Nýfundnaland og einstaklingsframtakið

nýfundnaland 

Malthus

Á átjándu og nítjándu öld var presturinn og hagfræðingurinn Malthus uppi. Hann var reyndar góðvinur Ricardo sem áður hefur verið nefndur í þessu bloggi.

Malthus trúði því að almúginn væri latur og hyskinn að eðlisfari og þyrfti að svelta hann til hlýðni og vinnu. Ekki verður tekið undir þessa skoðun prestsins en það sem hann skildi eftir fyrir hagfræðina og komandi kynslóðir var skilgreining á einstaklingshyggju. Eitthvað sem ekki hafði verið gert fyrr.

Á átjándu öld var hefðarhyggja við líði, almúginn treysti á höfðingjanna sem sáu þeim fyrir sárustu nauðþurftum eins og mat og húsaskjóli, en sýndu í staðin fullkomna tryggð og undirgefni. Þetta átti allt eftir að breytast með einstaklingshyggjunni og höfðingjarnir, sem tóku vald sitt frá guði, áttu eftir að missa það. Inn í þetta allt spilaði breyting í trúarbrögðum svo sem Kalvinisminn sem ruddi brautina fyrir auðhyggju (kapítalismi) og einstaklingsframtaki. Það áttu eftir að leika frelsisvindar um vesturlönd og byggjast upp lífsgæði almennings sem aldrei höfðu þekkst fyrr í sögu mannkyns.

Nýfundnaland

Þetta kom allt upp í huga bloggara þegar hann horfði á sjónvarpsþátt á annan í hvítasunnu um Nýfundnaland og Ísland. Bloggari sem eytt hefur mest af æfi sinni á Íslandi bjó á Nýfundnalandi í tæp tvö ár, og þekkir því nokkuð vel til mála.

Nýfundnalandsbúar skaffa aðeins helming af þeim fjármunum sem kostar að reka samfélagið. Restin kemur frá alríkisstjórninni í Ottawa. Allir sem vettlingi geta valdið hafa komið sér í burtu til að byggja upp betra líf annars staðar í Kanada. Stór hluti þeirra sem eftir sitja leggja áherslu á að fá vinnu í 8 vikur (var áður 12 vikur) til að geta verið á atvinnuleysisbótum restina á árinu. Menntunarstig og ólæsi er samanburðarhæft við lönd i Afríku og sjálfsbjargarviðleitnin er í lágmarki. Eitt eiga íbúar þessarar eyju í Atlandshafinu sameiginlegt, að þeir kenna alríkisstjórninni um allar sínar ófarir. Sama hvað hefur farið illa þá er á hreinu hver sökudólgurinn er.

Vestfirðir

Bloggari bjó þarna frá 1991 til 1993 og var oft andvaka af áhyggjum yfir því að Vestfirðir yrðu einn daginn að Nýfundnalandi Íslands. Að sjálfsbjargarviðleitnin og einstaklingsframtakið næði þeim lægðum að treyst yrði á ríkið til að bjarga öllum málum. Vestfirðingar hafa fundið sinn blóraböggul þar sem kvótakerfið er. Þeir eru firrtir þeim möguleika að hægt sé að standast samkeppni við aðra landshluta í útgerð og fiskvinnslu og kalla því á ríkið til ábyrgðar og hjálpar. Þar er samlíkingin komin við Nýfundnaland, og áfram er haldið þegar heimtaðar eru niðurgreiddir skipaflutningar og byggðakvóti og aðrar sérreglur í stjórnun fiskveiða til að skekkja samkeppnisstöðu annarra.

Það sem Íslendingar hafa fram yfir Nýfundnalandsbúa eru kröftugir einstaklingar og frjálsræði til athafna. Það er efni í langa ritgerð að lýsa allri skriffinnskunni með boðum og bönnum sem ríkja á Nýfundnalandi. Engum dettur í hug að hætta eigin fjármunum í neinskonar rekstur, allt skal koma í formi styrkja frá Ottawa.

Sjónvarpsþátturinn

Það var annars merkilegt að sjá viðtöl við þjóðþekkta Íslendinga í fyrrnefndum þætti. Þátturinn er sjálfsagt tekin upp sumarið 2005 og þar kemur fram í viðtali við formann Samfylkingarinnar að jöfnuður sé innbyggður í menningu Íslendinga og annað yrði aldrei liðið. Það stingur svolítið skökku við miðað við umræðu fyrrum stjórnarandstöðu um fátækt og ójöfnuð á Íslandi. Íslensku sósíalistarnir sem spurðir voru út í þessum sjónvarpsþætti gátu ekki leynt þjóðerniskendinni og stoltinu yfir velgengni þjóðarinnar. Sennilega hafa Íslendingar fetað rétta braut undanfarin 16 ár. Með auknu frelsi einstaklinga og minni völdum stjórnmálamanna hefur grunnur verið lagður að einstöku þjóðfélagi þar sem mikill jöfnuður ríkir. Það er jöfnuður að allir eigi sama möguleika til að njóta sín. Fái menntun og heilsugæslu innan skynsamlegs regluverks, til að geta blómstrað og náð árangri, sjálfum sér og þjóðinni til heilla.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Pétur Garðarsson

Ég hef oft gaman af því að lesa bloggið þitt, einkum þar sem þú skrifar um viðskipta og hagfræði kenningarnar. Ég sem áhuga maður um frelsi og einstaklingshyggju hef velt því fyrir mér hvort einstaklingsfrelsi geti í raun þrifist hér á landi,  það er svo margt sem er innbyggt í kerfi á Íslandi eru því líkir böggar sem skekkja alla samkeppnisstöðu, tökum dæmi þú býrð á ísafirði finnst þér þú sitja við sama borð og þeir sem eru á suðvestur horninu? Mér finnst það ekki, þeir sem búa fyrir vestan hafa ekki aðgang að sama þjónustustigi og þeir sem búa á SV-horninu þá sama hvort það er sjúkrahús, vegamál öryggi í rafmagni eða atvinnumálu. Auðvita getur fólk flutt í burtu til að byggja sér líf annarstaðar, en þegar fólk er í raun neytt í burtu vegna þess að það getur ekki vegna skort á pening, ósamkeppnishæfu umhverfi eða vegna annara atriða s.s fábreyttni í atvinnulífi byggt sér upp líf þar sem það kýs þá er vegið að einstaklingsfrelsi manna. Því segi ég að meðan fólk getur ekki byggt upp atvinnutækifæri sjálft vegna þess að landshlutinn sem það býr í er ekki samkeppnishæfur við annan landshluta sökum dugleysi ríkisins þá er ekkert frelsi um að ræða.  Ein leið til að jafna þetta út er að fyrirtæki sem hafa starfsemi að öllu leyti á Ísafirði eða annarstaðar þar sem þau búa ekki við sama aðgang að þjónustu borga minna í skatt þ.e. til samneyslunnar sama á að gilda um einstaklinga. Fólk á ekki að gjalda þess að kjósa að búa út á landi.

Gunnar Pétur Garðarsson, 1.6.2007 kl. 21:37

2 Smámynd: Gunnar Pétur Garðarsson

Bæta aðeins við, ég kem frá Ísafirði og þurfit að sækja mína háskólamenntun annarstaðar frá, sú menntun kostar mig um 2.000.000 meir en frænda míns  sökum þess að ég þurfti að flytja í burtu til ná mér í þessa menntun. Ég hefði hugsanlega getað tekið námið mitt í fjarnámi en gerði ekki.

Hitt er annað mál að ef ég hefði haft hug á því að nema verkfræði, viðskiptafræði, læknisfræði eða eitthvað annað þá hefði ég verið neyddur til að fara á brott sökum þess að ég get ekki náð mér í menntun á Ísafirði í þeim greinum sem ég kýs. Þ.e. mér er skömmtuð gæði, frændi mínn bjó og býr í Reykjavík gekk í Hí bjó í foreldrahúsum og þurftir því ekki að fara lengra en yfir Hringbraut til að ná sér í menntun. Þetta er auðvita skýrt dæmi um skekkju á milli landsbyggðar og höfuðborgar. Þarna þarf hann að punga út mun minni pening fyrir sína menntun en ég þurfti að gera. Frelsið á Íslandi er ekki mikið meðan þetta er svona.

-gunni 

Gunnar Pétur Garðarsson, 1.6.2007 kl. 21:48

3 Smámynd: Gunnar Þórðarson

Blessaður Gunnar Pétur og takk fyrir innleggið.

Þetta eru nokkuð flókin mál. Í grófum dráttum finnst mér eðlilegt að ríkið komi að grunnþáttum eins og tryggi samgöngur, internet, menntun og heilsugæslu. Það má þó vera ljóst að ekki er hægt að halda hverju sem er upp í fámennu byggðum. Ekki verður kend læknisfræði við háskóla á Ísafirði, svo eitthvað sé nefnt. Ekki verður byggð óperuhöll niður á Suðurtanga.

Frelsi er sem betur fer eitt af þeim lífsgæðum sem Íslendingar fá notið, bæði í dreif- og þéttbýli. Sama við hvern við berum okkur (Íslendingar) Hér er öllum tryggð skólaganga og heilsugæsla. Jafn vel eða betur en nokkur staðar annarstaðar.

Það eru sem betur fer margir kostir við að búa úti á landi. T.d. þar ég bara að eiga einn bíl. Í höfuðborginni þarf tvo bíla fyrir hjón. Slíkt kostar mikla peninga. Höfðuborgarbúar eyða miklum tíma í umferð og akstur. Miklu meira en við á landsbyggðinni.

Hluti af menntuninni er að koma sér að heiman. Burtu úr foreldrarhúsum og læra að sjá um sig sjálfur. Það er öllum nauðsynlegt eftir 20 ára aldur. Koma sér undan pilsifaldi móðurinnar og takast á við lífið.

Ég tel reyndar að Ísleningar ættu að sækja nám sitt meira til útlanda en raunin er orðin í dag. Það geri þjóðina hæfari og tilbúnari að takast á við framtíðina með öllum þeim breytingum sem þar liggja í leyni.

Gunnar Þórðarson, 4.6.2007 kl. 19:21

4 Smámynd: Gunnar Pétur Garðarsson

sæll

já ég er alveg sammála þér í því að hluti af því að ná sér í menntun er að fara að heiman. En það sem ég var að segja er að það er samt sem áður skekkja þarna þegar fólk utan af landi þarf að borga mun meira fyrir sína menntun. Hitt er annað mál að fólk fyrir sunnan getur vel notað strætó og því þarf ekki endilega 2 bíla. Þetta er val hvers og eins. Ég hef reynslu af því að nema erlendis en ég tók hluta af mínu námi noregi og ég get ekki sagt að LÍN hafi gert mér það auðvelt. Það hafa fleiri þá sögu að segja og það virðist vera óopinber stefna LÍN að fólk nemi á Íslandi.

Mér finnst margt á Íslandi sem má betur fara  varðandi við frelsi, fólk utan af landi býr ekki við sömu kjör og fólk fyrir sunnan. gott dæmi er kalkþörungaverksmiðjan á Bíldurdal, þar fékkst ekki fjármagn hér heima þannig að fyrirtækið þurfti að leyta að því erlendis. Fékk að lokun, þar var hugmynd og vilji til framkvæmda en fjármagn fékkst ekki, fyrr en Írska fyrirtækið fékk lán frá Írskum banka. Hugmynd og vilji er nefnilega ekki nóg það þarf að fylgja fjármagn og meðan aðgangur að fjármagni til að hrinda hugmyndum í framkvæmd er ekki tryggari en raun ber vitni þá þarf ríkið að standa sig betur. Því ber nefnilega skilda til að þjónusta alla íbúa þessa lands á jafnréttisgrundvelli. Það er ekki gert einsog er. Ég er alveg viss að ef ríkið mun styrkja inviði Vestfjarða betur munu hugmyndir spretta upp líkt og gorkúlur og mannlíf mun blómstra áfram.

- gunni

Gunnar Pétur Garðarsson, 4.6.2007 kl. 22:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 33
  • Frá upphafi: 284015

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 32
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband