Ferð á Drangajökul

Lagt af staðÉg hef ekki verið mönnum sinnandi í nokkur ár vegna ókláraðs afreks. Allt frá því að kunningi minn, Jón Páll Halldórsson, sagði mér að hann hefði sofið í snjóhúsi uppi á Drangajökli, hefur mér fundist ég ekki vera maður með mönnum. En um síðustu helgi fékk ég uppreisn æru og er nú kominn í hetjuklúbbinn.

Það er gott að eiga góða vini sem eru til í að fylgja manni á heimsenda í ævintýraleit. Við vorum þrenn hjón sem lögðum í hann upp úr Kaldalóni síðdegis 22. júní áleiðis á Drangajökul og skyldi nóttinni eytt á jöklinum enda veðurútlit gott.  Áður en bílstjórarnir, sem óku okkur inn í Lón, voru kvaddir var það mitt síðasta verk að taka tjaldið úr bakpokanum og henda því inn í bíl. Tjaldið var óþarft og í þetta sinn skyldi treyst á snjóhús fyrir náttstað.

Það var hæg vestlæg gola og 16° hiti með glampandi sól þegar hópurinn lagði af stað fram Kaldalón með skíðin bundin á bakpokana. Í 200 m hæð vorum við komin í snjólínu og skíðin sett undir. Fyrst stefnt í norður en fljótlega tekin stefnan á Hrolleifsborg með GPS tækinu. Ekkert kennileiti er á leiðinni upp og aðeins jökulbrúnin sem ber við himin. Engin misfella á jökulbrúninni þó greina megi Jökulbungu norðan við stefnuna. Endalaus aflíðandi brekkan en fjarlægð í borgina frá snjórönd er 8 km.

JökulsprungaÞegar stutt er eftir upp á austurbrún jökulsins kemur Hrolleifsborg í ljós og nær ber Reyðarbunga við hana. Í glampandi sól og hægri norðan golu var ákveðið að setja upp búðir við Reyðarbungu. Félagar mínir slógu upp tjöldum en ég gróf grunna holu sem rúmaði tvo, mig og konuna. Snjórinn var ómögulegur til snjóhúsagerðar og þá var bara að láta slag standa og sofa undir berum himni.

Eftir ljúffengan kvöldverð var lagt af stað upp á Hrolleifsborg á skíðum. Útsýnið var ótrúlegt enda himinn skafheiður og kvöldsólin hátt á lofti í rúmlega 800 metra hæð.

Þegar ég sat þarna á Hrolleifsborg og komið fram undir miðnætti og horfði á sólina í norðri og skuggann falla til suðurs, varð mér hugsað til staðar hinu megin á hnettinum. Kamchatka í Rússlandi þar sem ég bjó í tæpt ár frá 1995 til1996. Um þetta leiti var komið fram undir hádegi hjá íbúum þar og sólin í suðri eins og vera ber. Hún nær bara að skína yfir norðurheimskautið og alla leið á Hrolleifsborg um jónsmessu á Íslandi.

Það rifjaðist upp fyrir mér þegar ég fór síðustu ferðina frá Petropavlosk áleiðis til Seattle í BNA, á leið minni til nýrra heimkynna í Mexíkó. Ég lagði af stað fljúgandi frá Kamchatka klukkan fimm í eftirmiðdaginn á föstudegi með þotu og stefndi í austur. Þennan sama dag klukkan fjögur um nóttina millilentum við í Anchorage í Alaska og síðar þennan sama dag og ferðin hófst, klukkan sex um morguninn, lenti ég í Seattle. Ég lenti sem sagt 11 tímum áður en ég lagði af stað og fékk því að upplifa þennan föstudag tvisvar. Galdurinn við þetta er að fljúga yfir daglínu eitt sem liggur austur undan ströndum Kamchatka þar sem hver nýr dagur hefst á jörðinni.

Við HrollleifsborgÞað var komið hjarn við holuna góðu þegar við komum í náttstað enda var hún í skugga af  Reyðarbungu. Þokuslæða læddist upp jökulinn og sló kynngimagnaðri birtu á umhverfið þar sem Borgin gnæfði yfir okkur. En svefnpokinn var notalegur og hlýr og ekki væsti um okkur á jöklinum þessa nótt. Sólin hafði svifið 90° yfir svefnstaðnum um himinhvolfið meðan við sváfum og hlýir geislar hennar yljuðu andlitið í morgunsárið. Ég ætlaði ekki að tíma að fara á fætur um morguninn, það var svo notalegt í holunni góðu.

Hafragrauturinn var eldaður og kaffi á eftir. Herramaðurinn færði konu sinni hressinguna í rúmið. Og nú var lagt af stað í norður yfir Jökulbungu sem er hæsti punktur Drangajökuls, 925 metrar yfir sjávarmáli. Ferðinni var heitið í heimsókn til vina okkar í Leirufirði, Sólbergs og Lucy.

NáttstaðurinnEnn var sól og blíða en vindur hafði snúist í suð- austur. Þegar toppnum var náð tók við þægilegt rennsli niður í Leirufjörð og farið vel norður fyrir skriðjökulinn. Hádegisverður var snæddur við jökulrönd og síðan haldið af stað fótgangandi niður í Leiru. Hitinn var kominn í 15° og sjónarveisla hvert sem litið var yfir jökulinn og Leirufjörð. Við slíkar aðstæður er gengið hægt og augnabliksins notið. Við stoppuðum við fyrsta lyngholt og tókum síestu (hádegislúr) í hálftíma. Þetta er lífið eins og það gerist best. Engir peningar eða lúxus í veröldinni jafnast á við slíka göngu í góðra vina hópi, dásamlegu sumarveðri og óviðjafnanlegri náttúru Íslands.

Sólberg og Lucy áttu von á okkur að Leiru og voru gestgjafar okkar fram á sunnudag. Það var alveg á hreinu og skilaboðin voru að taka engar vistir með okkur í þessa heimsókn. Og þvílíkt og annað eins, borðin svignuðu undan veigunum. Ásgeir Sólbergsson sá um grillið og enginn kokkur norðan Alpafjalla hefði töfrað fram betri steik, og ekki spilltu allar sögurnar á meðan eldamennskan stóð yfir. Þetta voru góðar stundir á Leiru. Í dagrenningu beið okkar morgunverður eftir góðan nætursvefn og hádegissnarl í framhaldi af  því.

Á HrolleifsborgGestgjafar okkar sáu síðan um að skutla okkur um borð í  m/b Sirrý sem sótti okkur á flóðinu upp úr nónbili. Eftir smá björgunarleiðangur við Dynjanda þar sem við tókum bilaðan bát í tog, var haldið til Bolungarvíkur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: IGG

Þvílík dásemd! Gaman að lesa þessa frásögn þína Gunnar og sjá myndirnar. ÞEtta á maður eftir. Kær kveðja, Ingibjörg G. Guðmunds.

IGG , 4.7.2007 kl. 10:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 34
  • Frá upphafi: 283960

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 34
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband