Gengið yfir Þóruskarð

SkutulsfjörðurSunnudaginn 1. júlí s.l. lögðum við fjögur af stað úr Skutulsfirði áleiðis yfir Þóruskarð í Álftafjörð. Meiningin var að heimsækja vini okkar í meiri Hattadal sem þar eru óðalsbændur. Engin okkar hafði farið þessa leið áður en hún er ekki fjölfarin einhverja hluta vegna.

Við byrjuðum á að aka upp úr Engidal í rúmlega 200 metra hæð áleiðs að Fossavatni. Þar var bíllinn skilin eftir og gengið í vestur, fyrir mikla klettaborg, þar sem Þóruskarð opnast í suðri. Ekki var skarðið árennilegt, séð upp dalinn, en það virtist krýnt háum klettum frá austri til vesturs. Þegar nær dró vakti skafl athygli okkar sem góð uppgöngu leið, vestan til við sjálft skarðið.

Skutulsfjörður 2Þangað stefndi hópurinn og við karlmennirnir skiptust á að troða sporin en skaflinn varð æ brattari þar til hallinn var orðin um 30°. En snjórinn var þægilegur til að móta fótaför og ferðin gekk vel þar til komið var upp í kletta og þaðan lá greið leið upp í 750 metra hæð. Við enduðum heldur hærra en skarðið sjálft og þurfti að fara niður nokkra tugi metra til að komast niður í það.

Útsýnið á björtum og hlýjum sumardegi er stórkostlegt úr Þóruskarði. Í norðri má sjá Kistufell og Þjófana þaðan í austur þar sem Eyrarfjallið tekur við. Eyrarfjall er ásamt Kubbanum bæjarfjall Ísfirðinga og rís hátt yfir kaupstaðnum. Nær okkur eru skíðasvæði Ísfirðinga í Tungudal og á Seljalandsdal. Þar má sjá Sandfellið og ofantil og vestar er Miðfellið. Enn vestar er Búrfell og sunnan við það er Þverfjall. Þetta er mikill fjallahringur sem umlykur skíðaparadís Ísfirðinga og ekki laust að hjarta skíðamannsins taki kipp við útsýnið.

Í suðri er Álftafjörður með Seljadal að fótum okkar og hinu megin í firðinum er Hattadalur með sitt þríbýli. Skógi vaxinn dalur með myndalegri á sem liðast í gegnum kjarrið og dreifir sér síðan við ósaurarnar. Í suð- vestri glittir í Glámuhálendið með snjóbreiður, en ekki er langt síðan þar hefur verð myndalegur jökull sem mótað hefur firði og flóa í allar áttir frá Snæfríði og Glámu.

ÁlftafjörðurFljótlega eftir að ferðin hófst niður er komið að klettabelti sem þurfti að klöngrast niður. Þetta er heiglum hent og lítið mál og reyndar mun auðveldara en það lítur út í fyrstu. Auðveld ferð er niður dalinn og ef haldið er vel vestan við ánna sleppur maður við að brjótast í gegnum kjarrið, sem liggur neðst í dalnum. Fljótlega er komið á slóða sem liggur frá þjóðveginum upp í Valagil sem er mikil klettaborg innar í Seljadal. Sennilega hefur gilið orðið til í miklu flóði þegar jökulhaft hefur gefið sig eftir lok síðustu ísaldar.

Þegar komið var niður á þjóðvegin beið bóndinn í meiri Hattadal eftir okkur til að skutla hópnum síðustu metrana heim á bæ. Þar biðu kræsingar sem bættu vel upp orkutap gönguferðarinnar, sem tók rúma fjóra tíma.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: IGG

Þið eruð nú meiri fjallageiturnar. Maður veit hvert á að leita eftir upplýsingunum þegar feta skal í fótspor ykkar. Kveðja,

Ingibjörg G.G.

IGG , 4.7.2007 kl. 10:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 26
  • Frá upphafi: 283938

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 26
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband