Grein í Fiskifréttum

 

Ósátt um aflamarkskerfið

Umræðan um sjávarútveginn hættir seint að koma greinarhöfundi á óvart og hefur valdið heilabrotum um hvers vegna hún snýst sjaldnast um það sem skiptir mestu máli; að sjávarútvegsstefnan hámarki hag íslensku þjóðarinnar.  Hvað veldur því að fólk er tilbúið að kippa stoðum undan sjávarútvegsstefnu sem er hagkvæm og hámarkar verðmætasköpun og byggir á markaðsbúskap, að mestu leyti?  Í viðtali í áramótablaði Viðskiptablaðsins sagði utanríkisráðherra að nauðsynlegt væri að ljúka málinu og þar þyrftu útgerðarmenn að koma til móts við stjórnvöld til að leysa málið.  Til að leysa málið!  Í því samhengi skiptir engu hvort þjóðin standi verr eftir breytingarnar, heldur aðeins að stjórnarflokkarnir geti haldið andlitinu eftir ábyrðalausar yfirlýsingar.

Pólitíkin og lýðskrumið

Ef við gefum okkur að álitsgjafar ríkisstjórnarflokkanna taki pólitík fram yfir þjóðarhag þá skýrist málið.  En hvað vakir fyrir almenningi sem ætti að láta sig varða um mikilvægustu auðlind þjóðarinnar og standa vörð um hagsmuni sína með því að tryggja hagkvæman sjávarútveg.  Hvernig er hægt með lýðskrumið eitt að vopni að valda svo mikilli andstöðu við skynsamlegt fiskveiðistjórnarkerfi, sem hefur sýnt sig að hefur komið í veg fyrir sóun og skapað mikla arðsemi í gegnum tíðina?

Það er enn furðulegra að hægt sé að sannfæra íbúa við sjávarsíðuna að skattur á útgerðina sé eitthvað réttlætismál, og því hærra sem veiðigjaldið sé, því meira réttlæti.  Veiðigjald er ekkert annað en skattur á sjávarbyggðir og mun draga enn frekar úr þrótti þessara samfélaga.  Minna fjármagn verður eftir í heimabyggð og ríkiskassinn fitnar á þeirra kostnað.  En hvers vegna er þá umræðan með þessum hætti?

Að skipta fiskveiðiarðinum rétt

Það er nauðsynlegt að reka íslenskan sjávarútveg með hagkvæmum hætti, eftir leikreglum markaðskerfis, og alls ekki með ráðstjórn og miðstýringu.  Enginn ráðherra, hversu góður sem hann er, getur haft þær upplýsingar sem markaðurinn hefur, og því verður honum ómögulegt að taka ákvarðanir sem stuðla að hagkvæmni og koma í veg fyrir sóun.  Til að sjá slíkt ráðslag þarf ekki að líta langt, og dugar að horfa til Noregs, sem þrátt fyrir tvöfalda veiði skilar sömu arðsemi, í krónum talið, og íslenskur sjávarútvegur.

En það er ekki nóg að skapa arð, það þarf að skipta honum rétt.  Og þar stendur hnífurinn einmitt í kúnni!  Við erum ekki að skipta fiskveiðiarðinum með sanngjörnum og réttum hætti.  Fiskveiðiauðlindin er sameign þjóðarinnar.  Það þýðir ekki að greinin eigi að standa undir byggðastefnu eða rétt sé að skattleggja hana út í hafsauga.  En það þarf að gefa spilin rétt.  Það má með sanni segja að sjómenn séu nokkuð vel settir með sitt hlutaskiptakerfi, enda laun sjómanna mjög góð í dag.  Það er fiskverkafólk sem ber skarðan  hlut frá borði. 

Stundum þarf að lesa góða skáldsögu til að skilja nútímann.  Í sögunni „Hjarta mannsins" eftir Jón Kalman er lýsing á því sem gæti verið Ásgeirsverslun á nítjándu öldinni.  Kjör og hagir verkafólks eins og þeim er lýst í sögunni eru þyngri en tárum tekur.  En hefur þetta breyst svo mikið?  Að sjálfsögðu hefur þetta breyst til batnaðar, en sú breyting hefur engan veginn haldið í við aðra þróun í landinu.  Þrátt fyrir að sjávarútvegur sé mikilvægasta atvinnugrein þjóðarinnar eru fiskvinnslustörf með því lélegasta sem hægt er vinna við, og hefur þurft að flytja inn vinnuafl frá austur Evrópu í stórum stíl til að manna frystihús.

Undanfarin ár hafa margir útgerðarmenn tekið vel fjármögnuð fyrirtæki úr Kauphöll, með skuldsettri yfirtöku.  Sum þessara fyrirtækja sitja upp í dag með skuldir upp fyrir rjáfur og eru ekkert annað en vaxtaþrælar.  Slík fyrirtæki skila ekki því sem þau þyrftu að gera, hvorki til nærsamfélagsins né starfsmanna og því  alls ekki í stakk búin til að dreifa eðlilegum arði af auðlindinni til þjóðarinnar..

Bæta þekkingu og kjör fiskvinnslufólks

Fyrir sjávarútveginn væri miklu vænlegra að setja sér mannauðsstefnu þar sem reynt væri að auka þekkingu og getu starfsmanna, sem vonandi skilaði sér í hagkvæmari rekstri til lengri tíma litið.  Hækka síðan launin verulega og bæta aðbúnað starfsmanna og gera fiskvinnslustörf meira aðlaðandi.  Með auknum tekjum myndi nærsamfélagið blómstra og slíkt er mun gæfulegri leið en ríkið leggi auðlindagjald á sjávarútveginn.  Það þarf að jafna aðstöðu „eigenda" auðlindarinnar og þeirra sem vilja starfa við hana.  Það óréttlæti sem svo augljóslega blasir við í dag þarf að víkja.  Það verður aldrei sátt um sjávarútveginn meðan menn reka þetta eins og nú sé nítjánda öldin.  En það þarf ekki að eyðileggja gott fiskveiðistjórnunarkerfi til að deila arðinum af vel reknum sjávarútvegi. 

 

Gunnar Þórðarson

Fyrrverandi formaður Sjómannafélags Ísfirðinga


Grein úr Þjóðmál

 

John Maynard Keynes, Almenna kenningin um atvinnu vexti og. Sjötíu árum síðar

Það er athyglisvert að rifja upp rúmlega sjötíu ára verk Keynes um „Almennu kenningarinnar um atvinnu,vexti og peninga" í ljósi umræðu um skuldasöfnun vestrænna ríkja í dag.

Bókin hafði mikil áhrif  á sínum tíma og höfundurinn , hagfræðingurinn John Maynard Keynes, hefur verið talinn einn af áhrifamestu einstaklingum síðustu aldar og bók hans talin  það rit sem mest áhrif hefur haft á þróun þjóðfélaga í Evrópu á síðustu öld..

John Maynard Keynes fæddist í Cambridge á Englandi 1883, sonur hagfræðings og prófessors við Cambridge háskóla, John Neville Keynes. Hann fékk fyrsta flokks menntun frá Eton og Cambridge en áhugamálin lágu víða. Hann féll illa að staðlaðri fyrirmynd hagfræðinga samtímans enda margt sem fangaði hug hans, t.d. listir, en hann gekk undir gælunafninu ,,listvinurinn" meðal samnemanda sinna í Eton og Cambride.  Sem ungur maður stundaði hann embættismannastörf fyrir bresk yfirvöld, m.a. hjá landstjóranum á Indlandi. 

Hann var mikilvirkur í listalífi Lundúna, og í vinfengi við marga þekktustu listamenn landsins í gegnum svokallaðan Bloomsburry hóp. Þar kynntist hann meðal annars Virginíu Wolf, George Bernhard Shaw og Duncan Grant listmálara en við hann átti Keynes í ástarsambandi framan af ævi.

Þegar heimsstyrjöldin fyrri skall á var hann kallaður til starfa hjá breska fjármálaráðuneytinu sem tryggði honum stöðu í nefnd sem fór til Parísar til að ganga frá Versalasamningunum við uppgjöf  Þjóðverja eftir fyrri heimstyrjöldina. Eftir heimkomu þaðan gagnrýndi hann einstrengingslegar kröfur sigurvegaranna, Frakka, Breta og Bandaríkjamanna, og varaði við gríðarlegum stríðsskaðabótum sem Þjóðverjum var gert að greiða.  Hann taldi að þær myndu einungis ýta undir ofstæki og skapa jarðveg fyrir öfgahópa. Friðarsamningunum gerði hann skil í bók sinni ,, Hagrænu afleiðingar friðar"(e. Economic consequences of the Peace) og eftir seinni heimstyrjöldina voru viðvaranir Keynes hafðar að leiðarljósi  við uppgjöf  Þjóðverja Eftir seinni heimsstyrjöldina fór hann fyrir  bresku sendinefndinni á ráðstefnu í Bretton Woods í New Hampshire í Bandaríkjunum. Það var á þeirri ráðstefnu sem lögð voru drög að stofnun Alþjóða gjaldeyrisjóðsins og Alþjóðabankans, sem voru hugarfóstur Keynes.  Á ráðstefnunni var gerður sáttmáli um að auka milliríkjaverslun með því að draga úr viðskiptahindrunum landa á milli, en til að það tækist varð að draga úr verndarstefnu milli ríkja.  Þrátt fyrir að Keynes hefði ekki náð fram sínum helstu markmiðum á ráðstefnunni, sbr. sérstakan gjaldmiðil sem ætti að nota í uppgjöri á milliríkjaviðskiptum og að Bretar hefðu þurft að gefa töluvert eftir af sínum samningsmarkmiðum, eru ákvarðanir sem teknar voru í Bretton Woods taldar hafa haft mikil áhrif á hagkerfi heimsins.

Í ræðu sem Keynes flutti á breska þinginu í desember 1945, hálfu ári áður en hann lést, sagði hann eftirfarandi um Bretton Woods samkomulagið:

,,tillögur varðandi gjaldmiðla og viðskipti eru  miðaðar við að halda jafnvægi, með því að leyfa ýmsar verndarráðstafanir þegar þeirra er þörf og banna þær, þegar þeirra er ekki þörf. Það sem einkennir þessar fyrirætlanir er að tengja saman helstu kosti verslunarfrelsis við óheillavænlegar afleiðingar laissez-faire. Enda tekur það ekki beinlínis tillit til varðveislu jafnvægis og treystir einvörðungu á ferli blindra afla. Hér er því um tilraun að ræða þar sem við notum það sem við höfum lært af reynslu samtíðarinnar og skilgreiningu nútímans, en ekki til að hnekkja, heldur til að efla visku Adams Smiths"[1].

Það er þó fyrir bókina ,,Almennu kenningarinnar um atvinnu, vexti og peninga" sem  Keynes verður fyrst og fremst minnst.  Bókin hefur oft verið kölluð upphaf  þjóðhagfræði en þar leit höfundur yfir heildarsviðið, allt hagkerfið, í stað þess að einblína á einstakar atvinnugreinar, fyrirtæki eða heimili við útskýringar á virkni hagkerfisins.

Bókin kom út í skugga kreppunnar miklu, sem í kjölfar verðfallsins á Wall Street 1929 setti hagkerfi heimsins á hliðina.  Í  kjölfar kreppunnar fylgdi mikið atvinnuleysi sem olli sárri fátækt í Bandaríkjunum og víðar á Vesturlöndum.  Á þessum tíma þekktust atvinnuleysisbætur ekki og kröppum kjörum alþýðu fylgdi mikil ólga þar sem öfgafullum stjórnmálaöflum óx fiskur um hrygg. 

Klassískir hagfræðingar (íhaldsmenn), höfðu boðað afskiptaleysi stjórnvalda ( ,,laissez fair") allt frá dögum Adam Smith og vildu margir kenna ófullkomleika þeirrar stefnu um kreppuna og getuleysi (viljaleysi) stjórnvalda til að taka á málum. Í framhaldi af verðfallinu 1929 varð sjóðþurrð hjá bönkum sem olli mikilli skelfingu og fólk þyrptist í banka til að taka út peninga.  Þetta var fyrir þá tíð að seðlabankar tryggðu bönkum ávallt nægilegt fjármagn til að greiða út innistæður.

Þrátt fyrir að Keynes teldi sig tilheyra borgarastéttinni og aðhylltist auðhyggju (kapítalisma) taldi hann að frjálshyggjan hefði siglt í strand og aðferðir íhaldsmanna dygðu ekki til að koma efnahagskerfinu upp á sporið að nýju.  Hann taldi sig reyndar vera að bjarga auðhyggjunni með hugmyndum sínum, en gagnrýni hans á ríkjandi stefnu frjálshyggju og afskiptaleysi var hörð og óvægin.

Hann trúði því að með aðgerðum sínum gætu stjórnvöld komið hjólum efnahagslífsins á stað aftur og benti sérstaklega á vangetu íhaldsmanna til að leysa atvinnuleysi og gagnrýndi hugmyndir þeirra um að hagkerfið væri ávallt í jafnvægi við full afköst, en það taldi Keynes  að gæti alls ekki staðist.

Keynes hélt því fram að laun breyttust með öðrum hætti en vörur vegna hugmynda launþega um réttlæti, með  samtakamætti og stéttaátökum kæmu þeir í veg fyrir launalækkun.  Hinsvegar þegar ríkið eykur framkvæmdir og umsvif sín í hagkerfinu og bætir við peningamagn í umferð, valdi það verðbólgu sem lækki raunlaun og fyrirtæki sjái sér hag í að ráða fólk í vinnu.  Þannig að framleiðsla aukist með minkandi atvinnuleysi og einnig valdi þessi innspýting ríkisins inn í hagkerfið aukinni bjartsýni á framtíðina sem auki fjárfestingu og  hagvöxt.  Sérstaklega eigi þetta við á krepputímum en afskiptaleysi stjórnvalda á slíkum óvissutímum sýni aðeins hversu máttvana klassísk hagfræði er til að takast á við slíkan vanda.  Það var meðal annars haft eftir honum að það gæti borgað sig fyrir ríkið að láta verkamenn moka skurði og síðan fylla þá upp aftur.

Segja má að í þessu kristallist ágreiningur Keynes við klassíska hagfræðinga, sem höfnuðu pólitísku inngripi í hagkerfið og vildu láta markaðinn leysa hagfræðileg mál.  Keynes aftur á móti vildi nota auðhyggjuna eftirspurnarmegin í hagkerfinu (gefa fyrirtækjum gott svigrúm) til að framleiða á sem hagkvæmasta hátt, en pólitík til að dreifa afrakstrinum framboðsmegin (ríkið auki hlutdeild sína í hagkerfinu) þar sem gæðunum er útdeilt. 

En Keynes vildi ganga lengra og lagði til ,,félagslega fjárfestingu" þar sem ríkið ætti að auka hlutdeild sína í hagkerfinu með beinum fjárfestingum í atvinnulífinu .  Hann taldi sig ekki vera að leggja til sósíalisma með þessu heldur væri þetta eina leiðin til að koma á jafnvægi fullrar atvinnu og hámarks framleiðslu, sem hann taldi frjálshyggjuna ófæra um að gera. 

Bók Keynes um Almennu kenninguna hafði mikil áhrif í heimi hagfræðinnar og á hið pólitíska andrúmsloft.  Margt af  því sem þar kemur fram hefur eflaust hljómað vel í eyrum stjórnmálamanna eins og réttlæting á peningaprentun, aukna skattlagningu og áhrif stjórnmálamanna á framboðshlið hagkerfisins.  Einnig eru viðbrögð klassískra hagfræðinga, en hugmyndir þeirra höfðu verið ráðandi á Vesturlöndum um langt skeið, skiljanleg.  Bókin réðst harkalega að kenningum frjálshyggjumanna og dregur þá oft sundur og saman í háði enda textinn einharður og miskunnarlaus.

Hugmyndafræði Keynes var tekið fagnandi á Vesturlöndum og voru notaðar sem lausn á kreppu eftir seinni heimstyrjöldina og í kjölfarið fylgdi mesta hagvaxtarskeið mannkynssögunnar.  Margir urðu hinsvegar til að gagnrýna þessar kenningar og fór þar félagi og samtímamaður hans Austurríkismaðurinn Fredrik Ágúst von Hayak einna fremstur í flokki.  Einnig deildi Milton Friedman prófessor við Chicago háskóla ákaft á kenningar Keynes, en hann hafði aðra skýringu á kreppunni miklu sem hann skýrði með mistökum Seðlabanka Bandaríkjanna að tryggja ekki bönkum nægt lausafé og auka þannig peningamagn í umferð.  Á sama hátt varaði hann við lausbeislaðri peningamálastefnu og auknum ríkisafskiptum sem leiða myndu til verðbólgu og skuldasöfnunar ríkissjóðs.  Aðrir kennismiðir í anda Keynes höfðu fundið út að hægt væri að draga úr atvinnuleysi með því að auka verðbólgu og þar með var komin lausn sem bæði myndi  auka hagvöxt og velsæld í heiminum.

Efnahagserfiðleikar þrengdu að Vesturlöndum á sjöunda áratugnum, þar sem bæði verðbólga og atvinnuleysi fóru úr böndunum ásamt meiri viðskiptahalla en áður hafði þekkst.  Keynes lifði ekki þessa daga en margir hafa bent á að ósanngjarnt sé að gera kenningar hans að blóraböggli í því máli. Það varð þó til þess að íhaldsmenn náðu aftur vindi í segl sín og nýir tímar tóku við með Thatcher og Reagan.  Fram að 2008  má segja að ríkjandi kenningar í hagfræði væru ný-Keynesismi og ný-klassísk, þó nefna megi peningastefnu (Monetarisma) með Milton Friedman í fararbroddi.   

Ástand efnahagsmála Vesturlanda upp úr 2008 hafa orðið til þess að rykið hefur verið dustað af kenningum Keynes sem eins og áður segir deildi hart á viðbrögð við verðfallinu á Wall Street 1929 og kerppu sem fylgdi í kjölfarið. Bandaríski seðlabankinn gerði á þeim tíma þau grundavallarmistök að tryggja ekki inneign sparifjáreiganda og koma þannig í veg fyrir sjóðþurrð banka og þeirri keðjuverkun gjaldþrota sem því fylgdi.[2]  Bankann skorti ekki völd eða getu til þess að útvega bönkum fjármuni með tryggingu í útlánum enda var það eitt helsta hlutverk hans.  Hefði Seðlabanki Bandaríkjanna stöðvað útstreymi úr bönkunum og komið í veg fyrir bylgju bankagjaldþrota hefði kreppan aldrei náð þeim hæðum sem raunin varð.  Peningamagn í Bandaríkjunum dróst saman um þriðjung frá því í júlí 1929 til mars 1933, og tveir þriðju þess samdráttar urðu eftir að Bretar féllu frá gullfæti til að tryggja enska pundið. [3]

Segja má að ríki Vesturlanda hafi brugðist við með ólíkum hætti eftir hrunið 2008 og þar sem lögð var áhersla á koma í veg fyrir bankaáhlaup þar sem ríkisvaldið tryggði inneignir í bönkum og getu þeirra til að standa við útgreiðslur, kæmi til þess.  Í framhaldi hafa Vesturlönd, með Bandaríkin í broddi fylkingar gripið til Keynsisma með því að dæla peningum inn i hagkerfið með peningaprentun og lágum stýrivöxtum.

Hingað til hafði skuldasöfnun Bandaríkjanna aðalega verið bundin við stríðskostnað, fyrir utan kostnaðinn við „New Deal" Roosevelts, einmitt eftir kreppuna miklu.  Í upphafi tuttugustu aldar voru  skuldir ríkisins (Federal Debt) innan við 10% af þjóðarframleiðslu. Eftir kreppuna miklu og „New Deal" jukust skuldir mikið en það var þó í seinni heimstyrjöldinni sem þær náðu nýjum hæðum, eða 122% af þjóðarframleiðslu.  Næstu 35 árin lækkuðu skuldir umtalsvert sem hlutfall af þjóðarframleiðslu þar til Regan hóf lokaorustuna í kalda stríðinu og opinberar skuldir fóru yfir 60% af þjóðarframleiðslu.  Stríðið gegn hryðjurverkamönnum kostuðu hinsvegar sitt en fyrst tók steininn úr eftir 2008 þegar Obama, samkvæmt Keynesiskum ráðum, hóf stjórnlausa penngaprentun til að auka eftirspurn í hagkerfinu í viðleitni sinni til að minnka atvinnuleysi og auka hagvöxt í Bandaríkjunum.[4]

Á sínum tíma gagnrýndi Milton Friedman kenningar Keynes harkalega, fyrst undir merkjum peningahyggju (monetarism) en síðan undir merkjum ný-klassískrar hagfræði.   Magn peninga í umferð hefur orðið mörgum hagfræðingnum umhugsunarefni í gegnum aldirnar og er peningamagnskenningin (quantity theory of money) að minnsta kosti 500 ára gömul og gæti verið komin frá tíma Confuciusar. [5]  Adam Smith velti þessu máli fyrir sér og líkti peningamagni við fljót sem rynni í árfarveg og ef of mikið magn væri látið í hann (árfarveginn) þá myndi eðlilega fljóta yfir bakkana. [6]

Samkvæmt klassísku módeli þá eru laun og verðlag fullkomlega breytilegt.  Ef ríkið eykur umsvif sín er tvennt sem getur gerst.  Við aukin umsvif eykst eftirspurn eftir peningum og vextir hækka.  Við hærri vexti draga fyrirtæki úr fjárfestingum sínum og eina breytingin er að ríkið fær nú stærri sneið af hagkerfinu.  Ef ríkið hinsvegar eykur peningamagn í umferð til að halda niðri vöxtum þá hækkar verðlag og verðbólga en engin breyting verður á framleiðslu.  Hinsvegar þarf að greiða niður fjárlagahalla (eða vexti af ríkisskuldabréfum) í framtíðinni sem étur upp hagvaxtaraukningu við aukin umsvif.

Samkvæmt kenningum klassískra hagfræðinga er ekki hægt að stækka hagkerfið til lengri tíma með aukinni eftirspurn.  En hægt er að hafa áhrif á framboðshliðina, t.d. með skattalækkunum, sem eykur vinnuvilja fólks, peningamagn í umferð og sparnað.  Vextir lækka og fyrirtæki fjárfesta í nýjum atvinnutækjum og þjóðarframleiðsla eykst.

Keynesísk hagfræði gerir hinsvegar ráð fyrir að nafnvirði launa breytist ekki og sú verðbólga sem myndist við aukin umsvif ríkisins ásamt auknu peningamagni lækki því raunverulegan launakostnað.  Vextir lækki og fyrirtæki bæti við starfsfólki vegna launalækkunar og betri vaxtakjara.  Seinni árin hafa komið fram kenningar sem brúa þetta bil og vilja halda því fram að Keynesískri aðferðir geti virkað til skamms tíma þó þær geri það ekki til lengri tíma.[7]

Fram á sjöunda áratuginn trúðu menn mjög á kenningar Keynes og renndu hugmyndir nýsjálenska hagfræðingsins Phillis frekari stoðum undir þær.  Þessar hugmyndir sýndu að hægt væri að velja á milli verðbólgu og atvinnuleysis og væri um neikvæð tengsl að ræða.  Hægt væri með öðrum orðum að minnka atvinnuleysi með hæfilegri verðbólgu.  Á áttunda áratugnum fór þetta  úr böndunum þar sem bæði verðbólga og atvinnuleysi jukust jöfnum höndum um alla Vestur Evrópu og Bandaríkin.  Það var einmitt Friedman sem benti á veilur í Phillis-kúrfunni þar sem honum hafði láðst að gera greinarmun á peningalaunum og raunverulegum kaupmætti launa.

Það verður fróðlegt að líta um öxl þegar rykið hefur sest í því pólitíska umróti sem kreppa iðnríkja hefur valdið, en margir telja að meginorsök hennar hafi verið of ódýrt fjármagn sem grafið hafi undan varkárni og ráðdeild.  Hvort Keynesísk úrræði vestrænna stjórnmálamanna duga til að leysa málið eða hvort varnaðarorð klassískra hagfræðinga hafi verið rétt.  Um þetta er tekist á í dag, sérstaklega í Bandaríkjunum en þróun mála í íslensku hagkerfi er einnig áhugaverð ef skoðuð í þessu ljósi.  Ljóst má þó vera að skuldavandi vestrænna ríkja er gríðarlegt vandamál sem ekki sér fyrir endann á.  Víða er frjálshyggju, eða ný-frjálshyggju (óskilgreint hugtak)  kennt um þær ógöngur sem hagkerfi vestrænna þjóða er komið í, en spurning hvort þar sé verið að hengja bakara fyrir smið og nær sé að leita að sökudólgnum í sósíalisma  .Ljóst má vera að rætur vandans liggja í óábyrgri fjármálastjórn vestrænna ríkja, þar sem þjónusta hefur verið aukin við íbúa, langt umfram tekjuaukningu, og bilið verið fjármagnað með lántökum. 


[1] ,The balance of Payments of the United States",The Economic journal, Vol.LVI.júni 1946,bls 185-186. þýðing Haraldur Jóhannsson í Heimskreppa og Heimsviðskipti (1975)

[2] Þorvaldur Gylfason (1990)

[3] Friedman (1982)

[4] http://www.usgovernmentspending.com/spending_chart_1900_2016USp_12s1li011lcn_H0f_US_Federal_Debt_Since_#copypaste

[5] Begg (2000)

[6] Haraldur Jónsson (2000)

[7] Beggs (2000)


Grein úr Fiskifréttum

 

Veðsetning á kvóta

Eitt af því sem mest fer fyrir brjóstið á andstæðingum fiskveiðistjórnarkerfisins er veðsetning kvótans.  Telja að veðsetning á óveiddum fiski hljóti að vera mikið óréttlæti og hin mesta óhæfa.  Lítið fer fyrir málefnalegri umræðu um þessi mál en meira fyrir tilfinningaríkum yfirlýsingum, og veðsetningu kvóta er líkt við þjóðarmein.

Það er löngu liðið að lánastofnanir líti á fasteignir eða vélar sem bestu veðsetningar fyrir lánum til fyrirtækja, og frekar verið horft til fjárstreymis þeirra sem merki um hvort þau geti ráðið við endurgreiðslu.  Lánveitandi horfir að sjálfsögðu helst til áhættu af útlánum og byggja ákvörðun sína á trausti til lánþega til endurgreiðslu.  Stýra má þeirri áhættu með ýmsum hætti, t.d. ábyrðum og vöxtum.

Kók og kvótinn

Banki sem hyggst lána Coca Cola fjármuni veltir því fyrir sér hvaða tryggingu þeir hafi fyrir að gott fjárstreymi fyrirtækisins haldi út lánstímann.  Þar blasir við að lógó fyrirtækisins tryggir sölu afurða og er undirstaða sölu og fjárstreymis.  Bankinn setur fyrirtækinu þau skilyrði að fyrirtækið selji ekki lógóið frá sér út samningstímann.  Lógóið er þannig veðsett og þannig er huglægt fyrirbæri notað sem veðsetning.

Útgerð sem á kvóta (býr við afnotarétt af tilteknum aflamarki) getur skipulagt veiðar þannig að best falli að markaði og hámarkað tekjur sínar með góðri stjórn á virðiskeðjunni.  Þar með talið er afhendingaröryggi sem er forsenda þess að ná góðum samningum við viðskiptavini erlendis.  Banki sem lánar þessari útgerð fjármuni býður því góða vexti enda fjárstreymi fyrirtækisins gott og áhætta í lágmarki.  Aflaheimildir eru grundvöllur fjárstreymisins og því er sett í lánasamning að útgerðin selji þær ekki frá sér út lánstímann.  Skildi eitthvað vera athugavert við slíka samninga?  Hvað með bóndann sem vill stækka fjárhúsið til að fjölga fé, og bankinn setur það sem skilyrði að hann hafi nægjanlegt beitarland.  Er hann þá að veðsetja afrétti?

Fiskveiðiarður

Það hlýtur að vera megin markmið fiskveiðistjórnunar að hámarka arðsemi, og það kemur einmitt fram í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar.  Fiskveiðistjórnunarkerfið á að hámarka arðsemi greinarinnar.  Rekstur fyrirtækja á síðan að byggja á markaðslegum forsendum og hámarka rekstarafkomu.  Ein forsenda þess er að fyrirtæki njóti lástrausts og geti fjárfest. 

Fari þetta vel saman má búast við hámarks fiskveiðiarðs af auðlindinni.  Þá er komið að pólitískum afskiptum til að tryggja að fiskveiðiarðurinn renni með eðlilegum hætti til þjóðarinnar, og ekki síst til nærsamfélags útgerðar.  Slíkt er hægt að gera á annan hátt en með skattheimtu sem dregur úr nýsköpun og framförum.  Langtímamarkmið í sjávarútveg gæti verið að bæta starfsumhverfi fiskverkafólks, auka þekkingu og menntun starfsmanna og hækka launin verulega frá því sem nú er.  Slíkt dreifir fiskveiðiarð á betri hátt en skattheimta og kemur sjávarbyggðum vel.


Jón Guðbjartar í Kampa

 

Jón Guðbjartsson, stjórnarformaður rækjuvinnslunnar Kampa, er Ísfirðingur í húð og hár, fæddur og uppalinn í Dokkunni og sonur hjónanna Guðbjarts Jónssonar og Sigríðar Jónsdóttur.  Eiginkona hans er efribæingur, Sigríður Rósa Símonardóttir, Helgasonar og Elísu Halldórsdóttir.

„Ég hafði aldrei tekið eftir þessari stúlku fyrr en ég varð samskipa henni til Færeyja.  Við vorum nokkrir fótboltastrákar sem fórum þangað í keppnisferð.  Það urðu allir sjóveikir um borð nema ég og þessi unga kona og þar feldum við hugi saman"

Starfsferillinn byrjaði í námi í bifvélavirkjun hjá Erlingi Sigurðssyni og eftir það fór Jón á sjóinn í eitt ár til að greiða niður námskostnaðinn.  Einar Guðfinnsson bauð honum þá verkstjórastöðu við nýtt bifreiðaverkstæði sem fyrirtæki hans var að opna í Bolungarvík.  „Ég sló til og ætlaði mér að vera i víkinni í eitt ár"  Vistin var honum góð í Bolungarvík og árin áttu eftir að verða mörg.  Það var nóg að gera og ásamt vinnu var Jón var á kafi í félagsmálum.  „Það gleymdist alveg að flytja til baka "  segir Jón.  Eitt sinn kom Einar Guðfinnsson að máli við hann og sagði að það vantaði kafara í víkina, og Jón sem Ísfirðingur hlyti að kunna sundtökin.  Jón var reyndar gamall Vestfjarðarmeistari í sundi og það þurfti ekki að ræða það meir, hann skyldi verða kafari Bolvíkinga.  Kennari var fengin fyrir köfunina, sem jafnframt útvegaði búnað, og í framhaldi kom tilsögn í gegnum síma.  Síðan hélt Jón niður í fjöru til að prófa.  Allt gekk þetta vel og seinna fékk hann full kafararéttindi og þjónustaði Bolvíkinga með köfun næstu áratugina.

En hvernig byrjaði útgerðin?  „Ég á þrjú börn og tókst að halda einu þeirra heima með því að kaupa með honum togara.  Ég gat ekki keypt apótek fyrri dótturna eða lögfræðiskrifkofu fyrir yngri soninn.  Það var gengið var framhjá syni mínum með stýrimannastöðu á togara hér fyrir vestan og hann stakk upp á að við stofnuðum útgerð"  Togarinn sem þeir keyptu var skýrður Gunnbjörn (fyrrum Haukur Böðvarsson ÍS) og var gerður út á troll.

Þeir feðgar veltu fyrir sér möguleikum framtíðarinnar og ákváðu að veðja á rækjuna, sem hafði verið í mikilli lægð, og keyptu togara til rækjuveiða sem nú heitir Valbjörn.  Veiðar gengu vel og landað var í heimabyggð hjá rækjuvinnslu Miðfells.  Þegar sú verksmiðja fór í þrot var engin verksmiðja á svæðinu til að kaupa aflann og aðrir möguleikar ollu vonbrigðum.  Árið 2007 réðust þeir í kaup á verksmiðju Miðfells og stofnuðu rækjuvinnsluna Kampa.

Rekstur Kampa hefur gengið vel og gert er  ráð fyrir að vinna úr á níunda þúsund tonna af hráefni á þessu ári.  Framleiðsla af fullunnum afurðum verður um þrjú þúsund og sexhundruð tonnum sem skilar mun veltu upp a rúma þrjá milljarða króna.  Greidd laun verða um 230 milljónir króna til um 90 starfsmanna.  Verksmiðjan hefur mjög gott orð á sér á mörkuðum fyrir gæði, enda er mönnuð einvala liði starfsmanna með mikla reynslu úr rækjuiðnaðinum við Ísafjarðardjúp.  Gríðarleg þróun hefur verið í rækjuvinnslu í gegnum tíðina og óhætt að tala um rækjuframleiðslu sem hátækniiðnað.  Margar verksmiðjur hafa helst úr lestinni í þeirri samkeppni hér heima og erlendis.  Jón telur að menn þurfi að vera á tánum á öllum sviðum til að viðhalda rækjuvinnslu Kampa á Ísafirði, og til þess þurfi að tryggja samkeppnishæfni verksmiðjunnar.  Til þess hefur þurft að fjárfesta í tækjum og búnaði en allar framkvæmdir frá upphafi hafa verið greiddar af eigin fé og án látöku, enda hefur reksturinn skilað góðri afkomu. 

Framundan er uppsetning á mjölverksmiðju með framleiðslu á hágæðamjöli úr úrgangi rækjuvinnslunnar, sem dregur verulega úr mengun af vinnslunni og skilar vonandi góðri arðsemi.  Nýlega var keyptur nýr rækjutogari með vinnslulínu um borð og er byggður fyrir alþjóðlegar veiðar á norðurslóðum.  Togarinn er væntanlegur í heimahöfn um jólin og hefur hlotið nafnið Ísbjörn.

Það hefur vakið athygli hversu lítil yfirbygging er á fyrirtæki Jóns en sjálfur er hann stjórnarformaður án launa.  Engin framkvæmdastjóri er við fyrirtækið en tveir rekstrarstjórar sjá um skrifstofu fyrirtækisins og framleiðslu. 

 


Ritstjórapistill í Vesturlandi

 

Angurværð og tregi grípur mann þegar haldið er heim á Silfurtorg úr Tunguskógi að hausti, eftir frábært sumar í sveitinni.  Fölnuð laufin svífa af trjánum en enn skartar skógurinn sínu fegursta, glittir í rauð reynitrén á stangli en barrtrén skera sig úr gulum laufskóginum, sígræn og reist.  Það er sérstök lykt af haustinu, svona skörp og frískandi.   Hugurinn leitar til sumardaga í skóginum, í góðra vina hópi, þar sem notið er kvöldsólar yfir góðri máltíð og sem rennt er niður með höfgu víni meðan geislar kvöldsólar ylja vangann.

Á hverju vori tekur við glaðværð sumarsins þar sem flestir skipta um gír og festan og lífsbaráttan víkur fyrir leik og galsa við bjartar sumarnætur.  Með lækkandi sól er það fastmótað félagslífið, með sinni formfestu, sem tekur við að hausti þegar flutt er í bæinn aftur.Í rauninni er haustið æðislegur tími þar sem rómatík rökkurs svífur yfir vötnum og vekur upp nýjar þrár með hvatningu til nýrra dáða.  En það eru þó jólin sem eru hápunktur vetrarins og eins og allir stefni þangað frá fyrstu haustlægðinni.  Tíminn þegar fjölskyldur sameinast og endurvekja einstaka töfra sem jólin eru, ár eftir ár.  Það er eitthvað við jólahátíðina sem er einstakt sem ýtir til hliðar áhyggjum af skammdegi og köldum hauststormum.  Augnablikin áður en sest er niður yfir veisluborði aðfangadagskvölds eru ólýsanleg og allt verður einhvernvegin hljóðlátt og hátíðlegt og jafnvel yngstu fjölskyldumeðlimir skynja andrúmið þar sem  öllu öðru er vikið til hliðar um stund.  Aðeins fegurð og hátíðleiki og tónlistin í útvarpinu myndi ekki passa við nein önnur tilefni ársins.

  Jólin eru einstakur tími. Gleðileg jól.


Lög, reglur og kvennréttindi

 

Rúmlega sexhundruð milljónir kvenna búa í löndum þar sem heimilis- ofbeldi er ekki skilgreint sem glæpur samkvæmt lögum. 125 ríki hafa samþykkt slík lög en aðeins 52 ríki hafa gert nauðgun innan hjónabands refsiverða.  Haft er eftir aðalritara Sameiniðuþjóðanna að „Ofbeldi gegn konum og stúlkum er ljótur blettur á hverri heimsálfu, landi og menningu"

Fyrir nokkru síðan voru sett lög í Afganistan til að tryggja réttindi kvenna sem gerir heimilaofbeldi refsivert.  Þessu var tekið fagnandi af mannréttindasamtökum um allan heim og búist við betri tíð fyrir konur í Afganistan. En reynslan er önnur og lagasetningin hefur litlu breytt fyrir afganskar konur sem áfram búa við ólýsanlegt ofbeldi karlmanna.

Eitt af skilyrðum sem ESB hefur sett Tyrkjum til að hefja aðilaviðræður við þá er lagasetning til að tryggja réttindi kvenna og ekki síst til að koma i veg fyrir sæmdarmorð þar sem ungar konur eru neyddar til að fylgja forskrift karlmanna að hjónabandi.  Ekki stóð á lagasetningunni og talið er að hún hafi haft töluverð áhrif í tveimur borgum, Ankara og Istanbul, en lítil áhrif þar fyrir utan.

Málið er að lagasetning er eitt og annað er almennur vilji til að fara að þeim lögum. Þar er komið að gildismati einstaklinga, hvað sér rétt og rangt, fallegt eða ljótt o.s.fr. Fræðilega er talað um að fram undir fermingu hlaði fólk gildismati inn á harða diskinn og tileinki sér það til lífstíðar. Nánast er útilokað að breyta þessum grunngildum þar sem þau verða hluti af persónuleika hvers og eins og sameiginlega að menningu þjóðar.

Kristin trú hefur mótað gildismat vesturlandabúa, en þau trúarbrögð aðgreina sig frá öðrum eingyðingstrúarbrögðum með umburðarlyndi. Kristni hefur ekki aðeins mótað viðhorf okkar heldur menningu og stuðlað að efnahagslegri velsælt vesturlandabúa. En mest um vert er gildismatið sem lagasetningar eru byggðar á og ríkjandi viðhorf um að rétt sé að fara að lögum ásamt því að refsingar mótast af viðhorfum í samfélaginu.

Við trúum á einstaklingsfrelsi sem tryggi rétt allra til að lifa hamingjusömu lífi og höfnum því algerlega kynjamismunun. Ofbeldi karlmanna gegn konum í krafti aflsmuna er ólíðandi.  Sem betur fer hafa miklar framfarir orðið í okkar menningaheimi á þessu sviði undanfarna áratugi, en betur má ef duga skal. Kristilegt gildismat er mikilvæg stoð í þeirri vegferð og því ekki rétt að draga úr því uppeldislega mikilvægi sem það hefur en nú gerist í skólum höfuðborgarinnar.


Erindi flutt á ráðstefnu um sjávarútvegsmál í stjórnsýsluhúsinu 1989

 

Kvótinn á úthafsrækjuveiðar:

Tæki til stjórnunar eða fjármagnstilfærsla

Ég vil byrja á því að fara nokkrum orðum um tilurð kvótans á úthafsrækju, og afstöðu rækjuframeiðenda til hans á þeim tíma er hann var settur á.

Fram til ársins 1988 var sóknin í úthafrækju nánast óheft og lítil sem engin stjórn þar á, og voru flestir sammála um að við slíkt yrði ekki búið, þar sem allar aðrar veiðar lutu stjórnun yfirvalda.  Ljóst var að yfirvöld myndu gera breytingu þar á við setningu nýrra laga um fisveiðistjórn um áramótin 1988 og 89.  Þegar hér var komið sögu, um mitt árið 1988, hafði rækjuvinnslum fjölgað verulega frá því sem áður var, þrátt fyrir áköf mótmæli frameiðenda, og uppsetning nýrra verksmiðja væri háð leyfi sjávarútvegsráðuneytisins, vegna laga um samræmingu veiða og vinnslu.  Þessi fjölgun verksmiðja hafði valdið því að eftirspurn eftir hráefni varð verulega meiri en framboðið, sem orsakaði mikla spennu á markaðinum.  Árið 1983 var afkoma góð og verulegar upphæðir voru greiddar inn í verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins, sem er lögbundið til að jafna sveiflur í afkomunni.  Í góðærinu fengu fjöldi nýrra aðila leyfi til rækjuvinnslu hjá sjávarútvegsráðuneytinu og nýjar vinnslustöðvar voru byggðar.

Þegar þær tóku til starfa árið 1984, versnaði afkoman aftur vegna verðfalls á afurðum.  Þá var greitt úr verjöfnunarsjóði til frameiðenda, en óháð hvernig greiðslum í sjóðinn var háttað.  Það skal tekið fram að nánast öll fjölgun rækjuverksmiðja var á svæðinu vesturland suður úr til austfjarða.  Sagan endurtók sig 1986, verulegar greiðslur í verðjöfnunarsjóð, nýjar verksmiðjur voru opnaðar upp úr því, afkoman versnaði og greiðslur úr verðjöfnunarsjóði óháðar innborgun.  Þannig hafði veruleg fjármagnstilfærsla átt sér stað frá gamalgróunum vinnslustöðvum til hinna nýrri. 

Það var því á haustdögum 1987 að forráðamenn rækjuverksmiðja á norðurlandi og vestfjörðum komu saman á Akureyri til að ræða þessi mál og væntanlegar aðgerðir stjórnvalda, til stjórnar veiðunum.  Þarna voru saman komnir þeir sem höfðu haft meginhluta þessarar vinnslu á hendi fram að þeim tíma, lagt til áhættufé og fórnarkostnað til að gera þær mögulegar.  Niðurstaða fundarins var sú að skiptur kvóti milli veiða og vinnslu, líkt og gert er við veiðar á rækju innfjarðar, þar sem í skiptum milli vinnslustöðva væri tekið tillit til þeirrar reynslu sem hver og ein hafði aflað sér, væri það sem helst kæmi til greina.

Ákveðið var að vinna þessum tillögum fylgis innan Félags rækju og hörpudiskframleiðenda og náðist að lokum breið samstaða um þær.  Lögðu þingmenn á norðurlandi og vestfjörðum málinu lið til að vinna þessu mikla hagsmunamáli brautargengi, jafnframt sem stjórn félagsins kynnti ráðherra tillögur og samþykkta skiptingu a kvótanum milli vinnslustöðva.  Það kom fljótlega í ljós að ráðherra var algerlega á móti skiptingu kvótans á milli veiða og vinnslu, en fyrir harðsækni stjórnar félagsins og ákveðinna þingmanna, fékkst hann til að samþykkja þak á móttökuheimild vinnslustöðvar, til að draga úr þeirri spennu sem ríkt hafði á hráefnismarkaðinum og tryggja að vinnslan færðist ekki á milli landshluta i meira mæli en komið var.  Móttökuhámarkið átti að draga úr eftirspurn og tryggja aðilum nokkurn vegin þá markaðshlutdeild sem þeir höfðu haft, þar sem mið yrði tekið af aflamóttöku undanfarinna ára.  En vegna þrýstins frá útvegsmönum voru veiðiheimildir ákveðnar langtum hærri en raunhæft var að reikna með, og áhrif móttökuhámarksins þannig að engu orðið.  Reglugerðinni um móttökuhámark á rækjuvinnslustöðvar var síðan fleygt fyrir róða um áramótin 1988 og 1989.

En hver er staðan í dag og hvert stefnir?  Það þarf engin að veljast í vafa um hverjum kvótakerfið hefur þjónað þann tíma sem það hefur verið við líði.  Stórkostleg fjármagnstilfærsla hefur átt sér stað frá vinnslunni til útgerðar, bilið milli framboðs og eftirspurnar hefur aldrei verið meira, og nýr kostnaðarliður hefur bæst við vinnsluna, sem er kvótakaup.  Hvað gerir það svo sjálfsagt að eignarrétturinn yfir þessari auðlind sé færður útgerðinni á silfurfati?  „Það er hagkvæmast"  Segja talsmenn þessa kerfis, að kvóti sé á skipum og gangi kaupum og sölum, einnig er það nauðsynlegt til að hafa stjórn á veiðum. 

Án þess að ég taki neina afstöðu til þess kvótakerfis sem viðgengist hefur við bolfisk-veiðar vil ég ákveðið mótmæla þessari röksemdafærslu þar sem um rækjuveiðar er að ræða.  Hverju hefur kvótinn stjórnað?  Hann hefur að vísu  stýrt veiðiheimildum á milli flokka veiðiskipa, t.d. hefur loðnuflotinn, 40% kvótans, en hafði áður veitt frá 11 - 20 %.  Sérveiðiskip hafa 25% en höfðu ekki veitt rækju áður, og bátaflotinn það sem eftir er, en hafði ásamt togurum um 80 - 90% veiðinnar. 

Það er rétt að benda á að vestfirðingar áttu ekkert loðnuskip og aðeins eitt sérveiðiskip, og raunar mjög fá báta.  árið 1988 kom til vinnslu á vestfjörðum um 30% heildaraflans, eða eða tæplega 9500 tonn.  En rækjukvóti vestjarðabáta er aðeins tæplega 1400 tonn, eða 6,3% af heildarafla, þ.e. 20% af því sem fór til vinnslu á svæðinu.  Vinnslustöðvar á Vestfjörðum þurfa því að sækja verulegan hluta hráefnisins frá skipum úr öðrum landshlutum, eða um 80%, og eru verulegur hluti þess afla fengin með persónulegum samböndum forsvarsmanna vinnslustöðva við útgerðarmenn víða um land.  Mikilvægi rækjuvinnslu t.d. á Ísafirði sést vel á því að aflaverðmæti landaðs þorskafla árið 1988 var rúmlega 206 milljónir króna, en rækju rúmlega 400 milljónir króna. Ef erlendu hráefni væri bætt við, og miðað væri við framleiðsluverðmæti væri munurinn mun meiri.  Ef vestfirðingar hefðu haldið hlutdeild sinni í vinnslunni frá árinu 1981, hefði hún verð u.þ.b. fjögur þúsund tonnum meiri á s.l. ári, sem gerir um sexhundruð milljónir í veltu miðað við fullunna afurð.  Það er því augljóst hve mikilvægur þessi iðnaður er fyrir vestfirðinga, og óhætt að fullyrða að vaxtabroddur í atvinnulífi margra staða innan fjórðungsins liggur í vinnslu á úthafsrækju.  Menn hljóta því að spyrja hver sé trygging okkar vestfirðinga fyrir að viðhalda hlutdeild okkar í þessari vinnslu í framtíðinni.  Skipakaup til að tryggja nægilegan kvóta er óraunhæfur möguleiki þar sem  kaupa þyrfti tugi skipa til þess.  Raunhæfasta leiðin er að vinnslan fái hálfan kvótann í sinn hlut, þar sem tekið yrð tillit til reynslu vinnslustöðva undanfarin ár við úthlutun til þeirra.

Engin skynsamleg rök mæla gegn því að slíkt kerfi yrði tekið upp.  Slíkt kerfi mundi tryggja að vinnslan héldist innan þeirra byggðalaga sem hún nú er, og einnig jafna þann mun sem hefur verið milli framboðs og eftirspurnar á hráefni.  Einnig er rétt að vekja athygli á þeirri mismunun sem viðgengst milli tegunda veiðikvóta, en heimilt er að geyma, eða nýta fyrirfram 10% bolfiskkótans um hver áramót.  Þessari heimild fylgir nauðsynlegur sveigjanleiki til að jafna sveiflur í veiðinni, og þyrfti að gilda um rækjuveiðar líka.

Við höfum lokaðan hóp vinnslustöðva sem geta komið sér saman um skiptingu kvótans sín á milli, einnig höfum við reynslu af slíku kerfi á innfjarðarveiðinni, sem gengið hefur með miklum ágætum.  Með slíku kerfi væri um eðlilegt samstarf milli útgerðar og vinnslu að ræða, þar sem aðilar þyrftu hvorir á hinum að halda.  Útgerð byði vinnslu sinn helming kvótans til löndunar, og fengi í staðin sama magn frá vinnslunni til veiða.  Þessu fylgdu engin forréttindi hvorugum aðilanum til handa en tryggði t.d. vestfiðringum hlutdeild þeirra í auðlindinni.

Þetta er sameiginlegt hagsmunamál allra þeirra sem búa á stöðum eins og Ísafirði þar sem rækjuvinnsla er verulegur burðarás í atvinnulífinu, en þeir eru nokkrir á Vestfjörðum.  Það er ekki einkamál hluthafa eða starfsmanna rækjuvinnslustöðva, hvernig haldið verður á þessum málum í fratíðinni, né hver þróun þeirra verður.  Við skulum gera okkur grein fyrir því að frekari uppbygging atvinnulífs á vestfjörðum verður ekki með byggingu álvers eða annarri slíkri stóriðju heldur eins og hingað til á veiðum og vinnslu á sjávarfangi og þjónustu í kringum það.

 


Samfélagsleg ábyrgð í rækjuveiðum í Ísafjarðardjúpi

 

Undirritaður hefur haldið upp vörnum fyrir núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi, sem byggt er á aflahlutdeildarkerfi þar sem heimildum er úthlutað sem hlutfalli af leyfilegum ársafla.  Kerfið viðheldur hagkvæmni og eykur verðmætasköpun í sjávarútvegi, sem er okkur Íslendingum nauðsynlegt.  Höfundi hefur oft verið legið á hálsi að ósekju að ganga erinda LÍÚ eða einstakra „kvótaeiganda" í umfjöllun sinni um málefnið, en látið það sem vind um eyru þjóta og litið á slíkt sem rökþrot í umræðunni.  Höfundur trúir því af einlægni að Íslenskur sjávarútvegur eigi að byggja á markaðsbúskap en ekki sósíalisma þar sem daglegar ákvarðanir eru teknar af stjórnmálamönnum.

Kvótakerfið, eins og önnur mannanna verk, er ekki fullkomið og ekki er hægt með reglum einum að tryggja fullkomlega réttláta nýtingu auðlindarinnar.  Þeim sem falin er ábyrgð á nýtingu aflaheimilda, og þar með lífsbjörg sjávarbyggða, geta ekki bara skýlt sér á bak við lög og reglur þar sem oft þarf að taka siðrænar ákvarðanir.  Þar sem lögin ná ekki til tekur við gildismat viðkomandi aðila um hvað sér rétt og rangt og hvað sé réttlátt og hvað ekki.  Að þó að markaðsbúskapur sé nauðsynlegur til að hámarka arðsemi þýðir það ekki afneitun á hagsmunum þeirra sem eiga mikið undir auðlindum sjávar og þegar upp er staðið þarf allt samfélagið að njóta góðs af.  Krafa er um að þeir sem hafa nýtingarrétt á auðlindinni hugi að heildarhagsmunum þeirra samfélaga sem byggja lífsviðurværi sitt á þeim.

Þetta kemur upp í hugann nú þegar ljóst er að meginhluti kvóta úr Ísafjarðardjúpi er ekið, með ærnum tilkostnaði, í burtu til vinnslu annarsstaðar.  Sem markaðshyggjumanni gæti undirritaður sætt sig við að slíkar ákvarðanir væru teknar á viðskiptalegum forsendum þar sem um verulega aukningu á verðmætasköpun væri að ræða.  En er það svo við þessa ákvörðun „eiganda" rækjukvóta í Ísafjarðardjúpi?

Samkvæmt viðtali í Mbl við einn útgerðarmanna, Aðalstein Ómar Ásgeirsson, réði úthlutun á byggðakvóta á Ísafirði þeirri ákvörðun að landa afla sínum í Súðavík en ekki heimahöfn.  Hér er því ekki um efnahagslegt mál að ræða heldur óánægju með að sveitarstjórnarmenn treysta sér ekki til að sveigja til reglur um úthlutun byggðakvóta á Ísafirði.  Hér verður ekki farið út í hvaða reglur gilda um úthlutun byggðakvóta, enda ekki á færi hæfustu manna að skilja það kerfi.  Eitt er þó ljóst að úthlutun miðar við byggðakjarna (t.d. Ísafjörð, Hnífsdal,Flateyri, Súðavík o.sf.) sem væntanlegur styrkþegi hefur landað afla sínum í, til vinnslu.

Það var sem köld vatnsgusa framan í margan Ísfirðinginn þegar kom í ljós að meginhluti útgerðamanna bæjarins ákvað að landa rækjuafla til vinnslu í Hólmavík.  1.000 tonna kvóti gerir um 250 milljóna veltu rækjuverksmiðjunnar Kampa, sem væri góð búbót fyrir atvinnulíf bæjarins.  Útsvarstekjur  bæjarins nema miljónum króna sem tapast og auk þess að tekjur Ísafjarðarhafnar gætu minnkað um á þriðju milljón á ári vegna ákvarðana þeirra um að nota ekki heimahöfn.  Allt er þetta gert vegna þess að viðkomandi útgerðarmenn fá ekki reglum um byggðakvóta sveigðar og beygðar fyrir sig.

Þetta er umhugsunarefni og ekki síst fyrir það að hér eiga í hlut stærstu atvinnurekendur bæjarins.  Þeir skirrast ekki við að taka ákvarðanir sem skaða nærsamfélag þeirra, sem ekki eru einu sinni byggðar á efanahagslegum forsendum!   Ljóst er að ef miðað væri við löndun á Ísafirði bar ekki mikið í milli aðila um verð, og því geta ákvarðanir ekki snúist um það.  Þessir útgerðarmenn beita samtakamætti sínum til tryggja þrönga hagsmuni á kostnað bæjarfélagsins.

Undirritaður er enn þeirra skoðunar að nota eigi markaðslegar forsendur við stjórnun fiskveiða á Íslandi.  Aðgerð þessara útgerðaraðila er hinsvegar til þess fallin að draga úr trúverðugleika talsmanna aflamarkskerfisins og er vatn á myllu þeirra sem vilja meiri opinber og pólitísk afskipti af rekstri útgerðar.  Ekki sé hægt að treysta gildismati rétthafa aflaheimilda og þeir beri ekki hag nærsamfélagsins sér fyrir brjósti. 


Grein í Fiskifréttum

 

Sjávarútvegur - undirstaða atvinnulífs

Guyamas SonoraUndirritaður dvaldi um árabil í Mexíkó þar sem hann starfaði við uppbyggingu á stóru sjávarútvegsfyrirtæki.  Á sama tíma gafst tækifæri til að kynnast starfsemi bandarískra fyrirtækja í bílaiðnaði og bera saman ólíka aðferðafræði við stjórnun og starfsmannahald.  Í fiskvinnslunni var starfsmannavelta um 70%, fólk var rekið áfram af verkstjóra sem stjórnaði því með harðri hendi við erfiðar og óþrifalegar aðstæður.  Starfsöryggi var ekkert og engin starfsþjálfun, enda gæðavandamál í framleiðslu viðvarandi.  Í bílaiðnaðinum var starfsmannavelta um 2%, enginn verkstjóri gekk um gólfin en fólkið fékk hinsvegar mikla starfsþjálfun sem dugði til að kenna þeim starfið til hlítar. 

Ánægðir starfsmenn borga sig

Það var augljóst að starfsfólki leið vel, var ánægt með starf sitt og skilaði því svo vel að gallatíðni var 0% í framleiðslunni.  Ýmsar þarfir voru uppfylltar; íþróttaaðstaða fyrir börn starfsmanna, hádegismatur framreiddur og reglulega boðið upp á skemmtanir og uppákomur með starfsmannafélaginu.  Það var ekki endilega af umhyggju sem Bandaríkjamenn komu betur fram við starfsmenn sína, heldur sú einfalda staðreynd að það borgaði sig.

Þó aðstæður hér á Íslandi séu betri en í Mexíkó þykir fiskvinnsla ekki aðlaðandi starfsgrein.  Um þriðjungur starfsmanna í fiskvinnslu á Íslandi eru af erlendu bergi brotinn, sem segir sína sögu um að Íslendingar vilja ekki vinna i þessari atvinnugrein.  Menntunarstig í greininni er lágt og ungt fólk sér ekki mikil tækifæri í sjávarútvegi.  Er þetta einhverskonar náttúrulögmál eða er hægt að breyta þessu?  Er ekki nauðsynlegt að laða að hæfileikaríkt og velmenntað fólk til starfa í undirstöðu atvinnugrein þjóðarinnar?  Getum  við lært af Bandaríkjamönnum á þessu sviði?

Á dögunum var haldin sjávarútvegsráðstefna þar sem kynntar voru stefnur og straumar í íslenskum sjávarútvegi; staða hans, tækifæri og ógnanir.  Meðal annarra var Helgi Anton Eiríksson forstjóri Iceland Seafood International með erindi undir heitinu  „Samkeppnisstaða íslenskra sjávarafurða - Er Ísland enn með forskot?" 

Íslenskur fiskur og þýskir bílar
bmwHelgi benti á árangur Þjóðverja í bílaiðnaði, en þrátt fyrir há laun í Þýskalandi hafa Þjóðverjar náð yfirburðastöðu á þessum markaði.  Neytendur eru einfaldlega tilbúnir að greiða hærra verð fyrir þýska bíla, sérstaklega ef þeir eru framleiddir í Þýskalandi.

Íslendingar eru stórveldi í sjávarútvegi og eru 17. umsvifamesta fiskveiðiþjóð heimsins með um 2% af framboði af villtum fiski sem skilaði okkur 220 milljarða tekjum 2010, tæpan helming af gjaldeyristekjum þjóðarinnar af vöruútflutningi.  Getum við náð árangri í sjávarútvegi eins og Þjóðverjar í bílaiðnaði?  Hvað þarf til að ná slíkum árangri sem myndi skila greininni miklum virðisauka og bæta verðmætasköpun þjóðarinnar?

Helgi telur að greinin þurfi að markaðasetja Ísland sem sjávarútvegsþjóð og fjárfesta í kynningu á íslenskum fiski.  Hann benti á að starfinu ljúki ekki eftir veiðar og frumvinnslu heldur þurfi að sinna markaðsmálum betur.  Nauðsynlegt sé að laða ungt vel menntað fólk í greinina ásamt því að bæta þjálfun og menntun starfsmanna.  Greinin þarf að ákveða hvert hún vill fara og hvernig á að komast þangað.

Eigum að vera bestir í heimi í fiski

Við þurfum gott starfsfólk í mikilvægustu atvinnugrein þjóðarinnar og nota þann slagkraft sem yfirburðastaða á markaði veitir okkur til að borga betri laun í fiskvinnslu.  Sem betur fer eru kjör sjómanna góð í dag en þörf er á hæfu starfsfólki fyrir alla virðiskeðjuna, allt frá veiðum til neytenda.  Íslendingar eiga að vera bestir í heimi þegar kemur að veiðum, vinnslu og markaðssetningu á fiski.  Hærri laun í fiskvinnslu dreifa betur fiskveiðiarði, styrkja nærsamfélagið og gera hugmyndir um auðlindaskatt óþarfar.

Grundvöllurinn til að feta þessa braut er að viðhalda öflugu markaðshagkerfi við fiskveiðastjórnun og fylgja ráðleggingum Hafró við nýtingu auðlindarinnar.  Að hægt sé að gera langtíma áætlanir og tengja saman veiðar og markaðsstarf.   Staðla gæðakröfur fyrir íslenskan fisk og styðja við menntun, rannsóknir og þróun á sviði sjávarútvegs.  En fyrst og fremst þarf að stöðva þau niðurrifsöfl sem nú ríða röftum í íslenskri pólitík og vilja draga íslenskan sjávarútveg aftur að mexíkóskum aðstæðum. 


Góðar fréttir fyrir Djúpmenn

Halldór SigurðssonÞað eru góðar fréttir fyrir Djúpmenn að búið sé að heimila veiðar á rækju í Ísafjarðardjúpi.  Heimildin mun skila verðmætum fyrir samfélögin hér með veiðum og vinnslu á rækju og styðja við atvinnulífið.

Til eru þeir aðilar sem berjast með hnúum og hnefum gegn rækjuveiðum og telja að betra sem heima setið en af stað farið.  Seiðadráp muni kosta meira en það sem rækja skilar.  En treysta verður Hafró að meta slíkt, enda þeirra mat byggt á vísindalegum grunni.  Þeir aðilar sem á móti berjast gætu þó komið með athugasemdir um aðferðafræðina þar sem hámark fjöldi seiða má vera um 1000 stykki á hvert tonn rækju.  Hafa verður í huga að aðeins lítill hluti þessara seiða nær að vaxa upp í fullvaxta fisk hvort eða er.  Ekki hafa heyrst nein slík rök gegn rækjuveiðum og því á ekkert að taka mark á andstöðunni.

Við fögnum því að sjá rækjubáta sigla á sjóinn og halda í djúpið til að sækja björg í bú fyrir Djúpmenn.


mbl.is Rækja veidd á ný í Ísafjarðardjúpi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grikkland

 

Greece_FlagÞað getur verið gaman að upplifa heimsviðburð sem lifir í sögu framtíðar.  Bloggari var staddur í Aþenu sumardag 1974 þegar herforingjasjóninni var kollvarpað og lýðræði var komið á fót í framhaldinu.  Það gekk mikið á og allar götur voru fullar af fólki sem gekk um og mótmæltu kúgurum sinum til áratuga.  Grikkland hafði reyndar verið „öruggt" land þar sem ekki þurfti að óttast rán eða annað ofbeldi á götum landsins.  Fyrir ungt fólk með takmörkuð fjárráð var ekki vandamál að sofa í almenningsgörðum  undir stjörnubjörtum himni suðurlanda.

Eitt atvik er þó eins og meitlað inn í huga bloggara þegar rætt var við flugvirkja frá Olympus Airways undir bjórglasi á kaffihúsi.  Hann var að lýsa ógnarstjórn fasista og hvíslaði orðunum út úr sér, dauðhræddur um að einhver væri að hlusta sem gæti sagt yfirvöldum frá.  Jú Grikkland var öruggt fyrir unga erlenda ferðamenn, en ekki fyrir íbúana sem bjuggu við sífellt eftirlit og kúgun stjórnvalda.

Lýðræðið hefur verið Grikkjum mikilvægt en Adam var ekki lengi í Paradís.  Við tók víðtæk pólitísk spilling sem sprungið hefur framan í þjóðina síðasta árið.  Eftir að hafa svindlað sér inn í evrusamstarfið með fölsun á hagtölum og skuldastöðu ríkisins, opnaðist þeim leið til að fjármagna allsherjar veislu sem nú verður að taka enda.  Timburmennirnir taka við og það er ekki glæsilegt um að lítast í grískum efnahagsmálum þessa dagana.

Síðan Grikkland varð lýðræðisríki 1974, hefur opinberum starfsmönnum fjölgað kerfisbundið.  Ný stjórnvöld hafa i gegnum tíðina ráðið sitt fólk í vinnu, án þess að nokkur þörf væri fyrir það í opinberri þjónustu.  Stjórnmálamenn hafa síðan verið ósínk á bónusa og launahækkanir ásamt því að semja um hagstæðar eftirlaunagreiðslur.  Ríkið útdeildi síðan gæðum eins og réttinum til að reka flutningabíla og lögfræðistofur sem síðan erfast til næstu kynslóða.  Gríðarleg sóun er í landinu og dæmi um að ríkisstofnun með ellefu starfsmenn borgi US$ 750.000 fyrir skrifstofuaðstöðu.  Stór hluti starfsmanna þingsins i Aþenu sér ekki ástæðu til að mæta til vinnu, enda ekki pláss fyrir þá í vinnunni hvort eða er. 

Skriffinnar í Grikklandi er fimmtungur alls vinnuafls í landinu, ekki sæist högg á vatni þó þriðjungi þeirra vær sagt upp.  Þetta rugl hefur verið byggt upp undanfarna áratugi.  Við hverjar kosningar eru ríkisstarfsmenn notaðir við kosningavinnu flokkana og fjöldi þeirra er ótrúlegur og má segja að einn leynist í hverri fjölskyldu.

Grísk stjórnvöld hafa talað er um að segja upp 30.000 ríkisstarfsmönnum, og verður það að teljast hógvært miðað við að það er aðeins um 4% af fjölda þeirra og hér er að mestu verið að tala um fólk sem komið er að starfslokum vegna aldurs hvort eða er.  Um 700 þúsund ríkisstarfsmenn eru í Grikklandi, auk 80 þúsunda í viðbót sem vinna fyrir ríkisfyrirtæki. Fjöldi þeirra hefur þrefaldast á þrjátíu árum.  Reyndar  vissu Grísk stjórnvöld ekki hver fjöldi ríkisstarfsmanna var fyrr en síðasta ár, en þá fór fram talning á þeim. 

Önnur hlið er á peningnum þar sem allir ríkisstarfsmenn eru æviráðnir og því ólöglegt að segja þeim upp.  Eitt aðalstarf þeirra er að skrá móttöku á skjölum og pappírum og raða þeim í möppur.  Engu líkara er en ekki sé búið að finna upp tölvu eða netpóst í Grikklandi.

Skattheimtumenn hafa verið á hægagangi undanfarið misseri, vegna hótana um uppsagnir og lækkun launa.  Skattar eru því illa innheimtir og lítið um eftirlit með skattheimtu.  Skilaboðin eru skýr frá hagsmunasamtökum þeirra; hægagangur mun halda á meðan hótun um uppsagnir vofa yfir skattheimtumönnum.  Reyni ríkið að „laga" til munu verða eftirköst; verja verður mannlega þáttinn, segja talsmennirnir. 

En verði af uppsögnum er ekki víst að rétta fólkinu verði sagt upp.  Dæmi er um að fólk með einstaka menntun og hæfileika missi vinnu hjá ríkinu meðan aðrir haldi því.  Dæmi eins og flugumferðarstjóri sem nýlega hafði aflað sér dýrmætrar þekkingar í Bandaríkjunum, þekkingu sem mikil þörf er fyrir í Grikklandi, var sagt upp, en á sama tíma voru 15 flugmenn í vinnu hjá flugumferðastjórn til að fljúga tveimur flugvélum.

Er einhver von til þess að Grikkir geti tekið til hjá sér og mætt skilyrðum Evrulanda til að veita þeim fjárhagsaðstoð?  Þrennt stendur þó upp úr í þessu öllu saman: 

  • 1. Grikkir mun verða fátækari en Þjóðverjar í framtíðinni. Engin evra getur breytt því.
  • 2. Lánadrottnar eiga skilið að fá skell fyrir vitlausar ákvarðanir með ofurtrú á pólitískar yfirlýsingar.
  • 3. Reiði Þjóðverja er skiljanleg, enda óréttlátt að þeir greiði fyrir ruglið í Grikklandi með skatttekjum sinum.

Byggt að hluta á á NYT


Áhrifamikið fólk

Það er ótrúlegt hvað þessi skötuhjú hafa mikinn kynngikraft.  Hversu oft eru þau búin að gefa út yfirlýsingar sem hækka hlutabréfaverð um allan heim?  Eftir hrun í kauphöllum i nokkra daga koma þau með yfirlýsingu, reynda alltaf þá sömu aftur og aftur, og viti menn bréfin hækka!

Stundum dettur manni helst í hug að fjárfestar séu alger fífl!  Að minnsta kosti ef litið er til virkni markaða.  Þessar yfirlýsingar skötuhjúanna breyta auðvitað engu um eðli málsins og leysa alls ekki vandan.  Grikkir eru áfram latir og spilltir og eru ekki tilbúnir til að taka til hjá sér.  Þeir trúa því að þetta leysist allt af sjálfu sér.  Kannski trúa þeir því að yfirlýsingar töfradúettsins dugi til að gera allt gott aftur. 

Vandinn er skuldsetning ríkja og að þjóðir vesturlanda hafa lifað um efni fram.  Eins og Íslendingar gerðu fyrir hrun, þá hafa Grikkir, og fleiri, tekið lán til neyslu.  Lán sem þeir geta aldrei greitt til baka og bankarnir sem hafa lánað eru í raun allir gjaldþrota.  Yfirlýsingar forystumanna Frakka og Þjóðverja breyta engu um þessa bláköldu staðreynd.


mbl.is Reiðubúin að samþykkja stækkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Minnir svolítið á Ísland

Nú ætla Úkraníumenn að feta sömu leið og stjórnvöld á Íslandi og draga fyrrverandi leiðtoga til saka fyrir pólitískar ákvarðanir stjórnvalda.  Sennilega eigum við ekki heima í ESB, enda gera menn þar lágmarkskröfur um réttarríkið.  Hér standa Íslenskir ráðamenn fremstir í flokki ofbeldisfólks og aðstoða við árás á Alþingi.  Síðan er gengið eins langt og mögulegt er að koma í veg fyrir að ofbeldisfólkið fari fyrir dóm.  Ég held að við sláum Úkraníubúum við.
mbl.is Úkraína í flokk einræðisríkja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frelsi einstaklingsins

Það er ömurlegt að sjá hvernig þrengt er að einstaklingsfrelsi vegna hryðjuverkaógnar.  Bloggari minnist þess þegar hann þvældist út á götu frá vinnustað sínum í Kampala og byrjaði að mynda boda-boda (smellitíkur sem notaðar eru sem leigubílar).  Tók ekki eftir því að handan götunnar var Bandaríska sendiráðið með aðstöðu, og nota bene; skilti út um allt að bannað væri að taka myndir.  Þetta kostaði fjóra tíma í varðhaldi undir eftirliti vopnaðs öryggisvarðar.

En það var í Afríku en að þetta geti gerst í verslunarmiðstöð í Skotlandi er önnur saga.  Bloggara skilst að það séu miklu meiri líkur á að vinna fyrsta vinning í Víkingalottói en að verða fyrir hryðjuverkaárás. 


mbl.is Mátti ekki taka myndir af dóttur sinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott mál og þarft en lengra þarf að ganga

Þetta er gott mál enda múffumálið okkur Íslendingum til vansa.  En hér ætti að taka skrefið til fulls og leyfa fólki að framleiða áfenga drykki heima hjá sér.  Hægt er að setja það skilyrði að framleiðslan verði ekki fénýtt.  Það er ekkert nema rómatík og skemmtilegt að framleiða sinn eigin drykk, hvort það er snaps, rauðvín eða öl.  Hver og einn ætti að hafa til þess frelsi, enda fari framleiðslan alls ekki í sölu.  Þetta er svona svolítið eins og að rækta kartöflur.
mbl.is Sala heimabaksturs verði lögleg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 18
  • Frá upphafi: 286679

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 12
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband