Smyglið í Rekavík bak Höfn

carlsgallery7Snemma vors árið 1925 sigldi fiskibáturinn Víkingur inn á Hornvík og stefndi á Rekavík bak Höfn. Það var farið að skyggja og vakti bátskoman því litla athygli Hornstrendinga, fyrir utan ábúendur við víkina. Jóhann Hjálmarsson, bóndi í Rekavík, var um borð í bátnum sem hafði fyrr um daginn átt stefnumót við norskan togara út á Hornbanka. Báturinn kastaði akkerum innan við skerið í víkinni og fljótlega var skektu róið til móts við hann úr landi. Undir árum var bróðir Jóhanns, Sigurður Hjálmarsson, ásamt þremur öðrum karlmönnum.

Myrkur var skollið á þegar áhöfn Víkings byrjaði að handlanga 45 trékassa niður í skektuna og var hraustlega tekið við þeim. Nokkrar ferðir þurfti til að selflytja alla kassana í land, en síðan voru þeir bornir upp á bakkann við bæinn. Næstu dagana notuðu ábúendur og nágrannar tímann til að koma þeim fyrir. Meginhlutinn var fluttur áfram út í Skrínur en nokkrir voru grafnir í mógrafir upp af mýrinni við bæinn.

IMG_8822Í hverjum kassa voru þrjár 20 lítra glerflöskur með hreinum spíra frá Spáni. Laun manna fyrir að taka á móti og fela spírann voru greidd með þessum spænsku guðaveigum og því nóg til af áfengi í Rekavík og nágrenni. Eigandi spírans var bróðir Jóhanns og Sigurðar, Ólafur Hjálmarsson, sem var langaafi fyrrverandi sýslumanns á Ísafirði, Ólafs Helga Kjartanssonar.

Reyndin var sú að Rekvíkingar voru litlir drykkjumenn en örlátir og gestrisnir að sama skapi. Fljótlega fór því að bera á drukknum ferðamönnum sem leið áttu um Rekavík, en fjölfarin leið lá þar um frá Hlöðuvík um Skálakamb, framhjá Rekavíkurbænum og yfir Tröllakamb að Höfn í Hornvík. Þetta þótti í meira lagi óvenjulegt og vakti grunsemdir manna. Ljóst er þó að íbúar í Hlöðuvík og Hælavík hafa verið með frá upphafi og aðstoðað við smyglið.

Sögurnar fóru sem eldur um sinu um Hornstrandir og menn fóru að gera sér ferð í Rekavík fyrir forvitnis sakir og til að njóta lystisemdanna. Í umræðunni mögnuðust þar upp og rétt að geta nokkurra sem sagðar voru á þessum tíma:

Ein sagan var sú að 60 tonn af spíra hefði borist í land í Rekavík. Sagt var að lögreglan hefði elt fiskibát um allt landið til að ná spíranum en loksins hefði tekist að fela hann á Hornströndum. Sagan sagði að spíri hefði verið við hvert mál í Rekavík og hafi allt frá ömmunum til barnanna auk katta og músa neytt hans. Ekki hafi verið róið til fiskjar í tvö ár frá Rekavík sökum drykkju.  

IMG_8791Athyglin sem allt þetta vakti gerði menn vara um sig og voru kassarnir fluttir frá einum stað til annars til að fela þá. Að lokum endaði góssið úti á Straumnesi þar sem þeir voru faldir í sjávarskútum áður en þeir voru fluttir áfram til Skutulsfjarðar.

Högni Sturlaugsson sem var sex ára þegar þetta gerðist minnist þess að einn daginn kom trilla frá Ísafirði og lagðist framan við skerið í Rekavík. Tveir menn voru á og um ellefu leytið um kvöldið stungu þeir sér í sjóinn og syntu í land, gengu síðan upp að tóftum við Óðalsbakkann þar sem heytóft var og grófu upp tvo trékassa.  Mennirnir báru þá síðan niður í fjöru og fleyttu um borð í trilluna og sigldu síðan á braut.

Allt sumarið var verið að flytja spírann til Ísafjarðar og tók Binni halti, síldarkall, á móti þeim við Arnarnes. Binni átti skúr niður við sjóinn í botni Seyðisfjarðar og þangað flutti hann spírann og dreifði honum þaðan. Hann átti bát sem róið var til síldveiða norður í fjörður og átti auðvelt með að fela einn og einn kassa um borð og koma til réttra aðila. Heimildir eru til fyrir því að innihald eins kassa hafi endað sem veisluföng á Hekleyri innan við Hesteyri en þar var mikil starfsemi í síldarbræðslu á þessum árum. Annar kassi endaði á Siglufirði sem gleðigjafi fyrir síldarkarla og stúlkur á dansleikjum þar í bæ.

Eiríkur Benjamínsson sem giftur var Elísabetu Halldórsdóttur, systur Guðnýjar á Horni, fékk eitt sinn lánaðan einn brúsa út á krít. Ekki stóð hann við borgunina og kærðu þeir bræður Jóhann og Sigurður hann þá til lögreglunar. Lögreglan aumkaðist yfir þá og bentu þeim á hvað myndi felast í slíkri kæru, og féllu þeir þá frá henni umsvifalaust.

Sögurnar af smyglinu bárust nú til eyrna yfirvalda og var Grímur rakari sendur í Rekavík, en hann gegndi embætti tollvarðar þegar þetta gerist. Þegar Grímur kemur í Rekavík hafði gleymst að fela einn kútinn sem stóð inn í eldhúsi. Jóhann Hjálmarsson brá skjótt við, grípur brúsann og snarar um hann bandspotta og hnýtir hann upp í reykháfinn þannig að hann sæist ekki. Grímur leitaði í bænum en fann ekkert enda leit hann aldrei upp í skorsteininn.

Þannig fundust engar sannanir fyrir smyglinu en Högni Sturlaugsson er sannfærður um að Grímur rakari hafi ekki lagt sig allan fram í leitinni. Hefði embættismaðurinn fundið smyglið þá hefði  þurft að senda íbúa af þremur bæjum i tukthús, en ábúendur voru allt fullorðið fólk fyrir utan Högna, sem var sex ára eins og áður greinir. Varla er hægt að ímynda sér ástandið sem hefði skapast við slíkt örþrifaráð yfirvalda.

Högni man vel eftir smyglinu og minnist þess hversu hart var lagt að íbúum að segja ekki frá spíranum. Móðir Högna var gift Sigurði Hjálmarssyni sem hótaði Högna að hann hefði verra af ef hann segði til spírans.

IMG_8802Sagan um smyglið gekk árum saman um sveitina og segist Þórður Júlíusson, sem var sjö ára í Fljótavík þegar þetta gerist, hafa heyrt mikið um málið í sínum uppvexti. Hinsvegar viðurkenndu Rekvíkingar aldrei neitt og var sama hvernig á þá var gengið.

Segir sagan að ekki hafi smyglið orðið þeim bræðrum Jóhanni og Sigurði til fjár.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hilmar Snorrason

Sæll frændi

 Þetta var ógleymanlegt kvöld sem við áttum með pabba þínum, Högna og Arnóri.  Ég held að við höfum allir skemmt okkur frábærlega þessa kvöldstund eins og myndirnar sem ég tók sína. 

Það er ein leiðrétting sem ég vildi gera við þennan texta og það er að Ólafur, sagður Vigfússon, var Hjálmarsson og bróðir Jóhanns í Rekavík.

Högni sagði mér kvöldið áður að þegar hann spurði um kassana var honum sagt að þetta væru kartöflukassar. 

Fleiri sögur voru sagðar af þeim herramönnum og fylgist með þeim hér og þær eru bæði sannar og óborganlegar sem lýsa því hvernig lífið var á Hornströndum hér áður fyrr.

Hilmar Snorrason

Hilmar Snorrason, 19.6.2007 kl. 20:04

2 Smámynd: Gunnar Þórðarson

Sæll frændi. Já það var gaman af þessu. Ég heyrði eftir Arnóri að mun meira væri frá að segja, það hefði ekki unnist tími til þess um kvöldið. Það væri ekki ónýtt að endurtaka leikinn.

Ég vona að þú veiðir vel í Fljoti en þú ættir að vera þar þegar þetta er ritað. 

Gunnar Þórðarson, 20.6.2007 kl. 14:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 33
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 31
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband