnin í öræfum er merkileg þar sem minnstu hljóð heyrast og það sem venjulega fer framhjá manni verður nánast áþreifanlegt.  Maður heyrir eigin hjartslátt og smáhljóð náttúrunnar heyrast.  Samskipti himbrimafjölskyldunnar úti á lygnu vatninu, söngur spörfugla og niður árinnar þrýstu sér inn um opinn gluggann.  Það er gott að sofna við tónaflóð náttúrunnar og láta þreytu dagsins líða úr beinum sér.  En allt í einu erum við vakin upp við háreysti fyrir utan, rétt eins og ribbaldar og útilegumenn hafi gert árás á Egilssel.  Við hjónin sváfum uppi á skörinni en félagar okkar niðri héldu að Fljótvíkingnum hefði hlaupið kapp í kinn, þrátt fyrir erfiði dagsins, og hljóðin stöfuðu af slíkum bægslagang.  En hér var eitthvað annað að gerast og við eftirgrennslan kom í ljós að kindahópur hafði gert árás á bakpokana okkar sem við skildum við í sumarblíðunni úti, og höfðu náð að opna einn þeirra og dreift innihaldinu um bæjarhlaðið.  Við urðum nokkuð kindarleg við þessa árás en tókum dótið okkar inn áður en lagst var til svefns að nýju.Egilssel

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Feb. 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28  

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.2.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 28
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 9
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband