Gul-uggi

  Mission_02_07_BE 024

Ég hef gaman af að skreppa á bryggjuna hér á Sri Lanka og fylgjast með þegar bátarnir landa og virða fyrir mér samkomustað seljanda og kaupanda, þar sem markaðurinn ræður ríkjum.  Að vísu þarf maður að fara á nóttinni þar sem þessi viðskipti eru búinn snemm morguns.  Það kemur sér reyndar vel, enda fyrir utan venjulegan vinnutíma og umferð með minnsta móti.

Það eru merkilegir hlutir að gerast hér á landi í fiskimálum, sérlega áhugaverðir fyrir mig, sem er að skrifa meistararitgerð um virðiskeðju gul-ugga (yellow-fin) túnfisks á Sri Lanka.  Hingað til hefur heimamarkaður ráðið verðinu en alþjóðavæðingin bankar á og kallar á breytingar.  Ekki eru allir ánægðir með þær breytingar en flestir hagfræðingar vilja þó meina að þær bæti hag þjóðarinnar, almennt séð.

Þetta er svona svolítið eins og að vera staddur á Þingvöllum og velta fyrir sér jarðfræði.  Þar sem Ameríku- og Evrópu flekarnir reka í sundur og hafa á síðastu sekúndum jarðsögunnar myndað ægifagurt form þjóðgarðsins.  Þetta blasir allt við einhvern vegin, hvert sem litið er.

Hér sér maður hinsvegar alþjóðavæðinguna þrengja sér inn þar sem heimamarkaður hefur ráðið hingað til, en frekar fátækir neytendur halda verði á fiski lágu.  En þróuð ríki geta boðið betra verð en neytendur þróunarlands, þannig að um leið og útflutningur byrjar, breytist verð úr heima-verði (local price) í heimsmarkaðsverð.  A gul-ugga túnfisk, sem hefur verið mjög vinsæll matur hjá almenningi á Sri Lanka, er heimsmarkaðsverð a.m.k. þrefallt hærra en heimaverðið.  Sjómaðurinn er alsæll en neytandinn er ekki eins ánægður. 

Það liggur fyrir að hægt væri að selja miklu meira magn af gul-ugga til hátt borgandi markaða í Japan, Evrópu og BNA.  Vandamálið liggur í gæðum aflans, en heimabátar eru úti í allt að sex vikur, og það með takmarkaðan ís.  Fiskurinn er því ekki allur kræsilegur fyrir vesturlandabúann sem er vanur ferskleika með sjávarilm.  Og það er ekki auðvelt að breyta því þar sem heimamaðurinn skilur ekki þessar þarfir útlendinganna.

Hæst borgar shasimi markaðurinn í Japan, en þar er fiskurinn etin hrár.  Til þess þarf mikinn ferskleika og ekki hægt að baða hann upp úr örverum á leiðinni í gegnum virðiskeðju frá veiðum á borð neytandans.  Næst eftirsóttasti markaðurinn er ,,steik" markaðurinn í Evrópu og BNA.  Þar vill neytandinn bregða fiskinum á pönnuna augnablik og hafa roða inn í miðju.  Þá bráðnar hver biti upp í manni og gæði túnfisksins koma vel í ljós.   

Heimamenn eru hinsvegar vanir að elda fiskinn í a.m.k. hálftíma og fela hann í karrý og chilli pipar. 

Eitt af þeim gæðavandamálum sem kemur upp við hefðbundna meðhöndlun fiskimanna er histamine myndun í vöðvum fisksins.  Slíkt kemur ekki að sök við eldamennsku heimamanna þar sem við mikla eldun rýkur histaminið úr, en getur verið mun verra fyrir léttsteikingu evrópubúans.  Histamine veldur útbrotum og kláða, fyrir svo utan að bragðið af gömlum fiski.  Sérstaklega þráabragð af feitum fiski eins og túnfiski, sem hverfur í kryddblöndu heimamansins en væri yfirþyrmandi fyrir vesturlandabúann, hvað þá Japanann.

En sjómenn á Sri Lanka munu læra að meðhöndla fiskinn, enda kemur þetta við budduna og til mikils að vinna.  Hægt og sígandi mun heimsmarkaðsverð taka við og heimamarkaðurinn getur ekki keppt við það.  Heimamenn munu verða án gul-ugga og verða að sætta sig við aðrar ódýrari tegundir.  Efnahagur landsins mun hinsvegar njóta góðs af og flestir vera betur settir eftir breytinguna.

En það fylgir böggull skammrifi þar sem hækkandi verð mun hvetja fiskimenn til að sækja meira og fleiri til að koma inn í greinina, en aðgangur er galopinn að auðlindinni.  Svona rómatík eins og navíistar heima telja eftirsóknaverða.  En án stjórnunar og takmörkunar í aðgangi að auðlindinni mun hærra verð aðeins kalla á ofveiði og hrun til lengri tíma litið.  Þetta er þekkt fyrirbæri í þróunarlöndum og er einmitt að gerast hér um þessar mundir.  Það er spennandi tími fyrir rannsóknir við slíkar aðstæður.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ívar Pálsson

Takk fyrir fróðleikinn, Gunnar. Mér var talið forðum að ef Histamín hefur safnast upp í túnfiskinum verði það (eða áhrifin af því) ekki soðið burt. Núorðið hleypur maður allur upp í andliti af þessu, kannski ég steiki hann ekki nóg samkvæmt þér? Við könnum það nánar.

Lýsingar þínar minna mig á meðferð loðnusjómannanna á Japansrækju Dohrn- banka á Íslandi í upphafi, árið 1984. Þeir voru vanir að vaða í gúanófiski en áttu allt í einu að veiða rækju, fara varlega með hana, vera fljótir að því að tína úr henni og pakka í 1kg öskjur, snyrtilega uppraðað, óbrotið og ferskt og síðan að frysta af hörku. Áhöfn Hafþórs tókst þetta vel, en annar togari veiddi sama magn á sömu miðum en fékk helmingsvirði á við Hafþór. Það tók ekki marga túra fyrir þá áhöfn að bæta sig eins og þurfti, þegar markaðurinn hafði sett þá svona út í horn. Alltaf að láta markaðinn um þetta segjum við!

Ívar Pálsson, 10.7.2008 kl. 15:54

2 Smámynd: Gunnar Þórðarson

Já Ívar þetta með histaminið.  Ég hef nú verið að borða túnfisk hérna og hef aldrei fengið eitrun.  Reyndar geri ég ekki mikið af því að borða fisk, vegna þess hve léleg gæðin eru.  Hinsvegar er góður félagi okkar hér, Roshan, sem er leiðandi framleiðandi og útlytjandi stundum að færa okkur ferska túnfisk.  Hann hef ég borðað hráann og eins létt steiktann.  Enda gæðin í lagi þar.

Roshan sagði mér þetta með að sjóða histaminið í burtu.  Sel það ekki dýrara en ég keypti það.  En reyndar er ég á leið á bryggjuna í Negombo í nótt, þar sem hann er með stóra verksmiðju.  Hann er búinn að bjóða mér á hádegisfund og best ég spyrji hann betur út í þetta.

Gunnar Þórðarson, 11.7.2008 kl. 11:16

3 Smámynd: Ívar Pálsson

Njóttu túnfiskins heill, Gunnar. Þú getur svo sagt barnabörnunum frá því síðar, því að öfgafullir umhverfissinnar munu taka þetta af matborðum Vesturlandabúa. Austrið hefur hlutina áfram eins og það vill!

Ívar Pálsson, 11.7.2008 kl. 11:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.5.): 3
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 36
  • Frá upphafi: 283958

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 36
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband