Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007

Kjördagur

xdÍslendingar mæta í kjörklefana í dag til að kjósa nýja löggjafarsamkomu.  Vonandi fara þeir ekki ofaní kjörkassana eins og Ómar Ragnarsson talaði um í sjónvarpinu í gær.  Það gætir orðið ansi þröngt á þingi þar.

Þetta er gríðarlega mikilvægur dagur fyrir þjóðina.  Verður haldið áfram á þeirri sigurbraut sem íslendingar hafa verið á síðan 1991 eða verður allt sett í stopp þar sem dregið verður úr framleiðsluþáttum og óábyrg fjármálastefna verður rekin af ríkinu?  Komist vinstri stjórn að verður það helsta von þjóðarinnar að hún svíki flest kosningaloforð sín.  Hér er tekið undir með Mogganum að það eina sem er ókeypis eru svikin loforð stjórnmálaflokka.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur sýnt mikla ábyrgð í þessari kosningabaráttu.  Flokkur sem stóð við öll sín loforð síðast ætti að vera trúverðugur að þessu sinni.  Engu að síður féll flokkurinn ekki í þá gryfju að lofa vinsælum og dýrum aðgerðum til að kaupa atkvæði fyrir þessar kosningar.

Það merkilegasta er að stjórnarandstaðan er í raun að viðurkenna að síðustu loforð flokksins um skattalækkanir hafi verið góð fyrir þjóðina.  Alla vega ætlar engin flokkur að hækka skattana upp í það sem þeir voru áður.

Bloggari vonar að þjóðin sé það skynsöm að sjá í gegnum kosningaloforð.  Það verður að afla peninganna til að hægt sé að eyða þeim.  Maður getur ekki drukkið mjólkina og slátrað kúnni á sama tíma.  Við þurfum frelsi til athafna og einstaklingsframtak til að búa til fjármuni.  Síðan á ríkið að gera eins lítið og mögulegt er í forræðishyggju og eftirliti með fólkinu.  Það er ekki fyrr en frelsið fer að bitna á öðrum sem nauðsynlegt er að grípa inni og hafa áhrif á framganginn.  

Sjálfstæðisflokkurinn er eina ábyrga stjórnmálaaflið og verður að taka sæti í nýrri ríkisstjórn.  Það er ef til vill kominn tími til að skipta um meðreiðasvein í stjórnarsamstarfinu og láta reyna á vilja Krata til góðra verka.  Það er ekki sá grundvallarmunur í stefnuskrá þessara tveggja flokka að þeir geti ekki náð árangri saman.  Síðasta samstarf snérist meira um einstaklinga en ekki grundvallar skoðanamun.  Enda náði ríkisstjórnin frá 1991 til 1995 miklum árangri í efnahagsmálum.  Hæst stendur þar samningur um EES sem Framsókn og Kommar voru á móti, og ekki síður frelsun og nútímavæðing atvinnulífsins.  Dregið úr haftastefnu með áherslu á frjálst hagkerfi og utanríkisverslun.

 Að lokum þessi skilaboð frá Tý í Viðskiptablaðinu á fimmtudaginn var, en hann skorar á kjósendur í Norðvesturkjördæmi að tryggja Einari Oddi Kristjánssyni örugga kosningu á þing. Skattgreiðendur mega ekki missa sinn traustasta vin úr þingsölum.


 

XD Grin

 


Olíugjald af umferð

fjallvegur

Það var góður fundur í hádeginu í dag með Sturla Böðvarssyni samgönguráðherra í kosningamiðstöð Sjálfstæðismanna.  Troðið út úr dyrum og líflegar umræður og greinar góð svör frá ráðherra.  Eitt var það þó öðru fremur sem kætti bloggara á fundinum.  Það var við fyrirspurn Ragga í Gámaþjónustunni um olíugjaldið og skoðun hans um hversu óréttlátt það væri.  Raggi telur að ekki eigi að mismuna mönnum í sköttum þó þeir búi við fjalllendi eins og Vestfirðingar þar sem olíueyðsla er meiri en á sléttlendinu fyrir sunnan.  Olíugjald sé því ekki réttlát skattlagning.

Ráðherra svaraði að bragði að hann teldi að með nútíma tækni mætti láta þá menn borga sem notuðu.  Með GSM og GPS tækni mætti rukka ökumenn fyrir þann kostnað sem þeir raunverulega valda.  Ytri sem innri kostnaði við aksturinn, þ.e.a.s. þjóðhagslegum kostnaði.  Til að einfalda þetta mjög mætti ímynda sér að sá sem æki á nóttinni þegar fáir aðrir eru að nota mannvirkið myndu þá borga minna.  Meira kostaði ef betri leið væri farin með jarðgöngum eða hraðbraut.

Bloggari kom einmitt með þessa tillögu á Landsfundi Sjálfstæðismanna fyrir skömmu.  Einhvern vegin fannst honum að nefndarmenn í samgöngunefnd skildu ekki skilaboðin og hann væri svolítið á undan sinni samtíð.  En þarna kom í ljós að ráðherra er með þetta á hreinu sem er gott mál.  Það gæti hugnast Vestfirðingum að taka upp slíkt kerfi þar sem ódýrt væri að aka um Djúpveg en mjög dýrt að aka nálægt höfuðborginni.  Þetta er vegna ytri kostnaðar sem er t.d. mengun, slysahætta, örtröð og tafir sem er reiknað með sem kostnaði í auknum mæli í löndunum í kringum okkur.

En varðandi olíugjaldið vill bloggari koma sínum sjónarmiðum á framfæri.  Olíugjald er mjög skilvirk gjaldtaka.  Það hvetur til notkunar á sparneytnum ökutækjum.  Bylting er að verða í gerð díselvéla í flutningabílum sem nota minna eldsneyti.  Það er rétt að þeir sem nota sparneytin ökutæki njóti þess í lægri sköttum.  Betri samgöngumannvirki munu líka færa notendum hagræði.  Það er samfélaginu til góða.

Raggi og Jói


Á toppinn

island_hreintSíðastliðin sunnudag fór bloggari við þriðja mann upp á tind Eyjafjallajökuls á skíðum.  Lagt var upp við norðurhlíðar jökulsins við mynni Þórsmerkur.  Leiðindaveður var við akstur frá Reykjavík með slyddu og norðan sudda. 

Fjallganga

Fljótlega eftir að fjallgangan hófst birti til og eins og hendi væri veifað var komin heiðskýra með ótrúlegri fjallasýn að Heklu og Tindfjöllum.  Við 700 metra hæð var komið að snjólínu og skíðin spennt undir og gengin svokölluð Skerjaleið.  Það er gaman að ganga á fjallaskíðum en ekki auðvelt í nýfallinni mjöll.  Kannski fyrir sporgöngumennina en erfitt er að troða brautina.

Þegar komið er á jökulinn sjálfan þarf að setja á sig öryggislínu.  Það er traustvekjandi að hafa band í félaga sína til að mæta hugsanlegum óvæntum áföllum eins og jökulsprungu.  Þetta minnir svolítið á lífið sjálft.  Það er gott að hafa góð tengsl við vini og vandamenn til að takast á við óvæntar uppákomur í lífinu.  Það er svona svipað og líflínan sem fjallgöngumaðurinn hefur meðan gengið er yfir sprunginn jökul.

 Goðasteinn

Í 1560 metra hæð er komið að Goðastein sem gnæfir yfir þverhníptur tuttugu metrum hærra.  Ekkert annað að gera en haska sér á toppinn og virða fyrir sér ægifagurt útsýnið.  Vestmannaeyjar eins og leikfangakubbar í suðvestri.  Hekla í norð-vestur og Mýrdalsjökull í austri.  Þórsmörkin með Tindafjöllum í norðri og langt í fjarska má sjá Rjúpnafell og enn lengra glittir í Hrafntinnusker.

 

 

 

 Gunni og Stebbi

En það er ferðin niður á skíðum sem er toppurinn á þessum góða degi.  Nýfallinn púðursnjór og veður á súðum á siglingu niður hlíðar jökulsins.  Ekki stoppað fyrr en við snjólínu en þaðan þarf að klöngrast niður þverbratta hlíðina niður undir Markafljót.  Þetta var frábær en erfiður dagur. 

untitled


Innflytjendur og Frjálslyndi flokkurinn

EES

Innflytjendur

Það er grátbroslegt að fylgjast með umræðu formanns Frjálslynda flokksins í málefnum innflytjenda.  Það sama er uppi á teningnum hjá Guðjóni Arnari í þessu máli eins og kvótaumræðunni, að hann setur sig ekki inn í málin nægjanlega til að skilja þau.  Eftirfarandi er haft orðrétt eftir honum í Viðskiptablaðinu:

 „Ég tel að innflytjendur eigi að fá almennar upplýsingar um land og þjóð auk þess að fá upplýsingar um réttindi sín strax við komuna til landsins. Þá myndi fólkið sem hingað kæmi vita hver réttindi sín væru og hvernig ætti að sækja þau. Í kjölfarið ætti fólkið auðveldara með að starfa í þjóðfélaginu með okkur og öll aðlögun myndi ganga betur."

EES

Að gefnu tilefni er rétt að upplýsa formanninn um þá augljósu staðreynd að við erum hluti af Evrópsku efnahagsvæði þar sem samið var um meðal annars frjálsa för íbúa innan svæðisins.  2004 bættust átta fyrrum kommúnistaríki við EES og tvö ríki um síðustu áramót.  Við inngöngu þeirra var boðið upp á aðlögunartíma fyrir þau ríki sem fyrir voru innan EES sem Íslendingar ákváðu að notfæra sér.  Svíar hinsvegar gerðu það ekki og opnuðu landamæri sín strax fyrir þessu fólki.  Ekkert bendir til þess að sú ákvörðun hafi verið röng hjá frændum okkar.

Reiknað var með endurskoðun eftir tvö ár og var niðurstaða íslenskra stjórnvalda að ekki væri ástæða til að framlengja undanþágu á ferðafrelsi fólks frá þessum ríkjum. Í rauninni höfðu Íslendingar engar efnislegar forsendur til framlengingar.  Mikill skortur var á vinnuafli á Íslandi og með afnámi undanþágunnar var tryggt beint ráðningarsamband milli starfsmanns og atvinnurekanda sem best var til að tryggja réttindi launþega og ábyrgð atvinnurekanda.

Ríki utan EES

Hins vegar settu íslensk stjórnvöld ný lög um innflytjendur frá öðrum ríkjum sem eru utan EES, sem voru mun strangari en áður höfðu verið.  Frjálslyndi flokkurinn greiddi atkvæði gegn þessum lögum og barðist gegn setningu þeirra á sínum tíma.

Mikill munur er á þeirri stefnu Íslendinga að líta á sig sem Evrópubúa og þátttöku í uppbyggingu álfunnar og vörnum gegn ólöglegum innflytjendum frá öðrum ríkjum.  Annars vegar erum við að opna dyrnar fyrir fólki með lík viðhorf og menningu og hinsvegar að verja okkur gegn vandamálum sem fylgja því gangstæða.  Hér verður ekki lagður dómur á hvað sé betra eða verra en ólíkir menningarheimar rekast oft harkalega á og má benda á vandamál víða í Evrópu því til sönnunar.

,,Gamlir og nýjir Íslendingar"

Í tilvitnuninni hér að ofan er eins og formaður Frjálslynda flokksins átti sig ekki á þessum mun.  Pólverji sem kemur til Íslands er ekki stoppaður af í Leifsstöð.  Hann gengur þar í gegn eins og heimamaður, labbar sig niður á bryggju og biður um vinnu.  Hann hefur til þess fullan rétt og þarf engin leyfi til. 

Að sjálfsögðu eigum við að taka vel á móti þessu fólki og tryggja aðlögun þeirra eins og vel og kostur er.  Það er bara allt önnur umræða.  En sú umræða sem Frjálslyndiflokkurinn heldur á lofti er lýðskrum til að sækja atkvæði í örvæntingu þar sem kvótaumræðan er töpuð.  Sem betur fer.

Efnahagsmál

Annað sem vakti athygli bloggara var yfirlýsing formannsins um að tímabundin innflutningur vinnuafls við uppbyggingu Kárahnjúka hefði engin áhrif á Íslenskt hagkerfi.  Þetta er auðvitað allt önnur umræða þar sem þessir starfsmenn eru hér tímabundið og margir þeirra frá ríkjum utan EES.  Að sjálfsögðu hefur það mikil áhrif á hagkerfið og dregur úr þennslu að flytja inn starfsmenn til að taka kúfin af við slíkar risa framkvæmdir.  Allir sem setja sig inn í efnahagsmál eru sammála um það.  Það dregur úr þennslu á vinnumarkaði og laun eru greidd í erlendum gjaldeyri og koma varla inn í hagkerfið. 

 


Einar Kristinn og sjávarútvegurinn

EKG

 

Steingrímur Hermannsson

Bloggara var heldur betur brugðið þegar grein birtist í Blaðinu eftir Steingrím Hermannsson undir ,,Umræðunni" á fimmtudaginn var. Greinin var hæðnispistill til Einars Kristins Guðfinnssonar vegna kvótamálsins í tengslum við nýjustu fregnir af kvótasölu í Bolungarvík.

Eftir að hafa lesið um átökin í kringum kvótalögin var bloggari heldur betur hissa á greinarskrifunum þó hann vissi um hug okkar gamla þingmanns til kvótakefisins, en ábyrgð hans á kerfinu eru óumdeilanleg. Það var því ákveðin léttir að sjá leiðréttingu um að greinin var eftir allt annan Hermannsson og sá er ekki svara verður á þessum vettvangi.

Jakob Valgeir

Það er hinsvegar gaman að fylgjast með uppgangi Jakobs Valgeirs ehf í Bolungarvík sem nú er orðinn burðarásinn í atvinnulífi bæjarins.  Traustir og öflugir menn sem vita hvað þeir eru að gera og hafa náð einstökum árangri í útgerð og fiskvinnslu. Dæmi um hvernig framsalsréttur kvótans gefur dugandi mönnum tækifæri með heiðarlegri samkeppni og uppkaupum af þeim sem lakar standa sig.

Fyrirtækið er stofnað eftir kvótasetningu og því eru eigendur hluti af nýliðum í greininni. Það væri synd ef þeir hefðu ekki fengið tækifæri til að hasla sér völl og aðgengi að greininn lyti ekki lögmálum markaðarins.

Sjávarútvegsráðherra hefur marg bent á þá staðreynd að líta verði á sjávarútveg sem atvinnugrein. Íslendingar hafi ekki efni á að reka útgerð sem einhverskonar byggðastofnun líkt og Evrópusambandið og Norðmenn. Reyndar eru aðeins tvær þjóðir í veröldinni sem reka sjávarútveg sem skilar góðum fiskveiðiarði, það eru Íslendingar og Nýsjálendingar. Báðar þjóðirnar nota kvótakerfi til hagræðingar í útgerð.

Óvissa í greininni

Það er hinsvegar lífspursmál fyrir atvinnugrein eins og sjávarútveg að fá frið fyrir misvitrum stjórnmálamönnum. Óöryggið sem fylgir yfirlýsingum stjórnmálamanna sem reyna hvað þeir geta til að ná fylgi með lýðskrumi fælir menn úr greininni. Ein megin ástæðan fyrir brotthvarfi sjávarútvegsfyrirtækja af almennum hlutabréfamarkaði er neikvæð umræða um greinina og óöryggi hennar vegna pólitískra hrossakaupa. Varkáir hlutabréfakaupendur hafa sniðgengið bréf í sjávarútvegsfyrirtækjum vegna óvissu í greininni. Það hafði áhrif á verðmætið til lækkunar með þeim hætti að eignarhaldið hefur færst á æ færri hendur með tilheyrandi samþjöppun í greininni.

Sjávarútvegsráðherra

Þegar Einar Kristinn tók við stjórnartaumum í sjávarútvegsráðuneytinu sagði hann að tími lagabreytinga væri liðinn. Tími væri kominn til að greinin fengi frið til að þróast og dafna og skapa þyrfti henni stöðuleika og öryggi.  Hann hefur bent réttilega á að sjávarútvegur er í samkeppni við aðrar atvinnugreinar um fólk og fjármagn. Með því að hrekja greinina af markaði er öflug leið til fjármögnunar farin. Neikvæð umræða verður til þess að ungt og efnilegt fólk sniðgengur greinina og hún fer á mis við nauðsynlegan mannauð til framsóknar í framtíðinni. Leyfum sjávarútveginum að þroskast sem atvinnugrein í framtíðinni. Vestfirðingar hljóta að geta keppt á jafnréttisgrunni til að efla útgerð í heimabyggð. Gott dæmu um það má sjá út í Bolungarvík.


Land- og sjóflutningar

vegur

Það grípur bloggara stundum vonleysi þegar hann hlustar á rökleysu byggða á fáfræði.  Oft eru öll vopn slegin úr höndum manna og ekki hægt að festa hönd á neinu þegar þessu er beitt.  Allri almennri þekkingu er hent fyrir róða og fáfræðin veður á súðum.

Aftur og aftur er verið að tala um áætlanasiglingar skipa til Ísafjarðar og ríkið eigi að niðurgreiða slíka flutninga.  Rökin fyrir þessu eru helst eftirfarandi:

For- og framhaldsfrakt

Í fyrsta lagi hafi verð stórhækkað hjá framleiðendum sjávarfangs við aflögn áætlanasiglinga. 

Skoðum þetta nánar.  Það sem gerðist og breytti stöðunni var að áður var sama gjald hjá útflytjendum, sama hvar þeir voru á landinu, svokallaður forflutningur.  Einnig var í mörgum tilfellum sama gjald hvert innflutningur fór á Íslenskar hafnir, svokallaður áframflutningur.  En hver skyldi hafa greitt fyrir þetta?  Að sjálfsögðu aðrir viðskiptavinir sem ekki höfðu sömu stöðu á markaði.  Hinn almenni viðskiptavinur.  Í dag er krafan sú að sá greiðir sem notar.  Þetta kemur vel fram í Hvítbók ESB sem er stefnumótun í samgöngumálum sambandsins og reyndar í norskum og dönskum rannsóknarskýrslum. 

Þjóðarhagur

Í öðru lagi að það sé þjóðhagslega hagkvæmt að flytja með skipi en ekki bíl og rétt sé að bæta samkeppnishæfni skipaflutninga.

Flutningabílar eru í dag að greiða 11% umfram þann þjóðhagslega kostnað sem þeir valda.  Þá er gert ráð fyrir bæði innri og ytri kostnaði, sem er t.d. viðhald, mengun, loftslagsbreytingar, örtröð, tafir og slysahætta.  Varla tala menn fyrir því að meiri gjöld  verði lögð á bílana sem myndi auka enn frekar kostnað Vestfirðinga umfram Reykjavíkursvæðið.  En hvað þá?  Lækka álögur á skipin?  Skipið er ekki að greiða neitt til ríkisins til að standa undir þjóðhagslegum kostnaði við flutningana.  Skipin og viðskiptavinir eru að greiða til hafnarinnar sem er í eigu sveitarfélagsins.  Haldi menn að þau gjöld séu of há er rétt að beina því til Ísafjarðarbæjar.  Ástæðan fyrir óhagkvæmni skipana er hár fastur kostnaður sem kallar á mikið flutningamagn til að ná niður meðalkostnaði.  Slíkt magn er til staðar víða í Evrópu en langt frá því hér á Ísafirði.

Niðurgreiðslur eru aldrei réttlætanlegar sem sértækar aðgerðir þar sem ekki er um lífspursmál fyrir íbúana að ræða.  Að ætla að niðurgreiða fyrir einhverja sérstaka aðila en ekki aðra er alvarleg mismunun.  Einnig er niðurgreiðsla með skattfé óskilvirk aðferð sem rekur fleyg á milli athafna og arðsemi einstaklinga.

Rétt er að bæta við að ríkið hefur stórkostlega niðurgreitt skipaumferð með því að greiða kostnað við mannvirkjagerð án gjaldtöku í staðinn.

Landflutningar

Í þriðja lagi heyrist það oft hversu vont sé að hafa þessa flutningabíla á þjóðvegunum og nauðsynlegt sé að losna við þá.

Í dag eru vegir hannaðir fyrir 11.5 tonna öxulþunga.  Flutningur á 28.000 tonna framleiðslu sjávarfangs á norðanverðum Vestfjörðum hefur ekki afgerandi áhrif á slit þeirra.  Djúpvegur er með umferð sem er innan við 100 bílar á sólarhring sem er mjög lítið.  Þetta er helsta vandamál Vestfirðinga í samgöngumálum.  Mikilvægt er að þessi vegur fái þau viðskipti sem möguleg eru. 

Vegabætur skipta miklu máli varðandi kostnað og undravert hve lítð talsmenn sjóflutninga tala um það.  Reiknað hefur verið út að vegabætur sem nú standa yfir gætu sparað um 20% af kostnaði við landflutninga.  Mestu munar um að meðal vegalengd hjá flutningabílum fer úr 515 km í 458 km.  Einnig eru breytingar á þungatakmörkunum vegna vegabóta sem verður lokið haustið 2008, mikilvægar.

Framtíðin

Sjálfstæðisflokkurinn og samgönguráðherra hafa skilað Vestfirðingum miklu með Grettistaki í vegamálum Vestfirðinga.  Þegar hafa miklar vegabætur átt sér stað við Djúp og enn meira er í framkvæmd.  Brú yfir Mjóafjörð og nýr vegur um Reykjanes í Ísafjörð.  Vegur um Arnkötludal sem liggur í Dalasýslu og losar vegfarendur við Strandir og Holtavörðuheiði.  Göng undir Óshlíð og miklar vegabætur til sunnanverðra Vestfjarða. 

Mikil aukning hefur orðið á framleiðslu fersks fisk á erlendan markað.  Þar liggja sóknarfærin og hefur fyrirtæki eins og HG náð miklum árangri á þessum markaði.  Ný fiskvinnsla á Bíldudal er hugsuð fyrir þann markað en landflutningar eru forsenda fyrir slíkri framleiðslu.  Engin möguleiki er að flytja þessa afurðir með skipi frá Ísafirði eða Bíldudal.

Bloggari hefur lagst í töluverða stúdíu vegna þessa og hvergi fundið haldbær rök eða rannsóknarvinnu sem styður sjóflutninga.  Víða er hægt að finna hið gagnstæða sem mælir gegn slíkum gamaldags aðferðum og hugsunarhætti. 


« Fyrri síða

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 27
  • Frá upphafi: 283939

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 27
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband