Hlöðufell

hlöðufell-Á laugardeginum 14. júlí var ekið vestur Dómadal og komið við á Hrafntinnuskerjum. Það var sjö km krókur eftir fjallavegi en heiðskýra og sólskin lék enn við okkur. Í þetta sinn var ekið austan megin Þjórsár þangað til komið var niður á þjóðveginn skammt austan Selfoss. Ferðinni heitið að Apavatni þar sem við áttu stefnumót við vini okkar Ívar og Gerðu. Við ætluðum að ganga á Hlöðufell sem er 1200 m hátt fjall suður af Langjökli.

Við stöldruðum við í Árnesi þar sem mesta bergvatnsá landsins, Sogið rennur saman við Hvítá og saman mynda þær Þjórsá.

Eftir góðan nætursvefn ókum við þrjú frá Apavatni, fram hjá Laugavatni en skömmu síðar er beygt til vinstri upp fjallveg sem liggur að Hlöðufelli.

 

HlöðufellHlöðufell er móbergsstapi en þeir verða til við eldgos undir jökli. Þá myndast gjóska sem með tímanum verður að móbergi en þegar gosið nær upp úr jöklinum byrjar að renna hraun ofan á gjóskunni.

Aksturinn upp að fjallinu er mjög skemmtilegur þar sem ekið er lengi eftir sandi sem liggur í upp Lambadalinn. Við stöðvuðum bílinn við fjallakofa Ferðafélags Íslands og lögðum á brattann.

Hlöðufell er hömrum girt og ekki heiglum hent að klífa það. En mikilvægt er að fara rétta leið sem liggur beint upp af hestarétt sem er skammt frá fjallakofanum. Eins og margir móbergsstapar er fjallið skriðurunnið þar sem hraunhellan á toppnum hrinur niður bratt móbergið. Þó fjallið sé bratt er þetta fyrst og fremst erfið en ekki hættuleg fjallganga.

 

Ívar í klettumTveir stallar eru á fjallinu og þegar við komum að þeim neðri, sem er í um 900 m hæð, tókum við ranga stefnu. Í stað þess að sveigja í vesturs fyrir klettanös þá tókum við hana á vinstri hönd. Fljótlega lentum við í mjög bröttum skriðum og síðan í klettabelti. Ívar fór fyrir hópnum og náði að lokum upp á brúnina en mér leist mátulega á að við eltum hann þarna upp. Ég bað Stínu að bíða meðan ég kíkti á aðra leið sem reyndist engu betri. En þegar á brúnina var komið sáum við vörðu um 30 metrum vestar. Þar var rétti uppgangurinn og var það létt verk að skjótast þar niður og leiðbeina konunni upp.

Síðan var ráðist á seinni stallinn sem nær í um 1100 metra hæð. Efst í brúninni er klettabelti en ekki hættulegt þar sem fast var undir fæti og góð handfesta. Þegar brúninni var náð sáum við toppinn í rúmlega kílómeters fjarlægð og hundrað metrum ofar. Það var þægileg ganga á sléttu hrauni og föstu malarlagi til skiptis.

 

Hvílst í klettumHitastigið var um 20° C og ekki skýhnoðri á himni. Víða hef ég séð fallegt og tilkomumikið útsýni en þetta sló allt annað út.

Það fyrsta sem maður tekur eftir er Langjökull með skriðjöklunum vestri og eystri Hagafellsjöklum. Jökulinn er svo nálægur að maður hefur á tilfinningunni að hægt sé að stíga á hann. Vestar er Þórisjökull (1350) og norðan við hann Geitlandsjökull (1395) og austar blöstu Jarlhettur við. Prestahnúkur  teygði sig upp milli Þórisjökuls og Langjökuls en Eiríksjökull var falin á bak við hábungu Langjökuls sem nær í 1420 metra hæð.

Í nærumhverfinu má sjá Högnhöfða, Skriðutinda og vestar má sjá Skriðu og Lágafell og í austri er Bláfell.

Kerlingafjöll blasa við í norðaustri, með Finnborgu og Snækolli. Norðar er Hofsjökull og sjást jökulskerin Hásteinar greinilega og yfir Múlajökul glittir í Arnarfell hið mikla.

Vatnajökull sást greinilega með Þórðarhyrnu (1742) og Bárðarbungu norðar sem losar 2000 metrana.

Stína í klettumSveinstindur sást vel í austri og Fögrufjöll austur af honum. Það glitti í Mýrdalsjökul og Eyjafjallajökul og norðar sáust glæsileg Tindafjöllin. Löðmundur skartaði sínu fegursta í sumarblíðunni en Háalda þekkist ekki úr þessari fjarlægð þar sem sérkennin eru ekki nægjanleg. Í suðri mátti sjá Heklu og austar sást niður á Flúðir, Selfoss og Hveragerði. Laugarvatn og Apavatn voru greinleg og speglaðist sólskinið í þeim. Í suðri grillti í haffötin í tæplega 50 km fjarlægð.

Í vestri var Skjaldbreiður og hafði maður á tilfinningunni að hún væri í seilingarfjarlægð. Það glitti í Þingvallavatn og lengra sáust Botnsúlur greinilega. Snæfellsjökull blasti við í vestri, formfagur og glæsilegur. Útsýnið náði sem sagt frá Snæfellsjökli og upp á Vatnajökul sem er nánast Ísland langsum.

 

ÍvarÁ leiðinni niður, neðan við fyrsta hjallann, mættum við pari á uppleið og í gantaskap sagði Ívar við þau að skilti væri nauðsynlegt þarna þar á stæði að bannað væri að snúa við. Útsýnið uppi væri svo frábært að engin mætti missa af því. Því miður sáum við síðar að þau höfðu einmitt snúið við og heykst á fjallgöngunni. En fjallið er auðveldara en virðist og uppgangan ekki eins hættuleg og á horfist í fyrstu.

Niður Lambadalinn sýndi hitamælirinn í bílnum 22°C í við Apavatn beið okkar heitur pottur og kaldur drykkur.

Á mánudeginum ókum við Stína heim á leið og ákváðum að fara Kaldadalinn yfir í Borgarfjörð. Enn var sama blíðan og nú blöstu sum fjöllin við okkur í austri  sem við höfðum horft á deginum áður í vestri. Þórisjökull, Prestahnúkur og reyndar Hlöðufellið sjálft. Þegar Jökuldalurinn er ekinn er farið á milli Oks og Þórisjökuls og fram hjá Prestahnúk og Eiríksjökli.

StínaDalasýslan var ekin og síðan var Kollafjarðarheiði farin yfir í Ísafjarðardjúp. Mælirinn sýndi yfir 20°C á háheiðinni þar sem góðkunningi okkar, Drangajökull, blasti við. Hrollleifsborg, Reyðabunga, Hljóðabunga og Jökulbunga. Upp rifjaðist ferð sem farin var um þessar slóðir um jónsmessuna s.l. Gott var að sjá afstöðu og fjarlægðir á milli þessara staða frá þessum sjónarhóli.

 

 

 

 

Lambadalur

 

 

 

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Djöfull er gaman að sjá hvað þið skötuhjúin eruð eiturhress.  Ég held svei mér að þið séuð að eldast í vitlausa átt.  Einhvernveginn minnir mig að þið hafið verið miklu eldri en þið lítið út fyrir að vera á þessum myndum.  Þið eruð ekkert að fótósjoppa þetta til, er það?

Þetta eru magnaðar slóðir, sem þið hafið verið að feta þarna.  Ég hef komið á flesta þessa staði í vinnunni. Ef það hefði ekki verið fyrir vinnuna, þá hefði ég varla séð neitt nema stéttina framan við húskofann.  Þetta er mér hvatning til að fara að gera eitthvað slíkt á eigin forsendum. 

Jón Steinar Ragnarsson, 24.7.2007 kl. 23:49

2 Smámynd: Gunnar Þórðarson

Hell og sæll Jón Steinar.

Ég þakka hólið en svarið er að sjálfsögðu neitandi með fótósjoppunina.

Ég er algerlega hugfanginn af Íslandi og hef verið lengi. Ísland í góðu veðri er stórkostlegt. En maður þarf að vera svolítið heppinn.

Undanfarin ár höfum við nokkrir góðir vinir labbað á fjöllin sem eru í bókinni hans Ara Trausta, 100 Íslensk fjöll. Við höfum stungið upp kollinum á fjöllum víða um landið, og smátt og smátt fær maður þrívildarmynd af Íslandi.

Einnig er það eitthvað sérstakt að ,,koma af fjöllum" þreyttur og ánægður. Það eru nokkur sannindi í því að til að njóta hvíldar þarf maður að verða þreyttur. 

Gunnar Þórðarson, 27.7.2007 kl. 11:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (1.5.): 5
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 30
  • Frá upphafi: 283937

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 30
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband