14.9.2012 | 09:44
Grein í Fiskifréttum
,,Réttlætiskröfurnar" í fiskveiðistjórnunarkerfinu kosta þjóðfélagið stórfé
Unnið gegn arðseminni
Höfundur hefur alla tíð haft það þá skoðun að reka eigi íslenskan sjávarútveg á markaðsforsendum og að veiðistjórnun tryggi hagkvæmni og arðsemi greinarinnar. Þannig að verðmætasköpun verði tryggð og hægt að setjast yfir það ánægjulega vandamál" hvernig skipting fiskveiðiarðs hámarki þjóðarhag.
Umræða um sanngirni og réttlæti er oftar en ekki úti á þekju, enda sýnist sitt hverjum þegar kemur að slíkum huglægum viðmiðum. Mörg letjandi ákvæði hafa verið sett inn í fiskveiðistjórnunarkerfið til að uppfylla réttlætiskröfur" ýmissa hópa þjóðfélagsins, en því miður veldur það miklum kostnaði fyrir þjóðarbúið í heild. Hér skal drepa niður fæti til að skoða nokkur slík dæmi og velta upp þeim kostnaði sem slíkir annmarkar hafa í för með sér í annars góðu kerfi.
Línuívilnun
Línuívilnun var komið á til að kaupa vinsældir smábátasjómanna sem sáu leið til að auka við veiðiheimildir undir gunnfána byggðastefnu. Með því að handbeita línu í landi og takmarka sókn við dagróðra fær útgerðin 20% ívilnun á kvóta sinn. Með þessu er komið í veg fyrir tækniþróun útgerðar og menn verðlaunaðir fyrir að nota útelt vinnubrögð, sem eru erfið, illa launuð og óþrifaleg. Engum dettur í hug að setja línubeitningavél um borð þegar hægt er að auka kvóta með handbeitningu. Þessu má líkja við að menn fengju lóðir undir húsin sín frítt ef þeir notuðu hjólbörur við að keyra möl í grunna í stað vörubíla.
Á fundi sem haldinn var á Patreksfirði í vor var einn frumælandi stjórnandi í fiskvinnslu á svæðinu. Þar upplýsti hann að fyrirtæki sitt hefði ákveðið að taka beitningakerfi úr 300 tonna vertíðarbáti og gera hann út á dagróðra með handbeitningu. Áður hafði þessi bátur róið á útilegu í þrjá daga í senn. Áhrif þessara breytinga voru afgerandi; gæði afla rýrnuðu og kostnaður stórjókst. Nú þurfti að róa á heimamið þar sem landa þurfti innan sólahrings og því ekki hægt að sækja á fjarlægari gjöfulli mið og betri fisk. Olíukostnaður var mun meiri og dýrara var að handbeita vegna vinnulauna og minni nýtingar á beitu. En vegna línuívilnunar borgaði sig að stíga þetta skref til baka, sem skilar samfélaginu auknum kostnaði og minni arðsemi.
Hámarkstærð báta
Smábátakerfið gerir ráð fyrir hámarksstærð, 15 tonnum. Í dag er verið að smíða nýja fullkomna" báta í þessu kerfi, með þessum annmörkum. Niðurstaðan er sú að ekki er pláss fyrir eðlilega vinnuhagræðingu um borð í bátunum. Menn eru að kasta til fiski marga metra sem bæði gerir störfin erfiðari og skaðar gæði aflans stórkostlega. Ekki er pláss um borð fyrir sjálfsögð tæki til að bæta meðferð afla, eins og blóðgunarbúnað. Ef bátarnir væru lengdir um 5 metra væri hægt að leysa öll þessi vandamál, og eldsneytiseyðsla myndi minnka verulega. Í dag draga þessir bátar mikinn sjó á eftir sér vegna þess að þeir eru allt of stuttir.
Í raun ættu engin stærðarmörk að vera á skipum. Menn hafa sinn kvóta og ráða því sjálfir hvort þeir sækja hann á 15 tonna báti eða 50 tonna. Enginn er betur til þess fallinn að taka slíka ákvörðun en útgerðarmaður sem er vonandi sérfræðingur á sínu sviði, og þarf því ekki fánýtar reglugerðir til að hafa þar áhrif.
Standveiðar
Strandveiðar taka samt út yfir allt hvað þetta varðar. Í raun má segja að kvóti sé tekinn af einum báti og færður öðrum. Í mínum heimabæ, Ísafjarðarbæ, er kvóti tekinn af Páli Pálssyni ÍS-102 og færður til bílstjóra, bankastjóra, atvinnurekanda og annarra sem stunda strandveiðar í frístundum sínum. Til að meta hagkvæmni þessa er rétt að líta til hagfræðilegra viðmiða sem kallast jaðarkostnaður. Jaðarkostnaður Páls Pálssonar við að veiða eitt tonn í viðbót, við þau 70 tonn sem hann hefur þegar fiskað í túr fyrir vinnslu HG, er sáralítill. Engin von er til þess að útgerðarmaður strandveiðibátsins geti keppt á þeim grunni. Í raun hefur verið sýnt fram á að útgerð strandveiðibáta er rekin með miklu tapi, en það er huggun harmi gegn að miklar framfarir hafa orðið á hráefnisgæðum þeirra undanfarið ár.
Þegar kemur að strandveiðum virðist rómatíkin ráða för, en erfitt er að sjá réttlætið í þessu. Hvert tonn sem Páll Pálsson landar fer til vinnslu í Hnífsdal, en stór hluti strandveiðiaflans er seldur gegnum markað og fluttur burtu óunninn.
Hugmyndir framtíðar
Hugmyndir ráðstjórnarmanna eru þó enn verri en þessi dæmi hér á undan. Arðsemi er eins og eitur í þeirra beinum og nú skal með öllum ráðum koma í veg fyrir slíka ósvinnu. Framvegis skal ríkið vera alls um leikandi, þar sem alvitrir stjórnmálamenn taka allar ákvarðanir; hvað skuli veiða, hvenær, hvernig og af hverjum. Þá verður réttlætinu" fullnægt þó það kosti samfélagið mikla fjármuni og dragi úr lífskjörum þjóðarinnar, sérstaklega þeirra sem búa í sjávarbyggðum.
Höfundur er rekstrarfræðingur búsettur á Ísafirði.
24.8.2012 | 07:46
Gengið úr Hattveri - þriðji dagur
Undirritaður svaf eins og steinn í tjaldinu þó undirlagið væri hart. Hann óttaðist hinsvegar að eins færi fyrir honum og Don Kíkóta vini sínum að eftir góðan svefn hyrfu töfrar ímyndaraflsins og hann vaknaði til raunveruleikans þar sem fegurð Fjallabaks yrði nokkuð jarðbundnari. Eftir að Riddarinn raunamæddi náði átta tíma svefni í fyrsta sinn í langan tíma rann af honum brjálæði ímyndunar. Heimurinn breyttist í raunveruleika grámyglulegur hversdagur tók við, sem lamaði lífsþróttinn og dró hann fljótlega til dauða. Skyldi raunveruleikinn reka fýrtommu á ská í sigurverk ferðalanga eftir góðan nætursvefn þar sem allt leystist upp í draumsýn?
En skrifari var enn með hýrri há og vaknaði í mjúkri moskulegri dagsbirtunni um sex leytið. Nú er það þannig að um leið og tjaldbúðir eru settar upp bíður tilbúið regluverk fyrir íbúana. Rauð skófla var sett á torgið milli tjalda til nota fyrir þá sem þurftu að tefla við páfann. Væri skóflan ekki á sínum stað var ljóst að einhver úr hópnum væri í miðri taflmennsku. Annað var að ekki mátti láta á sér kræla fyrr en klukkan sjö á morgnana. Þannig lá undirritaður meðan dagurinn rak nóttina á undan sér og aðeins lágvær svefngalsi heyrðist í samfélaginu. Þorði ekki að æmta né skræmta þar sem eiginkonan hélt honum á mottunni.
Eins og með taflmennskuna fer svefninn ekki í manngreiningarálit þar sem allir þurfa að hlaða batteríin í meðvitaleysi næturinnar. Að Fjallabaki eru nánast engin hljóð þar sem lítið er um fugla og einu ferfætlingarnir eru kindur, sem sofa með mannfólkinu. Allt í einu byrjar allt að lifna við og fyrst heyrist pískur í tjaldi og skömmu seinna rokna hávaði þegar syngur í rennilás. Einhver er kominn á stjá og búinn að opna tjaldið og eins og fyrir töfra fer kliður um tjaldbúðirnar á árbakkanum. Á örfáum mínútum fer svefndrukkið skvaldur um byggðina og nú er óhætt að drífa sig á fætur, sækja vatn og kveikja á prímus. Nú er allt komið á fulla ferð og allar hömlur teknar af árvökulum tjaldbúum og tveimur tímum seinna eru tjöldin kvödd og lagt af stað í skoðunarferð um Fjallabak.
Hafi skrifari óttast að töfrarnir hyrfu við nætursvefninn og færi fyrir honum eins riddaranum raunarmædda þá átti þessi dagur sem hér rann sitt skaut eftir að bæta um betur, þannig að syði á súðum framandleikans. Framundan voru ótrúleg ævintýri og upplifun á fegurð og undrum sem engin gat átt á vona á. En ekkert stórkostlegt fæst án fyrirhafnar og hér þarf að vaða jökulár, klifra upp brattar skriður, feta brún á snarbröttum hryggjum og klífa niður klettagil. Allt þó hættulaust þó ekki sé það heiglum hent.
Með Hattinn í kjölfarinu lagði hópurinn af stað í ævintýraför og fljótlega þurfti að vaða jökulána í Jökulgili þar sem stefnan var tekin á Sveinsgil til uppgöngu. Eftir að gengin var hryggur upp af gilinu blasti við fagurblár barmur hliðagils þar sem víða mátti sjá fyrningar umliðins vetrar. Enn var gengið á hryggjum þar
sem litadýrð líparítsfjalla blasti við hvert sem litið var. Í fjarska mátti sjá Háskerðing með toppinn hulin skýslæðu og reykinn" úr Háuhverum. Eftir þurrt sumar var undirlagið þurrt og virkaði oft ótraust á snarbröttum brúnum hryggjanna. Hópurinn fetaði sig niður hrygginn alla leið niður að áreyrum í botni Sveinsgils og síðan upp annan hrygg til að sjá yfir í Jökulgilið. Þegar ritari kom upp á brúnina var hann sem bergnuminn og mátti ekki mæla um stund. Stórkostlegasta útsýni fyrr og síða blasti við þar sem Þrengslin liðuðust upp Jökulgilið, engu öðru lík. Það var líkt og vera komin á tökustað kvikmyndar þar sem höfundar vísindaskáldsögu höfðu farið fram úr sér við hönnun á landslagi á fjarlægri stjörnu. Hér verður ekki reynt að lýsa Þrengslunum þar sem slíkt er ekki hægt í orðum. Allavega ekki í óbundnu máli.
En fleiri undur og stórmerki biðu okkar skammt undan, handan næstu hæðar. Nokkuð sem engin er viðbúin að sjá nema efast um raunveruleikaskynið og jafnvel klípa sig til að sannfærast um meðvitund. Græni hryggurinn, sem fáir vissu um þar til fyrir örfáum árum, er einstakt náttúruundur. Hann liggur eins og risastór gota, wasabi grænn og við hliðina á honum er annar minni hryggur, kanil litaður. Hvað veldur öðrum eins undrum að líparítið taki á sig slíka furðu mynd er höfundi hulið. En þeirri hugmynd skýtur upp hvort þessi undur og stórmerki væru enn til ef svæðið væri ekki svo afskekkt og fáfarið sem raunin er. Fyrir aðeins þremur árum voru það aðeins fjársmalar sem höfðu barið hann augum, en engir ferðamenn áttu leið um þetta torfæra og vandrataða svæði. Maður sá fyrir sér Hörpuna fagur græna, múruð úr græna hryggnum. Þá hefði verið hægt að sletta kanillitnum á Þjóðmenningarhúsið og þar væri komin heilög þrenning með Þjóðleikhúsinu, sem er múrað upp úr hrafntinnu úr nágreninu.
Upplifun síðustu augnablika frá Þrengslum og Græna hryggnum blinda mann með nokkrum hætti. Ekkert í veröldinni gæti jafnast á við slíkt og verður sem hjóm í samanburði. Hafi guð tekið sér viku til að skapa heiminn hlýtur hann að hafa eytt sex dögum í Fjallabak. Svei mér ef hann hefur ekki verið á léttu sýrutrippi við gjörninginn.
En þrátt fyrir sterka upplifun var enn hægt að koma manni á óvart. Við klöngruðumst niður þröngt gil sem endar við brattan bakka Sveinskvíslar, sem hér þarf að vaða. Á leiðinni niður gilið má sjá vínrauðar slettur í hrauninu, engu líkara en tröll hafi misst rauðvínskút við klungrið og eðaldrykkurinn runnið niður gilið. Við bakkann rennur áin meðfram snarbröttum hömrum sem skarta rauðum, bláum, grænum, brúnum og gráum litum. Þrátt fyrir strauminn getur göngumaður ekki annað en stoppað til að líta við og njóta útsýnisins, meðan notalegt jökulvatnið kitlar gönguþreytta fætur og skolar burtu svita dagsins.
Þrátt fyrir að hafa lokið við langa og stranga göngu létu ferðamenn sig ekki muna að skreppa upp að hattinum fyrir kvöldmatinn. Reyndar kleif einn ofurhugi úr hópnum upp á hann en hinir létu sér nægja að ganga kringum hann og dást að ægifögru útsýninu. Það er merkilegt með hattinn að hann virkar stór úr fjarlægð en verður því minni sem nær dregur, öfugt við því sem vanalega er. Þegar komið var upp að honum var þetta orðin kollhúfa.
Eftir góðan snæðing settust ferðamenn niður til að segja sögur og hafa gaman af félagsskapnum. Menn kynnast fljótt í slíkum ferðum enda trúlegt að nokkuð einsleitur hópur sækist eftir þeim áskorunum sem felast í göngu um ótroðnar slóðir fjarri öllum lífsins þægindum. En hér sigrar kvöldið daginn og svefnsöm nóttin bíður ferðalanga sem hvílast til átaka næsta dags.
23.8.2012 | 15:18
Dagur tvö - úr Hrafntinnuskeri í Hattver
Það var ágætis veður við upphaf göngu daginn eftir þó skýjahula væri yfir Reykjafjöllum og Háskerðingi, en skyggni að öðru leyti með besta móti. Stefnan var tekin upp í Kaldaklof sem liggur norðan við Torfajökul þar sem leifar jökuls liggur, úfinn og svartur af gjósku, en auðveldur yfirferðar. Þegar komið er upp í klofið er gott útsýni yfir Fjallabak, þar sem næstu þremur dögum yrði varið við gönguferðir um úfin jökulgil í landi þar einu merki menningar er sauðkindin.
Eftir um hundrað metra lækkun tókum við af okkur bakpokana þar sem tekin var krókur á fyrirhugaðri leið í svefnstað í Hattveri. Fyrst var gengið undir rætur Kaldaklofsjökuls þar sem andstæður kallast á; jökulstálið með snjóalögum frá síðasta vetri, bullandi hitahverir og ótrúlega grænn mosinn þar sem sólin sindraði í daggartárum. Við komum að ónefndum hver með svörtum útfellingum og hefði vel átt við sem partur af leikmynd í Batman kvikmynd og annar hver er þarna sem mætti kalla litla bróður Hvínanda, en hann blæs með háværum hvini. Mikið er af soðpönnum á þessu svæði, sem eru hverir þar sem sjóðheitir gasstrókar streyma upp en lítið af vatni. Þannig er afrennsli í lágmarki frá þeim þótt mikið gangi á með hávaða og látum. Hópurinn áði stutta stund við nið jökulárinnar sem rennur úr kaldaklofsjökli áður haldið var til baka þar sem bakpokarnir biðu okkar. Eftir hádegisverð var byrðin öxluð og haldið áfram til svefnstaðar í Hattveri.
Næst komum við að fossi sem er kallaður Ryðglæri þar sem um hálfan fossinn rennur tært bergvatn en hinn helmingurinn rennur heitt hveravatn niður rautt líparítberg. Reyndar var lítið vatn ryð-megin í fossinum sem er breyting frá því sem verið hefur en hann er stórmerkilegu engu að síður. Skammt frá fossinum er soðpanna sem vegna útlits síns er kölluð Hvolfketill. Hverinn þykir einstakur og ekki vitað um annan slíkan á landinu. Þegar gengið var á hrygginn þar fyrir ofan blasti Hvolfketill við með Ryðglær í bakgrunni, sem tekur öllu ímyndarafli fram um sérkennilegt og framandi landsslag, nokkuð sem einkennir Fjallabak.
Þegar hærra var komið blöstu við gilskorningar og hryggir; í bláum, grænleitum og ljósbrúnum lit þar sem iðagrænn mosinn undirstrikaði ægifegurð svæðisins. Einstaka snjóskafl á stangli setti punktinn yfir i-ið og mynnti okkur á hversu hátt svæðið liggur, um og yfir 600 metra hæð yfir sjávarmáli.
Hafi raunveruleikinn tekið ímyndarafli fram þá var heldur betur bætt í þegar komið var að Háuhverum. Ofurafl þessa mesta háhitasvæðis Íslands birtist þarna í öllu sínu veldi. Risastór soðpanna, fagurblá á litin og um þrjátíu metrar í þvermál blasti við. Úr miðju hennar streymdu gasstrókar af miklu afli þar sem yfirborðið iðaði af átökum og orku. Ofar mátti sjá mikið hverasvæði, sem er eitt það öflugasta á Fjallabaki og má sjá gufustróka frá því langar leiðir. Framundan blasti Hattur við sem við nálguðumst hægt og bítandi, með krókaleiðum upp og niður hryggi og fljótlega vorum við komin að fyrsta vaði dagsins.
Ofan vaðsins reis mikið stuðlaberg úr líparíti, ryðrautt á litin. Þetta er sjaldgæf sjón á Íslandi og þó víðar væri leitað. Þar yfir blasti Hattur við sem er bergstapi ofan á líparít hrygg sem rís rúmlega 250 metra yfir gilbotninum, þar sem tjaldsvæðið í Hattver beið okkar.
Nokkur gróður er í Hattveri en það er ekki í boði að tjalda þar og staður valin á melum aðeins ofan við jökulána. Nauðsynlegt er að hlífa gróðri eins og hægt er, enda viðkvæmur þar sem vaxtatími er aðeins um tveir mánuðir á ári. Tjöldin voru komin upp fyrir kvöldmat og eins og hendi væri veifað var lítið þorp risið í Hattveri. Hér var ekki tjaldað til einnar nætur þar sem gengið yrði út frá tjöldum næsta dag.
23.8.2012 | 15:13
Ferðalag að Fjallabaki - fyrsti dagur
Landmannalaugar - Hrafntinnusker
Það sem helst þvældist fyrir Don Kíkóta var brenglað veruleikaskyn þar sem fantasíur yfirtóku raunveruleika, m.a. í bardaga við vindmillu sem hann taldi vera dreka og kindahjörð sem hann taldi vera herflokk óvina. Þetta er ekki vandamál þeirra sem teljast jarðbundnir og þurfa venjulega eitthvað áþreifanlegt til að trúa á það, en hvað er þegar veruleikinn tekur ímyndinni fram? Hverju á að trúa þegar landslag tekur á sig mynd sem helst gæti átt við geggjað" atriði í kvikmynd í framtíðarstíl? Ferð okkar hjóna um Fjallabak var slík ferð þar sem veruleiki tók fram úr hugmyndafluginu svo um munaði og ítrekað stóð maður sem bergnuminn og það eina sem hægt var að segja var WOW"
Við ókum sem leið lá norður fyrir Heklurætur á leið í gegnum Dómadal til Landmannalauga, þar sem við höfðum mælt okkur mót við samferðafólk okkar í fjögurra daga gönguferð um Fjallabak. Það voru átján mans sem fetuðu stíginn upp með Brennisteinsöldu, nokkuð létt á fæti þar sem bakpokunum var trússað upp í Höskuldarskála. Það tekur alltaf tíma til að hrista svona hóp saman, en við hjónin þekktum aðeins einn samferðarmanninn, Bjarna Sólbergs úr Bolungarvík. Fararstjórar voru feðgarnir Ólafur Örn og Örvar, sem hafa undanfarin ár kynnt sér ferðasvæðið vel og var þetta annar hópurinn sem þeir stýrðu um þessar slóðir.
Veðrið lék við okkur, vindstrengur af suð-vestri, hlýtt og skyggni ágætt. Nokkrir hverir eru á þessari leið, sem er upphaf Laugarvegsgöngu enda Torfajökulssvæðið mesta háhitasvæði landsins. Gönguferðin var þó tíðindalítil og vorum við komin í Höskuldarskála fyrir kvöldmat. Þetta var í þriðja skiptið á einu ári sem við hjónin komu í skálann og óhætt að segja að veðurlagið hafi verið misjafnt. Fyrst komum við í byrjun júlí í fyrra í kalsa og strekking af suð-austri, frekar kalt og eins og konan frá Langanesi segir það sá ekki milli augna" Næst komum við í skálann um miðjan ágúst í tuttugu stiga hita og sól, ekki skýhnoðri á himni skyggnið endalaust. Þá lá leið okkar upp á Háskerðing sem er mesta útsýnifjall Íslands. Nú komum við í suð-vestan kalda, hlýju veðri en þokumuggu sem er algeng á Hrafntinnuskeri, enda í rúmlega 1000 metra hæð. Tímasetningin var góð að þessu sinni þar sem Höskuldur, móðurbróðir Stínu, átti 75 ára afmæli þennan dag en skálinn er kenndur honum.
Eitt af því sem hverfur hjá viðförlum ferðamanni er spennan sem kitlar í upphafi og fylgir óvissunni framundan við að takast á við óþekktar áskoranir. En hér var gömul vinkona mætt, sem ekki hafði látið á sér kræla um árabil, og ekki laust við að endurfundir væru notalegir. Framundan var ferðalag um lítt kannaðar og fáfarnar slóðir, hátt upp til fjalla og langt frá öllum mannabyggðum. Hér varð að treysta á eigin getu og búnað til að takast á við erfiðleika við aðstæður sem geta skapast eins og hendi sé veifað, við veðrabrigði duttlungafullrar Íslandslægðar sem oft veldur ófyrirsjáalegrar veðrabrigða, sérstaklega á hálendi Íslands þar sem gengið er og gist ofar 600 metrum. Hér yrði ekki treyst á guð og lukkuna heldur vera í stakk búinn til að takast á það sem höndum ber á einum afskekktasta stað landsins.
Höskuldarskáli fór vel með ferðahópinn sem hvíldist vel í vesturálmu í Hrafntinnuskeri.
1.8.2012 | 07:37
Hvernig við losuðum okkur við ó-línu í Tökunum
Það byrjaði að örla fyrir hinum glaða, brosmilda árroða, smáblómin á grundunum vöknuðu og reistu höfuð og vatnakristallarnir í lækjasprænum kliðuðu á milli hvítra og brúnna steina áður en þeir runnu í fljótin sem biðu þeirra. Jörðin var glaðleg, himinn bjartur, loftið tært, birtan kyrr; og hvert fyrir sig og allt í sameiningu gaf þetta til kynna að dagsbrúnin, sem hékk í kjólfaldi árroðans, boðaði heiðan og hljóðlátan dag.
Í þessum kafla segir frá svo undarlegum ævintýrum að viðeigandi er að hefja hann á orðum Cervantes úr sögunni um Don Kíkóta. Reyndar jafnast ísbjarnarsagan sem hér verður minnst á, fyllilega við frásögnina af riddaranum raunamædda þegar hann seig ofaní Montesínoshelli, en þær sýnir sem hann upplifir þar voru svo einstæðar og svo stórkostlegar að lygilegt þykir.
Það var engin skortur á vönum sjómannshöndum til að splæsa nýja línu fyrir Tökin. Mörgum sjómanninum hefur eflaust klæjað í lófana að takast á við það verk að losa sig við Ó-línu. Hún var orðin trosnuð og fúin og ekki nokkurt hald í henni fyrir nokkurn mann. Hún dygði ekki sem vaður fyrir komma né krata, og alls ekki markaðshyggjumann.
Það var gaman á brúninni þar sem margar hendur unnu létt verk, við að fjarlægja graut-fúinn vaðinn og ganga frá nýjum, sem myndi veita vegfarendum sem einhverra hluta vegna misstu af fjörunni við Posavog og þyrftu að takast á við Tökin. Andinn kom yfir hirðskáldið á þessari stundu og eftirfarandi staka varð til:
Í Tökum áttum aðild að,
að Ó-lína var tekin.
Kom í þeirrar konu" stað,
kaðall samanrekinn.
Viðar Konn
Nú þurfti að reyna vaðinn og Gunnar og Flosi tóku að sér að prófa styrkleika hans og hnýta hnúta á rétta staði. Mikilvægt er að gott grip séu þar sem mest mæðir á, en Tökin eru þrjú hengiflug með smá stöllum á milli. Síðan var kaðallinn reyndur á uppleið og vaðurinn síðan útskrifaður sem öruggur.
Tiltækið vakti heimsathygli og birtist viðtal við tvo af Hallgrímingum eftir heimkomu af Ströndum í Bæjarins Besta. Viðtalið var ekki bara til að benda á að framtaksemi Hallgríminga, heldur ekki síður til að láta ferðamenn um Strandir vita að öruggur kaðall væri kominn í Tökin. Fyrir nokkrum árum flugust ákveðnir einstaklingar á um þennan kaðal, en ónefndur fararstjóri í gönguhópi vildi meina að hann væri ótryggur og Tökin væru stór hættuleg. Fræg er lýsing á því þegar hún óð fyrir Posavoginn svo flaut undir brjóstin, en hundurinn hennar fór á sundi. Um málið urðu nokkur blaðaskrif þar sem meðal annars höfundur göngubókar um Hornstrandir kom við sögu. Sá hefur eflaust þekkt betur til aðstæðna við Tökin, allavega að hans eigin áliti.
Ekki er við því að búast að fólk sem aldrei hefur migið í saltan sjó átti sig á stefnum eða straumum sjávar. Slíkur ókunnugleiki getur auðveldlega sett ferðamann við Posavoginn, þegar há-sjáva er, og verði því að takast á við Tökin og klífa þverhnípið. En ólík eru viðbrögð gönguhópa þegar sumir láta orðin duga en aðrir láta verkin tala.
Önnur skemmtileg saga er af þessum ónefnda fararstjóra þegar hún taldi sig sjá ísbjörn og ekki dugði minna en kalla út þyrlu Landhelgisgæslunnar til hjálpar. Björninn fannst ekki og telja gárungarnir að þarna hafi annað hvort verið snjóskafl eða svanir á ferð. Hvortveggja er nauðalíkt ísbirni og ekki að undra að því sé ruglað saman. Hallgrímingar sáu engan björn í sinni ferð um Hornstrandir, ekki einu sinni Jónbjörn.
Skyldu göngufélagar ónefnds fararstjóra hafa liðið líkt og Sansjó Pansa þegar herra hans, Don Kíkódi, sannfærði hann um að það sem hann sæi væri ekki raunverulegt, heldur sýnir af völdum galdramanna. Þegar Don Kikóti sá þungvopnaða hersveit nálgast sá Sansjó kindahjörð. Göngufélagarnir sáu svan en voru sannfærðir um að þar færi ísbjörn og rétt að kalla út þyrlu?
Við stóðum við heimsóknina til Sveins eftir vel unnið dagsverk og þáðum hjá honum súkkulaði og tókum nokkur lög. Miklir söngmenn eru í Hallgrími og ekki þarf að skammast sín fyrir félagskapinn á svona stundum. Þarna var mættur Þorsteinn J. sem sýndi kaðalmálum í Tökunum mikla athygli. En það var komin tími til að kveðja og halda heim á Borg til að bíða skipakomu fyrir heimferð. Bjarnarnesið var mætt á réttum tíma og eftir smá krók að Látrum var haldið til Bolungarvíkur í renniblíðu og sólskini. Ryturinn var mikilúðlegur og hrikalegur og gaman að geta sagt þar fór ég" .
Stjórnmál og samfélag | Breytt 23.8.2012 kl. 15:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.7.2012 | 08:00
Brúnir Grænuhlíðar gengnar
Það hallaði ekki á hreystina í hópnum sem gekk á Darra í glaða sólskini og logni að morgni laugardags. Tveir Bolvíkingar og tveir Ísfirðingar ásamt tveimur blönduðum úr hvorutveggja. Aðrir ákváðu að taka því rólega, rölta upp að Stað og þiggja kirkjukaffi í presthúsinu. Við mæltum okkur því mót við rólega liðið og reiknuðum með að banka upp á um kaffi leytið.
Upp Darrann þaut Gísli Jón eins og eldibrandur og engin leið að halda í við hann. Greinilegt að hann hafði fengið allt það besta úr báðum sveitum. Við stöldruðum við til að skoða rjúpnahreiður áður en við komum að herstöðinni, þar sem loftvarnarbyssur voru skoðaðar. Þessi tákn varnar lýðræðis og frelsis voru grípandi og enn og aftur gáfum við hugmyndafluginu lausan tauminn þegar þessi merki hluti heimstyrjaldarinnar seinni var rifjaður upp. Vöktun á sundinu milli Íslands og Grænlands var mikilvæg þar sem brigðarlestir bandamanna fóru m.a. um með vopn og búnað til stríðshrjáðra Rússa á austurvígstöðvum.
Af mörgum góðum dögum var þetta sá besti. Skafheiðskýrt og allt mistur horfið og útsýnið endalaust. Af Darra má sjá inn allt Ísafjarðardjúp og útsýnið vestur yfir Djúpið er einstakt. Við gengum suður þakrennu Grænuhlíðar þar sem Jökulfirðir opnuðust því meir sem var gengið. Okkur var hugsað til nafngiftarinnar Hótel Grænahlíð" sem var skjól og virki gegn óblíðum náttúruöflum á tímum togaraútgerðar á síðustu öld. Oft mátti sjá í gegnum sortann ljósadýrð flotans úr Bolungarvík , líkast því að um meðal kaupstað væri að ræða. Hér var skjól gegn norð-austan stórviðrum og algengt að heimatogarar biðu betra veðurs undir Grænuhlíð, þó stutt væri inn í höfn á Ísafirði eða Bolungarvík. Ef til vill má kenna kvótakerfinu um að Hótel Grænahlíð lagðist af, en með betra skipulagi veiða þar sem ólimpískum veiðum var úthýst, minkaði þörfin fyrir þetta virki norðursins.
Það er ekki hægt að lýsa útsýninu á slíkum dýrðardegi í orðum. Hvert sem litið var blöstu við kunnugleg kennileiti; þar sem mátti sjá Vébjarnarnúp, Hestinn, Sauratinda, Arnarnes, Búðarhyrnu, Ernir, Bolafjall og síðan sást vel austur yfir Strandir. Þegar sunnar dró opnuðust Jökulfirðir þar sem mátti sjá Sléttu, Hesteyrarfjörð, Veiðileysufjörð, Lónafjörð, Hrafnfjörð,Grunnavík og Leirufjörð, og suður af blasti Drangajökull við himin. Þetta var svona alsæla þar sem við nutum augnabliksins og fegurðar draumalandsins.
Þegar sunnar dró, og Þorsteinn var horfinn sjónum, færðum við okkur austar á fjallið til að freista niðurgöngu í Staðardal. Menn tylltu sér á hraungrýtið og horfðu niður í dalinn, yfir kirkjujörðina Stað við Staðarvatn. Þar biðu okkar ferðafélagar með kirkjukaffi, en ljóst var að við næðum því ekki í tíma. Engin leið var að komast niður snar-bratta klettana og ekki annað að gera en klöngrast eftir illfæru hraungrýti áfram í suður og síðan niður brattar skriður ofaní dalbotni Skarðdals. Allt gekk þetta vel og Þorstein fararstjóra fundum við í brekkurótum þar sem áð var og snæddur síðbúinn hádegisverður.
Það var ákveðið að stefna vestur fyrir vatnið, því talið var víst að við værum of sein í teboðið. Við reyndum að kalla yfir vatnið á fólk sem sást á rangli utan við kirkjuna, enda töldum við víst að þetta væru félagar okkar úr Hallgrími. Engi svör fengust og þegar við komum norður fyrir Staðavatn ákváðu Þorsteinn og Flosi að halda til baka austan við vatnið að Stað til að hitta hópinn. Restin rölti heima á bæ þar sem við vissum af köldum bjór í jarðhúsinu að Borg.
Það er ekki í kot vísað á Borg og ekki dró það úr ánægju heimkomu að góðan gest bar að garði; en þar var mættur Sveinn í Þverdal. Óskaplega skemmtilegur karl sem bæði syngur og segir sögur. Hér er rétt að skjóta inn í frásögnina ákvörðun sem Hallgrímingar tóku á leið sinni um Posavog deginum áður. Eftir að voginum sleppti og áður en fjörugangan hófst, var okkur litið á Tökin, sem þarf að fara á flóði þegar Posavogur er ófær. Þetta er nokkuð þverhníptur klettur og ekki nokkur leið að komast nema treysta á vað sem þar er festur. En okkur leist ekki alskostar á kaðalinn og því var sú ákvörðun tekin að fá tengdason Gísla og Önnu Stínu til að fljúga með nýtt reipi til okkar og fleygja út við Borg. Við hrindum í Magna í Netagerðinni, sem með glöðu geði útvegaði snærið on the house" eins og hann sagði orðrétt. Þennan laugardagseftirmiðdag, í sól og sumaryl var því beðið eftir því að flugvélin birtist og fleygði til okkar vaðnum fyrir Tökin.
Við sögðum Sveini að við hefðum pantað pitsu og spurðum hvort honum langaði í? Fátt ætti betur við en pitsa hér á Hornströndum, enda væri þetta á matseðli sumra vina okkar á þorrablóti Sléttuhreppinga. Sveinn trúði okkur ekki en við blönduðum fyrir hann smá söngolíu og minn karl tók þá hressilega til söngsins með sinni einstöku bassarödd. Hann fór með sögur, gamanmál og vísur og þessi flaug af vörum hans eftir einn gin og tónik. Vísan er eftir móðurbróður hans, Svein, sem hann er einmitt skýrður eftir:
Látraþjóðin gerir grimm
gerast vegir hálir, hálir
Af áttatíu og fimm aðrir fimm
voru góðar sálir
Sveinn
Vísunni fylgdi því loforð Hallgríminga að segja alls ekki frá hvaðan hún væri komin, og að sjálfsögðu verður staðið við það.
Það var farið að halla degi og allt í einu er kyrrð Hornstranda rofin með flugvélagný og flygildi stingur sér niður að Borginni. Síðan er tekin hringur og flogið lágflug yfir sólpallinn þar sem Hallgrímingar og Sveinn sátu í geislum aftansólar; og var sá síðarnefndi algerlega kjaft stopp þegar flugmaðurinn opnaði dyrnar og fleygði pakka úr vélinni. Ég sagði að þarna væri pitsan komin sem við hefðum pantað, og í augnablik var mér trúað. En fljótlega fylgdi sagan um vaðinn og hvað við hefðum í hyggju morguninn eftir. Sveinn þakkaði okkur fyrir veitingarnar, lýsti ánægju sinni með framtakið og krafðist þess að við kíktum við hjá sér í Þverdal á leið okkar til baka úr Tökunum. Þegar hér var komið sögu voru Hanna og Andrés farin heim á leið með Bjarnarnesinu.
En hér var komið að kosningavöku Hallgríminga, enda forsetakosningar haldnar þennan dag. Undirritaður sleikti sár sín á Hornströndum, bugaður maður eftir að hafa kosið ORG utankjörstaða. Það hefði engum dottið í hug að okkar ástríki forseti yrði kosinn einu sinni enn, og það með atkvæðum frjálslyndra markaðshyggjumanna. Enda var miskunnarlaust lamið á okkur vesalingunum sem höfðu gengið þetta forarað, vegna ímugusts okkar á henni Gránu gömlu. Það sveif því engin sigurvíma yfir vötnum þegar ljóst var að okkar" maður hafði unnið kosninguna og myndi sitja sem húsbóndi að Bessastöðum næstu fjögur árin.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.7.2012 | 08:05
Gengið á Straumnesfjall
Það var komin föstudagur og tjaldbúar voru ræstir í fullan pott af hafragraut. Eftir sex mánaða samninga hafði tekist að stytta dagsgönguna um sjö kílómetra, þvert gegn vilja farastjórans. Hann vildi ganga á Straumnesfjall og til baka í Borg á einum degi, um 30 kílómetra leið, en einhverjum tókst að koma því til leiðar að bátur yrði tekin á heimleið frá Látrum.
Gallverskir Hallgrímingar höfðu ekki gengið lengi þegar komið var í Posavoginn, en láfjara var og því þurfti ekki að fara Tökin. Þetta er nokkuð klungur á sleipum klöppum og síðan þarf að klifra upp áður en komið er á Hyrningsgötu undir Hvarfanúp. Allt gekk þetta vel og eftir erfiða göngu í fjörgrjóti er komið að ósnum í Miðvík þar sem tilvalið er að taka af sér skóna og tipla berfættur í sandinum alla leið að Látrum.
Hirðskálið ætlaði ekki lengra og ásamt spúsu sinni myndi bíða hópsins meðan gengið var á Straumnes. Hann lofaði einhverju fyrir andann þegar við kæmum til baka, en sjálfur laumaði hann á bauk í bakpokanum, enda stóð ekki til að upplifa þorsta og þrautir frá deginum áður þegar Rytur og Darri voru klifin. Eftir ljúfan hádegisverð í kvosinni við slysavarnarskýlið var lagt á fjallið þar sem veginum var fylgt.
Gangan á fjallið reyndist mikil eyðimerkurganga og fannst mörgum lítið koma til útsýnis af Straumnesi. Þannig háttar til að vegurinn liggur á fjallinu miðju, langan veg frá brún og fram að Skorum þar sem herstöð Bandaríkjamanna stóð. Lítið útsýni er því á leiðinni en ég reyndi að hugga pirraða göngumenn að allt myndi þetta borga sig á leiðarenda. Þar væri gott útsýni yfir fegursta stað Hornstranda, Fljótavík. Um víkina fögru héldu Kögur og Hvesta og í fjarska grillti í Atlastaði í Fljóti. Allt gekk þetta eftir og engin vildi mótmæla fullyrðingum undirritaðs þó gildishlaðin væri.
Það er margt sem um hugann flýgur þegar staðið er á brún Straumnes og litið yfir byggingar fyrrum herstöðvar Bandaríkjamanna. Þetta er eitt mesta veðravíti sem hugsast getur, þar sem þoka er landlæg á sumrum og á þeim tíma sem stöðin var rekin var allt á kafi í snjó frá hausti til vors. Ekki dugði neitt minna en jarðýtur til að ferðast milli fjalls og fjöru og aðdrættir því með erfiðasta móti. Engin höfn var á Látrum og því þurfti að fleyta öllu í land á flekum. Reyndar var byggður flugvöllur sem breytti miklu fyrir einangraða íbúa herstöðvarinnar, en reyndar máttu þeir ekki skreppa til Ísafjarðar þar sem vernda þurfti landslýð fyrir slæmum áhrifum kanans, kommúnista banans.
Það er ótrúlega erfitt að ganga harðan vegin svona langa leið, en um 17 km eru fram og til baka frá Látrum að Skorum. Gengið var hratt til baka og stóð jóreykurinn upp af hersingunni þegar hún strunsaði fram af brún og niður að Látrum í sólskininu. Hirðskáldið fylgdist með og í framhaldi kom þessi vísa:
Út Straumnesið var stappið verst,
með strengjum, blöðrum og verkjum.
Stirðir rétt svo gátu sest,
og staðið upp með herkjum.
Viðar Konn
Þeir hraustustu í hópnum, Ísfirðingarnir Þorsteinn og Gunnar fengu sér sundsprett í sjónum að Látrum, til að kæla sig eftir kraftgöngu af fjallinu. Ekki tókst, þrátt fyrir áeggjan, að draga Bolvíkinga útí Dumbshafið, enda vart var við því að búast. Sjórinn er kaldur og ekki fyrir hvaða kerlingu sem er að þola slíkt. En við Þorsteinn bitum okkur í öxlina og létum okkur hafa hrímkaldan sjóinn og nutum athygli betri helmingana við sundið.
Nokkur bið var eftir bátnum sem flytja átti okkur yfir að Sæbóli. Hemmi Hemm og félagar komu þó um síðir á slöngubáti og tóku konurnar í fyrri ferð. Síðan vorum við sóttir, Ísfirsku karlmennirnir ásamt Bolvíkingum. Þegar komið var í Borg voru Brynja og Flosi mætt og skenktu fjallaförum af kampavíni.
Nú þurfti að klastra upp á ferðafúna fætur, plástra hælsæri og annað sem getur fylgt langri strangri göngu, enda 10 klukkutíma ferðalag að baki.
En ævintýrin biðu okkar handan nýrrar dagrenningar og enn skyldi gengið á fjöll. Fyrsta hugmynd var að ganga á Nasa en yfir hafragrautnum breyttist áætlunin og ákveðið að fara aftur á Darra, ganga eftir þakrennu Grænuhlíðar og finna leið niður að kirkjustaðnum Stað.
Mér virðist það við okkur blasa,
svo varla þarf um það að þrasa.
Að ef þið ekki getið,
á ykkur setið,
þá arkið þið næst upp á Nasa.
Viðar Konn
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.7.2012 | 12:10
Gengið á Ryt og Darra


Þetta verður stapp og strit,
strembið sem hjá Karranum" .
við rennum skeiðið upp á Rit,
og ráðumst svo að Darranum.
Viðar Konn
Útsýnið var stórkostlegt af toppi Rytsins, Ísafjarðardjúp og Jökulfirðir í suðri, heimahagar hópsins, Ísafjörður og Bolungarvík í vestri og Aðalvík með Straumnes í austri. Það blakti ekki hár á höfði og sólin vermdi land sem lög enda skafheiðskýrt. Skammt undan landi lónaði stórt skemmtiferðaskip, sem reyndar sýndist eins og leikfangabátur í óravíddum af fjallstoppi. Það var ákveðið að æja og taka fram matarföng skammt neðan við hátindinn en hirðskáldið var samt við sitt:
Af erfiði okkar við slitnum,
eldumst, þyngjumst og fitnum.
en stöllurnar Anna Stína og Díana,
standandi reykj´a upp á Ritnum.
Viðar Konn
En þessi dagur var ekki að kvöldi kominn og enn áttum við eftir langa ferð fyrir höndum. Við veltum fyrir okkur hvort leggja ætti í uppgöngu upp á Darra úr Rytaskörðum en það virtist ekki heiglum hent og því ákveðið að fara niður í Mannadal og þaðan upp á Tindafjall. Dálítið lengri leið en sýndist mun öruggari fyrir svona breiðan hóp af göngufólki.
Þegar komið var niður í dalinn kom í ljós að það eina sem við höfðum gleymt var að taka með okkur vatn. Þarna er ekkert drykkjavatn, fyrir utan mýrarvilpur og grunnar tjarnir sem setnar voru af fuglum. Enginn þorði að fá sér vatn í afrennslum þess, vegna fuglsins sem hamaðist við að drita í tjörnina. Grun hef ég um að þessir sömu lækir hafi verið niður á bökkunum, fyrr um morguninn, hvar fyllt var á brúsana fyrir brekkuna miklu upp á Ryt! Hvað um það, fleiri læki var ekki að finna í þessum dal. Við tókum á það ráð að sjóða vatnið og blanda síðan út það snjó, sem nóg var af í dalnum. Gerðust menn þá orðljótir í sveita síns andlits og hafði Einar Kristinn á orði að verið væri að narra hópinn vatnslausa upp á fjall.
Helvítin Hallgríma narra
hálfvitana þá,
draga þá upp á Darra,
og ekki dropa að fá!
Viðar Konn
Landslag í dalnum er nokkuð torsótt yfirferðar og erfitt að halda hæð áður en uppganga hefst að ný. Síðan taka við snarbrattar skriðurunnar hlíðar, en nokkuð fast undir fæti samt. Fararstjórinn hvarf okkur sjónir en áður en við gátum skipulagt leit að honum birtist hann á brún Mannfjalls, ferskur og ör, eins og ævinlega. Um talsverða hækkun er að ræða en ekki leið á löngu þar til hópurinn stóð á brún fjallsins, tilbúin að ganga a Darra, sem er skotspölur í vestur.
Á Darra er útsýnið stórbrotið, sérstaklega inn allt Ísafjarðardjúp. Það er gaman að sjá þekkt kennileit frá þessu sjónarhorni, Hestinn upp af Hestfirði og Kistufell milli Ísafjarðar og Bolunarvíkur. Við skoðuðum menjar heimstyrjaldarinnar þar sem Bretar settu upp radarstöð í upphafi fimmta áratug síðustu aldar. Mér varð hugsað til þessara ungu manna sem eyddu hér löngum tíma við erfiðar aðstæður til að byggja upp varnir gegn nasistavá og leggja sitt af mörkum til að verja gildi vestrænna lýðræðisríkja. Dvöl þeirra og athafnir höfðu mikil áhrif á líf íbúa Sæbóls, og margir fengu vinnu við uppbyggingu og rekstur stöðvarinnar.
Þarna stóð Hanna fyrir trúarathöfn til dýrðar sólkonungnum, sem hafði blessað okkur í ferðinni. Menn köstuðu sér flötum eins og múslímar, en hér var það í vestur í stað austurs. Þetta reyndist hafa mikil áhrif og gott veður átti bara eftir að batna.
Það var þreyttur og sæll hópur sem skondraði niður farveg járnbrautarteina sem lagðir voru til að flytja aðföng á herstöðina sem var um tíma útvörður bandamanna í norðurhöfum í seinni heimstyrjöldinni. Það jafnast fátt á við að fá kaldan bjór þegar heim er komið eftir átakadag, sérstaklega heitan og sólríkan eins og þann sem rann nú að kveldi. Í sameiningu var kvöldverður fram reiddur og þreytan látin líða úr sér í tjaldi áður en átök næsta dags hófust.
26.7.2012 | 12:26
Kjaransvík - Sæból
Við vorum útsofin þegar við skriðum úr tjaldi um sex um morguninn og eftir heitan hafragraut og búið var að pakka saman búnaðinum var haldið af stað upp í Kjaransvíkurskarð. Þoka var í skarðinu, með örlítilli súldarfýlu, en þegar komið var niður á Hesteyrarbrúnir fór sólin að skína og þegar leið á morguninn var komin bongóblíða, logn og sólskin. Það kemur göngumanni á óvart hversu löng þessi leið út brúnir er og það var komið undir hádegi þegar við stóðum á brúninni ofan Hesteyrar þar sem þorpið birtist okkur baðað sólskini.
Við Hesteyrará var áð og kveikt á prímus til að hita kaffi með hádegisverði. Lágfóta valhoppaði í kringum okkur og fúlsaði ekki við sneið af Hattadalshangiketi. Flugan pirraði okkur dálítið og því vorum við fegin að halda á til fjalla á ný, en við áttum stefnumót við félaga okkar í Hallgrími síðla dags að Sæbóli. Við lögðum því á brattan þar sem leiðin lá í kringum Litlafell og síðan tekin stefnan norðan Nasa í Þverdal. Enn lék veðrið við okkur og síðdegiskaffið var drukkið á háfjallinu þar sem byrjar að halla undan fæti.
Þverdalur er mosavaxinn mýrardalur og ekki auðveldur þreyttum göngumönnum yfirferðar. En allt tekur sinn enda og síðla dags gengum við framhjá bænum í Þverdal og stefndum á Borg að Sæbóli. Eftir ellefu tíma göngum var komið að leiðarlokum á göngu okkar úr Hornvík í Aðalvík og ekki annað að gera en bíða þess að báturinn með félaga okkar kæmi siglandi fyrir Rytinn. Þessi vísa varð til hjá hirðskáldinu okkar Viðari, þegar Bjarnanesið renndi sér inn á leguna á Sæbóli.
Ég veit það verður ferlegt fjör,
og fegurð hópsins engu lík.
Er ævintýri á gönguför ,
upphefst hér í Aðalvík.
Viðar Konn
Það getur stundum verið þrautin þyngri að koma í kyrrð Hornstranda og ekki tekið út með sældinni einni saman. Allavega fór fuglasöngur, grautargerð spóa og tófugaggið fyrir brjóstið á Díönu sem átti svefnlausa nótt. Ekki bættu hrotur eiginmannsins úr en hún hugsaði þessum ódámum ÖLLUM þegjandi þörfina og þeirra lán að hún var vopnlaus.
Dýrvitlaus var Díana,
þá djöfuls Spóinn vall sinn graut.
Veltist um, varð andvana",
en Viðar bara lá og hraut.
Viðar Konn
25.7.2012 | 10:31
Hallgrímur Bláskór - Hornvík Kjaransvík
Hvar er djörfung þín og dirfska Hallgrímur? Hvað þarf til að eggja þig til mikilla áforma og takast á við óblíða náttúru og láta skeika á sköpu við átökin við það óþekkta? Að leggja land undir fót, og ekki bara hvaða land sem er heldur takast á við Hornstrandir, fóstru þína og leiðtoga. Strandirnar sem urðu þér innblástur og gaf þér nafn, gerði þig að því sem þú ert og stendur fyrir!
Til stóð að fara í hjólaferð á bökkum Dónár með haustinu, en skipuleggjendur ventu sínu kvæði í kross með ferð að Sæbóli í lok júní þar sem gengið yrði útfrá Borg næstu fjóra dagana. Þorsteinn og Flosi treystu sínu fólki því enn og aftur til átaka við óbyggðir Sléttuhrepps þar sem hver manndómsvígslan tekur við af annarri og aukvisunum er úthýst. Þessi hópur sem hefur marga fjöruna sopið er enda betur komin við slík átök en sitja á reiðhjóli og láta sig renna milli veitingahúsa á bökkum Dónar úr Svartaskógi í Svartahaf.
Við Stína ákváðum að gera gott betur og taka flugvél tveimur dögum fyrir áætlaða brottför, til Hornvíkur og ganga með allt á bakinu í Aðalvík. Við ætluðum tvo daga til ferðarinnar og áformuðum að hitta hópinn, göngulúin, við landtöku á Sæbóli.
Það tekur augnablik að fljúga frá Ísafirði til Hornvíkur og við lentum seinnipart dags við ósinn á sólríkum hlýjum sumardegi. Það er um hálftíma gangur heim í Höfn þar sem við tjölduðum um það leytið sem sólin var að setjast undir Hafnarfjallið. Enn var Hornbjarg baðað sólskini og kvöldið skartaði sínu fegursta þar sem Kálfatindur og Jörundur gnæfðu yfir Miðdal. Eftir staðgóðan kvöldverð var gengið snemma til svefns, enda tilhlökkun að takast á við skemmtilega göngu til Kjaransvíkur að morgni.
Dumbshafið var sem spegill og sólin yljaði okkur fyrsta áfangann út í Rekavík. Fyrst þurfti að takast á við ófæruna og síðan var Tröllakambur gengin rétt áður en komið er að ósnum í Rekavík. Þar lúrði sama-tjald sem kajakræðrar höfðu slegið upp um nóttina og ekkert virtist raska svefnró þeirra.
Ferðin gekk vel upp í Atlaskarð og við litum við áður en Hornbjargið hvarf til að virða fyrir okkur mikilfeng og fegurð þess, en framundan var Atladys og ganga fram brúnir ofan Hælavíkur. Eftir fjögurra tíma göngu stóðum við ofan Skálakambs þar sem Álsfellið blasti við og minnti á íbúa þess, álfkonuna góðu sem leit með íbúum þessa kaldranalega staðar á erfiðum tímum. Konur í barnsnauð gátu leitað til álfkonunnar góðu og oftar en ekki treystu sjómenn á gæsku hennar þar sem hún varaði þá við veðrabrigðum og leiðbeindi þeim að landi. Áður en varði stóðum við heima á bæ í Hlöðuvík en ferðinni var heitið áfram til Kjaransvíkur. Það var kalt að vaða ósinn en lofthitinn var komið upp undir annan tuginn og því ekki annað að gera en taka sundsprett í sjónum við sendna ströndina í Kjaransvík. Sjórinn var lítið farin að hlýna en sólinn og lofthitinn voru fljót að hrista úr hrollinn og ylja köldum garpnum eftir sundið.
Við veltum fyrir okkur hversu langt skyldi haldið þennan daginn, en við vorum óþreytt og tilbúin í lengri göngu. Því háttar hinsvegar til að langt er að klára í næsta áfanga, Hesteyri, áður en haldið yrði á til Aðalvíkur. Sú leið liggur að mestu í töluverðri hæð og því ómögulegt að finna ákjósanlegt tjaldstæði. Það var því ákveðið að halda upp í dalinn ofan Kjaransvíkur og tjalda meðan enn væri gróðurvænt. Við fundum ákjósanlegan svefnstað við ánna, þar sem ljúfur lækjaniður myndi hjala okkur í svefn.
Eftir góðan kvöldverð fengum við heimsókn franskra göngumanna, sem höfðu einmitt gist tjaldstæðið í Hornvík nóttina áður. Einhverra hluta vegna voru þeir staddir sitthvoru megin árinnar og reyndum við að segja þeim sem á austurbakkanum stóð til um að komast yfir. Við fengum þann sem stóð okkar megin til að taka af okkur mynd, rétt áður en skriðið var í pokann til að safna kröftum fyrir átök næsta dags.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.7.2012 | 09:21
Sátt í sjávarútvegi - grein úr Fiskifréttum
Á fundi með atvinnumálaráðherra á vordögum, Steingrími Sigfússyni, kom fram hversu erfitt honum reyndist að ná fram sátt" um frumvörp um fiskveiðistjórnun í sínum hópi. Forsætisráðherra hefur síðan ítrekað lýst yfir ánægju sinni með að ríkisstjórnin hafi náð sátt" um sjávarútveginn, sem byggi á framlögðum frumvörpum. Annað frumvarpið um auðlindagjald er nú orðið að lögum, en hitt bíður haustþingsins og snýr að breytingum á fiskveiðistjórnarkerfinu.
Það sem vantar inn í málflutning ríkisstjórnarinnar er að sáttin er bundin við þá sem lengst eru til vinstri í pólitík, en þeir sem trúa á einstaklingsframtak, markaðahagkerfi og hámörkun verðmætasköpunar eru ósáttir; sem er meirihluti landsmanna!
Enginn sáttarvilji
Enginn vilji hefur verið til sátta hjá þessari ríkisstjórn, þó hér sé um grundvallarmál að ræða, sem hefur veruleg áhrif á efnahagslega afkomu þjóðarinnar. Ekki var byggt á samningaleið sem lögð var til af fulltrúum allra stjórnmálaflokka og hagsmunaaðila. Ekki var tekið mark á sérfræðingum og álitsgjöfum sem kallaðir voru til að meta hagræn áhrif þeirra breytinga sem felast í frumvörpunum. Ekki hefur verið hlustað á erlenda sérfræðinga né fulltrúa sveitafélaga og alls ekki hagsmunaaðila í sjávarútvegi. Sem nánast allir tala gegn þeim breytingum sem ríkisstjórnin hyggst gera á fiskveiðikerfinu, bæði með óhóflegu auðlindagjaldi og öðrum breytingum sem dregur verulega úr verðmætasköpun í sjávarútvegi.
Fiskveiðirentan
Það er vonandi rétt að Íslendingum hafi tekist með góðu fiskveiðistjórnunarkerfi að skapa rentu sem er umfram eðlilega arðsemi í greininni. Reyndar er það einsdæmi í heiminum og sýnir þá betur en nokkuð annað að við erum á réttri leið við stjórnun fiskveiða. Það eru því undarleg stefna að færa íslenskan sjávarútveg aftur til ríkisafskipta með ofurskattlagningu og draga úr skilvirkni og arðsemi með ráðstjórn.
Sé ofurarður í Íslenskum sjávarútvegi þarf að ræða með hvaða hætti skuli bregðast við því. Til að dreifa slíkum arði er eðlilegast að skoða kjör þeirra sem vinna við greinina. Ljóst er að sjómenn hafa það gott þar sem launin eru bundin aflahlutdeild og því hafa þeir notið góðs af góðu markaðsástandi og lágu gengi krónunnar. Hinsvegar hefur fiskvinnslufólk orðið útundan og launum haldið niðri með ódýru vinnuafli frá austur Evrópu. Laun og önnur kjör fiskvinnslufólks er ekki í neinu samræmi við það sem þekkist t.d. í áliðnaði þar sem mannauðsstjórnun er áratugum á undan. Breytt viðhorf í þróuðum tæknigreinum til mannauðsstjórnunar kemur ekki til af góðmennsku heldur borgar sig til lengri tíma litið.
Tækifæri framtíðar
Miklar framfarir gætu verið framundan í Íslenskri fiskvinnslu þar sem verkamannastörf (ófaglærðir) munu víkja fyrir tæknimenntuðu vinnuafli. Fái íslenskur sjávarútvegur svigrúm til að stunda rannsóknir og þróun og fjárfesta í tækniþekkingu og mannauð mun hann enn auka við samkeppnisforskot sitt. Hærri laun munu því ekki bara auka kostnað, og dreifa fiskveiðiarði, heldur bæta samkeppnishæfni til lengri tíma litið. Hærra menntunarstig og bætt launakjör í fiskvinnslu er það sem fiskveiðisamfélög þurfa til að blómstra í framtíðinni.
Sátt til framtíðar
Ef fiskveiðiarður verður ennþá vandamál" þegar laun hafa verið hækkuð væri hægt að setja hluta af þeim arði í samkeppnissjóði til að styðja við nýsköpun og markaðsmál. Fiskveiðiauðlindin er þjóðareign og því skiptir það Íslendinga máli að fara eins vel með hana og mögulegt er. Draga þarf úr óhagkvæmni sem fylgir t.d strandveiðum, byggðakvótum og línuívilnun. Vilji menn nota fiskveiðiauðlindina sem tæki fyrir byggðastefnu þarf að finna aðferðir sem kosta minni sóun. Styrkja þarf fiskveiðisamfélög og tryggja verðmætasköpun í sjávarútvegi með aukinni menntun og nýsköpun. Um það ætti sáttin í samfélaginu að snúast.
4.6.2012 | 15:20
Forystugrein í sjómannablaði Vesturlands
Við sjúkrahúsið á Ísafirði er stytta sem heitir Úr álögum" eftir Einar Jónsson, þar sem riddari heldur um skaft sverðs síns sem hann hefur rekið niður í haus mikils dreka sem liggur fyrir fótum hans. Á öðrum handlegg heldur riddarinn á ungri nakinni stúlku sem réttir út handlegginn og varpar af sér ham gamallar konu, en í hinni hendinni heldur riddarinn skildi hátt á lofti. Að baki þeim er drekinn í dauðateygjum sigraður.
Höggmyndin á að lýsa innri baráttu mannsins þar sem lína er dregin milli góðs og ills, að góður ásetningur endi ekki með vondum gerðum og þar sem mörkin milli metnaðar og græðgi liggja. Hugmyndin er þúsunda ára gömul sem sýnir okkur að ekkert er nýtt undir sólinni þegar kemur að því að velta fyrir sér mannlegum kenndum.
Það er vel þekkt í íþróttum að leikmenn eru hvattir fyrir leikinn, baráttuvilji, grimmd og metnaður eru æst upp í þeim til að takast á við andstæðinginn með því markmiði að sigra hann. Þjálfarinn vonar svo hið besta, að menn sýni sannan keppnisanda og fari ekki yfir mörkin og brjóti ekki á keppinauti sínum til að vinna leikinn. Vel þekkt er að notast við slæmt orðbragð, spörk og jafnvel að setja á svið leikrit til að klekkja á mótspilara sínum. Við þessu er síðan brugðist með leikreglum og breyttum viðhorfum til dóma. Í dag geta menn fengið rautt spjald í fótbolta fyrir að reyna að fiska víti!
Sama gerist í kapítalísku hagkerfi þar sem byggt er á samkeppni og miskunnarlaus markaðurinn skilur milli feigs og ófeigs í viðskiptum. Freistnivandinn er mikill að beita óhefðbundnum aðferðum til að sigra andstæðinginn og með flóknara hagkerfi gefast ný tækifæri til að fara yfir línu góðs og ills. Samfélagið reynir þá, eins og í fótboltanum, að bregðast við og setja nýjar reglur til að koma í veg fyrir t.d. markaðsmisnotkun eða einokun.
Auðvitað væri hægt að koma í veg fyrir allt slíkt með því að hefta einstaklingsfrelsið, binda allt í klyfjar ófrelsis og hafta. Skipuleggja" atvinnulífið og þjóðarbúskapinn og reka hann samkvæmt áætlun", en ekki á grundvelli frjálsrar samkeppni. Skipulagningin er nauðsynleg til að ná settum markmiðum þar sem lýðræðið er Þrándur í Götu. Slíkt dugar vel til að ekki sé farið yfir línuna þar sem metnaður breytist í græðgi. En böggull fylgir skammrifi og slík þjóðfélög eru dæmd til fátæktar þar sem hin allt um vefjandi hönd ríkisins er algerlega ófær um að taka réttar ákvarðanir um framleiðslu og þjónustu.
Við þurfum að byggja upp samfélag sem byggir á frelsi einstaklingsins og nýta sköpunarmátt hans, dugnað og áræði. Finna þarf leiðir til að menn lendi ekki röngu megin við línuna og fari yfir strikið. Fórnarkostnaður við að svipta einstakling frelsi til athafna er hinsvegar allt of hár. Við verðum að búa við þann raunveruleika að menn munu í kappi sínu fara yfir þessa línu í framtíðinni eins og hingað til. Við þurfum að bregðast við því og vera stöðugt á verði gagnvart þessum ágalla mannsins, án þess að svipta einstaklinginn frelsi og hafna markaðsbúskap og lýðræði. Þó að slíku kerfi fylgi ágallar eru þeir hégómi miðað við miðstýringu ráðstjórnar þar sem ríkið telur sig umkomið að taka allar ákvarðanir fyrir almenning. Ef niðurstaða í meistarakeppni fótbolta væri ákveðin af ríkinu væri þá hægt að koma í veg fyrir ofbeldi á knattspyrnuvelli? Væri það ekki of dýru verði keypt?
4.6.2012 | 15:19
Hallgrímur á Laugavegi
Hallgrímur Bláskór á Laugavegi 2011
Mynd 1 Horft yfir skálann í Emstrum |
Fararstjórum virtist vera breið samstaða í hópnum um að ferðin yrði trússuð og burður í lágmarki. Það kom því skipuleggjendum í opna skjöldu að á aðalfundi Hallgríminga á nýjársdag að engin samstaða var um slíkt og tillagan feld . Allt skyldi borið á bakinu; Hallgrímingar gætu borið dótið sitt og þyrftu ekki bíla í fjallaferðir sínar, enda fullfrískt fólk á besta aldri.
Það kom reyndar fljótlega í ljós þegar líða tók á janúar að Hallgrímingar höfðu þarna farið svolítið fram úr sér, sennilega vegna ríflegra veitinga á fundinum sem hleypt hafði þeim kappi í kinn. Kom í ljós að yfirgnæfandi meirihluti vildi í raun láta trússa, þó fæstir vildu tjá sig um þetta atriði í fjölmenni og alls ekki frammi fyrir hópnum. Það varð úr að Viðar og Díana tóku að sér að aka trússbílnum fyrir hópinn og myndu hitta okkur við Hrafntinnusker, Álftavatn, við Emstrur og að síðustu í Landmannalaugum.
Mynd 2 Lagt í hann frá Landmannalaugum |
Matseðill ferðarinnar var samin fyrir breytingu á fyrirkomulagi og gerði ráð fyrir trússferð. Ekki vannst tími né ráðrúm til að gera breytingar á því og ekki annað að gera en hlaða á sig kartöflum, rófum, kjöti og slíkum birgðum sem venjulega eru ekki borin um fjallendi Íslands. Reyndar þótti Gísla Jóni ekki nóg um þegar búið var að hlaða þessu á Hallgríminga og gerði dauðaleit í nokkrum rútum í Landmannalaugum að einhverju til að bæta á sliguð bökin.
En gangan var hafin og leiðinni lá í fyrstu yfir Laugahraun og síðar upp með Brennisteinsöldu, þar sem ægifegurð svæðisins með fjöll sem skarta öllum regnbogans litum fanga hugann, ef útsýni leyfir. Þennan dag var skyggnið um fimmtíu metrar og rigningin lárétt og rokið útilokaði samræður milli manna. Ekki tók betra við þegar komið var upp á jökulinn sem reyndar hefði átt að vera horfinn í byrjun júli, en kalt vorið hafði haldið verndarhendi sinni yfir fram að þessum tíma. Skyggnið uppi var var enn verra og gekk á með hryðjum og varla sá milli stika. Eftir það sem virtist vera endalaus þrautarganga, glitti í mannvirki framundan og fljótlega eftir það birtist Höskuldarskáli í Hrarfntinnuskeri. Blaut og hrakin gengum við síðustu skrefin að skálanum, sem enn var umlukin gjóskudrifnum jökli. Okkar biðu þó þurrar og hlýjar kojur, en hrollur fór um ritara að horfa á tjöldin úti sem sumir þurftu að hvíla lúin bein í yfir nóttina í roki og slyddu.
En það fór vel um okkur i hlýjum kofanum og ekki annað að gera en að létta á bakpokunum og elda kvöldmat. Meðan venjulegir fjallgöngumenn elduðu sitt pasta skárum við niður lambalæri, rófur, kartöflur, gulrætur og hvítkál og elduðum íslenska kjötsúpu.
Mynd 3 Þverskurður af Laugaveginum |
Það gefur auga leið að fólk á besta aldri, sem valið hefur að bera með sér stórveislur til fjalla, hefur litið borð fyrir báru þegar kemur að því að bera með sér örlítið lífsvatn til að tendra sálina eftir erfiði dagsins. En rómantíkin lætur ekki að sér hæða og í tilefni brúðkaupsafmælis síns buðu Einar og Gunna upp á dýrindis veigar fyrir Hallgríminga. Það var því ekki dónalegt að fá kjötsúpu og koníak á hátindi ferðarinnar, í um 1000 metra hæð yfir sávarmáli. Hallgrímingar voru ósigrandi þegar lagst var á koddann, og tilbúnir í hvað sem er á komandi dögum.
Mynd 4 Lagt í hann frá Höskuldarskála |
Það hefði verið stórkostlegt útsýni af brún brekkunnar niður Jökultungur, ef veðrið hefði verið betra. En hér var ekki annað að gera en haska sér niður krákustígana niður á hálendissléttuna, og framundan var skálinn við Álftavatn. Þó ekki sæist í hann fann maður einhvernvegin fyrir nálægð hans og áður en við vissum vorum við komin á götu sem fljótlega leiddi okkur heim í hús.
Mynd 5 Við Álftavatn |
Mynd 6 Á leið í Emstrur |
Mynd 7 Veisluborð í skálanum við Álftavatn |
Það gerðist svo seinna að strákur fær boð í gegnum talstöð að bíll sé fastur í Bláfjallakvísl sem liggur rétt sunnan við Hvannadali. Ekki nóg með það heldur segir hann okkur að áin sé ófær og ekki nema sérútbúnum bílum fært yfir hana. Við séum því strandaglópar í Álftavatni og eina leiðin sé að ganga til baka í Landmannalaugar. Hann leggur síðan af stað til að aðstoða við björgun bílsins í Bláfjallakvísl og felur undirrituðum að bera ábyrgð á skálanum á meðan. Sá blés út á sér bringuna og nú skildi koma skipulagi á skálann í eitt skiptið fyrir öll. Strangar reglur voru settar og öll fríðindi niður felld. Strákurinn var ekki væntanlegur fyrr en næsta dag og því átti ég að vera skálavörður einn dag.
Í millitíðinni var farið að hringja í eigendur sérbúinna bíla til að koma okkur yfir ánna. Þeir komu af fjöllum og trúðu ekki að Bláfjallahvísl væri ófær. En Adam var ekki lengi í paradís og stráksi skilaði sér um kvöldið og tók völdin í skálanum. Hann endurtók að leiðin væri algerlega ófær framundan og við þyrftum að snúa við.
Í dagrenningu var haldinn fundur hjá Hallgrími og nú var tekist á um karlmennsku. Í þetta sinn af öllu meiri krafti en þegar rætt var um trússið. Sitt sýndist hverjum en ákvörðun var tekin um að halda á og láta auðnu ráða för. Þrír aðrir hópar voru í skálanum og eftir að hafa fylgst með þessum hraustlegu orðaskiptum, voru þeir sannfærðir um að þeir væru með reynslumestu fjallagörpum norðan Alpafjalla. Þeir ákváðu að gerast sporgöngumenn okkar og fylgja Hallgrímingum á vit óvissunnar.
Eftir að fyrsti hálsinn er genginn frá Álftavatni er komið að Bratthálskvísl sem þarf að vaða. Áin var nokkuð vatnsmikil og straumur þungur en Hallgrímingar voru ekki lengi að finna besta vaðið og komu sér yfir ána.
Mynd 9 Veisla í Emstrum |
Mynd 10 Við Emstruskála |
Það var ekkert skjól að finna til að njóta hádegisverðar þennan daginn. Þó varð á leið okkar klettur sem skýldi okkur við mesta rokinu meðan við nærðust en ekki var nokkur leið að elda kaffi.
Blaut, köld og hrakin nálguðumst við Emstruskála. Samkvæmt GSP var ekki nema 400 metrar eftir og því ljóst að hæðin framundan væri sú síðasta áður komið væri auga á skálann. Það reyndist rétt og framundan var brött brekka niður að skálanum sem við höfðum fyrir okkur þessa nótt. Það er ósköp ljúft að skondrast síðasta spölinn heim" í skál, jafnvel þó ekki bíði kaldur bjór.
Mynd 11 Komið á stíginn í Þórsmörk |
Mynd 12 Fyrsti bjórinn í ferðinni í boði Viðars |
Mynd 13 Tilbúin í slaginn og gotan klár |
Vaða þarf eina á í viðbót áður en komið er inn á gróna stígana í Þórsmörk. Eftir að hafa öslað blautan jökuleirinn á fimmta tug kílómetra eru stígarnir í Þórsmörk dásamlegir. Ilmur birkisins fyllir vitin og engu líkara en maður svífi áreynslulaust síðasta spölinn í Kristjánsskála. Vitneskjan um skálann hinu megin við næstu hæð kallar fram hughrif sigurvegarans sem hefur lokið við erfiða göngu. Við hlökkuðum til að hitta vini okkar sem biðu í Þórsmörk, Viðar, Díönu og Sigrúnu. Þekkjandi Viðar áttum við von á góðum móttökum, enda beið hann með kaldan bjór til að væta kverkar Hallgrímingum eftir svaðilfarir á fjöllum. Kaldur bjórinn rann ljúft niður eftir margra daga bindindi á fjöllum. Framundan var sá hluti göngunnar sem Hallgrímingar kunna hvað best, skála í gini og tonik (gotu) og slá upp stórveislu að Djúpmanna sið.
30.5.2012 | 15:09
Vestfiskur sjávarútvegur - grein í Mbl
Í vandaðri greiningu AtVest á atvinnulífi Vestfjarða kemur margt áhugavert í ljós. Sjávarútvegur er 53% af hagkerfinu og þá er ekki tekið tillit til afleiddra greina sjávarútvegs, s.s. þjónustuaðila. Sjávarútvegur er því undirstaða atvinnulífs en næst þar á eftir er opinber þjónusta. Sá böggull fylgir hinsvegar skammrifi að vestfiskur sjávarútvegur stendur illa, er mjög skuldugur og hefur lélegan rekstarafgang (EBITA) miðað við meðaltal á landinu, en það er mæling á árangri óháð skuldum. Til að reksturinn gangi upp þyrfti að lækka skuldir sjávarútvegsfyrirtækja um tugi milljarða ásamt því að finna leiðir til að bæta reksturinn að öðru leyti. Niðurstaðan er sú að greinin stendur ekki undir sér að öllu óbreyttu, þ.e.a.s. að hvorugt frumvarp sjávarútvegsráðherra gangi í gegn. Því til viðbótar eru blikur á lofti á öllum okkar mikilvægustu mörkuðum vegna efnahagsástands í Evrópu, en þegar má greina að dýrustu afurðir hafa gefið eftir í verði.
Verði frumvörpin tvö að lögum lítið breytt er ljóst að menn þurfa ekki að kemba hærurnar. Það má orða það þannig að óvissu í vestfirskum sjávarútvegi væri þar algerlega eytt og staða greinarinnar myndi þá liggja fyrir. Sú niðurstaða þyrfti ekki endilega að vera þjóðhagslega óhagkvæm en sanngjarnt gagnvart þeim sem hér vilja búa að þeir viti hvar þeir standa.
Tveir af þingmönnum fjórðungsins hafa barist með hnúum og hnefum fyrir þeirri leið og eru þá tilbúnir að taka þá áhættu sem því fylgir. Undirritaður hefur reyndar á tilfinningunni að ákvörðun þeirra byggi meira á heift út í einstaklinga og einhverju leyti hugmyndafræði um að greinin skuli rekin með ráðstjórn en ekki markaðsbúskap. Eru tilbúnir að gera tilraun með að nota skipulag þar sem ákvarðanir um hver veiðir hvar, hvernig og hvenær verði teknar pólitískt í ráðuneyti í Reykjavík. Margur hefði talið að þetta hafi verið fullreynt á síðustu öld með ógnvekjandi afleiðingum.
Það eina sem getur bjargað Vestfjörðum er öflugur sjávarútvegur sem rekin er á markaðslegum forsendum. Til þess þarf hann að ná vopnum sínum og vera samkeppnisfær við það besta sem gerist á Íslandi, og þar með í heiminum. Við þurfum að komast upp úr heiftinni og leðjuslagnum í leit okkar að slíkum lausnum. Hvað þarf til að rétta hag vestfirsks sjávarútvegs þannig að hann geti staðið undir góðum lífskjörum í fjórðungunum? Hvernig getur greinin staðið undir góðum launum og laðað til sín vel menntaða einstaklinga? Takist það ekki er tómt mál að tala um öflugt samfélag á Vestfjörðum.
26.4.2012 | 15:56
Grein í Fiskifréttum
Að draga kanínu úr hatti
Stjórnarsinnar ræða um fyrirhugaðar breytingar á stjórn fiskveiða eins og það muni auka tekjur og styrkja sjávarbyggðir. Allir gera sér grein fyrir að auðlindin er takmörkuð og breytingar á fiskveiðilöggjöf auka ekki veiðar. Auki breytingar nýliðun í útgerð hlýtur það að ýta núverandi aðilum til hliðar og spurningin er þá hverjir það verða og hvaðan gera þeir út í dag. Ef bæta á hag einhverra byggðalaga með handafli verður það á kostnað annarra!
Er líklegt að sjávarbyggðir eins og Vestfirðir muni eflast við fyrirhugaðar breytingar? Ekki mun tilfærsla upp á 1.2 milljarða úr fjórðungnum til Reykjavíkur styrkja Vestfiska byggð! Verða Vestfirðingar betur settir með því að bíða á bekkjum sjávarútvegsráðuneytisins til að biðja um aflaheimildir eða er heilbrigt atvinnulíf líklegra til að standa undir lífsgæðum íbúanna?
Töfrabrögð
Auðvitað eru engir töfrar til í þessu og engin kanína verður dregin úr hatti í íslenskum sjávarútvegi. Hvergi í veröldinni er sjávarútvegur sem skilar sambærilegri auðlindarentu og hér á landi. Í Noregi er auðlindarentan engin þar sem hver króna fer í kostnað, og þá er búið að taka tillit til ríkisstyrkja. Þessi mikli fiskveiðiarður byggir á því að Íslendingar hafa notað markaðsbúskap sem stjórntæki í sínum sjávarútveg, enda um undirstöðuatvinnugrein að ræða sem stendur undir lífskjörum þjóðarinnar og ekki í myndinni að reka hann á öðrum forsendum. Þær breytingar sem stjórnarflokkarnir stefna að er að snúa af þeirri vegferð í handstýrt hagkerfi. Færa ákvarðanatökuna í ráðuneyti í Reykjavík um það hver á að veiða hvað, hvar og hvernig. Hvergi annars staðar á vesturlöndum gæti það gerst að mikilvægasta atvinnugreinin væri þjóðnýtt og tekin upp úrelt hugmyndafræði pólitísks skipulags.
Endurskipulagning vestfisks sjávarútvegs
Vestfiskur sjávarútvegur skuldar um 40 milljarða króna og rekstarafgangur (EBITA) er um 4 milljarðar króna. Það er sú upphæð sem menn hafa til að borga vexti, skatta og til fjárfestinga. Öll venjuleg viðmið eru að fyrirtæki geti skuldað um 4-5 sinnum rekstarafgang sinn, og eðlilegar skuldir vestfirsks sjávarútvegs væri því í kringum 16 - 20 milljarðar króna. Viðbótar skattheimta upp á 1.2 milljarða mun ekki hjálpa til, en óbreytt ástand gengur heldur ekki upp. Um 10 þúsund tonnum af hráefni er ekið burt af norðanverðum Vestfjörðum þar sem fiskvinnsla á svæðinu er ekki samkeppnisfær um að kaupa þennan afla. Hluti af vandamálinu er að vegna hárra skulda eru þessi fyrirtæki nokkurskonar vaxtaþrælar og arðurinn fer allur í lánadrottna. Þau eru ekki samkeppnishæf um þetta hráefni og hafa ekki burði til að fjárfesta í nýrri tækni og mannauði. Og hvað er þá til ráða?
Að snúa vörn í sókn
Fyrsta skilyrðið er að eyða óvissu í fiskveiðistjórnarmálum og tryggja arðsemi greinarinnar til frambúðar. Gera vestfirskan sjávarútveg aðlaðandi fyrir fjárfesta en mikið framboð er af krónum þessa dagana enda lítið um fjárfestingatækifæri á Íslandi. Fjárhagsleg endurskipulagning fyrirtækja með fjármögnun í gegnum Kauphöll gæti verið fyrsta skrefið til að snúa vörn í sókn. Með aðild að Kauphöll verður gegnsæi rekstrar meira og aðkoma almennings sem hluthafa möguleg. Með öflugum fyrirtækjum sem greitt gætu hærri laun myndu sjávarbyggðir njóta fiskveiðiarðsins þar sem nærsamfélagið myndi blómstra með auknum tekjum íbúa.
Framtíð Vestfjarða
Þjóðnýting og útelt hugmyndafræði um að skipulag og stjórnun sé best komið fyrir í ráðuneyti í Reykjavík þar sem gæðum verður úthlutað á pólitískum nótum, er ekki líkleg til að styrkja byggð á Vestfjörðum. Vestfirðir munu standa og falla með öflugum og vel reknum sjávarútveg sem rekinn er á markaðslegum forsendum. Við sem kjósum að búa á Vestfjörðum eigum nú allt okkar undir að alþingismenn taki skynsamlegar ákvarðanir í þessum málum og láti ekki skammtíma hagsmuni í póltík ráða för um grundvallar tilveru sjávarbyggða og afkomu þjóðarinnar.
Um bloggið
Gunnar Þórðarson
Tenglar
Hallgrímur bláskór 2012
- Gengiðr úr Hornvík í Kjaransvík
- Kjaransvík - Sæból
- GEngið á Ryt og Darra
- Gengið á Straumnesfjall
- Gengið á brúnir Grænuhlíðar
Smölun í Austurdal
- Austurdalur -2010 Dagur 1 Smölun í hinum ægifargra Austurdal suður af Skagafirði
- Austurdalur - 2010 Dagur 2 Annar dagur smalamensku í Austurdal í Skagafirði
- Austurdalur -2010 Dagur 3 Lokadagur smölunar fyrir Austudalsfélagið í Skagafirði
- Föstudagur 2011 Smalaferð Göngumannafélags Austurdals í september 2011
- Laugardagur í Austurdal 2011 Smalaferð Göngumannafélags Austurdals í september 2011
- Sunnurdagur í Austurdal - 2011 Smalaferð Göngumannafélags Austurdals í september 2011
- Mánudagur 2011 Smalaferð Göngumannafélags Austurdals í september 2011
Skútukaupin 1976
Við félagarir, undirritarðu, Jón Grímsson og Hjalti Þrórðarson keyptum skútu í Bretlandi og sigldum henni heim til Íslands
- Kafli 1 - Skútukaupin undirbúin
- Kafli 2 - England
- Kafli 3 - lagt í siglinguna miklu
- Kafli 4 - Captain Thordarson
- Kafli 5 - Siglt í norður
- Kafli 6 - Færeyjar - Ísland
- Kafli 7 - Siglt til Ísafjarðar
Ísrael 1974
Sagt frá ævintýri okkar Stínu, Nonna Gríms og Hjalta Bróður þegar við ókum yfir Evrópu 1974. Fórum frá Aþenu til ísrael og unnum þar á samyrkjubúi.
- Kafli 1 - Mótorhjólagengið
- Kafli 2 - Júgóslavía, Grikkland og Ísrael
- Kafli 3 - Á kibbutz undir Gólanhæðum
- Kafli 4 - Í kjölfar árásarinnar
- Kafli 6 - Maðurinn með ljáinn
- Kafli 5 - Endurfundir
- Kafli 7 - Frá rauðu ljósi í Milanó
- Kafli 8 - Fjölskyldu og varnarmál
- Kafli 9 - Vinna í Elat
- Kafli 10 - Daglegt líf á Shamir
- Kafli 11 - Til Grikklands
- Kafli 12 - Sögulok í London
Að Fjallabaki 2012
Suður um höfin 1979
Frá ferðalagi okkar Stínu á seglskútunni Bonny frá Ísafirði til Mallorca í Miðjarðarhafi
Sigling frá Mallorka til Grikklands
- Kafli 1 - lagt af stað til Ítalíu Fimm félagar sigldu Bonny frá Spánar til Grikklands
- Kafli 2 - Sikiley og Grikkland
- Kafli 3 - Kea og Paros
- Kafli 4 - Santorini
Safaríferð í Úganda
- Ferð til Murchison Falls - fyrri hluti Safaríferð inn í frumskóg Úganda
- Ferð til Murchison Falls - seinni hluti
Hálendisferð 2010
- Gengið á Fimmvörðuháls Eldstöðvar Fimmvörðuháls skoðaðar
- Skaftafell og Kristínartindar Gengið á Kristínartinda
- Gengið á Mælifell Ekið Fjallabak syðra norður fyrir Mýrdalsjökul
- Friðland að Fjallabaki Gengið um við Landmannalaugar
- Gengið á Löðmund Gengið á Löðmund við Dómadal
- Gengið á Snæfell Gengið á hæsta fjall Íslands utan jökla, Snæfell
- Gengið í Geldingarfell Ferð um Lónsörævi með frábærum hópi, sumarið 2010
- Gengið í Egilssel Gengið úr Geldingafelli í Egilssel við Lónsöræfi
- Gengið niður Lónsöræfi Þriggja daga göngu norðan og austan Vatnajökuls lokið
Sri Lanka 2007
- Sri Lanka 2006-2008 Starfað á Sri Lanka
Bloggvinir
-
astromix
-
ekg
-
stefanbjarnason
-
golli
-
vikari
-
gunnarpetur
-
vestfirdir
-
gudni-is
-
ea
-
ladyelin
-
gp
-
altice
-
hjolaferd
-
kaffi
-
komediuleikhusid
-
rabelai
-
ziggi
-
huldumenn
-
helgi-sigmunds
-
sigrunzanz
-
hordurhalldorsson
-
baldher
-
hjaltisig
-
lotta
-
kjarri
-
bjarnimax
-
jovinsson
-
smjattpatti
-
eirmor
-
vefritid
-
saemi7
-
siggisig
-
maggij
-
lehamzdr
-
contact
-
gauisig
-
jonvalurjensson
-
thjodarskutan
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (20.4.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 15
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 10
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar