Hin kalda krumla einangrunnar Íslands

Nokkurra vikna ritstífla bloggara losnar við það reiðarslag sem ákvörðun Bessastaðabóndans hefur valdið honum. Óttinn við einangrun Íslands frá nágrannaþjóðum og orðspori í ruslflokk er nístandi kaldur. Heimóttaskapur umræðunnar vekur frekari ugg í brjósti og lítilli trú á að þjóðin vinni sig út úr þessum alvarlega vanda. Nú berja menn sér á brjóst og beita fyrir sig þjóðernishyggju!

 

Ef horft er á stöðuna í dag er málið nokkuð einfalt. Setja aftur fyrir sig það sem er búið og gert, í bili a.m.k., meðan við náum skipinu á réttan kjöl. Það er lítill tími til að velta fyrir sér hver gerði hvað og hvenær þegar brotsjór hefur riðið yfir og skipið og því er að hvolfa. Átök milli manna hafa þá enga tilgang, enda berjast menn við náttúruöflin.  Þá er nauðynlegt að leggja niður kytrur og þvarg og leggjast saman á plóginn.

 

Íslendingar eru að berjast við nokkurs konar náttúruöfl, alþjóðasamfélagið, sem lætur sér í léttu rúmi liggja hvað Íslendingum þyki sanngjarnt og réttlátt. Rétt skal vera rétt og reglurnar nokkuð skýra. Með neyðarlögunum var ákveðið að tryggja innistæður íslenskra banka á Íslandi en ekki í Bretlandi og Hollandi. Slíkt brýtur gegn reglum ESB og þar með gegn samningi um EES. Ekki má mismuna íbúum svæðisins efir þjóðerni!

 

Þetta hefur nefnilega ekkert með reglur um innistæðutryggingar að gera. Málið er að ef Íslendingar hefðu ekki ákveðið að tryggja innstæður hérlendis, hefðu menn ekki þurft að greiða innistæður í Bretlandi og Hollandi. Þá hefðu allir bankarnir farið á hliðina á einum eftirmiðdegi og máttlítill tryggingasjóður greitt þeim sem ekki höfðu náð að taka peningana sína út.  Þetta hefur því með regluverk EES að gera og því myndu dómstólar EFTA eða ESB úrskurðarvald í málinu.  Afstaða þar lggur fyrir!

 

Ef þjóðir EES létu Íslendinga komast upp með að brjóta á meginstoðum samningsins um að ekki megi mismuna íbúum eftir þjóðerni, gætu aðrar aðildarþjóðir fylgt í kjölfarið og gert slíkt hið sama. Allt í nafni ,,réttlætis" og ,,sanngirni" séð með augum íbúa þess ríkis sem gripi til slíks óyndisúrræðis.

 

Nú liggur fyrir að Fitch hefur lækkað lánhæfismat landsins niður í ruslflokk með neikvæðum horfum og það sem hér og nú hefur borist frá nágranalöndum varðandi synjun forsetans á lögum um ríkisábyrgð á IceSave er ekki uppörvandi. Engin stendur með Íslendingum!

 

Er þetta ekki bara ótrúlegur heimóttaskapur Íslendinga? Það er talað á þann hátt að meiri sáttartón þurfi á Alþingi? Málið verður ekki leyst á Alþingi eins og lögin síðan í haust sína. Það dugar ekki að annar aðili samnings ákveði einhverjar breytingar á honum, löngu eftir undirskrift. Íslendingar skrifuðu undir samning um IceSave í júní ásamt Bretum og Hollendingum. Viðsemjendur Íslendinga samþykktu svo einfaldlega ekki þá fyrirvara sem settir höfðu verið einhliða af Alþingi. Bretar og Hollendingar, sem samkvæmt samkomulaginu lána þjóðinni fyrir greiðslum á innistæðu í þessum löndum, hafa það í hendi sér á hvaða kjörum þeir lána. Þeir þurfa einfaldlega ekki að samþykkja fyrirvara sem settir eru eftir undirskrift samkomulagsins.

 

Bloggari vonar að flokksmenn hans hafi einhver spil upp í erminni eftir ,,sigur" sinn í þessu máli. Hann óttast hinsvegar að svo sé ekki og hér sé einfaldlega um venjulegan íslenskan skotgrafahernað í pólitík að ræða. Þetta mál er bara allt of stórt fyrir slíkan hernað.

 

 


Ólína og sjávarútvegurinn

Í huga bloggara er leiðarljósið í hugmyndum um fiskveiðikerfi Íslendinga, að hámarka hag þjóðarinnar af fiskveiðum til langs tíma litið.  Því miður eru ekki allir samála honum og stundum virðast annarlegar kenndir ráða för.  Það er sérlega slæmt þegar valdamikið fólk á í hlut, t.d. þingmenn og svo ekki sé talað um formann Landbúnaðar- og sjávarútvegsnefndar Alþingis.  Ekki verður annað séð á skrifum hennar en markmiðið sé að koma höggi á útgerðarmenn og almannahagsmunir séu fyrir borð bornir.

Grein Ólínu Þorvarðardóttir í Morgunblaðinu 29. október ber einmitt dám að þessu.  Lítið er reynt að fjalla af sanngirni um málið, hvort sem talað er um líffræðilegan hluta fiskveiðistjórnunarkerfisins eða þess hagræna.  Bloggari vill aðeins staldra við þessa grein og leiðrétta augljós rangindi sem annað hvort er sett fram að illgirni eða vankunnáttu.

Í fyrsta lagi talar höfundur um að ,,skapaður" hafi verið skortur á leigukvóta til að þrýsta á stjórnvöld.  Gerir þingmaðurinn sér ekki grein fyrir að einmitt það sýnir virkni kvótakerfisins?  Með minnkandi aflaheimildum þarf minni flota til að sækja það sem er til úthlutunar.  Það tryggir hámarks afrakstur nýtingar og þeir fyrstu sem detta út eru kvótalitlir bátar.  Við það er ekkert athugavert og alls ekki hægt að kenna vélarbrögðum útgerðarmanna um.  Reyndar er helst að skilja á Sjávarútvegsráðherra að hann hyggist beita ríkisvaldi til að tryggja framboð á leigukvóta og hafa þannig vit fyrir markaðinum.  Það er svona í anda kommúnismans að pólitíkusinn viti betur en markaðurinn hvað eigi að framleiða, hvernig, hvenær og af hverjum.

Ólínu verður tíðrætt um hvernig kvótakerfið hafi brugðist í að byggja upp fiskistofna.  Það er engin furða enda var kvótakerfið ekki sett á til þess.  Það var sett á til að auka arðsemi í greininni og draga úr sóknargetu flotans, getu sem stjórnmálamenn höfðu skapað með gengdarlausum innflutningi á togurum.  Upp úr 1980 hafði togaraflotinn aukist um rúmlega hundrað skip og algert hrun blasti við útgerðinni og reyndar fiskistofnum líka.  Svarta skýrsla Hafró hafði komið út 1976 og Íslendingar voru að átta sig á nauðsyn þess að stunda ábyrgar sjálfbærara veiðar.  Kvótakerfinu var þvingað upp á útgerðarmenn og þeir látnir bera ábyrgð á niðurskurði á fiskiskipaflotanum, en fengu í staðin nýtingarrétt auðlindarinnar.

Árið 1981 veiddu Íslendingar 469 þúsund tonn.  Nærri fjórðungur að þessum afla endaði á skeiðarhjöllum og var seldur fyrir lágt verð til Nígeríu.  Í þessari miklu veiði var tap útgerðarinnar í sögulegu hámarki og fiskveiðiarðurinn lítill sem engin.  Í þessu samhengi verða menn að skilja að kvótakerfið ræður ekki veiðimagni, enda er sú ákvörðun tekin pólitískt af ráðherra í samráði við vísindamenn Hafró.

Þá er komið að umræðu um líffræðilegan hluta fiskveiðistjórnunarkerfisins.  Þar tínir þingmaðurinn allt til sem hún finnur til að gera lítið úr vísindamönnum Hafró og sleppir öllu því sem gæti talist þeim til tekna.  Það er gaman að flytja góðar fréttir og slíkt fellur í frjóan jarðveg hjá mörgum.  Tilhugsunin um að hægt sé að veiða miklu meira úr stofnum á Íslandsmiðum skiptir marga miklu máli og því gott að geta trúað því.  En hér verðum við að velja á milli hvort við notum vísindi eða óskhyggju.

Ef þingmaðurinn hefði haft fyrir því að koma við á Hafró hefðu starfsmenn getað leiðrétt mikið af rangfærslum í grein hennar.  En kannski það hafi ekki verið nokkur vilji til þess og tilgangurinn helgi meðalið.  Í fyrsta lagi hefur fæðuskortur aldrei verið afgerandi áhrifavaldur á fjölda fiska í þorskstofninum.  Hinsvegar hefur aðgangur að fæðu áhrif á meðalþyngd, en á þessu tvennu er mikill munur.  Enginn gögn eru til um að þorskstofninn hafi soltið í hel né hann hafi bókstaflega synt til annarra landa.

Hafrannsóknarstofnun notar sínar aðferðir til að ákveða stofnstærðir og hrygningarstofna.  Sjálfsagt er að þær aðferðir séu til umræðu og öll málefnaleg gagnrýni er af hinu góða.  En að hafna vísindum og þekkingu, í pólitískum tilgangi, er ekki til bóta.

Hafró og Fiskistofa stunda mælingar um borð í fiskiskipum og við löndun í höfnum. þar sem lengd er mæld og stundum aldur fiska er greindur.  Öll veiði er skráð um borð í veiðiskipum og skýrslur sendar til Hafró sem slær þeim inn í gagnagrunn.  Þannig er hægt að meta aldursdreifingu stofnsins og eins gefa þessar upplýsingar glögga mynd af veiði á sóknareiningu.  Síðan eru vor- og haust rallið notað til að styðja við þessi gögn og nota til að ákveða stofnstærðir og veiðiráðgjöf kemur í kjölfarið. 

Þetta er það sem kallað er vísindalegar aðferðir við ákvörðunartöku og er að miklu leit byggð á tölfræðilegum aðferðum.  Andstæðan við slík vinnubrögð er að nota aðferðir þingmannsins, t.d. sögur eins og; ,,reyndir menn telja" og ,,sjómenn bentu á" o.s.fr.

Það tekur hinsvegar steinn úr þegar stungið er upp á að nota ,,óháða" verkfræðistofu til reikna út stofnstærðir.  Byggja það á rússneskum aðferðum sem Kristinn Pétursson hefur spurnir af og notað hafi verið í Barentshafi.  Hér er lítið gert úr þekkingu og reynslu okkar vísindamanna og ekki furða að Hafró njóti lítils traust meðan forystumenn stjórnmálanna gera allt sem í þeirra valdi stendur til að draga úr trúverðugleika stofnunarinnar.

Nýlega sagði fyrsti þingmaður NV kjördæmis að það væri lífspursmál að tryggja samkeppni í rannsóknum á fiskveiðiauðlindinni.  Slíkt lýsir ótrúlegri vanþekkingu enda væri hægt að velta fyrir sér hver hvatinn í slíkri samkeppni yrði.  Það skyldi þó ekki virka þannig að sá sem kæmi með betri fréttir fengi hærri styrki?  Og eins og Ólína sagði þingmaðurinn nokkrar háðungsögur af Hafró, svona til að sýna fram á að ekkert væri að marka þá stofnun.

Það er gott ef stjórnmálamenn gagnrýna Hafró en það þarf að vera á málefnalegum og vísindalegum nótum.  Ekki má horfa framhjá þegar vel tekst til og blasa við þeim sem lesa skýrslur Hafró um ástand og horfur hinna ýmsu stofna.  Ótrúleg fylgni er milli árganga í þroski sem mældir eru árlega með togararalli.  T.d. tveggja ára fiskur sem mældur er í fyrra og borið saman við þriggja ára fisk í ár.  Það gefur sterkar vísbendingar um að menn séu á réttri leið.  Þessar upplýsingar boða ekki endilega góðar fréttir en gætu verið þær réttu.  Í spá Hafró fyrir hrygningarstofn þorsks eru 90% líkur á að með núverandi aflareglu, 20%, að hann verði á bilinu 170 til 300 þúsund tonn á næsta ári.  Ef veiðar væru auknar um 40 þúsund tonn, eins og fyrsti þingmaður leggur til, myndu þetta breytast verulega og hætta á alvarlegum bresti í stofninum.  Í þessu samhengi er rétt að geta þess að spár Hafró hafa verið of bjartsýnar í gegnum tíðina.

Vilja Íslendingar taka slíka áhættu í stærsta hagsmunamáli þjóðarinnar.  Hvort vilja menn nota vísindi eða sögur til að taka ákvörðun?  Menn verða að hafa í huga að góð veiði er ,,eðlilegt" ástand og slíkt gefur því ekki eitt og sér ástæðu til að auka veiðar verulega.  Veiði getur verið góð í dag þó útlitið sé slæmt í framtíðinni, enda geta slappir árgangar verið í pípunum og nauðsynlegt að taka tillit til þess. 

Umfjöllun Ólínu er ómálefnaleg og ekki til annars en draga úr trúverðugleika Hafró.  Hún er ekki til þess fallin að bæta ákvarðanatöku um fiskveiðiauðlindina.


Sjálfstæðisflokkurinn er ekki á réttri leið til að berjast fyrir megin stefnumálum sínum!

Sjálfstæðisflokkurinn stendur fyrir einstaklingsfrelsi, einkaframtaki ásamt því stétt standi með stétt.  Í stuttu máli berst flokkurinn fyrir frjálsri hugsun, og að allir fái sama tækifæri til að þroska sig og ná árangri í lífinu.

Það er fátt sem gefið hefur Íslendingum meira í frjálsræði undanfarna áratugi, sérstaklega í víðskipum, en samningurinn um EES.  Þeir sem muna þau höft sem búið var við, hugsa til þess með hrylling að hverfa aftur til þeirra ára, þegar völd stjórnmálamanna voru alger og fyrirhyggja blómstraði.  Það skýtur því skökku við að flokkur eins og Sjálfstæðisflokkurinn skuli berjast með hnúum og hnefum gegn allri vitrænni umræðu um ESB.  Firrtur þeirri megin hugsjón að berjast fyrir lífskjörum þjóðarinnar, með stefnu sína að leiðarljósi.

Bloggari hefur kynnt sér nokkuð vel Evrópumálin og tekið sér langan tíma til umhugsunar.  Nú þegar óveðursský eru á lofti og köld krumla kommúnismans vofir yfir, lítur bloggari til ESB til varnar því frelsi sem Íslendingar búa þó við í dag.  Tilhugsunin um einangrað Ísland í norður Atlantshafi með sjálfsþurftarbúskap, fátækt og fyrirhyggju stjórnvalda er hrollvekjandi.  En hvað býr undir hjá Sjálfstæðisflokknum með andstöðu sinni gegn umsókn til ESB?

Bloggari skilur vel að menn hafi skoðun á því að hag okkar sé betur borgið utan ESB, enda fylgi því skynsamleg rök.  Málefni sjávarútvegs skipta þarna miklu máli og sjálfur myndi bloggari ekki greiða atkvæði með inngöngu ef hagsmunum þjóðarinnar í sjávarútvegsmálum væri ekki borgið í samningum.  En Sjálfstæðisflokkurinn hefur það nánast sem markmið að útiloka vitræna umræðu.  Gamlir forkólfar flokksins bera fyrir sig þjóðernishyggju og þingmenn tala við okkur eins og lítil börn og segja okkur að vera ekkert að hugsa um þetta ESB.  Það sé bara vont fyrir okkur.  Skrímsladeild flokksins hefur m.a. beitt sér gegn mönnum með ráðleggingu um að hypja sig úr flokknum og ganga í Samfylkinguna.  Þetta eru nú rökin og málflutningurinn.  Er andstaða Sjálfstæðisflokksins við ESB bundin við að ná sér niður á Samfylkingunni og þjóðarhag þannig fyrir borð borin?

En það tekur steininn úr þegar IceSave deilunni er blandað inn í málið og sagt:  Þarna sjáið þig hvað þetta eru vondir menn út í Brussel.  Þeir níðast á litlu þjóðinni út í Dumbshafi.  Þeir vilja Íslendingum vont og hafa meira að segja snúið frændum og vinum í Skandinavíu gegn þjóðinni.

Íslendingar eiga að hætta skotgrafarhernaði í IceSave deilunni og snúa sér að mikilvægari málum.  Berjast fyrir lífskjörum þjóðarinnar með stefnumálum Sjálfstæðisflokksins í farteskinu, einstaklingsfrelsi, einkaframtaki og frjálsri hugsun.

Við endurreisum ekki Sjálfstæðisflokkinn með ábyrgðarleysi í IceSave deilunni og eyða öllum kröftum í að sannfæra þjóðina að til sé hókus pókus aðferð til að leysa það mál.  Flokkurinn mun hinsvegar skora með ábyrgum vinnubrögðum í stjórnarandstöðu og beita sér fyrir ágætum tillögum sínum í efnahagsmálum.  Neyta allra bragða til að hafa áhrif á þá sem vit hafa í ríkistjórninni og fá þá til að taka þátt í tillögum um atvinnuuppbyggingu, í skattamálum og stöðva niðurrifsstarfsemi eins og fyrningu aflaheimilda.  Einblína á þjóðarhag og leggja til hliðar pólitískan skotgrafahernað. 

Sjálfstæðisflokkurinn á að setja bætt lífskjör þjóðarinnar í öndvegi og og vera trúr stefnu sinni.  Það á að gera kröfu til forystumanna flokksins um að þeir beri auðmýkt fyrir því valdi sem þeim er falið í umboði kjósenda og skilji þá stöðu sína.  Fulltrúalýðveldi gerir ráð fyrir að þingmenn sæki vald sitt til kjósenda og fari með þeirra umboð á Alþingi.  Þeir eiga ekki að hugsa fyrir kjósendur né gera þeim upp skoðanir.  Þetta þarf Sjálfstæðisflokkurinn að skilja og sækja niður til grasrótarinnar eftir því umboði sem flokkurinn þarf til að hafa jákvæð áhrif fyrir þjóðina.  Frjáls hugsun krefst þess að menn leggi á sig þær byrðar að kynna sér málin vel og taka vitræna ákvörðun.  Flokkur sem gefur sig út fyrir einstaklingsfrelsi og einkaframtak er byggður upp af fólki með frjálsa hugsun.  Sjálfstæðisflokkurinn á að ýta undir slíkt en ekki reyna að drepa í dróma.


Umhverfisráðherra

Nú hefur umhverfisráðherra kveðið upp sinn úrskurð; Íslendingar munu ekki óska eftir viðbótarkvóta á losun gróðurhúsalofttegunda á væntanlegri ráðstefnu í Kaupmannahöfn.  Þrátt fyrir að verulegum verðmætum sér þar kastað á glæ fyrir þjóðina, helgar tilgangurinn meðalið.  Reyndar sagði hún í útvarpsviðtali í morgun að íslenskt þjóðlíf snérist um fleira en virkjanir og stóriðju, og þá örugglega atvinnulíf yfir höfuð.  Hún nefndi sem dæmi að kórar og leikfélög blómstruðu og alls kyns menningarstarfsemi í landinu.  Það er örugglega huggun harmi gegn fyrir nærri tvö þúsund atvinnulausa á Suðurnesjum.  Bara að skella sér í kirkjukórinn eða bíða eftir næsta þorrablóti.  Nú ef menn eiga ekki fyrir brauði þá er bara að borða kökur!

Hvað er að svona fólki eins og Svandísi Svavarsdóttir?  Hvernig getur hún verið svona gjörsamlega úr takti við veruleikann og þjóð sína?  Hvers vegna skilur manneskjan það ekki að fólk þarf að hafa vinnu til að komast af í nútíma þjóðfélagi?

Þetta er firring innrætingarinnar sem kemur í veg fyrir frjálsa hugsun og líta á málin af skynsemi og svara spurningum með rökum.  Ekki frösum og lýðskrumi.

Það sem umhverfisráðherra, ef maður gefur sér að henni sé umhugað um umhverfið, ætti að berjast fyrir á Kaupmannahafnarráðstefnunni er að settir verði losunarskattar á orkuframleiðslu, þannig að sú sem losar mikið af gróðurhúsalofttegundum greiði af því skatta.  Það myndi styrkja íslenska orkuframleiðslu sem er umhverfisvæn og því hagsæl fyrir mannkynið.  Það á ekki að skattleggja álframleiðslu þó hún losi mikið af CO2.  Það er engin önnur leið til að framleiða þennan mikilvægasta málm mannkyns en að nota kolefni til að draga súrefnið út úr hráefninu.  En það á við um orkuframleiðsluna sjálfa þar sem í dag losa kola- og olíuorkuver mikið af koltvístring út í andrúmsloftið.  Íslendingar eru reyndar að leggja þung lóð á vogarskálina til að draga úr losun gróðurhúsaloftegunda með hverju álveri sem þeir reisa.

Embættisfærsla umhverfisráðherra jaðrar við landráð, svo ekki sé talað um efnahagslegt tjón Íslendinga af gjörðum hennar.  Það þarf að koma VG frá völdum með öllum ráðum. 


Minnihlutastjórn Samfylkingar

Hver er raunveruleg staða okkar gagnvart AGS og IceSave?  Þjóðinni er haldið út í kuldanum og skilin eftir með getgátur um hvað raunverulega hangir á spýtunni.  Miðað við viðbrögð alþjóðasamfélagsins virðist málstaður Íslendinga ekki vera beysinn nú stefnir í stjórnarkreppu og hugsanlega aðra efnahagskreppu með enn meira hruni krónunnar.

Það læðist að manni sá grunur að stjórnmálamenn séu í sínum venjulegu skotgröfum og takir unnar orrustur gegn óvininum, stjórnarandstaða vs. stjórn, framyfir hagsmuni þjóðarinnar.  Á einni viku hefur bloggari heyrt tvær ólíkar hugmyndir Sjálfstæðismanna um hvernig losa megi um gjaldeyrishöftin.  Slíkt hringl er ekki traustvekjandi og útspil formanns flokksins um að greiða Jöklabréfin með ríkisskuldabréfum í krónum hljómar ekki sannfærandi. 

Það liggur fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn getur ekki farið í ríkisstjórn.  Of stutt er liðið frá hruninu og öllu því klúðri sem fylgdi í kjölfarið.  Það er hinsvegar mikilvægt að flokkurinn leggi sitt á vogaskálirnar til að koma uppbyggingu Íslands af stað og komi í veg fyrir aðra byltu í hagkerfinu.  Fyrir utan hjáróma og afar ósannfærandi rödd flokksins í Jöklabréfavandanum og IceSave málinu eru aðrar tillögur góðar, sem varða atvinnuuppbyggingu og fjármál ríkisins.

Töf á uppbyggingu orkufreks iðnaðar og stórhættuleg áform um skatta mál, ásamt fyrirhuguðu niðurrifi á sjávarútvegnum (fyrningarleið) er ekki til þess fallinn að koma Íslendingum upp á fæturna aftur.  Það er spurning hvort Framsókn og Sjálfstæðisflokkur gætu stutt minnihluta Samfylkingar í ríkisstjórn.  Semja um að láta sjávarútveginn í friði, halda á með fullum þunga í uppbyggingu orkufreks iðnaðar og nýta þannig auðlindir landsins og lent skynsamlegum niðurskurðar og tekju pakka fyrir ríkissjóð.  Slíkt er örugglega hægt ef þeir losa sig við kommúnuistana (VG) úr ríkisstjórn, fólk sem notar trúarbrögð frekar en skynsemi við ákvarðanatöku.

Íslendingar þurfa á AGS að halda og eins þarf að semja um IceSave.  Engin leið er fyrir Íslendinga að bjóða öllum löndum heims birginn og nóg komið að mikilmennsku og hroka landsmanna.  Íslenskum stjórnmálamönnum er einfaldlega ekki treystandi til að semja og halda efnahagsáætlun til bjargar Íslandi.  Verkstjórn og eftirlit AGS er þar grundvallaratriði, enda sjóðurinn hafin yfir dægurþras stjórnmálamanna, sem er þjóðaríþrótt Íslendinga.

Bloggari heyrði sögu af hópi Íslendinga sem fengu boð í sendiráð Íslendinga snemma árs 2008.  Þar fengu þeir að sjá myndband sem sendiráðið notaði sem kynningu á landi og þjóð.  Þar var sterkasta manni landsins flaggað, fegurðardísir sýndar og útskýrt hvers vegna Íslenskar konur væru þær fallegustu í heimi, sem leiddi af sér að þær bresku væru ljótastar.  Íslendingar voru duglegastir, best menntaðir með flottasta bankakerfi í heimi ásamt því að vera bestir í handbolta og fótbolta og ættu West Ham.  Svona gekk þetta á öllum vígstöðvum, í sendiráðum, á strikinu í Kaupmannahöfn og sólarströndum Spánar.  Dagana fyrir hrunið voru bæði forsætisráðherra og utanríkisráðherra að vinna framboði þjóðarinnar í Öryggisráð Sameiniðuþjóðanna brautargengi.  Íslendingar voru mestir, bestir og fallegastir.

Þjóðin þarf að losa sig við þennan sjálfbirgingshátt og hroka og sýna auðmýkt í þeirri stöðu sem hún er.  Það þurfa stjórnmálamenn einnig að gera og vinna að hag þjóðar sinnar í umboði kjósenda og einbeita sér að þeim verkefnum sem framundan eru.  Hætta skotgrafahernaði, meta stöðuna eins og hún er og velja bestu leiðir fyrir þjóðina til að komast yfir þessa miklu erfiðleika. 


Frjálshyggja

Það var athyglisvert að hlusta á umræður frá Alþingi í gærkvöldi.  Margir stjórnarþingmenn þurfa ekki að bíða fram í nóvember eftir skýrslu Alþingis til að vita hverjar orsakir hrunsins voru.  Þeir vita það og liggja ekki á því.  Ástæðan er frjálshyggja, óheft frjálshyggja og nýfrjálshyggja.  En er það svo?

Einn af boðberum frjálshyggjunnar Fredrik Hayek, orðaði það svo um miðja síðustu öld að hún gengi út á að nota markaðinn til að verðleggja vörur og þjónustu og tryggja samkeppni þar sem því verður komið við, ásamt því að ákvarða hvað á að framleiða, hve mikið og af hverjum.  Hann tiltók einmitt heilsu- og löggæslu þar sem erfitt væri að koma því við og þar þyrftu stjórnvöld að koma til.  Engum frjálshyggjumanni dettur í hug að allt geti verið frjálst, enda væri það stjórnleysi.  Fiskveiðiauðlindin er gott dæmi um þar sem frelsi gengur ekki upp og opinn aðgangur að fiskimiðum veldur sóun og setur fiskistofna í hættu.  Hayek var með á nauðsyn þess að setja leikreglur í samfélagi en hélt því fram að ákvarðanir markaðarins væri of flóknar til að stjórnvöld gætu tekið þær ákvarðanir. 

Í bók sinni ,,Leiðin til ánauðar" skilgreinir hann vel muninn á frjálsum mönnum, sósíalismum, kommúnistum og fasistum.  Þeir síðarnefndu nota innrætingu fyrir sinn málstað, en slíku verður ekki komið við gagnvart frjálsum mönnum sem taka sínar ákvarðanir byggða á gildismati og þekkingu.  Bæði kommúnistar og fasistar líta til sósíalista sem áhangenda, þar sem þeir eru fyrirfram formaðir fyrir innrætingu.  Þeir líta hinsvegar framhjá frjálsum mönnum sem áhangendum og líta á þá sem höfuð óvini, enda verða þeir venjulega fyrstu fórnarlömb einræðis.

Þá komum við að hruninu og því hvort hægt er að kenna frelsi einstaklinga um það, eða hvort það er notað sem blóraböggull.  Einkavæðing bankana var frjálshyggja en ekki framkvæmdin á því og hvernig var staðið að því.  Nauðsynlegt var að losa stjórnmálamenn undan þeim kaleik að stjórna bönkunum.  Allir sem kynnt hafa sér fjármálamarkaðinn á Íslandi fram að einkavæðingu bankana átta sig á þeirri stórfeldu viðvarandi spillingu sem því fylgdi, og víxileyðublöð sem lágu fram á Alþingi frá öllum bönkunum ber því vitni.  En framkvæmd einkavæðingarinnar var ómöguleg og reyndar ekki samkvæmt þeim leikreglum sem lagt var upp með.  Vonandi svarar niðurstaða rannsóknarnefndar Þingsins því hvers vegna það var.

Það sem aðgreinir frjálsa menn frá sósíalistum og kommúnistum er viðurkenning þeirra á mannlegri hegðun og nauðsyn þess að gera ráð fyrir þekkingu á því sviði þegar leikreglur eru ákveðnar.  Þess vegna var lagt upp með breiða eignaraðild að bönkunum, og reyndar hefði verið nauðsynlegt að tryggja sjálfstæði hvers banka fyrir sig til að tryggja samkeppni.  Það er ekki gott fyrir samkeppni þegar bankarnir, sem keppa eiga á markaði, eru háðir hvor öðrum fjárhagslega með kross eignartengslum og lánum til eiganda hvors annars.  Hrynji einn banki fara þeir allir.  Það lá fyrir allan tímann.  Þær upplýsingar sem þegar liggja fyrir benda til þess að allar meginreglur við einkavæðinguna hafi verið brotnar.  En það er ekki frjálshyggja.

Annað hvort hafa stjórnarþingmenn ekki hugmynd um hvað hugtakið frjálshyggja stendur fyrir eða þeir grípa til lýðskrums í málflutningi sínum til að afvegaleiða almenning.  Engum dettur reyndar í hug í dag að ríkið eigi að eiga bankana né sparisjóðina.  Flestum er það ljóst að stjórnmálamenn eiga ekki að stjórna peningamálastofnunum.  Ein þeir eiga að setja leikreglur og fylgjast með framkvæmd þeirra. 


Lítilmannlegt

Þetta er til háborinnar skammar, sama hver á í hlut.  Menn geta verið ósáttir við ,,útrásarvíkinga", sem er mjög skiljanlegt, en siðferðisgirðingar verða þó að halda.  Svona gera menn ekki og þegar ég sá viðtal við framleiðanda myndarinnar í Kastljósi var mér misboðið og ákvað að sjá ekki þessa mynd.

Menn geta verið reiðir og eiga að vera það en það réttlætir ekki að bregðast við með lygum, svikum og sumum tilfellum ofbeldi.  Nú er ofbeldismanneskja komin í ríkisstjórn, sem stóð í Alþingi þegar æstur múgur gerði atlögu að löggjafarvaldi Íslendinga, hringdi út til ofbeldiseggjana til að veita upplýsingar um hvar lögreglumenn væru staddir í húsinu.  Jafnframt var hún staðin að því að æsa til ofbeldisverka og ráðast á valdstjórnina.  Skyldi hún bera annan hug til valdstjórnarinnar núna þegar hún er orðin ráðherra.  Bloggari undrast fjölmiðla að spyrja hana ekki að því.


mbl.is Ósáttur við höfund Guð blessi Ísland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þingræði og virðing þingsins

Þessa dagana er allt lagt í sölurnar til að sýna fram á að vinstri ríkisstjórn geti starfað út kjörtímabilið, nokkuð sem hefur aldrei gerst í sögunni.  Þegar slíkir hagsmunir eru í húfi er minni hagsmunum fórnað, eins og þjóðarhagsmunum.  Sama fólkið og hæst hefur talað um þingræði, að Alþingi setji lög sem framkvæmdavaldið framkvæmir, og nauðsynlegt sé að auka virðingu og vald þingsins, er tilbúin til að ganga þvert gegn þeim góðu áformum.  Allt er þetta í þágu ,,almennings" og því er hægt að réttlæta allt sem nú er gert.

Fyrir liggja lög frá Alþingi með fyrirvörum um ríkisábyrgð á IceSave samninginn.  Það var fyrir tilstuðlan Sjálfstæðismanna að þau lög voru sett enda fyrirvararnir settir fram af þingmönnum flokksins.  Til að forða því að stórhættulegur samningur, sem gerður var á vafasömum forsendum, færi í gegnum þingið fengu þingmenn Sjálfstæðisflokks þá stjórnarsinna sem ekki gengu í takt við sinn flokk, í samstarf við sig.  Sjálfstæðismenn sáu síðan til þess að samningurinn færi í gegnum þingið og lög með nauðsynlegum fyrirvörum yrðu sett um ríkisábyrgðina.

Í upphafi september kemur tilkynning frá ríkisstjórnarflokkunum að málið líti mjög vel út eftir fyrstu viðbrögð Hollendinga og Breta, og gengið verið frá málinu á morgun.  Það heldur ekki meira vatni en svo að í gærkvöldi sagði forsætisráðherra númer tvö, Jóhanna Sigðurðardóttir, að tvö atriði stæðu út af, þar sem viðsemjendur okkar gætu ekki fellt sig við fyrirvarana.  Forsætisráðherra númer eitt, Steingrímur J. Bætti við að fjöldi athugasemda hefði komið frá Bretum og Hollendingum vegna fyrirvara Alþingis og því væri málið allt í hnút.

En þá er bara að kalla sína þingmenn á teppið og gera þeim grein fyrir því að breyta verði nýsettum lögum Alþingis til að þóknast viðsemjendum okkar.  Taka fyrirvarana út aftur þannig að upphaflegi samningurinn standi.  Framkvæmdavaldið ætlar að þvinga lög í gegnum Alþingi til að leysa vandamálið.  Ögmundur sagði af sér ráðherradóm þar sem hann vildi ekki standa að slíku ríkistjórnarfrumvarpi til þingsins, og segist vera talsmaður breiðrar samstöðu í málinu.  Stjórnarandstaðan og þjóðin öll, fyrir utan lokaðan hóp ríkisstjórnarþingmanna, hafa ekki hugmynd um hvað málið snýst, allt er á huldu og unnið í myrkri bak við lokaðar dyr.  Allt í þágu ,,opinnar" stjórnsýslu.  Það tekur síðan steininn úr þegar Ögmundur samþykkir í gærkvöldi á þingflokksfundi V.G. að greiða atkvæði í þinginu með væntanlegu frumvarpi um breytingar á lögum um ríkisábyrgð, þvert gegn samvisku sinni.

Allt er þetta gert til að sýna fram á að vinstri stjórn geti haldið völdum í landinu.  Þrátt fyrir fullkomið getuleysi Jóhönnu Sigurðar til að leiða samstarfið, vilja menn í Samfylkingunni ekki taka á því máli, enda myndi flokkurinn loga stafnana á milli í innanhúsátökum ef hún færi frá.

Það er rétt að geta þess að síðast þegar ráðherra sagði af sér var það 1994 og þá var það umrædd Jóhanna.  Ekki vegna ágreinings við þáverandi forsætisráðherra Davíð Oddsson, heldur vegna átaka í eigin flokki og ólýðræðislegra vinnubragða Jóns Baldvins, þáverandi utanríkisráðherra gagnvart samherjum sínum.  Röksemdir Jóhönnu voru að mestu á sömu nótum og Ögmundar í gærkvöldi.  Þar fordæmdi hún vinnubrögð, sem hún sjálf hefur við þessa dagana.

Það sem aðgreinir frjálsa menn frá sósíalistum og kommunistum er að þeir fylgja sannfæringu sinni.  Þeir síðarnefndu ganga gegn eigin sannfæringu og ryðja niður siðferðisgirðingum, enda er það allt í þágu fjöldans.  Allar slæmar aðgerðir eru réttlættar á þá leið að þó þetta sé rangt og vont, gerum við þetta í þágu þjóðarinnar, þvert gegn eigin vilja.  Það eru að sjálfsögðu krókódílatár þeirra sem hugsa um það eitt að halda völdum, sama hvað það kostar.


Umræða um fiskveiðistjórn

Umræða um fiskveiðastjórnun hefur verið í skötulíki undanfarna áratugi.  Öllu hrært saman í einn graut og notast við upphrópanir og lýðskrum.  Slíkt er óþolandi þar sem um mikilvægustu atvinnugrein þjóðarinnar er að ræða.  Það er nauðsynlegt að lyfta þessari umræðu á hærra plan, og hafa þjóðarhagsmuni í huga við stefnumótun.

Fiskveiðistjórnun skiptist fyrst og fremst í líffræðilegan- og hinsvegar í hagrænan hluta.  Við líffræðilega hluta fiskveiðistjórnunar er Hafró ráðgjafi en framkvæmdavaldið, fyrir hönd eiganda auðlindarinnar íslensku þjóðarinnar, tekur ákvarðanir.  Ákvarðanir eins um hámarksafla í hverri tegund, notkun veiðarfæra, lokun svæða og fleira, til að hámarka viðkomu stofna og stuðla þannig að hagkvæmum veiðum til langs tíma.

Hagræni hluti fiskveiðistjórnunar er síðan kvótakerfið.  Íslendingar notast við svokallað framseljanlegt kvótakerfi, sem sett var á til að auka hagkvæmni veiða og mynda fiskveiðiarð, rentu, af fiskveiðum.  kerfið var sett á eftir gríðarlegt tap á útgerðinni upp úr áttunda áratug síðustu aldar.  Mikil offjárfesting hafði verið í íslenskum sjávarútveg, ekki síst fyrir óráðsíu stjórnmálamanna, sem meðal annars stóðu fyrir gegndarlausum innflutningi á skuttogurum sem settir voru niður allt í kringum landið.  Til að tryggja hagkvæmar veiðar var nýtingarréttur auðlindarinnar færður til útgerðarinnar, enda viðbúið að eigandinn myndi tryggja hámarks arðsemi til langs tíma litið.

Til þess að ræða fiskveiðistjórnun þarf að aðgreina þessi mál og tala um hvert fyrir sig.  Líffræðilega hlutann og þann hagræna.  Menn verða að skilja að ákvörðun um hámarksafla og afkoma fiskistofna hafa ekkert með kvótakerfið að gera, enda hægt að taka ákvörðun um hámarksafla burtséð frá því hvort notast er við t.d. kvótakerfi eða dagakerfi.  Kvótakerfinu verður því ekki kennt um þegar afkoma fiskistofna er rætt, en þar bera að líta til líffræðilega hluta fiskveiðistjórnunar.

Menn hafa svo enn bætt á ringulreiðina með því að blanda byggðarmálum inn í umræðu um kvótakerfið, en það var ekki sett á til að tryggja byggð í strandbyggðum Íslands.  Undir það síðasta hafa sumir áhrifamiklir stjórnmálamenn viljað blanda rómantík inn í þennan hluta fiskveiðastjórnunar og þá tekur steininn úr í vitleysunni.

Kvótakerfið hámarkar arðsemi fiskveiða þar sem menn reyna að nota eins litlar lindir (resources) til að ná þeim kvóta sem þeir hafa yfir að ráða. Með öðrum orðum reyna menn að lágmarka kostnað sinn við veiðarnar og hámarka tekjurnar, m.a. með góðri tengingu við markaðinn. 

Grundvallaratriði í hagkvæmni kvótakerfisins er eignaréttur á nýtingu fiskistofna, hér er rétt að aðgreina eignarrétt á auðlind og nýtingarrétti.  Það er engin vafi á að þjóðin á auðlindina enda fer ríkisvaldið með stjórnun fiskveiða á Íslandi.  Framsal veiðiheimilda er grundvallaratriði til að tryggja arðsemi.  Fiskimaður sem vill veiða kola getur þurft að leigja til sín þorskvóta til að geta stundað veiðarnar.  Framsalið tryggir aðlögun að fiskveiðum og gerir mönnum mögulegt að sérhæfa sig í ákveðnum veiðum.  Fiskimaðurinn veit hvað hann hefur til ráðstöfunar og nýtir það á þann besta veg sem hann getur.  Rannsóknir á Humbersvæðinu í Bretlandi sýna að kaupendur þar vilja Íslenskan fisk, eru jafnvel tilbúnir að greiða hærra verð fyrir hann en norskan, vegna afhendingaröryggis og góðra gæða.  Þar kristallast munurinn á dagakerfi annarsvegar og kvótakerfi hinsvegar, enda eru Norðmenn með strandveiðiflota sem stundar Ólympískar veiðar með dagakerfi. 

Í umræðunni hefur mönnum orðið tíðrætt um að kvótakerfið komi í veg fyrir nýliðun í sjávarútveg.  Hver er reynsla okkar hér á norðanverðum Vestfjörðum í þeim efnum?  Flest öll þau fyrirtæki sem fengur ,,gjafakvótann" heyra sögunni til og nýir menn hafa tekið við.  Nýliðunin hér er nánast alger síðan kvótakerfið var fyrst sett á 1984!  

Málið snýst um að skapa fiskveiðiarð þannig að tekjur af veiðum fari ekki allar í kostnað.  Þá er ekkert til skiptana og allir tapa.  Ekki síst íslenska þjóðin sem þarf á tekjum af fiskveiðum að halda, nú sem aldrei fyrr. 

Í umræðu um fiskveiðistjórnun á að setja hagsmuni íslensku þjóðarinnar í forgrunn.  Fyrsta skilyrðið er að skapa arð af fiskveiðum og síðan skulum við ræða hvort honum er skipt með sanngjörnum hætti til þjóðarinnar.  Við eigum með öðrum orðum að vera sammála um að hafa hagkvæmt fiskveiðistjórnunarkerfi sem skapar rentu.  Síðan skulum við snúa okkur að ,,réttlætinu" sem er sérgrein stjórnmálamanna.  Ef menn vilja nota hluta af fiskveiðiarði til að styðja við sjávarbyggðir, þá er það verkefni stjórnmálamanna.  Ef við viljum skattleggja fiskveiðar og dreifa fiskveiðiarði með þeim hætti til þjóðarinnar, þá er það verkefni stjórnmálamanna.  Að vísu fara þessar tvær hugmyndir um dreifingu fiskveiðiarðs mjög illa saman, en það eru verkefni stjórnmálamanna.

Það eru hinsvegar ekki verkefni stjórnmálamanna að stýra fiskveiðum frá degi til dags og taka ákvarðanir um veiðar og sölu, enda eru það allt of flókin mál til að stjórna ofanfrá.  Þá fyrst skriplum við á skötunni í stjórnun fiskveiða.

Sýnum þessar mikilvægustu auðlind og atvinnugrein okkar Íslendinga þá virðingu að ræða málin á yfirvegaðan og rökréttan hátt.  Spyrjum okkur í fyrsta lagi hvort við viljum horfa til þjóðarhags með því að skapa grundvöll fyrir arðsemi veiða.  Aðgreinum líffræðilega og hagræna stjórnun veiða í umræðu um stjórnun fiskveiða á Íslandsmiðum.  Hafi menn skoðanir á ráðgjöf Hafró er það gott mál og menn setja þau mál fram með rökum.  En blanda ekki kvótakerfinu inn í þær umræður


Mannauður og frelsi

Samkeppnishæfni snýst um mannauð og frelsi.  Það er erfitt að ímynda sér að VG séu tilbúnir að feta veg þess síðarnefnda.  Í því sambandi vil ég benda á viðtal við heilbrigðisráðherra í Viðskiptablaðinu fyrir viku síðan og ótrúlegum ummælum landbúnaðar og sjávarútvegsráðherra að samkeppni í atvinnulífi eigi bara við á þenslutímum. 

Hér er enginn að tala um óheft frelsi því nauðsynlegt er að setja leikreglur og eins frelsi má ekki bitna á öðrum.  Það er því ekki verið að tala um stjórnleysi, en takmarka áhrif stjórnmálamanna og einskorða þau við lagasetningu og framkvæmdavald.  Að stjórnmálamenn séu ekki að vasast í fyrirtækjarekstri né hafa óþarfa áhrif á framleiðslu og eftirspurn í hagkerfinu.

Þetta eru flókin mál en eitt af lykilatriðum er þó að allir fá tækifæri til að spreyta sig.  Íslendingar hafa ekki efni á að fara á mis við hæfileika og framtak þeirra sem minni efni hafa og því er nauðsynlegt að tryggja nám fyrir alla, og að sjálfsögðu heilsugæslu þar sem það kemur hagkerfinu til góða að hafa fríska og vel hrausta þjóð.

En virkjum einstaklingsframtakið og tryggjum frelsi til athafna.  Bloggari getur síðan alveg bætt við ,,Stétt með stétt" til að ná þessu frábæra markmiði að þjóðin verði sú samkeppnishæfasta í heimi 2200.


mbl.is Ísland verði eitt af samkeppnishæfustu ríkjum heims
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grein í Viðskiptablaðinu

Fiskveiðar og rómantík

hermodur_is_023.jpgAndstæðingar fiskveiðistjórnunarkerfisins hafa oft nefnt færeyska kerfið sem fyrirmynd enda drúpi smjör af hverju strái sjávarútvegi Færeyinga. Viðtal við Hjalta Jáupsstovu, forstjóra færeysku hafrannsóknarstofnunarinnar, í Fiskifréttum 10. sept. sl., dregur hinsvegar upp aðra og verri mynd af ástandi fiskveiða hjá frændum okkar.  Þá mynd að veiðar Færeyinga séu óstöðugar með miklum aflatoppum og djúpum niðursveiflum.  Sölustarf sé erfitt  þar sem ekki sé hægt að gera langtímaáætlanir og tenging við markaðinn lítil eða engin.  Jafnframt er mikil offjárfesting í flotanum þar sem útgerðamenn reyna að nýta takmarkaða veiðidaga við ólympískar veiðar.  Stækka vélar og spil, þar sem ekki má stækka bátana sjálfa.  Hann segir að útgerðir flestra bátanna hafi farið í þrot og birt er tafla þar sem rekstarafkoma færeyska flotans frá 2004 til 2007 er sýnd, og fram kemur að tap flotans er umtalsvert, fyrir utan uppsjávarveiðar og frystitogara, en þeim veiðum er stýrt með kvótakerfi.

Það er þyngra en tárum tekur að lesa um reynslu frænda okkar af óstjórn fiskveiða en hér er ekki öll sagan sögð.  Þegar reglurnar voru settar var gert ráð fyrir hagræðingu í kerfinu þar sem þeir sem best stæðu sig við veiðar myndu kaupa veiðidaga af þeim sem síður stæðu sig, og þannig yrði hagræðing í kerfinu.  Slíkt hefur alls ekki gerst þar sem framboð af dögum er meira en eftirspurn og því enginn markaður fyrir veiðidaga.  Þetta á sérstaklega við um línubáta þar sem veiðar þeirra hafa ekki verið arðbærar.  Til viðbótar þessu segir Hjalti að ástand þorsk- og ufsastofns séu mjög slæmt vegna lélegrar nýliðunar og ofveiði. 

Það er margt líkt með ástandinu í Færeyjum nú og var á Íslandi 1984 þegar kvótakerfinu var komið á.  Gríðarleg offjárfesting hafði verið í íslenska flotanum og viðvarandi tap á útgerðinni.  Kvótakerfið var sett á til að snúa þeirri þróun við, auka hagkvæmni við veiðar og stuðla þannig að fiskveiðiarði sem myndi bæta lífskjör þjóðarinnar.  Kvótakerfið er því hagfræðilegt fyrirbæri og rétt að halda umræðu um líffræðilegan hluta fiskveiðastjórnunar utan við það.

Nauðsynlegt er að nýta fiskveiðiauðlindina með sjálfbærum hætti og gera sér grein fyrir að frjálsar veiðar stuðla að ofveiði og þar með óhagkvæmum veiðum.  Frjálsar veiðar stuðla einnig að offjárfestingu og koma þannig í veg fyrir að arður myndist af veiðunum.  Höfundur er mikill frelsisunnandi en gerir sér hinsvegar grein fyrir þessum annmörkum á frelsi þegar kemur að endurnýjanlegum auðlindum.  Í umræðu um fiskveiðistjórnun ættu menn að vera sammála um að þjóðarhagur ráði för en fiskveiðiarður er þar grundvallaratriði.  Umræðan ætti því frekar að snúast um hvort þeim arði sem við náum út úr fiskveiðum sé deilt með sanngjörnum hætti til þjóðarinnar, en ekki hvort við viljum fiskveiðiarð eða ekki.

Varaformaður Landbúnaðar- og sjávarútvegsnefndar Alþingis hefur farið mikinn í umræðu um stjórnun fiskveiða undanfarið.  Þingmaðurinn segir í viðtali í Fiskifréttum, á sömu síðu og viðtalið við Hjalta er, að svo virðist sem Færeyingar séu á réttri leið í fiskveiðistjórnun.  Enda sé hvati til brottkasts og brask með aflaheimildir mun minna í þeirra kerfi.  Það sem Hjalti telur nauðsynlegt fyrir færeyskan sjávarútveg, að hæfustu útgerðaraðilarnir kaupi upp veiðidaga hjá hinum, kallar þingmaðurinn brask!  Það skildi þó ekki vera að ,,braskið" séu viðskipti sem eru nauðsynleg til að auka framleiðni og mynda fiskveiðiarð í greininni?

hermodur_is_030.jpgEn Ólínu Þorvarðardóttir er lítið hugsað til arðsemi atvinnugreinarinnar í umræðu sinni um stjórnun fiskveiða.  Í grein sem birtist eftir hana í Viðskiptablaðinu 3. sept. s.l. fjallar hún um strandveiðar.  Þar kemur fram að eftir innleiðingu strandveiða iðuðu hafnir sjávarþorpa af lífi og fjöri og vélarhljóð fiskibáta bergmáluðu í sæbröttum fjöllum vestfirskra fjarða.  Stæltir sjómenn fleygðu spriklandi þorski upp á bryggjur, til mikillar ánægju fyrir fjölda áhorfenda.  Fiskur barst nú á hafnir þar sem ekki hafði sést sporður í langan tíma.  Hún bætir því svo við að:  ,,Það sé samdóma álit allra (feitletrun höfundar) sem til þekkja, að strandveiðarnar hafi orðið sjávarplássunum lyftistöng, enda færðist mikið líf í hafnir landsins í sumar"  Höfundur þessarar greinar er ósammála, en kannski þekkir hann ekkert til fiskveiða.  Skyldi það hafa hvarflað að Ólínu að júlí og ágúst eru helstu ferðamánuðir á Íslandi og það sé ferðamennskan en ekki strandveiðar sem allt þetta líf og fjör skapaði?

Niðurstaðan er sú að varaformaður sjávarútvegs og landbúnaðarnefndar telur færeyska kerfið vera á hárréttri leið, þrátt fyrir ofangreinda lýsingu forstjóra færeysku Hafrannsóknarstofnunarinnar sem hefur áralanga þekkingu og reynslu á sviði færeysks sjávarútvegs.  Enda virðist hún ekki líta á arðsemi sem markmið, heldur rómantík.  Strandveiðar eru einmitt gott dæmi um slíkt þar sem fyrir liggur að veiðarnar eru þjóðhagslega óhagkvæmar en þær gætu hinsvegar flokkast undir rómantík.

Það er alvarlegt mál þegar fólk í slíkri stöðu talar um mikilvægustu atvinnugrein þjóðarinnar af slíkri léttúð.  Arðsemi veiða er okkur Íslendingum lífsspursmál til að skapa lífsgæði hér á landi.  Við höfum ekki efni á að reka sjávarútveg sem rómantík og verðum að horfa til arðsemi.  Höfundur vill mæla með þremur K-um fyrir rómantíkina; kampavín, kertaljós og karl/kona.  En láta fiskveiðiauðlindina í friði og leyfa henni að þróast á hagrænan máta.

Gunnar Þórðarson

Höfundur er viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum

 

 


Hin opna stjórnsýsla á Íslandi

Það er gott að búa í upplýstu samfélagi þar sem stjórnvöld hafa lofað þegnum sínum opinni stjórnsýslu og hún fái náið að fylgjast með gangi mála og sé meðvituð um stöðu sína.  Ekki síst hvað varðar uppbyggingu íslensks efnahags og þjóðin geti farið að takast á við væntanlega uppbyggingu eftir hrun.  En eitthvað hlýtur að vera brogað við athyglisgáfu bloggara sem ekki skilur upp né niður í því sem er að gerast, og þar ber hæst svokallað IceSave mál.

Í upphafi september mánaðar komu mjög jákvæðar fréttir frá ríkisstjórninni.  Fyrstu viðbrögð Hollendinga og Breta lágu fyrir og þau voru mjög jákvæð.  Málið lá nánast fyrir og vonandi hægt að klára það næsta dag.  Svona eiga sýslumenn að vera og því var beðið með mikilli eftirvæntingu eftir þessum frábæru fréttum, daginn eftir.

Raunveruleikinn var hinsvegar annar og ljóst að samningsþjóðir okkar höfðu hafnað fyrirvara Alþingis um ríkisábyrgð á samningnum.  Allt er þetta hið ömurlegasta mál og byrjar með því að fjármálaráðherra, en málið er á hans forræði, ýtir fulltrúum þingflokka út úr samninganefnd um IceSave, en seta þeirra var forsenda breiðrar samstöðu um málið.  Hann setur síðan tvo vini og bandamenn yfir samningunum við Breta og Hollendinga og gerir málið þannig persónulegt.  Ráðherra gætti þess ekki einu sinni að hafa þingmenn stjórnarflokkana með í ráðum, þó augljóst mætti vera að um stærsta samning Íslandssögunar fyrr og síðar væri að ræða, og því fyrirsjáanlegt að leita þyrfti stuðnings þingsins við fullnustu hans.

Annan júní sagði fjármálaráðherra í þinginu að ekkert væri að frétta af málinu, enda lá ekkert á að klára það.  Samt var búið að skrifa undir þann fjórða júní og á þeim forsendum að aðal samningamaður Íslands, vinur og pólitískur mentor ráðherra vildi ekki hafa þetta hangandi yfir sér í sumarfríinu.

Nú liggur fyrir að þeir fyrirvarar sem Alþingi setti við ríkisábyrgðina verða ekki samþykktir af viðsemjendum okkar; en samt var niðurstaðan mjög jákvæð.  Annar forsætisráðherranna sagði að ekki stæði til að setja bráðabirgðalög, eins og nokkrum manni hafi dottið í hug að þessi ríkisstjórn gripi til slíkra óyndis úrræða, nema þá þeim sjálfum.

Það hefur komið fram í bloggi að fjöldi manna hafi fylgst með Indriða H. Þorlákssyni skrifa ,,trúnaðarskýrslu" til ríkisstjórnarinnar um viðbrögð Breta og Hollendinga í Flugleiðavél þann 2. september. ,,Skjalið sem lá þarna fyrir fólki eins og dagblað á kaffihúsi voru svör Breta og Hollendinga við fyrirvörum Alþingis!" segir m.a. í bloggfærslunni, sem Bergur Ólafsson, meistaranemi í stjórnun við viðskiptaháskólann BI í Osló, skrifar.   Þrátt fyrir að viðsemjendur höfnuðu alfarið fyrirvörum Alþingis í þessu skjali kom fram hjá forsætisráðherra fjórða september að góður andi hefði ríkt í samninganefndu þjóðanna og síðar þann dag upplýsti formaður fjárlaganefndar, eftir fund nefndarinnar með embættismönnum, að engin formleg viðbrögð lægju fyrir frá Bretum og Hollendingum.

Í dag tala síðan báðir forsætisráðherrar þjóðarinnar um að leysa þurfi IceSave málið og það sé algert forgangsmál!  Þjóðin hefur hinsvegar ekki hugmynd um hvert vandamálið er né hvert þetta mál stefnir.  Össur átti fund með forstjóra AGS í vikunni en það var allt bundið trúnaði og aðeins þessi venjulega bjartsýni um að lausnin væri handan við hornið, kom fram hjá utanríkisráðherra.

En hvað ætli gangi á í þessu öllu saman.  Þar sem hin opna stjórnsýsla ríkisstjórnarinnar er svo loðin að engin skilur hvað þeir eru að segja, verða menn að spá í spilin og geta sér til.  Áður hefur komið fram hjá bloggara undrun yfir því hvernig nánustu vinarþjóðir okkar virðast hafa snúið við okkur baki og, miðað við opnu stjórnsýsluna, virðast standa með óvinunum, Bretum og Hollendingum.

En er þetta svona?  Eru þessar ,,fyrrum" vinaþjóðir okkar svona vondar við okkur vilja ekki rétta okkur hjálparhönd á ögurstund?  Hér koma getgátur bloggara á því sem er að gerast:

Norðurlandaþjóðir ásamt öðrum vinarríkjum sem lofað hafa okkur láni í samvinnu við AGS hafa sett það sem skilyrði að IceSave samningar liggi fyrir áður en lánin eru veitt.  Þetta er ekki gert til að taka stöðu með Bretum og Hollendingum, heldur til að tryggja að fjármunirnir fari ekki til að greiða þeim, heldur til þerra hluta sem þeim var upphaflega ætlað.  Styrkja gjaldeyrisvarasjóðinn, sem er forsenda þess að afnema gjaldeyrishöftin.  Þetta snýst því ekki um góðu og vondu mennina, eins og margir ráðherra láta í veðri vaka, heldur sjálfsagða varkárni í viðskiptum við Íslendinga.  Bretar og Hollendingar eru sjálfsagt ekkert að skipta sér af einstökum málefnum AGS og ástæða þess að mál Íslands er ekki tekið fyrir hefur ekkert með það að gera.  Heldur það fyrrnefnda ásamt því að Íslenskir ráðamenn ljúki við þá vinnu sem þeim var sett í áætlun sjóðsins um uppbyggingu íslensks efnahags.  Það er hinsvegar auðveldara fyrir ríkisstjórnina að finna blóraböggul og þjóðin tilbúin að trúa öllu illu upp á Hollendinga og Breta. 

Eitt það mikilvægasta í dag er að afnema gjaldeyrishöftin.  Það er ekki hægt nema gjaldeyrisvarasjóðurinn dugi til að greiða erlendum eigendum fjármagns á Íslandi út.  Höftin eru brot á EES samningnum og ESB hefur horft í gegnum fingur sér með það, vegna alvarlegra stöðu Íslands.  Ef Íslendingar ætluðu sér að lækka vexti, á sama tíma og gjaldeyrishöft eru við líði, myndi sá velvilji hverfa sem dögg fyrir sólu.  Skilaboðin væru sú að við neyðum ykkur til að eiga íslenskar krónur, og á sama tíma ætlum við ekki að borga ykkur sanngjarna vexti af þeim.  Vexti sem duga a.m.k. ríflega fyrir þeirri verðbólgu sem hér ríkir.  Til þess að ASG og vinarþjóðir Íslendinga geti rétt okkur hjálparhönd verðum við að ganga frá IceSave samningum.


Að safna í sarpinn

_gust_2009_014_902986.jpgSíðsumar er skemmtilegur tími.  Dimmar nætur eftir ofurbirtu sumarsins og gróðurinn nær sínum hæðum og byrjar að fölna með ótrúlegum litbrigðum.  Sumarfríið að baki og vinnan og skólinn með alvöru lífsins taka við.  Einnig undirbúningur fyrir langan vetur norðurslóða.

Í Tunguskógi þarf að huga að eldiviðageymslunni og nægilegt magn sé þar í þurrkun fyrir næsta sumar til að kynda, sérstaklega þegar hausta tekur og lægðir æða frá Hvarfi suður með Íslandi með norðan næðing og kulda.  Tína þarf ber fyrir veturinn, safta krækiberin og frysta aðalbláberin.  Krækiberjasaftin eru lítillega sykruð og síðan fryst og notuð með morgunmatnum fram á næsta haust.  Slík saft bætir sjón og líkamlegt heilbrigði og viðheldur nauðsynlegri karlmannlegri orku. 

_gust_2009_016.jpgBloggari gat ekki stillt sig um að setja þessa gríðarlegu vinnu í hagfræðilegt samhengi.  Það tók fimm manntíma að tína krækiberin, og aðra fimm að safta, sykra og setja á flöskur.  Smávægilegur kostnaður var í kaupum á hráefnum en umbúðirnar eru notaðar kókflöskur.  Bíltúrinn úr Tunguskógi að Vinaminni, þar sem berin voru tínd, tók um fimm mínútur.  Með því að reikna manntímann á tvö þúsund krónur reyndist heildarkostnaður við 25 lítra vera um tuttugu og fimm þúsund krónur, eða þúsund krónur á lítrinn.  Það hefði verið töluvert ódýrara að kaupa safann í Bónus.

Á hinn bóginn ef tímanum hefði verið eytt í ómennsku við að lesa moggann upp í sófa hefði tíminn kostað það sama.  Verðlagður á sama verði hefði slíkt kostað nærri það sama og berjatínslan.  Allt orkar þetta tvímælis enda getur hagfærðin verið kynlegur kvistur.

sveppatynsla_009.jpgBloggari er úrvinda eftir fríið við að safna í sarpinn fyrir komandi vetur.  En slík þreyta er ósköp notaleg.  Margir vinir hans ganga mun lengra í sjálfþurftarbúskap og eiga ferfætlinga á fjalli sem þarf að smala í haust, síðan slátra þeir þeim og þá tekur við mikil vinna við að ganga frá afurðunum.  Skafa vambir og gera slátur.  Hirða mörinn, þurrka, lagera og síðan hnoða til að nota fyrir soðninguna.  Hausar, pungar og lappir eru sviðnir og eistun súrsuð ásamt bringukollum og lundaböggum.  Hluti af kjötinu er reykt og þá þarf að gera rúgkökur og eiga í frysti með hangiketinu.  Síðan er farið á svartfugl, veiddur þorskur og skotin rjúpa og bætt við matarforðabú heimilisins.  Hér hefur kartöfluræktin ekki verið nefnd en margir vinir bloggara eru sjálfbærir hvað það varðar.  Sumir sulta síðan úr rabbbara og tína sveppi sem eru þurrkaðir eða frystir.  Hreindýr, og gæsir eru skotinn og bætt við í vetrarforðann. 

sveppafer_003.jpgEnginn reiknar út kostnaðinn við þetta né verðleggur manntíma við alla þessa vinnu.  Enda er þetta að mestu gert í gamni sínu þó slík búmennska komi sér vel á erfiðum tímum.

span.jajahWrapper { font-size:1em; color:#B11196; text-decoration:underline; } a.jajahLink { color:#000000; text-decoration:none; } span.jajahInLink:hover { background-color:#B11196; }

Að kúga löggjafavaldið

Það er þyngra en tárum tekur að fylgjast með Icesave umræðunni á Alþingi þessa dagana.  Ríkisstjórnin berst um á hæla og hnakka að koma í gegn samningum sem getur kostað þjóðina fjárhagslegt sjálfstæði hennar.

Fyrir liggur að þegar þessi ríkisstjórn tók við ýtti hún fulltrúum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks út úr samninganefndinni.  Það stóð sem sé aldrei til að ná breiðri samstöðu um málið. Fjármálaráðherra setur síðan tvo vini sína yfir nefndinnii, hvorugan með nægilega reynslu eða bakgrunn til að ráða við verkefnið.  Þannig var niðurstaðan dæmd til verða persónuleg, en honum láðist að hafa þingflokk sinn með í ráðum á sama tíma.  Þannig er niðurstaðan sú að frumvarp um ríkisábyrgð á samninginn er ekki stjórnarfrumvarp, heldur frumvarp Samfylkingar og persónulegt frumvarp fjármálaráðherra.  Fjölmiðlar taka silkihönskum á aðiljum sem þó eru að höndla stærsta hagsmunamál Íslandssögunnar, fyrr og síðar.  

Þingmönnum VG er vorkunn þar sem þeir þurfa að velja á milli ríkisstjórnarsamstarfs og hagsmuna þjóðarinnar.  Fjórir þeirra hafa verið í vafa um hvort sé mikilvægara.  Það ríður á sýna að hægt er að starfrækja vinstristjórn, en slíkt hefur aldrei tekist fyrr í sögu lýðveldisins.  

En um hvað snýst þetta allt saman?  Hér kemur lítil saga til að útskýra sýn bloggara á það sem er að gerast í málinu:

Húsbóndi á heimili ákveður án samráðs við eiginkonu að kaupa mjög dýra húseign og skrifar undir kaupsamning með fyrirvara um samþykki eiginkonunnar.  Hún sér hinsvegar í hendi sér að verðið er miklu hærra en þau geta staðið við og neitar undirskrift.  Hjónin byrja þá að karpa um málin og eiginmaðurinn reynir að setja fyrirvara um kaupin til að fá konuna til að skrifa undir.  Fyrirvara um að ef greiðslur af fasteigninni fara yfir x hlutfall af tekjum heimilisins þá þurfi þau ekki að borga.  Konan vill hreinlega athuga hvort kaupin hafi verið lögleg og heimtar að nýr samningur verði gerður en eiginmaðurinn er fastur í vitleysunni og berst um á hæla og hnakka að verja upphæðina sem hann bauð í upphafi.  Þannig fer öll hans orka i að gæta hagsmuna seljenda, á kostnað heimilisins.  Það er meira atriði að halda andlitinu en jafnvel fjárhagslegu sjálfstæði heimilisins.  Einnig liggur fyrir að þó hjónin geti komið sér saman um einhverja fyrirvara að seljandi mun varla taka mark á slíku, enda samningurinn frágengin í hans huga.

En áfram heldur vitleysan og ríkisstjórnin heldur á að þrýsta hagsmunum Hollendinga og Breta í gegnum þingið.  Hvergi má halla á þeirra hlut og reynt að setja fyrirvara sem séu þannig að þeir hafi ekkert að segja.  Ljóst er að samningurinn er undirritaður af ríkinu og þingið getur ekki fengið því breytt.  En þingið getur þó neitað að viðurkenna ríkisábyrgðina.  En allan tíman er ekki rætt við Hollendinga og Breta til að svegja þá að niðurstöðu þingsins.

En hvernig datt þessu fólki í hug að ganga frá slíkum risa samning á þess að tryggja stuðnings þingsins fyrir honum.  Allavega stjórnarmeirihlutans og hafa hann með í ráðum, þó auðvitað hefði verið betra að hafa eins breiða samstöðu og mögulegt var í slíku ögurmáli.  Ekki má gleyma því að fjármálaráðherra sagði 2. júní að ekkert væri að frétta af samningnum og ekkert lægi á.  5. júní var hann undirritataður og við það tækifæri sagði formaður nefndarinnar, Svavar Gestsson, að hann hefði viljað rumpa þessu af svo hann hefði það ekki hangandi yfir sér í sumarfríinu.  

Hvar eru ofbeldissinnarnir sem börðu potta og pönnur í þágu lýðræðis í vetur sem leið, nú þegar slíkt og þvílíkt er að gerast?  Hvar eru þeir sem töluðu um að framkvæmdavaldið væri að kúga löggjafavaldið?  Skyldi bóndinn á Bessastöðum undirrita þessi lög eftir að þingið hefur samþykkt það með naumum meirihluta?


Í faðmi fjalla blárra

flosi_a_sauratindum.jpgBloggari gekk í fóstbræðralag við vin sinn úr Bolungarvík, um að þeir myndu koma göngumóðir í Reykjafjörð á Ströndum á hverju ári meðan þeir stæðu uppréttir.  Eftir ánægjulega heimkomu og fundi með fjölskyldu og vinum í Tunguskógi um verslunarmannahelgina var ekki eftir neinu að bíða og klára það þetta árið ásamt eiginkonunum.  Örninn var pantaður á fimmtudagsmorgun með TF VIK enda veðurspá fyrir norðanverða Vestfirði með besta móti. 

sauratindar_og_fl_2009_032.jpgÞað er nauðsynlegt að koma göngumóður í Reykjarfjörð og láta þreytuna líða úr sér í heitri sundlauginni, heilsa uppá vini sína Ragnar og Lillu og njóta þessa óviðjafnalega staðar þar sem Drangajökull bókstaflega heldur manni í faðmi sér.  Kyrrðin og náttúrufegurðin er yfirþyrmandi og fyllir hverja taug af gleði og vellíðan.

Brottför átti að vera klukkan átta að morgni en leyfi hafði fengist til að hringja snemma í Reykjarfjörð og taka veðrið.  Það voru slæmar fréttir um að ekki sjáist milli húsa fyrir þoku og súldarfýlu, og það sem meira var að þetta veður hafði verið í heilar þrjár vikur.  Þegar komið var fram undir hádegi og veður óbreytt í Reykjarfirðiblggari_me_hornbjarg_i_nor_ri.jpg sló hópurinn til og ákveðið að ganga á Sauratinda, sem er hæsta fjall í nágrenni Ísafjarðar, 850 metrar.

Veðrið var með besta móti vestan Djúps, skúraleiðingar en bjart á milli með glaða sólskini og góðri fjallasýn.  Það er gleðileg ganga upp á Sauratinda og eftir bratta hjalla uppaf Súðavík taka við þægilegir melar alla leið upp á toppinn.  Þar komu fóstbræður fyrir bók í póstkassa fyrir nokkrum árum við þriðja mann.  Útsýnið var gott af fjallinu, vel sáust varð- og loftskeytastöðin á Straumnesfjalli en herstöðin sjálf liggur niður í kvos austar á fjallinu.  Allt Djúpið blasti við og eins norður að Bolafjalli.  Fjallahringur Skutulsfjarðar með sín fell norðvestri, Kubbann í vestri og Engidal í suðvestri.  Frá Sauratindum sýnist Kofrinn ósköp lágur og lítilmótlegur, þó hann sperri sig séð frá þorpinu í Súðavík.  Það var hringt í Reykjafjörð frá tindinum en Lilla sá ekki upp að sundlaug.  Reykjarfjörður yrði afskráður að þessu sinni.

Riddari ReykjafjarðarBlggari og spúsa vaða ósinnÞað var ákveðið að grilla í Tunguskógi og skella sér í heita pottinn og skola af sér fjallasvitann.  En viti menn að rétt áður en til þess kom hrindi síminn og Ketill í Reykjafirði færði þær góðu fréttir að þokunni hefði létt og flugvöllurinn væri opinn.  Það var slökkt á grillinu, hringt í Örninn og ákveðið að skella sér í Reykjafjörð, enda hópurinn þegar göngumóður með þreytustrengjum og þennan líka frábæra áunna fjallasvita. 

Okkur var sagt að mæta á flugvöllinn um kvöldmat en við komuna þangað reyndist sprungið á stélhjóli vélarinnar og ekkert varadekk.  Ekki annað að gera en renna með dekkið á verkstæði og fá það bætt og síðan var tekið í loftið upp úr klukkan átta.  Hópurinn var lentur í Reykjarfirði um hálf níu og þar beið okkar heit sundlaug og vinalegar móttökur heimamanna.  Um kvöldið var snæðingur á tjaldstæðinu, hangiket úr Hattadal og jafningur frá Lillu, rennt niður með úrvals rauðvíni.  Eftir matinn var tekin önnur umferð í lauginni og síðan skriðu þreyttir fjallamenn/konur í tjöld sín til að safna kröftum fyrir næstu átök.

Skeggrætt á fjöllumÞað höfðu ekki allir í hópnum sigrað fjallið Geirólfsnúp sem heldur um Reykjarfjörð í suðri.  Tveir tindar eru á fjallinu og gengur annað þeirra undir nafninu Þorsteinsþúfa, en ekki verður farið frekar út í þá nafngift hér.  Bloggari skokkaði ásamt vini sínum þarna upp fyrir nokkrum árum ásamt ,,Captain Morgan" þar sem þeir upplifðu dagrenningu og hvernig fyrstu morgungeislar sólarinnar gæða heiminn litum og skerpa á ótrúlegri náttúrufegurð svæðisins.  En hér var lagt að stað að morgni en ekki miðnætti.

Ósinn í Reykjafirði var nokkuð fyrirferðarmikil þennan dag, enda búið að rigna heil ósköp vikurnar á undan og nú komin 17° hiti og sól.  Engir voru vaðskórnir þar sem slíkt var ekki talið nauðsynlegt fyrir afburða fjallagarpa.  En mikið andskoti var jökulfljótið kalt og steinarnir í botninum skárust upp í óvarðar kaldar og aumar iljar göngumanna.  En gangan á fjallið er létt og gleðirík og eftir stíg að fara mest alla leiðina.  Og áður en menn vissu af var toppnum á Geirólfsnúpi náð og rétt fyrir austan blasti Þorsteinsþúfa við hópnum.

Og þvílíkt útsýni en Strandir skörtuðu sínu fegursta þennan dag, með háskýjum og blárri birtu og ótrúlegri fjallasýn.  Í vestri blasti við jökullinn með Hrollaugsborg, Reyðarbungu, Hljóðabungu og Jökulbungu lengst í norðri.  Í suðri lágu Drangaskröð að fótum göngumanna og lengra í suðri teygði Reykjaneshyrnan sig upp fyrir fjallið vestan við þau.  Kaldbakshornið lengra í suðri ásamt fjallahryggjum austur stranda.  Í norðri blöstu Kálfatindar Hornbjargs við og glitti í Hælavíkurbjargið vestar.  Undir fótum okkar var Reykjarfjörður og lengra í norður Þaralátursfjörður, Furufjörður, Bolungarvík, Barðsvík og Smiðjuvík.  All kunnuglegar gönguslóðir göngumanna og rifjuðust upp skemmtilegar minningar úr gönguferðum Hallgríms Bláskógs.

aftur_i_skona.jpgKarlmennirnir ákváðu að hlaupa á Þorsteinsþúfu á meðan konurnar nutu veðurblíðunnar á Geirólfsnúp.  Síðan var gengið til baka og kuldinn í ósnum rifjaðist upp við vaðið norður yfir en allt slíkt hafði gleymst í algeymi göngunnar.  Í annað sinn á minna en sólarhring kom hópurinn göngumóður í Reykjafjörð þar sem sundlaugin beið til að láta þreytu og strengi líða úr sér.  Eftir grillið á tjaldstæðinu var rétt að fá sér göngutúr milli bæja, hitta heimamenn og eiga við þá notalegt spjall og njóta andrúms Reyðarfjarðar.  Staðurinn á sína sögu sem gaman er að rifja upp og velta fyrir sér lífi íbúa á slíkum stað í upphafi síðustu aldar.  Pönnukökur voru pantaðar hjá Lillu daginn eftir áður en farið yrði í loftið til Ísafjarðar.

Eftir heitar pönnukökur, sumir vilja þær bara beint af pönnunni, var byrjað að segja sögur og Ragnar kominn á gott skrið.  Hér kemur ein af vinum hans og nágrönnum úr Bolungarvík á Ströndum, Reimari og Jónasi.

Eitt sinn áttu þeir félagar sem oftar leið í kaupstað til Ísafjarðar.  Þeir voru þekkir fyrir ráðdeildarsemi og hverskyns óþarfa eyðsla blggari_me_reykjarfjor_i_baksyn.jpgeða sóun var þeim fjarri.  Þegar þeir komu í Ásgeirsverslun var hverjum hlut velt við og skoðað og karpað um verðið.  Á þessum tíma hafði komið upp barnfaðerismál á Ísafirði þar sem sjö menn höfðu verið orðaðir við stúlkuna.  Hún hafði stefnt þeim öllum og meðal annarra afgreiðslumanninum í versluninni.  Sá sami afgreiðslumaður var orðinn verulega pirraður á þeim bræðrum og sagði að lokum við þá ,,Hvað eruð þið að rífa ykkur og karpa um verð á hlutum sem þið hafið ekki hundsvit á?  Menn sem aldrei hafa farið í skóla og kunnið ekki að reikna!  Þið afdalafúsarnir hafið bara ekkert í kaupstað að gera"  ,,Ó jú rétt er það hjá þér" sagði Reimar.  ,,Aldrei hef ég í skóla komið og kann sjálfsagt ekkert að reikna.  Enda hefur mér aldrei verið boðið upp á Sjöstjörnuna"  Afgreiðslumaðurinn lét ekki fleiri athugasemdir falla um þá félaga eftir þetta svar en afgreiddi þá rjóður á vanga.

Flugið gekk vel heim til Ísafjarðar með útsýni yfir norðanverðar strandir og suður allt Djúp.  Lent í faðmi fjalla blárra áður en haldið var aftur í frumskóg Tungudals sem skartaði sínu fegursta síðsumars í ágúst.

 hofnin_i_reykjarfir_i.jpg

span.jajahWrapper { font-size:1em; color:#B11196; text-decoration:underline; } a.jajahLink { color:#000000; text-decoration:none; } span.jajahInLink:hover { background-color:#B11196; }

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Feb. 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28  

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.2.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 28
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 9
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband