Enn og aftur á toppinn

Gengið á Eyrarfjall

Ísafjörður2Mánudaginn 8. júlí gengum við Simbi félagi minn á Eyrarfjall við Ísafjörð. Fjallið er 725 metra hátt og gnæfir yfir Eyrinni á Ísafirði. Sannkallað bæjarfjall.

Það eru nákvæmlega sex ár síðan ég kom bók fyrir í vörðu á toppnum og koma að meðaltali þrír til fjórir á ári til að skrifa í hana. Það eru ekki margir miðað við útsýnið sem þarna er en ugglaust hefur skriðu klöngrið upp fjallið letjandi áhrif á Ísfiska fjallgöngumenn. Fyrir þá sem lesa þessar línur skal nú reynt að lýsa bestu leið á toppinn, en slík ferð er fær flestum og er ekki hættuleg, en svolítið erfið.

Best er að byrja við gömlu réttina utan til við Grænagarð. Þangað liggur vegslóði sem gott er að geyma bílinn á. Áður en lagt er af stað er gott að virða fyrir sér fjallið og ef Gleiðahjallanum er fylgt inn eftir firðinum kemur í ljós klettaborg mikil í sömu hæð en innar. Handan við smá gil kemur önnur minni sem liggur alveg við Hrafnagil en á milli þeirra er best að fara.

Í urðinniÞá er bara að halda af stað og best að halda upp utan til við Hrafnagilið og sveigja aðeins í austur til að losna við klettabelti næst Hrafnagili. Þegar komið er að áðurnefndum klettaborgum, sjást mjög vel frá Ísafjarðarbraut, er auðvelt að fara upp á milli þeirra. Upp á minni borginni, þeirri innri, er rétt að kasta mæðinni en hún er nokkuð slétt og grasi gróinn.

Nú þarf að fara yfir Hrafnagilið en 8. júlí var það á snjó. Þetta virkar bratt en er að öllu leiti hættulaust. Velja þarf góðan stað til að fara upp á brúnina innanvert við gilið og nú skána aðstæður nokkuð. Sveigt er aðeins inn fyrir og sést nokkuð vel hvar aflíðandi skriðu dæld liggur alla leið á toppinn dálítið fyrir innan gilið. Óljóst má sjá leifar af stiku 70 metrum neðan við brúnina en sú sem gnæfði við himinn á brúninni sjálfri er horfin. Nokkuð fast er undir fót síðasta spölinn og ekkert klifur nauðsynlegt. Passa bara að halda sig innan til við klettana sem eru upp af Hrafnagili.

Í klettunumÞegar við félagar komum á toppinn í þetta sinn var glampandi sól kl. 20:00, logn og 15° C hiti. Stutt ganga er út fjallið að tveimur vörðum á brúninni, sem reyndar sjást ef vel er gáð frá neðri bænum á Ísafirði. Í stærri vörðunni er kaffibrúsi frá Íshúsfélagi Ísfirðinga og þar er bókin góða til að skrásetja afrekið.

Útsýnið er ægifagurt frá þessum stað. Vel sést upp í Tungudal og Engidalur opnast vel á móti manni. Rétt glittir í Þóruskarð sem liggur yfir í Álftafjörð. Sauratindar gnæfa yfir umhverfinu enda hæstu tindar í kringum Ísafjörð, 856 metrar á hæð.

 

 

Gunnar við vörðunaVel sést yfir á Drangajökul en ganga þarf smá spöl til að sjá ofan í Hnífsdal og norður fyrir Eyrarfjall.

En Skutulsfjarðareyrin er það sem tekur athyglina og byggðin inn Seljalandsveginn og síðan Holtahverfið. Æskuslóðirnar við fætur mínar, Vinaminni og minning um búskap hjá Kitta Gauj á Hlíð. Þarna höfðu flest húsin nöfn eins og Skriða, Strýta, Litlabýli, Engi og Grænigarður. Partur af gamalli sveitahefð á Íslandi sem gaman er að halda í.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 26
  • Frá upphafi: 283938

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 26
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband