Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2010

Listi "skynsamra" frambjóðenda

Fjölpóstur var sendur með nöfnum "skynsamra" frambjóðenda þar sem mitt nafn er á meðal 26 nafna.  Augljóst er hverjum þetta hugnast og hverjum kemur þetta illa.  Þetta eru verk óprúttinna illvirkja sem vilja koma höggi á pólitíska andstæðinga sína á síðustu stundu.  Sent inn að morgni kjördags þannig að ekki vinnist tími til að verja sig.  Megi þeir skömm hafa sem tóku sér þetta fyrir hendur.

Það er augljóst af viðvaningslegu orðalagi að pósturinn er ekki faglega unnin.  Eins er ljóst að slíkur listi sem sendur er undir þessum formerkjum kemur þeim illa sem á honum eru.  Aldrei hefur verið borið undir mig hvort ég vilji vera á slíkum lista.  Enda hefði ég neitað því staðfastlega.  

Eitt get ég fullyrt og það er að mitt fólk myndi aldrei vinna svona.  

Það er athyglisvert að bréfið birtist í DV áður en ég fékk það sent.  Hvað segir það okkur?  Ég veit um menn sem eru trúnaðarmenn flokksins og fengu bréf frá formanninum í gærkvöldi um allt annað málefni, en fengu ekki þetta bréf.  Það segir mér að þessir fantar hafa ekki komist yfir trúnaðarmannalista Sjálfstæðisflokksins.  En mikil vinna hefur verið lögð á sig fyrir þessa óhæfu.


Landsbyggðin og spillingin

Steingrímur J. hrindi í þáverandi félagsmálaráðherra og hótaði honum að skrúfa fyrir alla fyrirgreiðslu til ráðaneyti hans ef hann leysti ekki vandamál sem komið hafði upp í kjördæmi fjármálaráðherrans.  Málið snérist um að ,,bæta" vinum hans fjárhagslegt tjón sem þeir urðu fyrir vegna forsendubrests í samningum við ríkið.  Það er auðvelt að láta skattgreiðendur borga slíkt og ekki vafðist fyrir þingmanni sjálfstæðismanna að bakka upp gjörninginn, enda hann úr sama kjördæmi og um sameiginlega vini hans og fjármálaráðherrans að ræða.  Steingrímur er engin veifiskati þegar kemur að því að greiða fyrir vinum og vandamönnum í kjördæminu en sem landbúnaðarráðherra lét hann ríkið kaupa loðdýrahús fyrir á annað hundrað milljóna á núvirði, af vinum sínum heima í héraði.  Sá gjörningur var dæmdur ólöglegur í Hæstarétti í október 1993.

En hvað segir fyrrverandi félagsmálaráðherra og núverandi viðskiptaráðherra við þessu öllu?  Eftir að hafa látið undan hótunum fjármálaráðherrans og greitt vinum hans 30 milljónir til að ,,leysa" málið, sagði hann í viðtali í sjónvarpinu í gær:  „Þetta sýnir að landið þarf að vera eitt kjördæmi og þess vegna styð ég það að landið verði gert að einu kjördæmi"

Þýðing höfundar á orðum viðskiptaráðherra:  Landsbyggðarþingmenn eru svo spilltir að við þurfum að losa okkur við þá.  Ef við gerum landið að einu kjördæmi þá losnum við þá alla á einu bretti.  Þannig er hægt að leysa vandann með einfaldri stjórnarsárbreytingu.

Þetta eru haldgóð rök hjá Árna Páli.  Það er alveg rétt að með því að gera landið að einu kjördæmi, svo ekki sé talað um persónukjör, þá losna Íslendingar við alla landsbyggðarþingmennina.  Og það er hægt að koma þessu á með einfaldri breytingu á stjórnarskránni.

Þetta er mikið áfall fyrir okkur sem viljum standa vörð um landsbyggðina og tryggja málsvara hennar á þingi.  Þetta er hinsvegar vatn á myllu þeirra sem vilja færa öll völd á suð-vestur hornið og telja okkur ekki treystandi fyrir þeim völdum sem landsbyggðin hefur á Alþingi.  Þetta er svona dæmi um að rónarnir koma óorði á brennivínið.

Ég hef áður bent á að algjör jöfnun atkvæða gengur ekki upp.  Slíkt er viðurkennt um allan hinn lýðræðislega heim þar sem fámennum héruðum eru tryggð hlutfallslega meiri völd en þéttbýli.  Það er hinsvegar vandrötuð lína að draga og fullkomlega eðlilegt að hún hafi verið færð til undanfarna áratugi við þá miklu flutninga fólks af landsbyggð á höfuðborgarsvæðið.  En fyrr má rota en dauðrota.

Það er erfitt að bregðast við svona snillingamálum og enn erfiðara að leysa þau í stjórnarskrá.  Það þarf að siðvæða pólitíkina og besta leiðin er sú að almenningur taki vel við sér þegar svona hlutir gerast.  Þarna skipta fjölmiðlar sköpum að geta sett sig inn í slík mál og upplýsa almenning um hvað er að gerast.  Svona mál er hægt að leysa án þess að breyta grundvelli lýðræðis í gegnum stjórnarskrá.  


Stjórnarskrá og auðlindir

Er nauðsynlegt að setja inn ákvæði í stjórnarskrá um auðlindir og umhverfismál?

Mörg ríki Evrópu hafa sett slík ákvæði í sínar stjórnarskrár.  Í Noregi er lögð áhersla á rétt allra til að njóta heilnæms umhverfis og náttúru og vernda fjölbreytni og grósku.  Að ekki skuli gengið á rétt komandi kynslóða í nýtingu á náttúruauðlindum.  Einnig er lögð áhersla rétt borgara fyrir upplýsingar um ástand og fyrirhugaðar framkvæmdir.  Í Finnlandi er lögð áhersla á ábyrgð á umhverfinu og að þjóðararfurinn sé á ábyrgð allra en í stjórnarskrá ESB er talað almennt um að náttúruvernd sé á háu stigi og hluti af stefnu sambandsins.  Frakkar eru með svokallaðan umhverfissáttmála í sinni stjórnarskrá sem leggur ábyrgð á almenning að taka þátt í að framfylgja umhverfisstefnunni ásamt rétti hans til upplýsinga um umhverfismál.  Í Svissnesku stjórnarskránni segir ,, Sambandsríkið skal móta meginreglur um fiskveiðar og skotveiðar í því augnamiði að vernda fjölbreytni fiskjar, villibráðar og fugla"

Allt eru þetta almennar reglur sem ekki útiloka skynsamlega nýtingu auðlinda og varla það sem margir ræða um hér á landi.  Í tillögu frá árinu 2000 lagði auðlindanefnd til að tekið væri upp nýtt ákvæði í stjórnarskrá um að náttúruauðlindir sem ekki eru háðar einkaeignarrétti yrðu lýstar þjóðareign; og var tillagan svo hljóðandi: ,,Náttúruauðlindir og landsréttindi, sem ekki eru háð einkaeignarrétti, eru þjóðareign eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Handhafar löggjafar- og framkvæmdarvalds fara með forsjá, vörslu og ráðstöfunarrétt þessara auðlinda og réttinda í umboði þjóðarinnar"

Hér er rétt að staldra við og velta fyrir sér hver sé tilgangurinn með því að setja slík ákvæði inn í stjórnarskrá.  Ætlum við að nota stjórnarskrána til að leysa áratuga pólitíska deilu, eða ætlum við að setja grundvallarreglur um umhverfis og auðlindamál?

Það er grundvallarmál að við hámörkum nýtingu fiskistofna, göngum ekki á þá með ofveiði og rányrkju.  Ekkert er því til fyrirstöðu að setja ákvæði um slíkt inn í stjórnarskrá, sem myndi þá væntanlega koma í veg fyrir að stjórnmálamenn ákveði auknar veiðar til að afla sjálfum sér stundar vinsælda, þó það gengi gegn þeirri vísindalegu þekkingu sem veðþol væri byggt á!  Einnig liggur það fyrir að þjóðin hefur umráðarétt yfir auðlindinni, þar sem yfirvöld setja lög og reglur um hvernig auðlindin skuli nýtt og heldur úti eftirliti með að þeim reglum sé hlýtt.  Þá er ekki annað eftir en að tryggja að þjóðin njóti ávaxtanna, fiskveiðiarðsins, sem skynsamleg fiskveiðistjórnun skapar.

Allir sem til fiskveiða þekkja vita að um endurnýjanlega auðlind er að ræða og nauðsynlegt að takmarka aðganginn að henni.  Á Íslandi höfum við, að mestu, notað aðferðir samkeppni þegar kemur að ákvörðun um hver skuli veiða.  Hluti veiðanna er að vísu stjórnað af stjórnvöldum, svokölluð skipulagsleið.  Almennt er litið svo á að um meiri sóun sé að ræða með pólitískum afskiptum af því hver skuli veiða, í stað þess að láta þann sem gerir það á hagkvæmasta hátt um það.

Þessi umræða þarf að liggja utan stjórnarskrár, en hægt er að hnykkja á því að þjóðin eigi auðlindina og hafi ráðstöfunarréttin yfir henni, en það má ekki setja í stjórnarskrá að hún, þjóðin, megi ekki nýta auðlindina á sem hagkvæmastan hátt.

Ef farið verður að sáttatillögu hagsmunaaðila og Alþingis frá því í sumar, samningaleið, þá verður aflahluta úthlutað til tiltekins tíma, t.d. 25 ára.  Þannig getur þá útgerðarmaður afskrifað skip, frystahús og kvóta á tilteknum tíma.  Sama fyrirkomulag er með nýtingu á orkuauðlindum og aðeins deilt um hversu langan tíma eigi að taka í afskriftir.

Þjóðin þarf að koma sér saman um þetta með það takmark í farteskinu að hámarka arðsemi auðlinda og tryggja eðlilega dreifingu afraksturs til þjóðarinnar.  Eins og niðurlag tillögurnar frá árinu 2000 hljómar þá kemur það ekki í veg fyrir hagkvæma nýtingu á auðlindum: ,, Náttúruauðlindir og landsréttindi í þjóðareign ber að nýta á sem hagkvæmastan hátt og á grundvelli sjálfbærrar þróunar og skal arði af þeim varið til þess að vernda auðlindirnar, rannsaka þær og viðhalda þeim, svo og til hagsældar fyrir þjóðina að öðru leyti"

Spurningin er hvort margir þeir sem vilja setja ákvæði um umhverfis- og auðlindarmál vilja gera það til að þjóna þröngum hagsmunum sínum eða skoðunum.  Þá er betra heima setið en af stað farið enda er stjórnarskráin sáttmáli þjóðarinnar, en ekki tæki til að leysa pólitísk dægurmál.

Það allavega ljóst að miðað við umræðuna stefna Íslendingar á nýjar slóðir miðað við nágrana sína í stjórnarskrármálum ef þeir trúa því að deilumál um nýtingu auðlinda verði leyst með texta í grundvallarskrá stjórnskipunar og mannréttinda.


Á léttum nótum um stjórnarskrá

Breyting á stjórnarskrá

Það er athyglisvert að skoða viðhorf fólks til stjórnarskrár og þeim breytingum sem þurfi að gera á henni.  Reyndar virðast margir tengja þörf á breytingum við bankahrunið, sem er svolítið galið.  Ekki get ég ímyndað mér að plagg sem fáir lásu hefði breytt þeirri allsherjar firringu sem ríkti á Íslandi árin fyrir hrun.  Málið er að þjóðin tók nánast öll þátt í dansinum á Hruna, þó sumir hafi rokkað meira en aðrir.  Til að laga það þarf ekki að breyta stjórnarskrá heldur þurfa Íslendingar að átta sig á því að við erum  aðeins 330 þúsund, svona eins og lítið hverfi í erlendri stórborg. 

Hafi mönnum þótt langt bankamenn kræfir þá voru stjórnvöld lítið betri, án þess að það komi stjórnarskrá nokkurn skapaðan hlut við.  Gott dæmi er stórmennskan um að sækjast eftir sæti í öryggisráðinu, og þar komu a.m.k. þrír utanríkisráðherrar við sögu.  Þeir flugu um allan heim, stundum í einkaþotum auðmanna, til að veiða atkvæði smáríkja Sameiniðuþjóðanna.  Bjóða m.a. eyjaskeggjum í Karabíahafi þróunaraðstoð  í formi slökkvibíla og skóla.  Þarna var lagt í vegferð þar sem versta niðurstaðan var að ná árangri.  Við hefðum þurft að ráða 2.000 sérfræðinga til að sitja stólinn.  Sérfræðinga í miðausturlöndum, Kasmír héraði, Afganistan og svo videre.  Það hreinlega gleymdist að kasta tölu á þjóðina  áður en við lögðum upp í þessa vitlausu vegferð.

Skýrleiki og hefð

En það þarf að laga stjórnarskrá þó hún hafi ekki valdið hruninu.  Ég tek undir að bæta má textann og gera hann hnitmiðaðri og skiljanlegri, þannig að ekki þurfi sprenglærðra lögspekinga til að túlka það sem þar stendur.  Menn verða að koma sér saman um hvað átt sé við í hverri grein og endurskrifa hana svo á mannamáli.  Það verður erfitt að byggja túlkunina á hefð, sem kemur til af ungum aldri lýðveldisins og þjóðin svo rótlaus að hún brýtur hefðir eins og hvert annan Frónkex.

Í Bretlandi er engin stjórnarskrá en þeir treysta lýðræðið með aldagömlum siðum.  Við setningu þingsins kemur ,,svartstafur" (sendiboði drottningar) og ber að dyrum.  En hann er virtur að vettugi og áfram lemur hann stafnum árangurslaust við hurðina.  Hurðin sem er fírtommu eikarhurð er farin að láta sjá af þessum látum og djúp hola er komin eftir aldalangar barsmíðar svartstafs.  En þegar þingið hefur sýnt honum hæfilegt áhugaleysi er loksins opnað fyrir honum.  Í framhaldi mætir drottningin/kóngurinn til að lesa þinginu stefnuræðu ríkistjórnarinnar.  Þegar hennar heilagleiki mætir í salinn hefja þingmenn hávært skvaldur , til að sýna henni ákveðna óvirðingu.  Þetta er gert til að sýna konungsvaldinu að þingið sé sjálfstætt og hlíti ekki yfirráðum krúnunnar.  Þetta leikrit er leikið árlega við setningu þingsins og hluti af þeim hefðum sem Bretar nota í staðinn fyrir stjórnarskrá.  Það er vonandi að á Íslandi sé ekki komin hefð fyrir að berja olíutunnur við þingsetningu okkar eða kasta eggjum í biskupinn.

Ráðning æðstu embættismanna

Það er mikið rætt um nauðsyn þess að afnema vald forseta til að ráða æðstu embættismenn og færa það til þingsins eða einhverjar valnefndar.  Sérstaklega er talað um dómara í þessari umræðu.  Í BNA þarf þingið að samþykkja hæstaréttardómara og héraðsdómarar eru kosnir af almenningi.  Hvorugt hugnast mér og satt að segja vil ég ekki losa ráðherra undan þeirri ábyrgð sem valdinu fylgir.  Ég vil hafa það á hreinu hver ber ábyrgð og hún fljóti ekki um allt.  Þetta er í mínum huga klárlega hlutverk framkvæmdavaldsins, og þegar hafa verið settar reglur sem minnka líkur á pólitískri ráðningu dómara.

Ég sé reyndar ekki alvarlega hnökra hvað þetta varðar í okkar samfélagi.  Ég viðurkenni að ráðningar dómara hafa verið umdeildar og grunar að ekki hafi alltaf verið gætt fullkominnar fagmennsku og vinar og frændsamfélagið hafi oft spilað inní.  Það er ekki gott en besta ráðið til að útiloka slíkt er opin umræða, öflugt grasrótarstarf í pólitík og að ráðherra sem skriplar á skötunni í jafn mikilvægum málum fái að finna til tevatnsins.

Dómstólar

Lítill styr hefur staðið um íslenska dómarastétt og ekki annað að sjá en hún hafi unnið sína vinnu af fagmennsku og óhlutdrægni.  Í BNA snýst málið um að koma að dómurum að sem eru með eða á móti fóstureyðingum.  Málaflokkur sem klýfur þjóðina í tvennt.  Hér hefur ekki verið um slíkt að ræða og þó íslenskir dómarar hafi þurft að taka á umdeildum pólitískum málum, s.s. kvótakerfinu, verður því varla haldið fram að þeir hafi dregið taum eins né neins í þeim úrskurðum.  Þetta er bara í góðu lagi!

Þingið á að setja lög og hafa eftirlit með framkvæmdavaldinu.  Þeir eiga ekki að ráða dómara eða aðra embættismenn.  Ég hef nú samt velt því fyrir mér hvort ráðherrar eigi að sitja á þingi.  Ég tel að reynsla okkar af utanþingsráðherrum hafi verið mjög góð og  verið til bóta.  Það þarf klárlega að skerpa skilin milli þings og framkvæmdavalds, en það gerist ekki með því rugla þeim reitum meira saman en orðið er. 

Sníðum forsetanum stakk eftir vexti

Við þurfum að taka málskotsréttinn af forsetanum og tryggja að hann verði sú puntudúkka sem hann á að vera.  Núverandi forseti hefur tekið embættið á nýjar slóðir, sem engum hafði dottið í hug að myndi gerast.  Ég velti því fyrir mér hvort þingið kjósi ekki forsetann eins og gert er í Þýskalandi.  Það myndi spara okkur forsetakosningar og í leiðinni myndum við stemma þetta embætti niður í eitthvað lítið og sætt. 

Til að þjóðin geti síðan veitt Alþingi aðhald gætu 25.000 manns krafist þjóðaratkvæðagreiðslu gegn umdeildum lagasetningum.  Þetta þarf að skilgreina vel og undanskilja fjárlög og skattamál.  Ef slíkt vald væri fært þjóðinni myndu þingmenn, eða framkvæmdavald, ekki setja fram lagafrumvörp sem klárlega gengu gegn þjóðarvilja.  Ef til vill myndi það verða til þess að íslensk pólitík yrði málefnalegri og yfirvegaðri.  Lögum yrði ekki troðið í gegnum Alþingi með ofbeldi þar sem þingmenn væru tuktaðir til hlýðni við slæman málstað.  Menn yrðu að tala saman og komast að yfirvegaðri niðurstöðu með þjóðarhagsmuni í huga.


Frjáls markaður með fisk

Reglulega kemur upp í umræðunni krafa um að öllum fiski skuli landað í gegnum fiskmarkaði, til að tryggja hámarks verð og markaðurinn sé þannig látin stjórna verðmætamyndun á afla.  En er málið svona einfalt og mundi slík regla hámarka fiskveiðiarð og þannig þeim tekjum sem renna til þjóðarinnar frá fiskveiðum?

Rannsóknir haf a verið gerðar sem sýna fram að málin séu alls ekki svona einföld og fleira komi til en opin frjáls markaður (fiskmarkaðir) til að hámarka verðmætasköpun í sjávarútveg.   Í þessu sambandi má benda á að mörg fremstu framleiðslufyrirtæki heimsins hafa horfið frá uppboðsmörkuðum við t.d. kaup á hráefni og fært sig meira í átt til samvinnu við birgja.  Fremst í flokki er fyrirtæki eins og Toyota sem byggir starfsemi sína á nánum samstarfi við byrgja þar sem fyrirtækið jafnvel sér um innleiðingu gæðakerfa og þjálfun starfsmanna hjá þeim.

Málið snýst um flækjustig viðskiptana þar sem einföld viðskipti með einsleita vöru gagnast opin markaður á meðan flóknari viðskipti þar sem miklar kröfur eru gerðar um t.d. gæði, kalla á nánara samstarf við birgja.  Hér að neðan eru fimm stigum viðskiptasamskipta lýst með skilgreiningu á hversu náin samvinna fylgir hverju fyrir sig.

 picture1.png

Í fyrsta lagi getur frjáls markaður hentað útgerðarmanni sem vil hámarka verðmæti landaðs afla, sem er þá í eðli sínu einsleitur þar sem hann selur afla þegar honum þykir best henta.  Verðið endurspeglar þá áhættu sem tekin er á markaði og nokkur greiðsla gengur síðan til þess sem sér um uppboðið, fiskmarkaðarins. 

Í öðru lagi gæti fiskverkandi gert samning við útgerðarmann um að skaffa tiltekin afla, á markaðsverði en með nokkuð öruggri afhendingu.  Flækjustigið hefur nú aukist þar sem útgerðarmaður er ekki lengur sjálfráður um hvenær hann afhendir fiskinn.

Í þriðja lagi getur fiskverkandi gert samning við útgerð um að landa öllum afla í vinnslu en hann tekur sameiginlega áhættu á markaði, en er vel umbunað ef vel gengur.  Hér gæti verið gerðar meiri kröfur um gæði, ferskari fisk, betur kældur eða ákveðnar stærðir o.s.f til að þóknast kröfuhörðum kaupanda á markaði. 

Joint Venure er þá náið viðskiptasamband útgerðar og fiskvinnslu, án formlegrar sameiningar, en notast við sameiginlegan rekstur að mörgu leiti.  Þarna geta menn komið sér saman um stefnu í framleiðslu og útgerðarmaðurinn breytir vinnslufyrirkomulagi um borð til að skila vöru fyrir sérlega kröfuharðan kaupanda.  Hér gæti verið um kröfu um snögg kælingu niður í -1°C straks eftir blóðgun og nákvæma tölvu skráningu á veiði-tíma og staðsetningu veiða, sem fylgir fiskinum á markað.

Með sameiningu getur fyrirtækið skipulagt veiðar og vinnslu með þeim hætti sem hámarkar verðmæti framleiðslunnar.

Gott dæmi um slíkt skipulag er sala á ferskum hnakkastykkjum frá Íslandi til Bretlands.  Kaupandinn er stórmarkaður eða veitingarhús sem gera kröfu um mikil gæði ásamt afhendingaröryggi.  Til að tryggja afhendingu er notast við öflug skip sem róið geta í misjöfnum veðrum.  Til að tryggja gæðin er allur fiskur kældur niður fyrir 0°C eins fljótt eftir veiði og mögulegt er sem gefur allt að tíu daga líftíma fyrir ferskan fisk.  Veiðistaður og stund eru skráð og haldið utan um í tölvutæku formi.  Veiðiskip landar síðan afla sínum á mánudögum og síðdegis þann dag fer fyrsta sending af ferskum hnökkum í flug til Bretlands. 

Hér er um gríðarmikla hagsmuni að ræða þar sem stórmarkaðir og veitingahús greiða hæsta verð fyrir ferskan ófrosin fisk, en mikil hefð er fyrir slíkri vöru í Bretlandi.  Sérstök meðhöndlun aflans tryggir gæðin og skipulag veiða afhendingaröryggið. 

Hér er um mikið skipulag og samþættingu veiða og vinnslu að ræða sem gerir kaup af frjálsum uppboðsmarkaði erfitt og ótraust.

Skortur á afhendingaröryggi er mjög kostnaðarsamt á markaði.  Norsk rannsóknir sýnir að laxabóndi sem selur beint til stórmarkaða fær greitt allt að 35% af smásöluverði fyrir vöruna, en útgerðarmaður á Íslandi fær aðeins að meðaltali um 12,5 % af verði þorsks.  Vegna þess öryggis sem laxabóndinn getur tryggt í afhendingu, fækkar milliliðum og viðskiptin verða einfaldari, enda þarf stórmarkaðurinn ekki lengur á heildsala að ræða við innkaupin.  Sama þróun er hjá nokkrum íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum sem hafa fært sig nær markaðinum og með því að tryggja afhendingu komast í beint samband við þann aðila sem selur neytanda á markaði.  Sumir tryggja sig með öflugum skipum.  Aðrir hafa farið út í þorskeldi og geta slátrað þegar illa viðrar eða veiðar bregðast um stundarsakir af öðrum ástæðum.  Sumir framleiðendur gera samninga við kollega sem eru staddir á öðrum veðursvæðum um sameiginlega afhendingu.  T.d. getur framleiðandi í Súgandafirði samið við aðila á Snæfellsnesi og annan á Reykjanesi um sameiginlega afhendingu á ferskum fiski í flug.  Líklegt er að þessir aðilar geti tryggt afhendingu þó upp komi óvæntar tafir á veiðum á einu eða tveimur svæðum.

Hér er um gríðarmikla hagsmuni Íslendinga að ræða þar sem stærri hluti viðskiptana endar í íslensku hagkerfi, og minna endar hjá milliliðum erlendis.  Einnig er verð á ferskum fiski að jafnaði hærra en á frosnum, þar sem menn neyðast til að keppa við ódýra framleiðslu frá t.d. Kína.  Þetta eru hinir raunverulegu hagsmunir þjóðarinnar í verðmætasköpun í sjávarútveg, en ekki hvaða verð fæst fyrir fiskinn á uppboðsmörkuðum í höfnum landsins.

Íslendingar eiga alls ekki að takmarka frelsi a markaði með því að neyða alla til að landa afla sínum á uppboðsmarkaði.  Einnig er varasamt að draga úr frelsi við útflutning á ferskum fiski, jafnvel þó hann sé óunninn, en ferskur fiskur á breskan markað mun ávallt skila bestu verðunum.


mbl.is Vilja að allar sjávarafurðir verði unnar á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Landið eitt kjördæmi?

KJÖRDÆMASKIPAN

Er ástæða til að breyta stjórnarskrá og gera Ísland að einu kjördæmi?  Mun það auka lýðræði og réttlæti í samfélaginu?  Núverandi stjórnarskrá gefur nokkuð svigrúm til að jafna atkvæðisrétt milli landshluta og spurning hvort ekki er nóg að gert.  Stjórnarskráin gerir ráð fyrir að hægt sé að breyta mörkum kjördæma með lagasetningu ásamt því að hnika til fjölda þingmanna í hverju kjördæmi til jöfnunar.  Að auki getur landskjörstjórn fært þingsæti milli kjördæma ef fjöldi á kjörskrá eru helmingi færri í einu kjördæmi en öðru í því skyni að jafna vægi atkvæða á landinu.  Er lýðræðinu og réttlætinu fullnægt með því?

 

JAFNT VÆGI ATKVÆÐA Í EVRÓPUSAMSTARFI

Það dytti engum í hug að jafna að fullu atkvæðavægi þjóðríkja innan ESB.  Með nýju stjórnarskránni (Lissabonsáttmálanum) var þessu jafnað nokkuð en engu að síður er Lúxemborg með 6 þingmenn á Evrópuþinginu en Þýskaland með 99.  Það jafngildir að rúmlega 83 þúsund landsmanna eru bak við hvern þingmann í Lúxemborg en 707 þúsund í Þýskalandi.  Þetta er nýleg niðurstaða sem kom í kjölfar stækkunar ESB úr 15 í 25 og síðar 27.  Ef menn hefðu komist að þeirri niðurstöðu að jafnt atkvæðamagn bak við hvern þingmann væri réttlát og sanngjarnt, væri Lúxemborg með aðeins einn þingmann.

 

Þegar bandaríska stjórnarskráin var samþykkt 1787 var tvennt ofarlega í huga höfunda; aðskilnaður þings og framkvæmdavalds og  jafna vægi fámennra fylkja gagnvart fjölmennum.  Þannig litu höfundar til mikilvægis þess að minni fylki yrðu ekki undir gagnvart þeim stærri.

 

Það má heita regla frekar en undartekning í lýðræðisríkum að tryggja réttindi þeirra sem minna mega sín og að raddir þeirra heyrist við ákvarðanatöku sem varðar grundvallar réttindi og lífsgæði.  Hægt er að spyrja sig þess hvort slík jafnaðarhugsjón sé réttlát og sanngjörn.

 

Á AÐ ENDURVEKJA TVÍSKIPTINGU ALÞINGIS?

Þær hugmyndir hafa heyrst að endurvekja tvískipt Alþingi til að verja hagsmuni landsbyggðar gagnvart því ofurvaldi höfuðborgarsvæðis sem alger jöfnun atkvæðavægis myndi hafa í för með sér ef landið yrði gert að einu kjördæmi.   Sagt hefur verið að það mætti til dæmis gera með því að efri deild þingsins væri endurvakin þar sem sætu fulltrúar landshlutanna.  En er þetta rétta leiðin?  Er ekki verið að auka flækjustigið í stjórnsýslunni.  Er þá ekki betur heima setið en af stað farið og betra að hafa kerfið einfalt og skilvirkt með einni þingdeild.

Við verðum að muna að Íslendingar eru aðeins 330 þúsund talsins.  Efri og neðri deild þingsins voru einmitt sameinaðar sínum tíma af því að ekki var talið tilefni til tvískiptingar Alþingis.  Sú ákvörðun sem er tæpra tveggja áratuga gömul, hefur lítið verið gagnrýnd síðan.

 

LANDSBYGGÐINNI VEITIR EKKI AF ÁHRIFUM SÍNUM

Landsbyggðin á sannarlega undir högg að sækja.  Atvinnulífið er víða of einhæft og einkennist af  frumframleiðslu, þar sem atvinnutækifærum hefur fækkað við aukið vægi þjónustu í hagkerfinu.  Stór hluti skatttekna landsbyggðarinnar endar í Reykjavík, enda er þar nánast öll stjórnsýsla og stærsti hluti þjónustunnar.  Á þetta hafa fræðimenn nýlega bent.   

Það væri því verið að bæta gráu ofan á svart ef íþyngja ætti landbyggðinni með því að gera landið að einu kjördæmi.  Þá fyrst myndi rödd landsbyggðarfólks hljóðna í þjóðmálaumræðunni  og áhrif þeirra á Alþingi stórlega minnka. 

Landsbyggðinni veitir ekki af þeim áhrifum sem hún hefur í dag, ef hún á að komast af í framtíðinni.  Að gera Ísland að einu kjördæmi er rothögg fyrir hinar dreifðu byggðir landsins.  Vilji menn feta þann veg þá verður sú stefnumótun að liggja fyrir.  Að það sé þjóðarvilji að leggja niður landsbyggðina.


Breytingar á stjórnarskrá

Stjórnarskrárfélagið, sem er félag áhugafólks um stjórnarskrána, hélt fund 20. október s.l. til að gefa frambjóðendum til Stjórnlagaþings tækifæri til að kynna sig og sínar áherslur.  Viðtal var á RÚV við formann félagsins að fundinum loknum þar sem hann lýsti yfir þörf á að umbylta stjórnarskránni, þar sem hún væri gömul og úr sér gengin og það sem væri öllu verra að hún væri útlensk.  Tími væri komin til að semja ,,íslenska" stjórnarskrá fyrir íslenskar aðstæður til að leysa þann pólitíska vanda sem þjóðin stæði frammi fyrir. 

Í þessu samhengi er rétt að benda á að í stjórnarskránni er að finna ákvæði um meðferð ríkisvalds, hlutverk helstu handhafa þess og samspil þeirra á milli. Enn fremur er þar lýst yfir hver réttindi borgararnir hafa í samskiptum við ríkisvaldið og hömlur lagðar við því að á þessi réttindi sé gengið.  Lýðræðið er ekki íslenskt fyrirbæri og grundvöllur valdreifingar með þrískiptu ríkisvaldi er ekki íslensk uppfinning og mannréttindakaflinn er saminn upp úr Evrópurétti.  Reyndar er stjórnarskrá okkar saminn upp úr þeirri dönsku, en Danir sömdu sína upp úr þeirri belgísku.  Það skiptir engu hvaðan gott kemur og aðalatriðið er að tryggja hófstillt ríkisvald, lýðræði og mannréttindi sem grundvöll til framfara og góðra lífskjara þjóðarinnar.

Slíkur heimóttaskapur sem formaðurinn opinberaði í þessu viðtali er ekki góður leiðavísir til breytinga á stjórnarkrá.  Gæði stjórnarskrárinnar hefur ekkert með aldur hennar að gera þó vissulega þurfi að aðlaga hana breyttum tímum geta meginhlutar hennar staðist tímans tönn.  Bandarískar stjórnarskráin er sú elsta í vestrænu lýðræðisríki, síðan 1778, og stendur vel fyrir sínu enn þann dag í dag.  Það mætti lagfæra orðalag í íslensku stjórnarskránni, einfalda það og skýra betur innihaldið með auðskildum texta.  Sníða af þá vankanta að orðalag sé óskýrt og tvírætt þannig að dómstólar þurfi að skera úr hvað átt sé við.

Rétt er að vara við því að leysa dægurmál stjórnmála með breytingu á stjórnarskrá.  Ekkert er að því að setja almenn ákvæði t.d. um nýtingu auðlinda og umgengni um náttúruna, til að tryggja hagsmuni þjóðarinnar til langs tíma.  Við getum sett ákvæði um yfirráð þjóðarinnar á auðlindum og náttúrvernd í stjórnarskrá, en slíkt má ekki koma í veg fyrir skynsamlega og arðbæra nýtingu auðlinda.

Stjórnarskráin þarf að vera hafin yfir átök stjórnmálanna, en lög og reglur sem sett eru af Alþingi og framkvæmdavaldi endurspegla þá pólitísku vinda sem blása hverju sinni.  Stjórnarskráin á hinsvegar að lýsa þeim leikreglum sem stjórnvöld verða að fylgja við setningu laga og reglugerða.   

Stjórnarskráin er kjölfesta samfélagsins og hornsteinn skipulags ríkisins sem tryggir lýðræðislega stjórnarhætti og kemur í veg fyrir lagasetningu sem gengur gegn borgaralegum réttindum þegnana.  Um hana á að vera breið samstaða þjóðarinnar þar sem einfaldur meirihluti þvingar ekki breytingar í gegn til að ná pólitískum markmiðum sínum.  Stjórnarskráin fjallar um; stjórnarformið og grundvöll stjórnskipunarinnar, forseta og framkvæmdarvald, alþingiskosningar,  Alþingi, dómstólana, þjóðkirkjuna og trúfrelsi og mannréttindi.  Við getum endurraðað efnisþáttum og aðlagað stjórnarskrá að breyttum tímum með skýrara orðalagi, en við hróflum ekki við henni til að leysa dægurmál stjórnmálanna.  Stígum varlega til jarðar í breytingum á stjórnarskrá.

 


Beint lýðræði

Aukin krafa hefur orðið í lýðræðisríkjum um beina aðkomu íbúa að ákvörðunum (beint lýðræði) og fara þannig fram hjá kjörnum fulltrúum sínum (fulltrúa lýðræði).  Slíkt myndi veita stjórnmálamönnum aukið aðhald og kæmi í veg fyrir að teknar séu ákvarðanir sem gengu gegn hagsmunum og vilja þjóðarinnar.  Ef ákveðið hlutfall kosningabærra manna, t.d. 25% gætu krafist þjóðaratkvæðagreiðslu, myndu stjórnvöld hugsa sig um áður en mál væru þvinguð í gegnum þingið, eins og gerðist með IceSave málið 2009.  Þannig yrði málskotsréttur forsetans óþarfur þar sem þjóðin sjálf gæti gripið til sinna ráða, án milligöngu hans.  Hér þarf hinsvegar að skilgreina þau mál sem alls ekki henta til þjóðaratkvæðagreiðslu, s.s. frumvörp um fjárlög og skattamál. 

Einnig þarf að huga að samþykktarþröskuldum við þjóðaratkvæðagreiðslu, en í sumum löndum er niðurstaða aðeins ráðgefandi ef þátttaka er undir 50% kosningabærra manna.  Rétt er að geta þess að Feneyjanefnd Evrópuráðsins hefur talið að samþykkisþröskuldar séu æskilegri en þátttökuþröskuldar vegna þess hætt er við að kjósendur séu hvattir til að

sitja heima til þess að ógilda kosninguna.

Í Danmörku er ákvæði í stjórnarskrá um að þriðjungur þingmanna geti vísað málum til þjóðaratkvæðagreiðslu.  Fari málið fyrri þjóðina þarf þátttöku 30% atkvæðabærra manna en einfaldur meirihluti ræður þar úrslitum.  Það er umhugsunarvert hvort slíkt ákvæði henti Íslendingum, sem stunda meiri átakapólitík en frændur þeirra Danir.  Hætt er við að alþingismenn myndu misnota þetta vald og nægilegt að færa það til þjóðarinnar sjálfrar.

Tækni nútímans getur gert framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu miklu auðveldari og ódýrari.  Spurning er hvort hægt er nota tölvutækni við atkvæðagreiðslu, en nánast allir landsmenn hafa aðgang að tölvu og netsambandi.

Það er trú mín að aukið grasrótarstarf í stjórnmálum sé árangursríkast í að bæta lýðræði og eftirlit með ríkisvaldinu.  Til þess að það blómstri þarf að tryggja upplýsingar til kjósenda, sem síðan geta tekið málið í sínar hendur ef þurfa þykir.  Ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslu í stjórnarskrá gæti einmitt verið vopnið sem almenningur þarf til að tryggja upplýsingaflæði og veita stjórnvöldum aðhald og tryggja hófsamt ríkisvald.


Tilgangur stjórnarskrár

Breytingar á stjórnarskrá

Stjórnarskrárfélagið, sem er félag áhugafólks um stjórnarskrána, hélt fund 20. október s.l. til að gefa frambjóðendum til Stjórnlagaþings tækifæri til að kynna sig og sínar áherslur.  Viðtal var á RÚV við formann félagsins að fundinum loknum þar sem hann lýsti yfir þörf á að umbylta stjórnarskránni, þar sem hún væri gömul og úr sér gengin og það sem væri öllu verra að hún væri útlensk.  Tími væri komin til að semja ,,íslenska" stjórnarskrá fyrir íslenskar aðstæður til að leysa þann pólitíska vanda sem þjóðin stæði frammi fyrir. 

Í þessu samhengi er rétt að benda á að í stjórnarskránni er að finna ákvæði um meðferð ríkisvalds, hlutverk helstu handhafa þess og samspil þeirra á milli. Enn fremur er þar lýst yfir hver réttindi borgararnir hafa í samskiptum við ríkisvaldið og hömlur lagðar við því að á þessi réttindi sé gengið.  Lýðræðið er ekki íslenskt fyrirbæri og grundvöllur valdreifingar með þrískiptu ríkisvaldi er ekki íslensk uppfinning og mannréttindakaflinn er saminn upp úr Evrópurétti.  Reyndar er stjórnarskrá okkar saminn upp úr þeirri dönsku, en Danir sömdu sína upp úr þeirri belgísku.  Það skiptir engu hvaðan gott kemur og aðalatriðið er að tryggja hófstillt ríkisvald, lýðræði og mannréttindi sem grundvöll til framfara og góðra lífskjara þjóðarinnar.

Slíkur heimóttaskapur sem formaðurinn opinberaði í þessu viðtali er ekki góður leiðavísir til breytinga á stjórnarkrá.  Gæði stjórnarskrárinnar hefur ekkert með aldur hennar að gera þó vissulega þurfi að aðlaga hana breyttum tímum geta meginhlutar hennar staðist tímans tönn.  Bandarískar stjórnarskráin er sú elsta í vestrænu lýðræðisríki, síðan 1778, og stendur vel fyrir sínu enn þann dag í dag.  Það mætti lagfæra orðalag í íslensku stjórnarskránni, einfalda það og skýra betur innihaldið með auðskildum texta.  Sníða af þá vankanta að orðalag sé óskýrt og tvírætt þannig að dómstólar þurfi að skera úr hvað átt sé við.

Rétt er að vara við því að leysa dægurmál stjórnmála með breytingu á stjórnarskrá.  Ekkert er að því að setja almenn ákvæði t.d. um nýtingu auðlinda og umgengni um náttúruna, til að tryggja hagsmuni þjóðarinnar til langs tíma.  Við getum sett ákvæði um yfirráð þjóðarinnar á auðlindum og náttúrvernd í stjórnarskrá, en slíkt má ekki koma í veg fyrir skynsamlega og arðbæra nýtingu auðlinda.

Stjórnarskráin þarf að vera hafin yfir átök stjórnmálanna, en lög og reglur sem sett eru af Alþingi og framkvæmdavaldi endurspegla þá pólitísku vinda sem blása hverju sinni.  Stjórnarskráin á hinsvegar að lýsa þeim leikreglum sem stjórnvöld verða að fylgja við setningu laga og reglugerða.   

Stjórnarskráin er kjölfesta samfélagsins og hornsteinn skipulags ríkisins sem tryggir lýðræðislega stjórnarhætti og kemur í veg fyrir lagasetningu sem gengur gegn borgaralegum réttindum þegnana.  Um hana á að vera breið samstaða þjóðarinnar þar sem einfaldur meirihluti þvingar ekki breytingar í gegn til að ná pólitískum markmiðum sínum.  Stjórnarskráin fjallar um; stjórnarformið og grundvöll stjórnskipunarinnar, forseta og framkvæmdarvald, alþingiskosningar,  Alþingi, dómstólana, þjóðkirkjuna og trúfrelsi og mannréttindi.  Við getum endurraðað efnisþáttum og aðlagað stjórnarskrá að breyttum tímum með skýrara orðalagi, en við hróflum ekki við henni til að leysa dægurmál stjórnmálanna.  Stígum varlega til jarðar í breytingum á stjórnarskrá.

 


Stígum varlega til jarðar í breytingu á stjórnarskrá

Stígum varlega til jarðar í breytingu á stjórnarskránni

Markmið stjórnarskrárinnar er að endurspegla þjóðarvilja ásamt því að skapa umgjörð fyrir góð lífskjör íbúanna og tryggja mannréttindi með hófstilltu ríkisvaldi.

Stjórnarskráin er kjölfesta samfélagsins og hornsteinn skipulags ríkisins sem tryggir lýðræðislega stjórnarhætti og kemur í veg fyrir lagasetningu sem gengur gegn borgaralegum réttindum þegnana.  Stjórnarskránni á ekki að hrófla við nema til þess séu ærnar ástæður og rétt að breytingar á henni séu vel ígrundaðar og hófstilltar.  Það á ekki að breyta henni af því að hún sé ,,dönsk" eða gömul eða vegna pólitískra væringa í augnablikinu.  En þarf að breyta stjórnarskránni?  Svarið er hiklaust já en rétt að menn komi sér saman um það fyrst hverju þurfi að breyta og hvers vegna. 

Beint lýðræði

Aukin krafa hefur orðið í lýðræðisríkjum um beina aðkomu íbúa að ákvörðunum (beint lýðræði) og fara þannig fram hjá kjörnum fulltrúum sínum (fulltrúa lýðræði).  Það er mín skoðun að slíkt geti veitt stjórnmálamönnum aukið aðhald og komið í veg fyrir að teknar séu ákvarðanir gegn vilja þjóðarinnar.  Gott dæmi um slíkt eru slæm vinnubrögð framkvæmdavaldsins í IceSave samningnum. 

Setja þarf reglur þar sem ákveðið hlutfall kosningarbærra manna geta krafist þjóðaratkvæðagreiðslu, sem myndi gera málskotsrétt forseta óþarfan.  Setja þarf reglur um samþykktaskilyrði og eins að undanskilja mál sem ekki henta í þjóðaratkvæði, s.s. fjárlög og skattamál.  Hér er um grundvallarrétt þegnanna að ræða og því full ástæða til að taka slíkar reglur inn í stjórnarskrá.

Valdsvið forseta

Miklar umræður hafa verið um valdsvið forsetans, sérstaklega hvað varðar synjunarvald hans til staðfestingar á lögum frá Alþingi og málsskotsrétt til þjóðarinnar.  Fræðimönnum  ber ekki saman um hvernig beri að túlka 26. grein stjórnarskrá og ríkir því óvissa um þetta mikilvæga mál í stjórnskipun lýðveldisins.  Þessi mál hafa valdið miklum deilum í samfélaginu og nauðsynlegt að setja skýrari ákvæði um valdsvið forseta.  Rétt er að benda á skort á leiðbeiningum í stjórnarskrá um myndun ríkisstjórnar og reyndar ekki minnst á lykilhlutverk hennar í stjórnskipuninni og stjórnarskráin hafi ekki fylgt þeirri þróun sem átt hefur sér stað s.l. öld.

Þrískipting valdsins

Þrískipting valdsins í; löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald er grundvöllur íslenskrar stjórnskipunar.  Töluverður styr hefur staðið um mörkin þarna á milli,  sérstaklega milli löggjafarvalds og framkvæmdavalds og talað er um ,,virðingu" Alþingis í því samhengi, þar sem margir telja að framkvæmdavaldið sýni Alþingi oft á tíðum yfirgang.  Mörg dæmi eru um pólitísk átök vegna þessa á undanförnum árum.  Einnig hefur verið bent á að flest frumvörp til Alþingis komi frá ráðherrum sem umfram þingmenn hafi aðgang að sérfræðingum úr sínum ráðuneytum til undirbúnings og ráðgjafar.  Það er mín skoðun að engu þurfi að breyta í stjórnarskrá vegna þessa en bæta þurfi starfsumhverfi þingsins með aukinni sérfræðiaðstoð við samningu lagafrumvarpa, til að tryggja gæði þeirra og að þau samrýmist stjórnarskrá. 

Landsdómur

Framkvæmd Landsdóms stenst ekki mannréttindakafla stjórnarskrár þar sem ,,sakborningur" nýtur ekki sjálfsagðra mannréttinda eins og stöðu sakbornings við rannsókn máls og spurning um aðlögun að reglum almenna dómskerfisins.  Greina þarf á milli hinnar pólitísku og lagalegu ábyrgðar ráðherra.  Það er bein ógn við lýðræðið ef ráðherrar eru saksóttir fyrir pólitíska stefnu eða stefnuleysi.

Þjóðkirkjan

Umræða hefur verið um þjóðkirkjuna þar sem á togast frelsi einstaklinga til trúariðkunar og mikilvægi kristilegrar menningararfleifðar fyrir samfélagið.  Þrátt fyrir trúleysi er ég mjög íhaldsarmur í þessum málum og tel að hlúa þurfi að sameiginlegu gildismati þjóðarinnar sem hornstein siðvöndunar.  62 grein stjórnarskrárinnar má standa óbreytt en draga má úr afskiptum ríkisins og fjárhagslegum stuðningi við lútersku kirkjuna með breytingu á lögum.  Stjórnarskráin tryggir að öðru leyti trúfrelsi í landinu.

Umhverfis- og auðlindamál

Ég er til umræðu um að taka þessa mikilvægu málaflokka inn í stjórnarskrána.  Það verður þó að vera almennt orðalag þar sem við viljum tryggja skynsamlega nýtingu auðlinda í þágu þjóðarinnar og ekki sé gengið á náttúru landsins á kostnað komandi kynslóða.  Ekki má nota stjórnarskrána til að leysa þau dægurmál sem uppi eru í samfélaginu.  Við höfum löggjöf sem á að tryggja þau meginmarkmið sem hér eru nefnd og þeim á að breyta ef þjóðarvilji er til þess.

Að lokum

Ég vil standa vörð um stjórnarskrána og koma í veg fyrir að ráðist sé í breytingar á henni vegna pólitískra dægurmála.  Stjórnarskráin er kjölfesta lýðræðis og lýðræðið tryggir síðan að henni sé fylgt.  Stjórnarskrá án lýðræðis er marklaust plagg.  Við þurfum því ekki síður að tryggja að stjórnarskráin sé það sem hún stendur fyrir og henni sé fylgt í stjórnskipun og lagasetningu.  Lýðræði og þátttaka almennings í stjórnmálum tryggir það best.  Stígum varlega til jarðar í breytingum á stjórnarskránni.


Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 45
  • Frá upphafi: 283913

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 39
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband