Kvótakerfið

  Páll Pálsson ÍS 102

Kvótakerfið er enn og aftur komið í umræðuna og nú vegna atburða á Flateyri. Það er ekkert skrýtið við hörð viðbrögð fólks vegna þessa máls enda áfallið verulegt. En það er töluvert mikil einföldun að kenna kvótakerfi um þá atburðarás sem hófst seinnipartinn í síðustu viku.

Þegar umræðan var á Alþingi um kvótakerfið á seinni hluta sjöunda áratugar síðustu aldar og fram að setningu kvótalaga 1984, var rekstrarafkoma útgerðar og viðvarandi tap höfuð vandamálið. Engin fiskveiðiarður var af mikilvægustu atvinnugrein Íslendinga sem þá hélt uppi um 14% af vergri þjóðarframleiðslu. Ástæðan fyrir afkomu greinarinnar var fyrst og fremst ofveiði og of stór fiskveiðifloti og ljóst að takmarka þyrfti veiðarnar með einum eða öðru hætti.

Kvótakerfið var því sett á til að auka hagkvæmni í greininni en ekki sem friðunarráðstöfun í sjálfu sér. Reyndin var sú að eftir setningu kvótakerfisins var leyfð veiði umtalsvert meiri en ráðgjöf Hafró í þorski. Vandamálið blasti við í allt of stórum flota til að veiða það magn sem stofninn þoldi.

Það þarf ekki að undra að Vestfirðingar sem mest höfðu þá bætt við sig í veiði og sátu vel að fiskimiðunum börðust á móti kvótasetningu á meðan Austfirðingar vildu koma kerfinu á enda staðan önnur hjá þeim. Í umræðunni um kvótann toguðust á sjónarmið hagkvæmni og réttlætis. Flestir voru sammála um að kerfið myndi verða hagkvæmt en margir töldu það verða óréttlátt. Annars vegar er um að ræða hagfræði sem auðveldlega er hægt að reikna út og hinsvegar málefni stjórnmálanna, réttlætið.

Allar götur síðan hefur verið reynt að auka ,,réttlæti" í kvótakerfinu, sem oftar en ekki hefur snúist upp í andhverfu sína og valdið miklu óréttlæti. Trillukvóti, línutvöföldun, línuívilnun, byggðarkvóti og hvað þetta heitir nú allt saman. Málið er að takmörkun verður alltaf erfið, en hún er lífspursmál. Ekki þarf mikla hagfræðikunnáttu til að sjá að dagróðrakerfi er algerlega vonlaust þegar kemur að hagkvæmni. Þá er sama hvort horft er á stærð fiskiskipaflotans, hvernig viðskiptavinum (markaðinum) er sinnt eða afkomu greinarinnar. Jafnframt verður ekki séð hvernig dagróðrakerfið væri réttlátara en aflamarkskerfi.

Kosturinn við aflamarkskerfi með framseljanlegum heimildum þar sem útgerðarmenn eiga nýtingarétt auðlindarinnar, er hagkvæmni. Þeir sem best standa sig munu blómstra og þeir sem síður kunna tökin á atvinnugreininni hætta og fara í annað. Eftir stendur hagkvæm atvinnugrein sem hefur burði í samkeppni, hvort sem er við aðrar atvinnugreinar eða í sjávarútvegi á heimsvísu.

Í því tilfelli er markaðurinn látinn ráða en hann er býsna miskunnarlaust fyrirbæri. Hann er reyndar ekkert fyrirbæri þar sem hann er athafnir einstaklinganna sem lifa í samfélaginu. Markaðurinn er algerlega hreinskiptin og ef hann er látin í friði mun hann jafna flestar misfellur. En hann er ekki endilega réttlátur.

Hugsum okkur hina leiðina þar sem ,,réttlætið" er látið ráða. Pólitíkusar ákveða þá hverjir megi veiða, hvar og hvernig. Hverjum dettur í hug að slíkt sé framkvæmanlegt? Hvernig eiga stjórnmálamenn að ákveða hvar veiðar eigi að fara fram og hverjir eigi að hafa rétt til að veiða og hverjir ekki? Ekki þarf nema að líta til byggðakvótans og vandræðanna við úthlutun hans til að sjá vonleysið í slíkum úthlutunum á gæðum.

Málið á Flateyri er að einstaklingar sem hafa af krafti byggt upp atvinnulíf á staðnum gefast upp á rekstrinum og ákveða að selja. Það er rangt af þeim að kenna háu kvótaverði um. Verðið á kvótanum er hátt vegna þess hve vel gengur í greininni. Það er markaðurinn sem ræður því og hann er samkvæmur sjálfum sér. Það er rangt að kenna ríkisstjórninni um og efnahagstefnu undanfarinna ára um. Auðvitað er vont fyrir sjávarútveg að hafa hátt gengi. Reyndar lækka skuldir fyrirtækjanna en kostnaður við hráefni og vinnulaun eru í krónum. En mjög gott ástand á mörkuðum bætir þetta upp. Góð markaðsstaða endurspeglast í háu verði á aflaheimildum, hvort sem um er að ræða kaup eða leigu. Háir stýrivextir eiga ekki að hafa mikil áhrif á vel fjármagnað fyrirtæki. Stýrivextir Seðlabankans hafa fyrst og fremst áhrif á skammtímavexti, s.s. yfirdráttarvexti, en lítil á langtímavexti og engin á erlend lán.

Annað sem skiptir miklu í þessari umræðu er að margir tala um að það eigi bara að veiða meira og fiskifræðingar viti ekkert í sinn haus. Það er allt önnur umræða og kemur aflamarkskerfinu ekkert við. Það er mikilvægt til að ræða af skynsemi um þessi mál að tala um eitt í einu og setja ekki umræðuna á dreif. Það er lífsspursmál fyrir þessa þjóð að geta haldið uppi vitrænni umræðu um fiskveiðimál.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lýður Árnason

Sæll, Gunnar, stuðningsmaður núverandi fiskveiðistjórnunarkerfis.

Þakka ágæta upprifjun á tilurð og þróun kvótakerfisins sem enn í dag er sú lausn sem ráðamenn trúa á. 

Sammála greinarhöfundi um margt og sérlega stagbætur núverandi kerfis.

Spyr þó hvort hann telji framsalsréttinn hafa reynst hagkvæman fyrir sjávarbyggðirnar í heild?

Spyr og hvers vegna hann telji dagróðrarkerfi borðliggjandi óhagkvæmt og út í hött?

Spyr að lokum hvort hann telji viðvarandi fólksfækkun á vestfjörðum gefa tilefni til endurskoðunar á fiskveiðistjórnunarkerfinu?

Þakka svo fyrir svaraverða grein.

 Lýður Árnason.  

Lýður Árnason, 22.5.2007 kl. 19:02

2 Smámynd: Gunnar Þórðarson

Takk fyrir innleggið Lýður. Framsalið hefur fyrst og fremst verið hagsælt fyrir íslensku þjóðina. Ég held að það sé í of mikið lagt að gera sjávarútveg ábyrgan fyrir því að halda öllum byggðum nákvæmlega eins og þær hafa verið. Ég vil benda á ágæta ritgerð eftir Anns Sigmundsson þar sem hann gerir skoðunarkönnun meðal 1000 brottfluttra Ísfirðinga fyrir ástæðum þess að þeir fluttu brott. Einhverja hluta vegna hefur engin áhuga á þessari ritgerð þó hún kunni að varpa ljósi á ástæður þess að fólk flutti á bortt. Það hafði lítið að gera með kvótann.

Dagróðrakerfi er í eðli sínu óhagkvæmt. Það hvetur til að auka afkastagetu og stækkun flotans. menn vilja geta veitt eins mikið og mögulegt er þá daga sem þeir mega veiða. Það kemur í veg fyrir að hægt sé að skipuleggja sig árið út og tryggja stöðugt og gott framboð af afurðum á markaðinn. Slíkt er grundvöllur fyrir góðum markaðstarfi.

Enn og aftur tengi ég ekki kvótakefið við fækkun íbúa á Vestfjörðum og bendi á fyrrnefnda riterð því til stuðnings. Málið er að fækkun íbúa í dreifbýli er ekki íslenskt ,,vandamál" heldur þekkt um allan heim. Kína er gott dæmi um þetta og reyndar flest þróuð lönd heimsins. Það skilar okkur ekki neinu að líta í ranga átt ef við viljum finna örsökina. Það að koma sér upp góðum blóraböggli getur hljómað vel en í raun er það bara til að æra óstöðugan.

Fiskveiðar verða að þróast eins og alvöru atvinnugrein. Það má ekki nota hann sem aðferð til að frysta byggð nákvæmlega eins og hún er í dag. Við verðum að takast á við breytingar og en ekki að afneita þeim. Við getum heldur ekki notað sjávarútveginn eins og ESB og flest þjóðríki heimsins, sem einvherskonar pólitíska hækju.

Gunnar Þórðarson, 22.5.2007 kl. 21:01

3 Smámynd: Gunnar Þórðarson

Eitt smávægilegt til þín Bjarni. Það versta sem til er að láta allt brenna upp í kostnaði. Reka atvinnugrein sem skilar engum arði. Ef arðurinn er í formi kvótakaupa eða leigu er það bara í góðu lagi. Kvótagróðinn fer þá í að kaupa jörð í Borgarfirði og aðrir njóta góðs af. Við köllum það að dreifa afrakstrinum. Þetta kann að hljóma einkennilega en er samt viðurkennt í þóðhagfræði. Það sem var að gerast fyrir tíð kvótans var einmitt það. Enginn var að græða en allir að tapa. kvótaverðið skapar þannig ákveðin arð og þá er bara að skipta honum réttlátlega. Við köllum það jafnaðarmennsku að allir hafi jafnan rétt til að ná árangri. Margir hafa einmitt komið inn í sjávarútveg á undanförnum árum og náð miklum árangri. Sem betur fer.

Gunnar Þórðarson, 22.5.2007 kl. 21:06

4 Smámynd: Lýður Árnason

Sæll aftur, Gunnar.

Get tekið undir þá heildarsýn að frjálst markaðskerfi þjóni heildinni best.  En andstætt t.d. hugviti eða hátækniiðnaði eru fiskimiðin takmörkuð auðlind og þangetan því einnig.   Þetta skekkir reikningsdæmið og engin ritgerð kemur í stað þess sem fyrir augu ber.   Frelsi er vandmeðfarið og þegar heilu byggðarlögin "gossa" hljóta menn að leita skýringa.  Sé um að kenna rangri stjórnun ber að laga það, sé þetta hinsvegar eðlilegur fórnarkostnaður framþróunar eiga menn ekki að tala um byggðastefnu.  Og það er að sjálfsögðu sjónarmið.

Lýður Árnason, 23.5.2007 kl. 03:47

5 Smámynd: Gunnar Þórðarson

Það er einmitt þess vegna sem ekki dugir að notast við algjört frelsi í fiskveiðum. Þær þurfa að vera sjálfbærar og ekki hægt að hafa frjálsa sókn í stofninn. Að því leiti eru þær ólíkar t.d. verslunarrekstri þar sem samkeppnin á að duga til að tryggja hagkvæmni. Einhverskonar kerfi til að takmarka veiðar er því nauðsynlegt þar sem við viljum nota eins fá og mögulegt er til að veiða þann afla sem stofninn þolir. Hvernig á að festa það um aldur og ævi við tiltekna byggð eða tegund af bátum er erfitt að sjá fyrir sér. 

Það sem er að á Flateyri er að eigendur skilja ekki þá ábyrgð sem þeir takast á hendur með því að reka stórt fyrirtæki í litlu samfélagi. Það liggur fyrir að heimamenn hefðu komið inn í þessi kaup ef þeir hefðu haft ráðrúm til þess. Aðilar í greininni hér fyrir vestan fréttu þetta á miðvikudag í síðustu viku og þá var salan í raun frágengin. Það er býsna ómerkilegt að smyrja skömminni yfir á stjórnvöld og kvótakerfið.  

Gunnar Þórðarson, 23.5.2007 kl. 08:00

6 Smámynd: Lýður Árnason

Eins og þú segir sjálfur er markaðurinn hreinskiptur en ekki alltaf réttlátur.  Forsvarsmenn fyrirtækjanna selja hæstbjóðendum eins og lög gera ráð fyrir, siðferðið hinsvegar sjálftúlkað.  

Spurningin er því um rétt sjávarbyggðanna í þessum leik?  Sé hann áfram óbreyttur er blekking að tala um byggðastefnu sem er eins og ég áður nefndi, sjónarmið.

Takk fyrir skemmtilegt spjall.

 LÁ

Lýður Árnason, 23.5.2007 kl. 12:38

7 Smámynd: Gunnar Þórðarson

Já takk fyrir skemmtilegt spjall

Gunnar Þórðarson, 23.5.2007 kl. 14:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 27
  • Frá upphafi: 283939

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 27
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband