Konungur Íslenskra fjalla - Hvannadalshnúkur

Ef Hekla er drottning Íslenskra fjalla er Öræfajökull, með Hvannadalshnúk, konungurinn. Á laugardegi fyrir hvítasunnu lagði hópur félaga af stað snemma að morgni áleiðis á toppinn upp Sandfellsleið. Gist var á Hótel Skaftafelli við Freysnes og þar sem morgunverður var snæddur kl. 04:00 en uppgangan hófs kl. 05:30. Gönguhópur Bloggara fór með Íslenskum fjallaleiðsögumönnum en þarna var einnig hópur frá Ferðafélagi Íslands.

 Fyrst var gengið eftir bröttum stíg upp á kamb sem nær í um 700 metra hæð en þar tekur snjólínan við. Jöklinum var náð í 1100m og þar stoppaði hópurinn til að setja upp öryggisbúnað og fá tilsögn frá fararstjóra. Allir verða að hafa mannbrodda og ísöxi tiltæk og setja upp sigbelti sem göngulínan er ferst í. Í hópi bloggara voru átta manns ásamt fararstjóra sem var Kanadamaður, Kurt að nafni.

Það var heiðskýr og fallegur morgun og hitnaði þegar leið á morguninn. Fyrst var gengið upp aflíðandi brekkur upp á gígbarminn á stórri öskju Öræfajökuls. Skömmu áður en gígbarminum var náð í 1800m, urðu veðrabrigði og skall á með SV sudda með sjókomu og þoku. Skyggnið var aðeins nokkrir tugir metra og sást varla línuna á enda.

Endalaust var tönnlast á að halda línunni strekktri til að minka hættu á slink ef svo illa færi að einhver úr hópnum lenti ofaní sprungu. En nóg ef af þeim á þessum slóðum sérstaklega á brún öskjunnar. Færið var erfitt, eins og að ganga í þurrum sandi þar sem snjórinn tróðst ekki og lítið gagn í að vera sporgöngumaður að þessu sinni. Eftir að brún gígsins er náð tekur við löng og erfið 5 km lárétt ganga eftir brúninni að brekkurótum Hvannadalshnúks. Þegar þangað var loksins tekur við töluvert brött brekka með hjöllum upp í 2111m á toppinn. Þetta er léttari ganga í góðu skyggni þar sem fegurðin er ólýsanleg með Dyrhamar á vinstri hönd og þverhnípt stálið á Hvannadalshnúk til hægri. Að þessu sinni var skyggnið nánast ekkert í éljahraglanda og svæðið upp síðustu 300m mjög sprungið. Nýfallinn snjórinn gefur falskt öryggi en undir honum eru ægilegar sprungur jökulsins. Kurt fararstjóri, spreng lærður leiðsögumaður, var glúrinn að koma auga á þær þannig að hægt væri að krækja hjá þeim eða stökkva yfir þær. Nokkrir lentu þó í sprungum og sukku allt að mitti ofaní þær.

 GPS tækið sýndi 2111 metra hæð en skyggnið var ekkert og frostið um 15°C á toppinum. Sigurinn var unnin. Markmiðið sem hópurinn hafði sett sér og undirbúið sig rækilega fyrir var náð. Í því liggur upplifelsi fjallgöngumannsins.

 Þá var leiðin langa eftir niður en færið var eins erfitt og hugsast gat. Nýfallinn snjórinn var mjög erfiður yfirferðar og göngumenn eins og drukknir þar sem þeir slöguðu eftir ótryggu undirlagin í snjó sem minnti á þurran sand eins og áður segir. Þegar komið var niður fyrir brún öskjunnar féll stúlka niður í sprungu. Hún var næst fremst, á eftir fararstjóranum, og fór alveg á kaf. Bloggari sem var næst aftastur sá ekki örla í hana. Þegar svona gerist er aðalatriðið að vera rólegur og halda línunni strekktri. Það tók Kurt aðeins örfáar sekúndur að kippa henni upp enda um þjálfuð handtök að ræða.

Það sýndi sig að öryggislínan er lífspursmál en þessar sprungur eru mörg hundruð metra djúpar og ekki að spyrja að leikslokum detti einhver óbundinn niður í þær. Á einum stað varð hópurinn að stökkva yfir sprungu sem var á annan metra á breidd og ekki heiglum hent að gera slíkt. Aðal atriðið er að stilla saman hópinn og treysta á línuna. Hópurinn sem bundinn er saman í átta til tíu klukkutíma verður eins og náið samfélag. Þurfi einhver að pissa er ekki leyft að losa sig. Hópurinn horfir undan á meðan kastað er af sér vatni, og ekki gerðar neinar undantekningar fyrir konur. Það er jafnrétti á jöklinum.

Eins nauðsynlegar og slíkar línur eru þá eiga þær ekki við einstaklingshyggjumenn. Það er bókstaflega unaðslegt að taka hana af þegar komið er aftur niður að jökulrönd í 1100m hæð og fólk eins og kálfar út á vorin þegar það skoppa niður bratta hlíðina. Slyddan fylgdi hópnum niður í 200 metra hæð þar sem hún breyttist rigningu. Bílastæðinu var náð þrettán tímum eftir brottför en hópur Bloggara var fyrstur niður.

Veðrið á Íslandi er dutlungarfullt. Spáin fyrir þennan dag var hæg NA átt og bjartviðri í kringum Öræfajökul. Dagurinn byrjaði eftir spánni en megin hluti fjallgöngunnar var í SV blindhríð og þoku. Þegar litið var í baksýnisspegilinn seinna um kvöldið á leið til Reykjavíkur skartaði Hvannadalshnúkur sínu fegursta, baðaður sólskyni.

Þrátt fyrir þreytuverki um allan skrokkinn er vellíðan fjallamannsins unaðsleg eftir fjallgöngu. Bloggari lauk frábærum degi í spjalli við góðan vin yfir rauðvínsglasi síðla nætur í Reykjavík.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 26
  • Frá upphafi: 283938

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 26
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband