Ferð Hallgrímis bláskós um Strandir

Strandaferð 2007

HornstrandirÁrleg gönguferð Hallgríms Bláskós var um Árnes- og Kaldrananeshrepp og síðan norður á Strandir. Það vantaði fjóra upp á að liðið væri fullskipað en ýmislegt getur komið upp á hjá 18 manna hópi þannig að fólk eigi ekki heimangengt. Eitthvað hefur hirðskáldum hópsins fundist ástæða fjarvista að þessu sinni vera misjafnlega merkileg þar sem aðeins var samin vísa um annan helming Hallgrímingja.

 

Ráðherra í ríkisstjórn

Ræðir þorsk og löngu

Færir sjálfur mikla fórn

Og frestar strandagöngu

(Hanna Jóhannesdóttir)

Miðvikudagurinn 4. júlí

Hópurinn hittist í súpu á Laugarhóli í hádeginu hjá vini okkar Mathias hinum franska. Alltaf sama góða viðmótið á þeim bænum og ekki sveik fiskisúpan að þessu sinni frekar en endranær.

Það var byrjað að rigna eftir mánaðar sólskin og veðurútlit alls ekki glæsilegt en næst var ferðinni heitið í Kaldbaksdal þar sem gengið var upp dalinn að Fossum. Þetta er drjúgur spölur en vel göngunnar virði, enda fossarnir í dalbotninum eftirminnilegir og fallegir, og reyndar fossar niður allar hlíðar hvert sem litið er í dalbotninum.

Þetta var gleðirík ganga og næsti áfangastaður var Norðurfjörður þar sem slá átti upp tjaldbúðum.

Þegar þangað var komið var komin súldarfýla með vaxandi rigningu. Ekki glæsilegt til að tjalda og því var ákveðið að fá inni í sæluhúsi Ferðafélagsins í Norðurfirði. Þetta var skynsamleg ákvörðun enda komin úrhellisrigning um kvöldið.

Fimmtudagurinn 5. júlí

Fjallganga var fyrirhuguð að morgni en súld og þokufýla sem náði niður í hundrað metra hæð gerðu það lítt áhugavert. Því var ákveðið að halda sig nær sjávarborði og var fyrst rennt að Gjögri þar sem við keyptum okkur hákarl, harðfisk og rauðmaga. Það er mikilvægt að ferðamenn opni budduna á svona stöðum og auki hagvöxt á svæðinu. Við áttum skemmtilegt spjall við gamlan togarajaxl sem nú eyðir öllum sumrum á æskuslóðunum í Gjögri. Hann heitir Garðar og er alltaf á leiðinni norður í Reykjafjörð á Ströndum til að hitta gamlan félaga sinn Ragnar Jakobsson. Við lofuðum honum að skila kveðju okkar þegar þangað kæmi.

Í kirkjunni í TrékyllisvíkNæst var farið í Trékyllisvík og komið við í handverks- og safnahúsinu Kört. Þar blasir sagan við og ung stúlka sagði okkur sögur úr hreppnum og hvatti okkur meðal annars til að skoða báðar kirkjurnar á staðnum. Miklar deilur komu um á níunda áratug síðustu aldar í sókninni sem endaði með því að ný kirkja var byggð handan við götuna frá þeirri gömlu, sem andstæðingar nýbyggingar tóku að sér að endurbyggja. Gamla kirkjan er byggð 1850 og því verið mikið menningarslys ef hún hefði verið rifin eins og til stóð. Hópurinn söng eitt vers úr sama sálminum í sitt hvorri kirkjunni við undirleik kirkjuorganistans úr Bolungarvík, sem er er einmitt einn af göngufélögunum.

Næst var komið við á Kúvíkum þar sem áður var verslunarstaður. Þarna var m.a.gert út á hákarl þar sem lýsi var brætt og selt til útlanda. Inn var flutt nauðsynjavara í staðin, eins og mjöl og efni. Garðar vinur okkar frá Gjögri er einmitt afkomandi stórkaupmannsins Thorarensen sem höndlaði þarna í sex áratugi.

Hópurinn hafði viðkomu á Hótel Djúpuvík áður en haldið var í sundlaugina að Krossnesi. Eftir notalegt svaml í þessari einstöku laug sem liggur alveg niður við sjávarbakkann áttum við stefnumót í Norðurfirði við þá félaga Reimar og Sigurð, skipverja á Sædísinni, en nú var ferðinni heitið til Bolungarvíkur á Ströndum.

ReimarReimar er öllum hnútum kunnugur á þessum slóðum og þekkir skerin, sem nóg er af, eins og handarbakið á sér. Reimar var aðeins sjö ára þegar faðir hans, Vilmundur Reimarsson tók hann með á sjóinn og kenndi honum að lifa við illskeytt náttúröflin á Hornströndum. Vilmundur var sonur stórbóndans Reimars í Bolungarvík og óhætt að segja að hver kynslóðin taki við af annarri í þeirri sveit. Sonur Reimars skipstjóra á Sædísi, Vilmundur, er aðeins níu ára gamall en tekur þó hraustlega til hendinni við rekstur ferðaþjónustunnar í Bolungarvík. Þegar er farið að segja af honum sögur og sverfur hann sig því í ættina hvað það varðar. Það er dýrmætt fyrir vestfirskt mannlíf að hafa slíka dugnaðarforka og skemmtilega menn eins og þessir feðgar hafa allir verið. Vilmundi eldri kynntist ég ágætlega og hitti hann í 75 ára afmælisveislu hans sem haldin var í Bolungarvík við Ísafjarðardjúp. Hann sagði mér sögu af föður sínum sem þurfti að sækja lambhrút, vel hyrntan, norðan úr bænum í Bolungarvík, að seli við sunnanverða víkina sem var þar sem ferðaþjónustan er í dag. Það var snar vitlaust suðvestan rok og ekki stætt í hviðunum. Reimar hélt þéttingsfast í horn hrútsins en höndin stóð lárétt út í hviðunum. Þegar hann kom að selinu hélt hann enn á hornunum en hrúturinn var fokinn út í veður og vind.

SiggiÞað var norðaustan geljandi þegar við tókum land í Bolungarvík og smábrot á báru þegar siglt var inn fyrir skerin utan við bæinn. Sigfríður húsfreyja tók vel á móti okkur með rjúkandi kaffi sem var vel þegið í súldarfýlu og regni. Það bætti í rigninguna og því var ákveðið að fá inni hjá Sigfríði enda húsið laust. Við höfðum nægan grillmat og góðar beljur til að skola honum niður og endaði kvöldið með söng langt fram eftir kvöldi. Sigfríður hafði laumað gítar í trússið okkar til að hægt væri að ,,halda réttu stemmingunni" eins og hún orðaði það.

Föstudagur 6. júlí

Við höfðum pantað morgunverð hjá Sigfríði áður en haldið yrði gangandi í Reykjafjörð. Eitthvað hefur veðrið verið hryssingslegt þennan morgun þar sem aðeins þrjú gengu af stað í suddanum áleiðis út fyrir Drangsnes með stefnu á Bolungarvíkurófæru á leið til Furufjarðar. Eitt hirðskáld hópsins varð þá að orði:

Hallgríms hróður allur dvín

Hallar ævi aumra skara

Að láta þetta sjást til sín

Að sofa, éta og labbabara

(Viðar Konráðsson)

Áður hafði nýyrðið ,,Labbabara" orðið til en það er hugtak sem þýðir að labba án þess að hafa stefnu eða tilgang. ,,Rabbabara" er þá einskis nýtar samræður um allt og ekkert. Eitt annað nýyrði heyrðum við síðar í Reykjafirði sem er ,,Labb Rabb" sem þýðir að labba og rabba saman.

En hin þrjú fræknu lögðu semsagt af stað í þoku og súld en þegar komið var í Furufjörð var alveg stytt upp. Húsbændur á bænum í Furufirði buðu okkur í hús og gáfu hetjunum kaffi. Við göntuðumst á kostnað samferðamanna okkar og sögðum þeim að ,,gamla fólkið" hefði ekki treyst sér í blautu morgunveðrinu.

Við ákváðum þó að halda yfir Svartaskarð þar sem blautir og sleipir fjörusteinarnir eru erfiðir yfirferðar. Hugmyndin var að ganga Könnuleið en það verður að bíða seinni tíma. Eftir að hafa vaðið Furufjarðarósinn var bærinn horfinn í þokunni og við uppgötuðum eftir korters gang að stefnan var vitlaus upp á einar Vilmundur Reimarsson90°. Þegar við kveiktum á GPS tækinu vorum við komin vel áleiðis upp í Furufjörð.

Stefnan var leiðrétt og í 200 metra hæð fundum við slóðann og fylgdum honum yfir skarðið. Blinda þoka var allan tímann en slíkt skiptir ekki máli þegar menn eru vel tækjum búnir. Í 200 metra hæð í Þaralátursfirði létti þokunni og ágætt skyggni var yfir fjörðinn. Þaralátursós var í minnsta lagi þennan dag og létt verk og löðurmannlegt að vaða hann. Aftur var stefnt upp í þokuna á Þaralátursnesi og fljótlega sáum við bæina í Reykjarfirði. Við ræddum á leiðinni hvort boðið yrði upp á pönnukökur, snúða eða vínarbrauð þegar við kæmum heim á bæ. Þegar komið var heim til Lillu og Ragnars voru það einmitt nýbakaðir snúðar og vínarbrauð sem biðu þreyttra göngumana eftir góða göngu úr Bolungarvík. Það var einn félagi í Hallgrími sem sagði að engin ætti að koma óþreyttur í Reykjafjörð. Þá vantar alla stemmingu til að njóta gestrisni þeirra hjóna og síðan sundlaugarinnar á eftir.

Í SvartaskógiÞegar hin þrjú fræknu höfðu hesthúsað góðgætið hjá Lillu sáum við hvar megin hluti hópsins kom,,hæðandi yfir æðina" til að fara í sund. Það var ekkert annað að gera en skella sér með í laugina. Á eftir beið okkar kvöldmáltíð hjá Lillu og því litlar skyldur á kokkum og uppvöskurum hópsins þetta kvöld. Við vildum auka hagvöxt í Reykjafirði.

 

 

 

Laugardagur 7. júlí
 

ÖllubúðVið höfðum ætlað að ganga á Geirhólm, eða Þorsteinsþúfu eins og nútímamenn kalla það, en þoka og súld voru enn að stríða okkur. Við ákváðum því að halda okkur innan landamæra Reykjafjarðarbænda en ganga yfir Þaralátursnes yfir Meinþröng sem er skarð yfir í Þaralátursfjörð. Ágætt veður var innan til í firðinum og var m.a. keppt í svokölluðu Strandagolfi. Flosi var öruggur sigurvegari enda náði hann hárréttri sveiflu með rótarhnyðjunni sem notuð var sem kylfa.

 

 

Urtan í Reykjafirði

Rigningarsuddi og súldarfýla var út á Þaralátursnesinu þegar við gengum fyrir það. Þetta er svona ,,annes" en þar áttu skúrirnar og þokuloftið að vera þennan daginn ef marka mátti veðurspána. Þegar við komum í Hleinina þar sem höfnin í Reykjafirði er var veðrið mun betra. Selveiðamenn voru að koma að landi eftir að hafa dregið netin. Þeir höfðu fengið sex seli í þetta sinn, fjóra kópa og tvær gamlar urtur. Kóparnir verða étnir en aðeins hirtir hreyflarnir (hreifarnir) af gömlu selunum. Það er gaman að sjá þegar yngri menn viðhalda verkþekkingu frá gamalli tíð og nýta landið og miðin til matar.

Stína og RagnarEnn meira sund og síðan var grilluð stórveisla að hætti Gunnu Magg. Um kvöldið var varðeldur sem Ragnar hafði hlaðið fyrir okkur um morguninn og síðan sungið og trallað fram í nóttina.

Sunnudagur 8. júlí.

Enn var bætt við hagkerfið í Reykjafirði þegar hópurinn mætti í morgunmat hjá Lillu. Þar var meðal annars boðið upp á fíflamauk sem búið var til úr blómum fífla. Minnti svolítið á eplamauk en var firnagott á nýbakaðar skonsur sem komu rjúkandi heitar af grillinu.

Við komum við á Dröngum með Sædísinni á leið í Norðurfjörð þar sem bílarnir biðu okkar. Það var komin sól og blíða í Bjarnafirði og bongóblíða í Ísafjarðardjúpi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 25
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 25
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband