Skrímsli á Hornströndum

gurka

Í gúrkutíð

Í þeirri gúrkutíð sem landsmenn upplifa þessa dagana tel ég nauðsynlegt að leggja svolítið  til skrímslamála. Nú er einmitt tími Hornstrandaferða og nauðsynlegt að ferðamenn sem þangað ætla, þekki og kunni að varast hættulegustu skepnur sem þar kunn að leynast.

Fólki er ráðlagt að taka þetta alvarlega og læra þá skyldhjálp sem nauðsynleg er. Engar merkingar eru á staðnum til að vara við þessum skepnum, sem er auðvitað forkastanlegt. Sérstaklega í ljósi þess að ekki er GSM samband á Hornströndum.

 

Nennir

Nenni svipaði mjög til venjulegs hests, gráleitur en þó sögðu menn að hann skipti lit og væri stundum móálóttur.  Hófarnir snéru aftur og hann hafði kýrhala í stað tagls, en illt gat verið að koma auga á það. 

Nennir hélt sig ávallt nálægt vatni og einn bjó lengi í Staðarvatni við Sæból.  Hann sást sjaldan með öðrum hrossum en ef svo bar til stóð hann ætið vatnsmegin við stóðið.  Ef gerður var róðukross yfir stóðið þá stökk hann í vatnið og ef menn voru snöggir til, mátti sjá á granir hans í vatnsskorpunni. 

Hann sást aldrei að vetri til en var oft á ferðinni á haustin eftir að dimma tók.  Einkum varð hans vart á svæðinu frá Fannadal, framan Staðar, og inn að svokölluðum Hundamúlum.  En þetta var á almannaleið milli Hesteyrar og Aðalvíkur.  Oft kom það fyrir að smalar týndust á þessu slóðum og fundust hvergi þó þeirra væri leitað.  Saga er til um grasafólk sem lét glepjast af nennir skammt frá Sléttu.  Þegar komið var fram á kvöld og fólkið ætlaði að fara að tygja sig heim, gerði svo dimma þoku að erfitt var að rata.  Varð einhverjum að orði að gott væri ef hann " Prest gráni" væri nú komin, því auðvelt myndi honum að komast heim.

Viti menn stendur ekki grár hestur við hlið þeirra og voru þau ekki lengi að drífa sig á bak.  Bakið var mjúkt sem dúnkoddi og en ekki sá fólkið á hófana þar sem hesturinn stóð í aurbleytu upp fyrir hófa.  En þegar hann lyfti einum fætinum sá einn þeirra sem á bak var komin að hófarnir snéru öfugt og hrópaði upp fyrir sig.  "Guð minn góður, þetta er nennir".  Sem hann heyrir nafn sitt tekur hann á stökk og var sem fólkið væri límt við bakið á honum, en þó tókst öllum nema tveimur að losa sig af.  Skipti engum togum að nennirinn hvarf með pilt og stúlku en restin af hópnum kom skelfingu lostin heim seint um kvöldið að Sléttu.  Aldrei spurðist til þeirra tveggja sem nenninum fylgdu en þó fannst skúfhólkur með fangamarki stúlkunnar við Teistavatn löngu seinna, og vissu menn þá að þeim hafði verið drekkt þar en ekki í Staðarvatni.

 

Fjörulalli:

HornstrandirAllt fram að miðri 19. öld urðu menn á Hesteyrir mikið varir við einkennilega ófreskju sem kom úr sjónum.  Þetta var fjörulalli.

Fjörulalli var á stærð við meðalmann, einfættur og einhentur með eitt auga á miðju enni.  Hann sótti mikið á að hrekja menn og skepnur í sjóinn, en ekki mátti hann missa sjónar á sjónum.  Hyrfi honum sjórinn, átti hann að missa allan mátt en væri honum vatn nálægt var trú manna að hann hlypi í það og yrði að nykri, og úr því ásigkomulagi kæmist hann aldrei.

Oftast sást fjörulalli á Hesteyri í hafvestanhvassviðri að haust- og vetrarlagi, og þá helst á svæðinu frá svonefndum Hreggnasa út af Kálfshamarsparti.  Oft sást hann á svæði því, er Auðnir nefnast, þar sem Hesteyrarkirkja stóð, áður en hún var flutt til Súðavíkur.  Mest bar á ferðum hans undan og eftir sjóslysum á Jökulfjörðum.

Lenti maður í fjörulalla var ráð að hleypa honum aldrei landmegin við sig og halda honum til sjávar.  Annars hrakti hann mann umsvifalaust í sjóinn.  Vörn var að snúa ætíð hægri hlið að óvættinni og banda gegn henni með hægri hendi, sem menn signa sig með.  Væri fjörulallinn ekki kominn lengra en þrjú skref landmegin við manninn, var óbrigðult ráð að gera róðukross með þrem fingrum hægri handar beint á einglyrnuna.

 

Einfótungur:

SkrímslÁ Kistufelli við Hesteyri er talið að ófreskja hafi búið sem kölluð var einfótungur.  Óvættur þessi hafði drepið margan ferðalanginn sem leið átti inn Hesteyrarfjörð.  Fundust menn stundum illa útleiknir, brotnir og kramdir og augljóst að þeir höfðu lent í klónum á miklum óvætti.

Einfótungur var eins og nafnið bendir til, með einn fót og sáust fótspor hans oft, á stærð við kerald, og minnti höfuðið á hestshaus.

Bóndi nokkur er Jón hét og var frægur m.a. fyrir að drepa bjarndýr, með hníf einan að vopni, átti eitt sinn leið á Kistufell til að leita ásauða.  Hann var hreystimenni mikið og kunni ekki að hræðast.  Þegar Jón skilaði sér ekki var hafin leit að honum og sáust glögglega merki mikilla átaka á fjallinu.  Fundu menn Jón örendann, en föt hans voru alblóðug og sundurrifin og var hann marinn og kramin til dauða.

Skammt þar frá fundust spor eftir einfótunginn, alblóðug og lágu til fjalls.  Ekki urðu menn varir við einfótunginn síðan og var talið víst að Jón hefði gengið að honum dauðum.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Þórðarson

Það er rétt að taka því fram að þessar sögur eru endursagðar eftir Hornstrendingabókum, Þorleifs Bjarnasonar

Gunnar Þórðarson, 27.6.2007 kl. 08:36

2 Smámynd: Gunnar Þórðarson

Þetta er áhugavert. Einfótungur hefur verið bísna skæð skepna. Ég hef oft gengið um þessar slóðir, í kringum Kistufell, en aldrei séð nein ummerki um hana. Ætli þessar skepnur hafi ekki horfið með rafmagninu, eins og álfar og draugar?

Gunnar Þórðarson, 28.6.2007 kl. 07:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 34
  • Frá upphafi: 283960

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 34
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband