Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007

Kosningaloforðin

kind

Loforðin

Í dag dynja á landsmönnum kosningaloforðin.  Samfylkingin lofar ,,ókeypis" tannlækningum ásamt öðru og einhver reiknaði út að kosningaloforð Íslandshreyfingarinnar væri komin upp í 200 milljarða.  Ég tárfelli yfir örlæti frambjóðenda, góðmennsku þeirra og hugulsemi.  Bloggari ætlar að kjósa þá alla.  Bloggari heyrði Ingibjörgu Sólrúnu lofa í auglýsingu að stytta vinnutíma landsmanna þannig að þeir gætu eytt meiri tíma heima með fjölskyldum sínum.  Nú er bloggari byrjaður að kjökra yfir þessar hjartahlýju og umhyggju fyrir velferð hans.

Hver borgar

Bloggari heyrði á tal tveggja Bolvíkinga um daginn þar sem óbreyttur sagði við bæjarstjórnarmann að fyrirhugaðar framkvæmdir við rennibraut við sundlaug staðarins væri allt of dýr og myndi kosta bæjarsjóð mikið í fjárfestingu og viðhaldi.  Miðað við væntanlega nyt af mannvirkinu væri þetta bara vitleysa.  Bæjarstjórnarmaðurinn hélt nú ekki að þetta væri of dýrt.  Bæjarstjórnin ætlaði að gera þetta fyrir ,,fólkið" sem ætti þetta rækilega skilið.

Mér verður oft hugsað til orða Friedmans sem sagði einhvern tímann að hann vildi bæta við 11 boðorðinu og það yrði einhvern veginn svona:  ,,Ef þú vilt vera örlátur þá skaltu vera það á eigin kostnað"

Síðast þegar bloggari reif upp launaseðilinn sinn var ríki og bær búin að taka ríflegan hluta þeirra.  Bloggara líður eins og honum hafi verið boðið í mat og fengið reikninginn á eftir.

Fleiri loforð

Hversu mikil eiga völd stjórnmálamanna að vera?  Þarna eru átakalínurnar í pólitík sem sumir rugla með hægri og vinstri.  Bloggari vill nota frelsi og ófrelsi.  Hvers lags fyrirhyggjupólitík er að lofa meiri frítíma og vera búin að ákveða hvað kjósandi ætlar að gera við hann.  Hægt væri að láta alla launamenn hafa kort þar sem þeir stimpla sig út úr vinnunni og síðan inn á heimilið.  Þannig mætti fylgjast með því að almenningur fylgi forskriftinni.

Bloggari var að skoða kosningabækling ungs Samfylkingarfólks.  Í miðopnu er mynd sem sýnir þessi hræðilegu tólf ár sem borgaraöflin hafa verið við völd.  En áhugaverðara er að skoða framtíðarsýn jafnaðarmanna næstu tólf árin eftir sigurinn í kosningum í vor.

Það sem mesta athygli vekur er Ingibjörg Sólrún að ríða á Georg W. Bush.  Bloggari hefur heyrt um margar fantasíur en þessi tekur allt út.  Ingibjörg er með svipu og sveiattan bara ef Georg er ekki í latex.

Annað sem vekur athygli er prestur sem eflaust er að gefa saman samkynhneigða karlmenn.  Bloggari kynnir sig sem fordómalausan mann og stendur við það.  Í hans huga má fullorðið fólk gera það sem þeim sýnist í þessum málum.  Hinsvegar ræður þjóðkirkjan því hvað hún gerir.  Ef hún vill ekki vígja slíka sambúð er það hennar mál, og alls ekki stjórnmálamanna sem eru í framboði.  Öllu hinu hefur bloggari bara gaman af, sérstaklega rollunni sem komin er í búning fjallkonunnar. 

Landbúnaðurinn

Bara að hægt væri að reiða sig á Kratana.  Að einhverstaðar væri hægt að festa hönd á stefnu þeirra.  Þeir ættu að öllu eðlilegu að vera nálægt frelsishugsjóninni og í samstarfi gætu þeir hjálpað Íslendingum að ná fjallkonubúningnum af kindinni.  Sjálfstæðismenn munu aldrei gera það með hjálp Framsóknar.


Aftur á toppinn

Simbi og gunni

Enn er lagt á toppinn á Eyrarfjalli.  Við félagarnir erum orðnir daglegir gestir á tindinum yfir Seljalandsdal.  Í dag gengum við fram á tvær lóur sem minnir á sumarið framundan.  En það voru fleiri á ferðinni á þessum slóðum í dag þar sem fjórir skíðamenn eltu okkur upp í þetta sinnið.

Á leiðinni upp í þessa tæplega 700 metra varð mér hugsað til kosningabaráttunnar.  Þetta er svona svipað.  Blóð sviti og tár í baráttunni en svo er maður kominn upp.  Þannig líður manni á kosningakvöldi og úrslitin eru svona svipuð og færið á leiðinni niður.  Ef árangur míns fólks verður í einhverri líkingu við rennslið sem við Simbi fengum í dag niður hlíðar Seljalandsdals, þarf ekki að hafa áhyggjur af næstu fjórum árum.  Þetta var einfaldlega æðislegt.  Ekki skil ég félaga okkar sem kaus að fara í golfferð til Svíþjóðar.  Það getur ekki verið betra en þetta.  Glampandi sól og 18° hiti á eyrinni.  Logn á tindinum.  Við leggjum aftur íann í fyrramálið.  Lífið er dásamlegt.

simbi


Skip og bílar

skip

Ríkisskip

Það hefur ekki komið bloggara á óvart að endurreisn Ríkisskipa séu kosningamál Vinstri grænna.  Þeir eru flokkur ófrelsis sem vilja völd stjórnmálamanna sem mest og telja sig mun hæfari en markaðinn til að útdeila gæðum.  Ríkið á að vasast í öllu og það næsta sem maður sér fyrir sér er fimm ára áætlun til að ákveða þarfir allra einstaklinga og hvernig á á sinna þeim.  Í þessu gæti falist að ríkið (stjórnmálamenn) tækju slíkar ákvarðanir þar sem frjáls markaður og eftirspurn neytanda sé ekki treyst til þess.

Niðurgreiðslur

Í upphafi síðustu aldar niðurgreiddi ríkið standsiglingar um upphæð sem var um 3% af vergri landsframleiðslu.  Í dag væri sú upphæð um 30 milljarðar króna sem væri dágóð upphæð til niðurgreiðslu þegar litið er til þess að þjóðhagslegur kostnaður Íslendinga af samgöngum er í kringum 18.7 milljarða króna á ári.  Þjóðhagslegur kostnaður endurspeglar bæði ytri og innri kostnað og þá er meðtalin óbeinn kostnaður af mengun, slysahættu, örtröð og töfum ásamt byggingar- og viðhaldskostnaði.

Hversvegna ekki að ausa svolítið úr nægtabrunninum sem ríkiskassinn er?  Hvers vegna ætti ríkið ekki að niðurgreiða þetta og í stað þess að treysta markaðinum til að sjá um að útdeila gæðum? 

Almenn niðurgreiðsla leiðir til velferðataps þar sem hún er fjármögnum með sköttum sem skekktir verðhlutföll og leiðir til ákvörðunar sem hámarka ekki þjóðarhag.  Það rekur fleyg á milli athafna einstaklings og ávinnings þjóðfélagsins af þeim.

Ef ríkisvaldið ætlar að niðurgreiða sjáflutninga, rekur það einmitt fleyg á milli athafna einstaklinga og þann ávinning sem þjóðfélagið hefur af flutningum.

Bloggari ætti nú ekki að hafa miklar áhyggjur af þessum kommúnisma enda Vinstri grænir komnir niður í Campari styrkleika.  En viti menn.  Úr óvæntustu átt koma ótíðindin.  Nema að bloggari sé að miskilja hlutina gjörsamlega.

Íhaldið og niðurgreiðslur

Í kosningabækling Sjálfstæðismanna í Norðvesturkjördæmi segir meðal annars að samkeppnisstaða sjó- og landflutninga verði löguð.  Bloggari veltir fyrir sér hvort álögur séu allt of háar á bílum og þurfi að lækka hann til að bílar verði samkeppnishæfari en skip.  Það getur varla verið þar sem bílar eru einmitt hagkvæmari í dag en skip og þess vegna eru engar áætlunarsiglingar á Ísafjörð.  Það var hin ískalda hönd markaðarins, sem mismunar mönnum ekki, sem tók þá ákvörðun.  Eða eru menn að tala um skipin?  Það þurfi að lagfæra samkeppnisstöðu þeirra?

Kostnaður af umferð

Bílar eru að greiða umtalsvert meira til ríkisins en sá þjóðhagslegi kostnaður sem þeir valda.  Stundum er sagt að fólksbílar niðurgreiði umferð flutningabíla og er eitthvað til í því.  En ef flutningabílar eru teknir út úr sérstaklega þá greiða þeir um 11% meira en allur þjóðhagslegur kostnaður er sem þeir valda.  Sennilega er kostnaðurinn enn lægri á Djúpvegi þar sem verulegur hluti af slíkum kostnaði eru þrengsli, umferðaröngþveiti, mengun og slysahætta, en það er í lágmarki á jafn fáförnum vegi.

Skipin hinsvegar eru ekki að greiða neitt til ríkisins en greiða hafnar- og vörugjöld til eiganda hafna.  Tæplega hafa þeir aðilar borð fyrir báru til að lækka álögur.  Ríkið hefur gefið 75% af byggingar- og viðhaldskostnaði hafna í gegnum tíðina og hefur verið gríðarlegur ríkisstyrkur fólgin í því. 

Það er hinsvegar lífsspursmál fyrir þjóðvegin um Djúp að hafa flutningabíla sem viðskiptavini.  Helsti óvinur vegarins er lítil notkun og þar af leiðandi hár innri kostnaður.  Vegir sem lagðir eru í dag þola þunguflutninga og því engin ástæða til að losna við flutningabíla af þeim.

Hugsjónin

Bloggari er nokkuð viss um að hér sé um prentvillu að ræða í umræddum bækling.  Okkar menn færu aldrei að óska eftir ríkisstyrkjum fyrir fámennan hóp aðila og ganga þvert gegn stefnuskrá flokksins og algerlega gegn hagsmunum þjóðarinnar.  Bloggari reiknar með slíku frá Vinstri grænum en fyllist vonleysi þegar það kemur frá þeim sem eiga að vera talsmenn frelsis, sverð þess og skjöldur.


Jafnaðarmennska

images

Íhaldsmenn

Til að skilja flókin mál eru þau oft sett í kassa og skilgreind þannig að skilja megi muninn á epli og appelsínu.  Í pólitík er talað um hægri og vinstri en bloggari skilgreinir stjórnmálin frekar sem frelsi og ófrelsi, eins og sjá má á fyrri bloggfærslum.

Bloggari hefur sérstaklega gaman af þegar menn skilgreina sig sem íhaldsmenn og tengja það við að halda í gamalt og gott og hafna óþarfa nýjungum.  Í  sögu hagfræðilegrar hugsunar er skilgreiningin allt önnur og má segja að íhaldsmaðurinn sé frjálshyggjumaður.

Upphafsmaður auðhyggjunnar, Adam Smith, setti fram afskiptaleysiskenninguna ,,laissez fair".  Að afskipti ríkisvaldsins skyldi vera eins lítið og mögulegt væri en frelsi mætti þó aldrei vera þannig að bitnaði á öðrum.  Síðar komu kenningar um blandað hagkerfi frá mönnum eins og John Stuart Mills. 

Þekktastur er J.S. Mill fyrir rit sitt ,,Principles of Political Economy", en þar setur hann fram kenninguna um aðgreiningu á framleiðslu og skiptingu verðmæta.  Hér er um mikið grundvallaratriði að ræða en Mills heldur því þar fram að hagfræðin geti séð um framleiðsluhliðina en skipting gæðanna tilheyri stjórnmálunum. 

Klassískir hagfræðingar (Íhaldsmenn) héldu í grundvallar kenningar Adam Smith og gera það enn og frægustu hagfræðingar síðustu aldar tókust á um þessar tvær leiðir, Friedman, Hyek og Keynes.

Stjórnmálin í dag

Ef við skoðum stjórnmálin í dag eru þetta enn átakalínurnar.  Reyndar ganga menn misjafnlega langt en alltaf er bloggari jafn hissa þegar frjálshyggjumenn telja að skoðanir þeirra rúmist ekki innan Sjálfstæðisflokksins.  Flokkurinn byggir á því frelsi sem Adam Smith boðaði og þarf ekki annað en lesa stefnuskrá flokksins til að sjá það.  Eitt af grundvallaratriðum hjá Smith var að allir skyldu fá tækifæri til skólagöngu.  Reyndar byggir frjálshyggjan á jafnaðarstefnu sem gerir ráð fyrir að allir skulu hafa jafnan rétt til tækifæra.  Oft fer það fyrir brjóstið á bloggara þegar Sjálfstæðismenn ganga þvert gegn stefnumálum sínum, eins og í landbúnaðarmálum, en stjórnmál eru oft málamiðlanir. 

Í dag eru Vinstri grænir ójöfnuðarflokkur og á móti frelsi.  Þeir vilja afskipti stjórnmálamanna og völd mikil og hafa ekki trú á markaðinum til að útdeila verðmætum.  Þeir ganga reyndar mun lengra en það og vilja ríkisvaldið aftur að framboðshlið hagkerfisins og boða stofnun Ríkisskipa.  Flutningsaðilum er ekki treystandi til að sjá um þennan þátt þjónustu við almenning þannig að ríkisvaldið verður að koma inn og reka strandferðaskip.  Bera fyrir sig ósannindi um minni mengun en slíkt er að sjálfsögðu bundið við flutningsmagn. Engin skal miskilja þetta þannig að slíkt fyrirkomulag hámarki hag almennings.  Að skekkja þennan markað með ríkisafskiptum myndi aðeins draga úr hagkvæmri og skilvirkni flutninga.  Djúpvegur myndi missa umferð sem er honum lífsspursmál en innan við hundrað bílar aka hann á hverjum degi.  Þetta snýst um að hafa völd og sem stjórnmálamenn sjá þeir tækifærið í miklum ríkisafskiptum.

 Kommarnir

Sama er uppi á teningnum í kvótaumræðunnni.  Vinstri grænir vilja aftengja þann markað sem orðið hefur til í greininni og hefur aukið fiskveiðiarðinn gríðarlega.  Þeir ætla að deila gæðunum út handvirkt til þeirra sem Þeir, Vinstri grænir telja best að hafi kvótann.  Ég skora á alla að kynna sér útdeilingu á byggðakvóta í dag.  Engin sátt er um þessa pólitísku útdeilingu og ekki er hún hagkvæm eða skilvirk.  Þeir sem fá kvótann eru skikkaðir til að landa honum í heimabyggð en þeir selja eða landa eigin kvóta annars staðar í staðinn.

 Kratar

Einhver staðar þarna á milli Sjálfstæðismanna og Vinstri grænna eru Kratarnir.  Nokkurn veginn þar Mills byrjaði á blönduðu hagkerfi.  Þeir eru auðhyggjumenn og telja að hagkerfið eigi að vera afskiptalaust við öflun gæða en vilja pólitísk afskipti af útdeilingu þeirra.  Í kvótaumræðunni gerir þetta flokkinn mjög tvístígandi en kvótasetning með frjálsu framsali er mikilvægastur til að lágmarka afskipti ríkisins af greininni.  Hinsvegar er auðlindagjald að sjálfsögðu málefni Krata, eins og skattlagning yfir höfuð er.

Framsóknarmenn er ekki hægt að staðsetja í þessu umhverfi enda eru þeir eins og kameljón.  Skipta litum og breyta eftir geðþótta stjórnenda flokksins.  Ef til vill eru þeir að takast á við breytingar samtímans og eru því ekki bundnir við eitt né neitt.  En töluvert óöryggi hlýtur það að vera fyrir kjósendur. 

Stefnuskrá Sjálfstæðismann tryggir ákveðið öryggi fyrir flokksmenn.  Ítrekað heyrði ég það í stefnumótunarræðum á Landsfundi að þetta eða hitt væri ekki hægt þar sem það félli ekki að stefnuskrá flokksins.

Sjálfstæðisflokkurinn er góður flokkur en óskaplega verður tónninn falskur þegar kemur að landbúnaðarumræðu.  Kannski hann ætti að fara í ríkisstjórn með Krötum sem gætu komið flokknum upp á sporið í þeirri villu.  Ekki myndu Vinstri grænir gera það miðað við kostningastefnuna.


Á toppinn

Skíðað af toppnum

Það er gaman að komast á toppinn.  Það næðir þar og áhættan er talsverð, en það er þess virði.  Það er ekki síst ferðalagið upp sem telur þó erfitt sé og kosti svita og verki.  Maður stendur á öndinni af mæði og verkjar í lærvöðvana við að lyfta 84 kílóum af sjálfum sér ásamt nokkrum kílóum af búnaði.  Það er gaman að taka skíðin með enda húrran fljótleg niður aftur.

Undanfarið höfum við nokkrir félagar gengið á topp Eyrarfjalls upp af Seljalandsdals með skíði á bakinu.  Það er aðeins komið við í Skálinni okkar þar sem efri lyftan endaði fyrir snjóflóðið 1994.  Við eigum góðar minningar frá þessu svæði og útsýnið er dásamlegt.  Meðal annars má sjá rústir endurbyggðar lyftu sem sömu félagar stóðu að fyrir nokkrum árum.  Sú lyfta var langt komin í byggingu þegar snjóflóð rústaði henni árið 1999.

En Skálin er ekki toppurinn svo áfram þarf að þramma upp snarbrattan skaflinn.  Upp með klettabeltum og svo er maður komin upp.  Á TOPPINN.

Síðan er það rennslið niður snar-bratta híðina í mjúkum sveigjum þar sem stálkantar skíðanna rífa í hjarnið.  Í dag var þetta góð húrra á sumardaginn fyrsta. 

IMG_0484


Kvótakerfið

bátur

Kosningasjónvarpið á þriðjudaginn var skemmtilegur fundur og Ísfirðingar og Bolvíkingar sýndu enn og aftur að þeir kunna að taka þátt í svona giggi.  Ólíkt samskonar fundi á Selfossi var hressileikinn og fjörið alls ráðandi og setið í hverju sæti.

Afstaða flokkanna

Hart var sótt að Einari Kristni á fundinum en erfitt er að ræða jafn flókin mál og sjávarútvegurinn er í stuttum hnitmiðuðum setningum.  Það sem upp úr stendur eftir þessar umræður eru að Íslandsflokkurinn er með óskiljanlega stefnu í kvótamálinu.  Frjálslyndir ætla að kollvarpa kerfinu strax, Grétar Mar sagði ætlun þeirra vera að leyfa frjálsar veiðar á skaki á allt að 30 tonna bátum, stýra restinni með sóknarkerfi og útdeila sóknardögum til þeirra sem ættu það skilið!  Þeir hafa reyndar enga trú á vísindum og telja öll ráð frá Hafró sé bull.  Það sé bæði hægt og jafnvel nauðsynlegt að veiða miklu meira.  Samfylkingin með Össur Skarphéðinsson í fararbroddi finnst þetta allt bara fyndið og talar um fiskveiðar með hálfkæringi.  Sennilega eru bankarnir orðnir það stórir að Íslendingar geta vel farið að gera út í gamni.  Vinstri grænir vilja afnema kvótann strax og notast við pólitíska úthlutun hans aftur til byggðanna í landinu.  Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur vilja halda kvótakerfinu og lágmarka óvissu þannig að greinin geti þróast áfram sem alvöru atvinnugrein í samkeppni við aðrar.

Sporin hræða

Hvers vegna settu menn kvótakerfið á 1984?  Hvað hafði gengið á árin á undan sem fékk þjóðþingið til að samþykkja jafn afdrifarík og umdeild lög?  Hvaða aðstæður ríktu í þjóðfélaginu sem knúðu fram þessa breytingu.

Árið 1978 voru allir sammála um nauðsyn þess að gera eitthvað til að stjórna fiskveiðum.  Á mynd 1 sést vel hverju skrapdagakerfið skilaði en almennt er viðurkennt að það kerfi er óhagkvæmt, kallar á stærri og öflugri flota og mynda kapp um sókn sem veldur auknum kostnaði.

Mynd 1Floti og sókn með skrapdagakerfi

línurit

Á myndinni sést greinilega hvernig sóknin eykst en markmiðið með skrapdagakerfinu var að minka hana.  Hafa verður í huga að floti getur orðið mun öflugri án þess að stækka hann, t.d. með öflugri veiðarfærum eða aukinni vélastærð.

Staðan í efnahagsmálum var hrikaleg.  Verðbólga náði 80% um 1980 og um þetta leyti var útgerðin rekin með 25% halla.  Taprekstur Granda var rúmlega 700 milljónir árið 1983 og rúmur milljarður 1984 og er það núvirt til dagsins í dag.  Ofan í þetta allt hafði Hafró komið með ,,svörtu skýrsluna" 1975 um alvarlegt ástand þorskstofnsins.

Allir stjórnmálamenn voru sammála um að ástandið væri alvarlegt og eitthvað þyrfti að gera.  Öll hagsmunasamtök í sjávarútveg vildu aðgerðir fyrir utan FFSI en þar var Guðjón Arnar forseti og taldi allt tóma vitleysu sem kæmi frá Hafró.

Austfirðingar vildu aflamarkskerfi en Vestfirðingar voru á móti.  LÍÚ var algerlega á móti aflamarkskerfi og flestir stjórnmálamenn þess tíma.  Töldu að það myndi leiða til stöðnunar og meðalmennskan myndi ríkja ef kappið yrði tekið frá sjómanninum.

Leið að lausn

Almennt séð voru menn að gera sér grein fyrir nokkrum staðreyndum hvað varðar þessa atvinnugrein.  Þrátt fyrir útfærslu landhelginnar var ofveiði orðin verulegt vandamál.  Reynt var að draga úr stækkun flotans en þar sem úthlutanir voru pólitískar reyndist það ómögulegt.  Margir hafa talið skuttogaravæðinguna vitlausustu fjárfestingu Íslandssögunnar en ekkert tilefni var til að stækka flotann á þessum tíma.  Fyrir hvern einasta togara sem fluttur var inn, hefði veiði þurft að minnka á þeim sem fyrir voru, enda veiðigeta langt umfram veiðiþol.

Um er að ræða takmarkaðan veiðistofn þar sem veiðar þurfa að vera sjálfbærar og nauðsynleg að taka úr stofninum þannig að hann gefi sem mest af sér til langs tíma litið.  Það er kallað almenningsvandinn við slíkt fyrirkomulag, að jafnvel þó hver einasti útgerðamaður geri sér grein fyrir að óbreytt veiði gangi af stofninum dauðum, þá dregur hann ekki úr veiði þar sem hann treystir því ekki að hinir muni gera það.

Ofan í þetta alvarlega ástand ákvað þá verandi iðnaðarútvegsráðherra, Hjörleifur Guttormsson, að láta smíða fjóra nýja togara, raðsmíðaskipin.  Sú smíði er eitt að spilltasta og vitlausasta sem gert hefur verið í Íslenskri stjórnmálasögu.  Kaupendur þessa skipa fengu seinna kvóta með þeim en þurftu aldrei að borga þau.  Þessi ákvörðun er sérstaklega áhugasöm fyrir þá staðreynd að Alþýðubandalagsmenn vildu takmarka stærð flotans til að minnka sókn og auka hagkvæmi.  Smíðin á þessu skipum var ef til vill það sem snéri LÍÚ á sveif með kvótasinnum, en þeir höfðu alfarið verið á móti kvótasetningu.  Sjómannasambandið var farið að taka undir með slíkum hugmyndum enda menn orðnir örvæntingafullir.  Megin markmið kvótasetningar var að auka hagkvæmni í sjávarútvegi.

Kjartan Jóhannsson fyrrum sjávarútvegsráðherra vildi draga verulega úr sókn með því að lögbinda stærð fiskiskipaflotans.  Síðan myndi ríkið kaupa fimm togara sem ,,traustum" útgerðaraðilum yrði falið að reka og nota aflann sem aflamiðlun til fiskvinnslunnar í landinu.  Hollt er að hugsa um úthlutun byggðakvóta í þessu samhengi.

Ofstjórn ríkisins

Ekki má gleyma því að ríkið og sveitarfélög voru á kafi í sjávarútveg á þessum tíma.  Bæði með beinni eignaraðild og allstaðar var verið að stýra og stjórna.  Sjóðakerfið var sem aldrei fyrr þar sem tekið var af einum og flutt til annars.  Fjárfestingasjóðir réðu hverjir fengu skip og hverjir ekki.  Gekk svo langt að virtur aðili kom með þá tillögu að þessi sjóðir yrðu lagðir niður og í staðinn stofnaður ,,kosningasjóður"  Þannig væri hægt að kaupa atkvæðin beint og ekki þyrfti að blanda sjávarútveginum í slíka foravilpu.

Bloggari vill koma að tilvitnun frá virtum erlendum fræðimönnum sem störfuðu fyrir FAO á þessum tíma.  Þeir töldu lykilatriði að framsal væri nauðsynlegt í kvótakerfi til að greinin gæti þróast.  Niðurlagsorð greinargerðar þeirra var:

Þegar til lengdar léti þá myndi stjórn á fiskveiðum, sem tryggði öruggan hagnað til langs tíma, örva til nýbreytni í veiðum og nýrrar tækni og umfram allt betri stjórnar á útgerðinni, og ekki síður en hið hefðbundna stjórnleysi með sínum sveiflukennda hagnaði, sem einkennt hefur þannig reknar fiskveiðar á fyrsta stigi þeirra. (Gullard og Robinsson 1973:211)

Sjávarútvegur sem alvöru atvinnugrein

Einar Kristinn benti réttilega á að við þurfum að reka okkar sjávarútveg á viðskiptalegum grunni.  Eitt af því mikilvægasta fyrir atvinnugrein er eins lítil óvissa og mögulegt er.  Mikil óvissa lækkar verð fyrirtækja, hækkar vexti sem þau greiða og hrekur hæfileikafólk frá greininni.  Þessi óvissa hefur þegar hrakið menn úr sjávarútveg og venjulega eru það þeir smáu sem gefast upp en þeir stóru stækka. Er einhver hissa miðað við umræðuna í dag, að ungt fólk hefur ekki áhuga á sjávarútvegi?  Það er nauðsynlegt að taka þessa umræðu á alvarlegu nótunum og hálfkæringur Össa og gamansemi á þar ekki heima.  Kæruleysi, tilraunastarfsemi og afneitun á vísindalegum vinnubrögðum eiga ekki heima í umræðu um sjávarútveg.  Það er engin tilviljun að aðeins tvær þjóðir heims reka sjávarútveg sinn á viðskiptalegum grunni, Íslendingar og Nýsjálendingar, með svipuðu kvótakerfi.  Norðmenn eru að velta fyrir sér Íslensku leiðinni til að viðskiptavæða sjávarútveginn.

Sjávarútvegur er stóriðja landsbyggðarinnar.


Af Landsfundinum skuluð þið þekkja þá

xd

Bloggari er nýkominn af Landsfundi Sjálfstæðisflokksins.  Mikið óskaplega er hann ánægður með flokkinn sinn, Sjálfstæðisflokkinn.  Frá fimmtudegi til sunnudags koma saman á annað þúsund fulltrúar frá öllu landinu, úr öllum starfstéttum og af báðum kynjum, til að takast á við stefnumál flokksins.  Það sem bindur þetta fólk saman er Sjálfstæðisstefnan.  Trúin á einstaklingsframtakið og frelsið með lágmarksafskiptum ríkisvaldsins.

Þátttaka í Landsfundi er ævintýri.  Það er alveg með ólíkindum hvað hinn almenni félagsmaður getur áorkað og haft áhrif á flokk sem hefur í kringum 40% kjörfylgi í Alþingiskostningum.  Þar er tekist hressilega á í nefndarstörfum hinna ýmissa málaflokka þar sem tillaga að stefnu er síðan lögð fram fyrir stóra fundinn í Laugardagshöllinni.  Þar geta enn veður skipst í lofti og stefnan tekið breytingum.  Það sást greinilega bæði á laugardagseftirmiðdaginn og á sunnudagsmorgun.  Þetta er ótrúlega merkilegt starf og óhætt að segja lýðræðisleg vinnubrögð.  Ég er stoltur af því að vera í Sjálfstæðisflokknum.

Bloggari sinnti aðalega tveimur málaflokkum, samgöngumálum og umhverfismálum.  Hvortveggja virðast vera mál málanna í næstu kosningum en gerir aðra málaflokka ekki ómerkilegri fyrir því.  Hart var tekist á í báðum málaflokkunum og margir þurftu að lúta í lægra haldi fyrir meirihluta.  Meðal annars bloggari sem ekki náði öllum sínum sjónarmiðum fram.  Að sjálfsögðu ekki.  Stjórnmál eru málamiðlanir en ákvarðanir eru þó teknar á grunni stefnu Sjálfstæðisflokksins.

Bloggari var að horfa á sjónvarpsfréttirnar á laugardagskvöldið.  Fyrst var sýnt af fundi Samfylkingarinnar úr Egilshöll.  Það vakti athygli hvað létt var yfir fundinum og greinilegt að fundarmenn skemmtu sér vel.  Mikið um gamanmál og svo var fundurinn byrjaður að dansa undir ljúfum tónum frá Baggalút.  Þetta var einhvern vegin ólíkt okkar fundi sem sýnt var frá í næsta fréttaskoti.  Fólk í þungum þönkum og blaðastaflar á borðum, ólíkt hjá Samfylkingunni þar sem borðin voru hrein og fín með kaffibollum og rauðvínsglösum.  Í Laugardalshöllinni var greinilega alvaran við völd en gleðin í Egilshöll.

Bloggari velti fyrir sér hvernig stæði á þessu.  Hans niðurstaða er sú að Samfylkingarfólkinu hafi ekki verið íþyngt með vinnu við stefnumótun.  Sennilega hefur forysta Samflykingarinnar séð um stefnumótunina og leyft fulltrúum á landsfundi að skemmta sér.  Það er mjög ánægjulegt en ekki lýðræðislegt.  Sennilega hefur enginn annar stjórnmálaflokkur en Sjálfstæðisflokkurinn getu til að standa að starfi eins og Landsfundur er.  Til hamingju Sjálfstæðismenn.  Þetta er góður flokkur.

Að lokum er rétt að geta þess að fulltrúi Vestfirðinga, Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir, sem Ísfirðingar og Bolvíkingar hvöttu til framboðs í miðstjórn, fékk mjög góða kostningu, eða rúm 66% og var með næst flest atkvæði.  Unnur Brá Konráðsdóttir náði kjöri en hún hefur ávallt notið stuðnings Vestfirðinga.  Hnífsdælingurinn Áslaug María Friðriksdóttir fékk einnig góða kostningu og eru þær þrjár í hópi átta kvenna af ellefu manns sem skipa miðstjórn Sjálfstæðisflokksins.  Það er því góður meirihluti kvenna í æðstu stofnun Sjálfstæðismanna.  Það eru góðar fréttir.


Sjávarbyggðir og kvótinn

júlinn

Það er vinsælt í dag að kenna kvótakerfinu um fækkun íbúa á landsbyggðinni og flóttann mikla á mölina í kringum Reykjavík.  Menn tengja saman setningu laga um kvótakerfið upp úr 1980 og segja að fólksflótti úr sjávarbyggðum hafi byrjað þá.  Þetta er endemis rugl og stenst enga vísindalega skoðun.  Það væri alveg eins hægt að fullyrða að aukning í háskólanámi ungs fólks sé orsökin þar sem svipuð leitni er þar á milli.

Sannleikurinn er að þessi þróun byrjaði miklu fyrr eða upp úr lokum fimmta áratugar síðustu aldar.  Fækkun í sjávarbyggðum á Vestfjörðum, norðurlandi og Austfjörðum hefur verið ákveðin frá þeim tíma, fyrir utan stutta uppsveiflu í lok áttunda áratugarins sem fylgdi í kjölfar skuttogaravæðingar.  Því miður var sú uppbygging byggð á sandi þar sem ofveiði í þorski var þegar komin á alvarlegt stig og kostnaður og óskilvirkni sjávarútvegs var að sliga þjóðarbúið.  Neyðarástand blasti við um 1978 sem kallaði á aðgerðir til að gera veiðar Íslendinga arðbærar og koma í veg fyrir óstjórn í mikilvægustu atvinnugrein þjóðarinnar.

Í rauninni má segja að uppbygging þessara byggða hafi byrjað með siglingum sem hófust af krafti í byrjun síðustu aldar.  Allt í einu voru smábæir sem áður voru einangraðir og girtir háum fjöllum, komnir í alfara leið og byggðust upp sem þjónustumiðstöðvar vegna góðrar hafnaraðstöðu.  Vegurinn mikli, hafið, opnaðist fyrir þessum bæjum sem byggðust hratt upp með framleiðslu og útflutningi.  Íslenska þjóðin eyddi á tímabili allt að 3% af vergri þjóðarframleiðslu til að niðurgreiða skipaflutninga.  En hver var þá óvinurinn sem stöðvaði þessa sigurgöngu sjávarbyggðanna?

Það voru akvegir sem byrjað var að byggja á Íslandi upp úr fimmta áratug síðustu aldar.  Siglufjörður sem lá vel við siglingum til staða við Eyjafjörð var með þrjú þúsund íbúa upp úr 1940.  Með bættum vegasamgöngum við Eyjafjörð byrjaði byggðinni þegar að hnigna og var íbúatalan komin niður fyrir 2000 þegar kvótakerfið var sett á.  Þrátt fyrir góða kvótastöðu hefur íbúum Siglufjarðar áfram fækkað og eru þeir komnir niður fyrir 1300 í dag.  Á Ísafirði varð uppsveifla við skuttogaravæðingu en íbúum hefur fækkað að öðru leiti þar, hraðar en þörf á vinnuafli við sjávarútveg hefur gert.  Er svo komið að flytja hefur þurft inn útlendinga til að starfa við sjávarútveg og nokkuð ljóst að hann væri ekki til í þeirri mynd sem hann er ef við hefðum ekki þennan starfskraft.  Ekki væri hægt að manna fiskibáta og útlit er fyrir að mennta þurfi Pólverja í skipstjórnarfræðum til að taka við stjórn þeirra.  Slíkt er áhugaleysi heimamanna fyrir sjómennsku.

Þetta er kallað hægindastólahagfræði þegar menn halla sér afturábak og komast að niðurstöðu án þess að skoða málin.  Það er ólíklegt að nokkur komist að réttri niðurstöðu með jafn óvísindalegum aðferðum og notaðar eru í málflutningi um kvótakerfið. Kannski eru vísindi bara bull.  Þá þurfum við ekki háskóla á Ísafjörð.


Einar Oddur og sannleikurinn

Einar Oddur

Bloggara hefur orðið tíðrætt um barlóm og bölmóð okkar Vestfirðinga undanfarið.  Að hluta til er ástæðunnar eflaust að leita í þeirri þörf mannsins til að finna blóraböggul.  Vita hver óvinurinn er og bölva honum í sand og ösku.  Óvinur Vestfirðinga er ekki svo áþreifanlegur og ekki ljóst hversvegna okkur fækkar og hagkerfið okkar gengur afturábak.

Nýlega ræddi bloggari við bæjarráðsmann í Bolungarvík sem fullyrti að jarðgöng milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur væri bara blöff og sett fram til að ná í atkvæði fyrir komandi kosningar.  Bloggara var brugðið og sagðist vilja athuga þetta mál sem hann gerði.  Sem betur fer var ekkert að marka bölmóðinn í bæjarráðsmanninum en hvers vegna gera menn þetta?  Tala þvert gegn betri vitund og tala niður mestu samgöngubætur sem Bolvíkingar hafa fengið fyrr og síðar.

Bloggari var nýlega staddur á Patreksfirði í fjölmennum kaffisal.  Sunnanmenn voru sammála um að stjórnmálamenn bæru okkur norðanmenn á höndum sér en  þeir fengju aldrei neitt.  Þegar nánar var farið ofan í málin voru menn sammála um að væntanlegar vegabætur fyrir suðursvæði Vestfjarða væru gríðarlega mikilvægar.  Bæði fyrir framleiðslu fiskvinnslustöðva, sem í auknum mæli eru fluttar ferskar beint á markað og þurfa því góðar vegasamgöngur við Keflavíkurvöll, og allan almenning.

Bloggari hefur áður minnst á frægan fund í Hömrum þar sem flestir frummælendur reyndu að sannfæra fundargesti að allt væri að fara til fjandans.  Ég rakst á nýlegt blogg frá framkvæmdastjóra Vaxtarsamnings Vestfjarða það sem ástandinu var einmitt lýst þannig og til að leggja áherslu á málflutning hafði hún (framkvæmdastjórinn) klippt Vestfjarðakjálkann í burtu af Íslandskortinu og talar um eyðileggingaröfl.  Búið að fleygja óværunni þannig að aðrir landsmenn gætu þá andað léttar.

Mér hefur fundist á þessu fólki að það hafi fundið óvininn.  Birtingamynd hans er Sjálfstæðisflokkurinn og illir fulltrúar hans á þingi og í ríkisstjórn.  Þrátt fyrir að aldrei hafi verið lagt í annað eins í Íslandsögunni í vegabætur fyrir fjórðunginn  þá er ekki talað um það en hinsvegar er það á hreinu hverjum er um að kenna það sem miður fer hér.  Þau hafa fundið sannleikann.

Bloggara fannst ræða Einars Odds Kristjánssonar við opnun kosningaskrifstofu D listans á norðanverðum Vestfjörðum frábær.  Einar sagði að Sjálfstæðismenn vildu fá þakkir fyrir það sem þeir hefðu gert vel undanfarin 16 ár.  Íslenskt samfélag hefur skotist upp á stjörnuhiminn í nánast öllum viðmiðunum sem við viljum nota.  Efnahagslega, lýðræðislega, minnsta spillingin, mestur launajöfnuður og svo framvegis.  En Einar bætti við að Sjálfstæðisflokkurinn bæri líka ábyrgð á því sem hefði mistekist. Hann sagði jafnframt að Sjálfstæðisflokkurinn væri eina aflið í íslenskum stjórnmálum sem hægt væri að treysta.  Sjálfstæðisflokkurinn væri ábyrgt stjórnmálaafl.

Bloggari tekur undir þessi orð Einars Odds.  Við eigum ekki að hika við að viðurkenna það sem okkur hefur mistekist og lagfæra það sem betur má fara.  Við eigum að tala beint út um hlutina af hreinskilni og heiðarleika.  Ekki að hika við að viðurkenna mistök, enda það gert til að laga kúrsinn þar sem þörf er á.  Hafi eitthvað mistekist í stjórnun efnahagsmála sem komið hefur okkur Vestfirðingum illa er rétt að skoða það.  En við verðum að leita á réttum stöðum og ekki stökkva á það fyrsta sem við finnum, jafnvel þó sumum hugnist það í þröngum flokkspólitískum tilgangi.

Fyrir þá sem eru í vafa er rétt að benda á nýjasta hefti Ský, sem dreift er í flugvélum Flugfélags Íslands.  Þar er grein um fjórar vinstristjórnir sem verið hafa við völd á Íslandi.  Vinstri stjórn er ríkisstjórn án Sjálfstæðisflokksins.  Allar þessar stjórnir hrökkluðust frá völdum og skildu allt eftir í kalda koli.


Kratar og frelsið

lampSkrif mín af fundi Gufuklúbbsins virðist hafa farið fyrir brjóstið á sumum og viðbrögðin ratað í fréttablað okkar Ísfirðinga.  Höfundur bloggsins ætlar ekki að biðjast afsökunar á umræddum fundi, boðun hans eða efni.  Það er svo einfalt að í lýðræðisþjóðfélagi geta hverjir sem er hitst, skipst á skoðunum og jafnvel bloggað um það.  Það kemur bara engum við og öllum ávirðingum og tilætlun um eitt og annað er vísað til föðurhúsanna.  Það eina sem undirritaður vill biðjast afsökunar á varðandi umfjöllun um Samfylkingarfundinn í Hömrum er að hafa ekki dregið nafn Þorleifs Ágústssonar út fyrir umræðuna. 

Umfjöllun um fundinn í krónni var reyndar sett fram í gamansömum tón þar sem bloggari var alls ekki að taka sig of alvarlega, en húmorminn hefur ekki náð í gegn hjá öllum.  Venjulega er ég að fjalla um graf alvarleg mál og því gott að geta slegið á létta strengi við og við.

Skrif Benedikts Bjarnasonar í B.B. um bloggfærslu mína af fundinum minnir mig svolítið á pólitík Samfylkingarinnar undanfarin ár sem hefur verið sorgleg og einkennst af blekkingum og málefnaleysi.  Það er þyngra en tárum tekur að fylgjast með flokki sem stendur okkur Sjálfstæðismönnum svo nærri í pólitískum grundvelli, koðna niður og tapa tiltrú almennings.  Í mínum huga væri besta niðurstaða að vinna með flokki sem stendur fyrir frelsi og auðhyggju (kapítalisma) og ágreiningurinn snýst aðeins um hversu mikil völd stjórnmálamenn eiga að hafa.

Hér á bloggsíðunni er umfjöllun um hagfræðinginn og fagurkerann John Maynard Keynes og 70 ára afmælis útkomu ritgerðar hans ,, Almennu kenningarinnar um atvinnu, vexti og peninga"  Í mínum huga er Keynes upphafsmaður kratismans og var reyndar einn af stofnendum Frjálslynda flokksins í Bretlandi.  Keynes var eindreginn stuðningsmaður auðhyggju og taldi sig vera bjargvætt hennar með útgáfu ritsins.  Almenna kenningin er talin vera áhrifamesta útgáfa síðustu aldar og varð til þess að umbreyta heiminum.  Keynes taldi að frjálshyggjan væri kominn út á hála braut og myndi með sama áframhaldi tortíma auðhyggjunni, sem er undirstaða velmegunar Vesturlanda.

Keynes trúði á markaðshyggjuna þegar kemur að því að framleiða, en vildi völd stjórnmálamanna meiri þegar kom að því að útdeila gæðum.  Þetta er kallað blandað hagkerfi og flest lýðræðisríki tóku margar af hugmyndum hans upp í þeirri góðu trú að slíkt myndi bæta lífsgæði almennings.  Helstu gagnrýnendur á kenningar hans voru starfsbræður hans Milton Friedman og vinur hans  Fredrik Hayek.  Því má bæta við að Hayek heimsótti Vestfirði og var gestur Einars Kristins og fjölskyldu hans í Bolungarvík

Ég er sannfærður um að ein besta ríkisstjórn sem Íslendingar hafa haft var ríkisstjórn Sjálfstæðismanna og Krata frá 1991 til 1995.  Breytingar á hagkerfinu með auknu frelsi og samningnum um Evrópskt efnahagsvæði er undirstaða velmegunar okkar í dag.  Þarna voru tveir flokkar að vinna saman með svipaða hugsjónir en þó þennan grundvallar mun á því hvernig útdeila á gæðum.  Pólitískt eða láta markaðinn um það.  Kannski var það þessi ágreiningur sem kom í veg fyrir lengara samstarf að Davíð Oddson vildi minnka völd stjórnmálamanna en Kratar vildu auka þau.

Því miður eru Kratar ekki líklegir til stórverka í dag.  Málefnalega fátækir og nota Gróusögur og blekkingar í stað uppbyggingar.  Vandræðagangur þeirra endurspeglast í skrifum Benedikts um króarfund góðra félaga sem njóta lífsins um leið og þeir reyna að láta gott af sér leiða fyrir samfélagið sitt.

Slóð inn á grein Benedikts:  http://www.bb.is/Pages/26?NewsID=99027

 

 


Næsta síða »

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 45
  • Frá upphafi: 283913

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 39
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband