1.3.2009 | 08:38
Kafli 2 - Sikiley og Grikkland
Nú lá leiðin til Sikileyjar og viti menn að fljótlega eftir komu okkar til eyjarinnar fréttum við af hópi Íslendinga á vegum Útsýnar. Við ákváðum að kíkja í heimsókn og var okkur tekið vel, en nokkrir gamlir Ísfirðingar voru í þessum hópi. Farastjórinn frétti af þessum víkingum og kallaða okkur á sinn fund. Það var sjómannadagur framundan og spurningin hvort við gætum séð um dagskrá fyrir landkrabbana. Hann bauð okkur í staðin að fara á landsleik milli Íslands og Möltu í fótbolta sem yrði daginn eftir í Palermo.
Við slógum til en sjómannadagurinn var eftir tvo daga sem gæfi okkur hæfilegan tíma til að undirbúa, en hluti áhafnarinnar hafði reynslu af slíku frá ferðum Bonnýar við sólarströndum Spánar. Fótboltaleikurinn var mikil vonbrigði. Íslenska liðið lék illa og tapaði fyrir Möltu, á velli sem var nánast í einhverjum bakgarði í Palermo. Maltverskir áhorfendur voru sérlega ruddalegir og þess sérstaklega getið í héraðsblöðunum daginn eftir. Við vorum hálf beygðir eftir upplifunina en framundan var ábyrgðarmikið hlutverk og undirbúningur þegar hafin. Hátíðarhöldin yrðu haldin við sundlaug hótelsins sem Íslendingarnir gistu á. Við ákváðum að hafa stakkasund, froskalappahlaup, fótboltamót og ræðu fjallkonunnar ásamt ávarpi skipstjórans. Við skrifuðum leikrit og æfðum fyrir sjómannadaginn en skipstjórinn skyldi halda tölu sjómanna.
Hátíðin sló eftirminnilega í gegn og var áhöfnin hyllt sem hetjur á eftir. Heilmikil veisla tók við og skemmtu menn sér vel, en sumir urðu að ganga hægt um gleðinnar dyr þar sem ferðinni yrði haldið áfram daginn eftir.
Við kvöddum skemmtilegan hóp og lögðum af stað suður Messina sund milli Ítalíu og Sikileyjar og síðan stefn suður fyrir odda Ítalíu. Síðan var kúrsinn tekin á Corinthian skurðinn í Grikklandi sem er um á fimmta hundrað mílna sigling. Við sáum Ítalíu hverfa í morgunroðann daginn eftir og framundan var Ionian hafið. Áhöfnin var upp á sitt besta við morgunverðarborðið og margs að minnast frá Sikiley. En allt í einu hrundi tilveran. Tóbakið var á þrotum en reykingarmennirnir höfðu gleymd að kaupa sígarettur. Sjálfur var ég á góðri leið að ánetjast nikótíninu eftir að vera hættur að reykja í fjögur ár. Einn smókur hér og annar þar og var jafnvel farinn að reykja heilu sígaretturnar. En einhvern veginn var ég ekki orðinn fíkill og gat því lifað án tóbaks. En því var ekki að heilsa með restina af áhöfninni og mátti sjá skelfingarsvipinn á þeim og hægt að ímynda sér hvað væri framundan.
En skipstjórinn réði för og ekki yrði snúið við til að kaupa tóbak. Sjálfum leið mér ágætlega yfir þessu og ákvað að ég skyldi bara hætta þessu fikti og hætta alveg öllum reykingum. Sólarhring seinna var tóbakið búið og menn byrjaðir að leita að stubbum út um allt. Það þyngdist brúnin á sumum og þegar grillti Kefallonia eyju vildu menn að leitað yrði að höfn til að kaupa tóbak. En skipstjóranum leið vel og framundan voru ástarfundir með konunni í Aþenu og því neitaði hann staðfastlega að stoppa á einhverri eyju til að láta undan einhverri nikótínþörf.
Enn þyngdist brúnin á áhöfninni og þrátt fyrir góðan byr var einhver fjandans hundur í mönnum. Það var komin stíf vestan átt og við sigldum beggja skauta byr inn Choridnos fjörðinn þannig að sauð á súðum. Ekkert er skemmtilegra en sigla svona og Bonny var komin á tíu mílna ferð. Samt var þetta röfl i mannskapnum og einn eftirmiðdag var nánast gerð uppreisn og menn neituðu að ganga til verka. Skipstjórinn algerlega einangraður í afstöðu sinni og sá sína sæng útbeidda að eitthvað yrði að aðhafast. Hann sat við stýrið og vindinn hafði heldur hægt en góður gangur á bátum, kvöldsólin merlaði í haffletinum og fljótlega fór að skyggja. Það voru ljót hljóð sem komu úr lúkarnum og aldrei að vita hverju menn gætu tekið upp á. Einhvern tímann yrði skipstjórinn að sofa og þá var voðinn vís.
Ég snéri stefnu bátsins rólega á bak og stefndi á stað sem virtist vera veitingastaður eða bar. Engin höfn var á slóðum svo önnur ráð þurftu í stöðunni. Ég feldi seglin um hundrað metra frá landi og lét akkerið falla. Ekki var mælt orð á meðan á þessu stóð en uppreisnarseggirnir komu nú upp til að athuga hvað Mr. Bligth væri að bauka. Þeir sáu á eftir honum á nærbuxunum með plastpoka milli tannanna þar sem hann skutlaði sér í sjóinn og tók að synda í land. Þegar þangað kom snaraði ég mér inn á barinn og bað um tvo sígarettu pakka. Tegundin skipti engu máli, bara að þær innihéldu héldu nikótín. Síðan synti ég um borð með fenginn milli tannanna og án þess að segja orð fleygði ég pökkunum niður í káetuna. Það heyrðist braka í sellófóni og hviss í eldfærum og fljótlega liðaðist blár reykur upp um lúguna og skyndilega heyrðist kallað með glaðværum rómi ,,hæ Gunnsi, er ekki allt í góðu lagi"
Menn brostu út að eyrum það sem eftir var siglingarinnar inn fjörðinn, sem er rúmlega 150 mílna langur, og einn morgun nálguðumst við innsiglinguna í Corinthos skurðinn. Skurðurinn er grafinn í höndum fyrir langa löngu og er gríðarlegt mannvirki. Við þurftum að koma við á hafnskrifstofunni til að greiða gjald fyrir ferðina og síðan fórum við í gegnum hlið áður en skurðurinn sjálfur tók við sem er rúmlega fimm mílna langur. Það var seinnipart dags þegar við komum út austan megin við skurðinn út í Eyjahafið og stefnan þá sett á Piraeus sem er hafnarborg Aþenu. Það var mikil tilhlökkun hjá okkur Sverri að hitta eiginkonurnar og aðrir voru hinir ánægðustu og liðaðist reykurinn út á milli hlátraskalla við brandara stýrimannsins.
(framhald)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.2.2009 | 13:02
Kafli 1 - Frá Mallorka til Ítalíu
Við vorum fimm félagarnir; undirritaður, Elli Skafta, Bári Gríms, Simmi og Sverrir Halldórs sem hófu þessa ferð. Þetta var hörku lið og nokkuð reyndir sjómenn sem árið 1982 flugu til Mallorka til að sigla seglskútinni Bonny til Grikklands, nánast langsum Miðjarðarhafið. Skútan var á landi í skútuhöfninni í Cala D´Or sem liggur austan við Palma.
Okkar beið mikið verk að gera við það sem var bilað, botnmála og gera bátinn sjókláran fyrir siglinguna. Eiginkonur okkar Sverris ætluðu að fljúga til Grikklands og hitta okkur þar ákveðin dag, þannig að við höfðum stranga áætlun sem þurfti að fylgja. Eftir þriggja daga vinnu var báturinn tilbúinn og kostur tekinn fyrir fyrsta áfangann þar sem stefnan yrði tekin á Gagliari á suðurodda Sardinju. Kvöldið áður en lagt var í hann var haldið upp á vel unnið verk og farið á góðan veitingarstað. Eftir matinn fengum við okkur Havana vindla, sem ekki væri í frásögu færandi nema fyrir það að tveir okkur höfðu hætt að reykja þremur árum áður. Ég svona taldi þetta vera í lagi enda púaði ég vindilinn að mestu.
Við lögðum af stað í morgunsárið og fylgdumst með Mallorka síga í sæ meðan freyddi á súðum á Bonny. Vindur var ákveðinn af norðri sem gaf okkur góðan og þægilegan byr til siglingarinnar. Það er notalegt að sigla hliðarvind og hreyfingar bátsins verða hægar undir seglum með litlum hliðarhalla. Við höfðum keypt okkur loftriffil í Palma og fór mikill tími í skotkeppni meðal áhafnarinnar. En síðan fór degi að halla og stjörnubjört nóttin tók við. Þá uppgötvaðist að ljósið í kompásinum var bilað, sem var mjög bagalegt þar sem stýra varð eftir kompásnum. Stefnan hafði verið stungin út og gert ráð fyrir drift undan norðanáttinni, en straumar eru nánast engdir í Miðjarðarhafinu. Í fyrstu var notast við vasaljós en þá sá maður ekkert nema kompásinn þar sem ljósið blindaði allt annað. Þetta var ekki gott mál þar sem mikilvægt var að halda réttri stefnu, enda engin staðsetningartæki til um borð og treysta varð á að stefnu væri haldið vel.
Þá datt okkur það þjóðráð í hug að stýra eftir stjörnunum. Með norðanvind og seglin á stjórnborða blasti Pólstjarnan við í há-norðri og ekkert annað en halda henni aftan til á bakborða en stefnan var sunnan við austur. Þetta gekk prýðilega og þegar skymaði að morgni vorum við úti á ballar hafi og ekkert nema sjóndeildarhringurinn hvert sem litið var. Norðan áttin hélst og nú var komið að því að baða áhöfnina. Sterkur kaðall var settur út af skutnum og síðan fór einn af öðrum í sjóinn, fyrir utan stýrimanninn að sjálfsögðu, og gripu í kaðalinn. Báturinn var á sex til átta mílna ferð og freyddi vel af mannskapnum í kaðlinum. Enn var skotkeppninni haldið á og snæddur hádegisverður en Simmi var aðal kokkurinn um borð. Dagurinn leið og um kvöldið var ákveðið að halda öryggisnámskeið og æfa björgun á manni sem færi fyrir borð. Það var komið niðamyrkur þegar Sverri datt í hug að kasta sér fyrirvaralaust fyrir borð og taldi áhöfnina vera orðna svo þraut þjálfaða að auðvelt væri að snarvenda og ná honum aftur.
En það var öðru nær og þrátt fyrir að öldurnar væru ekki stórar var illmögulegt að koma auga á mann á sundi í myrkri og öldugangi. Það sem bjargaði málum var að Bári hafði brugðist snaggaralega við þegar Sverri stökk fyrir borð og þreif einn hlerann úr afturkáetunni og kastaði á eftir honum. Önnur hlið hennar var hvít og var það lán okkar að sú hlið snéri upp. Eftir að hafa tekið niður seglin og gangsett vélina og náð í kastara var það einmitt hlerinn sem við komum auga á og þegar við sigldum þangað heyrðum við í Sverri og vorum nokkuð ánægðir að drífa hann um borð aftur. Okkur var nokkuð brugðið við þetta en vorum reynslunni ríkari.
Norðan vindurinn hélst allan tímann og komum við á fjórða degi til Gagliari sem er höfðaborg Sardinju. Við byrjuðum á að fara í banka til að kaupa lírur en það var þriggja tíma vinna. Síðan bættum við í kostinn og komum síðan við í ísverksmiðju og keyptum 40 kílóa ísklump. Það var erfitt að bera ísinn umbúðarlausan og anski kalt af láta hann liggja á öxlinni. Það var nærri klukkutíma gangur um borð og endaði með því að við keyptum strámottu sem við vöfðum um klumbinn.
Um kvöldið fórum við á knæpu og fengum okkur drykk. Bárður var aðalnúmerið og gustaði af honum í samskiptum við heimamenn. Við Sverri fórum fljótlega um borð en restin af áhöfninni þurftu að taka Ítalíu betur út. Um morguninn labbaði ég með Bárði upp í bæ til að kaupa nýtt brauð áður en ferðinni yrði haldið á og virtust flestir bæjarbúar kannast við kappann. Kölluðu á hann, Icelandic Viking og gáfu honum honnor.
Stefnan var nú tekin norður fyrir Sikiley á litla eldfjallaeyju sem nefnist Ustica sem er um 250 mílna sigling. Ustica er örsmá og er vestasta eyjan í eyjaklasa norður af Sikiley en þetta eru virk eldfjöll þar sem heitir hverir krauma við hvert fótmál. Enn var norðanáttin og nú voru menn orðnir vanir að stýra eftir stjörnum og menn tóku ekki eftir ljóslausa kompásinum. Þetta var nokkuð spennandi þar sem markið sem sett var örsmátt og skyggnið lítið vegna misturs á daginn.
Við sólarupprás á þriðja degi var byrjað að rýna fram fyrir stefnið til að koma auga á eyjuna okkar. Hafði siglingarfræðingurinn staðið sig við leiðarreikninginn eða myndum við fara framhjá en Sikiley var aðeins nokkrar tugi mílna í suðri, en skyggni varla nema þrár til fjórar mílur. Það sem birtist okkur var algerlega ógleymanlegt og stendur mér ljóslifandi fyrir hugskotsjónum æ síðan. Allt í einu reis keilulaga eyja upp við sjóndeildarhringinn í morgunbirtunni, beint í stefnu bátsins. Böðuð mistri og minnti ósegjanlega á ævintýri sjóræningja og þegar nær dró komu í ljós einhver mannanna verk og síðar glitti í agnarsmátt þorp við ströndina. Við renndum inn á lagið og rérum í land til að heilsa upp á heimamenn. En þeir voru jafn dularfullir og eyjan sjálf og vildu lítið við okkur tala. Ekkert undirlendi var á eyjunni heldur höfðu menn búið til stalla til að byggja á kofa hreysi og koma fyrir kálgörðum. Við drifum okkur á stað, enda vissum við af fleiri eyjum austar og þar væri meira um að vera.
Við ákváðum að koma við á Stomboli sem lá í hundrað mílur í austri. Við birtingu daginn eftir reis sú eyja úr hafdjúpinu og þegar við komum í land fundum við veitingahús þar sem hádegisverður var snæddur. Þegar við báðum um brandí eftir matinn var það borið fram í barmafullum vatnsglösum. Sumir úr áhöfninni áttuðu sig ekki á magninu og voru orðnir ansi slompaðir þegar leið á daginn. En áhöfnin var sem betur fer nægilega fjölmenn til að hægt væri að halda af stað fyrir kvöldið þó sumir þyrftu að sofa úr sér. Reyndar hafði einn áhafnameðlimur skorið sig illa á fæti en enga læknishjálp var að fá á Stromboli svo ákveðið var að sigla til Libari. Við komum þangað að morgni og fundum fljótlega lækni sem saumaði okkar mann, án þess að deyfa áður. Öskrin bókstaflega glumdu um allar Volcan eyjaklasann en síðan fékk hann sprautu sem honum var sagt að sprauta sig með sjálfur.
Það féll að sjálfsögðu í hlut stýrimannsins að sprauta félagann. Bárður var alvanur öllu svona og tók piltinn á næsta veitingastað þar sem byrjað var að panta tvö full glös af brandí. Og svo bara þarna við borðið á veitingastaðnum girti minn maður niður um sjómanninn og rak í hann stífkrampasprautuna. Enn hvað við öskur en nú voru menn komnir á gott skrið aftur og pöntuðu tvö full glös í víðbót.
Á Líbari eru enn sagðar sögur af heimsókn íslensku víkinganna. Sérstaklega þessum granna slána með ljósa liðaða hárið sem fór sem eldibrandur um þorpið allt kvöldið og bauð mönnum upp á sjómann. Hann gnísti tönnum, horfði með ísköldu heimskauta augnaráði á Ítalanna og sagði með djúpri bassaröddu ,,Have you heard about the Vikings"
Við vorum nú orðnir svo þekktir á þessu eyjaklassa að maður gat ekki gengið um götur á þess að vera honoraður og heilsað eins og gömlum vinum. En svona frægð getur fylgt ákveðin áhætta enda mátti búast við að sumir af þessum miklu víkingum væru farnir að vekja mikla athygli hjá veikara kyninu á eyjunum. Við það getur orsakað öfund og reiði hjá karlmönnunum sem ekki voru bara niðurlægðir með kröftum og sáru tapi í sjómanni, heldur sáu eyjadísarnar ekki sólina fyrir hetjunni okkar. Þannig að það var bara að drífa sig og ákveðið að koma aðeins við á Sikiley áður en haldið væri suður Messnasund á leið til Grikklands. (framhald)
Stjórnmál og samfélag | Breytt 7.3.2009 kl. 09:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.2.2009 | 07:58
Ferð um Uganda - seinni hluti
Nú var komið að Lake Kyoga og ferðinni var heitið til Masindi þar sem hægt var að fá gistingu yfir nóttina. Við komu að gistihúsinu í niða myrkri þar sem rafmagnið hafði farið af, en þar var allt fullt. Tvö önnur hótel voru í bænum og reyndist aðeins laust á öðru þeirra og nú hafði verðið heldur betur rokið upp. En herbergið leit vel út með heitri sturtu og meira að segja sjónvarpi. En það fylgdi böggul skammrifi þar sem símafélag var með kynningu á hótelinu og eftir kvöldverð byrjaði diskó með bass and drum" tónlist. Veggirnir gengu í bylgjum þegar hljóðbylgjurnar skullu á þeim og klukkan 10 fór ég í afgreiðsluna til að athuga með svefnfrið. Mér var sagt að allt yrði búið klukkan 11 og því ekki annað að gera en halda vöku þangað til og horfa á sjónvarpið. Korter yfir ellefu var mínum mann nóg boðið og benti ég starfsmanni í móttökunni að ég hefði borgað fyrir nætursvefn en ekki diskó. Tónlistin hélt á til hálf tólf en þá tóku við mikil gleðilæti með köllum og hlátrarsköllum en mjög hljóðbært var á hótelinu. Það varð lítið um svefn þessa nóttina.
Í bítið daginn eftir héldum við að stað til Apac til að hitta héraðsstjórann og fiskimálastjórann. Í fyrstu var ekið eftir mjög góðum vegi, fram hjá Murchison Falls þjóðgarðinum. Þegar honum sleppti vorum við komnir að Níl þar sem hún rennur frá Albert vatni til Kyoga vatns og hittum við nánast beint á ferjuna. Ferðalagið yfir fljótið tekur stutt af og vorum við komnir yfir á austurbakkann innan tuttugu mínútna. Ég tók eftir því að fólk var að taka neysluvatn á tuttugu lítra brúsa úr ánni við ferjustæðið. Bæði var vatnið gruggótt og lá olíubrák á yfirborðinu. Innfæddir virtust ekki láta það á sig og var mjög fjölmennt á bakkanum af vatnsberum. Fæstir sjóða þetta vatn enda mikið um veikindi vegna mengað drykkjarvatns.
Fljótlega eftir að komið var á austurbakkann var ekið út af þjóðveginum og inn á annan lélegri vegaslóða. Hér tóku við skógi vaxin svæði og allt í einu ókum við fram á stórt tré sem elding hafði fellt kvöldið áður. Tréð lokaði veginum og virtist ekki möguleiki að komast framhjá því. Maður með öxi var að höggva greinar af því og vildi bílstjórinn bíða eftir því að hann kláraði verkið til að hægt væri að halda á. Það kom upp í mér Fljótavíkur berserkur og ég réðist á tréð sem var reyndar alsett þyrnum. Eftir að nokkrar greinar höfðu verið höggnar af og þær dregnar til hliðar virtist vel mögulegt að koma bílnum fram hjá. Eitthvað var bílstjórinn að mögla en þegar ég hótað að taka við bílstjórninni gaf hann eftir og gekk vel að sneiða hjá trénu og halda ferðinni áfram. Svona eins og sönnum Fljótvíking sæmir spurði ég um það eftir á hvort þyrnarnir væru nokkuð eitraðir, en ég var allur blóðrisa eftir átökin. En svo reyndist ekki vera og var ég sárum gróinn degi síðar.
Afríski fíllinn þarf að borða í 18 tíma á dag. Bæði er að hann er gríðar stór, getur orðið upp undir tíu tonn, og eins er fæði hans yfirleitt næringarsnautt og tormelt. Hann hesthúsar rúmum 200 kg á hverjum degi og drekkur annað eins af vatni. Fíllinn fær því ekki langan svefn því fyrir utan að nærast þarf að baða sig og hugsa um húðina með því að velta sér upp úr sandi og leir, meðal annars til að kæla sig og losna við sníkjudýr. En hvað skyldu innfæddir á þessum slóðum þurfa að eyða löngum tíma í að matast, sérstaklega konurnar. Alstaðar meðfram vegunum eru konur að bera vatn, 20 ltr brúsa á höfðinu. Hver ferð getur tekið marga klukkutíma á hverjum degi en karlmenn nota yfirleitt reiðhjól og geta þannig flutt fjóra brúsa í einu með því að leiða hjólið. Fyrir utan vatnið þarf að afla matar og brennis og líklegt að langur tími fari í þetta á hverjum degi. Þá eru þvottar og annað slíkt eftir, líkt og hjá fílnum. Líklegt má telja að allur vökutíminn fari í vinnu við að afla matar og vatns ásamt því að huga að börnum og búi, en oft eru konurnar með börnin bundin á bakinu við vatnsburðinn.
Eftir heimsókn í ráðhús Apac var ekið niður á löndunarstað við Kyoga vatn og var fiskimálastjórinn með í för ásamt aðstoðarmanni. Löndunarstaðurinn var mjög stór og var veiðin nokkuð góð, ólíkt því sem virtist vera við Albert vatnið. Við hittum yfirmenn löndunarsamfélagsins sem allir töluðu góða ensku og sýndu þeir okkur löndunaraðstöðuna og veiðiflotann. Eins og við Albert vatnið eru veiðibátarnir tveggja manna árabátar en átta bátar með utanborðsvél tilheyrði svæðinu, en þeir eru notaðir til að sækja fisk frá minni löndunarstöðum, sem oft eru utan vegasambands. Síðan var okkur boðið á skrifstofu löndunarsamfélagsins sem var í strákofa. Þegar inn var komið reyndist þetta vera mjög þægilegt og hentugt húsnæði við þessar aðstæður. Veggirnir sem eru úr leir ná ekki alveg upp að stráþakinu og því gott bil á milli sem hleypir andvaranum inn. Sjálft stráþakið er góð vörn gegnheitum sólargeislunum og heimamenn sögðu það halda vel vatni þegar rignir.
Við þurftum að skutla farþegum okkar aftur til Apac sem var rúmlega klukkutíma leið og var ákveðið að borða þar hádegisverð. Þegar við komum að veitingastaðnum þverneitaði ég að fara inn en bauðst til að bíða í bílnum. Þetta var ótrúleg sóðabúlla og mér var hugsað til þess hvernig eldhúsið liti út ef veitingarsalurinn var svona slæmur. Það var því ákveðið að fara í supermarkaðinn og kaupa ávexti og vatn. Þegar þangað kom reyndist verslunin vera hálfgerður kofi, engir ávexti en hægt að fá kók og kexkökur. Þetta var bara ágætur hádegisverður þó efast megi um hollustuna.
En nú var mál að halda heim og var haldið sömu leið til baka, alla leið yfir á vesturbakka Nílar áður en komið væri á þjóðveginn til Kampala. Þegar við komum að trénu góða, sex klukkutímum eftir bardagann við um morguninn, var það enn óhreyft á veginum en greinilegt að umferðin fundið sér leið fram hjá því. Þegar á þjóðvegin kom reyndist hann vera hraðbraut en var reyndar ekki fullkláruð og stóðu framkvæmdir yfir. Við komum til Kampala seint að kvöldi og eins og venjulega á föstudagskvöldi voru allar götur stíflaðar af umferð og tók langan tíma að komast inn í borgina og síðan heim til Bugalobi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 28.2.2009 kl. 13:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.2.2009 | 10:33
Ferðalag um Úganda - fyrri hluti
Við lögðum að stað þrír á fjórhjóladrifnum Toyota Hi-Lux, undirritaður, Alfred starfsmaður fiskimálaráðuneytisins og bílstjóri sem lánaður var frá ráðuneytinu. Ferðinni var heitið til Lake Albert sem liggur við landamæri Kongó í vestri. Lake Albert er myndað af miklum sigdal á leið Nílar frá upphafi sínu við Viktoríuvatn á leið sinni til strandar Egyptalands, mörg þúsund mílum seinna og rúmlega km fallhæð. Ferðinni var heitið til að heimsækja nokkra löndunarstaði við vatnið og ennfremur til að ræða við svæðisstjóra fiskimála í nokkrum umdæmum (Districts) Úganda.
Ferðin hófst frá skrifstofu ICEIDA í Kampala og í fyrstu heitið til Fort Port sem er allstór bær suður af Albert vatninu. Við snæddum þar hádegisverð áður en haldið var á til löndunarstaðar í Bundibugyo umdæmi, sem liggur syðst við vatnið. Mikil umferð var meðfram veginum sem lá í fyrstu í gegnum ræktarhéruð,aðalega fyrir matarbanana. Konur báru byrðar sínar á höfðinu en karlmenn notuðu reiðhjól, mótorhjól eða bíla. Menn voru að flytja um 200 kg af bönunum á reiðhjóli um 30 km leið frá ræktunarstað í kaupstaðinn til að koma þeim á markað. Síðar var ekið eftir mjög slæmum vegi niður þrönga dali utan í bröttum fjöllum og veitti ekki af torfærubíl við þær aðstæður. Hinsvegar var með ólíkindum hvaða farartæki innfæddir notuðu við þessar aðstæður. Fólksbílar, rútur, vörubílar, mótorhjól, reiðhjól ásamt mergð af gangandi vegfarendum. Í fjöllunum fyrir ofan má sjá mikið af kofum og liðast reykur upp af sumum þeirra. Þarna býr fólk við algjöra einangrun við sjálfsþurftarbúskap og leggur leið sína aldrei niður í byggð. Börnin sækja ekki skóla og engin leggur leið sína um land þeirra, enda í bröttum fjöllum og samgöngur mjög erfiðar.
Þegar komið er niður á sléttuna, sem er gamall vatnsbotn, tekur við skógi vaxnar gresjur þar sem mikið dýralíf er enda um friðland að ræða. Þar má sjá buffalóa, antilópur, villisvín og barmbúar voru á þönum fram og til baka yfir akveginn, sem er öllu skárri þarna en í fjöllunum.
Eftir áhugaverða heimsókn á löndunarstaðinn var haldið til baka sömu leið til Fort Port sem var eini staðurinn á svæðinu þar sem hægt var að fá gistingu og kvöldmat. Það voru þreyttir og rykugir ferðalangar sem hvíldu lúin bein eftir 10 tíma ferðalag og átta tíma erfiða keyrslu.
Við héldum af stað í bítið morguninn eftir og nú var ferðinni heitið til Poyagota umdæmis að heimsækja umdæmisskrifstofu löndunarstaðarins frá því deginum áður er. Eftir fund með fiskimálastjóra og héraðsstjóranum var ekið aftur til Fort Port. Á leiðinn eru mjög slæmir hlykkjóttir vegir utan í bröttum hlíðum og komum við á áfangastað um tvöleytið og snæddum hádegisverð í Fort Port.
Á leiðinni um fjöllin tók ég eftir konu sem bar poka fullan af grjótmulning á bakinu, en var með beisli úr pokanum strengt yfir ennið til að bera hluta af þunganum með höfðinu. Með henni valhoppaði smákrakki en leiðin lá til bæjarins um þriggja km fjarlægð. Fljótlega komum við að námunni þar sem þrír menn með handverkfæri voru að mylja niður bergið. Einn braut stykki úr klettinum með slaghamar og fleyg, sá næsti muldi niður í hnullunga með hamri og sá þriðji muldi þá niður í fíngerðan mulning með hamri. Konurnar þeirra voru svo flutningatækin til að koma afurðinni á markað í þorpinu neðan við námuna. Miðað við holuna í klettinum, sem var hundruð rúmmetrar, hafði áratuga námuvinnsla átt sér stað þarna. Hér er um mjög ódýra afurð að ræða sem skilar einhverjum hundraðköllum á dag og með ólíkindum að fólk þurfi að leggja svona mikið erfiði á sig til að komast af.
Eftir hádegisverð í Fort Port var lagt af stað til Hoima, sem er höfuðstaður umdæmisins austur af Albert vatni. Nú var ekið þvert í gegnum regnskóg sem hefur fengið að vera óáreittur fyrir siðmenningunni. Nánast er ekið í gegnum trjágöng og sér ekki til sólar þar enda trén um tugi metra há. Síðan var ekið í gegnum te-plantekrur og var ólíkt þar um að litast miðað við það sem áður hafði borið við. Endalausar iðagrænar hæðir með te plöntum og allt í einu bar allt umhverfið merki um meiri velmegun íbúa. Húsakostir voru langt um betri og fólkið bar sig betur og greinilegt að það hafði einhverja peninga milli handanna. Börnin voru hrein og strokin og skólabyggingar reisulegar.
Við komum til Hoima seint um kvöldið og fundum ágæta gistingu og viðgjörning en nú var skollið á þrumuveður og við miðjan kvöldverðinn fór rafmagnið af. Það kom ekki að sök þar sem á þessum slóðum gera menn ráð fyrir því og innan tíðar var rafall kominn í gang og ljósatýran kviknaði á ný. En rétt á meðan var myrkrið svo svart að ekki sá handaskil og hefði verið erfiðleikum bundið að komast í koju við þær aðstæður.
Í Hoima er eitt af þremur konungsríkjum Úganda. En ólíkt tveimur kollegum sínum, sem búa í Kampala, hefur konungurinn í Hoima litlar tekjur. Land er verðlítið á svæðinu og vonlaust mál að leggja skatt á þegnana þar sem eru bláfátækir. Það er þó huggun harmi gegn að kóngurinn á hauk í horni, hinn gríðar öfluga arabahöfðinga Gaddafi Lýdíuleiðtoga. Slúðrið í blöðum hér segir að Gaddafi sé ásfangin af konungsmóðurinni og hefur látið konungsdæmið njóta góðs af þeim tengslum, meðal annars byggt nýja og glæsilega konungshöll í Hoima. Reyndar þráir Gaddafi að láta blátt blóð streyma um æðar sínar en þar dugir viljinn ekki fyrir verkið, enda taka konungar vald sitt frá guði. Gaddafi hefur þó reynt að festa við sig að vera kallaður konungur konunganna, en þrátt fyrir að vera leiðtogi Afríkusambandsins dugar það ekki til.
Í bítið morguninn eftir heimsóttum við fiskimálastjóra héraðsins og yfirmann hans umdæmisstjóra Hoima. Þeir hafa aðstöðu í hluta gömlu hallarinnar sem svæðisstjórnin leigir af konungsdæminu. Eftir stuttan fund með þeim var haldið til löndunarstaðarins Butiaba og með í för var fiskimálastjórinn. Þangað liggur góður vegur sem lagður var að olíufyrirtæki en miklar olíulindir hafa fundist á austurströnd Alberts vatns. Þetta var rúmlega hundrað kílómetra leið í gegnum skógargresjur þar sem víða mátti grilla í frumstæða þorp með strákofum. Löndunarstaðurinn sjálfur var frekar óaðlaðandi með leirkofum með bárujárns þökum. Okkur var sagt að áður en vegurinn var byggður fyrir olíuleitina, fyrir nokkrum árum, þurftu fiskimennirnir að bera aflann upp á sléttuna ofan við vatnið, um 25 km leið þar sem við tók við lélegur vegur til Hoima.
Eftir fund með yfirmönnum löndunarstaðarins var haldið á annan löndunarstað, Buliisa, sem er allstórt þorp með strákofum. Öllu meira aðlaðandi en fyrri staðurinn og virtist töluvert um að vera í þorpinu. Þarna voru starfrækt, í strákofum, hótel, barir, veitingastaðir og hárgreiðslustaðir. Íbúarnir verka töluvert af afla sínum með því að þurrka eða reykja, og selja á markaði við suðurströnd vatnsins. Mikið að þessari framleiðslu er síðan flutt á markað í Súdan.
Okkur var sagt að meirihluti íbúa væru flóttamenn frá Kongó. Ekki voru menn hrifnir af nýbúunum enda fólk með ólíkt tungumál og menningu. Kongómennirnir þykja harðir í horn að taka og höfðu hálfdrepið veiðieftirlitsmann fyrir skömmu. Veiðarfæri fiskimanns frá Kongó voru tekin eignarnámi enda ólögleg og var hann mjög ósáttur við gerninginn. Hann hafði hótað eftirlitsmanninum en ekki haft árangur sem erfiði. Hann tók sér því sveðju í hönd og réðist að eftirlitsmanninum með því markmiði að gera hann höfðinu styttri. Veiðieftirlitsmaðurnn gat borið höndina fyrir sig og fór sveðjan á kaf en næsta högg hitti hann í bakið. Árásarmaðurinn, sem þóttist viss um að hann hefði náð markmiði sínu, hljóp niður að vatni og um borð í bát og hvarf út í nóttina. Hann hefur sjálfsagt róið yfir vatnið til Kongó og hefur ekkert af honum spurst. Eftirlitsmaðurinn lifði árásina af en er örkumlaður til æviloka.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.2.2009 | 05:33
Lagt í frumskóginn.
Enn er óboðni gesturinn að hlaupa um á kvöldin hér í Bugalobi. En tilboð er komið frá Swartzenagger upp á 3.000 krónur um að eyða henni. Hann er sem sagt búinn að koma á staðinn til að kanna hvaða tegund þetta er. Fara aftur á skrifstofuna og útbúa tilboð, sem hann afhenti hér í eigin persónu í gær, mánudag.
En nú verður lagt af stað í ferð um Úganda þar sem héraðastjórnir og löndunarstaðir við Lake Albert verða heimsóttar. Við förum tveir ásamt bílstjóra. Á meðan gleymir maður þrasinu heima á Íslandi sem sjaldnast víkur úr huga enda áhyggjur af ástandinu heima á Íslandi miklar. Ekki síst í allri þeirri óvissu sem hagkerfi heimsins er í. Það er langt frá því að Íslendingar séu einir á báti í baslinu.
16.2.2009 | 10:33
Þórðargleði
Það er ekki laust við Þórðargleði hjá bloggar við lestur pistils Eiðs Guðnasonar. Ólafur Ragnar hefur allat tíð verið ómögulegur forseti og hefur brugðist þeim megin kröfum til embættisins að halda sér utan við pólitík og vera samningartákn þjóðarinnar.
Hann ber mikla ábyrgð á bankahruninu með því að gangast undir útrásarvíkingum, greiða götu þeirra og mæra þá í alla staði meðan þeir fóru hamförum, Íslandi til gríðarlegs tjóns. Hann neitaði að skrifa undir fjölmiðlalögin sem eflaust skiptu miklu máli í þróun mála í Íslensku hagkerfi.
Ég skil ekki í hörðum torfasonum að fara ekki til Bessastaða og mótmæla! Berja potta og pönnur og krefjast þess að einn af örlagavöldum í bankahruninu, forsetinn, segi af sér og boðað verði til kosninga. Hann hefur þegar orðið þjóð sinni til háborinnar skammar og eykur á ógæfu landsmanna.
Á svig við sannleikann | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.2.2009 | 10:40
Lífið í Afríku
Staðgreiðsla er málið í Afríku. Þannig er innheimta reikninga nánast óþekkt fyrirbrigði. Kannski vesturlandabúar gætu lært svolítið af Afríkumönnum hvað það varðar og ástandið væri skárra ef menn hefðu ekki skuldsett sig, eins og raunin er t.d. heima á Íslandi.
Það eru allir með farsíma hér. Ekki skiptir máli þó menn séu blá-fátækir, þeir eiga farsíma. Mikið er um innflutning á notuðum símum frá vesturlöndum sem seldir eru ódýrt hér. Víða má sjá viðgerðarverkstæði fyrir farsíma, en þeim er ekki hent þó eitthvað bili í þeim. Kostnaðurinn við að nota símana er lítill og reyndar nota heimamenn mikið SMS og viðhafa sér tungumál til að koma skilaboðum áfram í slíkum skeytum. En eingöngu eru notuð fyrirfram greidd símakort þannig að ekki þarf að rukka símtölin.
Gott dæmi um staðgreiðslu er þegar ég óskaði eftir Terminator til að útrýma óboðnum gesti í húsin mínu í Bugalobi. Ég hélt að verkið hefði verið unnið í gær og ég yrði því maður einsamall í nótt sem leið. En í morgun þegar ég var að fá mér morgunverð sá ég brúnku skjótast undan stáss skápnum og inn í eldhús. Ég hrindi því í Swartsenagger og spurði hverju þetta sætti. En hann hafði einmitt komið heim í gærdag, og taldi ég víst að hann hefði tekið ljáinn með sér.
Nei hann kom til að skoða hvaða tegund þetta væri. Hvort um músatuttlu væri að ræða eða rottu. Síðan fór hann í höfuðstöðvarnar og gerði áætlun um eyðingarkostnað, em ég þarf að greiða áður en hafist er handa. Hér eru ekki stunduð lánaviðskipti og því þarf að staðgreiða.
Rétt er að bæta því við að Swartsenagger hefur áður unnið fyrir mig. Þá var gríðarlegur gaurargangur á háaloftinu hjá mér allar nætur. Ef þetta voru rottur þá væru þær varlega áætlað fimm kíló hver. En þetta reyndust vera leðurblökur sem slá niður vængjunum þegar þær flögruðu yfir gólfið á háaloftinu. Það var bísna gott að losna við þann félagsskap.
12.2.2009 | 12:37
Tíðindalítið á norðurslóðum
Séð héðan frá miðbaug virðist allt með kyrrum kjörum norður undir heimskautsbaug. Tiltölulega átakalítið nema nokkrir herðir torfasynir hrella Davíð í Seðlabankanum.
Héðan er allt gott að frétta. Það er regntími og hann slettir úr sér annað slagið, venjulega einu sinni á dag í svona hálftíma. Þess á milli sól og blíða. Einu tíðindin eru að það fjölgaði í heimili hjá bloggara en lítil mús hefur verið að trítla um á kvöldin. Það var ekkert annað að gera en kalla til Terminator sem vonandi verður búinn að vinna sitt verk þegar heim er komið í kvöld. Það verður í seinna lagi þar sem golfið bíður eftir vinnu.
Ekki hefur orðið vart við neina herði torfa hér um slóðir, nema stórir hópar fara um miðborgina með lúðrablæstri og trommum. Einhver skilti eru með í för en ekki vitað hvað á þeim stendur. Kreppan er ennþá víðsfjarri Afríku, en það gæti verið svikalogn.
10.2.2009 | 18:15
The Bessastada farmer
Bessastaðabóndinn hann bullar mikið núna
Hann er að verða vitlaus því vitið vantar í frúna
Það gerir ekkert til það gerir ekkert til
Þau fara á skíði um miðvetrarbil
10.2.2009 | 10:21
Bessastaðabullarinn
Þetta fer að verða pínlegt fyrir Íslendinga. Það er farið að fjúka í flest skjól og ástandið fer sí-versnandi. Bessastaðakóngurinn bullandi við erlend glanstímarit og viðskiptablöð, um málefni sem koma embætti hans ekkert við. Davíð kóngur neitar að yfirgefa Seðlabankann, þrátt fyrir að traust bankans innan- sem utanlands sé við frostmark. Stjórnvöld opna gluggann til að heyra hvað skríllinn á götunni vilji gera og virðast ekki hafa sjálfstæða skoðun og alls ekki geta tekið skynsamlegar ákvarðanir.
Allt vekur þetta athygli erlendis og enn eykst vantraust á efnahagsmálum Íslendinga. Er Íslendingum alls varnað?
Þjóðverjar fái engar bætur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.2.2009 | 05:21
Diana Wallis og ESB
Diana Wallis er mikill Íslandsvinur. Bloggari hefur átt með henni fund og lesið það sem hún hefur skrifað um ESB og hugsanlega aðild Íslands að sambandinu.
Það er hinsvegar ömurlegt að fylgjast með fólki sem tekur þátt í þessari umræðu með fordómum, upphrópunum og frösum. Málið er allt of mikilvægt fyrir Íslendinga til að kasta þannig til höndunum um þetta málefni. Allir ættu að geta kynnt sér málið að einhverju ráði en ekki láta mata sig með einhliða áróðri til að þjónkast þröngum hagsmunahópum.
Diana Wallis er fullviss um að Íslendingar myndu ná ásættanlegri lendingu í samningum um sjávarútvegsmál. Einnig myndu þeir við inngöngu skapa sér leiðtogahlutverk innan ESB á því sviði. Enda myndu þeir verða lang-stærsta fiskveiðiþjóðin innan Sambandsins, en Danir númer tvö.
Á þessari síðu er grein þar sem möguleikum á samningum í sjárútvegsmálum er lýst með góðum rökum. Reyndar var sú grein sett inn á Evrópuvef Sjálfstæðisflokksins og þar þurfti að rökstyðja enn frekar það sem fram var sett. En menn geta ekki búist við að leiðtogar ESB gefi Íslendingum fyrirfram loforð, áður en þeir sækja um. Þannig ganga kaupin ekki fyrir sig á eyrinni.
Málið snýst um að Íslenska þjóðin búi við efnahagslegt öryggi í góðum samskiptum við viðskiptaþjóðir sínar (75% er innan EES), samstíga þeim þjóðum sem deila með okkur gildum og menningu.
Styður aðildarumsókn Íslands | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
9.2.2009 | 13:01
Birtir yfir Bessastöðum
Stórskemmtileg frásögn er af viðtali Bessastaðarbóndans og spúsu hans við Franskt glanstímarit birtist á visi.is í dag. Þar kemur fram að húsfreyjan á Bessastöðum var fyrir löngu búin að gera sér grein fyrir efnahagaástandi þjóðarinnar. Sennilega meinti hún ekkert með að ,,Ísland væri stórasta land í heimi" Hún hefur sennilega ætlað að segja ,,skuldir Íslands eru stórastar í heimi"
Þetta er mjög skemmtileg umfjöllun en reyndar lenda þau hjónin í nokkrum átökum sín á milli í viðtalinu. Ólafur marg- reynir að fá konu sína til að tala varlega og biðlar til blaðamanns að birta ekki það sem hún er að segja. Hún segir að svo mikið sé af húsum á Íslandi að engin hætta sé á að einhverjir missi heimili sín. Færi sig bara yfir i næsta hús, enda sé allt fullt af tómum húsum. Nú og þeir sem eigi ekki fyrir brauði geti bara borðað kökur. Það þarf svona lausnir í dag.
Kannski þessi aðalþjóðlega hefðarkona gæti verið svona nokkurskonar ,,Guiding light" okkar Íslendinga. Hún er greinilega mjög vel að sér í hagfræði og reyndar mjög vel tengt alþjóðlega. Ef til vill gæti hún tekið yfir í Seðlabankanum. Ekki bara að hún drekki te með Mrs. Brown í Bretlandi heldur er hún beintengt inn í innsta kerfi Alþjóðlega gjaldeyrissjóðsins. Hringdi reyndar þegar 2005 til að biðja um hjálp fyrir þessa vesalings þjóð sem ekki kann fótum sínum forráð.
En spurningin sem vaknar er af hverju hún útskýrði ekki málin fyrir bónda sínum sem var fram að hruni haustið 2008, aðal aflvaki útrásarvíkinga og sá um tengslanet þeirra erlendis. Fremstur meðal jafninga í útrásinni og engin sporgöngumaður í þeim efnum.
Það birtir yfir Íslandi þegar ljósið skín af Bessastöðum (guiding light) og einu áhyggjur bloggara eru vinir hans við Skerjafjörð, að þau fái ofbirtu í augun við ósköpin.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
6.2.2009 | 14:59
Enn um Davíð konung
Sjálfstæðismenn verða að láta af pólitísku þrasi um Davíð Oddsson. Þetta er að stór skaða flokkinn og virðast flestir aðrir en forystumenn flokksins koma auga á þá staðreynd. Sjálfstæðismenn fengu tækifæri í rúma hundrað daga til að láta til sín taka og segja af bankastjórn SÍ sem hafði gert stærri mistök í peningamálastjórnun en hægt var að sætta sig við. Til viðbótar var formaður bankastjórnar með endalausar pólitískar yfirlýsingar sem hæfði engan vegin hans stöðu og var eitt og sér nægjanlegt til að láta hann fara. Traust bankans hafði beðið skipsbrot og engin vettlingatök dugðu til að endurreisa það.
Þess í stað lýsti fyrrverandi forsætisráðherra margoft yfir stuðningi við Davíð, sem því miður er orðin tákngerfingur fyrir bankahrunið. Það er ein megin ástæðan, ásamt því að vilja ekki bera ábyrgð á hruninu, fyrir því að Sjálfstæðismenn eru nú utan ríkisstjórnar. Aldrei hefur þjóðin þurft jafn mikið á styrkri stjórn að halda og óskiljanlegt hvernig flokkforystan hefur forgansraðað í þessum málum.
Forysta Sjálfstæðisflokksins ætti að líta vestur yfir haf til BNA og taka Obama sér til fyrirmyndar. Nýbakaður forseti hikar ekki við að taka ábyrgð á mistökum sem honum og hans mönnum verður á. Hann tekur af allan vafa og segir hreint út ,,ég klúðraði málunum"
Þetta leggst vel í Bandaríkjamenn og þeir treysta honum fyrir vikið.
Það er löngu komið nóg af stuðningi forystu Sjálfstæðisflokksins við Davíð Oddsson. Það sjá allir í gegnum þetta og ekki hægt að slá ryki í augu almennings. Davíð var góður forsætisráðherra og kom mörgum mikilvægum breytingum á í okkar samfélagi. En það er algerlega á hans ábyrgð hvernig er komið fyrir honum. Bréfið frá Jóhönnu Sigurðar er vel orðað og ekkert við það að athuga. Þetta er ekki pólitískt einelti.
5.2.2009 | 05:18
Mein-Baugur á íslenskum hagsmunum
Glitnir gjaldfellir lán Baugs | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
4.2.2009 | 10:25
Hvalveiðar
Ítarleg umfjöllun var um hvalveiðar Japana í BBC í gærkvöldi. Umfjöllunin var að sjálfsögðu ekki hlutlaus þar sem BBC hefur markað sér ákveðna stefnu gegn hvalveiðum. Ekki var leitað sjónarmiða Japana en langt viðtal við forkólf andstæðinga hvalveiða.
Hann sagði að hvalir suðurhafa séu eign þeirra þjóða sem að þeim liggja og Japanir séu þeir einu sem vilji stunda veiðar. Aðrar þjóðir kjósi að leyfa dýrunum að synda frjálsum um höfin og alls ekki að veiða þau. Farið var löngu máli um þá ,,fáránlegu" afstöðu Japana að veiðarnar væru í vísindaskyni, enda vissu menn allt um hvali í dag og engu við þá þekkingu að bæta. Hvort eða væri fengist engin vitneskja frá dauðum hvölum og því væri um fyrirslátt að ræða. Japönum var lýst sem villimönnum vegna hvalveiða sem ekki væri hægt að stunda mannúðlega og hefðu ekkert með matvælaöflun að gera.
En þar liggur einmitt hundurinn grafinn. Mikilvægi hvalkjöts fyrir þjóðina er mikið og snerta grunnhagsmuni. Japan er tiltölulega lítið land með 200 milljón íbúa og takmarkað ræktunarland fyrir allan þann fjölda. Þeir líta á hvalveiðar sem mikilvæga þjóðarhagsmuni og þrátt fyrir að matvælaöryggi hafi ekki verið forgangsatriði undanfarin 50 ár, þá geti það breyst. Miklir óvissutímar eru framundan sem ógni þjóð eins og Japönum sem þurfa að treysta á innflutning matvæla og hvalkjötið gæti því skipt miklu máli. Svona líkt og sumir hafa litið á sauðkindina fyrir Íslendinga.
Íslendingar þurfa að taka saman hugsanlegar hvalveiðar sínar í framtíðinni. Áætla t.d. hundrað hrefnur og 20 stórhvali sem veidd væru árlega. Reikna út hvað þessar veiðar legðu til landsframleiðslu þjóðarinnar og núvirðisreikna langt fram í tímann. Ef horft er nægilega langt til framtíðar gæti þessi upphæð orðið stjarnfræðilega há.
Ef við sækjum síðan um inngöngu í ESB, en bloggari sér enga aðra raunhæfa leið fyrir Íslendinga, og krafa Sambandsins væri að landinn legði niður hvalveiðar, þá væri hægt að benda á útreikninga á tilleggi hvalveiða til landsframleiðslu. Síðan að setja fram þau rök að um sameiginleg ákvörðun ESB ríkja sé að ræða og því væri sanngjarnt að aðildarþjóðir skiptu með sér kostnaðinum við hvalveiðibanni.
Fyrir vesalings fólkið í ESB, sérstaklega Bretar og Hollendingar, sem ekki hafa náð góðum nætursvefni í áraraðir út af þeim barbarisma sem hvalveiðar eru, væri greiðsla á 200 til 300 milljörðum króna, smá upphæð. Enda myndi hún deilast niður á rúmlega 300 milljónir manna. Lítið réttlæti væri hinsvegar að láta minnstu þjóð ESB bera kostnaðinn af því að skapa vellíðan og góða samvisku fyrir allan fjöldann. Þá gætum við sagt eins og Churchill forðum: ,,aldrei hafa jafn fáir gert jafn mikið fyrir jafn marga"
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Gunnar Þórðarson
Tenglar
Hallgrímur bláskór 2012
- Gengiðr úr Hornvík í Kjaransvík
- Kjaransvík - Sæból
- GEngið á Ryt og Darra
- Gengið á Straumnesfjall
- Gengið á brúnir Grænuhlíðar
Smölun í Austurdal
- Austurdalur -2010 Dagur 1 Smölun í hinum ægifargra Austurdal suður af Skagafirði
- Austurdalur - 2010 Dagur 2 Annar dagur smalamensku í Austurdal í Skagafirði
- Austurdalur -2010 Dagur 3 Lokadagur smölunar fyrir Austudalsfélagið í Skagafirði
- Föstudagur 2011 Smalaferð Göngumannafélags Austurdals í september 2011
- Laugardagur í Austurdal 2011 Smalaferð Göngumannafélags Austurdals í september 2011
- Sunnurdagur í Austurdal - 2011 Smalaferð Göngumannafélags Austurdals í september 2011
- Mánudagur 2011 Smalaferð Göngumannafélags Austurdals í september 2011
Skútukaupin 1976
Við félagarir, undirritarðu, Jón Grímsson og Hjalti Þrórðarson keyptum skútu í Bretlandi og sigldum henni heim til Íslands
- Kafli 1 - Skútukaupin undirbúin
- Kafli 2 - England
- Kafli 3 - lagt í siglinguna miklu
- Kafli 4 - Captain Thordarson
- Kafli 5 - Siglt í norður
- Kafli 6 - Færeyjar - Ísland
- Kafli 7 - Siglt til Ísafjarðar
Ísrael 1974
Sagt frá ævintýri okkar Stínu, Nonna Gríms og Hjalta Bróður þegar við ókum yfir Evrópu 1974. Fórum frá Aþenu til ísrael og unnum þar á samyrkjubúi.
- Kafli 1 - Mótorhjólagengið
- Kafli 2 - Júgóslavía, Grikkland og Ísrael
- Kafli 3 - Á kibbutz undir Gólanhæðum
- Kafli 4 - Í kjölfar árásarinnar
- Kafli 6 - Maðurinn með ljáinn
- Kafli 5 - Endurfundir
- Kafli 7 - Frá rauðu ljósi í Milanó
- Kafli 8 - Fjölskyldu og varnarmál
- Kafli 9 - Vinna í Elat
- Kafli 10 - Daglegt líf á Shamir
- Kafli 11 - Til Grikklands
- Kafli 12 - Sögulok í London
Að Fjallabaki 2012
Suður um höfin 1979
Frá ferðalagi okkar Stínu á seglskútunni Bonny frá Ísafirði til Mallorca í Miðjarðarhafi
Sigling frá Mallorka til Grikklands
- Kafli 1 - lagt af stað til Ítalíu Fimm félagar sigldu Bonny frá Spánar til Grikklands
- Kafli 2 - Sikiley og Grikkland
- Kafli 3 - Kea og Paros
- Kafli 4 - Santorini
Safaríferð í Úganda
- Ferð til Murchison Falls - fyrri hluti Safaríferð inn í frumskóg Úganda
- Ferð til Murchison Falls - seinni hluti
Hálendisferð 2010
- Gengið á Fimmvörðuháls Eldstöðvar Fimmvörðuháls skoðaðar
- Skaftafell og Kristínartindar Gengið á Kristínartinda
- Gengið á Mælifell Ekið Fjallabak syðra norður fyrir Mýrdalsjökul
- Friðland að Fjallabaki Gengið um við Landmannalaugar
- Gengið á Löðmund Gengið á Löðmund við Dómadal
- Gengið á Snæfell Gengið á hæsta fjall Íslands utan jökla, Snæfell
- Gengið í Geldingarfell Ferð um Lónsörævi með frábærum hópi, sumarið 2010
- Gengið í Egilssel Gengið úr Geldingafelli í Egilssel við Lónsöræfi
- Gengið niður Lónsöræfi Þriggja daga göngu norðan og austan Vatnajökuls lokið
Sri Lanka 2007
- Sri Lanka 2006-2008 Starfað á Sri Lanka
Bloggvinir
- astromix
- ekg
- stefanbjarnason
- golli
- vikari
- gunnarpetur
- vestfirdir
- gudni-is
- ea
- ladyelin
- gp
- altice
- hjolaferd
- kaffi
- komediuleikhusid
- rabelai
- ziggi
- huldumenn
- helgi-sigmunds
- sigrunzanz
- hordurhalldorsson
- baldher
- hjaltisig
- lotta
- kjarri
- bjarnimax
- jovinsson
- smjattpatti
- eirmor
- vefritid
- saemi7
- siggisig
- maggij
- lehamzdr
- contact
- gauisig
- jonvalurjensson
- thjodarskutan
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (4.2.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 19
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 7
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar