Tundurdufl í Hornvík

HornbjargHornvík

Kristinn S. Grímsson bjó með konu sinni, Guðnýju Halldórsdóttir, á Horni á fyrstu áratugum síðustu aldar. Þau áttu tvær dætur en engan son þegar Kristinn kemur að máli við Júlíus Geirmundsson í Fljóti þar sem honum vantaði yfirsetudreng  Stúlkur voru ekki notaðar til slíkra verka á þessum tíma en þetta var árið 1925. Guðmundur Snorri Júlíusson var þá níu ára sem þótti góður aldur til að gæta kinda og varð það úr að hann fór með Kristni að Horni.

Efni voru töluvert meiri á Horni en í Fljótavík þó enn væri torfbær á þessum árum. Kristinn byggði reyndar tvílyft timburhús sem flutt var í 1928 og var hann fyrstur ábúenda ásamtt Frímanni Stígssyni til smíða slíkt hús í Hornvík. Fljótlega eftir komu Snorra að Horni eignuðust þau hjónin, Kristinn og Guðný son sem skýrður var Magnús. Fjórbýlt var á Horni þegar Snorri kom þangað en þar bjuggu ásamt Kristni og Frímanni, Stígur og Jóhanna sem orðin var ekki þá. Sonur Stígs var Arnór, fæddur 1922, og ólst hann upp að Horni með Snorra og varð góður vinskapur með þeim alla tíð.  

 tundurduflTundurdufl í Hornvík

Á stríðsárunum rak mikið af tundurduflum á land á Ströndum. Duflin voru mikil ógn við sjómenn en sum þeirra sprungu í fjörunni og fundust oft sprengjubrot sem höfðu þeyttst langt upp á land.

Dag einn rak dufl fyrir utan bæinn á Horni og ákvað Kristinn að skoða gripinn og tók þá félaga Arnór og Snorra með sér í könnunarleiðangur. Duflið var óskemmt og neðan úr því hékk einhverskonar gormur sem festur var í lás, sem var búnaður til að koma sprengingu af stað. Slík dufl voru kölluð seguldufl og utan um sprengjuhleðsluna var vafið einungruðum koparvír sem var eftirsóttur af heimamönnum, m.a. í loftnet.

Þeir félagar höfðu með sér verkfæri og Kitti (Kristinn) og Snorri byrjuðu að losa lokið af duflinu. Þegar þeir höfðu fjarlægt alla bolta fyrir utan tvo, sem voru losaðir til hálfs, kom í ljós að lokið var tengt við eitthvað drasl inni í duflinu sem hélt í á móti. Skyndilega bætti í vindinn og duflið tók að reka af stað, sökk til hálfs og skolaði síðan inn fyrir vörina í Höfn og endaði síðan í fjöruborðinu neðan við Hornbæina.

Þeir fóstrar Kitti og Snorri voru þá ekki lengur að tvínóna við hlutina og kipptu lokinu af duflinu. Ekki sprakk það svo þeir fóru að kanna innihaldið nánar.

Inn í duflinu var helvíti skemmtileg klukka sem gekk dálítinn tíma ef hún var sett af stað. Seinna var þeim sagt að hún væri tengd við lásinn undir duflinu og átti að setja sprenginguna af stað ef duflið kæmi í nálægð við stálbyrðing á skipi. Þeir félagar höfðu ekki hugmynd um þetta en höfðu gaman af að trekkja upp klukkuna og hlusta á murrið í henni þegar hún gekk til baka. Allskonar drasl var inn í duflinu sem var forvitnilegt að skoða og örugglega eitthvað nýtilegt í þeim skorti sem var á Hornströndum á þessum árum. Ekki rifu þeir duflið frekar í sundur en kallað var á Guðfinn Sigmundsson, sem bjó í Króknum á Ísafirði, en hann var þjálfaður í að eyða duflum fyrir Landhelgisgæsluna. Byrjaði hann á að aftengja hvellettuna og fjarlægja sívalning úr tunnunni sem í var sprengiefnið og eyða því síðan. Duflið hafði verið virkt og mikið lán að það hafi ekki sprungið við fiktið í þeim fóstrum.

Duflið í Rekavík

Seinna gerði Guðfinnur dufl óvirkt í Rekavík bak Höfn. Fréttu þeir félagar Arnór og Snorri af því og ákváðu að skoða verksummerki. Venjan var að kveikja í sprengiefninu sem brann eins og lýsi þar til ekkert var eftir af því. Í þetta sinn hafði einhverja hluta vegna slokknað í efninu og það aðeins sviðnað lítilsháttar. Megin hluti sprengiefnisins var því enn í sívalningnum og losuðu þeir félagar hann út úr duflinu og báru út í bát og réru með fenginn heim að Horni. Hugmyndin var að sprengja upp hlein sem var við ófæruna á leið út í Rekavík áður en komið er að Tröllakambi. Ófæran er töluverður farartálmi á þessari leið en hægt er að komast fyrir hana á stórstraums fjöru en venjulega þarf að klífa yfir haft ofan við hana.

Þegar komið var að Horni báru þeir sprengiefnið upp í hjall fyrir ofan bæinn. Arnór hafði þá prófað að taka smá fleður af sprengiefninu, svona á stærð við nögl, setti það á steðja og sló á með slaghamri til að prófa sprengikraftinn. Höggið og hvellurinn var svo rosalegur að Arnór höndlaði ekki hamarinn í látunum. Þá vissi hann að efnið væri gott og mætti nota í stórverkefni.

Högni og ArnórÞeir félagar fóru nú að skipuleggja stórverkefnið, að sprengja upp áðurnefnda ófæru í Rekavík. Hugmyndin var að nota dínamít til að koma sprengingu af stað í sívalningnum. Troða því ofan í sívalninginn og nota sem hvellettu fyrir sprengiefnið. Þetta hlyti að duga til að sprengja hleinina í burtu og bæta þannig samgöngur við Rekavík bak Höfn.

Síðan átti að grafa sívalninginn niður við skarð í hleininni sem er berggangur og  skagar fram úr gamla sjávarbakkanum fram í sjó. Moka síðan yfir og pakka vel með stórgrýti og sprengja svo. Arnór er enn þann dag í dag sannfærður um að hleinin hefði farið við sprenginguna ef þeir hefðu funduð tíma til að klára verkið. En samgöngubæturnar gleymdust og sprengingin vék fyrir öðrum mikilvægum verkum eins og bjargsigi og eggjatöku.

Meðan á undirbúningi samgöngubóta stóð að Horni komst yngri bróðir Arnórs, Stígur, sem þá var smá polli, að leyndarmálinu. Ásamt vini sínum og jafnaldra, Grími Árnasyni,  ákváðu þeir að gera prufu með sprengiefnið. Þeir notuðu meitil til að höggva stykki úr því og fóru með það niður í fjöru og tróðu því ofan í litla holu í bergvegg og kveiktu í því. Þeir töldu víst að þannig ætti að koma sprengingu af stað en hitinn af brunanum var svo mikill að og brast í berginu. Það dugði til að hræða þá félaga og létu þeir sprengiefnið eiga sig eftir það. Stundum getur hjálpað að vita lítið en pollarnir notuðu óvart rétta aðferð til að eyða sprenginefninu, þó ætlunin hafi verði önnur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Þórðarson

Þessar sögur eru sagðar efir miklum heiðursmönnum sem við Hilmar Snorrason áttu kvöldstund með núna í júní. Einnig er notast við punkta sem Snorri Júlíusson hafði gefið Hilmari fyrir mörgum árum.

Það góða við Google steinin sem þetta er meitlað í að auðvelt er að laga og breyta. Þeir sem gaman hafa af þessum sögum og lesa þær eru hvattir til að gera athugasemdir ef einhverjar eru.

Ég vil taka fram að myndir sem teknar voru á þessum fundi með Þórði, Högna og Arnóri eru teknar af Hilmari Snorrasyni 

Enn eru einhverjar sögur eftir en einnig mun ég setja inn eldri sögur sem ég skrifaði fyrir nokkrum árum eftir fólki sem kemur að norðan eða á ættir að rekja þangað.

Gunnar Þórðarson 

Gunnar Þórðarson, 21.6.2007 kl. 07:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 34
  • Frá upphafi: 283960

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 34
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband