21.2.2014 | 09:20
Fiskveiðar og ESB
Þegar andstæðingar ESB komast í rökþrot er gripið til sávarútvegs og við séum að gefa frá okkur fiskveiðiauðlindina. Talað er um að engar undanþágur frá meginreglum ESB séu í spilunum, og það er alveg rétt. Við munum þurfa að heimila erlenda fjárfestingu í sjávarútveg, það er ekki umsemjanlegt! En er það svo slæmt? Skiptir það máli hvort Óðinn selji 50% í Ísalandssögu til breskrar verslunarkeðju? Bretar keyptu í upphafi hluti í norsku laxeldi til að tryggja sér frábæra vöru, en engin ein vara hefur átt jafn mikla velgengi í smásölu í Bretlandi undanfarna áratugi. Alltaf fersk, alltaf til og náttúrleg" afurð. Svona eins og Íslandssaga býður upp á nema enn betra. Bretar hafa reyndar ekki flutt norska laxeldið til Bretlands!
Það er mikið talað um sameiginlega fiskveiðistefnu ESB en ekkert mælir gegn því að við höldum okkar kvótakerfi, Fiskistofa sér um eftirlit með sömu reglum og við höfum í dag og afli verður ákveðin eftir ráðgjöf íslenskra vísindamanna.
- Þetta er sameiginlega fiskveiðistefna ESB
- að tryggja sjálfbærar veiðar, sem í raun felur í sér að miða þær við Maximum Sustainable Yield
- Sá grunnur muni skila hámarks framleiðni í greininni og þar með hámarka tekjur þeirra sem byggja lífsafkomu sína á veiðum, tryggja réttláta skiptingu fiskveiðiarðsins ásamt því að gæta hagsmuna íbúa strandsvæða og neytanda
Auðvitað virka þetta ekki svona í ESB, en það gerir það á Íslandi. En þetta eru möguleikar okkar í samningum:
- Hafa verður í huga að fiskveiðiauðlind er berskjölduð gegn rányrkju útlendinga
- ESB mun ekki breyta stofnsamþykktum sínum fyrir Íslendinga
- Fiskveiðistefna ESB byggir á meginstoðum sambandsins, fjórfrelsinu
- Geta Íslendingar náð ásættanlegum samningum við ESB?
- Ráðherraráðið ítrekað tekið fram fyrir hendurnar á Framkvæmdastjórninni í fiskveiðimálum
- Staðbundnir stofnar vs. flökkustofnar
- Íslandsmið skilgreind sem sérstakt veiðisvæði með sérstöku svæðaráði
Og hvað er í pokanaum?
- Svæðisráðin eru skipuð fulltrúum frá hagsmunaaðilum í sjávarútvegi að tveimur þriðju, en að einum þriðja fulltrúum frá öðrum aðilum sem eiga hagsmuna að gæta varðandi sameiginlegu sjávarútvegsstefnuna
- Íslendingar myndu fá allan kvóta við landið
- Íslendingar gætu haldið í kvótakerfið, eða breytt því
- Fiskveiðieftirlit yrði í höndum Íslendinga
- Gætu Íslendingar bannað löndun erlendis nema hafnir uppfyllti kröfur Fiskistofu?
- Reyna að koma í veg fyrir kvótahopp og fiskveiðiarðurinn renni til þjóðarinnar
- En hvað um flökkustofna?
Það sem við verðum að hafa í huga að fiskveiðilögsögur ESB ríkja liggja saman og því mjög erfitt að stjórna veiði á staðbundnum stofnum. Við myndum vilja fá 5 fiskveiðisvæðið þar sem ákvarðanir væru teknar af okkar vísindamönnum, veiðireglur, um aflamagn. Þetta er umsemjanlegt og þarf ekki varanlegar undanþágur. Raunar er fjórfrelsið það sem við einmitt þurfum til að bæta lífsgæði okkar. ESB stendur fyrir markaðsbúskap og samkeppni, eitthvað sem við eru alls ekki að stunda! Í samhengi bendi ég á umræðu um verðbólgu og hvernig þrýst er á fyrirtæki og stofnanir að hækka ekki verð. Það er semsagt ekki samkeppnisumhverfi á Íslandi og frekar kerfi eins og var við lýði í fyrrum ráðstjórnarríkjum!
En svo eru það hvalveiðar sem ESB mun aldrei samþykkja. Við eigum að láta þá borga vel fyrir það enda engin vísindi sem mæla gegn veiðunum. Reikna framtíðarvirði hvalveiða, það er risaupphæð og dugar vel til að greiða allar erlendar skuldir Íslands, og láta þá borga okkur fyrir að hætta. Þetta er allt á tilfinninganótum hjá blessuðum mönnunum hvort eða er!
Andstæðingar ESB reka sitt mál á tilfinningum og mjög erfitt að fá hlutlægar skynsamar umræður. Hvað er þjóðernisumræða? Við tökum það fyrir í næsta pistli.
20.2.2014 | 10:47
ESB og Ísland
Sem sjálfstæðismaður er ég miður mín út af umræðum landsfeðra um umsóknarferli Íslands að ESB. Ég geri ráð fyrir að framsóknarmenn bregðist við með þeim hætti sem þeir gera, en geri allt aðra kröfu til minna manna; sem þeir því miður standa ekki undir.
Nú er það ekki svo að ég sjái ESB í hillingum og vilji þangað inn sama hvað! Mitt markmið er að bæta lífskjör mín og sætti mig ekki við að vera hálfdrættingur í kaupmætti í samanburði við kollega mína á hinum norðurlöndunum. Punktur og basta.
Ég hef átt þess kost að fara yfir þessi mál með fjármálaráðherra, en hann hafði þá lýst því yfir að hann hann teldi að við ættum að nota krónuna um ófyrirsjáanlega framtíð! Ég fékk tækifæri til að koma þeim sjónarmiðum mínum á framfæri að sporin hræði þegar kemur að íslensku hagkerfi. Hagsveiflur frá upphafi hafa verið eins og villtur trylltur rússíbani. Eini mælanlegi stöðugleikinn var eftir inngöngu í EES og nokkuð styrka stjórnun landsmála í framhaldinu. En þess fyrir utan er þetta ekki boðlegt og ég setti þau sjónarmið fram við fjármálaráðherra að ef hann hefði einhver ráð með að tryggja stöðugleika með bættum aga í hagstjórn og nota krónu, þá þyrfti hann að útskýra hvernig hann hygðist gera það! Breyta þyrfti hagstjórninni frá því sem hún hefur verið frá upphafi og þeir sem slá ESB hugmyndir út af borðinu skulda okkur útskýringar á því hvernig það verður gert! Og þá eitthvað annað en töfrabrögð.
Seðlabankinn gaf út vandaða skýrslu um valkosti Íslendinga í gjaldmiðils- og gengismálum (sérrit nr. 7) sem Þórarinn G. Pétursson fjallaði um í ágætri grein í Fréttablaðinu 2. Mars 2013. Lítil sem engin viðbrögð andstæðinga ESB hafa verið við skýrslunni. Meira hefur borið á hnútuköstum út í seðlabankann og nú er talað um að losa sig við bankastjórann, enda sé hann ósammála forsætisráðherra og virðist ekki tilbúinn að aðlaga sig að skoðunum hans.
Þórarinn veltir því upp hvort það sé heppilegt fyrir land með jafn lítinn þjóðarbúskap að reka sjálfstæðan gjaldmiðil í opnu hagkerfi, enda fylgi því gríðarlegur kostnaður. Beinn kostnaður við að skipta úr einum gjaldmiðli í annan sé um 5-15 miljarðar á ári, eða 10 hluti vöru- og þjónustuafgangs. Hann bendir á að íslenskt fjármálakerfi sé mjög smátt og dýrt í rekstri og kostnaður við að stunda viðskipti mjög hár. Viðskiptakostnaður sé allt að tvö- til þrefalt hærri en meðal annarra þróaðra ríkja. Þetta endurspeglist í gengissveiflum og hærri innlendum vöxtum. Rannsóknir sýni að vaxtakostnaður hér á landi sé um 1 ½ hærri hér, miðað við á stærra myntsvæði. Hér er um risastórt mál að ræða fyrir almenning í landinu og lífskjör þjóðarinnar!
Stundum er rætt um að nauðsynlegt sé að hafa eigin mynt sem hægt sé að stilla eftir því hvernig árferði er í efnahag landsins. Það verður þó að hafa í huga að gengisfelling er í raun launalækkun hjá íslenskum almenning en eykur ekki framleiðni eða verðmætasköpun, sem eru undirstöður lífskjara. Þórarinn bendir á að McKinseys skýrslan bendi einmitt á að lágt framleiðnistig sé helsti dragbítur efnahagsframfara á Íslandi.
Þórarinn bendir á að í þeim ríkjum sem tekið hafa upp evru hafi erlend fjárfesting aukist um 30%. Aðild að stærra myntsvæði auki viðskipti við önnur lönd og margar rannsóknir styðji þær fullyrðingar. Hann segir að miðað við miðgildi þeirra rannsókna gæti aukning hér á landi numið um 70 miljörðum kr. á ári, sem jafngildir um 60% vöru- og þjónustuafgangs ársins 2012. Aðild að stærra myntsvæði gæti aukið landsframleiðslu um 3% varanlega á ári.
Lítið fer fyrir rökstuðning andstæðinga ESB gegn þessari skýrslu Seðlabankans. En ríkisstjórnin skuldar okkur útskýringa á stefnu sinni og hvernig þeir ætli að tryggja lífskjör til framtíðar á Íslandi. Sérstaklega þurfa sjálfstæðismenn að útskýra sína stefnu, sem illa passar inní megin stefnu og markmið Sjálfstæðisflokksins. Sjálfstæðisflokkurinn, flokkur allra landsmanna, þarf að útsýra hvernig hann hyggst tryggja lífskjör hér á landi með krónu sem mynt. Taka þátt í umræðunni á faglegum og á hlutlægum nótum og hætta að kasta rýrð á þá sem eru ósammála landsfundi flokksins í Evrópumálum. Oftar en ekki er undirritaður kallaður sósíalisti vegna skoðana um ESB. Það er óþolandi og ómálefnalegt.
18.2.2014 | 11:39
Í heljargreipum hafta
Ég er ekki viss um að geta kosið minn gamla flokk í þingkosningum þegar ég les þetta. Ég geri ráð fyrir afturhaldinu hjá Framsókn, en Sjálfstæðisflokkurinn er lítið betri þegar kemur að landbúnaðarmálum. Þar berjast menn gegn almannahagsmunum til að verja gamlar kreddur. Í raun er það spilling þegar hagsmunir fjöldans víkja fyrir hagsmunum fárra manna. Í raun gerir þetta bændum ekki gott þar sem einokunin hlekkjar þá í viðjur fátæktar, enda lítil verðmætasköpun í landbúnaði.
Við verðum að markaðsvæða landbúnað og opna fyrir alþjóðaviðskipti með þessar vörur! Það sama mun gerast og með sælgætisiðnaðinn við inngöngu í EFTA að landbúnaður mun eflast. Eflast við að takast á við samkeppni og sinna viðskipavinum sínum vel. Nokkuð sem ekki er til staðar í dag.
Hagar fá ekki viðbótartollkvóta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.1.2014 | 15:32
Forystugrein í Vesturlandi 23. jan 2014
Í þessu blaði er kynning á þeim frambjóðendum sem taka þátt í prófkjöri Sjálfstæðismanna fyrir bæjarstjórnarkosningar í vor, en það verður haldið 8. febrúar n.k. Prófkjör er lýðræðisleg aðferð til að raða niður á lista flokksins, allavega í þau sæti sem veita möguleika[k1] sæti í bæjarstjórn. Í þessu prófkjöri verður reynt að lágmarka þann kostnað sem hver einstaklingur verður fyrir , með sameiginlegum kynningum og fundarhöldum fyrir prófkjörið. Þannig mun fjárhagur einstaklinga eða stuðningsmanna þeirra skipta minna máli en oft áður, en það hefur töluvert verið gagnrýnt í gegnum tíðina. Að þessu sinni sækjast öflugir einstaklingar, þrjár konur og þrír karlar, eftir forystusætum á lista flokksins. Um er að ræða einstaklinga með mikla reynslu og eins nýtt og kraftmikið fólk sem er tilbúið að láta til sín taka fyrir Ísafjarðarbæ.
Sjálfstæðismenn koma öflugir til þessarar baráttu, enda málefnastaðan sjaldan verið betri fyrir kosningar en einmitt nú. Vel hefur tekist til með fjármál sveitarfélagsins á kjörtímabilinu, svo eftir hefur verið tekið, á erfiðum tímum í efnahagslífi þjóðarinnar. Tekist hefur að lækka rekstrarkostnað verulega án þess að skerða þjónustu við íbúa, sem ávallt á að vera takmarkið. Slíkt gefur svigrúm til frekari uppbyggingar eða viðhalds, eða lækkun skatta á íbúa. Öll önnur mál byrja og enda með fjárhag bæjarins, sem ræður því hvað við sem samfélag getum boðið uppá til að bæta lífsgæði íbúa og gera bæjarfélagið að eftirsóttum stað til að búa á.
Eins og fram kemur í kynningum og greinum í þessu blaði eru skólamálin ofarlega á blaði verkefna bæjarstjórnar. Árangur íslenskra barna við útskrift úr grunnskóla er ekki ásættanlegur miðað við Pisa-kannanir þar sem hluti nemenda getur ekki lesið sér til skilnings. Þetta er ekkert nýtt og sporin hræða í þessum efnum og nauðsynlegt að finna leiðir sem skilar okkur betri árangri.
Að prófkjöri loknu munu sjálfstæðismenn sækja umboð til íbúa um áframhaldandi forystu við rekstur sveitarfélagsins í kosningum sem haldnar verða 31. maí.
Gunnar Þórðarson formaður fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Ísafjarðarbæ
[k1]Skoðaðu vel, fannst þetta hljóma ankanalega, getur verið vitleysa
30.12.2013 | 14:08
Ísbjörn í Fljótavík - jólablað Vesturlands
Ísbjörn í Fljótavík
Í maí árið 1974 fór hópur manna til Fljótavíkur til að skipta um vél í jeppa sem notaður var við byggingu á núverandi Atlastöðum. Jeppinn lá undir norðurgafli slysavarnarskýlisins og höfðu þeir félagar, Jón Gunnarsson, Helgi Geirmundsson og Ingólfur Eggertsson tekið að sér verkið. Með í för var Herborg, kona Ingólfs með 15 ára son þeirra, 11 ára sonur Helga og 10 ára gamall sonur Jóns. Það var síðan 18. maí að þeir voru langt komnir með að tengja vélina og voru á kafi ofaní vélarhúsinu þegar Jóni var litið upp og horfist í augu við hvítabjörn. Það vildi þeim til að birninum var jafn brugðið og þeim og gafst því ráðrúm til að snara sér inní slysavarnaskýlið. Björninn fór nú að hnusa að farangri þeirra, fann appelsínu sem hann sporðrenndi og virtist vera hinn rólegasti. En hér voru góð ráð dýr því þeir áttu von á Herborgu með drengina á hverri stundu frá Atlastöðum. Helgi var með haglabyssu en skotin voru úti hjá bjössa, í úlpu sem lá niður við fjörukambinn.
Menn voru skelfingu lostnir og óttuðust hið versta ef Herborg mætti með drengina og ræddu um hvað skyldi til bragðs taka. Við minnsta þrusk þeirra var athygli bjarnarins vakin og fylgdist hann vel með mönnunum í skýlinu. Talstöð var þarna og létu þeir loftskeytastöðina á Ísafirði vita af aðstæðum sínum. Þá kom kall frá Siglufjarðarradíó og þeir átaldir fyrir að nota talstöðina að nauðsynjalausu, hún væri aðeins ætluð í neyðartilvikum. En á Ísafirði var kallað eftir flugvél sem gæti lent við aðstæður í Fljótavík.
Í millitíðinni rjátlaði björninn frá skýlinu og notaði Helgi þá tækifærið, hljóp út og sótti úlpuna með skotunum, hlóð byssuna of feldi björninn.
Nú var hættuástandi aflýst en flugvélin mætti með fréttamenn frá sjónvarpinu og fyrsta manneskjan sem þeir hittu var Herborg, sem ekki hafði hugmynd um hvað hefði gerst við Grundarenda, og kom algerlega af fjöllum. Þannig frétti hún af ísbjarnadrápinu í gegnum fjölmiðlana og hélt í fyrstu að þeir væru ekki með öllum mjalla. En fljótlega komu bjarndýrabanarnir á vetfang og sögðu sína sögu.
Við krufningu kom í ljós að appelsínan var það eina sem björninn hafði borðað í langan tíma. Því má líka bæta við að Helgi var ekki vanur að hafa með sér byssu norður í Fljót, en hafði fengið þá hugdettu við brottför að taka hana með. Við brottför frá Ísafirði biður hann samferðamennina að bíða smá stund, skutlast heim til að sækja haglabyssu og treður nokkrum skotum í úlpuvasann á leiðinni út. (stytt og endursagt eftir Jósepi Verharðsyni).
30.12.2013 | 14:07
Lífið í Fljótavík - Jólablað Vesturlands 2013
Lífið í Fljótavík
Júlíus Geirmundsson bjó ásamt konu sinni, Guðrúnu Jónsdóttur, að Atlastöðum í Fljótavík, og stóð gamli bærinn á Bæjarhólnum þar sem Atlastaðir standa í dag. Júlíus keypti Atlastaði í Fljótavík ásamt frænda sínum og félaga, Jósepi Hermannssyni árið 1906 og hófu búskap þar. Samstaða og samlyndi einkenndi alla tíð sambýli Júlíusar og Jóseps og segja þeir sem til þekktu að aldrei hafi þeir vitað til þess að misklíð kæmi upp á milli þeirra.
Þessir menn voru alls ekki aftarlega á merinni hvað ýmsan aðbúnað varðaði og kom Júlíus sér upp útvarpi árið 1943. Í fyrstu var notast við rafgeyma sem bornir voru að Hesteyri til hleðslu, en seinna kom hann sér upp vinmillu til að leysa burðinn af hólmi. Í framhaldi kom talstöð í Fljóti og hægt að láta vita af sér við umheiminn og þurfti að fjárfesta í rafstöð til að fullnægja orkuþörfinni og var hún gangsett reglulega til að hlaða inn á rafgeymana. Var þetta mikil nýlunda fyrir víkurbúa, og ekki síst fyrir börnin sem hálf hræddust skellina í vélinni. Þótti þeim mikið til koma og fannst Júlíus mikil maður enda orðin "rafmagnsmaður"
Júlíus skrapp eitt sinn í höfuðborgina og var mjög forframaður þegar hann kom til baka, með hatt og staf og reffilega klæddur. Það hefur verið upplit á sveitungum hans þegar hann lýsti fyrir þeim undrum stórborgarinnar" og þegar hann fór í lyftuvél" í útvarpshúsinu, en þangað fór hann til viðtals. Viðtalið var tekið upp á stálþráð sem enn er til. Sjálfsagt hefur þótt merkilegt að ræða málin við útvegsbónda norðan af Hornströndum sem aldrei hafði komið í höfuðborgina fyrr. Júlíus þótti tala mjög fallega íslensku, kjarnyrta og ómengaða á þeim tíma. Segir sagan að rithöfundar, þar á meðal Guðmundur Hagalín, hafi komið til að fá innblástur og eins tök á þessu kjarngóða máli sem hann talaði. Er sérstaklega til tekið að Guðmundur hafi dvalið í Fljóti áður en hann skrifaði Kristrúnu í Hamravík" til að ná valdi á tungutakinu.
Högni Sturluson, ásamt mági sínum Geirmundi Júlíussyni byggðu sér heimili í Fljótavík árið 1941 og bjó þar til bændur fluttu búferlum úr víkinni 1946. Högni minntist þess hversu mikið verk var að bera á bakinu allt efnið í húsið frá sjó og upp að bæjarstæðinu. Í grunninn bar hann grjót út fjörunni, safnað var saman rekavið í rafta og sperrur en einnig var honum flett með stórviðarsög í borð. Smíðaefni var síðan keypt af Kaupfélaginu á Ísafirði og flutt með Fagranesinu í Fljót.
Högni minnist brottflutningsins úr sveitinni en segist ekki hafa tekið það mjög nærri sér enda vanur flakki frá einum stað til annars. Hinsvegar hafi þetta verið þyngri spor fyrir suma aðra þar sem menn þurftu að skilja eftir aleiguna og lífsstarfið, jafnvel með áhvílandi skuldum. Þetta var 16. júní 1946 og skildu menn féð eftir til að láta það ganga sumarlangt í grösugri sveitinni, en síðan átti að smala því að hausti og leggja endalega af búskap í Fljóti. Högni segist hafa tapað lófastórum steini, sem hann hafði rispað nafn sitt á þegar stund gafst milli stríða í verinu, við brottförina. 1999 fann Herborg Vernharðsdóttir steininn í fjörunni þar sem báturinn mun hafa flutt fólkið um borð í Fagranesið, áleiðis til nýrra heimkynna handan Djúpsins.
Herborg minnist vel þessa dags og segir menn hafa verið niðurlúta og augnablikið tregafullt. Fljótlega eftir að fjölskyldan kom til nýrra heimkynna í Hnífsdal réði hún sig til kaupavinnu, en þó með því fororði að hún færi um haustið til að smala fénu í Fljóti. Réttir fóru venjulega þannig fram að smalað var fyrst að Atlastöðum þar sem menn drógu sitt fé í dilka. Það fé sem ekki tilheyrði Atlastaðabændum var síðan rekið kringum vatnið til Tungu þar sem Tungumenn höfðu smalað sín megin. Féð var síðan rekið til Hesteyrar yfir Háuheiði þar sem það var dregið í dilka og síðan ráku menn sitt fé hver til sinna heima að Sæbóli, Miðvík, Látrum, Stakkadal eða Rekavík.
Við skulum gefa Herborgu orðið og láta hana lýsa með eigin orðum þessari síðustu smölun haustið 1946, en hún var 14 ára gömul þegar þetta var.
Ég og systir mín Þórunn fórum í september ásamt föður okkar og öðrum bændum úr Fljóti til að smala fénu og koma því til Ísafjarðar. Við komum til Fljótavíkur í blíðu veðri og gisti hópurinn í húsi Júlíusar Geirmundssonar að Altastöðum. Fljótlega eftir komuna gerði norð-austan áhlaup með þreifandi byl sem stóð yfir í vikutíma.
Þegar veðrinu slotaði var allt komið á kaf í snjó og fórum á fætur um kl. sex um morguninn til smölunar en féð hafði komið niður af fjalli undan veðrinu, og þurfti því ekki að elta það þangað. Öllu fénu var smalað í réttina í Tungu þar sem Látra féð var dregið í dilka og ráku síðan bændur sitt fé þaðan heim yfir Tunguheiði. Töluvert var farið að grisjast búskapur á þessum tíma og því ekki um mikinn fjölda að ræða.
Síðan var féð rekið til Hesteyrar þaðan sem flytja átti það til Ísafjarðar. Það var það mikill snjór upp Glúmsdalinn að ég man eftir því að hann náði í mitti þegar við vorum að koma upp brekkuna ofan við Glúmsstaðartúnið. Það varð að troða undan fénu til að koma þeim yfir fannfergið og voru sumar kindurnar bókstaflega að gefast upp. Milli klukkan níu og tíu um kvöldið komum við til Hesteyrar þar sem féð var rekið inn í rétt og restin af fé nágrannana dregið í dilka. Fagranesið átti að koma þá um kvöldið að Stekkeyri, en þar var bryggja. Ekki varð úr því þar sem svo vont var í sjóinn og var skipskomu frestað. Féð var því skilið eftir í réttinni og við fengum gistingu hjá Sölva Betúelssyni og Sigrúnu á Reiðhól. Maður var blautur sko því nú voru ekki stígvélin til að vera í. Ég man að við vorum rennandi blaut og þegar við vorum búin að borða vorum við háttuð upp í heitt og fínt rúm. En klukkan að verða eitt, þá kom kallið. Báturinn er að koma"
Það var kolniða myrkur, ég man það. Við þurftum að fara og þó Sigrún gamla á Reiðhól væri búin að vinda af okkur fötin og reyna að þurrka þau, hún tók svo rosalega vel á móti okkur, vóru þau ennþá rennandi blaut. Og takk fyrir, við urðum að fara í allt blautt en fötin voru þó heit.
Nú inn á Stekkeyri var farið með féð þar sem öllu var dengt út í bátinn og lagt af stað til Ísafjarðar. Við reyndum að leggja okkur á leiðinni en það var ekki möguleiki að sofna fyrir endalaust jarmi í rollunum. Við komum til Ísafjarðar klukkan sjö um morguninn en þá áttum við eftir að reka féð inn í sláturhús og var klukkan orðin um ellefu þegar því var lokið.
Þá fórum við systurnar labbandi heim út í Hnífsdal. Ég man ekki hvort klukkan var tólf eða hálf eitt þegar við kómum þangað en þetta var "einn" dagur í lífi mínu".
Högni Sturluson telur ástæðuna fyrir brottflutning hafa verið öryggisleysi íbúanna. Þetta var orðið dauðadæmt. Enginn læknir, engin ljósmóðir á Hesteyri" Sölvey Jósepsdóttir taldi ástæðuna vera ásamt því að unga fólkið vildi allt fara í burtu. Þá hefðu þeir gömlu mennirnir orðið einir eftir og það hefði aldrei gengið"
30.12.2013 | 14:05
Leiðari jólablaðs Vesturlands 2013
Von og Trú
Vonin er nátengd jólahátíðinni og hvort sem horft er til fæðingu frelsarans eða eldri hátíða ljóssins, þar hækkandi sól blés mönnum bjartsýni í brjóst. Með Jesú fékk mannkynið einn merkasta heimspeking sögunnar sem kynnti því hinn miskunnsama, réttláta og umburðalynda guð sem var ólíkur því sem áður þekktist. Með þessu breytti Jesú ekki bara heiminum og gildismati kristinna manna um aldur og ævi, heldur gaf hann fólki von og vakti hjá því traust með trú sinni á guð. Hann vakti virðingu fyrir einstaklingnum og lagði grunninn að vestrænni siðmenningu.
Það er mikilvægt fyrir alla að hafa von og geta litið til betri tíma þegar illa árar, eða bara þegar skammdegið hvolfist yfir og von um birtu og yl hækkandi sólar yljar sálartetrinu. Slík von í pólitík á Íslandi er mikilvæg þessa dagana. Því miður hefur stjórnmálamönnum ekki tekist að vekja slíka von í brjóstum landsmanna og skilaboðin eru óljós og óskýr og mikil óvissa á flestum sviðum. Miklar vonir voru bundnar við nýja ríkisstjórn eftir átök og hörku síðasta kjörtímabils, þar sem látið var vaða á súðum til að breyta landslagi stjórnmálanna, koma fjötrum á einstaklinginn með áætlanabúskap og skipulagi" atvinnulífsins.
Núverandi stjórnvöld þurfa að vekja þessa von hjá þjóðinni og bæta samkeppnishæfni hennar til að auka kaupmátt og lífsgæði. Slík von verður hinsvegar ekki vakin nema með trausti. Við þurfum að geta treyst því að Sjálfstæðisflokkurinn standi undir því að vera ábyrgur í efnahagsmálum. Flokkurinn þarf að útskýra fyrir þjóðinni hvernig ná á tökum á gríðarlegum efnahagsvanda landsins og þó það geti kostað tímabundna erfiðleika. Hefja sig upp úr stundarhagsmunum stjórnmálanna með hagsmuni íslensks samfélags að leiðarljósi og fullvissa þjóðina um að skammdegið sé að baki og framundan sé hækkandi sól með blóm í haga. Fólk þarf að trúa því!
Um leið og Vesturland óskar Vestfirðingum gleðilegra jóla og farsældar á komandi árum er rétt að minnast aðeins á merk tímamót hjá blaðinu. Vesturland varð 90 ára í sumar, og þó það hafi verið stofnað sem óháð blað leið ekki á löngu þar til tekin var upp ritstjórnarstefna með einkaframtaki og stétt með stétt, sem eru ein af grundavallar stefnum Sjálfstæðisflokksins. Þetta kemur vel fram í umfjöllun Hlyns Þórs hér í blaðinu og óhætt að segja að snemma hafi beygst krókurinn hvað varðar stefnu blaðsins.
Gleðileg jól
Gunnar Þórðarson
28.11.2013 | 12:58
Glæpur og refsing
Við látum ekki hefnigirni ráða þegar við dæmum menn fyrir lögbrot. Það eru einkum þrjú markmið með refsingum; fælingarmáttur til að letja menn til afbrota, koma hættulegum mönnum úr umferð og betrunarvist þar sem reynt er að bæta brotamenn og koma þeim á rétta braut. Í réttaríkinu eru síðan dómstólar óháðir löggjafa- og framkvæmdavaldi og dæma samkvæmt lagalegum rökum. Ólíkt dómstóli götunnar sem lætur augnbliks hefnigirni ráða, eiga dómara að hafa í huga að alvarlegra er að dæma saklausan mann en sýkna sekan.
Þessa dagana standa yfir réttarhöld yfir fyrrum bankamönnum sem Íslendingar telja ábyrga fyrir HRUNINU. Það er mikilvægt að refsa þeim hafi þeir brotið lög, en við verðum líka að taka því verði þeir sýknaðir að fyrrnefndum ástæðum. Það gengur ekki upp að dæma menn til að öðrum líði betur, án sektar þeirra, eins og gert var við fyrrverandi forsætisráðherra, Geir Haarde.
Annar hópur sem tengist hruninu eru ofbeldismennirnir sem brutust inn í Alþingi og voru valdir, m.a. að líkamsmeiðingum starfsmanna þingsins og lögreglumanna. Áveðið var að fella niður lögsókn, þó öllum skilyrðum væri uppfyllt hvað varðar stöðu saksóknar að meir líkur en minni voru að þeir yrðu dæmdir sekir. Þarna spilaði pólitíkin inn, þó dómstólar eigi að vera henni óháðir, enda ljóst að pólitísk öfl æstu til þessara uppþota, til að vinna pólitískum hugðarefnum sínum forgang. Nú má spyrja hvort tilgangurinn helgi ekki meðalið og þarna hafi brotist út réttlát reiði" og málið látið niður falla á þeim forsendum?
En það er engin slík réttlæting til! Fyrir 70 árum síðan ruddust Berlínarbúar út á götu og myrtu á annað hundrað gyðinga, brenndu hús þeir og lögðu hendur á eigur þeirra. Þetta var venjulegt fólk sem taldi sig með réttláta reiði" í farteskinu. Þegar Hútúar myrtu Tútsis í Rawanda árið 1994 töldu þeir sig búa yfir réttlátri reiði" og sama má segja um íbúa fyrrum Júgóslavíu sem gengu út og myrtu nágrana sína. En þetta er rangt og ekkert til sem réttlætir ofbeldisverk undir slíkum fölskum forsendum. Í myndinni Jagten er sagt frá manni sem er ranglega sakaður um glæp og hvernig samfélagið dæmir hann miskunnarlaust. Fólk fær tækifæri fyrir sína lægstu hvatir í skjóli almenningsálits augnabliksins.
Það er rétt að hugleiða þetta núna á aðventunni og hugsa til þess sem einn mesti heimspekingur sögunnar færði mannkyni hinn réttláta og umburðalinda guð sem var tilbúin að fyrirgefa þeim sem brutu af sér. Á þeim tíma, fyrir tæpum 2000 árum þekktust slíkir guðir ekki, enda miskunnarlausir og refsiglaðir. Þetta var ástæða þess að gyðingar samþykktu ekki þennan guð og bíða enn eftir sínum Messías. En Jesú breytti heiminum og gildismati kristinna manna um aldur og ævi. Ekki þannig að eingin brjóti boðorðin, heldur vitum við hvað er rétt og hvað er rangt. Við gerum ráð fyrir fyrirgefningunni látum hefnigirni ekki ráða för.
27.11.2013 | 10:42
Að fara í manninn en ekki boltann
Þegar Þorsteinn Pálsson reit einn af sínum meistarapistlum í Fréttablaðið, "Af kögunarhóli Þorsteins Pálssonar" þótti utanríkisráðherra hann sneyða full nærri Framsóknarflokknum. Í staðin fyrir að svar Þorsteini efnislega, en greinin var mjög málefnaleg, ritaði hann svívirðingar um Þorstein á bloggi sínu. Gerði lítið úr honum á alla lund, en komst algerlega hjá því að svara greininni sem slíkri.
Mér þótti svo leitt að sjá í Fréttablaðinu dag þar sem Sighvatur Björgvinsson fer á svipuðu gönuhlaupi. Umræðuefni Sighvats var umfjöllun vefsóða um Hannes Hólmstein,sem hafði vogað sér að mæta í Spegilinn til að ræða um John F. Kennedy fyrrum Bandaríkjaforseta. Þar hafði hann vogað sér að hrósa Bandaríkjunum sem samfélagi, en slíkt er dauðasök, sérstaklega í þætti sem nánast er ætlaður vinstrimönnum.
En í staðin fyrir að taka efnislega á málum fellur fyrrverandi ráðherra í þá gryfju að úthúða Hannesi sem persónu og segja af honum allskyns "sögur". Þar skiptir litlu hvort þær eru sannar eða lognar, tilgangurinn helgar meðalið. Ég hef alltaf borið virðingu fyrir Sighvati en þarna setur hann niður fyrir mér!
Við verðum að geta tekist á um málefni án þess að hnýta í menn með slíkum sóðaskap og þarna birtist.
20.11.2013 | 14:55
Samningur JPMorgan við Bandaríska ríkið
Jamie Dimon forstjóri JPMorgan bankans í BNA var þvingaður til að bjóða hæstu skaðabætur sem nokkuð fyrirtæki hefur greitt Bandaríska ríkinu og setti um leið nýtt viðmið í sektargreiðslum vegna vafasamra viðskiptahátta. 13 miljarða dollara! Það gerir rúmlega 1.6 trilljónir króna! Skilur einhver þessa upphæð?
Bankinn var tilbúin að greiða þetta, sem er reyndar aðeins hálfur hagnaður ársins, til að losna við málaferli.
3.10.2013 | 08:39
Grein í Fiskifréttum 3. okt
Hagnaður í sjávarútveg
Sjónarmið stjórnmálamannsins
Í grein í Fiskifréttum 12. september fer fyrrverandi þingmaður Vinstri grænna og fyrrverandi varaformaður Sáttarnefndar um sjávarútveg, Björn Valur Gíslason, mikinn um brýna fjárfestingarþörf í sjávarútveg. Síðan heggur hann í sömu knérum og venjulega með árásum á útgerðina og fullyrðir að ástæðan fyrir lítilli fjárfestingu sé að stjórnendur hafi notað hagnað sjávarútvegs í óskyldar greinar.
Staða sjávarútvegs
Í nýlegri skýrslu Íslandsbanka um stöðu íslenska sjávarútvegsins, kemur fram að íslenskur sjávarútvegur hafi skilað um 80 milljarða króna króna framlegð í fyrra sem er um 11,5% af vergri landsframleiðslu. Áætlað er að afkoman fyrir 2013 verði svipuð, en þetta jafngildir 26% framlegð (EBITDA). Þetta eru frábærar fréttir og gott að íslenskum sjávarútvegi gangi svona vel, sem er reyndar einsdæmi í veröldinni. Betra væri að þetta ætti við aðrar atvinnugreinar á Íslandi.
Fjárfestingar í sjávarútveg
Einnig kemur fram í skýrslunni, að fjárfesting hafi verið langt undir því sem eðlilegt gæti talist miðað við afkomu í greininni. Íslandsbanki telur ástæðurnar vera margþættar og nefnir fyrst óvissu síðustu ára vegna aðgerða stjórnvalda og eins hafi fyrirtæki lagt áherslu á að greiða niður skuldir. En fyrst og fremst sé ástæðan mikil óvissa hvað fiskveiðistjórnunarkerfið varðar og hvers konar kerfi verði við lýði í framtíðinni. Ríkisstjórnin hafi sett fram nokkuð dramatíska breytingar á þessum tíma, þó frumvarp um breytingar hafi ekki náð fram á þingi. Þetta hafi dregið úr löngun manna til að keyra áfram, enda vilji menn vita hvað er framundan"[1] Í skýrslunni er hvergi minnst á misfarir stjórnenda með hagnað.
Samkeppnishæfni sjávarútvegs
Í skýrslu sem Landsbankinn gaf út um stöðu sjávarútvegs er er talað um að óverulegur hluti hagnaðar útgerðar hafi farið í óskyldar greinar. Í þessu samhengi er rétt að líta til þess að á árunum 2004-2008 bjó íslenskur sjávarútvegur við óvenju sterkt gengi krónunnar sem dró úr samkeppnishæfni. Viðbrögðin voru margvísleg hagræðing sem bættu verðmætasköpun og stuðluðu að arðbærni og bættri samkeppnisstöðu. Í kjölfarið breytist umhverfið í einni svipan þegar gengið féll um 40% og vel straumlínulöguð atvinnugrein blómstraði. Ef ekki hefði komið til pólitísk herför vinstri stjórnar gegn sjávarútvegi í framhaldi hefði greinin fjárfest í innviðum og mannauð og stæði enn sterkari í samkeppni til framtíðar en raunin er.
Sjávarútvegur og pólitíkin
Eitt mikilvægasta verkefni stjórnvalda í dag er að eyða þeirri óvissu sem ríkir um sjávarútveg og skapa greininni heilbrigt rekstarumhverfi til framtíðar. Grundvallaratriði er að sjávarútvegur verði rekinn af öflugum fyrirtækjum í samkeppnisumhverfi þar sem hlutverk stjórnmálamanna verður að skapa eðlilegt lagaumhverfi en hafi að öðru leyti sem minnst afskipti af rekstrinum. Hafi sjávarútvegur borð fyrir báru fyrir veiðigjöld eiga þau að renna til verkefna greinarinnar. Efla rannsóknir og þróun til að auka þekkingu og mannauð sem undirstöðu fjárfestinga og efla sameiginlegt markaðsstarf. Það er þjóðhagslega hagkvæmt.
[1] Rúnar Jónsson forstöðumaður hjá Íslandsbanka
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.9.2013 | 15:52
Gengið á Eyrarfjall
Laugardaginn 14. september for ég sem fararstjóri fyrir Ferðafélag Ísafjarðar upp á Eyrarfjall ofan Ísafjarðar. Ekki var hópurinn stór þar sem einn maður fylgdi mér á fjallið. Veðrið var sérlega skemmtilegt, þó frost væri á toppnum og smá snjókoma. Snjórinn gaf þessu svolítið sérstaka ásýnd og umhverfið var allt framandi fyrir vikið.
Brúsinn sem bókin mín (sem ég kom fyrir þarna fyrir áratug síðan) er geymd í var skemmdur og bókin blaut. Ég tók hana því með til byggða og leita að nýjum umbúðum fyrir vorið.
1.8.2013 | 08:06
Grein í BB
Ráðstefna um sjávarútveg á Vestfjörðum
Hlutverk Matís
Matís er fyrirtæki sem vinnur að rannsóknum, þróun (R&Þ) og nýsköpun, aðallega í matvælavinnslu með mikla áherslu á sjávarútveg. Hlutverk fyrirtækisins er að efla samkeppnishæfni íslenskra afurða og atvinnulífs, bæta lýðheilsu og tryggja matvælaöryggi og sjálfbæra nýtingu umhverfisins. Hjá Matís starfa vísindamenn á mörgum sviðum og fyrirtækið rekur starfstöðvar um allt land og meðal annars í Ísafjarðarbæ og Vesturbyggð. Starfstöðvum má lýsa sem tengilið milli hugar og handar, þar sem atvinnulífi á Vestfjörðum býðst tenging við rannsóknarstofnun með mikla þekkingu og reynslu.Atvinnulíf Vestfjarða byggir á sjávarútvegi, sem skapar meira en helming tekna í fjórðungunum og allt að 75% með tengdum greinum.
Það er því gríðarlega mikilvægt að sjávarútvegur hér dafni og eitt af grundvallaratriðum varðandi tekjur framtíðar er að R&Þ og nýsköpun sé hluti af starfsemi fyrirtækjanna. Það er hagur almennings að hámarka verðmætasköpun í mikilvægustu atvinnugrein þjóðarinnar, sjávarútvegi. Vestfirðingar þjóna nú kröfuhörðum mörkuðum, s.s. ferskum flakastykkjum og makríl, en þessar vörutegundir byggja báðar á rannsóknum og þróunarvinnu sem fyrirtæki hafa unnið í samstarfi við Matís.
Sjávarútvegur á Vestfjörðum
Þó flest snúist um sjávarútveg á Vestfjörðum koma starfsstöðvar Matís þar víðar að málum. Á suðurfjörðunum er mikil áhersla á fiskeldi og vinnur Matís með fyrirtækjum á því sviði. Á norðanverðum fjörðunum hefur fyrirtækið komið að R&Þ með fyrirtækjum eins og 3X Technology við að þróa búnað til að bæta gæði fisks, t.d. blóðgunar og kælitönkum. Sú vinna hefur þegar skilað 3X Technology verkum fyrir stærri línubáta og togara, þar sem straumhvörf hafa orðið í meðferð á afla um borð. Nú er horft til smábátaflotans þar sem nokkuð verk er óunnið, enda gætu bátar verið betur búnir til að hámarka gæði og verðmæti afla. Með rannsóknum hefur verið sýnt fram á að rétt blóðgun og kæling hefur umtalsverð áhrif á gæði hráefnis, sem tengist gæðum þeirra afurða sem framleidd eru úr hráefninu. Illa blóðgaður fiskur hefur blóðroða í holdi, sem bæði skemmir útlit og bragð og kemur niður á geymsluþoli vöru. Ljóst er að þeir markaðir sem best borga, s.s. markaðir með kælda fiskbita, taka ekki við og myndu aldrei taka við því hráefni sem landað er illa blóðguðu og illa ísuðu.
Smábátaflotinn
Sérstök áhersla er einmitt á smábátaflotann hér á Vestfjörðum og mun Matís beita sér fyrir átaki til að bæta meðhöndlun um borð í smærri bátum. Nýleg úttekt MAST sýnir að 70% af strandveiðiflota ísar fisk nægjanlega til að kæla hann niður fyrir 4°C, sem eru miklar framfarir frá síðasta ári. En eftir stendur að 30% flotans er að koma með illa ísaðan lélegan afla að landi. Umfram viðmið í reglugerð, ætti metnaður sjómanna og útgerðarmanna að standa til þess að landa fiski við sem lægst hitastig, eins nálægt 0°C og kostur er, því við þær aðstæður geymast þau gæði sem fiskurinn býr yfir best.
Matís hefur unnið verkefni á sviði grásleppuveiða og vinnslu, sem er mikilvæg atvinnugrein hér á Vestfjörðum. Þar eru áskoranir sem fyrirtækið vill takast á við í samvinnu við Landssamband smábátaeiganda og aðra hagsmunaaðila í greininni.
Samvinna við AtVest
Matís hefur lagt sérstaka áherslu á samvinnu við Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða og hefur unnið að verkefnum studdum af Vaxtasamningi Vestfjarða. Í framhaldi af þeirri samvinnu mun Matís ásamt Sjávarútvegsklasa Vestfjarða, 3X Technology og Atvinnuvega og nýsköpunarráðuneytinu standa fyrir ráðstefnu um R&Þ ásamt gæða- og markaðsmálum. Ráðstefnan verður haldin hér á Ísafirði föstudaginn 6. september þar sem fjöldi manna úr sjávarútveg og tengdum greinum munu halda fyrirlestra. Hugmyndin er að vekja áhuga á nýsköpun með rannsóknar og þróunarstarfi í sjávarútvegi með áherslu á gæða- og markaðsmál. Við þurfum að horfa til framtíðar og velta fyrir okkur hvernig við getum þjónað kaupendum vestfirsks fisks sem best. Hverjar eru væntingar þeirra og hvernig getum við uppfyllt þær á sem bestan hátt. Það er grundvöllur fyrir verðmætasköpun í greininni og verður undirstaða lífskjara íbúa fjórðungsins.
Arnljótur Bjarki Bergsson
Gunnar Þórðarson
30.7.2013 | 08:51
Grein í BB
Ráðstefna um sjávarútveg á Vestfjörðum
Hlutverk Matís
Matís er fyrirtæki sem vinnur að rannsóknum, þróun (R&Þ) og nýsköpun, aðallega í matvælavinnslu með mikla áherslu á sjávarútveg. Hlutverk fyrirtækisins er að efla samkeppnishæfni íslenskra afurða og atvinnulífs, bæta lýðheilsu og tryggja matvælaöryggi og sjálfbæra nýtingu umhverfisins. Hjá Matís starfa vísindamenn á mörgum sviðum og fyrirtækið rekur starfstöðvar um allt land og meðal annars í Ísafjarðarbæ og Vesturbyggð. Starfstöðvum má lýsa sem tengilið milli hugar og handar, þar sem atvinnulífi á Vestfjörðum býðst tenging við rannsóknarstofnun með mikla þekkingu og reynslu.Atvinnulíf Vestfjarða byggir á sjávarútvegi, sem skapar meira en helming tekna í fjórðungunum og allt að 75% með tengdum greinum.
Það er því gríðarlega mikilvægt að sjávarútvegur hér dafni og eitt af grundvallaratriðum varðandi tekjur framtíðar er að R&Þ og nýsköpun sé hluti af starfsemi fyrirtækjanna. Það er hagur almennings að hámarka verðmætasköpun í mikilvægustu atvinnugrein þjóðarinnar, sjávarútvegi. Vestfirðingar þjóna nú kröfuhörðum mörkuðum, s.s. ferskum flakastykkjum og makríl, en þessar vörutegundir byggja báðar á rannsóknum og þróunarvinnu sem fyrirtæki hafa unnið í samstarfi við Matís.
Sjávarútvegur á Vestfjörðum
Þó flest snúist um sjávarútveg á Vestfjörðum koma starfsstöðvar Matís þar víðar að málum. Á suðurfjörðunum er mikil áhersla á fiskeldi og vinnur Matís með fyrirtækjum á því sviði. Á norðanverðum fjörðunum hefur fyrirtækið komið að R&Þ með fyrirtækjum eins og 3X Technology við að þróa búnað til að bæta gæði fisks, t.d. blóðgunar og kælitönkum. Sú vinna hefur þegar skilað 3X Technology verkum fyrir stærri línubáta og togara, þar sem straumhvörf hafa orðið í meðferð á afla um borð. Nú er horft til smábátaflotans þar sem nokkuð verk er óunnið, enda gætu bátar verið betur búnir til að hámarka gæði og verðmæti afla. Með rannsóknum hefur verið sýnt fram á að rétt blóðgun og kæling hefur umtalsverð áhrif á gæði hráefnis, sem tengist gæðum þeirra afurða sem framleidd eru úr hráefninu. Illa blóðgaður fiskur hefur blóðroða í holdi, sem bæði skemmir útlit og bragð og kemur niður á geymsluþoli vöru. Ljóst er að þeir markaðir sem best borga, s.s. markaðir með kælda fiskbita, taka ekki við og myndu aldrei taka við því hráefni sem landað er illa blóðguðu og illa ísuðu.
Smábátaflotinn
Sérstök áhersla er einmitt á smábátaflotann hér á Vestfjörðum og mun Matís beita sér fyrir átaki til að bæta meðhöndlun um borð í smærri bátum. Nýleg úttekt MAST sýnir að 70% af strandveiðiflota ísar fisk nægjanlega til að kæla hann niður fyrir 4°C, sem eru miklar framfarir frá síðasta ári. En eftir stendur að 30% flotans er að koma með illa ísaðan lélegan afla að landi. Umfram viðmið í reglugerð, ætti metnaður sjómanna og útgerðarmanna að standa til þess að landa fiski við sem lægst hitastig, eins nálægt 0°C og kostur er, því við þær aðstæður geymast þau gæði sem fiskurinn býr yfir best.
Matís hefur unnið verkefni á sviði grásleppuveiða og vinnslu, sem er mikilvæg atvinnugrein hér á Vestfjörðum. Þar eru áskoranir sem fyrirtækið vill takast á við í samvinnu við Landssamband smábátaeiganda og aðra hagsmunaaðila í greininni.
Samvinna við AtVest
Matís hefur lagt sérstaka áherslu á samvinnu við Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða og hefur unnið að verkefnum studdum af Vaxtasamningi Vestfjarða. Í framhaldi af þeirri samvinnu mun Matís ásamt Sjávarútvegsklasa Vestfjarða, 3X Technology og Atvinnuvega og nýsköpunarráðuneytinu standa fyrir ráðstefnu um R&Þ ásamt gæða- og markaðsmálum. Ráðstefnan verður haldin hér á Ísafirði föstudaginn 6. september þar sem fjöldi manna úr sjávarútveg og tengdum greinum munu halda fyrirlestra. Hugmyndin er að vekja áhuga á nýsköpun með rannsóknar og þróunarstarfi í sjávarútvegi með áherslu á gæða- og markaðsmál. Við þurfum að horfa til framtíðar og velta fyrir okkur hvernig við getum þjónað kaupendum vestfirsks fisks sem best. Hverjar eru væntingar þeirra og hvernig getum við uppfyllt þær á sem bestan hátt. Það er grundvöllur fyrir verðmætasköpun í greininni og verður undirstaða lífskjara íbúa fjórðungsins.
Arnljótur Bjarki Bergsson
Gunnar Þórðarson
26.7.2013 | 07:08
Verðmætasköpun í sjávarútveg
Velgengni íslensks sjávarútvegs
Í umræðu um sjávarútvegsmál er mikið rætt um að auðlindin sé eign þjóðarinnar, og reyndar tekið fram í lögum um fiskveiðistjórnun. Það er gott og vel, enda um grunnatvinnugrein Íslendinga að ræða og afkoma sjávarútvegs ræður miklu um efnahag og lífskjör þjóðarinnar. Það er því miður að umræða skuli ennþá vera í þeim farvegi sem hún hefur haldist á undanfarna áratugi, og snýst ennþá að miklu leyti um frasa og sleggjudóma um þá aðila sem starfa í greininni. Hluti þjóðarinnar sér ofsjónum yfir velgengni sjávarútvegs sem byggir á þeirri hagræðingu sem fiskveiðistjórnun hefur skilað síðan kvótakerfið var sett á 1984. Skipulag fiskveiða hafa gert Íslendinga fremsta í heiminum á sviði sjávarútvegs, með markaðsdrifna virðiskeðju og verðmætasköpun sem engin önnur atvinnugrein á Íslandi keppir við.
Framleiðni á Nýfundnalandi
Á Nýfundnalandi búa um tvöfalt fleiri íbúar en á Íslandi, og sjávarútvegur er þeirra undirstöðu- atvinnugrein. Sjávarútvegur þar skilaði um 90 milljörðum króna í útflutningsverðmæti árið 2012 og rúmlega 20.000 manns störfuðu við veiðar og vinnslu, svipaður fjöldi í hvoru um sig. Íslendingar fluttu út sjávarafurðir fyrir um 277 milljarða króna og í greininni störfuðu samtals um 9.000 manns. Ef þetta er borið saman þyrfti rúmlega 60.000 manns á Íslandi til að vinna þessi verðmæti miðað við sömu framleiðni. Reyndar hefðu þá fleiri vinnu við sjávarútveg, en allir Íslendingar væru umtalsvert fátækari. Staðreyndin er sú að íbúar Nýfundnalands fá helminginn af öllum rekstrarkostnaði samfélagsins sendan frá alríkisstjórninni í Ottawa, en Íslendingar hafa engan slíkan bakhjarl til að byggja á!
Markaðsdrifin virðiskeðja
Eitt af því sem mestu máli skiptir, fyrir utan fiskveiðistjórnun, er öflugt markaðstarf Íslendinga, sem byggir á gæðum; þar sem varan og afhendingaröryggi eru grundvallar atriði. Að afhenda vöruna eftir þörfum neytenda skapar auðlegð íslensks sjávarútvegs. Oft er talað um að íslenskur sjávarútvegur sé markaðsdrifinn en t.d. á Nýfundnalandi væri hann þá auðlindadrifinn. Margt bendir til þess að vestfirskur sjávarútvegur sé einmitt auðlindadrifinn og virðist standa höllum fæti miðað við meðaltal á Íslandi.
Gæðavandamál á norðanverðum Vestfjörðum
Getur verið að hluti af því vandamáli endurspeglist í því mokfiskiríi sem dagróðrabátar hafa stundað á norðanverðum Vestfjörðum í sumar. Línubátar með þrjá menn á eru að róa með 48 bala og landa upp undir 20 tonnum á dag, stundum eftir að fara þurfti tvær ferðir af miðunum með aflann. Myndir hafa gengið á netinu af mokinu þar sem þessir menn eru að landa íslausum fiski í mjölpokum, og standa uppundir klof í fiskstabbanum. Þetta er hrollvekja sem minnir á gamlar myndir af netavertíð í Eyjum þar sem fiski var ekið á tún, enda stundaðar ólympískar veiðar og keppnin um tonnin í algeymi. Fjölmiðill eins og þetta góða blað (Fiskifréttir) talar um Glæsilegt aflamet" hjá bátum, sem eru með meiri meðaltalsafla yfir mánuðinn en báturinn getur borið. Á þessu svæði róa menn með eitt ísker, um 400 kg af ís, til að kæla niður afla allt að 22 tonnum, og sjávarhiti er um 8-10°C. Fæstir þeirra eru með blóðgunarker um borð og því eru þeir að landa illa blóðguðum og ísuðum afla, sem er síðan slægður í dauðastirðnun.
Hugarfarsbreyting nauðsynleg
Það er langt síðan hugafarsbreyting varð um borð í togurum landsins þar sem keppst var við að landa sem flestum tonnum. Togarar í dag taka hæfilega stór höl, eru með mælitæki til að fylgjast með afla í veiðarfærum, og eru með fullkominn búnað til að blóðga og snöggkæla fiskinn þar sem gengið er frá honum í ker við fyrsta flokks aðstæður. Það ætti að vera okkar átaksverkefni, eiganda auðlindarinnar, að bæta hér úr og stöðva illa meðferð á afla. Mikilvægt er að fjölmiðlar taki þátt í þeirri hugarfarsbreytingu sem þarf til að stöðva illa meðferð á auðlindinni, sameign þjóðarinnar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Um bloggið
Gunnar Þórðarson
Tenglar
Hallgrímur bláskór 2012
- Gengiðr úr Hornvík í Kjaransvík
- Kjaransvík - Sæból
- GEngið á Ryt og Darra
- Gengið á Straumnesfjall
- Gengið á brúnir Grænuhlíðar
Smölun í Austurdal
- Austurdalur -2010 Dagur 1 Smölun í hinum ægifargra Austurdal suður af Skagafirði
- Austurdalur - 2010 Dagur 2 Annar dagur smalamensku í Austurdal í Skagafirði
- Austurdalur -2010 Dagur 3 Lokadagur smölunar fyrir Austudalsfélagið í Skagafirði
- Föstudagur 2011 Smalaferð Göngumannafélags Austurdals í september 2011
- Laugardagur í Austurdal 2011 Smalaferð Göngumannafélags Austurdals í september 2011
- Sunnurdagur í Austurdal - 2011 Smalaferð Göngumannafélags Austurdals í september 2011
- Mánudagur 2011 Smalaferð Göngumannafélags Austurdals í september 2011
Skútukaupin 1976
Við félagarir, undirritarðu, Jón Grímsson og Hjalti Þrórðarson keyptum skútu í Bretlandi og sigldum henni heim til Íslands
- Kafli 1 - Skútukaupin undirbúin
- Kafli 2 - England
- Kafli 3 - lagt í siglinguna miklu
- Kafli 4 - Captain Thordarson
- Kafli 5 - Siglt í norður
- Kafli 6 - Færeyjar - Ísland
- Kafli 7 - Siglt til Ísafjarðar
Ísrael 1974
Sagt frá ævintýri okkar Stínu, Nonna Gríms og Hjalta Bróður þegar við ókum yfir Evrópu 1974. Fórum frá Aþenu til ísrael og unnum þar á samyrkjubúi.
- Kafli 1 - Mótorhjólagengið
- Kafli 2 - Júgóslavía, Grikkland og Ísrael
- Kafli 3 - Á kibbutz undir Gólanhæðum
- Kafli 4 - Í kjölfar árásarinnar
- Kafli 6 - Maðurinn með ljáinn
- Kafli 5 - Endurfundir
- Kafli 7 - Frá rauðu ljósi í Milanó
- Kafli 8 - Fjölskyldu og varnarmál
- Kafli 9 - Vinna í Elat
- Kafli 10 - Daglegt líf á Shamir
- Kafli 11 - Til Grikklands
- Kafli 12 - Sögulok í London
Að Fjallabaki 2012
Suður um höfin 1979
Frá ferðalagi okkar Stínu á seglskútunni Bonny frá Ísafirði til Mallorca í Miðjarðarhafi
Sigling frá Mallorka til Grikklands
- Kafli 1 - lagt af stað til Ítalíu Fimm félagar sigldu Bonny frá Spánar til Grikklands
- Kafli 2 - Sikiley og Grikkland
- Kafli 3 - Kea og Paros
- Kafli 4 - Santorini
Safaríferð í Úganda
- Ferð til Murchison Falls - fyrri hluti Safaríferð inn í frumskóg Úganda
- Ferð til Murchison Falls - seinni hluti
Hálendisferð 2010
- Gengið á Fimmvörðuháls Eldstöðvar Fimmvörðuháls skoðaðar
- Skaftafell og Kristínartindar Gengið á Kristínartinda
- Gengið á Mælifell Ekið Fjallabak syðra norður fyrir Mýrdalsjökul
- Friðland að Fjallabaki Gengið um við Landmannalaugar
- Gengið á Löðmund Gengið á Löðmund við Dómadal
- Gengið á Snæfell Gengið á hæsta fjall Íslands utan jökla, Snæfell
- Gengið í Geldingarfell Ferð um Lónsörævi með frábærum hópi, sumarið 2010
- Gengið í Egilssel Gengið úr Geldingafelli í Egilssel við Lónsöræfi
- Gengið niður Lónsöræfi Þriggja daga göngu norðan og austan Vatnajökuls lokið
Sri Lanka 2007
- Sri Lanka 2006-2008 Starfað á Sri Lanka
Bloggvinir
- astromix
- ekg
- stefanbjarnason
- golli
- vikari
- gunnarpetur
- vestfirdir
- gudni-is
- ea
- ladyelin
- gp
- altice
- hjolaferd
- kaffi
- komediuleikhusid
- rabelai
- ziggi
- huldumenn
- helgi-sigmunds
- sigrunzanz
- hordurhalldorsson
- baldher
- hjaltisig
- lotta
- kjarri
- bjarnimax
- jovinsson
- smjattpatti
- eirmor
- vefritid
- saemi7
- siggisig
- maggij
- lehamzdr
- contact
- gauisig
- jonvalurjensson
- thjodarskutan
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (2.2.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 27
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 8
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar