Grein í BB

Ráðstefna um sjávarútveg á Vestfjörðum

Hlutverk Matís

Matís er fyrirtæki sem vinnur að rannsóknum, þróun (R&Þ) og nýsköpun, aðallega í matvælavinnslu með mikla áherslu á sjávarútveg. Hlutverk fyrirtækisins er að efla samkeppnishæfni íslenskra afurða og atvinnulífs, bæta lýðheilsu og tryggja matvælaöryggi og sjálfbæra nýtingu umhverfisins. Hjá Matís starfa vísindamenn á mörgum sviðum og fyrirtækið rekur starfstöðvar um allt land og meðal annars í Ísafjarðarbæ og Vesturbyggð. Starfstöðvum má lýsa sem tengilið milli hugar og handar, þar sem atvinnulífi á Vestfjörðum býðst tenging við rannsóknarstofnun með mikla þekkingu og reynslu.Atvinnulíf Vestfjarða byggir á sjávarútvegi, sem skapar meira en helming tekna í fjórðungunum og allt að 75% með tengdum greinum.

Það er því gríðarlega mikilvægt að sjávarútvegur hér dafni og eitt af grundvallaratriðum varðandi tekjur framtíðar er að R&Þ og nýsköpun sé hluti af starfsemi fyrirtækjanna. Það er hagur almennings að hámarka verðmætasköpun í mikilvægustu atvinnugrein þjóðarinnar, sjávarútvegi. Vestfirðingar þjóna nú kröfuhörðum mörkuðum, s.s. ferskum flakastykkjum  og makríl, en þessar vörutegundir byggja báðar á rannsóknum og þróunarvinnu sem fyrirtæki hafa unnið í samstarfi við Matís.

Sjávarútvegur á Vestfjörðum

Þó flest snúist um sjávarútveg á Vestfjörðum koma starfsstöðvar Matís þar víðar að málum. Á suðurfjörðunum er mikil áhersla á fiskeldi og vinnur Matís með fyrirtækjum á því sviði. Á norðanverðum fjörðunum hefur fyrirtækið komið að R&Þ með fyrirtækjum eins og 3X Technology við að þróa búnað til að bæta gæði fisks, t.d. blóðgunar og kælitönkum.  Sú vinna hefur þegar skilað 3X Technology verkum fyrir stærri línubáta og togara, þar sem straumhvörf hafa orðið í meðferð á afla um borð. Nú er horft til smábátaflotans þar sem nokkuð verk er óunnið, enda gætu bátar verið betur búnir til að hámarka gæði og verðmæti afla. Með rannsóknum hefur verið sýnt fram á að rétt blóðgun og kæling hefur umtalsverð áhrif á gæði hráefnis, sem tengist gæðum þeirra afurða sem framleidd eru úr hráefninu. Illa blóðgaður fiskur hefur blóðroða í holdi, sem bæði skemmir útlit og bragð og kemur niður á geymsluþoli vöru. Ljóst er að þeir markaðir sem best borga, s.s. markaðir með kælda fiskbita, taka ekki við og myndu aldrei taka við því hráefni sem landað er illa blóðguðu og illa ísuðu.

Smábátaflotinn

Sérstök áhersla er einmitt á smábátaflotann hér á Vestfjörðum og mun Matís beita sér fyrir átaki til að bæta meðhöndlun um borð í smærri bátum. Nýleg úttekt MAST sýnir að 70% af strandveiðiflota ísar fisk nægjanlega til að kæla hann niður fyrir 4°C, sem eru miklar framfarir frá síðasta ári. En eftir stendur að 30% flotans er að koma með illa ísaðan lélegan afla að landi. Umfram viðmið í reglugerð, ætti metnaður sjómanna og útgerðarmanna að standa til þess að landa fiski við sem lægst hitastig, eins nálægt 0°C og kostur er, því við þær aðstæður geymast þau gæði sem fiskurinn býr yfir best.

Matís hefur unnið verkefni á sviði grásleppuveiða og vinnslu, sem er mikilvæg atvinnugrein hér á Vestfjörðum. Þar eru áskoranir sem fyrirtækið vill takast á við í samvinnu við Landssamband smábátaeiganda og aðra hagsmunaaðila í greininni.

 

Samvinna við AtVest

Matís hefur lagt sérstaka áherslu á samvinnu við Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða og hefur unnið að verkefnum studdum af Vaxtasamningi Vestfjarða. Í framhaldi af þeirri samvinnu mun Matís ásamt Sjávarútvegsklasa Vestfjarða, 3X Technology og Atvinnuvega og nýsköpunarráðuneytinu standa fyrir ráðstefnu um R&Þ ásamt gæða- og markaðsmálum. Ráðstefnan verður haldin hér á Ísafirði föstudaginn 6. september þar sem fjöldi manna úr sjávarútveg og tengdum greinum munu halda fyrirlestra. Hugmyndin er að vekja áhuga á nýsköpun með rannsóknar og þróunarstarfi í sjávarútvegi með áherslu á gæða- og markaðsmál. Við þurfum að horfa til framtíðar og velta fyrir okkur hvernig við getum þjónað kaupendum vestfirsks fisks sem best. Hverjar eru væntingar þeirra og hvernig getum við uppfyllt þær á sem bestan hátt. Það er grundvöllur fyrir verðmætasköpun í greininni og verður undirstaða lífskjara íbúa fjórðungsins.

Arnljótur Bjarki Bergsson

Gunnar Þórðarson


Verðmætasköpun í sjávarútveg

Velgengni íslensks sjávarútvegs

Í umræðu um sjávarútvegsmál er mikið rætt um að auðlindin sé eign þjóðarinnar, og reyndar tekið fram í lögum um fiskveiðistjórnun. Það er gott og vel, enda um grunnatvinnugrein Íslendinga að ræða og afkoma sjávarútvegs ræður miklu um efnahag og lífskjör þjóðarinnar. Það er því miður að umræða skuli ennþá vera í þeim farvegi  sem hún hefur haldist á undanfarna áratugi, og snýst ennþá  að miklu leyti um frasa og sleggjudóma um þá aðila sem starfa í greininni. Hluti þjóðarinnar sér ofsjónum yfir velgengni sjávarútvegs sem byggir á þeirri hagræðingu sem fiskveiðistjórnun hefur skilað síðan kvótakerfið var sett á 1984. Skipulag fiskveiða hafa gert Íslendinga fremsta í heiminum á sviði sjávarútvegs, með markaðsdrifna virðiskeðju og verðmætasköpun sem engin önnur atvinnugrein á Íslandi keppir við.

Framleiðni á Nýfundnalandi

Á Nýfundnalandi búa um tvöfalt fleiri íbúar en á Íslandi, og sjávarútvegur er þeirra undirstöðu- atvinnugrein. Sjávarútvegur þar skilaði um 90 milljörðum króna í útflutningsverðmæti árið 2012 og rúmlega 20.000 manns störfuðu við veiðar og vinnslu, svipaður fjöldi í hvoru um sig. Íslendingar fluttu út sjávarafurðir fyrir um 277 milljarða króna og í greininni störfuðu samtals um 9.000 manns. Ef þetta er borið saman þyrfti rúmlega 60.000 manns á Íslandi til að vinna þessi verðmæti miðað við sömu framleiðni. Reyndar hefðu þá fleiri vinnu við sjávarútveg, en allir Íslendingar væru umtalsvert fátækari. Staðreyndin er sú að íbúar Nýfundnalands fá helminginn af öllum rekstrarkostnaði samfélagsins sendan frá alríkisstjórninni í Ottawa, en Íslendingar hafa engan slíkan bakhjarl til að byggja á!

Markaðsdrifin virðiskeðja

Eitt af því sem mestu máli skiptir, fyrir utan fiskveiðistjórnun, er öflugt markaðstarf Íslendinga, sem byggir á gæðum; þar sem varan og afhendingaröryggi eru grundvallar atriði. Að afhenda vöruna eftir þörfum neytenda skapar auðlegð íslensks sjávarútvegs. Oft er talað um að íslenskur sjávarútvegur sé markaðsdrifinn en t.d. á Nýfundnalandi væri hann þá auðlindadrifinn. Margt bendir til þess að vestfirskur sjávarútvegur sé einmitt auðlindadrifinn og virðist standa höllum fæti miðað við meðaltal á Íslandi.

Gæðavandamál á norðanverðum Vestfjörðum

Um borð í Guðmundi EinarssyniGetur verið að hluti af því vandamáli endurspeglist í því mokfiskiríi sem dagróðrabátar hafa stundað á norðanverðum Vestfjörðum í sumar. Línubátar með þrjá menn á eru að róa með 48 bala og landa upp undir 20 tonnum á dag, stundum eftir að fara þurfti tvær ferðir af miðunum með aflann. Myndir hafa gengið á netinu af mokinu þar sem þessir menn eru að landa íslausum fiski í mjölpokum, og standa uppundir klof í fiskstabbanum. Þetta er hrollvekja sem minnir á gamlar myndir af netavertíð í Eyjum þar sem fiski var ekið á tún, enda stundaðar ólympískar veiðar og keppnin um tonnin í algeymi. Fjölmiðill eins og þetta góða blað (Fiskifréttir) talar um „Glæsilegt aflamet" hjá bátum, sem eru með meiri meðaltalsafla yfir mánuðinn en báturinn getur borið. Á þessu svæði róa menn með eitt ísker, um 400 kg af ís, til að kæla niður afla allt að 22 tonnum, og sjávarhiti er um 8-10°C. Fæstir þeirra eru með blóðgunarker um borð og því eru þeir að landa illa blóðguðum og ísuðum afla, sem er síðan slægður í dauðastirðnun.

 

 

Hugarfarsbreyting nauðsynleg

Það er langt síðan hugafarsbreyting varð um borð í togurum landsins þar sem keppst var við að landa sem flestum tonnum. Togarar í dag taka hæfilega stór höl, eru með mælitæki til að fylgjast með afla í veiðarfærum, og eru með fullkominn búnað til að blóðga og snöggkæla fiskinn þar sem gengið er frá honum í ker við fyrsta flokks aðstæður. Það ætti að vera okkar átaksverkefni, eiganda auðlindarinnar, að bæta hér úr og stöðva illa meðferð á afla. Mikilvægt er að fjölmiðlar taki þátt í þeirri hugarfarsbreytingu sem þarf til að stöðva illa meðferð á auðlindinni, sameign þjóðarinnar.


Grein í BB

Skipulag veiða og vinnslu

Stjórn fiskveiða er mikið ágreiningsmál í Íslensku samfélagi
og verður það líklega í framtíðinni, enda verið að útdeila takmörkuðum gæðum úr
endurnýtanlegum stofnum. Hægt er að auka tekjur umtalsvert til skamms tíma en
þá á kostnað langtímahagsmuna. Ef gengið er of nærri fiskistofni í dag mun það
koma í bakið á greininni í framtíðinni. Augljóst dæmi um þetta er með ýsuveiðar
þar sem of mikið var tekið úr stofninum upp úr miðjum síðasta áratug, smáýsu úr
2004 árgangi mokað upp, og aflinn fluttur á erlenda markaði með haus og hala
fyrir lægra verð. Í dag veldur lélegur stofn miklum vandræðum og nær hefði
verið að jafna kúrfuna út og dreifa veiðinni meira.

Ólympískar veiðar

Eitt af stórum mistökum síðustu ríkisstjórnar var að gefa
rækjuveiðar frjálsar. Ólympískar veiðar á rækju valda miklum skaða þar sem
offjárfesting og skipulagsleysi einkennir ástandið. Offjárfesting þar sem allt
of stór floti sækir í lítinn stofn og útgerðin stendur ekki undir sér. Í staðinn
fyrir að skipuleggja veiðar við þarfir vinnslunnar til að hámarka
verðmætasköpun, standa menn frammi fyrir því í dag að stöðva þær löngu áður en
fiskveiðatímabili lýkur, enda ráðlagður kvóti upp veiddur. Endalaust er hægt að
efast um ráðgjöf Hafró og okkar bestu vísindamanna um stofnstærð, en málið
snýst ekki bara um það. Allir vita að aukin sókn leiðir til minni veiði á
sóknareiningu og kemur því niður á framleiðni veiðanna. Það síðasta sem
Íslendingar þurfa í dag er að draga úr verðmætasköpun í sjávarútveg.

Rækjan mikilvæg

Fyrir íbúa á norðanverðum Vestfjörðum skiptir rækjuvinnsla
miklu máli. Fyrirtæki eins og Kampi, sem skilað hefur góðri afkomu heldur uppi
mikilli atvinnu á svæðinu, er algerlega háð framboði af hráefni af
Íslandsmiðum. Fyrir stjórnendur fyrirtækisins er það lykilatriði að hafa
stöðugleika í greininni og þegar þeir fjárfesta í skipum til hráefnisöflunar.
Enginn getur staðið undir því að fjárfesta í skipakosti sem binda þarf við
bryggju mánuðum saman og skilja verksmiðjuna eftir hráefnislausa.

Hagsmunir Vestfjarða

Fyrir okkur Vestfirðinga sem lifum á sjávarútvegi, en hann
er 52% af hagkerfi fjórðungsins, skiptir það öllu máli að þessari atvinnugrein
sé tryggður stöðugleiki til framtíðar. Að hægt sé að treysta yfirvöldum og þau
láti hagsmuni sjávarþorpa ganga fyrir rómatískri sýn um frjálsar veiðar úr
takmörkuðum stofnum. Skipulag veiða og vinnslu er einn af lykilþáttum til að
halda upp verðmætasköpun í íslenskum sjávarútvegi.

Gunnar Þórðarson

Rekstrarfræðingur


Forustygrein í Vesturlandi - Sjómannablað

Framleiðni í íslenskum sjávarútveg

Í nýlegri skýrslu Mckinsey & Company  um íslenskt atvinnulíf kemur fram að
framleiðni er 20% minni hér en í nágrannalöndum.  Íslendingar hafa haldið uppi lífskjörum með
mikilli vinnu og lántökum til að vega upp á móti lélegri framleiðni, sem er
svipuð og í Grikklandi. Undirritaður er hálfdrættingur í kaupmætti við kollega
sína á hinum norðurlöndunum, og engin von að bæta þar um nema með aukinni
framleiðni á Íslandi. Ekki bara í atvinnulífinu, heldur hjá hinu opinbera, eins
og skýrt kemur fram í skýrslu Mckinsey.

Svíum hefur tekist vel upp í efnahagsmálum og óháð
flokkspólitík hafa menn tekið sig saman um frá árinu 2001 að vera sammála um
meginþætti, eins og framleiðni og verðmætasköpun sem meðal annars byggir á
stöðugleika. Fjáraukalög eru óþekkt fyrirbrigði, enda venja að fylgja fjárlögum
þar í landi. Verkalýðsfélög í Svíþjóð hafa áttað sig á að atvinnurekendur eru
ekki óvinir heldur er samvinna nauðsynleg til að bæta samkeppnishæfni fyrirtækja.
Hjá Scania vinna verkalýðsfélögin með eigendum að sameiginlegum hagsmunum til
langs tíma, og báðir aðilar uppskera svo ríflega þegar vel gengur og fyrirtækið
blómstrar. Verkalýðsfélög í Svíþjóð starfa 
því með öðrum hætti en áður áður var og hafa skilgreint hlutverk sitt
upp á nýtt.

Í skýrslu Mckinsey kemur fram að á Íslandi skili sjávarútvegur  þó góðri framleiðni. Hlutaskiptakerfi og
dugandi sjómenn eiga örugglega sinn þátt í því sem er grundvöllur fyrir góðum
launum. Íslendingar verða að gera vel við sína sjómenn til að laða að hæfa
einstaklinga til starfa í grundvallar atvinnugrein þjóðarinnar. Bæta þarf
hinsvegar kjör fiskvinnslufólks í landi og rétt að benda á að hærri laun til þeirra
dregur ekki úr framleiðni, en eru kjörin leið til að dreifa fiskveiðiarði út til
samfélagsins.

Það eru tækifæri til að bæta framleiðni enn frekar í íslenskum
sjávarútvegi og þar með verðmætasköpun. Ýmsir hvatar eru í kerfinu sem draga úr
framleiðni og gæðum landaðs afla. Útgerðarmenn, sjómenn og fiskvinnslufólk ættu
að taka höndum saman um að bæta þar úr. Með samtakamætti að byggja upp
eftirsótta starfsgrein sem skilar mikilli arðsemi til framtíðar. Ef til vill
væri rétt að kalla sjómannadaginn „sjávarútvegsdaginn" sem vörðu um slíkt
samstarf. Sjávarútvegur er 52% af hagkerfi Vestfirðinga og því skiptir afkoma
hans öllu máli fyrir íbúana. Vestfirskir sjómenn; takk fyrir okkur og til
hamingju með daginn.


Ný nálgun í fiskveiðistjórnun


Það er hægt að setja sig í spor ráðstjórnarmanna, sem trúa á
skipulag ríkisvaldsins til að stjórna og skipuleggja atvinnulífið, og af
hugsjónum styðji þá aðför sem núverandi stjórnvöld hafa farið gegn
sjávarútveginum. Það er hinsvegar óskiljanlegt að jafnaðarmenn skuli fylgja
slíkri stefnu af þeirri einurð og harðskreytni sem raunin er. Ef hlustað er á
málflutning skoðanabræðra þeirra á hinum norðurlöndunum kemur fljótlega í ljós
að þeir tala um öflugt atvinnulíf, til að standa undir velferð í samfélaginu. Það
er umhugsunarefni hvers vegna upplýst fólk er tilbúið að ganga gegn öllu því
sem virðist vera skynsamlegt og þvert gegn nánast öllum ráðum sérfræðinga. Vera
tilbúið að gera breytingar sem munu stór skaða íslenskt samfélag þar sem
grundvellelli arðsemi sjávarútvegs er kastað fyrir róða. Engu er líkara en
rótgróið hatur á einn stétt manna, útgerðarmönnum, ráði þar mestu um og
tilgangurinn helgi meðalið með því að koma þeim á kné.

En í þessum málum er mikilvægt að aðskilja þrönga hagsmuni
útgerðar og almennings. Við stjórnun fiskveiða verðum við að hafa
heildarhagsmuni í huga þar sem arðsemi sjávarútvegs er hámarkaður og síðan er
eðlilegt að skoða hvernig þeim arði er dreift. Þetta var helsta niðurstaða
sáttanefndar á sínum tíma en því er víðsfjarri að þær breytingar sem núverandi
ríkisstjórn hefur gert, eða hyggst gera, falli að þeirri stefnu. Íslendingar
verður að beita skynsemi í þessum málum og stjórnmálamenn að setja skýr markmið
sem hámarkar hag þjóðarinnar.

En hvað er til ráða og hvernig verður hægt að koma á sátt í
þessum málum til langs tíma, en sú óvissa sem ríkt hefur um árabil er mjög
skaðleg greininni og samkeppnishæfni íslensks sjávarútvegs. Það er ljóst að
leiðin til fyrra horfs er ófær þar sem engin sátt yrði um slíkt. En hvernig
getum við þá leyst þessa alvarlegust pólitísku deilu Íslandssögunnar?

Við skulum byrja á því að að setja okkur megin markmið;
hámarka arðsemi greinarinnar, styrkja byggð í landinu og tryggja eðlilega
dreifingu fiskveiðiarðs. Til að stjórna sókn í takmarkaða auðlind þurfum við að
nota aflamarkskerfið. Til að tryggja hagkvæmni og arðsemi þarf að leyfa framsal
aflaheimilda og tryggja þannig að þeir sem best standa sig haldi á fjöreggi
þjóðarinnar. Eitt helsta vandamálið felst í því að sjávarbyggðir missi sinn
veiðirétt, sem tilvist íbúanna byggir á. Því ættum við að taka alla potta í
núverandi kerfi, byggðakvóta, strandveiðar, línuívilnun og rækjubætur, og setja
í staðin umsamið hlutfalla í einn byggðapott. Þessi pottur rynni til áður
skilgreindra atvinnusvæða, ekki bæjarfélaga, þar sem byggð hefur sannarlega
dregist saman undanfarna áratugi og veiðiheimildir horfið í burtu.  Kvótanum væri úthlutað til langs tíma, með
sölu eða leigu, til hæstbjóðenda með því skilyrði að aflinn væri unnin á þessum
atvinnusvæðum (Hugmynd Þórodds Bjarnarsonar). Þetta væri raunhæf byggðaaðgerð
en núverandi fyrirkomulag virkar ekki. Til að byggðaaðgerð eins og þessi virki
þarf hún að vera fyrirsjáanlegt og til langs tíma. Þessi aðgerð gæti hjálpað
þeim byggðum sem hafa orðið undir við hagræðingu í sjávarútveg og myndi í
leiðinn bæta framleiðni í greininni, en núverandi pottafyrirkomulag dregur
stórkostlega úr arðsemi sjávarútvegs.

Að síðustu setjum við hófsamt og eðlilegt auðlindagjald til
að dreifa auðlindarentu. Slíkt má ekki draga úr framleiðni til langs tíma né
skaða samkeppnishæfni íslensks sjávarútvegs. Allir verða að greiða það gjald,
óháð því hvort báturinn sé lítill, hvor útgerðarmaður er atvinnumaður eða bara
múrari.

Megin markmið sjávarútvegsstefnunnar á að vera
hámörkun arðsemi til langs tíma, styrking sjávarbyggða og auðlindarentan skili
sér til þjóðarinnar. Huga þarf að framleiðni sjávarútvegs þannig að hann skili
sem bestri arðsemi. Ein af forsendum þess er stöðugleiki en núverandi
ríkisstjórn hefur markvisst gengið gegn því og aukið óvissu í greininni. Ein af
afleiðingum þess er meðal annars lítil fjárfesting í sem skaðar samkeppnisstöðu
íslensks sjávarútvegs til langs tíma. Samkeppnisyfirburðir Íslands liggja
einmitt í stöðugu framboði afurða á markaði, sem aflamarkskerfið er forsenda
fyrir.

Ekki má ætla sjávarútveg að standa einum undir byggðastefnu
á Íslandi. Í núverandi byggðapottum er veiðiheimildum útdeilt á
handahófskenndan hátt með pólitískum hætti til skamms tíma í senn. Mikilvægasta
byggðaaðgerð fyrir þessar byggðir er traustur sjávarútvegur og lágmörkun á
óvissu. Úthluta þarf byggðakvótum til langs tíma á samkeppnisgrunni á fyrirfram
skilgreind svæði sem hafa staðið og standa höllum fæti.

Vel rekinn sjávarútvegur sem rekin er á
samkeppnisgrunni getur greitt hóflegt auðlindagjald. Slík gjaldheimta má
hinsvegar aldrei koma í veg fyrir að fyrirtæki geti fjárfest og greitt
starfsmönnum sínum sanngjörn laun og tekið þátt í þróun og nýsköpun. Slíkt
ógnar stöðu íslensks sjávarútvegs og dregur verulega úr samkeppnisstöðu
gagnvart keppinautum í öðrum löndum. Núverandi veiðigjöld eru
landsbyggðaskattur sem ógnar tilveru og afkomu íbúa sjávarbyggða. Mikilvægt er
að auðlindagjald af sjávarútveg fari að hluta til rannsóknar og þróunarstarfs
ásamt markaðssetningu sjávarafurða. Slíkt er grunnur að góðri afkomu
sjávarbyggða í framtíðinni, til að laða að ungt og vel menntað fólk sem sér
framtíð sína í íslenskum sjávarútveg. Sjálfstæðisflokkurinn vill samstarf við
forystumenn sjávarútvegs, launþegahreyfinga og ríkisvalds til að bæta menntun
og laun starfsmanna í mikilvægustu atvinnugrein landsmanna.



 


Sátt í sjávarúveg - Fiskifréttir

Sátt í sjávarútvegi

Í grein sem Friðrik J. Argrímsson skrifar í Fiskifréttir 28.
feb.  kemur fram að hann telji einsýnt að
engin sátt náist um stefnu núverandi ríkisstjórnar í sjávarútvegsmálum. Það er
rétt mat enda í stefnu vinstri manna að draga úr markaðsskipulagi með áherslu á
ráðstjórn, sem mun færa okkur aftur um áratugi í efnahagslegu tilliti. En hin
hliðin á peningnum er að það kemur heldur ekki til að verða sátt um kerfið eins
og það var. Komist stjórnarandstaðan til valda og breyti til fyrra horfs, verður
mikilvægustu atvinnugrein Íslendinga áfram haldið í heljargreipum óvissu.

Málið er að stjórnarandstaðan hefur enga lausn á óvissu í
sjávarútvegi og því síður LÍÚ. Þegar kemur að lausnum til framtíðar festast
útvegsmenn í persónulegum hagsmunum og komast hvorki lönd né strönd með málið
og stjórnmálamenn þora ekki að taka slaginn.

Hvert á að stefna?

Það er nauðsynlegt að lyfta sér upp úr dægurþrasinu þegar
sjávarútvegsmál eru rædd og finna lausn sem tekur tillit til þjóðarhags til
framtíðar. Að sameinast um stefnu sem tryggir verðmætasköpun í greininni og viðheldur
samkeppnisyfirburði íslensks sjávarútvegs. Sjávarútvegurinn á ekki  einn að standa undir byggðarstefnu á
Íslandi.  Gera þarf kröfu um að
byggðakvótar valdi sem minnstri sóun og séu raunveruleg stoð fyrir byggðir sem
hafa farið halloka undanfarna áratugi og byggja tilveru sína á sjávarútvegi.

Við þurfum að byggja á aflamarkskerfi með úthlutun á
framseljanlegum kvóta til langs tíma. Öðru vísi getum við ekki stjórnað veiðum
á hagkvæman hátt. Um allan heim eru þjóðir að taka upp slíkt kerfi til að
tryggja arðsemi og sjálfbæra nýtingu auðlinda.

Sjávarútvegsstefna og sjávarbyggðir

Það þarf að endurskoða byggða-potta frá grunni og leggja
niður núverandi kerfi sem veldur sóun og dugar ekki sjávarbyggðum sem bjargræði.
Setja þarf upp einn pott sem úthlutað er úr til langs tíma á  atvinnusvæði sem hafa átt undir högg að sækja
þar sem íbúaþróun hefur verið mjög neikvæð. Þessum pottum þarf að úthluta á
markaðslegum forsendum með skilyrði fyrir vinnslu á þessum atvinnusvæðum, til
langs tíma (hugmyndir Þórólfs Bjarnasonar).

Semja þarf um skynsamlegt nýtingargjald fyrir auðlindina, engin  sátt virðist vera um annað í þjóðfélaginu. Ef
greinin býr við svo kallaða auðlindarentu, sem er mjög jákvætt, þá þarf að
skoða hvernig henni verður ráðstafað til samfélagsins. Vænlegasta leiðin væri
að hækka laun í fiskvinnslu í framtíðinni, sem væri besta mögulega byggðaaðgerð
fyrir sjávarþorpin. Ef skattheimta er notuð þarf að byggja á almennum reglum um
auðlindagjald, fyrir allar auðlindir sem þjóðin nýtir, ekki bara fyrir
sjávarútveginn.

Sátt í sjávarútveg

Því miður er enginn hljómgrunnur fyrir þessum hugmyndum hjá
útgerðarmönnum. Einhvern veginn virðist þeim ómögulegt að horfa á málið frá
þessum sjónarhóli. Líklegt er að sjálfstæðismenn gætu náð sátt við jafnaðarmenn
um slíka sátt. Ráðstjórnarmenn munu áfram berjast fyrir ríkisskipulagi, enda
ekki er við öðru að búast.

Til að ná sátt, þar sem skynsemi yfirtekur tilfinningar að
mestu, þá liggja fyrir  greiningar og
gögn sem er afrakstur mikillar vinnu okkar helstu sérfræðinga undanfarin ár sem
mætti byggja ákvarðanir á. Halda þarf hópum sem stjórnast af þröngum
eiginhagsmunum frá ákvörðun, þó rétt sé að hafa þá með við undirbúning. Við
þurfum að tryggja markaðsbúskap við mikilvægustu atvinnugrein Íslendinga og
hámarka virkni byggðaaðgerða og lágmarka kostnað við þær. Við þurfum að tryggja
að sjávarbyggðir njóti góðs af velgengi í sjávarútvegi. Um það ætti meirihluti
landsmanna að geta sameinast um.

Gunnar Þórðarson



Höfundur er MSc í alþjóðlegum
viðskiptum


Fiskifréttir 23. maí


Vestfirðingar hafa marga fjöruna sopið í gegnum tíðina og
þurft að takast á við forsendubrest án verðtrygginar þar sem verðmæti fasteigna
hefur hrunið. Með veðurbitin andlit og saltbragð á tungu höfum við þurft að
horfa fram á veginn og vonast eftir betri tíð.

Barátta vestfirskra þingmanna

Mér var verulega misboðið  þegar ég las grein eftir FYRRVERANDI
alþingismann sem ver óhóflega gjaldtöku af sjávarþorpum í formi auðlindarentu.
Þrátt fyrir álit fjölda  sérfræðinga sem
varað hafa við aðgerðum og tilraunum fyrrverandi ríkisstjórnar í
sjávarútvegsmálum hefur téður þingmaður í engu hlustað á hlutlæg rök þeirra og
látið stjórnast af heift og hatri út í stjórnendur einnar atvinnugreinar,
sjávarútvegsins. Í félagi við þingmann VG hefur allt verið gert til að ganga
gegn hagsmunum sjávarþorpa og hafa þær stöllur haldið því fram að eðlilegt sé
að sérstakur skattur sé settur á sjávarútveg til að fjármagna m.a. vegagerð,
jarðgangnagerð, barnabætur og „skapandi" greinar.  Sérstakt gjald sem sýnt hefur verið fram á að
muni verða um 3 miljarðar króna (ma/kr)  á ári á Vestfjörðum einum, skulu teknir til að
létta undir með þjóðinni sem heild.

Hagkerfi Vestfjarða

Til að setja þetta í samhengi er rétt að benda á nokkrar
hagstærðir. Á Vestfjörðum voru tekjur atvinnulífsins um 43 ma/kr árið 2009. Um
52% af því kom frá sjávarútvegi, 22 ma/kr, og um 75% ef taldar eru með tengdar
greinar. Heildar launagreiðslur sjávarútvegs á Vestfjörðum voru um 41% af
tekjum með ebitda  um 1.2 ma/kr, en
sjávarútvegur skilaði um 2.6 ma/kr ebitda þetta ár.  Afkoma sjávarútvegsins var -4.6 ma/kr en
heildarafkoma Vestfjarða var -10 ma/kr árið 2009. Hver einasti maður sem skoðar
þessar tölur getur séð að 3 ma/kr aukaskattur á Vestfirskan sjávarútveg mun
ekki bara ríða honum að fullu, heldur Vestfjörðum öllum. (Shiran Þórisson,
AtVest, 2012)

Staða Vestfjarða

Líta þarf til þess að Vestfirsk útgerð, sem eingöngu stundar
botnfiskveiðar og vinnslu, byggir á 40 ára gömlum skipum og vinnslum sem eru
langt að baki því besta sem gerist. Menntunarstig er lágt í greininni og
rannsókn og þróun ábótavant. Það þarf að lyfta grettistaki til að koma
Vestfirskum sjávarútveg í þá stöðu að hann geti staðið undir góðum lífskjörum á
Vestfjörðum. Engin önnur leið er fær í þeim efnum. Beinar siglingar á markaði
gefa okkur von um sóknarfæri en meira þarf til svo Vestfirðingar geti staðið keikir
í samkeppni við aðra landshluta. Hækka þarf laun í fiskvinnslu og laða að ungt
menntað fólk í greinina. Til þess þarf hún að standa styrkum fótum og vera sú
undirstaða sem íbúar þurfa á að halda í framtíðinni.

Réttlæting auðlindagjalds

Á sama tíma og tveir þingmenn kjördæmisins börðust fyrir því
að koma þessum landsbyggðaskatti á, með réttlætið að vopni, voru þær tilbúnar
að bregða fæti fyrir frumvarp sem miðaði að því að jafna húshitunarkostnað á Íslandi.
Er ekki eðlilegt að líta sömu augum á orkuauðlindir og fiskveiðiauðlind? Jöfnun
húshitunarkostnaðar milli heitra og kaldra svæða áttu að kosta 10 aura á hverja
selda kílówattstund á Íslandi, en hefði gríðarleg áhrif á íbúaþróun Vestfjarða
þar sem húshitunarkostnaður er sá hæsti á landinu.

Vestfirðingar þurfa öflugan og vel rekinn sjávarútveg sem
borgar betri laun við framleiðslu en hingað til. Efla þarf menntun og mannauð í
sjávarútvegi, auka markaðshugsun og bæta rannsóknar og þróunarstarf ásamt
nýsköpun. Þá mun sjávarútvegurinn verða sá grunnur sem Vestfirðingar þurfa á að
halda til að hægt verði að  snúa vörn í
sókn og skapa hér eftirsóknarvert umhverfi til að búa í. Ef rétt er að málum staðið.


Grein Kristínar Hálfdáns í BB

Súðavíkurgöng tímabær.

Vegasamgöngur eru grundvallaratriði fyrir verðmætasköpun og
þar með afkomu íbúa. Vestfirðir eru þar engin undantekning og þó hluti af
flutningi færist á sjó, verða vegasamgöngur okkur mikilvægar. Þrátt fyrir
grettistak sem lyft hefur verið í vegasamgöngum er enn mikið ógert, þó ástandið
sé verst á sunnanverðum Vestfjörðum, er ástandið heldur ekki ásættanlegt á
norðursvæðinu.

Sjóflutningar

Þó stór hluti þungaflutninga færist á sjó með beinum
siglingum á markaði erlendis verður alltaf þörf fyrir flutninga á dagvöru til
Vestfjarða. Við lítum á það sem sjálfsagðan hlut að hafa daglegar ferðir milli
Reykjavíkur og Ísafjarðar, vara sem pöntuð í eftirmiðdaginn er komin morguninn
eftir, sem dregur úr þörf fyrir lagerhald og eykur verðmætasköpun og lífsgæði á
svæðinu Dagvara  fyrir verslanir verður
einnig að berast vestur á hverjum degi. Sé þessi vara flutt í hálftómum bílum
eða bílum sem aka á loftlitlum dekkjum vegna þungatakmarkana, eða komist yfir
höfðuð ekki, eru það neytendur á svæðinu sem greiða kostnaðinn og taka þeim
óþægindum sem lélegri þjónusta skapar. Því þurfum við góðar  vegasamgöngur og ekki síst öruggar.

Versti, og jafnframt hættulegasti, kafli vegarins til
Reykjavíkur liggur um Súðavíkurhlíð, og er sá hluti leiðarinnar sem fyrst
lokast í ófærð vegna snjóflóðahættu. 
Undanfarin 30 ár hefur lítið verið gert fyrir veginn og er langt frá því
að standast þær kröfur sem gerðar eru í dag. Vegurinn er byggður á klöpp þar
sem vatn á erfitt með að komast frá þegar snögglega hlánar of frost fer úr
honum. Það var einmitt það sem gerðist í lok febrúar og stöðva varð alla
flutninga tímabundið til og frá norðanverðum Vestfjörðum.

Samkeppnisstaða Vestfjarða

Eitt af grundvallaratriðum þegar kemur að samkeppnisstöðu
svæðisins er að framleiðslufyrirtækin geti brugðist við skyndilegum breytingum.
Færist veiði til tímabundið frá Vestfjörðum, eða forðast þarf of mikla ýsu- eða
steinbítsveiði á heimamiðum, getur útgerðarmenn sent báta sína til veiða t.d á
Snæfellsnes og  þarf þá góðar
vegasamgöngur til að flytja fiskinn heim til vinnslu. Mikil aukning hefur orðið
á löndunum á afla á Ísafirði sem útgerð/vinnsla ekur síðan til vinnslu
annarsstaðar. Slíkt eykur hagkvæmni, enda ekki skynsamlegt að nota veiðiskip
sem flutningatæki. Góðar vegasamgöngur eru því þjóðhagslega hagkvæmar og auka
framleiðni í hagkerfinu, sem gefur möguleika á að bæta lífskjör í samfélaginu.
Ekki þarf annað en líta til Bolungarvíkur til að sjá hvað bættar samgöngur geta
gert fyrir byggðalag og þjóðina sem heild, enda mjög hagkvæmt að gera þaðan út.

En það er ekki bara hagkvæmt að bæta veg um Súðavíkurhlíð,
heldur er um mikið öryggismál að ræða. Vegurinn er einn sá hættulegasti á
Íslandi, og samkvæmt skýrslu sem Vegagerðin gaf út 2002, er vegurinn hættulegri
en gamla Óshlíðin var. Við þekkjum það frá gamla Óshlíðaveginum að þó plástrað
sé á vandamálin með vegskálum, netum og stálþiljum þá bætir það ástandið en
dugar alls ekki sem lausn. Hundruðum milljóna var fleygt í Óshlíðaveg áður en
viðurkenning fékkst á því að eina lausnin væru jarðgöng til að tryggja
samgöngur.

Vegskálar/varnir

Við stöndum nú í sömu sporum hvað Súðavíkurhlíð varðar. Þó
vegskálar verði byggðir á verstu stöðunum, verður hlíðinni áfram lokað ef
snjóflóðahætta skapast. Vegurinn um hlíðina er ónýtur og meiriháttar verk að
endurbyggja hann, ef fylgja á nútíma 
stöðlum í þeirri framkvæmd. Það dugar ekkert minna en jarðgöng til að
leysa málið og við bíðum ekki í tuttugu ár eftir þeirri lausn. Þessi jarðgöng
eru hagkvæmur kostur þar sem við leysum kostnaðarsama annmarka núverandi vegar,
ásamt því að bæta öryggi og stytta leiðina suður umtalsvert.

Á svona stundum verðum við að forgangsraða þar sem við getum
ekki gert allt sem okkur hugnast. Við þurfum fyrst og fremst að tryggja
vegasamgöngur við höfuðborgarsvæðið til að treysta aðdrætti og koma framleiðslu
okkar á markað. Við þurfum ekki síður að tryggja vegasamgöngur fyrir fólk til
að ferðast til og frá norðanverðum Vestjörðum án óþarfa áhættu.

Kristín Hálfdánsdóttir


ESB og Sjálfstæðisflokkurinn

Það er mikið yfirlæti í þingmanninum og ráðherranaum fyrrverandi. Þó það sé rétt að landsfundur hafi samþykkt ályktun þýðir það ekki að menn geti efast um hvernig tilurðin var og hvað lá að baki. Málið er að Tómas og félagar hans hafa einbeitt sér í þessum máli, að vera á móti öllum viðræðum og umræðum um ESB, meðan fjöldin lætur sig önnur mál varða, svona smámál eins og atvinnumá, efnahagsmál, peningamál o.fr.

Málið er að eftir setningaræðu formanns var ljóst hvert stefndi. Hann hafði kiknað í hnjáliðunum fyrir þessum einharða hópi og gaf þeim byr undir báða vængi. Eftir það var auðveldara fyrir fámennan hóp sem sinnti aðeins einu máli, að koma sínum áherslum í gegn. Þetta er lýðræðislegt en mjög slæmt fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

Ég rekst endalaust á fólk sem ekki ætlar að kjósa flokkinn, ekki vegna þess að þeir vilji endilega ganga í ESB, heldur vegna þess að fámennur öfgahópur hefur komið því þannig fyrir að umræða um málið er útilokuð, og einn möguleiki til að bæta lífskjör á Íslandi hefur verið sópað út af borðinu. Ítrekað ráðast þessi menn á þá sem vilja ræða málin og hefur undirritaður oft orðið fyrir því að vera kallaður krati og samfylkingarmaður og eðlilegast væri að ég hypjaði mig úr Sjálfstæðisflokknum.

Bjarni Ben dró átakalínu á ögurstundu í starfi Sjálfstæðisflokksins. Því miður hrynur af honum fylgið núna en upphafsræða hans á Landsfundi átti að snúast um sátt og samheldni, enda aldrei verið meiri þörf en nú. Hver sá sem ræðir við ungt fólk í dag mun sniðganga flokk sem kastar umræðu um betri lífkjör í framtíðinni fyrir borð. Allt fyrir fámennan hóp sem aldrei tekur þátt í málefnalegri umræðu ummálið og rétt að benda á ótrúlegan áróður Mbl í Staksteinum, forystugreinum og Reykjavíkurbréfi. Það er engin vafi á því hvaðan þessi barátta er sprottin.

Sjálfur veit ég ekki hvað ég myndi kjósa í dag ef umsókn færi í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég yrði fyrst að sjá hvernig hægt er að semja um sjávarútvegsmál. En ég verð að segja að aldrei finn ég neinn sem vill ræða þessi mál frá hendi nei manna, að Illuga Gunnarsyni frátöldum.

Ég hef gaman að lesa greinar T.I.O. enda skemmtilega skrifaðar og sögulega uppfræðandi. En ég hef enga trú á að Napoleon sé að íhuga innlimun Íslands. Né að Þjóðverjar séu skipulega að leggja undir sig Evrópu.


mbl.is Lítum fram á veginn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ný frjálshygga

 Lýðskrumið

Mikið hefur verið rætt um Ný frjálshyggju og hvernig hún
hafi valdið núverandi kreppu sem skekur hinn vestræna heim. Engin hefur getað
skilgreint hugtakið, en engin þörf er á því þar sem upphrópanir og slagorð eru
allsráðandi í pólitískum átökum dagsins. Brussel veldið, sægreifi,
nýfrjálshygga o.sfr. En skoðum þetta aðeins nánar og veltum fyrir okkur hvað
það var sem sett hefur vestræn hagkerfi á hliðina.

Það er talið að þrennt skipti þar mestu máli:

Þáttur Greenspan

Í fyrsta lagi var það röng stefna seðlabanka Bandríkjanna um
að halda vöxtum niðri á þenslutímum. Þáverandi seðlabankastjóri, Greespan,
hefur viðurkennt mistök sem hafi kostað að peningaflóðið flæddi yfir alla bakka,
þar sem öllum var lánað til alls, og áhættan var tekin úr sambandi. Kannast
einhver við þetta á Íslandi? En þetta hefur ekkert með frjálshyggju eða
kapítalisma að gera; heldur var þetta ákvörðun embættismanna í samstarfi við
pólitíkusa. Svona meiri sósíalimsmi.

Þáttur Clintons

Í öðru lagi ákvað Clinton að öllum skyldi gert kleift að
kaupa eigið húsnæði í BNA. Undirmálslánin urðu til, enda gátu bankar lánað
láglaunafólki fyrir íbúðum, áhættulaust! Freddie Mac og Fannie Mae, sem eru í
raun ríkisreknir heildsalar á íbúðarlánum, keyptu skuldabréfin af bönkunum. Það
er gott að vera með áhættulaus viðskipti og þar sem þessi fasteignalán voru
svona frábær mátti líka nota þau til að losna við léleg skuldabréf, með svo
köllum vafningum. Öllu var snúið saman í allsherjar vafning og þetta var selt
út um allan heim. Þannig var staðbundið vandamál BNA flutt út um allan heim.
Ákvörðun Clinton hafði ekkert með frjálshyggju eða kapítalisma að gera, meira
svona sósíalisma.

Basel reglurnar

Í þriðja lagi setti ESB sínar Basel reglur, sem gerðu kaup á
ríkisskuldabréfum áhættulaus. Bankar þurftu ekki að leggja til neitt eigið fé á
móti kaupum á slíkum bréfum, enda voru þau „áhættulaus". Þetta var gert til að
stjórnmálamenn gætu tekið eindalaus lán með sölu ríkisskuldabréfa til banka, og
notað fjármunina í gæluverkefni. Allt til að þóknast kjósendum og tryggja
endurkjör. Grikkland er einmitt gott dæmi um þetta en Grísk ríkisskuldabréf voru
talin áhættulaus fram eftir fyrsta áratug nýrrar aldar. Hvort skyldi þetta nú
ver sósíalismi eða kapítalismi. Hvað í ósköpunum hefur þetta með frjálshyggju
að gera? Þetta feigðarflan hefur valdið því að bankar hafa þanið út efnahag
sinn og sér ekki fyrir endann á því ævintýri. Margir stærstu bankar heims eru
nánast gjaldþrota ef tekið er tillit til raunverulegrar áhættu þeirra í
ríkisskuldabréfum, sem aldrei verður hægt að endurgreiða.

Lýðskrumið og töfrar

En það er ótrúlegt hvernig lýðskrumararnir komast eindalaust
upp með slagorðin og upphrópanirnar. Það er ekki hægt að tala vitrænt með rökum
um mikilvæg mál líðandi stundar, þar sem fæstir kynna sér málin og fylgja
þessum hrópum. Þó augljóst sé að íbúðarlánasjóður sé gjaldþrota, búinn að taka verðtryggð
lán til langs tíma á 3.5% vöxtum, en neitendur vilja ekki þessi lán. Þeir sitja
því uppi með skuldbindinguna og fullar hendur fjár sem skila engum vöxtum og
tjónið er metið í dag á 120 miljarða. Stjórnmálamennirnir sletta 13 milljörðum
í hítina og láta hitt bara reka á reiðanum.

Framsóknarflokkurinn

Framsókn ætlar hinsvegar að sveifla töfrasprota og láta
eignir sama sjóðs hverfa. Ef það mál er skoðað aftur í tímann, og síðan metin
framtíðarkostnaður, gæti það verið allt að 900 milljarðar króna. Fá þeir
brautagengi í kosningunum út á slík loforð, er kannski hægt að segja að
kjósendur fái það sem þeir eiga skilið. En það verður ekki frjálshyggjan eða
kapítalisminn sem ríður okkur þar að fullu, frekar en fyrri daginn.

Ef Framsókn nær 25% fylgi út á þessi loforð er ekkert annað
eftir en segja: „Guð blessi Ísland"


Grein í Fiskifrétturm 7. mars

Sátt í sjávarútvegi

Í grein sem Friðrik J. Argrímsson skrifar í Fiskifréttir 28.
feb.  kemur fram að hann telji einsýnt að
engin sátt náist um stefnu núverandi ríkisstjórnar í sjávarútvegsmálum. Það er
rétt mat enda í stefnu vinstri manna að draga úr markaðsskipulagi með áherslu á
ráðstjórn, sem mun færa okkur aftur um áratugi í efnahagslegu tilliti. En hin
hliðin á peningnum er að það kemur heldur ekki til að verða sátt um kerfið eins
og það var. Komist stjórnarandstaðan til valda og breyti til fyrra horfs, verður
mikilvægustu atvinnugrein Íslendinga áfram haldið í heljargreipum óvissu.

Málið er að stjórnarandstaðan hefur enga lausn á óvissu í
sjávarútvegi og því síður LÍÚ. Þegar kemur að lausnum til framtíðar festast
útvegsmenn í persónulegum hagsmunum og komast hvorki lönd né strönd með málið
og stjórnmálamenn þora ekki að taka slaginn.

Hvert á að stefna?

Það er nauðsynlegt að lyfta sér upp úr dægurþrasinu þegar
sjávarútvegsmál eru rædd og finna lausn sem tekur tillit til þjóðarhags til
framtíðar. Að sameinast um stefnu sem tryggir verðmætasköpun í greininni og viðheldur
samkeppnisyfirburði íslensks sjávarútvegs. Sjávarútvegurinn á ekki  einn að standa undir byggðarstefnu á
Íslandi.  Gera þarf kröfu um að
byggðakvótar valdi sem minnstri sóun og séu raunveruleg stoð fyrir byggðir sem
hafa farið halloka undanfarna áratugi og byggja tilveru sína á sjávarútvegi.

Við þurfum að byggja á aflamarkskerfi með úthlutun á
framseljanlegum kvóta til langs tíma. Öðru vísi getum við ekki stjórnað veiðum
á hagkvæman hátt. Um allan heim eru þjóðir að taka upp slíkt kerfi til að
tryggja arðsemi og sjálfbæra nýtingu auðlinda.

Sjávarútvegsstefna og sjávarbyggðir

Það þarf að endurskoða byggða-potta frá grunni og leggja
niður núverandi kerfi sem veldur sóun og dugar ekki sjávarbyggðum sem bjargræði.
Setja þarf upp einn pott sem úthlutað er úr til langs tíma á  atvinnusvæði sem hafa átt undir högg að sækja
þar sem íbúaþróun hefur verið mjög neikvæð. Þessum pottum þarf að úthluta á
markaðslegum forsendum með skilyrði fyrir vinnslu á þessum atvinnusvæðum, til
langs tíma (hugmyndir Þórodds Bjarnasonar).

Semja þarf um skynsamlegt nýtingargjald fyrir auðlindina, engin  sátt virðist vera um annað í þjóðfélaginu. Ef
greinin býr við svo kallaða auðlindarentu, sem er mjög jákvætt, þá þarf að
skoða hvernig henni verður ráðstafað til samfélagsins. Vænlegasta leiðin væri
að hækka laun í fiskvinnslu í framtíðinni, sem væri besta mögulega byggðaaðgerð
fyrir sjávarþorpin. Ef skattheimta er notuð þarf að byggja á almennum reglum um
auðlindagjald, fyrir allar auðlindir sem þjóðin nýtir, ekki bara fyrir
sjávarútveginn.

Sátt í sjávarútveg

Því miður er enginn hljómgrunnur fyrir þessum hugmyndum hjá
útgerðarmönnum. Einhvern veginn virðist þeim ómögulegt að horfa á málið frá
þessum sjónarhóli. Líklegt er að sjálfstæðismenn gætu náð sátt við jafnaðarmenn
um slíka sátt. Ráðstjórnarmenn munu áfram berjast fyrir ríkisskipulagi, enda
ekki er við öðru að búast.

Til að ná sátt, þar sem skynsemi yfirtekur tilfinningar að
mestu, þá liggja fyrir  greiningar og
gögn sem er afrakstur mikillar vinnu okkar helstu sérfræðinga undanfarin ár sem
mætti byggja ákvarðanir á. Halda þarf hópum sem stjórnast af þröngum
eiginhagsmunum frá ákvörðun, þó rétt sé að hafa þá með við undirbúning. Við
þurfum að tryggja markaðsbúskap við mikilvægustu atvinnugrein Íslendinga og
hámarka virkni byggðaaðgerða og lágmarka kostnað við þær. Við þurfum að tryggja
að sjávarbyggðir njóti góðs af velgengi í sjávarútvegi. Um það ætti meirihluti
landsmanna að geta sameinast um.


Dýrið gengur laust

Það er þyngra en tárum tekur að horfa upp á minn gamla góða
flokk, Sjálfstæðisflokkinn. Aldrei hef ég treyst jafn mikið á hann og stefnu
hans en undanfarin ár; ár þar sem Íslendingar hafa undir forystu vinstri manna
fetað leið ráðstjórnar og sósíalisma. Reyndar undir slagorði um norræna
fyrirmynd, en Ísland er eina norðurlandaþjóðin sem fetar þennan stíg.

Íslendingar eru í djúpri kreppu þar sem lífskjör hafa gefið
mikið eftir og framleiðni er svipuð og gerist í Grikklandi. Endalaust er bætt
við ríkisumsvifin og dregið úr verðmætasköpun. Undirritaður tilheyrir stétt
sérfræðinga, og samkvæmt nýjum tölum eru þeir hálfdrættingar í kaupmætti miðað
við starfsbræður þeirra á hinum norðurlöndunum. Eini möguleikinn til að bæta
kjörin er aukin framleiðni og verðmætasköpun. Hér skal sérstaklega vitna til
skýrslu McKinsey um þetta mál.

Því voru það mikil vonbrigði að hlusta á setningaræðu
formanns Sjálfstæðisflokksins, Bjarna Benedikssonar á landsfundi flokksins. Þar
dró hann skýra átakalínu í ESB og gjaldmiðlamálum, þar sem menn lentu annað
hvort í svörtum eða hvítum kassa, að hætti Davíðs Oddssonar. Hann tók sem sagt
ólina af skrímslinu og hleypti því lausu.  Eftir þessa ræðu var öfgamönnum í flokkun
gefinn byr undir báða vængi og ljóst að frjálslyndir flokksmenn yrðu undir í
átökum á fundinum.

Það er með ólíkindum á þessari ögurstundu sem nú ríkir í
Íslenskri pólitík að formaðurinn kjósi að draga flokkinn sinn inn í átök , í
stað þess að skapa samstöðu um mikilvægust málefni líðandi stundar;
efnahagsmál. Útiloka samstarf eftir kosninga við alla flokka, nema
Framsóknarflokkinn. Það þarf ekki mikla sérfræðinga til að sjá, þó svo að
þessir tveir flokkar nái meirihluta, að Framsókn mun hafa yfirburða stöðu í
samningum um meirihlutamyndun. Þeir munu hafa allar leiðri opnar en okkar
flokkur enga aðra stöðu en semja við þá. Vinstri grænir eru orðnir
frjálslyndari flokkur en Sjálfstæðisflokkurinn og opnaði allar leiðir til
samstarf eftir kosningar. Þeim er mikið í mun að halda á þeirri braut sem lagt
hefur verið á, og Bjarni Ben veitti þeim brautagengi til að halda á með sína
ráðstjórn í framtíðinni.

untitledÉg hef alltaf verið hræddur við öfgafólk og sérstaklega
þegar það siglir undir flaggi Sjálfstæðisflokksins. Þetta minnir svolítið á
kaþólsku kirkjuna á miðöldum, það þarf ekki að útskýra umheiminn þar sem guð
skapaði hann. Öllum vísindum og þekkingu er hafnað fyrir guðsorðið og hart
tekið á vantrúuðum, mönnum eins og Galileo og Darwin. Menn beita fyrir sig
slagorðum og upphrópunum og spila inn á þjóðernishyggju til að hræða fólk í
liðið með sér. Lítið fer fyrir málefnalegri umræðu um ESB eða íslensku krónuna.

Í mínum huga er það kristaltært að Íslendingar hafa aldrei
getað rekið peningamálastefnu né haft stjórn á ríkisfjármálum til langs tíma.
Endalaus tilflutningur á verðmætum frá einum til annars hefur einkennt íslensku
krónuna, og enn stefnir í stór slys ef Framsókn kemst að með sín ábyrgðalaus
loforð um „leiðréttingu" vegna vísitölulána. Verði farið að þeim hugmyndum mun
það kosta ríkissjóð og lífeyrissjóði um 900 milljarða króna!

Ef Bjarni Ben ætlar að nota íslenska krónu „um ófyrirséða
framtíð" þarf hann að útskýra hvernig hann ætlar að gera það öðruvísi en allir
íslenskir fyrirrennara hans til þessa! Fyrir utan tvö þrjú ár hjá Davíð, hefur
íslenskt hagkerfi verið eins og rússíbani og fólk hefur hagað sér eins og engin
væri morgundagurinn. Þannig getum við aldrei haldið uppi lífsgæðum á Íslandi.


Fiskmarkaðir á Íslandi

Mikil umræða hefur verið undanfarið um að allur fiskur eigi að fara á markað, og Samtök fiskframleiðenda og útflytjenda (fiskvinnsla án útgerðar) reka háværan áróður fyrir lagasetningu vegna þessa. Spurningin er hvort aðskilnaður veiða og vinnslu sé þjóðhagslega hagkvæmur? 

Markaðsdrifin virðiskeðja

Enginn vafi leikur á því að fiskmarkaðir hafa skilað íslensku þjóðarbúi miklum verðmætum og með
tilkomu þeirra hefur sérhæfing aukist og ný tækifæri skapast fyrir fiskvinnslur, og þar með aukin verðmætasköpun í greininni. Fiskmarkaðir gera framleiðendum mögulegt að velja til sín hráefni og losa sig við afla sem ekki hentar þeim markaði sem vilja sinna, og eiga fiskmarkaðir sinn þátt í að í að
færa virðiskeðju sjávarútvegs úr því að vera veiðidrifin yfir í að vera markaðsdrifin. Framleiðandi kannar markaðinn og tekur síðan ákvörðun um hvað skuli veiða og hvar, til að fá rétt hráefni á réttum tíma til afhendingar samkvæmt óskum viðskiptavinarins. Í dag eru fyrirtæki að afhenda flóknar afurðir eins og fersk flakastykki inn á hátt borgandi markaði í Evrópu og Bandaríkjunum þar sem  meginkrafan er gæði, sérstaklega hvað varðar líftíma vöru og afhendingu. Náin samvinna í virðiskeðju er forsenda fyrir slíkri framleiðslu!

Uppboðsmarkaðir skila ekki bestu gæðum

Það er einmitt mergur málsins að flókin vinnsla fyrir kröfuharða kaupendur kallar á mikið skipulag í virðiskeðjunni allt frá veiðum til neytanda. Náið samstarf veiða og vinnslu er nauðsynlegt til að ná  líkum árangri og einmitt þar stöndum við Norðmönnum framar í samkeppni, en þeir eru með algeran aðskilnað veiða og vinnslu í sínu sjávarútvegsumhverfi. Það er vel þekkt úr þróuðum iðngreinum, eins og bílaiðnaði, að þar er löngu hætt að nota uppboðsmarkaði fyrir íhluti. Náin samvinna við birgja er lykilatriði til að standa við kröfur markaðarins og tryggja rétt gæði.

Undirritaður starfaði í Sri Lanka og kynnti sér vel veiðar og vinnslu túnfisks þar í landi. Mest allur túnfiskur er seldur á uppboðsmörkuðum, en gæði aflans  eru mjög léleg og engin tengsl virðast vera á illi gæða og verðs. Nokkur fyrirtæki framleiða túnfisk beint á Evrópumarkað og er verðmæti þeirrar  ramleiðslu margfalt á við heimamarkaðinn. Hráefnið  kemur frá eigin bátum, eða með beinum  amningum við útgerðir en uppboðsmarkaðir standa ekki undir þeim gæðum sem markaðurinn krefst.  Þjóðarhagsmunir

Fiskvinnsla án útgerðar álítur að með þvingun til sölu á uppboðsmörkuðum muni hráefnisverð lækka til fiskvinnslu og samkeppnisstaða þeirra sjálfra batna. En Íslendingar mega ekki skera á þau nánu tengsl sem hér hafa þróast í virðiskeðju sjávarafurða og láta meiri hagsmuni ganga fyrir minni. Ekki má setja reglur sem draga úr verðmætasköpun og samkeppnishæfni íslensks sjávarútvegs. Fiskmarkaðir eru bæði nauðsynlegir og skapa mikil verðmæti, en engin ástæða er til að þröngva mönnum til viðskipta við þá. Slíkur aðskilnaður veiða og vinnslu er ekki þjóðhagslega hagkvæmur.


Rótarýklúbbur Ísafjarðar 75 ára

Rótarýfélagar og makar á 4000 fundinum 2010Rótarýklúbbur Ísafjarðar fagnar 75 ára afmæli laugardaginn 20. október. Það var sumarið 1937 sem umdæmisstjóri dönsku Rótarýklúbbanna, E. Ipsen, var á ferð hér á landi til að heimsækja Rótarýklúbb Reykjavíkur, sem þá var eini klúbbur landsins. Reykjavíkurklúbburinn hafði starfað í þrjú ár og var Ipsen að undirbúa stofnun fleiri klúbba hér á landi. Eftir heimsókn til Reykjavíku lá leið hans til Ísafjarðar þar sem hann átti fund með heimamönnum og var meðal annarra gesta, Árni Friðriksson fiskifræðingur. Ísfirðingar þurftu ekki mikla hvatningu við þar sem Rótarýklúbbur Ísafjarðar var stofnaðu 20. október 1937 á heimili Jónasar Tómassonar bóksala og konu hans Önnu Invarsdóttur. Voru fundir næstu tvö árin haldin á heimili þeirra hjóna eða í sumarbústað þeirra í Tunguskógi.

Stofnun klúbbsins var athyglisverð fyrir þær sakir að á þessum tíma var pólitíkin hatrömm á Ísafirði, enda bærinn kallaður „Rauði bærinn". Stofnun klúbbsins var söguleg þar sem hann var stofnaður þvert á pólitískar skoðanir, sem margir hefðu talið ómögulegt á þeim tíma. Klúbburinn gaf mönnum kost á því að hittast á hlutlausum velli án tillits til pólitískra skoðana.

Margir merkir félagar hafa verið í Rótarýklúbbi Ísafjarðar og má nefna að þrír félagar hafa gengt æðstu stöðu hreyfingarinnar á Íslandi sem umdæmisstjórar; en þeir eru Kjartan J. Jóhannsson læknir, Ólafur Helgi Kjartansson sýslumaður og Kristján Haraldsson Orkubússtjóri.

Rótarýmenn halda fund vikulega þar sem hin ólíkustu málefni eru kynnt, af félögum eða gestum sem boðið er til fundar. Margir hafa fengið tækifæri til að kynna hugðarefni sín sem oft hafa orðið að framfaramálum fyrir samfélagið. Hér skal getið fundar þar sem Jóhann Gunnar Ólafsson kvaddi félaga sína eftir 25 ár í klúbbnum og minntist í erindi sem hann flutti við tækifærið að það væri einkum tvennt sem honum lægi á hjarta þegar hann nú kvaddi Ísafjörð; að bæjarrútstir Helga Hrólfssonar á Eyrartúni og gömlu verslunarhúsin í Neðstakaupstað yrðu varðveitt frá eyðileggingu. Það væri sín síðasta og eina ósk til samborgara sinna, er hann hyrfi héðan, að þessum gersemum yrði ekki spillt.

Gunnar H. Jónsson var forseti klúbbsins á þeim tíma og ásamt tveimur öðrum rótarýfélögum, Jóni Páli Halldórssyni og Guðmundi Sveinssyni, tóku þessum hvatningarorðum sýslumans af alvöru og sameiginlega stóðu þeir fyrir öflun fjárs til að standa undir endurbyggingu verslunarhúsanna í Neðstakaupstað, og stýra þeim framkvæmdum.

Klúbburinn stóð fyrir söfnun hlutafjár við stofnun Flugfélags Íslands árið 1941, til að bæta samgöngur í lofti til Ísafjarðar. Erindi sem Baldur Johnsen, héraðslæknir hélt um skógrækt varð kveikjan að stofnun Skógræktarfélagi Ísafjarðar 1944. Vorið 1957 stofnaði klúbburinn Blóðgjafasveit Ísafjarðar í framhaldi af erindi sem Úlfur Gunnarson yfirlæknir hélt á Rótarýfundi. Á fimmtíu ára afmæli klúbbsins stóðu félagar fyrir örnefnamerkingu við þjóðveginn við Skutulsfjörð árið 1987. Nú stendur yfir endurnýjun þessara skilta og stefnt að því að ný skilti ásamt kynningarbækling á örnefnum verði tilbúið að vori komandi. Klúbburinn setti upp útsýniskífu á Arnarnesi og vinnur við að setja veglegar merkingar á sögufræg hús í bænum. Kúbburinn hefur í gegnum tíðina beitt sér fyrir hinum ýmsu framfaramálum í bæjarfélaginu sem ekki verða tíunduð hér.

Í tilefni dagsins heldur Rótarýklúbbur Ísafjarðar hátíðarfund í Edinborgarhúsinu á afmælisdaginn þar sem margt verður gert til að fagna þessum áfanga.

Stytt og endursagt úr grein Jóns Páls Halldórssonar í blaði Rótarýklúbbs Ísafjarðar, „Hörpu hafsins" sem gefið var út í tilefni umdæmsiþings sem haldið var á Ísafirði í september 2012.

 


Smalað í Austurdal

Enn koma menn af fjöllum, eins og nýslegnir túskildingar eftir góðan tíma á dásamlegum stað í góðum félagsskap.

einar_a_baki.jpgStundum er úr vöndu að ráða þegar maður hefur lofað sér á tvo staði og gera þarf upp við sig hvaða Keflavíkinni er róið úr. En þegar maður hefur lagt drengskap sinn við eitthvað er ljóst hvernig brugðist er við því, en við Einar höfðum bundist fóstbræðralagi með að mæta í göngur í Austurdal, sama hvað gengi á. Nú höfðum við hinsvegar skipulagt ráðstefnu sömu helgina og sækja átti skjáturnar í Austurdalinn, þar sem við höfðum miskilið fjallakónginn með dagsetningu.

Úr varð að fresta ferðinni um einn dag, aka upp úr hádegi á laugardegi þegar ráðstefnan væri komin á gott skrið og sæist fyrir endann á henni án vandræða. Við lögðum því af stað um tvö leytið og áætluðum komu í Hildarsel um níuleytið. Ekki voru allir ánægðir með brotthvarf okkar, en eins og áður segir verða menn að taka erfiðar og óvinsælar ákvarðanir þegar þannig stendur á.

gisli_runar.jpgÞað bar lítið til tíðinda á leið í Skagafjörðinn og vorum við komnir um kvöldmataleytið í Ábæ, þar sem bíllinn var skilinn eftir og tveggja stunda ganga var eftir í smalakofann. Við höfðum komið við í Staðarskála þar sem við keyptum ennisljós sem nú kom sér vel þar sem fljótlega skall á myrkur og nokkuð erfitt að fylgja ógreinilegri slóðinni. Við greindum Tinnána rétt um það bil þegar myrkrið tók af okkur sýn, en leiðin er þar rúmlega hálfnuð. Það mátti greina daufa týru upp í dalnum þar sem Hildarsel er og ekki laust við tilhlökkun að hitta smalafélaga, vitandi af kjötsúpu og kakala í kvöldmatinn. Allt í einu tókum við eftir bílljósum sem tifuðu niður dalinn á móti okkur og þóttumst vita að einhver hefði ekið til móts við okkur. Þarna er engin bílvegur og ekki á færi nema kunnugra á breyttum bílum að aka leiðina.

Bíllinn stöðvaðist allnokkuð ofar í dalnum og þegar nær dró mátti greina Tinnárbrú í ljósgeislanum, en það er göngubr sem er ófær bílum. Það var engin annar en foringinn sjálfur sem sat undir stýri og beið okkar handan árinnar; Stebbi á Keldulandi. Við tróðum okkur inn í bílinn, sem er gamall Nizzan skúffubíll, breyttur á miklum dekkjum til að ráða við mjög erfitt undirlag dalsins. Erfitt var að greina slóðann sem lá upp með áreyrum, að mestu á grjóti og hörðu yfirborði. Þrátt fyrir árin 85 lék þetta í höndunum á Stebba og ekki laust við feiginleika ferðamanna að þurfa ekki að aka bílnum við þessar erfiðu aðstæður.

_orolfur_me_hestinn.jpgÞegar við komum í Hildarsel var vel tekið á móti okkur og líktist einna helst mótöku Rússneska kommúnistaflokksins á tímum Bréfsnefs, þvílíkir voru kossar og faðmlög. Við vorum varla búnir að koma okkur fyrir þegar kjötsúpa var borin á borð, og fylgdi henni góð hressing úr Skagafirði. Rétt fyrir miðnættið skrönglaðist sögumaður upp á loft til að leggja sig, þar sem hann sofnaði undir Skagfirskum söng af neðri hæðinni. Margir göngumanna eru úr karlakrórnum Heimi, en allir eru þeir miklir söngmenn og stórkostlegt að láta þá vagga sér í svefn með tónaflóði.

Það var blíðskapar veður morguninn eftir og sólin byrjuð að verma grund þegar gengið var í hestaréttina til að velja sér reiðskjóta fyrir daginn. Það þurfti líka að verma lundina og slípa reiðmanninn í sér áður en lagt var af stað til leitar. Ég hafði fengið Pegasus til reiðar, hestinn sem fleygði mér af baki í síðustu leitum, en það var allt löngu gleymt og grafið. Ég átti að fylgja Einari Kristni og Gísla Rúnari til leitar í Ábæjardal. Við riðum með hópnum niður að Ábæ og þurfti ekki að hvetja Pegasus, sem var fullur af fjöri og flaug á brokki niður dalinn.

Við kvöddum hópinn við Ábæjarrétt og héldum upp holtin upp af kirkjunni og lögðum síðan á brattann austan við dalinn, einmitt á þær slóðir sem Pegasus kastaði mér af í fyrra. Á síðasta aðalfundi Smalafélagi Austurdals, sem eru haldnir í mars á hverju ári, gáfum við Einar félaginu talstöðvar, að gefnu tilefni úr síðustu smalaferð. Nú var ég komin með eina slíka í vasann til að vera í sambandi við aðra leitarmenn og halda skipulagi á leitinni.

Nú vita menn að bannað er að aka bíl og tala í síma þar sem slíkt geti valdið slysahættu. En akstur í síma er hégómi við hliðina á því að vera loftskeytamaður á hestbaki. Nú glumdu við skipanir og köll í talstöðinn meðan Pegasus þaut um loftið, ör og fjörugur hafði lítið fyrir að skella sér á tölt meðan talstöðin glumdi reiðmanni. Á hröðu brokki þurfti því að sleppa taumnum meðan talstöðin var dregin upp úr dýpsta vasa og svarað var kallinu. Nú er ljóst að þessi helreið var ekki hættuleg öðrum vegfarendum, en engin tryggingafélög hefðu viljað tryggja reiðmann loftskeytanna.

lettiri_rettinni.jpgÞegar komið var upp á fyrstu hjalla Ábæjardals var stigið af baki þar sem framundan er nokkuð klungur og ekki hestafært. Einar tók tauminn hjá mér og Gísla en við héldum fótgangandi upp dalinn. Mér var falið að leita í Þverdal, sem liggur norður úr Ábæjardal, en Gísli Rúnar hélt á upp í dalbotninn. Þegar dalurinn opnaðist mér sá ég átta kindur í bröttum hlíðum austan megin og ákvað að komast upp fyrir þær til að reka niður dalinn. Ég þurfti því að ganga hrygginn sem heldur um dalinn í austri, upp á brún á fjallinu, sveigja síðan inn dalinn og koma að fénu úr norðri.  Allt tókst þetta vel og kindurnar fóru fljótlega að renna niður dalinn niður að á.

Nú er það þannig að forframaður leitarmaður er því fegnastur finni hann engar kindur. Það er svo miklu léttara að smala þegar engar rollur eru til að þvælast fyrir manni. Kindur geta valdið alls kyns vandræðum við smölun og eykur erfiði smalans um allan helming. Nú taldi ég mig vera orðin nokkuð sigldan í smalamennsku og var auðvitað að vona að ég fyndi ekkert fé. Laus við þann barnaskap vona að hver depill sem birtist við ystu brún væri kind sem reka mætti heim. En ég verð að viðurkenna að þegar ég sá skjáturnar, var ég ofsaglaður og fannst ferðin einmitt fá tilgang með fundinum. Erfiðleika við fjallaklifur, skipulag við að koma rétt að kindunum urðu mér til mikillar ánægju. Svona getur maður verið barnalegur og eins gott að halda slíku fyrir sjálfan sig ef halda á virðingu í smalafélagi.

komi_i_merkigil.jpgÞað bættust þjár við hópinn þegar komið var niður í Ábæjardal vestanverðan. Þær litu út eins og ullarhnoðrar með litlum pinnum neðan úr sem þær tipluðu á við mikla erfiðleika. Þetta reyndust vera útigöngufé frá því í fyrra og reyndust erfiðar í rekstri. Meðan ég rak hópinn fór Gísli Rúnar brúnir ofan Ábæjardals til að sækja þangað kindur en Einar fór með hestinn á móti honum. Ég hélt á með mínar 11 kindur, sem reyndist vera fjórðungur af rekstrarfé Austurdals þetta árið, áleiðis niður á veg. Það var erfitt að reka hópinn þar sem þessar þrjár sem bættust við vildu ekki vera í safninu. Það er snúið að reka slíkt einn og ekki nokkur leið að breyta fjárstefnunni þar sem rennslið vantar. Því varð ég að elta hópinn nokkra kílómetra niður Austurdal áður en ég komst upp fyrir hann til að reka niður á veg. Þá var reksturinn komin niður á móts við kláfinn yfir Jökulsá, marga kílómetra neðan við Ábæ.

En niður á veg komst ég með safnið þar sem ég skildi það eftir, klukkan gengin í sex og stutt í rökkrið. Ég reið hratt veginn til baka upp dalinn, þar sem ég vissi af félögum mínum við Ábæjarrétt þar sem malapokinn var venjulega opnaður. Það voru engin vonbrigði þegar ég reið í réttina, enda nutu menn þar hvíldar yfir bjúgum úr Reykhólasveit sem rennt var niður með öli.

kvoldver_ur_i_merkigili.jpgNú var lokið minni reiðmennsku í þessari smölun,  enda þurfti ég að taka bílinn niður að Merkigili þar sem kvöldverður beið okkar smalamanna, eins og venja var. Það var komið rökkur þegar hestar, kindur og menn skiluðu sér niður að bæ og í Merkigili var öllu tjaldað til fyrir fjallamenn. Íslenskt lamb með bökuðum kartöflum, salati og boðið upp á kakala fyrir þá sem það kunnu að meta. Síðan beið okkar svefnloftið þar sem unaðslegt meðvitundarleysi svefnsins hvíldi lúin bein eftir annasaman dag. Slíkir herramenn voru smalar að ekki heyrðust nokkur svefnlæti úr þeim búðum, hvorki hósta, stuna né hrota.

Eftir að hafa ekið niður í Varmahlíð daginn eftir og þaðan upp í sveitina austan Héraðsvatna þar sem kaffi beið okkar hjá Sigurði á Tyrfingsstöðum Eftir frábærar trakteringar hjá húsfreyjunni var lagt að stað heim á leið eftir skemmtilega og annasama helgi. Einar Kristinn varð mér samferða í Staðarskála en áfram hélt ég ferðinni einsamall heim á Ísafjörð.smaladrengir_og_stulka.jpg


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 15
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 10
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband