Fjör á sunnudegi

Gunnar á Mount LaviniaVið Stína byrjuðum þennan sunnudag á morgunverði í boði Surie, vinkonu Aury. Á borðum voru hoppers sem er Sri Lankan speciality, sem búið er til úr hrísgrjónum.

Á leiðinni til þeirra sáum við krókódíla syndandi um síkin, en þau búa í vatnsmýrinni í Colombo. Það var létt yfir þessum félagsskap og engin varkárni eða varnarmúrar á milli okkar og fjölskyldunnar. Benny er eiginmaðurinn og þau eiga son og dóttir sem snæddu með okkur. Brandar fuku og engin menningar vandræði í þessum félagsskap. Við erum bara hluti af fjölskyldunni og þá ríkir algert traust.

 

 

Við Stína fórum síðan á Hotel Mount Laviania sem áður hefur verið sagt frá á þessari síðu, og er glæsilegt strandhótel sem áður hýsti landstjóra Breta hér í landi. Hann átti ástkonu sem var af Portúgölsku bergi brotin og hét Lavinia.

Staðir eins og Mount Lavinia eru ekki til á hefðbundnum ferðamannastöðum Íslendinga, eins og á Spáni eða Ítalíu. Glæsileiki og ótrúlega ljúf þjónusta einkennir þennan fyrrverandi landstjórabústað.

stormur á LaviniaVið vorum varla sest og búin að panta okkur kaldan bjór þegar stormur skall á. Allt lauslegt fauk yfir sundlaugina og staðurinn var í hers höndum. Rafmagnið fór af í miðju lagi, Körukvæði, og kom á óvart að hljómsveitin kynni svona tippikal ,,Íslenskt" lag. En þetta jók bara á upplifunina og við ákváðum að kíkja á ströndina, þrátt fyrir storminn.

Við settumst inn á Seafood Cove sem áður hefur verið sagt frá og birtar myndir af dásamlegu sjávarfangi sem boðið er upp á hvert kvöld vikunnar. Í þetta sinn létum við disk af djúpsteiktum rækjum með bjór duga. Staðurinn er strandbar undir suðurhlíð hótelsins og öldurnar gengu nærri því inna á gólfið hjá okkur. Við vorum einu gestirnir að þessu sinni, enda ekki allir sem hafa gaman af óveðri á strönd, eins og við. Ég tel mig mjög glöggan á veður, gamall togarajaxl, og ákvað að þetta væru átta vindstig á Bufourd skala. Ég hef ekki enn lært inn á þessa metra á sekúndu og læt aðra eftir að reikna það út. Þakið á matsölustaðnum er ofið úr pálmablöðum og þrátt fyrir helli rigningu var þurrt og notalegt inni. Veggirnir eru bambusmottur og virkuðu sem góð vörn gegn óveðrinu.

Í kvöld bjóðum við þeim félögum, Ronny og Dan, út í kvöldverð þannig að nóg er að gera hér við miðbaug  jarðar. Reyndar minnir veðrið á Hornstrandir, fyrir utan hitastigið, S.V. súldar fýla.

Matseðilinn á Seafood CoveÉg hef verið að hugsa um Búddismann og þá kenningu að með góðri hegðun í þessu lífi auki maður líkurnar á því að njóta þess næsta. Tuddist maður í gegnum lífið endar maður sem hundur eða padda. Með endurtekinni góðri hegðun tekur við betra og betra líf þar til maður nær Nirvana, sem er fullkomleikinn.

Ég er farin að halda að ég hafi náð því þó langt sé frá því að ég hafi áunnið mér það með góðri hegðun. Nema það hafi verið á stigum fyrri lífa.

En ég ætla að njóta þess þó ég eigi það ekki skilið.


Leikið á bragðlaukana

Kvöldverður StínaTrans Asia stóð undir væntingum í gærkvöldi. Hótelið sjálft er ótrúlega glæsilegt á hvert sem litið er. Fágaður mjúkur arkitektúr með austurlensku yfirbragði. Úti við sundlaug er sjávarréttarveitingahús með sýnishorni af öllum þeim fisktegundum sem standa til boða. Fiskurinn hreinlega ilmaði af ferskleika og þar mátti sjá humar, rækjur, smokkfisk, red snapper og margar aðrar tegundir. Kvöldið var notalegt með 28° hita og upplýst sundlaugin blasti við borðinu okkar upp á svölum yfir hótelgarðinum.

Og svo byrjaði veislan. Þetta var eins og að hlusta á Pavarotti syngja Nessun Dorma. Svona tilfinning sem færir manni gæsahúð. Bragðlaukarnir voru hreinlega teknir og þeytt upp í hæstu hæðir í ákafa og tilfinningaflóði. Maður trúði ekki sínu eigin bragði og þetta var bara forrétturinn. Við skoluðum þessu niður með hvítvíni frá Chile sem lék undir með fiskréttunum og fyllti vel upp í allar eyður sem skildar voru eftir fyrir bragðlaukana.

Nú var komið að aðalréttingum sem var humar. Ég hafði tekið humar sem kryddaður var með karrý en Stína tók tanduri eldaðan. Það var ekki bara spilað á bragðlaukana hér heldur fékk sjónin sinn skerf. Kvöldverðurinn var hreinlega listaverk og borin fram með notalegri þjónustu. Þetta var fullkomið kvöld enda  félagsskapurinn frábær, sem enst hefur í rúm 30 ár. Getið af sér þrjú börn, eitt Humarbarnabarn og annað á leiðinni.


Málverk og blóm

Það gefst lítill tími til að meitla í Google steininn þessa dagana. Bæði er mikið um að vera í vinnunni og eins er eiginkonan í heimsókn og nauðsynlegt að draga hana um áhugaverða staði hér í borginni, sem nóg er af.

Gunnar með blómVið Kumara sóttum hana á flugvöllinn fyrir allar aldir á miðvikudagsmorguninn.  Það var seinkun á fluginu og því þurfti ég að bíða í rúma tvo tíma á flugvellinum.  Það var reyndar selt inn í móttökusalinn fyrir komufarþega.  Þetta var stór salur og stólar í mörgum röðum fyrir þá sem biðu eftir ættingjum og vinum á leið heim frá hinum ýmsu stöðum. Næstu vélar á undan voru að koma frá Kuwait og Dubai.  Töluvert af múslimum og konum  með blæjur fyrir andlitinu. En það sem vakti athygli mína var stanslaus straumur af fólki sem streymdi inn úr fríhöfninni með ískápa, þvottavélar, þurrkara, eldavélar og ýmis önnur heimilistæki. Þessu var ekið á stórum handvögnum og venjulega porter með til að stýra vagninum. Þetta hafði ég aldrei séð áður á flughöfn.

Ég frétti síðar að eitt af stærstu útflutningsgreinum Sri Lanka eru starfsmenn. Fólk sem fer og vinnur í öðrum löndum og sendir peningana sína heim. Venjulega eru þetta láglaunastörf en fólkið lifir nánast á engu og sendir hýruna til fjölskyldu sinnar heima. Ríkisstjórnin verðlaunar þetta fólk með því að veita þeim leyfi til að versla tæki við heimkomuna, og því lengur sem það er því meira getur það keypt, tollfrjálst. Þeir sem eru í eitt ár geta keypt ísskáp en þeir sem eru í þrjú ár kaupa heila búslóð.

Talandi um þetta þá kom það í ljós þegar eiginkonan fór að ræða málin við þjónustukonuna, Pam, um lífið og tilveruna að hún er nýkomin heim úr sautján ára útlegið í arabalandi. Hún vann sem þjónustukona og sá um að ala börnin upp fyrir ekkil. Hún var ánægð með dvölina en fjarvera frá fjölskyldunni var að sjálfsögðu erfið.  Það voru síðan ættingjarnir sem kröfðust þess að hún kæmi heim til Sri Lanka og vinnan fyrir okkur Stínu er sú fyrsta sem hún fær við heimkomuna. Reyndar líkar mér svo vel við vinnu hennar að ég hækkaði launin um 25% við síðustu mánaðarmót.

Við Stína snæddum hádegisverð á Resturant Gallery sem er frægur staður hér í borg. Í kvöld verður farið á fyrsta flokks Indverskan stað sem er á Tans Asian hótelinu sem stendur beint á móti Gull Face við ströndina hér í Colombo. Við höfum verið á fullu í dag við gera íbúðina heimilislega með kaupum á málverkum og blómum.  Þetta er svona ,,woman touch"


Einn dagur á Sri Lanka

morgun 001Ég hef fengið ábendingar um að skrifa meira um hvað ég sé að gera hér á Sri Lanka, og þá sérstaklega í vinnunni.  Svo það er best að lýsa einum dæmigerðum sólarhring  í mínu lifi hér.

Í gærkvöldi hitti ég tvo félaga úr friðaðgæsluliðinu á Sri Lanka.  Starfandi yfirmann (Actin Head of Mission) og talsmann (Press and Information Officer) fyrir SLMM (Sri Lanka Monitoring Mission)  Við borðuðum saman á Mango Tree, Indveskum matsölustað hér rétt hjá. Ég reyndar labbaði mig til fundar við þá, enda aðeins um 15 mínútna gangur. Þó götulýsingin sé ekki merkileg hér er maður öruggur með sig í skuggalegum götunum, enda hermaður á 30 metra fresti. Maturinn var frábær en þetta er einn af betri matsölustöðum bæjarins.

Ég var kominn heim rúmlega tíu og náði fréttunum á BBC kl. hálf ellefu.  Síðan var að láta sig líða inn í draumalandið enda dagurinn er tekin snemma.  Ég vaknaði fyrir hálf sjö og náði þá aftur fréttunum sem byrja alltaf á hálfa tímanaum. (það munar fjórum og hálfum tíma á Englandi og Sri Lanka)

morgun 002Klukkan korter í sjö var ráðskonan mætt til að útbúa morgunmatinn.  Hún kemur ávallt færandi hendi með dagblaðið með sér, Daily Mirror, og ég næ að lesa forsíðuna áður en morgunmaturinn er tilbúinn.  Það er mikið af ávöxtum á borðum og einnig egg og jógúrt.  Hér er drukkið te þannig að ég klára að lesa blaðið yfir tebollanum áður en haldið er af stað í vinnuna.

Kumara bíður með bílhurðina opna rétt fyrir hálf átta.  Það tekur aðeins nokkrar mínútur að aka í vinnuna svona snemma, enda traffíkin ekki byrjuð.  Klukkan er rétt rúmlega hálf átta þegar ég kem niður í sendiráð þar sem vinnustaðurinn er.

Það var stafsmannafundur klukkan níu og síðan undirbúningur fyrir fund með Dr. Ranjith, yfirmann gæðaeftirlits NARA, head of Post harvesting division.  Sá fundur var klukkan þrjú þannig að góður tími gafst til að borða hádegismat í Swimming Club.  Ég fékk reyndar hringingu frá ritara klúbbsins um að umsókn mín um inngöngu hefði  fengið jákvæða umfjöllun.  Nú get ég sótt formlega um en fyrsta sían snýst um að samþykkja mig sem umsækjanda.  Forseti klúbbsins mun skoða umsókn mína og  síðan verður stjórnarfundur í klúbbnum til að taka ákvörðun.  Inngöngugjaldið er 1500 dollarar en þangað til að það verður er ég háður einhverjum klúbbfélaga til að bjóða mér.

sendiráðiðKlukkan er langt gengin í fimm þegar fundi með Ranjith lýkur og þá er ýmislegt uppsóp eftir og nokkur símtöl við Ísland.  Vegna tímamismunar er ekkert samband heim fyrr en eftir hádegi að okkar tíma.  Við Ranjith vorum meðal annars að skipuleggja þjálfunarferð tveggja sérfræðinga NARA til Íslands.  Íslenskir ráðgjafar koma að málinu þannig að nauðsynlegt er að láta alla hluti ganga upp og skipuleggja málið vel.

Ég var kominn heim rúmlega hálf sex og tími fyrir sundsprett á annarri hæðinni áður en sest er við tölvuna til að blogga.  Í fyrramálið leggjum við Kumara af stað klukkan fimm til að sækja eiginkonuna á flugvöllinn, en hún er að koma í tveggja vikna heimsókn.


Singapúr mótelið

 

SingapúrHér á Sri Lanka heyri ég oft talað um Singapúr og velgengni þessa litla borgríkis í efnahagslegu og pólitísku samhengi og hvernig Singapúr mótelið hefur virkað þjóðinni til góðs. Reyndar skildi ég það á mönnum hér að Singapúr hefði litið til Sri Lanka í leit að fyrirmynd við stofnun ríkisins.

Ég las athyglisvert viðtal sem sérfræðingur Inernational Herald Tribune átti við Lee Kuan Yew, sem gegndi embætti forsætisráðherra frá stofnun Singapúr 1959 til 1990, undir fyrirsögninni ,,við litum til Sri Lanka"  Hann heldur því fram að Singapúr ætti samkvæmt öllum lögmálum ekki vera til. Þjóðin hafi ekki þann grunn sem þurfti til að stofna ríki. Singapúr er ekki uppskrift fyrir þjóð þar sem íbúarnir koma víða að, frá suður- Kína, Indlandi, Pakistan og Bangladess. Klofin niður hvað varðar menningu og tungumál og eiga sér ólík söguleg örlög. Og ekki síður er borgríkið á mikilvægum hernaðarlegum og viðskiptalegum stað sunnarlega í Asíu og tengir sjóleiðir Indlandshafs og Kyrrahafsins, sem er efnahagslega gott en ógnvekjandi fyrir þá í mörgu tilliti.

map-singaporeForsenda tilveru Singapúr telur Lee liggja í alþjóðalögum og samtökum eins og Öryggisráði S.Þ. ásamt stöðuleika á svæðinu sem heldur verndarhendi yfir þeim smáu gegn þeim stóru. Við sjálfstæðið var byrjað á að stofna utanríkisráðuneyti  til að tryggja stuðning alþjóðasamfélagsins og síðan að hervæðast. Koma upp varnarstefnu og eftirliti til að geta uppgötvað ógn í tíma og varist þar til hjálp bærist. (sjálfsagt frá B.N.A.)

En það er ekki nóg ef þjóðin er sundruð og þjökuð af innanlandsátökum. Lee telur það hafa verið lán Singapúr hversu seint þeir fengu sjálfstæði sitt. Þeir höfðu vítin til að varast og þar kemur að Sri Lanka sem ,,fyrirmynd"  Þeir sáu hvað var að gerast á Sri Lanka með þjóðernisátökum milli Sinhala og Tamila. Þar sem rómatíkin yfirtók skynsemina og eitt það versta sem gert var hér í  landi var að afnema ensku og gera Sinhala að þjóðtungu.  Sú ákvörðun var ekki bara sem olía á eld í þjóðernisátökum, heldur dró verulega úr samkeppnishæfni þjóðarinnar á tímum alþjóðarvæðingar.

Singapúr tók ensku upp sem þjóðtungu. Þeir kalla það að vísu vinnumál, en allir skólar kenna á ensku og séð til þess að allri læri það tunguál, óháð menningarlegum uppruna fólks. Þetta ásamt fullkomnu trúfrelsi er lykillinn að sameiningu þjóðarinnar. Ef kínverska hefðir verið tekin upp hefði það kostað átök og eins gert Singapúr menningarlega háða Kínverjum .

Lee segir að strax hafi myndast menningarlegur munur milli sín og barna sinna, en munurinn sé enn meiri milli þeirra og þeirra afkomenda. Það er orðin til ný menning í Singapúr sem á sér enga fyrirmynd. Ólíkt mörgum öðrum ríkjum í kring, eins og Malasíu, ríkir stöðugleiki og friðsemd í Singapúr. Efnahagslegur uppgangur er einstakur í landinu en Lee telur að harðar leikreglur í samfélaginu séu nauðsynlegar með ólíkan uppruna íbúana í huga. Aðspurður um hvernig honum lítist á framtíðina fyrir Singapúr segist hann ekki geta spáð um það.  Singapúr er einstök og engin samanburður til. Við höfum losaða landfestarnar (gömlu menningarheimana) og siglum því óþekktan sjó inn í framtíðina.

 Þetta er umhugsunarefni fyrir Sri Lanka sem líður fyrir þjóðernisátökin í landinu. Átök sem verða aldrei útkljáð með hernaði.  Eina leiðin til að koma á friði er að viðurkenna menningu hins aðilans en byggja ef til vill á nýrri til framtíðar.  Á Sri Lanka eru það Sinhalar sem halda um stjórnvölin en þeir eru buddatrúar. Tamilar eru fjölmennir og koma frá suður Indlandi og eru hindúar. Einnig er allstór hópur múslímar í landinu en tungumál þeirra er tamil.

 



Efnahagsmálin á Sri Lanka

Svimming ClubFyrir utan átökin í norðri við Tamil Tígra er það verðbólgan og efnahagsmálin sem eru fyrirferðamest á síðum dagblaðana hér. Verðbólga mælist í 17.3% og hefur farið vaxandi. Á sama tíma er erlend skuldasöfnun ríkisins mikil á meðan verulega hefur dregið úr erlendum fjárfestingum á Sri Lanka. Hernaðarátökin eru helst nefnd sem ástæða þess og hafa skapað mikið óöryggi og komið í veg fyrir þá efnahagslegu uppbyggingu sem mörg ríki í Suður Asíu njóta í dag.

Stjórnvöld á Sri Lanka hafa tekið hvert erlenda stórlánið eftir annað að undanförnu og er þessa dagana að bæta við einu 500 milljón dollara láni frá banka í Singapore.  Hafa verður í huga að ef þessum fjármunum er varið í hernaðarmál, er afleiddur vöxtur í hagkerfinu enginn. Það ásamt innstreymi af erlendum gjaldeyri vegna þróunaraðstoðar, sem nemur háum upphæðum og er aðallega frá Japan, ætti að skapa eftirspurn eftir rúpíum og halda verðgildi gaddmiðilsins uppi.  Líkt og jöklabréfin gera heima á Íslandi, en einhvernvegin þarf að nýta gjaldeyrinn og til þess þarf að kaupa innlenda mynt.  Lögmál markaðarins ríkja í þessu  sem öðru og við mikla eftirspurn myndast skortur og verð hækkar. Við sjáum þetta vel á háu gengi Íslensku krónunnar í dag. En skildi það vera uppi á teningnum hér á Sri Lanka?

FiskibátarNei aldeilis ekki þar sem stjórnvöld prenta peninga hraðar en eftirspurnin eftir þeim eykst. Rupian er því í frjálsu falli, er núna 113 RSL í US$, en leitnin er að gengið verði 125 áður en langt um líður. Það er svo sem gott fyrir útflytjendur en keyrir upp verðbólguna sem gerir landsmenn æfa.

Það sem vekur furðu í umræðunni hér er hversu mikil tök stjórnvöld hafa á efnahagsmálum á Sri Lanka. Nýlega hækkuðu þeir laun verkamanna á te-ökrum, sem þó eru í einkaeign. Það er talað um að þeir eigi að lækka verð á mjólk og áður hef ég sagt frá því að yfirvöld opnuðu 200 matvöruverslanir víða um eyjuna til að auka samkeppni og lækka vöruverð. Olía og bensín er niðurgreitt til viðskiptavina í gegnum ríkisbatterí. Þetta er svona Mugabe aðferð en sá misvitri maður hefur bannað launa- og verðhækkanir í Simbabwe til að stöðva verðbólguna sem er mokkur þúsund prósent.

Mér líður oft eins og ég horfi í baksýnisspegil þegar ég fylgist með umræðunni hér um efnahagsmál. Hvernig þetta var heima þar sem menn vildu handstýra vöxtum, og höfðu hálft atvinnulífið undir beinni stjórn framkvæmdavalsins og alþingis. Ég fyllist gleði yfir valdaleysi ,,Kolgríms J." og félaga í Vinstri svörtum. Ekkert af hrakspám þeirra um íslenskt efnahagslíf hefur gengið eftir og verði þeirra áhrifaleysi sem lengst. Þvert á móti búum við Íslendingar við öflugt atvinnu- og efnahagslíf og vandamálin eru bara vaxtaverkir.

Á Sri Lanka eru menn þrjátíu árum á eftir okkur og einhvernvegin virðist  málið svo augljóst í ljósi sögunnar. Þeir þurfa að semja frið við Tamila, auka frelsi og bæta lýðræðið.  Með auknu lýðræði og frelsi fjölmiðla til að upplýsa almenning er komið í veg fyrir spillingu sem því miður er landlæg hér.

Annað sem mikið er í fjölmiðlum hér er ergelsi  manna vegna tafa í umferðinni  sem koma til vegna ferða ráðherra um borgina. Stórum umferðargötum er lokað í 10 til 15 mínútur, og stundum mun lengur, til að koma bílalestum pólitíkusanna áfram á fullri ferð frá einum stað til annars. Þetta er gert af öryggisástæðum og koma í veg fyrir sprengjutilræði.  Almenningur er brjálaður út af þessu enda ótrúlega hvimleitt að bíða í langan tíma, en stoppið veldur eðlilega umferðaröngþveiti  eftir á.

HitabeltisblómÞvottur á snúru í miðborginniÉg heyrði góða sögu frá Kongó en gamli forsetinn þeirra ferðaðist ekki öðruvísi en í slíkum bílalestum með brynvörðum bílum. Einn dag fréttist að hann væri hugsanlega að koma til borgar í suðurhluta landsins. Herinn lokaði öllum götum inn í borgina og svo var beðið. Forsetinn kom ekki í þetta sinn en lokunin stóð yfir í átta tíma.


Fjallgarðar og heimspeki

Hyde ParkÞað er nóg að gera á Sri Lanka. Maður mætir á morgnana í vinnuna og hefur á tilfinningunni að himinin háir hamrar og fjallgarðar séu framundan. Maður reynir að klöngrast yfir ófæruna en einhvernvegin finnst manni að kvöldi að það hafi tekist. Þó manni sé haldið á tánum er svona slakað á manni áður dagur er allur og að kveldi komin. Mér líkar þetta mjög vel. Reyndar flýði ég átakaleysið í vinnunni  heima og vildi hafa svolítið fyrir hlutunum. Þannig er það hér og engin hætta á að maður svitni ekki í starfi fyrir forseta vorn og fósturjörðina.

Í morgun átti ég minn fyrsta fund í Sjávarútvegsráðuneyti Sri Lanka. Þar eru Íslendingar greinilega vel liðnir og andrúmið í okkar garð afslappað þó það sé faglegt. Eftir fundinn rölti ég með foringjanum um ýmsar hæðir byggingarinnar þar sem við hittum sem tengjast verkefnum sem við vinnum að eða eru í farvatninu.

 

 

Budda tempel við ViktoríuvatnFundurinn sjálfur var um verkefni sem þegar er hafið og byrjaði með talningu á fiskibátum í Sri Lanka. Þeir reyndust vera rúmlega 30 þúsund en höfðu ekki verið taldir í áratugi. Það er hinsvegar ekki nóg að telja ef því er ekki viðhaldið og því erum við að hjálpa til við að setja upp gagnagrunn sem verður viðhaldið, svona skipaskrá. Síðan verður í framhaldi af því farið út í skráningu á lönduðum afla, en slíkt er nauðsynlegt ef menn vilja hafa stjórn á fiskveiðum.

Íslendingar líta á slíkt sem sjálfsagðan hlut og jafnvel dæmi um ofstjórn. En án skipaskár og aflaskráningar er ekki hægt að hafa stjórn á hlutunum. Hvað þetta varðar höfum við mikið fram að færa og eru Íslenskir sérfræðingar ráðgjafar Sjávarútvegsráðuneytisins í þessum verkefnum í grundvallar atriðum fiskveiðistjórnunar Sri Lanka.

Það var gaman að skrölta um ráðuneytið og hitta hina fólk og ræða þau verkefni sem við errum að fást við. Það var engin vafi á því að viðmælendum líkaði samstarfið við Íslendinga og bundu miklar vonir við að það skilaði sjávarútveg þeirra fram á veginn.

 

 

Höfundur í Budda tempelÞað var gott að ljúka annasömum degi með skokki í Viktoríugarðinum. Skógi vöxnum þar sem pálmatrén svigna undan kókoshnetunum. Maður hugsar mikið á svona skokki og um hugann flögrðu hugsanir um lífið og tilveruna. Það gerði hitabeltisskúr og var eins og helt úr fötu, sem var ótrúlega notalegt í 29 stiga hita.

Að stökkva úr öruggu starfi þar sem lítið þurfti að leggja á sig, sem sagt notalegu, til að takast á við erfiðar áskoranir og vera á tánum alla daga. Það er ekki skrýtið að sumum hafi fundist þetta vera rótleysi, en svo er alls ekki. Sumir þurfa bara á áskorun að halda og þola ekki hversdagsleikann. Það gerir mig ekkert betri mann, en heldur ekki verri. Ég er bara nákvæmlega þar sem ég vil vera, fyrir utan fjarveru frá fjölskyldunni.

 

 

 

 

 

BuddaÞað er risa stytta af Budda við aðalinngang Viktoríugarðsins. Þegar ég hljóp rennandi blautur, fram hjá líkneskinu í ljósaskiptunum, flögruðu um mig heimspekilegar hugsanir. Heimspeki Budda snúast um hvernig hægt er að verða betri maður og rækta með sér þekkingu, nærgætni og góðmennsku. Ekki það að ég hafi gert það í gegnum tíðina en það er aldrei of seint að reyna.


Félagslíf og trúarbrögð

Grand Cinnamon HotelÞað er nú ekkert merkilegt að gerast hjá mér í dag. Þó er félagslífið í lagi en ekki er alltaf á vísan að róa hvað það varðar í ókunnu landi.

Ég heyrði í SLMM (friðargæslan) fólkinu í morgun og þarf að koma á betri tengingu við landa mína þar. Það stendur til bóta fljótlega. Það er alltaf gaman að hitta landann og spjalla á ylhýrri Íslenskunni.

Ég sótti fund í Rotary Club of Colombo West í hádeginu, eins og aðra miðvikudaga, en þeir eru haldnir í næsta húsi við vinnustaðinn minn.  Erindi fundarins var um efnahagsuppgang Indlands og var í höndum Indverja sem búið hefur lengi í Bandaríkjunum og er hluti af viðræðunefnd Indverja og BNA um kjarnorkumál.  Hann hefur verið ráðgjafi meðal annars um samstarf Indlands við Sri Lanka og merkilegt að heyra hans skoðanir á því sem er að gerast hér í landi miðað við stóra bróður í norðri.  Það er aðallega hernaðarátökin á Sri Lanka sem stendur í vegi fyrir framþróun þjóðarinnar en hún hefur alla burði til að vera í fararbroddi Asíuþjóða í efnahagsmálum.

BuddaÉg hitti vin minn Dan seinnipartinn í notalegum göngutúr um Viktoríugarðinn þar sem umræðan var Búddismi.  Ég er ekki nógu vel að mér um búddisma til að fjalla um það í netheimum en geri það e.t.v. seinna. Reyndar er um heimspeki frekar en trúarbrögð að ræða og gaman að hlusta á þá sem eru vel að sér um fræðin og kynnast viðhorfum búddista.  Ég heimsótti stærsta buddamusteri borgarinnar í gær, enda mikill hátíðisdagur í tilefni tunglstöðu. Reynar eiga öll trúarbrögð sínar kirkjur hér í Colombo. Mikið af buddamusterum, hindumusterum, kirkjum og moskum.

Við enduðum síðan á klúbbnum hans Dan yfir einum drykk áður en haldið var heim.

Um hálf sjö leitið var ég kominn upp á þak, 12 hæð, og horfði á sólarlagið. Það dimmir hér á örskotstundu en ég náði að taka nokkrar myndir meðan sólin settist. Gæðin voru ekkert sérstök, í takt við græjurnar, en ég var með venjulega litla Sony vasamyndavél.  Um 20 september verður sólin á hádegi beint yfir hvirflinum á mér. Þá stendur maður á skugga sínum og ekkert skjól undir húsveggjum fyrir sterkri sólinni. 

 

Hindu musteriSólarlag


Gerfihnattaverkefni

Upprennandi fiskimennStórt verkefni sem er í burðarliðnum og verður á minni ábyrgð, mætti kalla á Íslensku ,,Þróun á fiskspákerfi byggð á upplýsingum frá gervihnöttum"  Þetta er flókið verkefni þar sem margir sérfræðingar munu koma að en verður vistað í NARA, hafrannsóknarstofnun Sri Lanka.

Íslendingar eru engir sérfræðingar í að nýta gervihnetti til slíkra hluta og verður því leitað til háskóla og stofnana víða í Asíu. Gervihnattagögnin koma frá Tælandi og þekking meðal annars frá háskólum í Japan, Ástralíu og Sri Lanka.

Sérfræðingar í tækninefnd, þar sem ég mun sitja, verða meðal annars haffræðingur á gervihnattasviði, fiskihaffræðingur og GIS sérfræðingur (Geographic Information System)

Verkefnið gengur út á að byggja upp innviði, mannauð og aðferðafræði til að nota upplýsingar frá gervihnöttum til að spá um hegðun flökkufiska í Indlandshafi.  Japanir standa framalega á þessu sviði og leiðbeina úthafsveiðibátum til að finna flökkufiska eins og Túnfisk og Marlin.

Hvers vegna ættu Íslendingar að koma að slíku verkefni ef haft er í huga að flestar þessar tegundir eru ofveiddar í dag.  Ástæðan er sú að úthafsbátar Sri Lanka eyða allt að sex vikum í hvern túr, þar sem meirihluti tímans fer í að leita að fiskinum. Það skal haft í huga að þeir eru ekki með frystilestar og ísa aflann, og hann verður verðlítill ef hann er ekki mjög ferskur við löndun.  Dýrasti hluti þessa afla lendir á borðum sælkera, t.d. á sushi eða sem sashimi í Japan eða Evrópu. Það er því mjög Túnfiskurmikilvægt að stytta túra þessara báta, og leitartímann, en sjálf veiðin er u.þ.b. tveir til þrír dagar. Hugmyndin er sem sagt ekki að auka veiði heldur að bæta framleiðni, minka sóun og auka tekjur sjómanna sem stunda veiðarnar. Það má kannski líkja þessu við loðnuleit á Íslandi, en það er einmitt aðferð til að minka kostnað heildarinnar við að finna veiðistaðinn og auka framleiðni greinarinnar.

Þróunarsamvinnustofnun Íslands horfir fyrst og fremst á þróunarmarkmið verkefna en þau eru helst í þessu verkefni:

Að auka framleiðni í úthafsveiðum Sri Lanka og stytta leitartíma og bæta gæði þess afla sem landað er. Að byggja upp getu (mannauð, tækni og fiskiðnaðinn) til að nota gervihnattagögn til að áætla hegðun og staðsetningu flökkufiska í Indlandshafi.

Vísindaframlag verkefnisins er að auka þekkingu á ferðum flökkufiska í kringum Sri Lanka og eins þekkingu á hafsstraumum, hitastigi og þörungagróðri og viðbrögðum vistkerfisins við áhrifum monsoon á hafsvæðinu kringum eyjuna. 

Ég hef sjálfur fylgst með þegar þessi gögn eru tekin niður og breytt í upplýsingar. Nákvæmt kort kemur upp af Indlandshafi með öllum straumum, hitastigi og þörungagróðri.

Eitt vandamál við hitabeltið er raki og skýjamyndun á ákveðnum tímum monsoon. Núna er t.d. vestur monsoon á Indlandshafi með miklum raka og oftar en ekki skýjaflákum. En upplýsingarnar eru teknar oft frá gervihnettinum og síðan raðað saman á eftir. Þannig hafa skýin færst til og góð mynd fæst af hafsvæðinu og nákvæmar upplýsingar um hafstrauma, hitastig, sjávarhæð og þörungagróður koma fram. Þar sem uppstreymi er á sjó frá botni upp á yfirborð má merkja hitabreytingu og þar byrjar að myndast líf, t.d. þörungar sem eru fyrstir í fæðukeðjunni.  Venjulega er yfirborðið lífvana en allt morar niður við botninn. Færsla af sjó þaðan og upp breytir myndinni og eitt leiðir að öðru þar til komið er að ýmsum smáfiskum sem sækja í líflegan stað og þangað sækir m.a. túnfiskurinn í leit að æti.

Haffræðingar NARAEf allt gengur að óskum mun kerfið verða tilbúið á næsta ári til að afla upplýsinga og miðla þeim til fiskimanna. Upplýsinga sem gætu sagt til um hvar fiskurinn heldur sig og þannig stytt leitartímann verulega. Í framhaldi verður gerð rannsókn á því meðal 500 báta hvort upplýsingagjöfin hafi áhrif á veiðar.

Burtséð frá beinum hagkvæmum niðurstöðum úr þessu verkefni þá mun það skila þekkingu á hafsvæðinu í kringum Sri Lanka og byggja upp vísindastarf í sjávarútvegi.  Betri skilning á haffræðilegum og líffræðilegum þáttum sem snúast um nýtingu auðlinda hafsins. 

Og þá er betra af stað farið en heima setið.


Verkefni á Sri Lanka

Í sjávarþorpiÉg hef lítið sagt frá starfi mínu hér hingað til en úr því verður bætt. Þau verkefni sem eru í mínum höndum hér tengjast heildaráætlun sem gengur út á að bæta lífskilyrði fólks í sjávarútvegi á Sri Lanka. Eðli málsins samkvæmt voru það einmitt fólk við sjávarsíðuna sem verst varð úti við tsunami og urðu áhrif bylgjunar mikil frá norð austur horni eyjarinnar og alveg norður að Colombo að vestanverðu. Um fimm þúsund sjómenn fórust og 250.000 manns úr fiskimannafjölskyldum urðu fyrir meirihátta áföllum vegna tsunami og aðrir 600.000  sem höfðu óbeint viðurværi sitt af veiðum.  81% af löndunarstöðum ger eyðilagðist og þrír fjórðu af bátaflotanum, um 32.000 bátar. Þau svæði sem verst urðu úti, norð austur hluti eyjarinnar, er einmitt svæðið sem mestu átökin eru milli Tamila og stjórnarhersins, þannig að íbúar fóru úr öskunni í eldinn.

 

 

 

GrafreiturÞannig að málið er stórt og áhrif tsunami er engan vegin lokið. Sjávarútvegsráðuneyti landsins hefur sett fram stefnu undir kjörorðinu ,,Building Back for Better" (byggja upp aftur betur) sem miðar að uppbyggingu sem skapar betra líf fyrir fiskimenn á þessum svæðum en var fyrir áfallið. Framtíðarsýnin er skýr að þetta fólk muni í framtíðinni búa við betri lífskjör en var fyrir tsunami . Sett hefur verið fram stefnumótun til að ná þeirri framtíðarsýn þar sem yfirvöld fyrir sitt leyti hafa vilja til að greiða fyrir með öllum hætti að sá leiðangur, að framtíðarsýninni, megi takast.

Hugmyndin með framlagi Íslendinga í þróunaraðstoð hér á Sri Lanka að taka þátt í þeirri vegferð og nýta til þess þekkingu í sjávarútvegi með það að markiði að bæta hag fiskimannasamfélaga varanlega. Meðal annars með því að aðstoða stjórnvöld við að byggja upp skipulag og kerfi sem bæta kjör þessa fólks og sjálfbærni til framtíðar.

Hægt er að spyrja hvers vegna við séu að hjálpa Sri Lankanbúum með þjóðartekjur á mann sem eru mun hærri en hjá mörgum öðrum þróunarríkjum. Mörg ríki hafa sniðgengið Sri Lanka vegna mannréttindabrota í átökum stjórnvalda við Tamil Tígrana og spurning hvort við eigum erindi hérna.

Fiskimaður með netin sínTil að svara þessu þá verður að benda á að tekjum Sri Lankabúa er mjög misjafnlega skipt. Hér er tiltölulega stór millistétt sem hefur það ágætt og vaxandi yfirstétt sem lifir í vellystingum. Hinsvegar eru fiskimenn og fólk sem vinnur við landbúanað (t.d. teframleiðslu) með rúman dollar á dag sem telst undir fátækramörkum eins og þau eru skilgreind.  Í öðru lagi hefur þróunaraðstoð ekkert að gera með pólitík. Svo lengi sem við getum verið viss um að þeir peningar sem fara hingað í verkefni þjóni þróunarmarkmiðum, þ.e.a.s. segja að bæta lífsgæði þessa fólks, er tilganginum náð. Við höfum engin afskipti að átökum né höfum opinberlega skoðanir á þeim.

Geta Íslendingar komið að liði við að bæta lífsgæði þessa fólks með þeim hætti að það verði sjálfbært og leiði af sér betri tíma fyrir það til lengri tíma litið? Stórt er spurt en ég skal reyna að svara því á einhvern hátt.

Það gengur alls ekki út á að kenna þeim að veiða meira eða hjálpa þeim að kaupa fleiri báta.  Allt bendir til þess að flestir fiskistofnar séu ofveiddir, hvort sem litið er til strandveiða eða úthafsveiða. Hinsvegar er aukin þekking innan greinarinnar og betri stjórnsýsla alltaf til bóta og leiðir af sér einhverskonar stjórn á ástandi sem er stjórnlaust og dregur úr sóun.

Framtíðarsýnin er skýr og ákveðin stefnumótun verið sett til að ná henni með tímasettum markmiðum. Þetta er langtíma verkefni og mikilvægt að það sé unnið á réttan hátt. Það sem skiptir mestu máli að öll verkefni eru i eigu Sri Lanka sjálfra og koma til vegna óska þeirra. Við eru hér aðeins sem leiðsögumenn að framtíðarsýninni og til að aðstoða við tæknilega hluti og framkvæmdaáætlanir.

 

VeiðibátarEitt af þeim verkefnum sem mér hafa verið falin gengur undir nafninu ,,Qualit of Water and Ice" (gæði vatns og íss), og gengur út á að mæla stöðu mála í þessum efnum um allt landið. Þegar staðan liggur fyrir verður gerð úrbótaáætlun, sem ýmist gengur út á reglugerðarbreytingar eða uppbyggingu á innviðum greinarinnar.

Með því að bæta meðferð á þeim afla sem hér kemur að landi, og auka þannig verðmæti hans og minka áhættu við neyslu á fiski, má reikna með töluverðri minnkun á sóun þannig að meira verði eftir fyrir þá sem hafa lifibrauð sitt af fiskveiðum. Eftir tsunami eyðilögðust nánast öll vatnsból á austur og suður strönd landsins, en þar er uppistaðan af allri útgerð hér á Sri Lanka. Við flóðið blönduðust saman skolp, rotþrær, efnaúrgangur og vatnsból. Ef haft er í huga að á aðra milljón manna hafa lifibrauð sitt beint eða óbeint af sjávarútveg og 70% af dýrapróteini sem neytt er kemur úr fiski, er augljóst að málið er alvarlegt.

Verkefnið er unnið með NARA (sjávarútvegsstofnun Sri Lanka ásamt Rannsóknarstofnun fiskiðnaðarins) sem reyndar er eigandi þess og eru ábyrgir fyrir aðkomu ráðuneyta að málinu. Að minnsta kosti tvö ráðuneyti hafa um þetta að segja og munu hugsanlega leggja fram reglugerðarbreytingar til að koma á úrbótum.

Notuð er rannsóknarstofa sem Íslendingar hafa byggt upp en NARA hefur vel menntaða sérfræðinga  til að vinna að rannsóknum. Fyrri rannsóknarstofa NARA gjör eyðilagðist í tsunami,ásamt verulegum hluta búnaðar og skrám stofnunarinnar.

Flotinn í höfnÍslenskir sérfræðingar koma að rannsókninni enda viðfangið bæði stórt og flókið. Þeir sem þekkja til í matvælaiðnaði kannast við þegar leitað er uppsprettu á hættulegum örverum í vinnsluhús, t.d. E-coli, en hér er verið að skoða allt landið.  Í dag er verið að ljúka við sýnatöku um borð í úthafsbátum, á vatni sem notað er við ísframleiðslu og þvott á fiski, á ís sem notaður er við fiskveiðar, fiski og í sjó og munu niðurstöður liggja fyrir í haust. Þegar þær liggja fyrir verður hægt að gera áætlun til úrbóta og vonast til að hún verði klár á þessu ári.

Helstu markmið verkefnisins eru að draga úr sóun við veiðar og vinnslu. Auka tekjur þjóðarinnar og einstaklinga í fiskiðnaði. Og bæta heilsu íbúa með betri gæðum fisks til neyslu.


Sri Lanka og tsunami

StrandstöðÞegar flóðbylgjan, tsunami, skall á Sri Lanka í desember 2004, var eyðileggingin mikil og manntjónið skelfilegt. Um 30.000 mans fórust og rúmlega 80% af hafnarmannvirkjum eyðilagðist  og þrír fjórðu af strandveiðiflotanum, um 32.000 bátar lentu í tjóni.

Allsstaðar að úr heiminum þustu að hjálparstofnanir til að bæta skaðann og meðal annars til að byggja upp bátaflota landsmanna. Niðurstaðan var sú að mun fleiri bátar eru nú á Sri Lanka en fyrir flóðbylgjuna, sem væri hið besta mál ef veiðistofnar við strendur landsins væru ekki ofnýttir.

Það var mikill handagangur í öskjunni eftir tsunami hér í Colombo. Óteljandi samtök frá öllum heimshornum streymdu að til að „hjálpa" heimamönnum í erfiðleikunum. Margir komu inn í landið á ferðamannapassa sem gildir í stuttan tíma. Ein saga er af Ítölskum hjálparsamtökum sem höfðu einmitt komið inn í landið sem ferðamenn, en gengu um í vestum með risaáletrunum að framan þar sem stóð ,,Aid from Italy" Einn þeirra birtist í ráðuneyti landamæra með 19 vegabréf og heimtaði áritun til þriggja mánaða, enda væru þeir hér til að hjálpa.

FiskibátarMálið er auðvitað þegar svona gerist að stjórnsýsla viðkomandi ríkis fer úr límingunum. Hún er nú ekki beysin fyrir en við það sem skapaðist eftir náttúruhamfarirnar voru þær algerlega lamaðar. Endalaus erindi frá NGOs (non government organizations) um þetta og hitt og kröfur um alls kyns fyrirgreiðslu og skipulag sem kerfið réði ekki við. Þannig verða einmitt til vitlausrar ákvarðanir sem ekki verða til góðs þegar til lengri tíma er litið. T.d. öll bátakaupin sem stofnanir um allan heim stóðu fyrir. Málið er að það vantaði ekki báta heldur að byggja upp skipulagskerfi og gera íbúana sjálfbjarga. Allir vilja fá báta gefins og þegar markaðurinn er tekin úr sambandi og einstaklings ,,skipulagið" á að ráða verður þetta allt saman allsherjar vitleysa. Vinur minn benti mér einmitt á einfalt dæmi frá Afríkulandi þangað sem heilu gámarnir af fötum voru flutt til sem hjálpargögn. Þeir aðilar sem voru í að selja ódýr föt á svæðinu urðu umsvifalaust gjaldþrota, þar sem engin gat keppt við gjafaföt. Málið er ekki svona einfalt og ekki má rústa því sem fyrir er.

Það er gaman að segja frá því að Íslendingar féllu ekki í þess gryfju hér í landi. Þeir tóku ekki þátt í bátavitleysunni og kunnu fótum sínum forráð. ÞSSÍ er enn ekki búin að klára þær 50 milljónir sem ríkisstjórnin lét stofnunni í hendur til aðstoðar vegna flóðanna, þó að það sé langt komið. Hinsvegar er hægt að fullyrða að peningunum hefur verið vel varið og munu styrkja þau svæði sem verst fóru út úr tsunami, fiskimannasamfélögin. Reyndar var töluverður þrýstingur frá aðilum í íslensku samfélagi sem vildu senda úreldingarbáta til Sri Lanka sem neyðaraðstoð.

Það var gerð skoðun á því fyrir stuttu hvaða svæði fengu mesta athygli og þar með aðstoð eftir flóðin. Það voru ekki þau sem mest þurftu á því að halda, sem flest eru á austurströnd eyjarinnar. Heldur voru það svæði sem voru í innan 100 kílómetra VEGA lengdar frá 5 stjörnu hótelum. Þetta göfuga fólk sem endalaust var í fölmiðlum til að koma sinni stofnun á framfæri, vildi vera í tiltölulega stuttu færi frá notalegu hóteli. Fimm tíma vinnudagur og svo að hittast og ræða málin og njóta lífsins. Svæðin norðar og austar höfðu ekki upp á slíkan lúxus að bjóða.

Uxakerra Þetta er svona svipað og með Greenpeace og Vatíkanið. Þetta snýst ekkert um það sem virðist í fyrstu heldur einstaklingshyggju mannsins. Eðlilega í sjálfu sér, en það er gott að sjá í gegnum lýðskrumið. Dettur einhverjum í hug að 30 milljón króna flug Flugleiða á kostnað ríkissjóðs með slasaða Svía til síns heima hafi snúist um manngæsku? Að Svíar hafi ekki getað flutt þetta fólk sjálfir? En fjölmiðlarnir brugðust ekki og Íslenska þjóðin sat tárvot yfir fréttunum. Sennilega hefði þetta verið öðru vísi ef farþegarnir hefðu verið Tælendingar.

Á ströndinni

 

Mount LaviniaVið skruppum félagarnir, undirritaður, Ron, Dan og Árni, á ströndina við gamla landstjórabústaðinn, Hotel Mount Lavinia, á laugardeginum. Það er ótrúlega fallegt þarna þar sem við sátum á fiskiveitingastaðnum Seafood Cove, sem er í strákofa á ströndinni undir Mount Lavinia. Það rifjast upp sagan af breska landsstjóranum sem átti í ástarsambandi við hina portúgölsk ættuðu Lavinia og lét gera jarðgöng frá slotinu í híbýli hennar, til að auðvelda samverustundir við sína heittelskuðu.  

Við fengum aldrei nóg af rækjunum sem boðið er upp á og pöntuðum hvern skammtinn á fætur öðrum. Við sátum á meðan húmið lagðist yfir og þegar dimmt var orðið mátti sjá tunglið sem nú er 1. kvartil með 33% fyllingu. Ströndin við Mount LaviniaFullt tungl verðu á þriðjudaginn 28. ágúst, og þá verður hátíð hér á Sri Lanka. Upp í Kandy verður haldin ein mesta hátíð Búddista í heiminum þennan dag þegar tunglið er fullt. Kandy skipar mikilvægan sess meðal búddista í heiminum og koma þeir víða að til að taka þátt í þessari hátíð.

Þegar við fórum voru þjónarnir að koma nýjum og ferskum fiski fyrir á borði við inngangan. Fiskurinn var spiklandi nýr og sérlega lystugur. Þetta er örugglega góður staður til að borða á eitthvert kvöldið. Njóta sólarlagsins, hlusta á bárugjálfrið á ströndinni og gæða sér á fyrsta flokks fisk, smokkfisk og rækju.

Dan bauð síðan upp á drykk á klúbbnum sínum þar sem inngönguskilyrði er að vera með meistarapróf og sinna starfi því tengdu. Sjálfur er hann starfandi lögfræðingur en margar starfsgreinar koma að þessum klúbbi. Hér gengur allt út á klúbba og er sjálfsagt um breska arfleið að ræða.

RækjaVið litum aðeins við á Krikket klúbbnum til að athuga hvort við rækjumst á friðargæslufólkið (SLMM), en átta Íslendingar starfa við það hér í Colombo. Við enduðum kvöldið á Swimming Club en umsóknin mín um inngöngu er nú í framkvæmd. Á meðan nýt ég gestrisni Árna en þarna er ekki hægt að greiða með peningum og er reikningurinn færður á klúbbfélagann.

Sunnudagurinn er frátekinn fyrir golf og eins gott fyrir mig að byrja að æfa af krafti og ná niður forgjöfinni. Ég er að vonast eftir því að vinir mínir á Íslandi heimsæki mig hingað einhvern daginn og fyrir golfáhugamenn er Sri Lanka paradís. Frábærir vellir og aðstæður eins góðar og hugsast getur

Fiskur á Sri Lanka

 

 

 

 

 

Sefood Cove Resturarnt

Ron and Dan


Kvöldganga í Viktoríugarðinum

HnúfubakurÞað hafa verið viðburðaríkir dagar í vinnunni og um margt að hugsa. Langir vinnufundir í hafrannsóknarstofnun Sri Lanka, enda er þeir helstu samstarfsaðilar ICEIDA hér í landi. Mér varð hugsað til Flosa vinar míns sem er sérstakur aðdáandi Hafró á Íslandi. Honum hefði örugglega líkað að kynnast annarri slíkri stofnun þó að í Asíu væri. Ég mun seinna segja meira frá því hvað þetta gengur út á en læt það liggja milli hluta að svo stöddu. En þetta eru spennandi verkefni, og ef vel tekst til, mörgum til góðs.

Eftir langan vinnudag í gær fórum við vinnufélagarnir tveir í Krikket klúbbinn í Colombo. Krikket er þjóðaríþrótt Sri Lankanbúa, enda fyrrverandi nýlenda Breta. Ég veitti athygli vegvísi sem benti til hinna ýmsu krikket valla heimsins og fjarlægðar þangað. Það kom á óvart að svipuð vegalengd er til Melbourne og London héðan frá krikketklúbbinum í Colombo.

 

KrikkedSeinnipartinn í dag hafði ég mælt mér mót við félaga minn Dan til að njóta kvöldgöngu  í Viktoríugarðinum. Þetta var notaleg rólegheita ganga og þegar leiðin lá fram hjá ráðhúsi borgarinnar sem stendur við garðinn, sagði hann mér sögu úr síðustu sveitarstjórnarkosningum. Málið er að í Colombo urðu múslímar sigurvegarar og sá sem fyrir þeim fór var bílstjóri á tú tú, þríhjólavögnum, sem allt morar af hér í borginni. Maðurinn er bæði ó-læs og skrifandi en er samt orðinn borgarstjóri. Hann mætir í vinnu á hverjum degi en hefur ekki hugmynd um hvað hann á að gera eða hvernig halda á um stjórnartaumana. Borgin líður fyrir óstjórnina og meðal annars þessi fallegi garður sem er í hálfgerðri niðurníðslu.

 

Bróðir Dans, Stanley, er fyrrverandi varnarmálaráðherra Sri Lanka en er nú á eftirlaunum. Það sem merkilegra er að hann er heims þekktur listmálari og verk hans prýða söfn í London, París og New York. Dan sýndi mér um daginn þykka bók um listamanninn og verk hans og verð ég að viðurkenna að ég varð töluvert heillaður. Þegar eiginkonan kemur hingað í september er fyrirhuguð heimsókn til Stanley´s, til að hitta hann og skoða málverkin hans með berum augum.

Eftir kvöldgönguna tók ég sundsprett hér á þriðju hæðinni á Hyde Park, en laugin er opin út til suðurs. Þegar ég kom upp úr vatninu eftir hressandi sundsprett var orðið dimmt og smá rönd kominn á Dantunglið hægra megin. Það segir okkur að máninn sé vaxandi og innan tveggja vikna verður hann fullur. Þá er hátíð í bæ en hér er opinber frídagur þegar fullt tungl er.


Siglingar um Sri Lanka

  Siglingaleiðin

kortSri  Lanka er gríðarlega mikilvægt fyrir siglingar um suður Asíu. Ef litið er á landakort sést vel hve vel eyjan liggur við siglingaleiðum um þessar slóðir. Hvort sem horft er til suður odda Afríku, eða austur hluta heimsálfunar. Rauðahaf,  Arabíuhafsins eða Bengalflóa. Tæland, Malasíu, Víetnam, Filippseyjar, Indónesíu eða Ástralíu. Svo ekki sé talað um ósköpin þar sem Sri Lanka liggur vel fyrir Kína og Japan til að koma afurðum sínum til þessara landa eða Evrópu, og eða til að draga hráefni að sér.

Flutningar eru miklir hér um og er þá verið að skipa upp vöru af skemmri leiðum sem síðan er skipað um borð í stærri skip til að sigla með lengri leiðir. Safna saman í höfninni í Colombo og umskipa til frekari flutninga annað.

 

 

ColomboHöfnin

Höfnin í Colombo er risastór á Íslenskan mælikvarða og til stendur að rúmlega tvöfalda afkastagetu hennar.  Kínverjar ætla að fjármagna risa höfn hér sunnar á eyjunni sem verður umskipunarhöfn fyrir þetta svæði jarðarinnar, enda hafa þeir mikilla hagsmuna að gæta. En tvennt er þó sem Sri Lankanbúar hafa áhyggjur af varðandi þennan mikilvæga þátt í hagkerfi landsins.

Í fyrsta lagi eru það átökin við Tamil Tígrana sem dregið hafa úr áhuga útgerða til að nota hafnir á Sri Lanka til umskipunar.  Fyrir nokkrum mánuðum síðan reyndu Tígrarnir að sigla hraðskreiðum bátum fylltum sprengiefni inn í höfnina. Sjóherinn náði rétt í tíma að skjóta bátana niður þegar örstutt var eftir að þessari mikilvægu lífæð flutninga.

SriÉg sat um daginn á gömlum enskum klúbbi á efstu hæð á virðulegu hóteli við höfnina. Þetta er eini staðurinn þar sem vel sést yfir hafnarsvæðið, enda er stranglega bannað að taka myndir þar. Það er ótrúlega gaman að fylgjast með athafnalífinu í höfninni þegar verið er að umskipa gámum úr nokkrum risa flutningaskipum. Fjórir risa kranar voru að afferma gríðarstórt gámaflutningaskip á sama tíma. Síðan eru urmull af landkrönum sem taka gámana og stafla þeim upp hér og þar sjálfvirkt.  Sjóherinn er einmitt staðsettur þarna í höfninni og því er öryggisgæsla mikil á svæðinu. Það er þó svolítið skondið að hægt er að fara á Google Earth og skoða höfnina í smáatriðum, þó sú mynd sé að sjálfsögðu ekki í tíma. Kannski Tígrarnir hafi ekki aðgang að netinu!

Sundið milli Indlands og Sri Lanka

Dell IslandHitt atriðið sem Sri Lankanbúar hafa áhyggjur af er ráðagerðir Indverja um að dýpka eyðið milli Indlands og eyjarinnar. Það myndi stytta siglingaleiðir verulega og draga úr mikilvægi landsins sem umskipunarstaður. Þetta er gríðarmikil framkvæmd ef af verður þar sem lágmarks dýpt verður 20 metrar og breiddin einir 200 metrar. Þarna eru mikilvægustu fiskimið Sri Lanka en reyndar helsta átakasvæði við Tamil Tígra, en þeirra landsvæði er einmitt á norð-austur hluta eyjarinnar.

 

 

Blokkin heima

Hyde ParkAð lokum læt ég fylgja með mynd af þakinu sem ég skokka um á morgnana. Mér reiknast til að hringurinn sé um 100 metrar að lengd. Neðst í horninu til hægri er Viktoria garðurinn þar sem framtíðarhlaup mín verða. Ef ég ætla að halda í við vin minn Ívar gengur ekki að vera skokkarinn á þakinu.


Fílagarðurinn

Munaðarlausir fílar

FílabaðUpp í fjallahéraðinu Kandy er merkilegur garður sem heitir Elephant Orphanage, eða fíla-munaðarleysingjahælið.  Garðurinn var stofnaður um 1950 og þangað hafa Sri Lankanbúar flutt fíla sem hafa einhverra hluta vegna ekki getað séð sjálfir um síg í náttúrunni. Munaðarlausir kálfar eða fílar sem hafa orðið fyrir einhverskonar slysi. Einn fíllinn í garðinum hafði stigið á jarðsprengju og misst framan af öðrum framfætinum. Fórnarlamb stríðsins á Sri Lanka og hefði ekki komist af nema fyrir þennan merkilega garð. Augljóst er þó á þessum fíl að hann hefur ekki jafnað sig og það eru ekki bara erfiðleikar með gang sem hrjá hann heldur líður honum augljóslega illa. Á Íslandi hefðum við aflífað hann án umhugsunar en hér gengur það ekki upp. Sri Lankan búar eru flestir Budda trúar og samkvæmt henni má ekki deyða dýr. Það er í lagi með fiska en alls engin dýr, og eru kjúklingar þar meðtaldir. Það er því ekki mikið af svína- eða kjúklingabúum á Sri Lanka enda kemur 74% af dýrapróteini úr neyslu fisks hér í landi, sem er töluvert mikið. Þeir láta örugglega Múslimana og Tamilana um sláturféð.

Budda

SnákurHversvegna Budda trúar  vilja ekki deyða dýr en hika ekki við að drepa hvorn annan er saga að segja frá. Gott dæmi um grimmd átrúanda Budda er úr seinni heimstyrjöldinni en Japanir þóttu einstaklega grimmir á vígvellinum og hikuðu ekki við að drepa sjálfan sig og aðra. Hinsvegar með dýrin kemur til af praktískum ástæðum.  Þeir trúa því að þegar jarðvist manna lýkur muni þeir endurfæðast í  dýralíkama. Hagi þeir sér illa verða þeir að pöddu en annar gætu þeir endað sem fugl eða fíll. Þannig að ef þeir drepa dýr gætu þeir verið að aflífa ættingja sinn. Það er hinsvegar á hreinu þegar menn eru drepnir hverjir þeir eru.  Slíkt liggur ekki fyrir með dýrin og því vilja þeir ekki taka áhættuna og láta jafnvel flækingshundana í friði.

Ferðin til Kandy

Það voru þeir Ron og Dan sem sóttu mig snemma á laugardagsmorgun til að sýna mér fílagarðinn og svolítið af Sri Lanka. Ég verð að viðurkenna að fjögurra tíma keyrsla hvora leið var töluvert erfið. Eftir fyrstu tvo kílómetrana kom ekkert á óvart. Svona hálfgerður grautur af mannlífi sem  ekki hægt að kalla áhugavert. Mikið af fólki sem býr við erfið kjör og lítið gaman að horfa upp á það.

KókoshneturHinsvegar var hressandi að að drekka úr kókoshnetu sem allstaðar eru til sölu við þjóðveginn. Pálmatré eru merkileg fyrir margar sakir. Úr rótunum eru búin til lif, bolirnir eru frábær smíðaviður og blöðin eru fléttuð í þök ásamt því að vera góður matur fyrir fíla. Kókoshneturnar eru notaðar með margvíslegum hætti. Vökvinn úr þeim er einstaklega svalandi og mjög hollur. Kókósinn er notaður mikið í matar- og sælgætisgerð. Ef kókósinum og safanum er hrært saman i blandara verður til kókosmjólk sem meðal annars er notuð í karrírétti. Skelin utanum kókósinn er notuð sem grillkol og ysta lagið sem er mjög trefjaríkt er notað til að flétta reipi. Strandveiðamenn á Sri Lanka nota einmitt slík reipi við veiðarnar en konurnar sjá um að flétta þau meðan þeir sækja sjóinn.

Í hádeginu fengum við okkur karrírétt  á notalegum veitingastað upp af ánni þar sem fílarnir eru baðaðir. Þar sáum við bændur úr nágreninu koma og baða alla fjölskylduna og húsdýrin líka. Beljurnar voru vandlega skrúbbaðar að framan sem aftan og hundurinn þveginn líka. Ég velti því fyrir mér hvort einhver drykki vatnið neðar í ánni en allt vatn í Colombo er hreinsað og klórblandað.

Þrífættur fíllMér var svolítið brugðið þegar ég upptvötaði að karríréttirnir innihéldu allir mismunandi tegundir af fiski. Við höfðum einmitt séð nokkra fisksala á leiðinni upp eftir en þar liggur fiskurinn til sölu á tréborðum, niður skorin, í 30°C og sólskyni.  Engin ís eða kæling og guð einn veit hversu marga daga hann liggur. Þetta er stórt vandamál hér í landi enda þó að fiskurinn sé eldaður og allar bakteríur drepnar eru próteinin að engu orðin og gagnlaus eftir þessa meðferð. Ég átti svolítið erfitt með mig en sit hér enni heill heilsu og hreystin uppmáluð þrátt fyrir fiskinn.

 

Ávextir á laugardegi 

Á heimleiðinni keyptum við ferskt Rampodin en sá ávöxtur vex á trjánum við þjóðvegin á þessum slóðum. Við keyptum síðan annan ávöxt, sem ég man ekki nafnið á, sem er með hörðum gulum berki með hárbeittum göddum þannig að ekki er hægt að taka á honum Ramputanberhentur. Hann er hvítur að innan með stórum svörtum steinum og bragðast frábærlega. Það fylgir hinsvegar böggull skammrifi þar sem hann lyktar eins og gömul hlandskál. Sú lykt er reyndar af berkinum og hverfur þegar hann er fjarlægður. Á meðan geymi ég ávöxtinn úti  á svölum í plastpoka til fyrramáls þannig að Pam geti verkað hann fyrir mig.

Það var gott að eiga rólegt laugardagskvöld hér heima í íbúð og horfa á sjónvarp. Í morgun fór ég upp á þak, 12 hæð, til að skokka og kláraði 10 kílómetra. Kannski heimsmet í þakhlaupi þó ég efist nú um það. Ég hef séð þetta í Amerískum bíómyndum og  get alveg mælt með því. Hringurinn er svona 100 metrar þannig að fjöldinn er um 100 hringir.

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (11.9.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 9
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband