Maður ársins og ESB

_ramot_2008_086.jpgÁrni Oddur Þórðarson var maður ársins hjá Viðskiptablaðinu árið 2008.  Þrátt fyrir svartan október og bankakreppu er félag hans of föður hans, Eyrir Invest, á fljúgandi siglingu.  Félagið er kjölfestufjárfestir í Marel og Össuri og tapaði ekki krónu á falli bankana í haust.

Árni Oddur er stjórnarformaður Marels og hefur leitt fyrirtækið í gegnum stórar yfirtökur á samkeppnisaðilum og er félagið orðið leiðandi á markaði í tækjum og búnaði í fiski, kjúklingum og kjöti í heiminum.  Árni kemur úr ranni bankamanna en sótti sér masternám til Sviss til að umbreytast í rekstrarmann.  Það hefur greinilega tekist eins og sjá má á árangri þessara fyrirtækja og eins má merkja af orðum hans að hann talar eins of frasar úr amerískum kennslubókum.  Þetta er sett fram í jákvæðustu merkingu.

Þegar Árni er spurður um þann jarðveg sem bankahrunið átti sér stað, þ.e.a.s. íslenskt efnahagsástand í október, nefnir hann bankakreppu sem varð í Skandinavíu á tíunda áratug síðustu aldar.  Þar var beitt fastgengisstefnu í aðdraganda kreppunnar og þegar hún skall á var gengi gjaldmiðla þessara ríkja, Danmerkur, Svíþjóðar og Finnlands, um 20% hærri en efni stóðu til.  Þetta olli því að útflutningur dróst saman og vöruskiptajöfnuður varð mjög óhagstæður.  Gjaldmiðlar þessara ríkja féllu síðan um 40% og tók um tvö ár að ná helmingnum af því til baka, sem var raun gengi þeirra. 

Í raun má segja að svipaðir hlutir hafi gerst á Íslandi, en bara ýktari hagstærðir.  Þegar forsætisráðherra hélt því fram í lok september, og raunar allt frá fyrsta falli gengis í upphafi ársins, að krónan  væri vanmetin og ætti bara eftir að hækka.  Þrátt fyrir að kunnuglegar aðvörunarbjöllur hringdu kaus Geir Haarde að trúa ekki augljósum staðreyndum og ríg-halda í tálvon um að ástandið væri betra en það var í raun.  Þessi tálvon forsætisráðherra og andvaraleysi á alvarlegum tímum gerir hann einmitt ómögulegan forystumann í íslensku efnahagslífi.  

Íslenska krónan féll um 80% á síðasta ári og á vonandi eftir að braggast í næstu árin og gæti endað í 180 til 200 stiga gengisvísitölu innan tveggja ára.  Árni bendir á að gæfulegasta skrefið fyrir Íslendinga sé að sækja um í Evrópusambandið (ESB).  Slíkt muni auka traust á hagkerfinu og auðvelda aðlögun hagkerfisins.  Íslendingar myndu sitja uppi með krónu þar til Maastricht-skilyrðum um gengisstöðugleika og jafnvægi í ríkisbúskapnum yrði náð.  Hann trúir því að með aðild og stefnu á upptöku evru myndi gengi krónu aðlagast slíku ástandi og nauðsynlegur stöðugleiki nást, en Evrópa er lang-mikilvægasti markaður Íslendinga.  Reyndar telur Árni að myntir heimsins verði færri en 10 innan fárra ára og ólíklegt krónan verði þar á meðal.  Reyndar ekki breska pundið heldur, en það hefur átt á brattan að sækja í þeirri alþjóðlegu kreppu sem nú geisar um heiminn.

Árni bendir reyndar á að Evrópusambandsaðild sé sósíalismi í eðli sínu.  Hinsvegar séu árhrifin af inngöngu mjög jákvæð fyrir örmarkað eins og Ísland, en skárra sé að vera lítill fiskur í stórri tjörn en stór fiskur í lítilli, eins og ástandið var hjá íslenskum fyrirtækjum fyrir svarta október í fyrra.

Evrópusambandsaðild mun snúast um fiskveiðistefnu og arðsemi þeirra fyrir íslenskt þjóðarbú.  Íslendingar þurfa að horfa til þess fordómalaust hvort skipan mála geti verið ásættanleg með inngöngu í ESB.  Það skiptir í sjálfu sér engu máli hver á frystihúsið á Flateyri, hvort það er Flateyringur eða Spánverji, ef arður er af veiðum og vinnslu og honum sé dreift til samfélagsins með ásættanlegum hætti.  Ef til vill blasir það við okkur að framtíðin liggi í sölu á ferskum fiski á markaði okkar, en ekki í frosnum.  Þannig að fiskinum verði alltaf landað á Íslandi og framleiðslan leiti ávallt í hagkvæmasta farveg, hvar svo sem eigandinn á lögheimili.  Íslendingar munu að sjálfsögðu ekki líta til þröngra hagsmuna núverandi kvótahafa þegar þeir greiða atkvæði sitt til með eða á móti aðild.  Íslenskir útgerðarmenn þurfa þess heldur ekki og eru örugglega vel í stakk búnir að takast á við samkeppni útlendinga í fiskveiðum og vinnslu.

Árni Oddur Þórðarson var maður ársins hjá Viðskiptablaðinu árið 2008.  Þrátt fyrir svartan október og bankakreppu er félag hans of föður hans, Eyrir Invest, á fljúgandi siglingu.  Félagið er kjölfestufjárfestir í Marel og Össuri og tapaði ekki krónu á falli bankana í haust.

desember_2008b_076.jpgEn í lokin vill bloggari bjóða öllum lesendum síðunnar árs og FRIÐAR með þakklæti fyrir það liðna.  Með fylgir mynd af göngugörpum á síðustu dögum viðburðarríks árs, 2008



Ofbeldisseggir

Það er ömurlegt að horfa upp á þennan skríl vaða upp aftur og aftur og ógna friðsemd í nafni óánægju með stöðu efnahagalsmála þjóðarinnar.  Ekki það að nóg er til af ófriðarseggjum og ofbeldisseggjum sem vilja nota tækifærið og fá útrás fyrir allt aðrar kendir en eðlilega reiði með hvernig komið er.  Hinsvegar er þjónkun ýmissa stjórnmálamanna og fjölmiðla fyrir þessu fyrirbæri fordæmi óþolandi.

Það er ekkert athugavert við að mótmæla og koma skoðunum sínum á framfæri.  Það er nákvæmlega það sem ég er að gera með þessum orðum mínum.  En að beita ofbeldi, stöðva útsendingu frá Kryddsíld og ógna valdstjórninni er allt annað.  Mér dettur i hug hvað Herði Torfasyni, nýlega kosnum manni ársins hjá rás 2, hvað honum finnist.  Hann hefur einmitt orðið uppvís af því að hvetja til ofbeldis. Síðar þegar allt er komið úr böndum er gott að kenna lögreglunni um.

Það er tími komin til að fjölmiðlar fjalli um þetta fyrirbæri eins og það er.  Þetta hefur ekkert með lýðræði að gera og alls ekkert með réttlát mótmæli þar sem fólk tjáir sig um óðánægju sína.  Þetta er OFBELDI.


mbl.is Gas Gas Gas á gamlársdag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þungu en skemmtilegu fargi af létt

Það var notalegt að ýta á entertakkann áðan þegar ég sendi meistararitgerðina á Bifröst.  Það er rúmt ár síðan vinnan hófst og því lauk i dag.  Þungu en skemmtilegu fargi af mér létt.  Nánast allar helgar og flest kvöld í heilt ár hafa farið í herlegheitin.  Viðfangsefnið er Value Chain of Yellow-fin Tuna in Sri Lanka.  Ég dvaldi þar í landi í rúmt ár og fékk tækifæri til að vinna að ritgerðinni utan vinnutíma.  En það var gott að vinna þetta á Sri Lanka og landsmenn ótrúlega hjálplegir og samvinnuþýðir.golf_i_kandy_027_752653.jpg

Verkið snýst um hugðarefni mitt sem er sjávarútvegur.  Hinsvegar snýst verkið að litlu leiti um umdeildar skoðanir um fiskveiðakerfi þó á það sé drepið, en langt frá því að það sé aðalatriðið.  Þetta snýst meira um alþjóðavæðingu, hvernig heimsmarkaður brýtur sér leið inn á heimamarkað og hvernig heimamenn geta tekið þátt í spennandi hlutum.  Aukið arðsemi og framleiðni í þessari atvinnugrein.  

En það þarf að leita að nýjum verkefnum í þeirri útlegð sem ég hef verið.  Henni líkur reyndar í Júli á næsta ári þegar samningur minn við ÞSSÍ rennur út.  Hann verður ekki endurnýjaður, það er mín ákvörðun og nú er bara að bretta upp ermarnar og ráðast í að byggja upp Ísland.  Ekki að ég ætli að bjarga neinu en ég vil taka þátt í því.

Á laugardaginn hitti ég vinarhópinn í jólagufu í Bolungarvík.  Það verður heldur en ekki gaman.  Takast á um pólitík og ræða landsins gagn og nauðsynjar.

En fyrir utan vinnu og ritgerð hefur golfið fangað hug minn.  Ekki ætla ég að fara mörgum orðum um árangurinn en ánægjan er fölskvalaus.  En vonandi verður snjór heima þannig að hægt verði að skjótast á skíði.

Ég er sem sagt á heimleið í FRÍÍÍÍ


Ömurleg skrílslæti

Það er ömurlegt að horfa upp þennan skríl vaða uppi með ofbeldi gegn yfirvöldum og nú einstakling.  Ekki þekki ég Tryggva neitt en þó honum hafi orðið á í lífinu er þetta allt of langt gengið.  En það þýðir lítið að rökræða við skrílinn því hann skilur slíkt ekki.  Ég hef megnustu fyrirlitningu á svona ofstæki og tel þetta til vansa fyrir alla þá sem nálagt því koma.  Tryggvi og fjölskylda hans eiga alla mína samúð í þessu máli.
mbl.is Tryggvi hættur í Landsbankanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Geir Haarde

 

Eitthvað var tæknin að atast í bloggara þegar hann opnaði fréttavefinn M5 í vikunni.  Í stað þess að opna nýja síðu kom upp fréttasíða úr visi.is frá 28 september þar sem birtist viðtal við forsætisráðherra Geri Haarde.  Þar lýsti hann því yfir að gengi íslensku krónunnar væri allt of lágt skráð og væri engu samræmi við stöðu íslensks efnahags þann daginn.  Krónan mynd ekki gera neitt annað en hækka, þrátt fyrir blikur á lofti í efnahagsmálum heimsins.  Geir hafði reyndar áhyggjur af erfiðleikum erlendis, sérstakleg í BNA, en vonaðist til að björgunarpakkinn upp á 700 miljarða dollara myndi komast í gengum öldungadeildina og haf jákvæð áhrif.

Ég þekki fólk sem tók stöðu með íslensku krónunni á þessum tíma og reiknuðu með verulegri styrkingu.  Ekki skal því haldið fram að orð forsætisráðherra hafi haft þar áhrif, en ekki er ólíklegt að mark sé tekið á ráðherra efnahagsmála í slíku sambandi.

Á þessum tíma var gengi krónunnar reyndar allt of hátt þrátt fyrir töluverðar lækkanir vikurnar á undan.  Fölsku gengi var haldið uppi með umdeildri peningamálastjórnun SÍ.

Þá er komið að kjarna þessa greinarkorns.  Það er alveg á hreinu að forsætisráðherra hefur orðið alvarlega á í stjórn efnahagsmála á Íslandi.  Þrátt fyrir miklu meiri upplýsingar en hinn almenni maður, neitaði Geir að horfast í augu við veruleikann, þó svo að alvöruannarbjöllurnar hringdu út um allt.  Seðlabankinn hafði gengið bónleiður til búðar milli seðlabanka heimsins til að fá lán, en var neitað á þeim forsendum að Ísland væri komið að fótum fram í efnahagsmálum.  Bankakerfið væri með miklar skuldir, vafasöm útlán og allt of stórt (12 sinnum hagkerfi landsins) til að SÍ gæti komið til þrautavarar.

Þrátt fyrir þetta kaus Geir Haarde að horfast ekki í augu við raunveruleikann og trúði því að ,,lágt" gengi sem orsakaði verðbólgu væri aðal vandamálið.  Hann hefði betur hlustað á Einar Odd heitinn sem hélt því allan tímann fram að rétt væri að láta krónuna falla í raunvirði sitt og taka verðbólguskotinu sem af því myndi hljótast.  Þetta myndi styrkja útflutningsatvinnuveg og stöðva gegndarlausa eyðslu íslensku þjóðarinnar og slá á hrikalegan ójöfnuð í inn og útflutning.

Mistök forsætisráðherra og andvaraleysi hans er svo hrikalegt að ekki verður fram hjá því horft.  Það má heldur ekki gleyma því að mörg tæki og tól voru tiltæk sem ekki voru notuð, t.d. bindiskylda á IceSave reikninga, sem reyndar var afnumin í sumar sem leið í stað þess að auka hana.  Það er því algerlega nauðsynlegt að Geir Haarde axli þessa ábyrgð og gefi ekki kost á sér til áframhaldandi forystu fyrir Sjálfstæðisflokkinn á komandi landsfundi flokksins.  Skipstjóra sem verður á alvarleg mistök og nærri hvolfir skipi sínu fyrir andvaraleysi á að hætta.  Geir er að mörgu leiti flinkur maður og hefur haldið ágætlega á spöðunum síðan í hruninu, fyrir utan reyndar algjört sambandsleysi hans við þjóð sína.  Þjóðin hefur þurft að lesa eftir erlendum blöðum hvað sé framundan hjá ríkisstjórninni.  Einnig hefur umhald hans á málefnum SÍ vakið upp efasemdir um stjórnkænsku hans.


ESB og fiskveiðar

 

euÞað eru miklir óvissutímar í pólitíkinni framundan.  Eitt er þó alveg vís að fólk fær tækifæri til að kveða upp sinn dóm í kosningum.  Hvort sem það verður á næsta ári eða þar næsta.  Að öllum líkindum mun fólk einnig fá tækifæri til að ákveða hvor Íslendingar gangi í Evrópusambandið eða ekki.  Ég vona bara að sú ákvörðun þjóðarinnar verði upplýst ákvörðun en ekki byggð á tilfinningum og ótta vegna þess sem gerst hefur í fjármálum þjóðarinnar undanfarið.

Bloggari hefur lesið sig töluvert til um Evrópusambandið og heimsótt helstu stofnanir þess í Brussel.  Hlustað á kynningu um starfsemina og fengið tækifæri til að spyrja um það sem forvitni leiddi til.  Hlustað á starfsmenn sendiráðs Íslands i Brussel segja frá samskipum sínum við þetta mikla bákn og hvernig þeir upplifa samstarf við bandalagið í gegnum EFTA.

Engu að síður er bloggari ekki sannfærðrur um hvað eigi að gera.  Það hljómar vel að skríða í skjól sambandsins á viðsjárverðum tímum þar sem allt annað en öryggi ríkir hjá afvegaleiddri smáþjóð í stormasömum heimi.  En það eru sjávarútvegsmálin sem allt hefur strandað á hjá Íslendingum.  Ekki gengur að fórna góðu og hagkvæmu fiskveiðistjórnunarkerfi fyrir vitleysuna sem ríkir inna ESB.  Þar sem ákvörðun er tekin í desember á hverju ári í Brussel, um veiðimagn á komandi ári.  Þetta eru maraþonfundir þar sem haldið er á þar til örþreyttir pólitíkusar ná samkomulagi að lokum, sem að engu leiti er fengið á viðskiptalegum forsendum.  Ekki er litið til hagkvæmni eða veiðiþols eða ástand stofna í þeirri umræðu sem þar fram fer. 

Allar veiðiþjóðir innan sambandsins vilja fá að veiða meira á kostnað hinna og fyrir rest er málinu lokið með ákvörðun sem skilar engu fram á vegin en gerir stöðu sjávarútvegs í sambandinu enn verri en hún var.  Sjávarútvegstefnan er notuð sem byggðapólitík en er ekki rekin á viðskipalegum forsendum.  En er það kannski allt í lagi og á þá að horfa til ,,réttlætis" en ekki hagkvæmni?  Á að nota sjávarútvegsstefnu til að halda uppi atvinnu á landsbyggðinni?

Alls ekki.  Sjávarútvegsstefna á að vera eins hagkvæm og mögulegt er.  Tilgangur hennar á ekki að vera til að tryggja atvinnu heldur að skapa þjóðarauð. 

Með hagkvæmni fæst þjóðarauður þar sem tekjur fara ekki allar í kostnað.  Slíkt eykur velferð almennings og skapar aukna velmegun.  Með skynsamlegri veiðistjórn er ekki gengið á auðlindina heldur leitast við að tryggja hámars afrakstursgetu stofna (Maximum Sustainable Yield)

En það er nú eitthvað annað að gerast í Brussel.

Þó bloggari beri mikla virðingu fyrir Evrópusambandinu og því sem það stendur fyrir, að halda frið í Evrópu, og eins þeim árangri sem það nær í uppbyggingu landa eins og fyrrum kommúnistaríkjum austur Evrópu, þá er ekki hægt að fórna fiskveiðum Íslendinga á því altari.


Ofbeldisfólk

Mikið óskaplega gera þessi ofbeldisverk mig reiðann.  Ítrekað hafa hópar ofbeldismanna ráðist á þinghúsið, lögreglustöðvar og nú á ráðherrabústaðinn.  Það er eitt að Íslend skyldi lenda svona illa í fjármálakreppunni en sýnu verra ef við missum eitt af því dýrmætasta sem við höfum átt.  Öryggi borgaranna hér í landi hefur verið með besta móti á heimsmælikvarða.  Ég hef upplifað erlendis þar sem nauðsynlegt er að hafa vopnaða verði við allar opinberar byggingar og þurft að aka ráðamönnum um í bílalestum og loka götum á meðan.  Á Íslandi hefur ekki þurft verði við Alþingishúsið og Bessastaðir vekja mikla athygli þar sem engin sýnilegur vörður er um forseta landsins.  En nú upplifum við miklar breytingar vegna aðgerða fámennra ofbeldismanna.  Manna sem ekki kunna að tjá sig með öðrum hætti.  Það er hreins skömm að þessum aðgerðum þeirra.
mbl.is Átök við Ráðherrabústaðinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á leið heim í kulda og trekk

images_746327.jpg

Það hefur lítill tími gefist til að blogga undan farið enda styttist í ritgerðarskil.  En hér eru þó nokkur atriði sem nauðsynlegt er að koma til skila, meitlað í Google steininn.

Í fyrsta lagi er rétt að benda vini mínum Tryggva Guðmundsyni á að ég hef þegar hafnað Davíð tvisvar.  Þannig að miðað við biblíuna á ég eftir að gera það einu sinni enn.  Best að bæta úr því hér og nú þannig að nógu langt verði um liðið þegar ég hitti félaga mína í jólagufu 20 desember.

Því miður gengur málflutningur Davíðs ekki upp.  Hann virðist vera vonsvikin með hrakfarir sínar í Seðlabankanum  og ekki sáttur við að enda sinn feril á þann hátt sem í stefnir.  Davíð hefur gert margt gott fyrir þessa þjóð og ömurlegt að upplifa að hann virðist tilbúinn að fórna hagsmunum hennar fyrir persónulegan hégóma.  Þetta er farið að minna á þjóðhöfðingja í Afríku, sem oft kunna ekki að sleppa hendinni á stjórnartaumum, enda eru þeir sannfærðir um að enginn annar geti farið í sporin þeirra.  Þeir einir hafi þá „vision" sem þurfi til góðra verka og enda oft með allt í vitleysu eins og sjá má með Mugabe.  

hvalbatur.jpgEn fleiri þarf að gera upp við.  Ívar er enn við sama heygarðshornið og talar Ísland niður.  En nú er dollarinn í 114 krónum og en sjúklingurinn er allur að braggast, þvert á harkspár Ívars.  Haldi þetta á verður hann að blogga um viðreisnina af auðmýkt og þjóðerniskend.  Það skildi þó ekki vera að botninum væri náð og komin viðspyrna í klifrinu upp.  Ef kappinn nennir að sækja mig til Keflavíkur 19. desember þá  er ég til í að taka þessa umræðu við hann.

En flónin hlaupa eins og hauslausar hænur um borgríkið og brjótast inn í Alþingishúsið og mótmæla við lögreglustöðvar og hvaðeina.  Óskiljanlegt hverju er verið að mótmæla!  Ísland er lýðræðisríki og íbúarnir fá sitt tækifæri til að dæma pólitíkusa fyrir meint mistök.  Er ekki rétt að spyrja að leikslokum og fá meiri upplýsingar áður en stóri dómur fellur.  Síðan er það áskorun til Einars K.  Dríðu i að gefa út hvalakvóta.  Það mun stjúrka verstu óvinum okkar í dag, Bretum og Hollendingum öfugt.  Það eitt og sér réttlætir hvaladráp og myndi gefa þjóðinni viðspyrnu.  Það er ekker sem við getum gert betur til að stjúka þeim öfugt.  Ég vona bara að Einar verði í jólagufunni þannig að ég geti talað hann til.

Héðan er allt gott að frétta.  Frí í dag enda stórhátíð múslima.  Bloggari hefur ekki hugmynd út á hvað þessi hátíð gengur út á en er örugglega mikilvægt fyrir Allha.  Það snýst allt um golf og ritgerð þessa dagana en ánægilegasta uppákoma síðustu viku var þegar boðið var upp á djúpsteiktar engisprettur í kaffistofunni.  Kannski ég taki smá með mér heim og bjóði upp á herlegheitin í jólagufunni.  Ég gæti tekið með súkkulaðimaura sem eftirrétt.  En hér kemur ein góð saga í lokin.

Íslenskur félagi minn var að snæða með Afríkumönnum á ágætum veitingastað og boðið var upp á rækjur.  Ekki leist heimamönnum á þessi kvikindi og voru tregir til að smakka.  En eftir áeggjan félaga míns þá prófaði annar og liftis á honum brúnin.  ,,Þetta er alls ekki slæmt félagi.  Bragðast ein og einisprettur"


Davíð Oddsson

Þetta er merkileg hótun hjá Davíð.  Honum er alveg óhætt að fara út í pólitík aftur, en það bíður hans ekkert bakland til þess.  Ég er sennilega einn af þeim sjálfstæðismönnum sem síðast snéri baki við þessum gamla foringja okkar og ekki hitti ég marga talsmenn hans í dag.  Sjálfum var mér ofboðið þegar Davíð hélt ræðu á morgunverðarfundi hjá Viðskiptaráði.  Þar talaði stjórnmálamaður en ekki embættismaður.  Það eina sem gat bjargað honum frá þessari vitleysu var að geta staðið við það sem hann sagði.  Svo reyndist ekki vera og eftir sátu dylgjur mans sem komin er í ógöngur.  Það er nöturlegt að horfa upp á þennan frækna foringja enda á þessum vitlaus ófæra stíg sem hann gengur þessa dagana.

Ég er honum reiður fyrir að setja stjórnarsamstarfið í hættu, en ég trúi því að þeir tveir flokkar séu best til þess fallnir að leiða þjóðina út úr vandræðunum.  Ekki endilega með sömu foringjum, enda þurfa sumir þeirra að bera ábyrgð á ósköpunum og axla hana.

Ég er farinn að sjá það betur og betur hversu vonlaust er að hafa fyrrverandi stjórnmálamann eins og Davíð við stjórnvölin í Seðlabankanum.  Þó við sleppum nú ósköpunum og hvernig Davíð getur ekki hætt í pólitíkinni og þrumar sínar ræður yfir þjóðinni.  Þá er það ómögulegt fyrir trúverðugleika bankans að hafa stjórnmálamann sem talsmann.  Það er allt öðruvísi manngerð sem þarf til þess að skapa og halda trúverðugleika, en það snýst allt um það hjá Seðlabönkum.

Davíð á að sýna þjóðinni að hann skynji sinn vitjunartíma og segi af sér.  Hvort sem hann er blóraböggull eða ekki, en málið snýst ekki um það í dag.  Hans persóna er ekki nógu mikilvæg til að fórna þjóðinni og þeirri mikilvægu verkum sem hún stendur frammi fyirr.


mbl.is Davíð: „Þá mun ég snúa aftur"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Davíð og Seðlabankinn

 

Leitin að sökudólgunum er enn í fullum gangi.  Síðasta útspil seðlabankastjóra var áhrifamikið og sem fagmaður í pólitík fær Davíð 5 stjörnur fyrir þetta skemmtilega útspil.  Hinsvegar fær hann enga stjörnu sem seðlabankastjóri fyrir innleggið á morgunverðafundi Viðskiptaráðs.

Málið er að þetta gengur ekki upp hjá Davíð.  Í febrúar situr hann fund út í Bretlandi sem fær kalt vatn til að renna milli skils og hörunds á honum, vegna upplýsinga erlendra sérfræðinga á stöðu íslenska bankakerfisins og þeirrar ógnun sem hagkerfi landsins stafar vegna þess.  Í maí gefur hann út skýrslu þar sem bankakerfið fær fulla skoðun, að það standi traustum fótum og framtíð íslenska hagkerfisins sé mjög björt.  Í millitíðinni afnemur Seðlabankinn þá litlu bindiskyldu sem sett var á innlán bankakerfisins.

Seðlabankinn hafði öll vopn í hendi sér til að takast á við hættulegt ástand og sérstaklega Icesave reikninga Landsbankans.  Hann gat sett bindiskyldu á þessa reikninga, svona 20 til 50 % sem hefði komið í veg fyrir að þessi hættulegu skammtíma innlán færu úr böndunum.  Og koma í veg fyrir að Landsbankinn gæti lánað þessa peninga út svona 14 falt, því miður í frekar vafasöm útlán miðað við sögu síðustu vikna.

En Davíð stráði fræi efasemda á téðum fundi sem hefur orðið allri þjóðinni til umhugsunar.  Hann býr yfir vitneskju um hvað olli þeirri hörðu og afdrifaríku ákvörðun bresku ríkisstjórnarinnar að setja hryðjuverkalög á Íslendinga.  Eitt er víst að ef Davíð segist hafa þessar upplýsingar þá eru þær til og lúra tímabundið í hans höndum.

Orðið á götunni segir að viðskiptaráðherra hafi orðið svona hastarlega á í samskiptum sínum við Alexender Darling fjármálaráðherra Bretlands.  Þessi vitneskja hafi komið Davíðs hafi komið Samfylkingunni út í horn í þeirri refskák sem teflt hefur verið í kringum stöðu hans í Seðlabankanum.  En spurt verður að leikslokum í þessari spennandi þáttaröð: Hvar keypti Davíð ölið?

En það er nánast ógnvekjandi á þessum síðustu og verstu tímum að Seðlabankinn standi í stórpólitískum átökum í landinu, þar sem skotið er föstum skotum, meðal annars á ríkistjórn landsins.  Davíð verður að skilja að hans pólitíski ferill er liðinn þar sem hann gegnir nú starfi embættismanns.  Reyndar ætti hann að skilja sinn vitjunartíma og fara á þau ríflegu eftirlaun sem hans bíða eftir langan og farsælan stjórnmálaferil.  Davíð gerði góða hluti fyrir þjóðina en nú er mál að linni. 


Kosningar og ábyrgð

 

Loksins sér fyrir endann á Ice-save málinu og því ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að gengið verði til samninga við IMF ásamt þeim aðilum sem hugsanlega vilja lána okkur það sem upp á vantar til að verja krónuna og skapa eðlileg utanríkisviðskipti.  Málið er að engin annar kostur er í stöðunni þó ekki verður fram hjá því litið að mikil áhætta fylgir þessum aðgerðum.  Innganga í ESB er síðan seinni tíma mál en bjartsýnustu ESB sinnar tala um að innganga gæti átt sér stað 2011, og þátttaka í myntbandalaginu í framhaldi af því.

Mikið er rætt um hugsanlegar kosningar en bloggari telur það ekki tímabært fyrr en þjóðin hefur náð áttum í þessum málum og öll kurl eru komin til grafar.  Hugsanlega mætti kjósa að vori en sennilega heppilegar næsta haust.  Þær kosningar myndu fara fram í erfiðu árferði á Íslandi, með miklu atvinnuleysi og versnandi kjörum almennings á Íslandi.  Alheimskreppan mun að sjálfsögðu hafa mikil áhrif á Ísland og hversu vel gengur að koma vindi í seglin og ná góðu skriði á ný.

Það er alveg ljóst að menn verða kallaðir til ábyrgðar í næstu kosningum, hvenær svo sem þær verða.  Þeir sem mesta ábyrgð bera verða að víkja og hleypa nýjum mönnum að.  Það eru einfaldlega nauðsynleg skilaboð til þjóðarinnar að menn beri pólitíska ábyrgð og skilji sinn vitjunartíma.

Hinsvegar stendur stefna Sjálfstæðisflokksins keik eftir þessar hremmingar og eins og hingað til mun það verða frelsi einstaklinga til athafna, innan skynsamlegs regluverks, ásamt aðgreiningu á reglusetningum og atvinnulífi í hagkerfinu.  Það má að sjálfsögðu kenna kapítalismanum um margt að því sem gerst hefur, enda er hann ekki fullkominn, en pólitíkusar bera þar mikla ábyrgð.  Kapítalisminn er öflugasta tækið til að keyra upp efnahag þjóðarinnar og bæta lífsgæði Íslendinga.

Ef þjóðin ætlar að snúa sér að sósíalisma vegna þess sem gerst hefur má líkja því við skip sem hefur öfluga aðalvél.  Vegna mistaka skipstjórnarmanna og vélstjóra eru vélarnar settar á fullt þannig að skipið nánast kafsiglir sig og liggur eftir hálfsokkið.  Eftir að búið er að bjarga skipinu frá glötun er byrjað að ræða um að skipta um yfirmenn á skipinu, enda bera þeir ábyrgð á því sem komið hefur fyrir.  En þá heyrast þau sjónarmið að skipta þurfi um vél í skipinu til að útiloka að þetta endurtaki sig.  Nú skal setja litla vél (sósíalisma) þannig að ekki verði hægt að ná skriði á skipið.  Því skuli siglt lötur hægt (lágmarka hagkerfið) þannig að engin möguleiki verði á kafsiglingu.  Aðrar raddir segja þetta hafi ekkert með stærð vélarinnar (kapítalismann) að gera heldur þurfi að koma á samskiptum milli brúar og vélarrúms og kerfum sem komi í veg fyrir glannaskap og aðra kafsiglingu.

Reyndar má segja að kreppur séu nauðsynlegar.  Án þeirra væri ekki sú tiltekt til staðar sem þeim fylgir.  Á Íslandi voru komir fjórir til fimm hópar sem allt áttu og öllu réðu.  Höfðu jafnfram fjölmiðlana á sínu valdi til að ráðskast með þjóðina.  Hikuðu ekki við að blanda sér í póltík og nota aflsmuni sína í formi fjármuna og tangarhaldi á fjórða valdinu til að koma sínu fram.  Kreppa er kvalarfull en gefur tækifæri til að lagfæra margt sem aflaga hefur farið hjá þjóð sem hafi týnt sér í mikilmennsku og hroka og taldi sig vera einstaka í heiminum.


Fiskveiðiarður

 

Bloggari átti þess kost að sitja ráðstefnu hér í Kampala þar sem meðal annars Prófessor Ragnar Árnason hélt fyrirlestur um fiskveiðiarð.  Í skoðunum sínum um fiskveiðimál hefur bloggari oft nefnt fiskveiðiarð sem megin tilgang fiskveiða og nauðsyn þess að fiskveiðistjórnunarkerfið stuðli að slíkum arði, oft kölluð ,,renta"

Í fyrirlestri sínum benti Ragnar á að tilgangur fiskveiða ætti ekki að vera; til skemmtunar, né til að skapa atvinnu eða vernda fiskistofna eða umhverfið.  Fiskveiðar ættu að vera eins hagkvæmar og kostur er og þannig; hámarka nettó ávinning, hámarka félagslega sóknarfæri sem myndu einmitt vernda fiskistofna og umhverfi.  Það segir að eðlileg og uppbyggileg nýtingu auðlindarinnar muni stuðla að fiskveiðiarði sem nýtist sem félagslegur ávinningur fyrir samfélagið.

Stjórnun fiskveiða þarf að taka til ,,harmleika almenninga" sem skapast vegna of mikillar sóknar í endurnýjanlega auðlind, eins og fiskveiðiauðlindin er.  Án markvissrar stjórnunar muni notendur ganga of nærri auðlindinni, þar til allur arður er horfin og endar að lokum með hruni stofna, veiða og samfélaga.

Helstu birtingamyndir slíkrar sóknar eru; of stór fiskveiðifloti, ofnýttir stofnar, léleg afkoma útgerða og sjómanna, lítil sem engin framlegð til GDP, ógnun við líffræðilega afkomu stofna og ógnun við byggðir og fjárhagsafkomu íbúa fiskveiðisamfélaga.

Hægt er að reikna út sókn í stofna þannig að hún skili hámarks arði (Maximum Sustainable Yield) en á bak við slíkt eru mjög flóknar stærðfræði formúlur og of langt mál að útskýra þær hér. 

Á myndinni hér að neðan má sjá línurit sem útskýrir hagkvæmni veiðar miðað við sókn í fiskistofna. Kúrfan sýnir feril tekna af veiðum sem hækkar fljótt með aukinn sókn þar til ákveðnu magni er náð og tekjur fara aftur þverrandi þar þess að fiskistofnar þola ekki sóknina.  Bogalínan sýnir kostnaðinn við veiðarnar sem er línuleg upp á við, þ.e.a.s. að aukin sókn kostar að sjálfsögðu meira.   MSY stendur fyrir það magn sem hámarkar fiskveiðiarð miðað við veiðar þar sem bilið milli tekna og kostnaðar er breiðast.  Þar sem tekju- og kostnaðarlínur skerast (CSY) fara allar tekjur í að greiða kostnað.  Eftir það er kostnaður orðin hærri en tekjur sem því miður er gert með ríkisstyrkjum.

New Image

Það eru einmitt líkur á að slíkar óarðbærar veiðar séu stundaðar víða um heim og hafa reikniglöggir menn fundið út að tjónið vegna of mikillar sóknar í fiskistofna í heiminum kunni að nema á bilinu 26 til 50 billjón US$, eftir því hvort miðað sé við 95% eða 90% öryggismörk. 

Íslenskir sjómenn hafa margir haldið því fram að þorstofninn við Ísland sé vannýttur.  En öllu líklegra er að góð veiði bendi til ábyrgrar sóknar og Íslendingar séu að nálagst sinn MSY punkt.  Málið er auðvitað að með veiðum nálægt MSY punktinn þá er afli mjög góður miðað við sóknareiningu, sem er einmitt ástæðan fyrir því að langt bil er á milli tekna og kostnaðar við slíkar aðstæður.  Þannig er hægt að hámarka fiskveiðiarðinn til góðs fyrir greinina, fiskveiðasamfélögin og þjóðina alla.


Ofbeldi og átök

Hvernig í ósköpunum getur ofbeldi og átök hjálpað til í stórhættulegu ástandi sem Íslenska þjóðin stendur frammi fyrir?  Hverju er þessi ofbeldismenn að mótmæla?  Ástandinu?  Er það að mótmæla kreppunni sem nú herjar á heimsbyggðina, eða bara þeim hluta sem snýr að Íslandi?  Eða er verið að mótmæla afleiðingum kreppunnar?

Það má líkja ástandinu á Íslandi við stríðsátök þar sem barist er fyrir framtíð ríkisins.  Aldrei hefur þjóðin þurft jafn mikið á samstöðu að halda og nú.  Svona mótmæli eru ekki til þess fallin að hjálpa til við þau gríðarlega mikilvægu verkefni sem landsstjórnin stendur frammi fyrir að leysa.  Ég hef áhyggjur af samningum okkar við IMF og afstöðu Breta og Hollendinga til þeirrar líflínu sem við þurfum frá alþjóðasamfélaginu.  Koma krónunni á flot og styrkja hana til að lækka verðbólgu þangað til önnur ráð gefast.  Það er ekkert val um þá hluti í dag og þó við viljum taka upp evru þá þurfum við krónuna í millitíðinni.  Staða Íslendinga stendur og fellur með því að þetta takist og stjórnvöld eru að reyna allt sem í þeirra valdi stendur til að svo megi verða.

Það verður nægur tími til uppgjörs.  Við lifum í lýðræðisríki þar sem borgarar hafa kosningarétt og þeir geta gert það sem þeim hugnast í næstu kosningum.  Þangað til munu hlutirnir skýrast og auðveldara verður fyrir fólk að gera það upp við sig hverjum eða hverju er um að kenna.  Hvort fólk vilji hafa núverandi stjórnmálaflokka við völd eða ekki.  En nú þurfum við að standa saman sem aldrei fyrr.  Nota hvern skjöld og hvert sverð fyrir sameiginlegri baráttu okkar Íslendinga.  Ekki að sundra þjóðinni með ofbeldi og átökum.


mbl.is Mótmæli á Austurvelli í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dagdraumar kommans

 

Fyrrverandi bæjarstjóri Bolungarvíkur, Grímur Atlason, fór mikinn í bloggfærslu sinni í lok síðustu viku.  Ef rétt er munað talaði hann um að frjálshyggjumenn létu fara lítið fyrir sér þessa dagana enda hefði stefna þeirra og kapítalisminn beðið skipsbrot.  Það hlakkaði í kauða enda sér hann fyrir sér útópíu sósíalismans í hillingu, taka yfir eftir sjálfseyðingu þeirra afla sem lagt hafi heims-hagkerfið í rúst.

Bloggari var að velta fyrir sér að spyrna umsvifalaust við fótum og upplýsa bæjarstjórann fyrrverandi um að engan bilbug væri að finna á stefnu og skoðunum bloggara, þrátt fyrir atburði síðasta mánaðar.  En bloggara hugnaðist ekki að ganga í þann félagskap sem lagt höfðu inn athugasemdir við umrædda grein, og var þar leiðum að líkjast.  Bæði var málflutningur höfundar ásamt þeim sem undir  tóku fullur af stóryrðum, upphrópunum og klisjum, en minna fór fyrir rökum og þekkingu.  Ef menn vilja slá um sig hugtökum er lágmark að þeir skilji fyrir hvað þau standa.  Bloggari stór efast um að þessir menn viti hvað kapítalismi stendur fyrir og hvað þá frjálshyggja.  Hvortveggja er vel skilgreint í fræðunum og hægt að gera kröfu til þeirra sem vilja gera sig gildandi með notkun þeirra að kynna sér hvað þau standa fyrir.

Atburðir síðasta mánaðar er enginn bautasteinn yfir kapítalisma eða frjálshyggju.  Hagsveiflur eru ekki bara óumflýjanlegar, heldur nauðsynlegar að áliti margra merkra hagfræðinga.  Reyndar eru hagsveiflur afleiður af kapítalsisma, einkaframtaki og frjálshyggju. En það virkar í báðar áttir, bæði upp og niðursveiflu, enda eru framfarir forsenda þessara afla.  Ef menn vilja finna hagkerfi í heiminum sem er laus við hagsveiflur kemur Norður Kórea og Kúba upp í hugann.  Þar eru engar slíkar enda er hagkerfið og íbúar þessara ríkja við hungurmörk, nánast upp til hópa.  Hvaða ríki eru þá þessi útópía sem bæjarstjórinn fyrrverandi horfir til?  Ekki er það Svíþjóð eða önnur norðurlönd, enda hafa öll þau ríki byggt um velmegun og ríkidæmi með þeirri hugmyndafræði sem um er rætt.  Skandinavía fór í gegnum alvarlega bankakreppu í byrjun tíunda áratug síðustu aldar og eru í alvarlegum vandræðum í dag.  Danir njóta björgunar Evrópusambandsins sem styður dönsku krónuna, hvað sem það kostar þessa dagana.

Það skyldi þó ekki vera Norður Kórea og Kúba sem Grímur og félagar hans horfa til?  Ef þeir vilja hafna kapítalisma, einkaframtaki og frjálshyggju er ekki um mjög mörg önnur ríki að ræða, nema helst í hinum múslímska heimi.  Þar hafa trúarkreddur komið í stað þessara uppbyggjandi hugmyndafræða.  Og þeir sem hafa lesið hagfræði síðustu alda vita að það var einmitt kapítalismi og frjálsræði sem skópu þá velmegun sem ríkt hefur meðal íbúa vesturlanda undanfarna áratugi.  Fyrir þann tíma var hefðarhyggja ráðandi í Evrópu þar sem fátæklingar lutu valdi höfðingja, sem allra náðasamlegast sáu þeim fyrir helstu lífsnauðynjum.  En þó ekki meira en svo að talið var nauðsynlegt að svelta þá til hlýðni. Áður en lýðræði með frjálsræði og almennri velmegun kom til tóku Konungar vald sitt frá guði og höfðingjarnir frá kónginum.  Hvaðan herrarnir í Norður Kóreu og Kúbu taka vald sitt er ekki gott að segja en grunnurinn er ekki langt frá því sem tíðkaðist á fimmtándu öld í Evrópu.

Á síðustu öld var gerð stærsta tilraun mannkynssögunnar þegar kommúnismi var prófaður í nokkra áratugi.  Íbúum þeirra ríkja til mikilla hörmunga, og flest þessi ríki hafa nú snúið við blaðinu og hvað skyldu ríkin eins og Kína og Víetnam nota í dag?  Það skyldi þó ekki vera hugmyndir Adam Smith um einstaklingsframtak of kapítalisma.  Þeir sleppa að vísu lýðræðinu en ágætlega gengur samt að byggja upp efnahagslega velsæld, allavega fyrir útvalin hóp manna.

Kapítalisminn er ekki fullkominn, kannski sem betur fer.  Það er með hann eins og lýðræðið að það besta við hann er hversu ófullkomið hann er.  Flestir merkustu hagfræðingar síðustu aldar höfðu mestar áhyggjur af því að kapítalisminn myndi tortíma sér, ekki af því hann væri svo ómögulegur, heldur vegna þess hversu vel hann virkaði.  Reyndar taldi John Maynard Keynes, áhrifamesti hagfræðingur síðustu aldar, að hann væri að bjarga auðhyggjunni frá tortímingu með því að benda á aukið mikilvægi ríkisumsvifa.  En sá hagfræðingur sem mest áhrif hafði á umræðu um hagsveiflur var Austurríkismaðurinn Scumpeter.  Hugmyndir hans um hagsveiflur og orsökum þeirra voru mjög ólíkar hugmyndum Keynes.  Scumpeter var hugmyndaríkur íhaldssamur hagfræðingur með rómantískar skoðanir á framtíð hagvaxtar og kapítalismans.  Hann taldi reyndar að kapítalisminn myndi líða undir lok, en ólíkt skoðunum Karl Marx sem taldi að hann myndi tortíma sér vegna galla, að það yrði vegna velgengni auðhyggju og kosta sem fjármagnshyggjan hafði og frjálshyggjan myndi líða undir lok vegna þess.  Afskipti ríkisstjórna yrðu meiri og meiri og áhrif stjórnmálamanna aukast sem myndi koma í veg fyrir að frumkvöðlar fengju þrifist til að viðhalda drifkrafti atvinnulífsins.

Það er nákvæmlega það sem bloggari óttast að muni gerast eftir þessa djúpu lægð í hagsveiflu dagsins í dag.  Að í kjölfarið muni stjórnmálamenn sannfæra almenning um nauðsyn þess að þeir axli aukna ábyrgð með meira valdi og áhrif þeirra verði meiri í framtíðinni, á kostnað hins frjálsa hagkerfis.  Þegar má sjá þetta gerast í Bretaveldi þar sem Gordon Brown hefur tekið tuga milljarða punda að láni frá olíuríkjum og Kína til að auka vægi ríkisins í hagkerfinu.  Byggja svo sem tvö flugmóðurskip og dreifa fjármunum til valdra einstaklinga í nafni uppbyggingar á litlum og meðalstórum fyrirtækjum.  Það er ekki fyrsti spádómur Scumpeters sem rætist í þessari birtingarmynd hagfræði dagsins í dag.


Úr ranni páfans

Þetta er frábær hugmynd frá páfagarði.  Í þeim sósíalísku tímum sem nú taka við eftir ,,dauða" frjálshyggju og kapítalisma væri hægt að heimfæra þetta upp á bankamenn framtíðarinnar.  Setja þá í sálfræðipróf til að kanna græðgi þeirra.  Koma í veg fyrir að gráðugir menn afvegaleiði hagkerfið sem síðan bitni á almenningi.  Þetta gæti verið einn af hornsteinum hins fullkomna heims þar sem fullkomnun ríkir.  Allt undir stjórn og engar hagsveiflur.  Ef til vill verður þetta bara himnaríki!


mbl.is Kynhvöt kaþólskra presta könnuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 13
  • Frá upphafi: 286722

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 9
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband