,,Gjafakvótinn"

Umræða í skötulíki

Umræðan um stjórn fiskveiða hefur verið í skötulíki undanfarin ár. Flestir þeirra sem hæst láta virðast gera sér litla eða enga grein fyrir því að kvótakerfinu var komið á fyrir 25 árum til þess að auka arðsemi í íslenskum sjávarútvegi og beita skynsamlegri nýtingu til að vernda ofveidda fiskistofna. Það vill gleymast, að fæstir útvegsmenn voru hlynntir kvótakerfinu á sínum tíma. Með þessum hugmyndum þótti þeim vegið að frelsi sínu til fiskveiða. Í dag deilir hins vegar enginn ábyrgur útgerðarmaður um ágæti þessa fyrirkomulags sem notað er við stjórn fiskveiða hér á landi.

 

Hvað lá að baki?

En hvernig var tilurð kvótakerfisins og hvað lá þar að baki? Upphaf umræðunnar má tengja við útkomu hinnar svokölluðu ,,svörtu skýrslu" Hafrannsóknarstofnunar árið 1975. Þar sagði að útlit væri fyrir verulegan viðkomubrest ef ekki yrði gripið til nauðsynlegra ráðstafana. Í framhaldi var ,,skrapdagakerfinu" komið á 1977. Þar mátti hlutfall þorsks hjá togurum ekki fara upp fyrir ákveðið hlutfall af afla tiltekna daga á ári.

Að öðru leyti voru veiðar frjálsar og þrátt fyrir tillögu Hafró um 275 þúsund tonn þetta ár var veiðin 340 þúsund tonn. Sóknarþungi jókst stórum og náði þorskveiðin hámarki árið 1981 þegar veidd voru tæp 470 þúsund tonn. Þrátt fyrir þessa miklu veiði fór afkoma útgerðar stöðugt versandi. Á annað hundrað skuttogarar bættust við flotann á þessu tímabili sem hluti af stefnu stjórnvalda í atvinnu- og byggðamálum.

Hugmyndinni illa tekið í fyrstu

Augljóst var að frjáls aðgangur að auðlindinni skilaði ekki þeim markmiðum sem stjórnvöld settu sér við nýtingu hennar. Þannig benti Jakob Jakobsson fiskifræðingur t.d. á gríðarlega sóun við síldveiðar árið 1979, þar sem 170 skip veiddu 35 þúsund tonna ársafla. Tíundi hluti þess flota hefði staðið undir veiðunum.

Austfirðingar hreyfðu fyrst við hugmyndum um kvótakerfi á Fiskiþingi árið 1978. Þeim var illa tekið af útvegsmönnum, sérstaklega Vestfirðingum, sem töldu frjálsar veiðar sér í hag vegna nálægðar við fiskimiðin. Austfirðingar reyndu á ný árið eftir en allt fór á sama veg. Á Fiskiþingi 1981 mátti hins vegar greina vaxandi áhuga á kvótasetningu á þorski. Umræðan var orðin upplýstari og menn gerðu sér grein fyrir að stjórnlaus veiði á endurnýjanlegri auðlind ógnaði jafnt fiskistofnum sem afkomu útgerðarinnar.

Kvótakerfið verður að lögum

Fram að þessum tíma hafði svokölluð millifærsluleið verið farin í stjórnun sjávarútvegs. Flókið sjóðakerfi var notað sem tæki til að taka fjármuni af heildinni og færa öðrum. Heildarfjármunir voru teknir frá þjóðinni með launalækkun í gegnum gengisfellingar. En til að gera langa sögu stutta fór svo að mælt var fyrir frumvarpi um kvóta í desember 1983 og það varð að lögum árið 1984.

Kvótakerfið var samþykkt til eins árs í senn þar til 1988 þegar það var fest í sessi. Fljótlega kom í ljós að án framsalsréttar á aflaheimildum væri takmarkaður ávinningur af kvótakerfinu. Framsal var lögfest 1988. Ljóst var að nauðsynlegt var að fækka skipum og draga úr sóknarþunga til að auka arðsemi veiða og án framsalsheimilda væri það borin von.

Einkaframtak í stað ríkisafskipta

Stjórnmálaflokkar voru klofnir í afstöðu sinni til málsins en margir álitsgjafar voru atkvæðamiklir í umræðunni. Í henni kristölluðust meginstraumar í hugmyndum um kvótakerfi; hvort ríkið ætti að útdeila fiskveiðiheimildum eða hvort nýtingarréttur yrði færður til útgerðarinnar og hún látin bera ábyrgð á eigin afkomu. Sú leið sem farin var - að nota reiknireglur til að skipta aflaheimildum niður á skip - var því í anda einkaframtaks í stað ríkisafskipta.

Kvótanum þröngvað upp á útvegsmenn

Það er nokkuð ljóst að kvótanum var þröngvað upp á útvegsmenn á sínum tíma þar sem frjáls veiði án afskipta ríkisins hugnaðist þeim betur. Sú aðferð að færa nýtingarréttinn til útgerða, byggðan á aflareynslu, getur varla talist vafasöm aðgerð. Í ljósi fjárhagsstöðu útgerðarinnar á þessum tíma var ekki var borð fyrir báru til að greiða háar upphæðir fyrir aflaheimildir til ríkisins. Einnig verður að líta til þess að aflakvóti var einskis virði á þessum tíma enda tapið botnlaust hjá útgerðinni og kvótasetningin því forsenda arðsemi.

Ríkisafskipti með pólitískri útdeilingu gæða eins og aflaheimilda er ekki líkleg til að skila hámarks arðsemi af fiskveiðum sem hlýtur að vera meginkrafa íslensku þjóðarinnar. Skipting þess fiskveiðiarðs með réttlátum hætti er hinsvegar pólitískt viðfangsefni hverju sinni.

Höfundur er viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnar Gunnlaugsson

Góð samantekt.Þessu eru margir búnir að gleyma kvótakerfið var sett á af illri nauðsyn,það voru alltof  mörg skip að veiða takmarkaðan afla.

Ég er búinn að fylgjast með þjóðmálum í 50.-60. ár ,áður en kvótakerfið var sett á þurftu að vera tíðar gengisfellingar til að bjarga sjávarútvegsfyrirtækjum, því alltaf var verið að reyna bjarga þeim sem reksturinn gekk verst hjá .

Mesti gallinn var að mikið fé var tekið út úr greininni eftir að kvótinn varð framseljanlegur.

Ragnar Gunnlaugsson, 27.1.2010 kl. 21:24

2 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Tek undir mað Ragnari að þetta er góð samantekt og gagnleg upprifjun.

 Þrátt fyrir gríarlega hækkun fiskverðs  eru afleiðingar kvótakerfisins þessar:

1. Minnkun og jafnvel hrun allra helstu fiskistofna.

2. Brottkast aflaverðmæta fyrir hundruð milljarða síðan kerfinu var komið á.

3.  Gríðarlega skuldasöfnun sem á engan sinn líka þó leitað sé út fyrir landsteina.

Sigurður Þórðarson, 28.1.2010 kl. 06:48

3 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Tek undir með kommentum, um, að samantektin er góð fyrir marga hluta sakir EN jafn ósönn um afurðir kerfisins og hugsast getur.

Ég hef verið andstæðingur Kvótakerfisins frá upphafi og farið margar ferðir í pontu á Landsfundum og varað við öllu því sem á okkur hefur nú dunið.

Ég vil nefnilega meina, að svindlið og braskið í Kvótakerfinu hafi verið uppeldisstöð fyrir Endrskoðendur og viðskiptafræðinga í bókhaldsbrellum.

Setti eftirfarandi inn um annað efni (spurninguna um, hvenær megi rita í bækur fyrirtækja ,,óefnislegar eignir".  Það var í umfjölluninni um þingmann míns elskaða Flokks, þegar hann var tekinn með báðar lúkurnar í nammiskálinni og súkkulaði út á báða kinnar on niður á bringu.

 Vonandi fornemast síðuhaldari þó þetta se´nokkur langhundur.

Bjarni Kjartansson
27.01 2010 kl.14:48

Óefnislegar eignir má ekki skrifa í bækur sínar NEMA að búið sé að greiða fyrir þær.

Viðskiptavild (sem getur verið að ýmsum toga) má ekki færa í bækur sem eign, nema að greitt hafi verið fyrir hana, til dæmis þegar fyrirtæki er keypt á ,,yfirverði” sem er verð umffram bókfært verðmæti.

Þess vegna eru Kvóta-gróðapungar búnir að búa til (með hjálp sinna endurskoðenda) nokkur fyrirtæki, sem kaupa sín á milli bátana með kvóta eða bara kvóta, sífellt á hærra verð.

ÞEtta gerir það að verkum, að gróði myndast hjá því fyrirtæki sem selur en skuldin verðu til í dótturfyrirtækinu, sem síðar lækkar heildar skattgreiðslur en ,,eignin” í seim óefnislegu (Kvótanum) hækkar verulega í dótturfyrirtækinu.

Nú selur dótturfyrirtlkið öðru dótturfyrirtæki sama móðurfélags bátinn, sem ekki hefur einusinni þurft að leggja úr höfn í millitíðinni, greiðir fyrir verulegt yfirverð, vegna ,,hækkunar Kvóta” og ,,hagræðingar í GREININNI” sem skuldsetur nýja dótturfyrirtækið verulega en myndar gróða hjá hinu. ÞANN GRÓÐA má svo auðvitað greiða út, sem arð, og því verður skuldin, sem nú er í dótturfélagi no2 til að lækka verulega skattgreiðslur móðurfélags, því nokkrar ´ivilnunar gætir i upgjörum milli Móður og Dótturfyrirtækja og ,,Samstæðan” getur því þurft að greiða enn minni skatt en ella.

Svo þarf auðvitða að taka lá, með veði í óefnislegu eignunun, svo greiða megi arð til eigenda.

Semsagt, Kvótinn er ekki bara efni til að svindla og stela með úti á sjó, heldur einnig kærkomin æfingarstöð fyrir endurskoðendur, að fullkomna millifærslur, sýndarviðskipti og annað svoleiðis, sem síðar má nota í bankakerfinu og eignarhaldsfélögum. Þetta sanna dæmin fjölmörg.

Um þennann tiltekna svindlara, sem nú er milli tanna á mönnum, vil ég benda á, að hann er ekki bara snillingur í bókhaldi, heldur líka ótrúlegur mannþekkjari og slyngur samningamaður, við útlenda skúrka, sem fá EINKARÉTT Á AUÐLINDINNI- HREINU VATNI í heimahéraði hans til YFIR 90ÁRA
Viðskiptafélaginn er nú til skoðunar hjá þar til bærum yfirvöldum í Kanada.

Bjarni Ben Á að vita þetta og taka miðið eftir forsögunni en ekki verja svona lagað.
Svo helvíti dýr má ekki stuðningur LÍjúgarna vera við hann , að hann afhendi pólitíska æru sína þeim á silfur fati.

Miðbæjaríhaldið

Bjarni Kjartansson, 28.1.2010 kl. 13:05

4 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Átti auðvitað að vera ,,fornemast síðuhaldari EKKI  þó....

Með afsökunarbeiðni fyrir rasböguna

Bjarni Kjartansson, 28.1.2010 kl. 13:06

5 Smámynd: Árni Gunnarsson

Sammála með að úttekt síðuritara var afargóð allt þar til kom að niðurstöðunni um gagnsemina af kerfinu og ábatann sem því fylgdi fyrir útgerðir og þjóðarbúið.

1. Allar aflatölur á meðan þorskveiðar í flottroll voru í hámarki og tengdust loðnugöngum yfir sumartímann voru kolrangar.

2. Enginn veit hversu mikill þorskafli lenti utan við skráðan afla vegna þess að togararnir voru að sprengja trollin og missa misjafnlega mikinn hluta aflans þar með. Dæmi voru nokkur þar sem allur aflinn úr toginu tapaðist vegna þess að pokinn slitnaði frá ásamt nokkrum hluta netsins. Þessu varð ég sjálfur vitni að. Á þeim degi munu hafa tapast í það minnsta 1500-2000 tonn vegna þess að trollin sprungu á því svæði sem ég var staddur á þennan fagra sumardag.

3. Mestallur sá þorskur sem náðist þarna fór í frystingu (líklega allur) og verðmætið hefur borgað hluta af launum starfsfólks.

4. Nánast enginn ferskfiskmatsmaður hafði á þessum árum siðferðisþrek til að meta þennan fisk eftir viðurkenndum vinnureglum. Margir voru gamlir sjómenn og þarna voru þeir að verðleggja launatengda afurð góðvina sinna. Allt sem metið var neðan við 100% 1.fl. hét á sjómannamáli: "Hann var að meta fiskinn okkar niður matsmannsdjöfullinn!"

Sjálfur tala ég af sárri reynslu sem ferskfiskmatsmaður og átti að baki nokkra fortíð sem hluti áhafnar á ísfiskstogara. Mína eldskírn fékk ég þegar ég sendi frá mér matsvottorð á farmi úr flottrolli þar sem ég setti 1. flokk á 73% aflans og hlaut að launum augnaráð frá stýrimanni sem boðaði mér afar hægt og kvalafullt líflát. Sú lífsreynsla varð þó eins og syndafyrirgefning frá páfanum þegar verkstjóri frystihússins bauð mér að standa við flökunarlínuna og kenna sér að þekkja úr 1. fl. flök. Eftir u.þ.b. 20 mínútur bugaðist ég og rölti út þegjandi. Ekki eitt einasta flak sást sem telja mætti mannamat.

Þessi lexía nægði mér.

Svona vinnubrögð voru blásin af jafn söggt og þegar dómari flautar af kappleik á EM. Og það gerðist þegar fiskmarkaðirnir tóku til starfa og starf okkar matsmanna var lagt niður. Þá losnuðu útgerðirnar við landssambandsverðið svonefnt og fengu raunvirði fyrir aflann. Allir högnuðust.

Sá ábati sem af þessu leiddi fyrir alla þætti útgerðar á enga tengingu við kvótakerfið svonefnt.

Þetta er ekki ályktun; ekki innlegg í umræðuna; þetta er niðurstaða.

Árni Gunnarsson, 28.1.2010 kl. 19:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.5.): 7
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 38
  • Frá upphafi: 283970

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 36
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband