Land- og sjóflutningar

vegur

Það grípur bloggara stundum vonleysi þegar hann hlustar á rökleysu byggða á fáfræði.  Oft eru öll vopn slegin úr höndum manna og ekki hægt að festa hönd á neinu þegar þessu er beitt.  Allri almennri þekkingu er hent fyrir róða og fáfræðin veður á súðum.

Aftur og aftur er verið að tala um áætlanasiglingar skipa til Ísafjarðar og ríkið eigi að niðurgreiða slíka flutninga.  Rökin fyrir þessu eru helst eftirfarandi:

For- og framhaldsfrakt

Í fyrsta lagi hafi verð stórhækkað hjá framleiðendum sjávarfangs við aflögn áætlanasiglinga. 

Skoðum þetta nánar.  Það sem gerðist og breytti stöðunni var að áður var sama gjald hjá útflytjendum, sama hvar þeir voru á landinu, svokallaður forflutningur.  Einnig var í mörgum tilfellum sama gjald hvert innflutningur fór á Íslenskar hafnir, svokallaður áframflutningur.  En hver skyldi hafa greitt fyrir þetta?  Að sjálfsögðu aðrir viðskiptavinir sem ekki höfðu sömu stöðu á markaði.  Hinn almenni viðskiptavinur.  Í dag er krafan sú að sá greiðir sem notar.  Þetta kemur vel fram í Hvítbók ESB sem er stefnumótun í samgöngumálum sambandsins og reyndar í norskum og dönskum rannsóknarskýrslum. 

Þjóðarhagur

Í öðru lagi að það sé þjóðhagslega hagkvæmt að flytja með skipi en ekki bíl og rétt sé að bæta samkeppnishæfni skipaflutninga.

Flutningabílar eru í dag að greiða 11% umfram þann þjóðhagslega kostnað sem þeir valda.  Þá er gert ráð fyrir bæði innri og ytri kostnaði, sem er t.d. viðhald, mengun, loftslagsbreytingar, örtröð, tafir og slysahætta.  Varla tala menn fyrir því að meiri gjöld  verði lögð á bílana sem myndi auka enn frekar kostnað Vestfirðinga umfram Reykjavíkursvæðið.  En hvað þá?  Lækka álögur á skipin?  Skipið er ekki að greiða neitt til ríkisins til að standa undir þjóðhagslegum kostnaði við flutningana.  Skipin og viðskiptavinir eru að greiða til hafnarinnar sem er í eigu sveitarfélagsins.  Haldi menn að þau gjöld séu of há er rétt að beina því til Ísafjarðarbæjar.  Ástæðan fyrir óhagkvæmni skipana er hár fastur kostnaður sem kallar á mikið flutningamagn til að ná niður meðalkostnaði.  Slíkt magn er til staðar víða í Evrópu en langt frá því hér á Ísafirði.

Niðurgreiðslur eru aldrei réttlætanlegar sem sértækar aðgerðir þar sem ekki er um lífspursmál fyrir íbúana að ræða.  Að ætla að niðurgreiða fyrir einhverja sérstaka aðila en ekki aðra er alvarleg mismunun.  Einnig er niðurgreiðsla með skattfé óskilvirk aðferð sem rekur fleyg á milli athafna og arðsemi einstaklinga.

Rétt er að bæta við að ríkið hefur stórkostlega niðurgreitt skipaumferð með því að greiða kostnað við mannvirkjagerð án gjaldtöku í staðinn.

Landflutningar

Í þriðja lagi heyrist það oft hversu vont sé að hafa þessa flutningabíla á þjóðvegunum og nauðsynlegt sé að losna við þá.

Í dag eru vegir hannaðir fyrir 11.5 tonna öxulþunga.  Flutningur á 28.000 tonna framleiðslu sjávarfangs á norðanverðum Vestfjörðum hefur ekki afgerandi áhrif á slit þeirra.  Djúpvegur er með umferð sem er innan við 100 bílar á sólarhring sem er mjög lítið.  Þetta er helsta vandamál Vestfirðinga í samgöngumálum.  Mikilvægt er að þessi vegur fái þau viðskipti sem möguleg eru. 

Vegabætur skipta miklu máli varðandi kostnað og undravert hve lítð talsmenn sjóflutninga tala um það.  Reiknað hefur verið út að vegabætur sem nú standa yfir gætu sparað um 20% af kostnaði við landflutninga.  Mestu munar um að meðal vegalengd hjá flutningabílum fer úr 515 km í 458 km.  Einnig eru breytingar á þungatakmörkunum vegna vegabóta sem verður lokið haustið 2008, mikilvægar.

Framtíðin

Sjálfstæðisflokkurinn og samgönguráðherra hafa skilað Vestfirðingum miklu með Grettistaki í vegamálum Vestfirðinga.  Þegar hafa miklar vegabætur átt sér stað við Djúp og enn meira er í framkvæmd.  Brú yfir Mjóafjörð og nýr vegur um Reykjanes í Ísafjörð.  Vegur um Arnkötludal sem liggur í Dalasýslu og losar vegfarendur við Strandir og Holtavörðuheiði.  Göng undir Óshlíð og miklar vegabætur til sunnanverðra Vestfjarða. 

Mikil aukning hefur orðið á framleiðslu fersks fisk á erlendan markað.  Þar liggja sóknarfærin og hefur fyrirtæki eins og HG náð miklum árangri á þessum markaði.  Ný fiskvinnsla á Bíldudal er hugsuð fyrir þann markað en landflutningar eru forsenda fyrir slíkri framleiðslu.  Engin möguleiki er að flytja þessa afurðir með skipi frá Ísafirði eða Bíldudal.

Bloggari hefur lagst í töluverða stúdíu vegna þessa og hvergi fundið haldbær rök eða rannsóknarvinnu sem styður sjóflutninga.  Víða er hægt að finna hið gagnstæða sem mælir gegn slíkum gamaldags aðferðum og hugsunarhætti. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sammála þér með sjóflutningana, þeir eru búnir að vera og koma ekki aftur í bráð alveg sama hvað Vinstri grænir væla.  En hitt er að það er bara búið að "hálf-lyfta" Grettistakinu í samgöngumálum á Vestfjörðum og Ströndum!  Vegakerfið er ennþá um 15 árum á eftir og það þolir enga bið að ljúka við að malbika á alla þéttbýlisstaði á Vestfjarðakjálkanum en eins og samgönguáætlun er í dag þá gæti það dregist til 2014 að því verði lokið.  Síðan eigum við Vestfirðingar stærsta safn í heimi af einbreiðum brúm sem margar hverjar eru mjög hættulegar, það var að vísu farið í átak í að fækka einbreiðum brúm á Ströndum fyrir nokkrum árun en í kjölfarið var farið í að byggja einbreiða vegi með tvíbreiðum vegræsum (í stað brúnna).  En nóg um það sem liðið er, ég vona allavega að vandræðagangnum hjá vegagerðinni á Vestfjörðum fari að ljúka og endurgerð vega og vetrarþjónusta komist í það horf sem þekkist í öðrum landshlutum.

H. Vilberg (IP-tala skráð) 1.5.2007 kl. 15:21

2 Smámynd: Gunnar Þórðarson

Allir vegir sem eru eldri en 10 ára á íslandi eru úreltir.  Þróunin hér hefur einfaldlega verið mun hraðari en framkvæmdir í vegamálum. Það er engin sáttur við sitt hlutskipti í þeim efnum, hvar sem þeir búa á landinu.  Nú er vinur minn Sturla að tala um að stytta tíma samgönguáætlana einmitt niður í 7 ár.  Það eru tæpir hundrað milljarðar sem setja á í samgöngur á þeim tíma.  Málið er auðvitað að þegar kemur að því að ríkið þarf að sýna ábyrga fjármálastefnu í þensluástandi er hvergi hægt að draga úr nema í samgöngum.  Ekki er hægt að draga úr umsvifum ríkisins í skólum eða sjúkrahúsum.  

Aðal atriðið hjá okkur Ísfirðingum er tengingin við Reykavík og við sjáum fram á malbikaðan veg í sept-okt á næsta ári.  Það er Grettistak fyrir okkur.

Gunnar 

Gunnar Þórðarson, 2.5.2007 kl. 08:32

3 identicon

Satt og rétt.  En þið Ísfirðingar megið ekki gleyma öllum hinum sem búa á Vestfjarðakjálkanum!  Ég vil líka minna á að það eru allavega 3 mjög hættulegar brýr á nýjum þjóðvegi Ísfirðinga og Strandamanna um Dali sem ekki á að laga fyrr en eftir 10 ár eða svo.  Það er annað að nýjum vegi um Arnkötludal ber að fagna, en um leið má ekki fagna um of svo ekki verði haldið áfram að koma Kjálkanum inn í nútímann.

H. Vilberg (IP-tala skráð) 2.5.2007 kl. 08:57

4 Smámynd: Karl Jónsson

Kröfurnar í dag, hvort sem ég er að panta mér vörur að sunnan, eða fiskútflytjandinn að senda frá sér fisk, eru þær, að vara sé flutt á milli staða á sem skemmstum tíma. Þú vilt fá vörurnar til þín daginn eftir að þú pantar þær, það er bara þannig. Fiskútflytjandinn vill koma sínum fiski á markað sem fyrst eftir að hann sendir hann frá sér.

Þetta eru kröfurnar og aðeins bílar geta annað eftirspurn um skjótan flutning. Verkefnið er að gera vegi landsins þannig úr garði að þeir geti tekið betur á móti þessari umferð.

Karl Jónsson, 3.5.2007 kl. 09:17

5 Smámynd: Gunnar Þórðarson

Sæll Kalli.  Þetta er alveg rétt.  Það var einmitt frétt í morgun um nýja fiskvinnslu á Bíldudal.  Þar er staðfest sem ég held fram að sú vinnsla mun byggja á flugfisk.  Ferskur fiskur verður aldrei fluttur með skipum en þar liggur sóknarfæri íslensk sjávarútvegs.  Við þurfum betri vegi og betri samgöngur.  Það er lífsspursmál fyrir Vestfirði.  Ég undanskil ekki Strandir og óska strandamönnum til hamingju með Arnkötludal.

Gunnar Þórðarson, 3.5.2007 kl. 14:14

6 Smámynd: Þórbergur Torfason

Sæll félagi. Mér sýnist framsýni Ómars með millilandaflugvöllinn á Barðaströndinni bara alveg í takt við órana sem hér blasa við. Bara burrr burrr. Er ekkert hugmyndaauðgi í gangi þarna vesturfrá. Bara að minna á að ferskur fiskur hefur verið fluttur erlendis, sjóleiðina síðan löngu fyrir okkar tíð. Talsvert af ferskum fiskafurðum er nú þegar flutt með Norröna. Það hefur eitthvað gleymst í viðskiptafræðslunni!

Þórbergur Torfason, 3.5.2007 kl. 22:30

7 Smámynd: Gunnar Þórðarson

Ég er reyndar ekki að tala um hráefni þegar ég nefni ferskan fisk, heldur afurðir.  Þær eru ekki flutta með skipi enda hefur fiskur sem búið er að flaka og vinna á frekari hátt mjög skamman líftíma.  Slíkur fiskur er og verður fluttur á bílum suður og þaðan í flugi.  Sóknarfæri okkar Íslendinga virðast liggja í slíkri framleiðslu en hraði er eitt af grundvallar atriðum þar.  Annað mjög mikilvægt í þessum viðskiptum er öryggi afhendinga á vörunni.  Kaupandi þarf að fá stöðugt framboð og tryggt.  Kvótakerfið er ein ástæðan fyrir því að hægt er að tryggja afhendingu.  Ef menn hefður farið út í dagróðrakerfi hefði kvótinn klárast á miðri vertíð og framboðið stöðvast.

Gunnar Þórðarson, 5.5.2007 kl. 09:19

8 Smámynd: Þórbergur Torfason

Sæll aftur. eins og ég benti þér á er nú þegar talsvert af unnum fiskafurðum flutt út með Norröna. Þannig fer hluti af afurðum Eskju á Eskifirði og fleiri aðilum á Austfjörðum, futt með bílum til Seyðisfjarðar í stað þess að vera flutt með bílum til Keflavíkur. Spurning hvort hægt sé að notast við skipaflutninga Vestfirðir/Faxaflói. Því ekki eða aftur, snöggsoðin hugmynd Ómars um alþjóðaflugvöllinn á Barðaströnd þar sem alltaf er logn.

Þórbergur Torfason, 5.5.2007 kl. 18:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 33
  • Frá upphafi: 284015

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 32
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband