Álfar

HulfufólkÍ morgun var tækifærið til að ná sambandi við álfa (huldufólk) um leið og maður velti sér upp úr dögginni. Jónsmessan og nýjársnótt er tími álfanna og reyndar trölla líka. Hér eru nokkrar sögur af álfum sem ég hef tekið saman en seinna koma tröll og ýmis aðrar forynjur.

 Fyrir tíma velmegunar þjóðarinnar með búsetu í lélegum húskynnum og óvissu um hvort matur dygði fram yfir þorra, hefur fólk búið sér til annan heim til hliðar við þann raunverulega, sem oft var gleðisnauður og erfiður.  Það er ekki tilviljun að á Hornströndum voru mestu álfakonungar þess lands, enda lífsbaráttan harðari en víðast hvar annarstaðar við stutt sumar með stöðugum óþerra sem kom í veg fyrir að hægt væri að þurrka hey til vetrarins sem fóður fyrir skepnurnar. Hvergi voru konungsríkin glæsilegri né ríkidæmið meira.  Sennilega í réttu hlutfalli við eymd raunheima og þann ótta og óvissu sem íbúar svæðisins bjuggu við.  Norður undir Dunshafi, örskammt frá heimskautsbaugi er myrkrið hvergi svartara né dagarnir styttri yfir vetrarmánuðina.  Við lélega lýsingu frá lýsislömpum sem gerðu alla vinnu ómögulega í hálfrökkri og þar til komið var myrkur og ljósatýra lampans dugði til að sjá til verka.  Þannig urðu til rökkursögur til þegar börnin fundu ekki frið til að sofa um miðjan daginn og töldu þá afa eða ömmu á að segja sögur.  Við þessar aðstæður hafa sjálfsagt orðið til margar sögur um álfa, tröll og aðrar forynjur.  Greyptust inn í huga ungdómsins og viðhéldu trúnni á hið yfirnáttúrulega.  Eins og margir óttuðust þessar verur var jafnframt gott að geta trúað á góðsemd álfa sem lögðu þurfandi fólki hjálparhönd þegar mest á reyndi.

Álfkonan í Álfsfelli

Ein slík álfkona bjó í Álfsfelli milli Kjaransvíkur og Hlöðuvíkur og hét Ásdís.  Hún hjálpaði mennskum mönnum þegar mest á reyndi.  Konum í barnsnauð og mönnum við að draga björg í bú.  Sagði til um reka og veiði og drýgði þann mat sem til var og dugði oft tveggja daga forði í hálfan mánuð. 

Ásdís ættleiddi tvö börn, dreng og stúlku, sem síðar urðu tengdabörn hennar.  Til tólf ára aldurs máttu þau heimsækja ættingja sína og færa þeim gjafir a aðfangadag.  Á Jónsmessu gátu þau orðið sýnileg, en urðu að hverfa áður en síðasti sólargeislinn sást við hafsbrún.

Um átján ára aldur urðu þau að kveðja mannheima í síðasta sinn og gátu ekki haft samband við mennska ættingja sína eftir það.  Áður fékk þó drengurinn leyfi til að segja móður sinni undan og ofan af því sem á daga þeirra hafði drifið í hulduheimum. 

Léku þau sér með systkinum sínum þó þau sæjust ekki.  Hann hafði ferðast um víðan heim, Kína og Indlands með fögrum fleyjum er kölluðust Hörpuskip.  Skip þessi voru gulli slegin og svifu yfir hæstu öldutoppum þó fellibyljir og stórviðri geisuðu.  Leiðistjarna þeirra skein skírt, hvernig sem viðraði og því lítill vandi að rata.  Hafði drengurinn heimsótt kónga og fyrirfólk úr álfheimum í framandi löndum og þegið dýrar gjafir. 

Þessi stutta saga lýsir vel hvernig fólk hefur brugðist við erfiðleikum sínum og snúið því sem á móti blés í meðbyr.  Eflaust hafa börnin sem um getur orðið úti eða fallið í sjóinn og aldrei fundist.  Mun auðveldara var að trúa því að þau lifðu hamingjusöm meðal álfa en þau væru dáin.  Að trúa því að þau væru nálæg og jafnvel að fyndist fyrir nærveru þeirra á hátíðum eins og jólum og Jónsmessu.  Eins að í ótta sínum um að maturinn dygði ekki og hungrið vofði yfir að slík gæðakona eins og Ásdís vekti yfir þeim og sæi til þess að afkomunni væri borgið. 

En álfar gátu líka verið illskeyttir, sérstaklega ef gengið var á þeirra hlut.  Hefnigirni þerra var takmarkalaus ef á brotið var á þeim, en þó var fólk ávallt varað við gefið tækifæri til að breyta slíkum áætlunum.  Mikið var um að álfar ættu sér kletta eða steina sem þeir byggju í.  Eins voru hólar sem ekki mátti slá og segir frá því er Júlíus Geirmundsson sló álagablett í Fljóti, þvert gegn vilja álfa og sveitunga hans.  Aðeins tveimur dögum eftir sláttinn fótbrotnaði meri sem hann átti og sáu menn þar hefndina komna.  Ekki trúði Júlíus þessu en lét þó vera að slá blettinn aftur.

Álfkonan Garibalda

Önnur skemmtileg saga er til og þó hún gerist að Látrum, tengist hún Fljóti. 

Picture 035Fyrir ofan Ystabæ að Látrum er stór steinn.  Í honum búa álfar og fyrir kom að krakkar voru að leik við steininn, sem venjulega kom ekki að sök.  Það var þó eitt sinn að húsmóðurina, Þórunn Þorbergsdóttir, dreymir að huldukona kemur til hennar og segist hún heita Anita Garibalda.  Segir hún sonur Þórunnar hafi þá um daginn kastað snjóbolta í augað á syni sínum og hafi hann misst það.  Segist hún vita að Þórunn sé með barn undir belti sem sé meybarn og biður hana að skýra hana í höfuð sér og muni þá ekkert illt henda þrátt fyrir þetta.

Það stendur heima að hún eignast dóttir og er hún skírð Anita, sem síðar giftist Finnboga Jósepssyni en hún var oft heilsutæp.  Kenndi hún því um að móðir hennar hafi ekki að öllu leyti farið að beðni huldukonunnar og þegar þau eignast dóttur bætir hún fyrir betur og skýrir hana að fullu í höfuð huldukonunnar frá Ystabæ, Anitu Gariböldu, en bætir þó nafninu Finney framan við.  Þess má einnig geta að Anitubær í Fljóti dregur einnig nafn sitt af þessu atviki.

Þórunn Þorbergsdóttir átti Anítu Gariböldu átti síðan dóttir sem var skírð Finney Anita Garibalda.

Guðný Hermannsdóttir, ömmubarn Þórunnar dreymdi einu sinni dóttur huldukonunnar Anítu Gariböldu.  Þetta var í upphafi síðasta áratugar liðinnar aldar að Guðný var ásamt bræðrum sínum í Ystabæ að Látrum.  Var þá notast við tunnu til að brenna rusli í og lagði reykinn yfir steininn sem Garibalda hafði búið í.  Um nóttina dreymir Guðný að kona kemur til hennar og segist vera dóttir Anítu Gariböldu.  Segir hún að reykurinn úr tunnunni sé til mikilla óþæginda og biður hana að færa hana.  Morguninn eftir segir Guðný bræðrum sínum frá draumnum en þeir gerðu bara grín að henni og létu tunnuna vera.  Þegar líður á daginn og þau eru öll þrjú saman komin í kaffi í stofunni í Ystabæ og heyra þau þá mikið skrölt undir húsinu.  Enginn annar en þau voru á svæðinu og var þeim brugðið við skarkið.  Segir Guðný að hér sé huldukonan mætt til að minna á bónina.  Bræðrum hennar leist ekki meir en svo á þetta að þeir skutust út og færðu tunnuskömmina.  Um nóttina dreymir Guðný konuna aftur þar sem hún kemur og strýkur vanga hennar og breiðir síðan teppið ofan á hana.  Taldi hún þetta vera þakklæti fyrir umhyggjuna.  Síðan í lok aldarinnar hefur engin verið í steininum góða að sögn Guðnýjar sem ekki segist kunna svara við hvers vegna.  Hvort afkomendur Gariböldu hafa flutt sig um set eða hvaða ástæður gætu legið fyrir brottflutning fjölskyldunnar.

Draugur í Ólafshúsi

Þegar bygging Ystabæjar stóð yfir var búið í Ólafshúsi sem stendur þar skammt frá.  Karlmennirnir voru að flytja timbrið í land úr báti á víkinni en Guðný var ein heima að útbúa kaffi fyrir vinnuhópinn sem var væntanlegur heim á bæ.  Skyndilega heyrir hún skark úr herberginu við hliðina á stofunni og þegar hún lítur þar inn sér hún gamlan mann sitja hokin í stól og var hann að saxa tóbak á meðan hann réri sér í stólnum.  Hér var komin Hjálmar Ólafsson, sonur Ólafs sem húsið er kennt við


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Takk fyrir góðar frásagnir.
Góða ferð til Sri Lanka þetta verður örugglega skemmtilegt,
                Kveðjur til ykkar hjóna Milla

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 23.6.2007 kl. 18:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 35
  • Frá upphafi: 283957

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 35
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband