Í Landmannalaugum

Bláhnjúkur

BláhnjúkurÞað er um 5 tíma akstur í rólegheitunum úr Kerlingafjöllum í Landmannalaugar. Leiðin sem valin var lá í gegnum Flúðir og síðan ekið í gegnum Þjórsárdalinn og nyrðri leiðin tekin yfir hálendið á áfangastað. Við gáfum okkur samt tíma til að stoppa við Gullfoss og nutum þess að sitja við drunur fossins fagra í sólskininu.

Landmannalaugar og nágrenni er fallegasti staður landsins. Náttúrufegurðin er einstök með rauðum, bláum, grænum, gráum og svörtum litum. Maður þarf oft að klípa sig til að trúa eigin augum. Það ætti að gera heimsókn í Landmannalaugar að þegnskyldu á Íslandi. Engin fengi kosningarétt nema hafa upplifað einstaka náttúru og fegurð svæðisins. Það er hreinlega ekki hægt að upplifa sig sem Íslending án þess að heimsækja svæðið og ganga um það.

 

Tjaldið í LandmannalaugumVið komum á tjaldstæðið um eftirmiðdaginn og góður tími til að ganga á Bláhnúk sem rís í tæplega 1000 metra hæð yfir Landmannalaugum (570 m) Gangan er auðveld eftir góðum stíg sem liggur alla leið á toppinn. Veðrið var eins og best verður á kosið, heiðskýrt og 20°C. Útsýnið er stórkostlegt á toppnum og þar er skífa með örnefum náttúrfyrirbrigða sem þaðan sjást. Þar sem ferðinni var heitið á enn betra útsýnisfjall daginn eftir verður beðið með lýsingar á útsýni Bláhnúks sem þó nær frá Vatnajökli í austri, Hofsjökli í norðri og Heklu í austri. Hinsvegar er útsýnið yfir Landmannalaugar og nágrennis hvergi betra en af þessum tindi.

Þegar niður var komið var litið við í Fjallabúðinni (Mountain Mall) þar sem allar nauðsynjavörur fjallamannsins fást. Það sem gerir þetta skemmtilegt er að verslunin er staðsett í gömlu íshúsrútunni úr Hnífsdal. Þessi rúta sem um áraraðir ók starfsmönnum Hraðfrystihússins h/f til og frá vinnu liggur nú þolinmóð í hlutverki verslunar á fegursta stað landsins. Kaupmennirnir eru Ísfirðingar og enn aðrir voru að leysa þá af í sumarfríi.

RútanFleiri Ísfirðingar voru starfandi á svæðinu en landvörðurinn í Landmannalaugum heitir Palli og er sonur Ernis Inga. Hann var að koma frá því að merkja nýja gönguleið upp á Háöldu og spurði hvort við gætum prufukeyrt hana fyrir sig. Við hjónin vorum fýr og flamme til þess og samkvæmt leiðbeiningum áttum við að byrja á Laugarveginum, beygja til hægri þegar við sæjum gular stikur og síðan til vinstri þegar við kæmum að nýmáluðum rauðum stikum.

 

 

 

Háalda

Bent á LöðmundAllt gekk þetta eftir og toppnum var náð upp úr hádegi. Útsýnið er stórfenglegt og veðurguðirnir léku við hvern sinn fingur með hlýju og heiðskýru veðri.

Háalda er tæplega 1200 metra há og þar sést vel til allra átta. Í suðri er Torfajökull og Háskerðingur  og austar gnæfir Hrafntinnusker yfir. Lengra er Mýrdalsjökull og Eyjafjallajökull þar sem Fimmvörðuhálsinn liggur á milli.  Vel sést til Rjúpnafells í Þórsmörk og Tindafjallajökuls norðan við mörkina. Tindafjöll verða einn af næstu áfangastöðum mínum í fjallaferðum á Íslandi enda toga þessi glæsilegu fjöll í mann með tignalega tinda sína.

Í vestri er Hekla og nú sýndi hún sig topplausa og opinberaði glæsileika sinn með fannir niður undir miðjar hlíðar. Langjökull greinilegur í norðvestri og Hofsjökull austar með Hásteinum sem heilla fjallmann til heimsóknar. Arnarfell hið mikla sást vel en nær er eitt uppáhalds fjallið mitt sem var sigrað í fyrra, Löðmundur. Það er eitthvað einstakt og kynngimagnað við Löðmund þar sem hann vakir yfir Dómadal.

Vatnajökull var greinilegur með Þórðarhyrnu, Geirvörtum og Hágöngur sunnar en ógreinilega mátti sjá Bárðarbungu og Kverkfjöll norðar. Nær er Sveinstindur sem rís yfir Langasjó sem er eitt fallegasta svæði landsins. Ég fór í góðra vina hópi á Sveinstind fyrir tveimur árum og vorum við sammála um að þar drægjum við mörkin í virkjanaframkvæmdum. Ekki mætti hrófla við Langasjó.

Landmannalaugar 2007 012Það er erfitt að lýsa tilfinningum sem um mann fara við slíka sjónarveislu. Hvort sem litið var langt eða skammt. Nær sést vel yfir nágrenni Landmannalauga sem er eins og áður segir það stórkostlegasta í heimi.

Það er gleðirík ganga niður af Háöldu þar sem stefnt er á Laugarveginn suður undir Reykjadal. Fast undir fæti og stórkostlegt útsýni hvert sem litið er. Eftir að komið er inn á Laugarveginn hallar fljótlega undan fæti niður að Brennisteinsöldum, sem eru kafli út af fyrir sig. Litadýrðin er þannig að ef einhver listmálari málaði landslagið í réttum litum væri það kallað abstrakt. Það rýkur úr hverjum hól enda er svæðið eitt virkasta háhitasvæði landsins. Þegar komið er niður að stórum hver tókum við hægri beygju og stefndum niður í Grænagil. Það er réttnefni þar sem klettarnir eru raunverulega grænir en gilið endar þar sem uppganga hefst á Bláhnjúk. En sú ferð er að baki og nú er örstutt rölt eftir að tjaldstæðinu og þangað var komið sjö tímum eftir að gönguferðin hófst.

Landslag við LandmannalaugarÞað er notalegt að skella sér í laugarnar og láta þreytuna líða úr lúnum beinum áður en grillsteikinni er skolað niður með góðu rauðvínsglasi.

Um kvöldið fjölgar landsmönnum til muna í Landmannalaugum en mest er um útlendinga á virkum dögum. Á morgun er Laugarvegshlaupið og margir keppendur koma til að tjalda eða gista í Ferðafélagsskálanum nóttina fyrir hlaup. 140 keppendur tóku þátt að þessu sinni og undritaður lofaði sjálfum sér að vera með í þessu skemmtilega hlaupi frá Landmannalaugum í Þórsmörk fljótlega.

 

 

Stína við Brennisteinsöldur


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 25
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 25
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband