Í Kerlingafjöllum

Í KerlingafjöllumFerðinni var heitið í Kerlingafjöll og eftir sjö tíma akstur frá Ísafirði komum við þangað um hálf tíu að kvöldi, í 17°C og glampandi sól. Við hjónin höfðum mælt okkur mót við góða vini okkar, Ívar og Gerði sem höfðu dóttur sína Heru með til að klífa Snækoll. Eftir gott grill og fá rauðvínsglös var snemma lagst til hvílu og safnað kröftum fyrir morgundaginn.

Á miðvikudeginum viðraði vel til fjallgöngu, skaf heiðskýrt og hlýviðri. Eftir stuttan akstur upp að Keis, þar sem skíðamenn fyrri ára nutu samvista meðan enn var nægur snjór í Kerlingafjöllum, hófst fjallgangan. Hækkunin upp á tindinn er um sex hundruð metrar og var ákveðið að fara lengri leiðina upp á Fannborg og ganga þaðan upp á Snækoll. Fyrst er gengið á snjó sem var býsna góður yfirferðar að þessu sinni, blautur en þéttur og því góð ístaða. Síðan er komið upp á göngustíg í brattri skriðu og gengið í suður skáhallt upp fjallið. Framundan í suðri birtist nú drottning Íslenskra fjalla, Hekla, og virtist hún dulúðug í fjarlægðinni, sveipuð mistri og með skýjaslæðu yfir toppnum. Hún minnti á austurlenska hefðarmær sem ekki vildi bera sig frekar fyrir okkur, heldur fela kollinn á bak við slæðuna. Og nú tók hvert augnkonfektið við af öðru þegar ofar dró í brekkuna og víðar sást yfir hálendi Íslands.

Stína og KerlingafjöllKerlingafjöll eru miðja Íslands og Snækollur er besti útsýnisstaður landsins. Þegar þangað var komið í tæplega 1500 metra hæð hefur maður fósturjörðina að fótum sér. Í heiðskíru og góðu skyggni sést víða um frá toppnum. Í austri er Hofsjökull með jökulskerin Tvísker og yfir Tungnafellsjökli gnæfir Arnarfell hið mikla. Lengra í burtu sést til Kverkfjalla í Vatnajökli og sunnar glittir í Sveinstind sem er í 75 km fjarlægð og ber við Þórisvatn. Nær og sunnar er Löðmundur í 64 km fjarlægð sem vakir yfir Dómadal. Í suðri er Hekla, eins og áður segir, en nær og vestar sést Búrfell vel. Í suð-vestri er Bláfell og norðan þess tekur við Langjökull. Yfir Langjökli í vestri gnæfir Eiríksjökull upp í 1680 metra hæð og norðar og nær er Hrútsfell. Lengst í norðri sést þokan sem liggur yfir sjávarsíðu norðurstrandarinnar um þessar mundir.

Hópurinn á SnækolliÍ næsta nágrenni er Loðmundur sem er tignalegur klettur í Kerlingafjöllum og þekkist víða langt að. Hann er heldur lægri en Snækollur og þykir ekki eins góður útsýnisstaður. Nær í austri er Fannborg og í fjarska sést niður í tjaldstæðið við þorpið í Kerlingafjöllum.

Þetta er æðislegt útsýni yfir fallegasta land í heimi. Hvergi sést í mannvirki, fyrir utan tjaldstæðið fyrrnefnda, og ekki að sjá að Íslandi hafi verið spillt. Þetta er betra en að vinna landsleik í knattspyrnu. Að hafa hálft Ísland að fótum sér gerir mann að Íslendingi. Ég er yfir mig ánægður með landið mitt.

 

 

Ívar ljósmyndariAllt þetta snart strengi í hjarta vinar míns Ívars sem ekki lærði bara á skíði í Kerlingafjöllum heldur lærði að meta íslenska náttúru. Eða eins og hann segir sjálfur; ,,að ÞRÁ Íslensku fjöllinn og jöklana". Hræður sagðist Ívar oft sakna Kerlingafjalla, fallegasta staðar á jörðinni. Í minningunni svífur hann niður allar skíðabrekkurnar hvort sem það er niður Fannborgu eða niður í Nigeríu. Sumar eftir sumar fór hann í Kerlingafjöll og naut fjallamennsku á skíðum og gleði og söngs á kvöldin. Til að gleyma aldrei hvað toppar Kerlingafjalla heita lærði hann eftirfarandi lag, sem hann nú söng hástöfum á toppi Snækolls.

 

 

Lag: Litla flugan

Loðmundur á litla Snót að vinu
lætur Snækoll fóstra Úril sinn
Vesturgnípa syndir í sólskininu
þar sit ég ein með skíðabúnað minn.
Einhvern tímann allar brekkur svif ég
óttalaus þótt Fannborgin sé brött
Einhvern tímann alla toppa klíf ég.
Ögmund, Mæni, Röðul, Tind og Hött.
og marga fleiri...
Ögmund, Mæni, Röðul, Tind og Hött.

Eftir góða fjallgönguEftir fjallgönguna var farið í heita pottinn í Kerlingafjöllum og látið líða úr þreyttum vöðvum eftir frábæra fjallgöngu. Síðan grillað og skrafað fram á kvöld í góðra vina hópi. Hetja dagsins var þó Hera sem ung að aldri var að ljúka við sína fyrstu fjallgöngu. En ef að líkum lætur verður það ekki sú síðasta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 26
  • Frá upphafi: 283938

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 26
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband