6.4.2009 | 10:36
Kvótakerfið
Hér verður gerð tilraun til að koma af stað upplýsandi umræðum um kvótakerfið. Í fyrsta lagi að einangra það frá örðum þáttum fiskveiðistjórnunar sem er mjög mikilvægt til að missa umræðuna ekki út um víðan völl og blanda öllu saman í óskiljanlegan graut.
Rótin að kvótakerfinu er gengdarlaust tap útgerðarinnar í lok sjöunda áratugarins og í upphafi þess áttunda. Ljóst var að flotinn var allt of stór miðað við afrakstur fiskistofna og mikilvægasta verkefni íslensk fiskiðnaðar var að draga úr sóknargetu flotans til að skapa arð af veiðunum. Það er rétt að undirstrika að markmiðið var einmitt að bæta framleiðni fiskveiða en hvorki byggðarstefna né uppbygging fiskistofna.
Í þessu sambandi verða menn að átta sig á þeirri staðreynd að með minnkun á sóknargetu er ekki eingöngu talað um skip og búnað, heldur var mikilvægt að fækka sjómönnum líka. Nota minni flota og færri sjómenn til að draga sömu verðmæti og áður að landi og þannig draga úr kostnaði við sókn með sömu heildartekjum. Í upphafi voru útgerðarmenn á móti kvótasetningu en snérust seinna á sveif með stjórnvöldum. Austfirðingar voru almennt hlynntir kvótanum en Vestfirðingar á móti. Til að auka skilvirkni og framleiðni kerfisins var farið út í að leyfa framsal eða leigu á kvóta milli fiskiskipa og taka þannig upp framseljanlegt kvótakerfi. Auðvelt er að kynna sér umræður á Alþingi um setningu kvótakerfisins til að staðfesta þessar fullyrðingar.
Fræðimenn eru flestir á því máli að framseljanlegir kvótar auki framleiðni og skapi fiskveiðiarð og hægt að benda á margar rannsóknir því til stuðnings. Mönnum hefur verið það lengi ljóst að opinn aðgangur að fiskimiðum leiðir til ofveiði og sóunar þar sem allt of stór floti er notaður og allar tekjur fara í kostnað. Þetta hefur oft verið kallað ,,raunir almenninga" og bændur sem deila beitilandi notaðir sem myndlíking fyrir því sem gerist. Þó vitað sé að ofbeit sé í dalnum þar sem fjórir bændur beita nautgripum sínum, telur hver um sig hagkvæmt að bæta nokkrum kálfum við, þó svo að það bitni á öllum þegar upp er staðið og allir tapa. Það má segja að þegar um endurnýjanlegar auðlindir er að ræða, eins og fiskistofna og beitiland, gengur algert frjálsræði ekki upp enda leiðir það til ofnýtingar.
Tekið er skýrt fram í stjórnarskrá að fiskveiðiauðlind Íslendinga sé sameign þjóðarinnar. Hinsvegar hefur sú leið verið farin að mynda eignarrétt á nýtingarréttinum, sem er mjög mikilvægt fyrir framleiðni kerfisins. Hver útgerðaraðili getur þannig selt kvóta eða leigt, ef hann telur það hagkvæmt til að stýra veiðum, meðal annars með tilliti til markaða. Nýtingarrétturinn er einmitt mikilvægur til að menn geti skipulagt sölu á afla langt fram í tímann og tryggt kaupendum örugga afhendingu árið um kring. Norsk rannsókn sem gerð var á Humber svæðinu 2005 sýndi einmitt að Íslendingar höfðu nánast yfirtekið þennan mikilvæga markað með fisk og haft Norðmenn algerlega undir í samkeppninni. Greinilega kom fram að fiskkaupendur töldu kvótakerfi Íslendinga vera mikilvægan áhrifaþátt í þessum viðskiptum en Norðmenn veiddu með dagakerfi. Þar sem íslenski útgerðarmaðurinn gat samhæft veiðar og sölu á fiski, langt fram í tímann, gat hann náð hámarks verðmætum á markaði. Kaupendur voru almennt á því máli að gæði Íslenska fisksins væri betri en þess norska. Eignaréttur á nýtingu skiptir þar sköpum en Norðmennirnir veiddu eins og þeir máttu meðan opið var fyrir veiðar og ofmettuðu markaði og síðan var engin afhending um langan tíma.
Nú eru uppi hugmyndir um að afnema kvótakerfið á Íslandi. Ríkið fari svokallaða fyrningarleið og taki 5% af kvótanum árlega í tuttugu ár. Þeir sem fyrir þessu tala telja þarna gefin ríflegan aðlögunartíma og allir geti því vel við unað. En hér er rétt að staldra við. Hvað á að taka við? Ríkið gæti leigt kvótann og hirt þannig fiskveiðiarðinn beint og deilt honum út til þjóðarinnar. Sumir hafa bent á að hægt væri að leggja niður beina skatta, þar sem tekjur ríkisins af kvótaleigu væri svo góð að hún dygði til að koma þar í staðinn. Þetta er nærri því of gott til að vera satt!
Málið er ekki svona einfalt. Stjórnmálamenn eru ekki best til þess fallnir að útdeila gæðum og hætt við að þeir noti ,,réttlæti" en ekki hagkvæmni í ákvörðunum sínum. Nú vantar kvóta á Langanesi eða Vestfjörðum og þá er leigt þangað frekar en annað, hvað sem hagkvæmni við kemur. Þó sumum finnist ,,markaðurinn" oft grimmur er hann mun réttlátari en misvitrir stjórnmálamenn sem stjórnast oft af öðru en hámarka hagnað og hagkvæmni. Stjórnmálamaðurinn getur ekki séð fyrir þarfir markað eða kaupenda á hverjum tíma þegar hann tekur sína ákvörðun um hver eigi að fá kvóta og hver ekki. Það verður alltaf þörf á að takmarka aðgang að auðlindinni og ákveða hver má veiða og hver ekki.
Hér er gert ráð fyrir að núverandi ríkisstjórn hafi þessa aðferð í huga en ekki að setja á dagakerfi, sem kosta mun fullkomna sóun í fiskveiðum. En fyrst tekur steininn úr þegar talað er um að opna kerfið og leyfa öllum að veiða eins og þeir vilja. Nóg er af fyrirmyndum af slíku kerfi og þarf ekki djúpar rannsóknir til að sjá hvert það leiðir. En til hvers á að breyta kerfi sem reynst hefur vel og virðist skila góðri arðsemi? Arði sem dreifsit með ásættanlegum hætti og skilar sjómönnum góðum kjörum og viðunandi aðbúnaði. Fyrir því þurfa að liggja sterk rök og ekki nóg að benda á umræðuna í þjóðfélaginu. Ef það er umræðan í þjóðfélaginu sem á að ráða för verður hún að vera byggð á rökum og staðreyndum en ekki tilfinningum einum saman eða lýðskrumi.
Hér með er skorað á menn að takast á með slíkum hætti. Ég vil endurtaka orð mín í upphafi um að menn tali um einn hlut í einu. Einangra umræðuna um kvótakerfið og halda aðskildu öðrum þáttum fiskveiðikerfisins, eins og ákvörðun um veiðiráðgjöf, almennum reglum um veiðar, fiskveiðieftirliti o.s.f.
6.4.2009 | 05:14
Ótrúlegt
Ég trúi því ekki fyrr en á reynir að Fogh byðji Tyrki afsökunar á lýðræði og prentfrelsi í Danmörku. Við eigum aldrei að biðja Múslima afsökunar á lýðréttindum og þeim gildum sem við stöndum fyrir.
Hinsvegar hafa Tyrkir sýnt með þessari ómerkilegu uppákomu að þeim er ekki treystandi í samfélagi Evrópuþjóða og margir munu átta sig á að innganga þeirra í ESB væri stór slys. Meðferð múslima á t.d. konum er algerlega óréttlætanlegt. Heiðursmorð eru algeng í Tyrklandi enda ná lög og regla til stærstu borga landsins, en megin hluti þess býr við villimennsku.
Vesturlönd hafa ekki staðið nógu þétt að baki Dönum í þessu teikningamáli. Að trúa því að því meira sem við gefum eftir í kröfugerðum þeirra, verði þeir betri og ekki eins hættulegir, er alger vitleysa. Tilgangur múslimista er mikilvægari en svo og eftirgjöf gefur þeim bara aukin kraft til að ganga lengra. Við gefum aldrei eftir mannréttindi og lýðfrelsi til að þóknast afturhaldsöflum og byðjumst aldre asökunar á sjálfsögðum lýrðréttindum eins og ritfrelsi.
![]() |
Segja Fogh biðjast afsökunar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
4.4.2009 | 14:16
NATÓ
Rasmussen verður framkvæmdastjóri NATÓ og ljóst að þrýstingur frá ESB hefur komið í veg fyrir andstöðu Tyrkja. Fundurinn virðist hafa tekist frábærlega og mikil eining enkennir fundarlokin. NATÓ er hornsteinn vestrænnar menningar, lýðræðis og gildismats.
Það var mikið af Hörðum Torfasonum að mótmæla í Strassborg. Fréttaskýrandi taldi þetta aðallega vera hóp af stjórnleysingjum, kjarnorkuandstæðingum en sjá mátti marga þeirra veifa rússneska fánanaum.
Hér heima hefur þessi hópur verið undirdeild í Vinstri Grænum. Herðir Torfasynir sáu ástæðu til að mótmæla við Alþingishúsið vegna þess að þeir töldu að Sjálfstæðismenn væru með málþóf í þinginu. Sömu menn beitt fyrir sig lýðræði þegar þeir áttu stóran þátt í að koma ríkisstjórn frá völdum og töldu að endurreisa þyrfti alþingi og töluðu gegn ráðherravaldi. Nú ætlar minnihlutastjórn með aðstoð örflokks að keyra í gegn breytingar á stjórnarskrá án samráðs við stjórnarandstöðu sem er stílbrot í lýðræðishefð íslendinga í rúm fimmtíu ár. Þá sjá þessir Herðir ástæðu til að aðstoða ,,ráðherravaldið" til að kúga minnihluta á alþingi og telja nauðsynlegt að þagga niður í stjórnarandstöðunni. Það er nú bara verið að tala um stjórnarskrá lýðveldisins. Þeim finnst það algjört smámál og ekki þurfi að taka tíma þingsins til að ræða slík mál.
Stjórnarskrármálið er gott dæmi um algert lýðskrum þar sem engin ástæða er til að þvinga það í gegnum þingið nú. Það þarf hinsvegar að taka á efnahagsmálum og þjappa þjóðinni saman við uppbyggingu Íslands. Það þarf líka að gefa frambjóðendum tíma til að kynna framboð sín og ná sambandi við kjósendur fyrir kjördag. Ráðherrar minnihlutastjórnar tala hinsvegar um hvað þeir ætla að gera ÞEGAR þeir taka við eftir kosningar. Kannski eru þessar kosningar óþarfar. Það sé þegar búið að ákveða þetta og því þurfi ekki kosningabaráttu. Okkur kemur ekkert við hvað þeir eru að sýsla með IMF og Steingrímur J. snýr út úr þegar hann er spurður á formlegum fyrirspurnatíma þingsins.
Þetta eru vondir tímar þegar hávær skríll (Herðir Torfasynir) getur haft slík áhrif og skapað óvissu um lýðræði og stjórnarskrá þjóðarinnar. Þeir eru augljóslega á mála hjá öðrum stjórnarflokknum. Eins og í Strassborg eru þetta stjórnleysingar sem hika ekki við að beita ofbeldi málstað sínum til framdráttar og eru alls ekki talsmenn lýðræðis eða vestrænni menningu eða gildismats. Guð hjálpi Íslandi eftir kosningar þegar Framsóknarstopparinn verður ekki á þessari vondu ríkisstjórn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
4.4.2009 | 04:33
Íslamistar og Naívistar
Það er ljóst að Tyrkir eru að hegna Dönum fyrir Múhameðsteikningarnar. Ég ætla rétt að vona að Íslendingar standi fast við hlið vina sinna í þessu máli. Hjá NATÓ eru ákvarðanir venjulega teknar samhljóða og því geta Tyrkir stoppað Rasmussen í að verða næsti framkvæmdastjóri NATÓ.
Þetta mun hafa áhrif á óskir Tyrkja til að komast í ESB enda sýna þeir enn og aftur að þeir eiga ekki samleið með þróuðum lýðræðisþjóðum og virða grundvallar mannréttindi eins og ritfrelsi.
En bloggar vill aðeins minnast á annað í sambandi við NATÓ. Á Alþingi kom fram hjá þingmönnum að Íslendingar ættu að notafæra sér ársfundinn til að ræða um aðgerðir Breta í IceSave máli og beitingu hryðjuverkalaga. Ég vona að þeir verði ekki það heimskir að misnota NATÓ enn og aftur fyrir slík mál. Virðingarleysi landans fyrir varnar og öryggismálum hefur áður komið okkur illa og nú þurfum við síst á því að halda að tapa þeirri litlu virðingu sem við kunnum að njóta meðal bandalagsþjóða samtakana.
![]() |
Ekki samstaða um framkvæmdastjóra NATO |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
2.4.2009 | 10:22
Evrópudómstóllinn
Vonandi hefur Evrópudómstóllinn áhrif í Danmörku en ekki vegna veru þeirra í ESB. Það er mikilvægt að fjölmiðlar og álitsgjafar geri greinarmun á Evrópudómstólnum og dómstól Evrópusambandsins. Sá fyrrnefndi heyrir undir Evrópuráðið sem er alls óskylt ESB. Menn eru hinsvegar endalaust að rugla þessu saman. Annar dómstóllinn sker úr varðandi m.a. mannréttindamál en hinn sker úr deilumálum vegna löggjafar ESB.
![]() |
Efnahagsleg rök duga ekki til |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
30.3.2009 | 17:24
Frjálshyggja og Sjálfstæðisflokkurinn
Það er mikilvægt þegar fólk fæst við hugmyndafræði eða hugtök að það skilji hvað fjallað er um. Umræða um ,,Ný-frjálshyggju" og nú ,,harða frjálshyggju" er óttalegt bull þar sem fólk hengir sig í hugtök sem það skilur ekki til að nota til útskýringa á því sem miður hefur farið. Frelsi er aldrei vont en eins og gengur þarf alltaf lög og reglu og eftirlit. Ekkert í frjálshyggju mælir gegn því. Íbúi þarf að taka tillit til nágranna síns og samfélagið þarf að hugsa um þá sem minna mega sín.
En það er alvarlegt mál þegar formaður Sjálfstæðisflokksins skilur þetta ekki. Hann talar um harða frjálshyggju og nefnir sem dæmi að slík stefna komi í veg fyrir menntun almennings. Ég vil minna Bjarna Benidiktsson á að upphafsmaður frjálshyggju, Adam Smith, sagði að samfélagið hefði ekki efni á að mennta ekki fátæklinga. Þannig færi það á mis við hæfileika og mannauð.
Sjálfstæðisflokkurinn byggir á einstaklingsfrelsi og einkaframtaki. Bjarni Ben ætlar vonandi ekki að breyta því. Það er einmitt það sem við þurfum núna til að byggja okkur upp aftur. Sósíalismi mun aldrei gera það og hefur aldrei staðið undir auðlegð þjóða.
Það er líka vert að hugsa um að hagsveiflur eru eðlilegar þar sem maðurinn er ekki fullkominn. Sem betur fer. Sjálfur er ég alsæll með sumar breytingar sem kreppan hefur skapað, t.d. að tugur manna eigi Ísland. Það hefur ekkert með frjálshyggju að gera og ef eitthvað er, þá er það andstæða hennar.
Það er lágmarks krafa til þeirra sem fjalla um svona mál að þeir viti hvað þeir eru að tala um. Upphrópanir, frasar og lýðskrum er aldrei til góðs.
![]() |
Ekki hörð frjálshyggja |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
30.3.2009 | 12:32
Davíð kvaddur
Loksins er búið að reka afa gamla út af heimilinu og guð má vita hvar hann drepur niður fæti næst. Afi (Davíð Oddsson) hefur brotið og bramlað allt á heimilinu (Sjálfstæðiflokknum) undanfarin misseri og hafði einhvernvegin tök á húsbóndanum (Geir Haarde) að ekki var hægt að hrófla við honum. En svo í fermingaveislunni (Landsfundinum) hélt hann ræðu sem gekk fram af heimilisfólkinu og féll þar með í ónáð. Loksins er það öllum ljóst að afi er bara orðin ruglaður og tími kominn til að setja þau vandamál sem hann hefur skapað, aftur fyrir sig og takast á við framtíðina. Það sem fyllti mælinn voru dylgjur í garð vammlauss manns sem ekki hafði til annarra saka unnið en hafa deilt á aðferðir afa, þó á faglegan hátt.
Gamanlaust þá hefur enginn veitt Davíð og mislukkaðri peningamálastefnu meira aðhald en Vilhjálmur Egilsson. Ítrekað benti hann á þær afleiðingar sem hávaxtastefnan gæti haft og flest það ræst sem hann varaði við. Það var þó ekki fyrr en hann tók að sér formennsku í endurreisnarnefnd Sjálfstæðisflokksins og gaf út heiðarlega skýrslu um stjórnarsetu flokksins, sem steininn tók úr.
Það er virðingarvert af Geir Haarde að taka upp hanskann fyrir Vilhjálmi á landsfundinum og frábært að salurinn hafi tekið undir með lófaklappi og jafnvel risið úr sætum við orð fyrrverandi formanns. Það eru þung spor hjá fyrrverandi aðdáenda Davíðs sem stjórnmálamanns að setja þessar línur á blað. Og ömurlegt að farsæll stjórnmálamaður hafi lokið ferli sínum með þeim hætti sem raunin er.
28.3.2009 | 06:36
Kafli 4 - Santorini
Eftir frábæra dvöl á Paros héldum við Stína á ásamt Hafdísi til Santorini. Santorini er í rauninni leifar af einu öflugasta eldgosi sem vitað er um á jörðinni, fyrir um 3.600 árum. Talið að loftþrýstingur af þessu gríðarlega sprengigosi hafi farið tvo hringi um jörðina og flóðbylgjan eytt heilu samfélögunum. Reyndar hafa sumir haldið því fram að Atlantis hafi einmitt eyðst í þessu gosi og Rauðahafið hafi tæmst við gríðarlega flóðbylgjuna. Discovery Channel hefur valið Santorini fjórða merkilegasta eldfjall sögunnar.
Aðkoman að eyjunni er óvenju falleg. Bærinn hangir nánast eins og snjór í fjöllum, ofaná kletta rimina sem liggur austur af risastórum gígnum. Höfnin er undir bænum og vel gerð frá náttúrunnar hendi með gígbarmana nánast umleykis. Það eru þúsundir þrepa að fara ef ganga á frá höfninni upp í bæinn, en fyrir þá sem kjósa þægindi er hægt að taka lyftu í stað stigans.
Santorini er sennileg einn fallegasti staður í heimi og ótrúleg sýn að sjá kvöldsólina merla í Eyjahafinu og lýsa upp hvítkölkuð húsin á klettabrúninni. Við áttum þarna nokkra ógleymanlega daga áður en akkerum var létt og haldið til Ios og síðan til Naxos. Alltaf sama sterka sunnan áttin og freyddi á súðum á Bonny. Hafdís var eins og venjulega stillt og prúð á siglingu þannig að við Stína höfðum nægan tíma til að sinna vinnu okkar um borð. Sat í fötunni í stjórn-gryfjunni og þurfti bara að muna eftir að bæta sjó í reglulega.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
27.3.2009 | 11:01
Evran og Sjálfstæðisflokkurinn
Ef Sjálfstæðisflokkurinn, landsfundurinn, hefði samþykkt að taka Evrópumálin af dagskrá hefði verið rétt að leggja flokkinn niður í núverandi mynd. Það hefði þá verið hægt að stofna einhvern klúbb á rústunum. Ef flokkurinn ætlar ekki að taka upp vitræna og rökstudda umræðu um þessi mikilvægu pólitísku málefni, mun hann ekki flá feitan gölt í kosningunum.
Það er alveg rétt hjá Kristjáni Þór að einhliða upptaka evru er tálsýn. Það hafa allir séð sem horfa raunsætt á þessi mál. Ekki er hægt að notast við krónuna áfram, nema við sættum okkur við lakari lífskjör en gengur í löndunum í kringum okkur. Við getum notað krónu og verið utan ESB ef við ætlum að byggja á sjávarútveg og landbúnaði eins og framtíðarsýn eins frambjóðanda af NV lýsti í grein nýlega. En ef við viljum byggja á mannauð og þekkingu, þá verðum við að vera þátttakendur í samfélagi þjóðanna. Fyrrverandi forstjóri Marel lýsti því yfir á fundi í vikunni að stóru þekkingarfyrirtækin væru öll að hugsa sér til hreyfing frá Íslandi, ef þjóðin ætlar að standa utan ESB um ókomin ár.
Eins mikla virðingu og ég hef borið fyrir Birni Bjarnasyni veldur hans afstaða mér miklum vonbrigðum. Ekki bara að vera á móti umsókn, heldur rakaleysi og fullyrðingar hans um að við myndum afsala okkur fiskveiðaauðlindinni. Annað hvort veit Björn ekki betur eða þetta er argasta lýðskrum. Undirritaður hefur kynnt sér vel þessi mál og komist að því að vel má semja um fiskveiðimál við ESB. Þá á ég við án þess að sambandi breyti stofnsamþykktum sínum, sem það mun aldrei gera. Ég setti þetta fram, vel rökstutt á Evrópuvef Sjálfstæðisflokksins. Ekki minnist ég að Björn hafi verið á meðal margra sem gerðu athugasemdir við greininni. E.t.v. er hann yfir það hafin að ræða svona mál við óbreyttan Sjálfstæðismann.
Ég skora á minn gamla og góða stjórnmálaflokk að söðla um og hefja alvöru umræðu um þessi mál. Láta rökin ráða en ekki upphrópanir og lýðskrum. Þetta minnir svolítið á ,,kvótagreifa" umræðu Fjrálslynda fokksins, og þá er leiðum að líkjast.
![]() |
Evra ekki í sjónmáli næstu ár |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
25.3.2009 | 17:18
Ferðin til Murchison - seinni hluti

Á slaginu hálf sex vöknuðum við upp við að hellt var vatni í blikkdolluna fyrir morgun sturtuna. Dagurinn var tekin snemma enda dagskráin þétt þennan laugardag í frumskógi Úganda. Enn var svarta myrkur þegar við mættum til morgunverðar klukkan sex en við áttum að mæta til ferju sem flytja átti okkur yfir Níl klukkan sjö.
Ferjustæðið var í um tuttugu mínútna keyrslu frá gististaðnum og blóðrautt sólarlag litaði ánna og gaf tóninn fyrir frábæran dag. Á skrifstofu þjóðgarðsvarða var okkur sagt að leiðsögumaður byði okkur handan árinnar, hann héti Georg og þekkti garðinn eins og handabakið á sér.
Goggi var snaggaralegur karl á sextugsaldri og hafði starfað í garðinum í 37 ár. Hann minnti mig á persónu sem Peter Sellers lék í bíómyndinni "The Gardner", um mann sem hafði verið garðyrkjumaður í sama garðinum alla sína ævi þangað til hann kom loks út einn daginn og þekkti veröldina fyrir utan lítið. Goggi hafði örsjaldan komið til Kampala en hafði eytt stærsta hluta ævinnar í Murchison Falls þjóðgarðinum. Mjög greindur og skemmtilegur karl og þekkti dýrin og gróðurinn út og inn, en vissi lítið um hinn stóra heim fyrir utan. Vopnaður AK 47 Kalasnikov riffli til að verjast villidýrum og góðum kíki til að finna dýrin sem sýna átti okkur.
Við höfðum ekið skamman spöl þegar hjörð af gíröffum birtust og síðan tóku buffalóar, villisvín og alls kyns antilópur við. Mikið er að bavíönum, en þeir eru leiðinda dýr, ágeng sníkjudýr og kunna ýmis trix til að hrella mannskepnuna.
Það er ólýsanleg stemming að sjá öll þessi villtu dýr í sínu rétta umhverfi og hlusta á alla þekkinguna sem rann upp úr Gogga við aksturinn um þjóðgarðinn. Við leituðum lengi að ljónum og pardusdýrum, en án árangurs. Hinsvegar var gaman að fylgjast með hvernig Goggi notaði þekkingu sína á högum dýrana til að finna þau. Við sáum mikið af flóðhestum og hann sýndi okkur slóðirnar um skógin eftir þessi klunnalegu dýr, en þau leita matar á nóttinni en liggja síðan í vatninu yfir daginn. Við sáum fílahjarðir úr fjarska en Afríski fíllinn er ekkert gæludýr, líkt og frændi hans í Asíu.
Við ókum meðfram bökkum Nílar þar til við komum að ósasvæði árinnar þar sem hún rennur í Albert vatnið og þar stöðvuðum við bílinn nálægt þremur fílum. Hann þekkti þessi dýr og við stigum út og gengum í áttina að þeim. Mér fannst ég geta teygt mig í þá en óvenjulegt er að komast í slíkt návígi við Afríska fílinn. Einn þeirra var með hálfan rana þar sem hann hafði lent í dýraboga fyrir nokkrum árum og misst framan af honum. Engu að síður gat hann bjargað sér en raninn er fílnum mjög mikilvægur.
Við komum á ferjusvæðið um hádegisbilið þar sem við biðum fljótabátsins sem taka átti okkur upp ána að Murchinson fossum. Gistihúsið hafði búið okkur út með nestisbox fyrir hádegismat og sátum við á bekk við lendinguna til að njóta málsverðarins. Bavíanarnir voru kræfir og náðu að grípa hluta af nesti Stínu, en sem betur fer vorum við með myndavélina um hálsinn, en þeir stela slíkum gripum ef maður leggur þá frá sér. Bíllinn var læstur enda geta þeir hæglega opnað bílhurð.
Goggi var leiðsögumaður okkar upp ána en rúma tvo tíma tekur að sigla upp að fossum. Mikið var af vatnahestum, krókódílum og fílum á leiðinni, einnig er fuglalíf mikið við árbakkana. Ekki fór mikið fyrir fossunum, þó þér séu með þeim vatnsmestu í heimi með þúsund tonna rennsli á sekúndu, enda fjarlægðin frá endastöð bátsins í þá töluverð. Þetta voru ákveðin vonbrigði en við ákváðum að aka daginn eftir upp að þeim og skoða fossana betur. Siglingin niður Níl gekk vel enda straumurinn töluverður í ánni. Við tókum síðan ferjuna yfir fljótið og ókum sem leið lá til Nile Safari Lodge þar sem okkur beið nýveidd tilapia í kvöldmatinn.
Áður en við fórum á veitingastaðinn fengum við okkur Moet kampavín á svölunum og horfðum á kvöldsólina speglast í Níl. Við gleymdum reyndar tómri flöskunni á veröndinni og viti menn; hún var horfin þegar við komum til baka. Apakettirnir höfðu stolið henni en varð ekki kápan úr klæðinu að drekka innihaldið, enda höfðum við Stína séð um það.
Við komum að fossunum um ellefu leytið og fengum okkur göngutúr meðfram þessu mikla vatnsfalli sem er rúmlega tvöfalt vatnsmeiri en stærsta vatnsfall Íslands, Ölfusá.
Mér varð hugsað til Samuels Baker sem fann fossana 1864 og sló því föstu að þeir væru upptök Nílar og kom með þá vitneskju til Landafræðistofnunar Bretlands. Skýrði þá reyndar í höfuðið á forseta stofnunarinnar en vötnin við Níl bera nöfn úr konungsfjölskyldu Breta.
Ég skil ekki í Samma að hafa ekki rölt þessa fáu metra, 80m fallhæð, upp á brúnina til að sjá að Níl var hvergi lokið og teygði sig austur og suður í gegnum Lake Koyoga og alla leið til Jinja við Viktoríuvatn. Þar eru upptök þessa mikla vatnsfalls, sem reyndar er í mýflugumynd á þessum slóðum, miðað við það sem síðar verður eftir að hafa runnið í gegnum Súdan og Egyptaland.
En kannski var Samuel orðin þreyttur og uppgefinn eftir ferðalagið upp ána, en flóðhestur hafði hvolft bát hans rétt áður en komið var að fossunum. Áin morandi af þessum hættulegu skepnum ásamt krókódílum. Flóðhestar eru hættulegustu dýr Afríku, eða að minnsta kosti verða flestum mönnum að bana, en þeir geta bókstaflega klippt mann í sundur með risavöxnum skoltinum. Það er þó gert í sjálfsvörn enda eru þeir grasætur.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 26.3.2009 kl. 07:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.3.2009 | 08:28
Ferðin til Murchison Falls - fyrri hluti
Ferðin til Murchison Falls var stórkostleg í alla staði. Sprengdi væntingarskalann svo um munaði. Reyndar lentum við í smá basli í upphafi þar sem treyst var á GPS tæknina, en þjóðvegurinn á leiðarenda var nýr og ekki kominn inn á stafræna kortið. Það kostaði einhverja króka enda er merkingum verulega ábótavant í Úganda og oft erfitt að spyrja til vegar.
En inn í þjóðgarðinn rötuðum við og eftir smá ógöngur fundum við Nile Safari Logde og áður en við náðum að stíga út úr bílnum birtist þjónustustúlka sem kynnti sig og bauð okkur velkomin. Áður en við komum upp orði var þjónn mættur með blauta klúta svo við gætum þurrkað af okkur ferðarykið og þarna var komin forsmekkurinn af því sem koma skyldi í þjónustulund á þessum frábæra gististað.
Staðurinn lætur lítið yfirsér við fyrstu sýn og virðist vera röð af allstórum strákofum en þegar betur er gáð koma í ljós röð af gistiskálum sem minna óneitanlega á gamlar safarí bíómyndir. Manni bókstaflega verkjaði undan þjónustunni, svo góð var hún, með þjón við hvert fótmál sem tóku á móti okkur, buðu okkur velkomin og kynntu sig og þjónustu sína. Vertinn bauð okkur upp á hádegisverð, en við komum um hádegisbil eftir rúma fimm tíma ferðalag, og rétti okkur síðan matseðil kvöldsins og bauð okkur að velja það sem okkur hugnaðist. Annar kynnti sig sem húsþjón okkar og sagðist þurfa lykilinn þegar við færum í kvöldverð til að hafa allt klárt fyrir nóttina. Rafmagnið yrði tekið af kl. tíu og því aðeins um olíuluktir og og kerti eftir þann tíma. Næsti þjónn bar ábyrgð á að hafa vatn í sturtunni, sem var 20 lítra blikkfata hengd fyrir utan skálann og varin með steinhleðslu í kríng. Við báðum um kalda sturtu kl. 18:00 og nákvæmlega á mínútunni heyrðum við bjástrað við dolluna og vatni hellt á hana.
Sólarlagið þennan föstudagseftirmiðdag var ótrúlega fallegt og rauðleit birtan varpaði ævintýrablæ á allt umhverfið þar sem kvöldsólin speglaðist í Níl. Handan fljótsins mátti sjá hjörð af vatnahestum reka trýnið upp úr vatnsborðinu og fílahjörð þrammaði um skógi vaxnar gresjurnar.
Það var þó ekki fyrr en eftir kvöldmatinn og við sátum á svölum á skálans sem við vorum algerlega bergnumin yfir umhverfinu. Frumskógarhljóðin voru ótrúleg og allt virtist svo nálagt okkur, enda við stödd í miðjum frumskógi. Myrkrið var skollið á og fljótlega slökktum við á kertaljósinu og létum takmarkaða birtu stjarnana duga. Við sáum apaketti sveifla sér í trjágreinunum og hljóðið í vatnahestunum var eins og þeir væru innan seilingar. Þeir rumdu og maður heyrði frussið þegar þeir blésu frá sér loftinu við komuna upp á yfirborðið. Heyra mátti í alls kyns skordýrum og vantaði bara öskur í svöngu ljóni. Þetta var ólýsanleg upplifun og nálægð frumskógarins yfirþyrmandi.
Skálinn var reyndar þak með flugnaneti allan hringinn og því lék blærinn um rúmið sem stóð á miðju gólfinu. Við hlustuðum á froska kallast á þar sem karlinn var neðar í ánni en kerlingin ofar. Hann með djúpt kvakið og hún með hærri tón. Þau kölluðust sífellt á og maður heyrði hvernig bilið á milli þeirra minnkaði og um það leiti sem svefninn tók völdin komu hljóðin úr sömu átt, beint undir svölunum hjá okkur. Þau höfðu fundið hvort annað.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 25.3.2009 kl. 17:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.3.2009 | 06:28
Útslit prófkjörs Sjálfstæðismanna í NV kjördæmi
Ég tel að úrslitin séu ákveðin varnarsigur fyrir Einar Kristinn þar sem þrír frambjóðendur frá Vestfjörðum sóttust eftir fyrsta sætinu og þrír þeirra lentu í fjórum efstu. Það hefur örugglega haft mikil áhrif að tvær mjög hæfar konur sóttust eftir þessu sæti og árangur þeirra er óumdeildur. Að sjálfsögðu áfellist ég þessar konur, Birnu og Eyrúnu, á engan hátt. Það er öllum frjálst að gefa kost á sér og engin regla á að ráða þar um. Ég fullyrði hinsvegar að þetta hefur haft áhrif á niðurstöðuna. Nú er bara að vona að Eyrún nái inn í kostningunum þó að um þungan róður sé að ræða. Ég get fullyrt að hún hefur notið stuðning Sjálfstæðismanna á norðanverðurm vestfjörðum, þar sem ég þekki vel til þar.
Ásmundur er óþekkt stærð í mínum huga og ég þekki ekkert til hans. Ég vona bara að hann standi undir þeim væntingum sem til hans eru nú gerðar, sem leiðtogi framboð Sjálfstæðisamanna í NV kjördæmi. Það mun fljótlega koma í ljós hvort hann stendur undir þeirri miklu ábyrgð og sannarlega vona ég að svo sé. Ég vona að hann noti sér reynslu og mannkosti Einars í þeirri báráttu sem framunand er.
Það eru að vísu vonbrigði fyrir mig sem stuðningsmanns Einars Kristins að hann skyldi ekki ná fyrsta sætinu en ásamt áður nefndum rökum hefur krafan um endurnýjun ráðið einhverju um. Ég er mjög hræddur við að poppulismi taki nú við í Íslensku þjóðfélagi og krafa um að allir sem hafa reynslu og þekkingu sé hent fyrir róða til að láta nýja vendi sópa betur. Ég vil taka því fram að undirritaður var harður í þeirri afstöðu sinni í upphafi bankahrunsins að forystumenn Sjálfstæðisflokksins ættu að bera ábyrgð á því sem gerðist, og þar hafi einstaklingar en ekki stefna brugðist. Sterk krafa kom frá Sjálfstæðismönnum á Ísafirði um að forsettsráðherra og fjármálaráðherra ættu að víkja, enda hefðu þeir ekki staðið undir þeirri ábyrgð sem þeim var falin. Sjálfstæðisflokkurinn ber að sjálfsögðu ábyrgð á hruninu og mikilvægt að flokksmenn viðurkenni það áður en uppbygging hefst. Í mínum huga hefði Einar Kristinn verið góður í þeirri áhöfn sem þarf til að byggja upp flokkinn og tryggja aðkomu hans að þeirri uppbyggingu sem framundan er í Íslensku samfélagi. Hann hefur verið góður sjávarútvegsráðherra og sýnt að honum er treystandi fyrir ábyrgð og vandasömum verkum. Ég vona að Ásbjörn rísi undir þeim kröfum og stýri sinni áhöfn til árangurs í komandi alþingiskosningum. Sporin hræða þegar horft er til stjórnar landsins undanfarna mánuði þar sem poppulismi ræður ríkjum með fáti og fumi ráðherra í stjórn landsins. Það liggur mikið við þessa dagana.
![]() |
Ákveðin krafa um endurnýjum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.3.2009 | 18:07
Á vit ævintýranna
Í fyrramálið leggjum við hjónin á vit ævintýranna í ferðalag um Afríku og heimsókn í stærsta þjóðgarð Úganda, Murchison Falls. Við munum gista þar í lúxustjaldi á bökkum Nílar og njóta lystisemda Afríku.
Við notumst við nýjustu tækni við að rata en allir punktar eru í GPS tækinu og bara að treysta á tæknina. Við munum ganga upp með fossunum og fara síðan í gönguferð um þjóðgarðinn í fylgd með einka-leiðsögumanni, sem eðli málsins samkvæmt þarf að bera byssu um öxl, enda von á alls kyns villidýrum á þessum slóðum. Sigling á Níl og síðan að njóta veitinga og aðbúnaðar á heimsmælikvarða.
Stemmingin verður svona svolítið Agata Christy stemming og eins gott að ekki verði framið morð á staðnum. Það gæti tafið okkur að láta Hercule Poroite eyða nokkrum dögum í að finna út hver morðinginn er.
En á vit ævintýranna. Kominn tími til að hrista upp í tilverunni og hafa gaman af lífinu.
12.3.2009 | 05:31
Umsókn í ESB og Sjálfstæðisflokkurinn

Eftirfarandi listi yfir sjálfstæðismenn er tekin af heimasíðu Hjartar J. Guðmundssonar. Ekki er hann tæmandi og sakna ég t.d. Einars Guðfinsssonar af honum, sem ég held að fylli síðasta hópinn. Ekki að hann styðji ingöngu en vill fyrir alla muni leyfa þjóðinn að ákveða það með þjóðaratkvæaðgreiðslu.
Eru andvíg umsókn um inngöngu í Evrópusambandið (16):
Birgir Ármannsson
Elinóra Inga Sigurðardóttir
Erla Ósk Ásgeirsdóttir
Grazyna María Okuniewska
Gréta Ingþórsdóttir
Guðfinnur S. Halldórsson
Guðlaugur Þór Þórðarson
Hjalti Sigurðsson
Jón Kári Jónsson
Loftur Altice Þorsteinsson
Pétur H. Blöndal
Sigríður Ásthildur Andersen
Sigurður Kári Kristjánsson
Valdimar Agnar Valdimarsson
Þorvaldur Hrafn Ingvason
Þórlindur Kjartansson
Segja ekki tímabært að sækja um inngöngu í Evrópusambandið (3):
Jórunn Frímannsdóttir Jensen
Sigríður Finsen
Sveinbjörn Brandsson
Segjast andvíg inngöngu í Evrópusambandið en vilja engu að síður viðræður um inngöngu (2):
Ásta Möller
Illugi Gunnarsson
Eru hlynnt því að sótt verði um inngöngu í Evrópusambandið (8):
Dögg Pálsdóttir
Guðmundur Kjartansson
Guðrún Inga Ingólfsdóttir
Gylfi Þór Þórisson
Ingi Björn Albertsson
Jón Magnússon
Kolbrún Baldursdóttir
Ólöf Nordal
Eins og staðan er í dag þá eru nánast engar líkur á að íslenska krónan eigi sér framtíð. Það er að fullu reynt að notast við slíka örmynt á tímum alþjóðavæðingar og samþjöppunar hagkerfa heimsins. Einhliða upptaka annarrar myntar virðist þyrnum stráð og því fylgir gríðarleg áhætta þar sem d.t. kostir við inngöngu í evrópskt myntbandalag nást ekki með því, en mikil áætta fylgir því. Með einhliða upptöku dollars eða evru væru engar varnir til ef markaðir misstu tiltrú á íslenskt efnahagslíf og þá gæti hver sem er tekið gjaldeyrir með í töskum úr landinu, þar sem ekki væri komið við neinum vörnum, eins og eru t.d. í dag.
Meirihluti sjálfstæðismanna virðast vera á móti umsókn í ESB og þá hlýtur að vera sú krafa á þá að benda á aðrar leiðir í peningamálum þjóðarinnar. Bloggari hefur aldrei séð neitt vitrænt í þeim efnum. Reyndar er umræða flestra sjálfstæðimanna um málefni ESB yfirborðskennt og byggð á slagorðum eins og ,,valdið til Brussel" ,,Brussel klíkan" og svo framvegis og það telja þeir boðleg skilaboð til sinna kjósenda. Bent er á hvernig ESB hafi farið með Íslendinga í IceSave málinu þess til stuðning hversu vondir þeir eru í þessu sambandi.
Þetta er ekki boðlegt og nauðsynlegt fyrir sjálfstæðismenn að koma með vandaðri umræðu um þessi mál. Bloggari hefur bent á það í rökstuddu máli að líklegt sé að viðunandi samningar geti náðst við ESB í sjávarútvegsmálum. Samningur um landbúnaðarmál verður íslenskri þjóð örugglega hagfeldur.
Það vantar framtíðarsýn frá frambjóðendum Sjálfstæðisflokksins og síðan stefnumótun um hvernig eigi að ná henni. Skýr auðskilin og trúverðug framtíðarsýn er einmitt það sem þjóðin þarf nú, til að öðlast sjálfstraust og vilja til að byggja efnahag landsins upp. Takist þetta verða íslendingar sennilega með þeim fyrstu sem ná sér á strik eftir hrunið.
Við sátum hér tveir félagar í Kampala og ræddum málin sendiherra Belgíu. Umræðuefnð var bankahrunið á Íslandi og framtíðaráform Íslendinga í penigamálastórn. Það má segja að rétt sé haft eftir núverandi viðskiptaráðherra að Íslendingar hafi aldrei getað stjórnað peningamálum sínum, þó steinin hafi tekið úr siðustu árin, undir stjórn Davíðs Oddssonar. Sendiherran sagði okkur frá því hversu miklar breytingar hefðu orðið fyrir íbúa með upptöku evru. Hvort sem það eru ferðamenn sem þvælast yfir landamæri og alls staðar er sama myntin og hægt og bítandi hefur þetta áhrif á samkeppni sem er íbúunum til góða. Sérstaklega hefur myntin þó áhrif á viðskipti þar sem menn þurfa ekki að búa við sveiflur á gjaldeyrismarkaði og geta gert sínar áætlanir með meira öryggi.
Það er ljóst að engin alsherjarlausn felst í myntsamstarfinu en þó er ljóst að þau ríki ESB, fyrir utan Breta, sem enn standa utan EMU vilja komast þangað inn sem fyrst. Hafa beðið um undanþágur og flýtimeðferð sem ekki er líklegt að þeir fái. Þar er verið að tala um undanþágur frá Maastricht sáttmálanum.
Bloggara finnst þetta snúast um hvað sé þjóðinni fyrir bestu í framtíðinni. Ekki stjórnmálaflokkum eða stjórnmálamönnum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 05:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
9.3.2009 | 16:59
Fullt tungl
Það nálgast fullt tungl og þá fá vinir bloggara á Sri Lanka sinn Poya dag og frí frá vinnu eða skóla. Tunglið skipar mikinn sess í búddisma og reyndar kristni, enda eru t.d. páskar miðaðir við tunglgang. Það eru reyndar gömlu mánuðir okkar íslendinga, þorri, harpa o.s.fr. Tunglið var tímamælir fyrir gömlu landbúnaðarsamfélögin og allt miðaðist við hvenær fullt tungl var. Heima má þekkja stækkandi mána með því að þegar hægt er að grípa með vinstri hendinni inn í hálfmána, er hann stækkandi. Hér á miðbaug snýr tunglið öðruvísi þar sem gripið er undir það við vaxandi mána og ofaní það við minnkandi.
Nútíma rannsóknir benda til að tunglið af byrjað sem risavaxin hraunsletta úr jörðinni og hafi i fyrstu snúist marga hringi á sólarhring kringum jörðina í tiltölulega lítilli hæð. Fjarlægðin hefur síðan verið að aukast og tunglið fjarlægist okkur um rúma þrjá sentímetra á ári hverju og hægir þá jafnframt á sér.
Tunglið hefur gríðarleg áhrif á lífið á jörðinni og þarf ekki að benda á annað en flóð og fjöru sem orsakast af aðdráttarafli þess sem dregur yfirborð heimshafanna til sín. Það er ekki tilviljun að flóð er tvisvar á sólarhring, enda fer tunglið tvo hringi kringum jörðina á dag. Seinni tíma rannsóknir benda til að tunglið hafi miklu meiri áhrif á jörðina, t.d. með því að halda jafnvægi á halla hennar og halda honum stöðugum í gegnum hringsól jarðar kringum sólina. Jörðin hallar hvorum helming, norður og suðurhveli, um 23 gráður að sólu, sem orsakar árstíðirnar. Miðbaugur snýr næst sólu í kringum 21 mars og í framhaldi byrjar jörðin að snúa norðri meira að sólu og þá vorar á norðurhveli. Hallinn nær síðan hámarki 21 júní og þá er hásumar á Íslandi og í framhaldi fer jörðin að snúa til baka þar til suðurhveli snýr næst sólu 21 desember, sem er að sjálfsögðu stysti dagur á Íslandi. Tunglið skiptir miklu máli til að halda þessari reglu og halda jörðinni í jafnvægi við æfingar sínar.
Svo er að sjálfsögðu áhrif tunglsins á rómantík þegar fullt tungl skín og kveikir þrá í brjóstum jarðarbúa sem fyllast ástarbríma. Rómatísk áhrif tunglsins er ekki á verksviði vísindamanna og þarf ekkert að sanna né afsanna. Eins það að tunglið hafi alls kyns önnur áhrif, allt frá að rjómi fljóti ofaná í mjólkurbrúsa til þess að menn breytist í varúlfa í fullu tungli. Vísindin hafa nóg annað að gera og geta bara látið slíka hluti eiga sig.
Gangi spá eftir heima á Ísafirði gæti rofað til og íbúar notið fulls tungls, eða hér um bil. Vonandi hefur það tilætluð áhrif og best ef slíkt ber ávöxt níu mánuðum seinna. Þá er tunglið farið að fjölga Íslendingum, sem er hið allra besta mál.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 24.3.2009 kl. 08:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Gunnar Þórðarson
Tenglar
Hallgrímur bláskór 2012
- Gengiðr úr Hornvík í Kjaransvík
- Kjaransvík - Sæból
- GEngið á Ryt og Darra
- Gengið á Straumnesfjall
- Gengið á brúnir Grænuhlíðar
Smölun í Austurdal
- Austurdalur -2010 Dagur 1 Smölun í hinum ægifargra Austurdal suður af Skagafirði
- Austurdalur - 2010 Dagur 2 Annar dagur smalamensku í Austurdal í Skagafirði
- Austurdalur -2010 Dagur 3 Lokadagur smölunar fyrir Austudalsfélagið í Skagafirði
- Föstudagur 2011 Smalaferð Göngumannafélags Austurdals í september 2011
- Laugardagur í Austurdal 2011 Smalaferð Göngumannafélags Austurdals í september 2011
- Sunnurdagur í Austurdal - 2011 Smalaferð Göngumannafélags Austurdals í september 2011
- Mánudagur 2011 Smalaferð Göngumannafélags Austurdals í september 2011
Skútukaupin 1976
Við félagarir, undirritarðu, Jón Grímsson og Hjalti Þrórðarson keyptum skútu í Bretlandi og sigldum henni heim til Íslands
- Kafli 1 - Skútukaupin undirbúin
- Kafli 2 - England
- Kafli 3 - lagt í siglinguna miklu
- Kafli 4 - Captain Thordarson
- Kafli 5 - Siglt í norður
- Kafli 6 - Færeyjar - Ísland
- Kafli 7 - Siglt til Ísafjarðar
Ísrael 1974
Sagt frá ævintýri okkar Stínu, Nonna Gríms og Hjalta Bróður þegar við ókum yfir Evrópu 1974. Fórum frá Aþenu til ísrael og unnum þar á samyrkjubúi.
- Kafli 1 - Mótorhjólagengið
- Kafli 2 - Júgóslavía, Grikkland og Ísrael
- Kafli 3 - Á kibbutz undir Gólanhæðum
- Kafli 4 - Í kjölfar árásarinnar
- Kafli 6 - Maðurinn með ljáinn
- Kafli 5 - Endurfundir
- Kafli 7 - Frá rauðu ljósi í Milanó
- Kafli 8 - Fjölskyldu og varnarmál
- Kafli 9 - Vinna í Elat
- Kafli 10 - Daglegt líf á Shamir
- Kafli 11 - Til Grikklands
- Kafli 12 - Sögulok í London
Að Fjallabaki 2012
Suður um höfin 1979
Frá ferðalagi okkar Stínu á seglskútunni Bonny frá Ísafirði til Mallorca í Miðjarðarhafi
Sigling frá Mallorka til Grikklands
- Kafli 1 - lagt af stað til Ítalíu Fimm félagar sigldu Bonny frá Spánar til Grikklands
- Kafli 2 - Sikiley og Grikkland
- Kafli 3 - Kea og Paros
- Kafli 4 - Santorini
Safaríferð í Úganda
- Ferð til Murchison Falls - fyrri hluti Safaríferð inn í frumskóg Úganda
- Ferð til Murchison Falls - seinni hluti
Hálendisferð 2010
- Gengið á Fimmvörðuháls Eldstöðvar Fimmvörðuháls skoðaðar
- Skaftafell og Kristínartindar Gengið á Kristínartinda
- Gengið á Mælifell Ekið Fjallabak syðra norður fyrir Mýrdalsjökul
- Friðland að Fjallabaki Gengið um við Landmannalaugar
- Gengið á Löðmund Gengið á Löðmund við Dómadal
- Gengið á Snæfell Gengið á hæsta fjall Íslands utan jökla, Snæfell
- Gengið í Geldingarfell Ferð um Lónsörævi með frábærum hópi, sumarið 2010
- Gengið í Egilssel Gengið úr Geldingafelli í Egilssel við Lónsöræfi
- Gengið niður Lónsöræfi Þriggja daga göngu norðan og austan Vatnajökuls lokið
Sri Lanka 2007
- Sri Lanka 2006-2008 Starfað á Sri Lanka
Bloggvinir
-
astromix
-
ekg
-
stefanbjarnason
-
golli
-
vikari
-
gunnarpetur
-
vestfirdir
-
gudni-is
-
ea
-
ladyelin
-
gp
-
altice
-
hjolaferd
-
kaffi
-
komediuleikhusid
-
rabelai
-
ziggi
-
huldumenn
-
helgi-sigmunds
-
sigrunzanz
-
hordurhalldorsson
-
baldher
-
hjaltisig
-
lotta
-
kjarri
-
bjarnimax
-
jovinsson
-
smjattpatti
-
eirmor
-
vefritid
-
saemi7
-
siggisig
-
maggij
-
lehamzdr
-
contact
-
gauisig
-
jonvalurjensson
-
thjodarskutan
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (20.8.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 7
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 6
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar