Kvótakerfið

bátur

Kosningasjónvarpið á þriðjudaginn var skemmtilegur fundur og Ísfirðingar og Bolvíkingar sýndu enn og aftur að þeir kunna að taka þátt í svona giggi.  Ólíkt samskonar fundi á Selfossi var hressileikinn og fjörið alls ráðandi og setið í hverju sæti.

Afstaða flokkanna

Hart var sótt að Einari Kristni á fundinum en erfitt er að ræða jafn flókin mál og sjávarútvegurinn er í stuttum hnitmiðuðum setningum.  Það sem upp úr stendur eftir þessar umræður eru að Íslandsflokkurinn er með óskiljanlega stefnu í kvótamálinu.  Frjálslyndir ætla að kollvarpa kerfinu strax, Grétar Mar sagði ætlun þeirra vera að leyfa frjálsar veiðar á skaki á allt að 30 tonna bátum, stýra restinni með sóknarkerfi og útdeila sóknardögum til þeirra sem ættu það skilið!  Þeir hafa reyndar enga trú á vísindum og telja öll ráð frá Hafró sé bull.  Það sé bæði hægt og jafnvel nauðsynlegt að veiða miklu meira.  Samfylkingin með Össur Skarphéðinsson í fararbroddi finnst þetta allt bara fyndið og talar um fiskveiðar með hálfkæringi.  Sennilega eru bankarnir orðnir það stórir að Íslendingar geta vel farið að gera út í gamni.  Vinstri grænir vilja afnema kvótann strax og notast við pólitíska úthlutun hans aftur til byggðanna í landinu.  Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur vilja halda kvótakerfinu og lágmarka óvissu þannig að greinin geti þróast áfram sem alvöru atvinnugrein í samkeppni við aðrar.

Sporin hræða

Hvers vegna settu menn kvótakerfið á 1984?  Hvað hafði gengið á árin á undan sem fékk þjóðþingið til að samþykkja jafn afdrifarík og umdeild lög?  Hvaða aðstæður ríktu í þjóðfélaginu sem knúðu fram þessa breytingu.

Árið 1978 voru allir sammála um nauðsyn þess að gera eitthvað til að stjórna fiskveiðum.  Á mynd 1 sést vel hverju skrapdagakerfið skilaði en almennt er viðurkennt að það kerfi er óhagkvæmt, kallar á stærri og öflugri flota og mynda kapp um sókn sem veldur auknum kostnaði.

Mynd 1Floti og sókn með skrapdagakerfi

línurit

Á myndinni sést greinilega hvernig sóknin eykst en markmiðið með skrapdagakerfinu var að minka hana.  Hafa verður í huga að floti getur orðið mun öflugri án þess að stækka hann, t.d. með öflugri veiðarfærum eða aukinni vélastærð.

Staðan í efnahagsmálum var hrikaleg.  Verðbólga náði 80% um 1980 og um þetta leyti var útgerðin rekin með 25% halla.  Taprekstur Granda var rúmlega 700 milljónir árið 1983 og rúmur milljarður 1984 og er það núvirt til dagsins í dag.  Ofan í þetta allt hafði Hafró komið með ,,svörtu skýrsluna" 1975 um alvarlegt ástand þorskstofnsins.

Allir stjórnmálamenn voru sammála um að ástandið væri alvarlegt og eitthvað þyrfti að gera.  Öll hagsmunasamtök í sjávarútveg vildu aðgerðir fyrir utan FFSI en þar var Guðjón Arnar forseti og taldi allt tóma vitleysu sem kæmi frá Hafró.

Austfirðingar vildu aflamarkskerfi en Vestfirðingar voru á móti.  LÍÚ var algerlega á móti aflamarkskerfi og flestir stjórnmálamenn þess tíma.  Töldu að það myndi leiða til stöðnunar og meðalmennskan myndi ríkja ef kappið yrði tekið frá sjómanninum.

Leið að lausn

Almennt séð voru menn að gera sér grein fyrir nokkrum staðreyndum hvað varðar þessa atvinnugrein.  Þrátt fyrir útfærslu landhelginnar var ofveiði orðin verulegt vandamál.  Reynt var að draga úr stækkun flotans en þar sem úthlutanir voru pólitískar reyndist það ómögulegt.  Margir hafa talið skuttogaravæðinguna vitlausustu fjárfestingu Íslandssögunnar en ekkert tilefni var til að stækka flotann á þessum tíma.  Fyrir hvern einasta togara sem fluttur var inn, hefði veiði þurft að minnka á þeim sem fyrir voru, enda veiðigeta langt umfram veiðiþol.

Um er að ræða takmarkaðan veiðistofn þar sem veiðar þurfa að vera sjálfbærar og nauðsynleg að taka úr stofninum þannig að hann gefi sem mest af sér til langs tíma litið.  Það er kallað almenningsvandinn við slíkt fyrirkomulag, að jafnvel þó hver einasti útgerðamaður geri sér grein fyrir að óbreytt veiði gangi af stofninum dauðum, þá dregur hann ekki úr veiði þar sem hann treystir því ekki að hinir muni gera það.

Ofan í þetta alvarlega ástand ákvað þá verandi iðnaðarútvegsráðherra, Hjörleifur Guttormsson, að láta smíða fjóra nýja togara, raðsmíðaskipin.  Sú smíði er eitt að spilltasta og vitlausasta sem gert hefur verið í Íslenskri stjórnmálasögu.  Kaupendur þessa skipa fengu seinna kvóta með þeim en þurftu aldrei að borga þau.  Þessi ákvörðun er sérstaklega áhugasöm fyrir þá staðreynd að Alþýðubandalagsmenn vildu takmarka stærð flotans til að minnka sókn og auka hagkvæmi.  Smíðin á þessu skipum var ef til vill það sem snéri LÍÚ á sveif með kvótasinnum, en þeir höfðu alfarið verið á móti kvótasetningu.  Sjómannasambandið var farið að taka undir með slíkum hugmyndum enda menn orðnir örvæntingafullir.  Megin markmið kvótasetningar var að auka hagkvæmni í sjávarútvegi.

Kjartan Jóhannsson fyrrum sjávarútvegsráðherra vildi draga verulega úr sókn með því að lögbinda stærð fiskiskipaflotans.  Síðan myndi ríkið kaupa fimm togara sem ,,traustum" útgerðaraðilum yrði falið að reka og nota aflann sem aflamiðlun til fiskvinnslunnar í landinu.  Hollt er að hugsa um úthlutun byggðakvóta í þessu samhengi.

Ofstjórn ríkisins

Ekki má gleyma því að ríkið og sveitarfélög voru á kafi í sjávarútveg á þessum tíma.  Bæði með beinni eignaraðild og allstaðar var verið að stýra og stjórna.  Sjóðakerfið var sem aldrei fyrr þar sem tekið var af einum og flutt til annars.  Fjárfestingasjóðir réðu hverjir fengu skip og hverjir ekki.  Gekk svo langt að virtur aðili kom með þá tillögu að þessi sjóðir yrðu lagðir niður og í staðinn stofnaður ,,kosningasjóður"  Þannig væri hægt að kaupa atkvæðin beint og ekki þyrfti að blanda sjávarútveginum í slíka foravilpu.

Bloggari vill koma að tilvitnun frá virtum erlendum fræðimönnum sem störfuðu fyrir FAO á þessum tíma.  Þeir töldu lykilatriði að framsal væri nauðsynlegt í kvótakerfi til að greinin gæti þróast.  Niðurlagsorð greinargerðar þeirra var:

Þegar til lengdar léti þá myndi stjórn á fiskveiðum, sem tryggði öruggan hagnað til langs tíma, örva til nýbreytni í veiðum og nýrrar tækni og umfram allt betri stjórnar á útgerðinni, og ekki síður en hið hefðbundna stjórnleysi með sínum sveiflukennda hagnaði, sem einkennt hefur þannig reknar fiskveiðar á fyrsta stigi þeirra. (Gullard og Robinsson 1973:211)

Sjávarútvegur sem alvöru atvinnugrein

Einar Kristinn benti réttilega á að við þurfum að reka okkar sjávarútveg á viðskiptalegum grunni.  Eitt af því mikilvægasta fyrir atvinnugrein er eins lítil óvissa og mögulegt er.  Mikil óvissa lækkar verð fyrirtækja, hækkar vexti sem þau greiða og hrekur hæfileikafólk frá greininni.  Þessi óvissa hefur þegar hrakið menn úr sjávarútveg og venjulega eru það þeir smáu sem gefast upp en þeir stóru stækka. Er einhver hissa miðað við umræðuna í dag, að ungt fólk hefur ekki áhuga á sjávarútvegi?  Það er nauðsynlegt að taka þessa umræðu á alvarlegu nótunum og hálfkæringur Össa og gamansemi á þar ekki heima.  Kæruleysi, tilraunastarfsemi og afneitun á vísindalegum vinnubrögðum eiga ekki heima í umræðu um sjávarútveg.  Það er engin tilviljun að aðeins tvær þjóðir heims reka sjávarútveg sinn á viðskiptalegum grunni, Íslendingar og Nýsjálendingar, með svipuðu kvótakerfi.  Norðmenn eru að velta fyrir sér Íslensku leiðinni til að viðskiptavæða sjávarútveginn.

Sjávarútvegur er stóriðja landsbyggðarinnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Margt gott í þessari úttekt. Fræðilegur boðskapur er þó aldrei nema viðhorf til ályktana þegar um ræðir fólkið í landinu, sögu þess og sjálfsvitund. Hagvöxtur og mannlíf þarf að geta rúmast hjá þjóðum án mikilla átaka um mannréttindi. Gott væri að finna hagrænt gildi þess að þá aðeins sé ábatasamt að nýta auðlind þegar greiða þarf 6/8 hluta afurðaverðsins til einhvers sem "telst"eiga réttinn til nýtingarinnar. Kvótakerfið er sár í þjóðarsál okkar Íslendinga. Stjórnmálamenn horfðu opnum augum á hvernig þetta sár myndaðist en tóku þá ákvörðun að hafast ekki að. Menn sem þannig fara með viðkvæmt umboð eru óhappamenn hverri þjóð og auk þess eru þetta vondir menn. Og þarna deila sök allir íslenskir stjórnmálaflokkar utan Frjálslyndi flokkurinn eins og þú bentir réttilega á með því að greina frá afstöðu Guðjóns Arnars formanns hans til þessa máls í upphafi. 

Árni Gunnarsson, 19.4.2007 kl. 10:41

2 Smámynd: Gunnar Þórðarson

Takk fyrir athugasemdina Árni.  Lífið er ekki endalaus rómantík.  Við þurfum stundum að fást við raunveruleikann og hagkvæmur sjávarútvegur er okkur Íslendingum lífsspursmál.  Ég dáist reyndar að Halldóri Ásgrímssyni fyrir kjark hans og þor í kvótamálinu.  Án þess hefði þessi atvinnugrein ekki vaxið jafn mikið fiskur um hrygg og raunin ber.  Nú þarf hún frið fyrir misvitrum stjórnmálamönnum til að geta tekist á við framtíðina og verið eins og hingað til, burðarás landsbyggðar á Íslandi.

Gunnar Þórðarson, 19.4.2007 kl. 13:21

3 Smámynd: Árni Gunnarsson

Nei, lífið í sjávarbyggðunum hefur ekki verið neitt rómantískt að ráði undanförnu. Ekki fæ ég með neinu móti séð burðarás landsbyggðarinnar í verðlausum íbúðum og atvinnulausu fólki. Burðarás markaðshyggju kristallast þó að líkindum í hækkandi verði aflaheimilda sem vísindaleg ráðgjöf hefur þróað með afar skilvirkum reiknilíkönum. Ég ætla ekki að reyna að sanna með lærðri orðræðu að  tengsl séu milli þeirrar neikvæðu þróunar og pólitísku inngripi í ráðgjöfina. Þessi pólitísku afskipti eru mikið inni í umræðunni og afar margir trúa því að þegar vísindamenn gera augljósar skyssur ár eftir áratugi þá eigi að reyna að finna betri menn. Mig langar til þess svona að lokum að segja þér frá því að ég er dálítið kunnugur þessu umræðuefni, vegna þess að ég hef starfað við ALLar greinar fiskveiða, fiskverkunar, fiskmats, bæði á ferskum og unnum fiski, sem og verið sjálfstætt starfandi fiskverkandi og útflytjandi. Og taki ég mið af þessari reynslu allri er mér um megn að sjá hvernig pólitísk og vísindaleg stjórnun á nýtingu þessarar auðlindar hefði getað orðið óburðugri en raun ber vitni.

Að lokum: Ef framvinda mannlífsins í kyrrlátum byggðum er aukaatriði og vanhelgun þeirrar sögu sem kraftmikið og dugandi fólk skráði með lífi sínu og örlögum er kjaftagangur um "rómantík," þá er ég nú líklega rómantíker þó ekki beri alltaf mikið á því svona daglega   

Árni Gunnarsson, 19.4.2007 kl. 15:28

4 Smámynd: Gunnar Þórðarson

Nei Árni ég geri ekki lítið úr þinni reynslu né annara sem sopið hafa marga fjöruna.

Mér verður hinsvegar oft hugsað til afa míns í Fljótavík, Júlíusar Geirmundssonar og það harðbýli sem hann bjó við. Faðir minn ólst þar upp og á fáar ljúfar minningar, þó faðir hans hafi verið einstakt ljúfmenni. Lífið var svo erfitt og þetta er svo stutt frá okkur í tíma. Sú breyting sem orði hefur á afkomu alls almennings á Íslandi frá þessum tímum er ótrúleg. Við höfum það nefnilega mjög gott, sama við hvern við miðum okkur. Við erum hluti af litlu broti mannkyns sem lifir góðu lífi, með öryggi, skjól og nóg að bíta og brenna. Við skulu ekki gleyma því.

Almennt er viðurkennt í hagfræði nútímans að kvótakerfið eigi drjúgan þátt í því. Að Íslendingar skyldu ná fram hagkvæmni í sjávarútveg var sú vítanmín sprauta sem Íslenskst samfélag þurfti.

Gunnar Þórðarson, 19.4.2007 kl. 17:18

5 Smámynd: Gunnar Þórðarson

Sæll Kristinn og takk fyrir þínar athugasemdir.  Ég tekst oft á við félaga mína um vísindin.  Ég ver Hafró með kjafti og klóm og tel betra að beita vísindum en að skera upp hund og rekja úr honum garnirnar.  Einn vinum minn Flosi Jakobs í Bolungarvík sendir mér reglulega þínar greinar um þetta sem er besta mál.  Ég hef stundum strítt þessum vinum mínum með því að á sama tíma og vísindi eru bull þá vilja þeir auka rannsóknir. 

Upp með vísindin og niður með bágbyljuna.  Menn sendu ekki mann til tunglsins með aðferðafræði hægindastólahagfræði.

Bestu kveðjur að Vestan 

Gunnar Þórðarson, 19.4.2007 kl. 18:25

6 Smámynd: Gunnar Þórðarson

Sæll Kristinn og takk fyrir þínar athugasemdir.  Ég tekst oft á við félaga mína um vísindin.  Ég ver Hafró með kjafti og klóm og tel betra að beita vísindum en að skera upp hund og rekja úr honum garnirnar.  Einn vinum minn Flosi Jakobs í Bolungarvík sendir mér reglulega þínar greinar um þetta sem er besta mál.  Ég hef stundum strítt þessum vinum mínum með því að á sama tíma og vísindi eru bull þá vilja þeir auka rannsóknir. 

Upp með vísindin og niður með bágbyljuna.  Menn sendu ekki mann til tunglsins með aðferðafræði hægindastólahagfræði.

Bestu kveðjur að Vestan 

Gunnar Þórðarson, 19.4.2007 kl. 18:47

7 Smámynd: Gunnar Þórðarson

Sæll Kristinn og takk fyrir þínar athugasemdir.  Ég tekst oft á við félaga mína um vísindin.  Ég ver Hafró með kjafti og klóm og tel betra að beita vísindum en að skera upp hund og rekja úr honum garnirnar.  Einn vinum minn Flosi Jakobs í Bolungarvík sendir mér reglulega þínar greinar um þetta sem er besta mál.  Ég hef stundum strítt þessum vinum mínum með því að á sama tíma og vísindi eru bull þá vilja þeir auka rannsóknir. 

Upp með vísindin og niður með bágbyljuna.  Menn sendu ekki mann til tunglsins með aðferðafræði hægindastólahagfræði.

Bestu kveðjur að Vestan 

Gunnar Þórðarson, 19.4.2007 kl. 19:10

8 Smámynd: Árni Gunnarsson

Gunnar minn. Ágreiningur okkar byggist á ólíkum skoðunum á hinu viðurkennda gildismati sem reiknar út með vísitölum hverjir hafi það gott og hverjir ekki. Ég er afar íhaldssamur þarna. Þegr ég sé börn á grunnskólaaldri í mikilli tilvistarkreppu þá líður mér illa. Þegar það rennur upp fyrir mér að oftar en skyldi eru þetta börn moldríkra foreldra og búa í auðmannahverfum þá sé ég að það er einhver fjandans misskilningur í gangi með með niðurstöður í öllum þessum pottþéttu útreikningum. Og þá óska ég þess oft að þessi börn fengju að upplifa alla þá hamingju sem ég varð aðnjótandi þegar ég var að greiða rauðmaganetin niður í litla árabátinn hans pabba svona við sjö ára aldurinn, á meðan við hlýddum á úið í æðarfuglinum úti á lögninni framan við vörina. Svo fengum við hræring og súrt slátur þegar heim var komið. Og svo var eftirvæntingin hvort fyrsti rauðmaginn næðist á land áður en hann ryki nú upp á norðan. Engar hagtölur ná utan um svona lagað.

Já, það er nú hvellurinn, góði!, eins og hann Mundi heitinn Gulla sagði stundum. 

Árni Gunnarsson, 19.4.2007 kl. 21:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.5.): 4
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 36
  • Frá upphafi: 283962

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 36
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband