Kafli 1 - Skútukaupin undirbúin

Undirbúningur kaupa

skúta

Við vorum þrír félagar, allir liðlega tvítugir, sem höfðum árum saman skipulagt kaup á seglskútu til að sigla henni heim til Íslands.  Þessir ævintýramenn voru sögumaður ásamt Jóni Grímssyni, sem er jafnaldri minn og uppeldisvinur ásamt bróður mínum Hjalta.  Við félagarnir höfðum marga fjöruna sopið saman og höfðum meðal annars ekið um Evrópu þvera og endilanga, sem þótti óvenjulegt á þessum tíma og verið á samyrkjubúi í Ísrael.  Fjórði félaginn í þeim ævintýrum, sem seinna verður sagt frá, var eiginkona mín Kristín, sem kom töluvert að þeim skútukaupum sem hér er sagt frá.

Það var ekki auðvelt að kaupa skútu á þessum árum erlendis, í kringum 1976, þar sem fyrirhyggjupólitík og haftastefna stjórnvalda hafði náð sínum hæstu hæðum.  Leyfi þurfti til alls og meðal annars til að kaupa gjaldeyri.  Fólk gat fengið ferðamannagjaldeyri sem dugði fyrir tveggja

vikna ferð til Spánar og greiddi tíu prósent skatt ofan á skráð gengi.  Stjórnvöld höfðu þannig vit fyrir borgurunum og komu í veg fyrir óþarfa bruðl eða flæking um lendur erlendra ríkja. 

Það var því ekki hægt að kaupa erlendan gjaldeyri til kaupa á skútu með löglegum hætti í næsta banka.  Við vorum því með allar klær úti og árum saman söfnuðum við gjaldeyri út um allt.  Við þekktum til á Keflavíkurflugvelli sem var góð uppspretta gjaldeyris frá hernum, þar sem íslenskir starfsmenn stungu tíu prósentunum í vasann sem milligöngumenn og drýgðu þannig tekjur sínar.  Ýmis fyrirtæki sem tóku við greiðslum í gjaldeyri og seldu hann gjaldeyrisþurfandi landsmönnum með umræddri álagningu.

Svo þurfti að sjálfsögðu að safna krónum til að kaupa gjaldeyrinn og fylgdi því mikil vinna.  Tveir okkar voru togarajaxlar og sá þriðji var á leiðinni á sjóinn, en á þessum árum fyrir tíma kvótakerfis um það leyti sem skrapdagakerfið var í smíðum, var gullöld skuttogaranna og sjómenn voru með tvöföld bankastjóralaun.  Við slógum líka lán  í sparisjóðum og góðir vinir okkar, eins og Grímur Jóns, skrifuðu upp á víxlana.  Ég man ennþá eftir jákvæðum viðbrögðum vinar míns Sólbergs Jónssonar í Bolungarvík, sem hikaði ekki við að lána þessum strákpjökkum til að kaupa skútu.  Slíkt var honum bæði ljúft og skylt og hann sagðist myndi fylgjast vel með ævintýri okkar.  Einnig reyndist Magnús Amelin á Þingeyri okkur afar vel.

Snemma sumars 1976 vorum við komnir með fulla skjalatösku af dollurum, norskum krónum, sænskum krónum, dönskum krónum, enskum pundum og þýskum mörkum.  Upphæðin var rúmlega 25.000 ensk pund sem duga áttu fyrir sæmilegu fleyi til að sigla Altansála heim til Ísafjarðar.

Ferðin undirbúin

England var allan tímann fyrirheitna landið til kaupanna.  Einhvernvegin tengdum við landið við siglingar og fagblöðin sem við lásum á undirbúningstímanum voru ensk og við vorum farnir að þekkja helstu bátategundir sem þar voru smíðaðar.  Það var ákveðið að við Jón færum út að kaupa bátinn og sigla honum heim en Hjalti yrði eftir heima til að safna meiri peningum og gæta hagsmuna okkar þar.  Ég var með skipstjórnarpróf og kunni siglingafræði og var því sjálfkjörinn í ferðina.  Jón var með mikla reynslu í sjómennsku en hvorugur okkar hafði nokkurn tíma komið um borð í seglbát.  Skútan var bara draumur sem byggði á ungæðislegri rómantík en minna á fyrri reynslu.  Við höfðu aldrei á ævi okkar dregið upp fokku eða stórsegl né hagrætt seglum eftir vindi.

Þegar upphaf ferðarinnar nálgaðist kom svolítið babb í bátinn.  Móðir Nonna, sú ágæta kona Jóhanna, lagði hart að okkur félögunum að taka yngri son sinn, Bárð, með í ferðina.  Hún var orðin hálf þreytt á uppátækjum hans og prakkaraskap og trúði því að hann hefði gott af leiðsögn okkar fullorðnu mannanna í smá tíma.  Bárður var á sautjándi ári og við Jón vorum tuttugu og eins.  Lífreyndir heimshornaflakkarar og sjálfsagt hefðum við getað orðið unga manninum góð fyrirmynd út í lífið og tilveruna.  Við tókum þessu mjög illa í byrjun, ekki það að Bárður gat verið bráð skemmtilegur, en við höfðum engan áhuga á að hafa svona krakkakjána með okkur í þessa mikilvægu viðskiptaferð.  Jóhanna lagði hart að okkur og við gáfum eftir með alls kyns skilyrðum sem Bárður varð að undirgangast.  Á þessum árum var Bárður óvenju lítill og væskilslegur, óttalegur vandræðagripur en eins og áður segir, en gat hann verið bráð skemmtilegur, enda mikill húmoristi.

Við tókum hann því með okkur kvöldið fyrir brottför að Gilsbrekku í Súgandafirði, þar sem ferðin var íhuguð og andlegur undirbúningur okkar fór fram.  Við kveiktum eld niður við fjöru og þegar hann hafði brunnið út að mestu og glóðin ein var eftir, grilluðum við kartöflur sem voru algjört lostæti.  Við höfðum keypt okkur einn vodka pela sem átti að dreypa á við glóðirnar þessa fögru vornótt í Súgandafirði.  Við tókum ekki eftir neinu sérstöku í fari Bárðar fyrri part kvöldsins en þar höfðum við sofnað á verðinum.  Ég rölti upp í sumarbústað til að sækja pelann en greip í tómt.  Eftir ákafa árangurslausa leit vaknaði með okkur Nonna hræðilegur grunur.  Við horfðum á litla bróður hans þar sem hann slagaði undir húsgaflinum og þegar við beindum spurningum til hans, leyndi sér ekki að drengurinn var heldur betur þvoglumæltur. 

Það er varla hægt að ímynda sér reiðina og vonbrigðin hjá okkur Nonna.  Stemmingin var fullkomin og grilluðu kartöflurnar mjög ljúfar, björt vornóttin og gáraði ekki á fjörðinn í kvöldkyrrðinni.  Það sem vantaði upp á var smá vodkastaup til að fullkomna augnablikið.  Þetta hafði verið frá okkur tekið og ekki möguleiki að bæta úr því  á þessum stað og stund.  Þegar Nonni var búinn að lúberja litla bróðir var frekari refsing ákveðin.  Hann kæmi ekki með í ferðina til Englands.  Ekkert undir sólinni fengið þeirri ákvörðun breytt og við það sofnuðum við vinirnir, með formælingum, bölvi og ragni í garð óþekka unglingsins sem við áttum að bera ábyrgð á.

Það var ekki komið hádegi daginn eftir þegar Jóhanna blessunin var búin að snúa okkur og ákveðið að Bárður kæmi með og seinna um daginn hófst þessi mikla viðskipaferð til skútulandsins, Englands.  Við tveir lífsreyndir vinir með þá miklu ábyrgð á okkar herðum að koma þessum brokkgenga ungling til manns.


Sögustund

Já nú verður skrúfað frá Grímsævintýrum.  Í kvöld ætla ég að hefja sögustund þar sem Grimsarar og fleiri koma við sögu og byrja árið 1976.  Margt gerist fyrir þann tíma en sögurnar verða ekki sagðar í tímaröð.

Bári GrímsÉg byrja á skútusögum þar sem við  æskuvinirnir Jón og Gunnar, ásamt Hjalta bróður keyptu skútu og sigldu til Íslands.  Við höfðum áður lent í ævintýrum saman sem sagt verður frá seinna.  Ég hef svo sem ekkert annað en eigið minni til að styðjast við og sumt hef ég reyndar eftir öðrum, þar sem ég var sjálfur ekki viðstaddur.

Ég vil taka því fram að við Jón eru sálufélagar og höfum haldið góðri vináttu í gegnu tíðina.  Grímur og Jóhanna voru miklir vinir mínir og það var Bárður líka.  Ekki er meiningin að gera lítið úr neinum með þessum sögum, nema síður sé.  Reyndar eru sögurnar rýndar beggja vegna Altansála fyrir birtingu en engu að síður eru þær sagðar eftir mínu minni.

Þó Bárði hafi verið hálf troðið upp á okkur Nonna í fyrstu siglinguna átti hann eftir að súpa marga fjöruna með mér á siglingum eftir það.  Sigldi með mér suður yfir til Bretlands aftur og síðar frá Spáni til Grikklands.  

Það er rétt að segja frá því að dóttur sonur minn heitir Jón Gunnar.  Sömu nöfnin og saga að segja frá því.  Í gamla daga bundust við  Jón vinur minn fasmælum um að ef við eignuðumst son myndum við skýra hann í höfuðið á hvorum öðrum.  Jón hefur ekki þurft að standa við sinn helming en 1984 eignaðist ég son sem skýrður var í höfuðið á mínum besta vin.  Reyndar var Jón viðstaddur hríðirnar hjá Stínu og taldi tímann á milli þeirra þangað til ákveðið var að skutla henni niður á fæðingadeild.

Dóttir mín skýrði síðan sinn frumburð sinn í höfuðið á bræðrum sínum, Jóni og Gunnari Atla. 

Eins og vinur minn Ívar myndi orða þetta þá liggur þetta í stjörnunum og eru forlög.  Örlögin verða ekki umflúin.

En nú bíð ég eftir að vinur minn Jón vakni í Seattle til að gefa grænt ljós á fyrstu birtingu Grímsævintýra. 


Skapvonska

NautÞað hefur verið ýtt við mér vegna bloggleti undanfarið og spurt hvað valdi slíkri ómennsku við að höggva í googlesteininn.  Málið er að ég hef verið í vondu skapi.  Ósköp einfaldlega.

Reyndar er ég frekar skapgóður og liggur sjaldan illa á mér.  Það kemur þó fyrir að ég vakna upp að morgni og finn að ég er í vondu skapi.  Fyrir löngu fór ég að taka því eins og hverju öðru hundsbiti, vitandi að með nýjum degi væri vandamálið leyst og aðeins spurning um að komast í gegnum einn dag.  Eftir góðan nætursvefn tekur við nýr dagur með nýjum tækifærum og möguleikum og vonda skapið flogið út í veður og vind.  Að öllu jöfnu tel ég mig vera jákvæðan mann sem lætur ekki smáatriði pirra sig né málar skrattann á vegginn í einhverjum andskotagang.

En það eru ekki allir þannig gerðir og ég man eftir kunningja mínum sem stundum heimsótti mig í vinnuna þegar ég var framkvæmdastjóri HSV.  Hann kom bölmóður innum dyrnar með hornin úti þannig að flísaðist úr hurðakarminum.  Ýmislegt annað hafði hann á hornum sér og lét móðan mása um hvernig allt væri að fara til andskotans.  Það eru fleiri þannig og þeim er reyndar vorkunn.  Það getur ekki verið notalegt líf að fara þannig í gegnum lífið og illt fyrir þá sem eru samferðamenn.

En ég var bara skapvondur í nokkra daga en hef nú jafnað mig.  Það tók nokkurn tíma að vinna sig út úr erfiðleikum í umhverfinu hérna og tækla hlutina rétt.  Fara í svona SWOT greiningu og átta sig á styrkleikum sínum og veikleikum til að takast á við það umhverfi sem umleikur mann.  Skoða þau tækifæri og þær ógnanir sem sem það bíður uppá.  Hvernig hægt sé að nota styrkleika sína til að nýta tækifæri eða sigrast á ógnunum.  Hvernig hægt sé að breyta veikleikum í styrkleika og þannig snúa mótvind í meðbyr.  Stekkja svolítið á fokkunni og draga inn stórseglið þannig að réttri stefnu sé náð og auka hraðan um tvær mílur í leiðinni.

Það er ótrúlegt hvernig erfiðleikar geta falið í sér tækifæri og hægt að snúa þeim sér í hag.  Allt er þetta undir manni sjálfum komið og hafa stjórn á hlutunum.  Hagræða seglum og nýta mótvind sem meðbyr.

Mér er því engin vorkunn að takast á við erfitt umhverfi og tækla það rétt.  Taka sjálfan sig svolítið í gegn og hafa stjórn á sér en berjast ekki um eins og þang í fjöru.  Það er hinsvegar erfitt fyrir nefndan félaga minn, vaðandi um eins og naut í flagi, að tækla sitt líf.  Hann kann ekki að hagræða seglum. Og þannig eru því miður margir gerðir.

Jón og GunnarÉg hef hinsvegar hugsað mér að hvíla mig á skrifum um Sri Lanka og láta upplifun mína hér bíða betri tíma í góðra vina hópi.  Ég hef verið í góðu sambandi við æskufélaga minn í Seattle, Jón Grímsson, en við höfum marga fjöruna sopið saman.  Mig langar til að segja sögur af ævintýrum okkar sem eru mörg og merkileg.  Jón er aðeins í skype lengd frá mér en það merkilega er að við munum ekki allar sögurnar eins.

Ég ætla ekki endilega að segja þessar sögur í réttri tímaröð og ætla að byrja árið 1976 þegar við fórum til Englands til að kaupa skútu og sigldum henni heim.  Síðan mun ég segja frá Ísraelsævintýrum okkar og akstri í gegnum Evrópu árið 1973.  Meðal annars höfum við troðið upp á 3000 manna tónleikum þar sem við sungum ,,Ríðum og ríðum,,  Báðir gersneyddir tónlistarhæfileikum.  Margar sögur hafa orðið til með Jóni og ekki síður föður hans, Grími.  Þetta verða svona Grímsævintýri.


Blue Water Hotel

Blue Water hóteliðÞetta var skemmtileg og áhugaverð helgi hjá mér hér á Sri Lanka.  Byrjað á golfi fyrir klukkan átta á laugardagsmorgni og lokið við 18 holur fyrir hádegi.  Síðan var farið til Wadduwa, sem er í klukkutíma akstur suður af Colombo, þar sem haldið var námskeið í verkefnastjórnun fyrir stofnanir í sjávarútveigi á Sri Lanka.  Námskeiðið var á vegum Háskóla Sameinuðu þjóðanna, haldið í samvinnu við Háskólann á Akureyri, ICEIDA og Sjávarútveggsráðuneyti landsins.  Undanfarna daga og vikur hef ég hjálpað til við undirbúning og séð um tengsl við stofnanir innlenda ábyrgðaraðila ásamt samskiptum við sérfræðingana frá Akureyri sem séð hafa um skipulag námskeiðsins.

Námskeiðið, sem nú var haldið í þriðja sinn, var haldið á glæsihótelinu Blue Water og hófst á fimmtudaginn var og lauk í dag, sunnudag.  Við félagarnir vildum kíkja við og sýna áhuga okkar ásamt því að taka þátt í að afhenda skírteinin við útskriftina í dag.  Æðsti embættismaður sjávarútvegsmála landsins, ráðuneytisstjórinn í sjávarútvegsráðuneytinu var mættur til að taka þátt í námskeiðinu sem var mjög gott til að gefa því vigt gagnvart nemendum.  Þetta námskeið kemur sér vel fyrir okkur hjá ICEIDA þar sem öll okkar verkefni eru sett upp í Logical Framework kerfi sem hér var verið að kenna.  Það mál líkja Endalaus ströndin með pálmatrjámverkefnastjórnun við að taka grátt ský, sem er þá hugmynd, fyrir ofan kollinn á manni og breyta því í áþreifanlegt verkefni með grundvelli, markmiðum, stefnumótun, aðferð, ábyrgð, tímaramma og kostnaðaráætlun.  Mér varð einmitt hugsað heim og tel að tel fulla þörf á að kenna þetta víða á Íslandi.

Í morgun byrjaði ég daginn í risastórri sundlauginni framan við hótelið.  Eftir góðan morgunverð og heimsókn á námskeiðið, fékk ég mér göngutúr niður á ströndina sem hótelið stendur við.  Það er sama í hvora áttina er litið, endalaus gul sandströnd með pálmatrjám blasir við.  Vestan monsuninn er enn þá við lýði og ekki leyft að synda í sjónum enda brotna þungar öldur á sandströndinni.  Það fer að breytast næstu tvo mánuðina þegar austan monsuninn byrjar.  Þá verður sjórinn heið blár hér á vesturströndinni og spegil sléttur.

Ég rakst á tvo fiskimenn sem fleygðu færi sínu með litlum krekjum út í brimið til að fiska.  Annar hafði fengið þrjá fiska en hann hugðist ekki selja aflann.  Í hans huga var verslun ekki til.  Hann var bara að veiða sér í matinn og um algeran sjálfþurftarbúskap var að ræða.  Þetta var nú eitthvað sem hefði átt við Vinstri svarta heima á Íslandi.  Fátækt og rómantík og engin verslun eða græðgi í tilverunni. 

Fátækur fiskimaðurSeinna þegar ég var á rölti um risa stóran hótelgarðinn rakst ég á mann á göngu með gamla fílakví.  Hann vildi endilega koma mér á bak á fílinn, félagin hans var tilbúinn með stiga til að koma mér uppá, en mér leist ekkert á þetta.  Ég ákvað að eiga það inni til seinni tíma að ríða fíl.

Blue Water hótelið er í alla staði glæsilegt.  Maturinn og þjónustan er langt fyrir ofan það sem maður finnur á sólarströndum Spánar.  Hótelið er teiknað af frægasta arkitekt Sri Lanka þar sem þar sem opnu og lokuðu rými er ruglað saman á skemmtilegan máta. 

Útskriftin gekk vel og eins og venjulega þegar um hátíðlegar athafnir er að ræða var mér troðið við háborðið.  Mér datt í hug írskir vinir mínir sem ég kynntist í Ísrael í gamla daga.  Þeir voru kaþólikkar en voru ekki vissir um hvort guð væri til.  Þeir fóru hinsvegar reglulega í messu, svona til að hafa vaðið fyrir neðan sig.  Það kæmi ekki að sök ef engin guð væri, en ef hann væri nú raunverulegur þá var gott að hafa vitjað hans í kirkju.

Sama er með vini mína hér á Sri Lanka.  Þeir eru ekki alveg vissir um hver þessi Gunner er, en ef hann hefur nú einhver völd og áhrif er betra að hafa sýnt honum tilhlýðilega virðingu.

Gunnar, ráðuneytisstjórinn og ÁrniÉg endaði þennan ágæta sunnudag með því að skokka inn í myrkrið á þakinu á Hyde Park með Íslandslög 4 í eyrunum.  Byrjað á Rósinni og svo kom hver íslandsrómantíkin af annarri.  Svöl sjávargolan lék við vangann og notalegar minningar að heiman streymdu um hverja taug.

 

Fíll á göngu í hótelgarðinum


Lækkun dollars

US dollarLaunin hjá mér hafa verið lækkuð um 9% að undaförnu.  Ég gæti svo sem orðið brjálaður yfir þessu en við hvern er að sakast.  Seðlabankastjóra Bandaríkjanna fyrir að lækka stýrivexti?  Evrópusambandinu fyrir að gera ekki slíkt hið sama eða Davíð að halda þeim í himin hæðum á Íslandi?  Hvað er það sem ræður verði gjaldmiðla?

Hinsvegar er málið ekki alveg svona slæmt hjá mér.  Ég fæ launin reyndar í dollurum en kostnaður minn hér er allur í SLR.  Rúpinn hefur reyndar fylgt dollaranum í fallinu þannig að engin breyting hefur orðið á framfærslukostnaði mínum hér á Sri Lanka.  Eins ef ég kaupi mér flugmiða heim er verðið í dollurum og engin breyting orðið á kostnaði mínum hvað það snertir.  Hinsvegar fer megin hluti launa minna heim til Íslands til að taka þátt í rekstri heimilis míns þar.  og Þá er ég farinn að tapa þessum níu prósentum.

Svo er nú málið að við lækkun dollars þá aukast yfirburðir Bandarískra útflytjenda og innflutningur til BNA verður mun erfiðari.  Útflytjendur fá greitt fyrir varninginn í hinum ýmsu myntum, jenum, rúblum, evrum o.s.f.  Þeir þurfa að kaupa dollara til að greiða laun og fyrir hráefni.  Við það eykst eftirspurn eftir dollar og þá hækkar verðið á honum aftur.  Ég bara bíð rólegur eftir kauphækkun.


Rokk í Viktoríugarði

Sumarbústaðurinn í TunguskógiRolling Stones skokkið gekk vel í dag.  Ég fór reyndar í hádeginu, end Poja dagur og frí í vinnunni, með ,,Time is on me side" til að gefa tóninn. 

Á leiðinni út í Viktoríugarð rifjaðist upp skemmtileg saga sem tengist Rolling Stones.  Við höfðum verið með skógarbrennu í Tunguskógi og Jón Björn spilaði undir fjöldasöng á gítar og stýrði söng af mikilli reisn.  Þegar líða tók á kvöldið og búið taka öll Kötukvæðin var byrjað af fikra sig yfir í Stones.  Hann fékk mig til að syngja með sér en var ekki ánægður með árangur né kunnáttu í Rollingalögum.  Ég var svona hálf rekinn úr dúettinum og sofnaði með þau ósköp seinna um nóttina.

Morguninn eftir var ég kominn snemma morguns niður í bæ og var að rölta um með minni spúsu, þegar ég rekst á engan annan en Mick Jagger sjálfan.  Við spjölluðum við kappann og síðan dreif að fólk og fréttamenn.  Að lokum kom sýslumaðurinn sjálfur, aðdáandi Rolling Stones númer eitt á Íslandi.

 

Á SnækolliNú var aðal málið hjá mér að ná í Jón Björn til að segja honum að ég hefði fundið verðugan meðsöngvara til að leysa mig af.  Ekki tókst mér að hafa upp á kappanum fyrr en langt var liðið á dag og Jagger kominn um borð í snekkjuna á Ísafjarðarpolli þar sem hann var sem gestur.

Næsta lag er ,,Playing with the fire" sem minnti mig á Ívar vin minn sem telur að ég fari glannalega með frásagnir mínir af hernaði á Sri Lanka.  Kannski er það leikur að eldi en ég vona að stríðandi fylkingar kunni ekki íslensku ef þeir álpast inn á heimasíðuna mína.

Það er 33°C hiti og góðviðrisbólstrar á annars heiðskýrum himninum.  Fjölmennt í garðinum en enginn annar að hlaupa á þessum tíma dags.  Máið er að hitinn á mjög vel við mig.  Ég fór iðulega að skokka í Mexíkó í síestunni, og þar var hitinn 45°C.  Ég er hinsvegar óttaleg kuldaskræfa og hugsa með hrylling til vetratíma á togara í 15° frosti og 12 vindstigum úti á dekki við að bæta troll klukkutímum saman.

,,I cant get no satisfaction" glymur nú í hlustunum sem minnir mig á alla 10.000 km heim til Ísafjarðar.  Nú er komið að hröðum takti og ég valhoppa eftir göngustígunum og nú tekur sýndarveruleikinn við.  Ekki geta Rolling Stones dregið mig út á Halamið í frosti og brælu.  Hinsvegar svífa minningar sumarsins á Íslandi mér fyrir hugskotsjónum.  Fyrst er ég á leið upp á Snækoll í Kerlingafjöllum með góðum vinum mínum í sól og blíðu.  Útsýni miðhálendisins blasir við með öllum sínum tignarleika og fegurð.  Næst liggur leiðin upp á Bláhnjúk og Háöldu við Landmannalaugar þar sem sést til 13 jökla úr sömu sporum.

Komið af HáölduNú eykst takturinn og fjörið flæðir um mig allan.  Ég sé fyrir mér gönguferð upp snarbratta hlíð Hlöðufells, skriðurunna og klettótta.  Félagi minn fór fyrir hópnum en eiginkonan var neðar í hálfgerðri sjálfheldu.  Mér líst ekkert á félaga minn sem nú klifrar upp snarbratt klettabeltið.  Ég elti þó og þegar upp á brún er komið sést að við höfðum lokið við ókleifa brekku en rétta leiðin lá skammt vestan við okkur.  Bara að skella sér niður og láta eiginkonuna vita af réttu leiðinni.  Á toppnum í sól og blíðu blasir við fegursta útsýni sem ég hef séð.  Langjökull við fætur okkar með skriðjöklum sínum.  Í vestri blasir Snæfellsjökull við og í austri sést langt upp á Vatnajökul.  Við sáum hreinlega yfir Ísland endilangt.

Nú er komið að ,,Ruby Tuesday".  ,,Dont question why see needs to be so free"  ,, se will tell you it is the only way to be"  Það flýgur um hugann ástæðan fyrir veru minni hér.  Hvers vegna ég get ekki sætt mig við hversdagslega vinnu heima og látið áskorunina eiga sig.  ,,There is no time to loose"  Geta ekki sætt sig við hversdagsleikann og vilja lifa lífinu lifandi.  Læra nýja hluti og takast á við erfið verkefni.

 

Stína á HlöðufelliÞað er eins gott að fylla vel á vatnstankinn fyrir svona hlaup þar sem kælikerfið er þarf mikin vökva.  Eftir hlaupið er nauðsynlegt að kæla sig niður í svalri sundlauginni á annarri hæðinni, annars er maður að svitna allan daginn.  Þessum góða tungldegi er síðan lokið með hundrað boltum æfingavellinum á Water Edge golfvellinum.


Átökin á Sri Lanka

Ég fékk ábendingu vegna skrifa minna um stríðið á Sri Lanka um að fáir heima vissu um hvað það snérist og hvort ég gæti í stuttu máli sagt frá upphafi þess og helstu ástæðum.

LionÍbúar Sri Lanka tilheyra einkum fjórum trúarbrögðum sem hver um sig hefur sína menningu og siði og ólík tungumál.  Sinhalese eru buddatrúar og tala sinhalee og eru um 73% þjóðarinnar með ráðandi stöðu.  Upphaf þeirra á eyjunni má rekja tæp þrjú þúsund ár aftur í tímann þegar Indverskur prins settist að í Kandy.  Tamilar eru um 18% þjóðarinnar, eru hindúar og tala tamil.  Flestir þeirra komu fyrir löngu síðan yfir grynningar sem liggja milli meginlandsins og Sri Lanka frá Tamil á Indlandi, og settust að í norður héruðum eyjarinnar.  Annar hópur Tamila, sem á ekkert mena upprunan sameiginlegt við norðanbúa, var fluttur inn af Bretum á nítjándu öld til að vinna við te-plantekrur í hálendi Nuwara Eliya.  Múslímar eru um 8% þjóðarinnar, tala tamil og koma hingað sem kaupmenn.  Margir þeirra eru vel stæðir og hafa ítrekað orðið fórnarlöm stríðsins þar sem mikið er um mannrán þar sem krafist lausnargjalds af þeim.  Kristnir íbúar eru um 1% þjóðarinnar og er þjónustukonan mín ein af þeim.  Flestir íbúar tala þó ensku, einkum þeir sem tilheyra milli- og yfirstétt.

Sri Lanka fékk sjálfstæði 1948 og fyrst í stað gekk þeim allt í haginn.  Í rúm tíu ár eftir sjálfstæði landsins var enska sameiginlegt móðurmál þjóðarinnar og notuð til kennslu í öllum skólum.  Sinhalese fannst enska vera tungumál kristinna íbúa og fannst það brjóta gegn þjóðerniskennd sinni sem búddistar.  Það var síðan forsetinn og þjóðernissinninn Bandaranaikes sem kom á lögum um sinhalese sem þjóðtungu sem kom öllum illindunum af stað.  Bandaranikes fjölskyldan hélt síðan völdum meira og minna næstu áratugi og fyrir utan aðra öfgastefnur voru þetta kommúnistar og stóðu fyrir mikilli þjóðnýtingu á framleiðslutækjum.  Þeir m.a. breyttu nafni landsins í ,,Socal Republic of Sri Lanka" sem það heitir enn í dag.

TigerÞað var einkum tvennt fyrir utan þjóðtunguna sem ýfði Tamila upp og undirbjó jarðveginn fyrir hernaði þeirra seinna meir.  Í fyrsta lagi voru sett takmörk á háskólagöngu Tamila, en þeir höfðu fram að þeim tíma haft mikla yfirburði í menntun yfir Sinhalese.  Einnig að gera búddisma að þjóðtrú og innleiða margar lagasetningar sem tengjast þeim trúarbrögðum.  Sem dæmi er Poya dagur á morgun sem er almennur frídagur þar sem haldið er upp á fullt tungl að búddískum sið.  Þá má hvorki selja kjöt eða brennivín.  Einnig er bannað að deyða dýr og er bundið í landslögum að ekki má drepa flækingshunda. 

Árið 1983 sauð algerlega upp úr milli Tamila og Sinhalese þegar skæruliðar, sem þá voru byrjaðir að láta að sér kræða, sátu fyrir herdeild stjórnarinnar í Jaffna og stráfelldu þá.  Í nokkra daga á eftir hefndu Sinhalese öfgamenn þessa og drápu milli 400 og 2000 Tamila.  Ríkisstjórnin, herinn og lögreglan létu þetta óátalið.  Þetta breyttu smá skærum sem verið höfðu í borgarastyrjöld sem hefur staðið yfir síðan með illvígum átökum.  Á því hafa öfgamenn Tamila þrifist og berjast fyrir sjálfstæði norður og austurhéraða Sri Lanka. 

Það er rétt að geta þess að Indverjar blandast inn í þessa deilu, enda sendu þeir á níunda áratug síðustu aldar ,,friðaðgæslulið" til Jafna.  Um tíu þúsund Indverskra hermanna féllu á þessum tíma og hrökkluðust þeir til baka og þykir örugglega nóg að fást við tamilina heima fyrir.  Tamil tígrarnir ,,The Liberation Tigers of Tamils Liberation" (LTTE) eru aðallega hernaðarsinnar og skilja ekkert í pólitík.  Það gerir alla friðarsamninga erfiða þar sem ofbeldi er eina tungumálið sem þeir skilja.  Foringi þeirra, Velupillai Prabhakaran er einn eftirsóttasti hryðjuverkamaður heimsins og svífst einskis í herstjórn sinni.


Þjóðernisrómantík

Barnafossar í BorgarfirðiÉg uppgötvaði nýja vídd í lífinu um daginn.  Að hlusta á I-pod á hlaupum og gleyma sér yfir tónlist í skokki.

Nú er ég alveg húkkt á þessu og er farinn að hafa hvert skokk með sínum tón.  Á laugardaginn var það Megas en í kvöld var það þjóðernisrómantík.  Ég tók  Íslandslög með KK og Magnúsi og hellti mér út í íslenska rómatík, runna frá íslenskum sveitum og vestfirsku sjávarlöðri.

Þetta var alveg ótrúlegt og hvert lagið tók við af öðru.  Ég fann hvernig hárin risu aftan á hnakkanum og ljúfar tilfinningar hrísluðust um mig allan.  Æskudagar í sólskyni í heimasveitinni og ungi maðurinn sem fór á sjóinn og skildi ástina sína eftir með von um að hún héldi tryggð við sig.  Ég fann lyktina af hvönninni í Fljótavík og birkinu í Tunguskógi.  Heimþráin heltók mig og söknuður um fjölskyldu og vini komu gæsahúð út í 33° hita.  Það er á svona stundum sem maður myndi stökkva fyrir björg fyrir föðurlandið og forsetann.

 

Strandir 2007 023Áður en ég vissi af var komið myrkur í Viktoríugarði og nánast eina birtan var af stækkandi tungli sem nú eru tveir kvartil með 93% fyllingu.  Ekki spillti það rómantíkinni og ég stormaði sveittur og hræður út í öskrandi umferðina.  En ljúfur söngur KK og Magnúsar breyttu blikkbeljum í kindur sem ráfuðu um iðagrænar sveitar Íslands, og rútum í kýr sem bauluðu vinalega á smalann sem hafði dormað og dreymdi um ástina sína einu.  Ekki veit ég hvernig ég komst heim eftir myrkum götunum með geggjaðri umferð Colombo æðandi fram hjá mér. 

En talandi um tunglið þá er poja dagur á miðvikudaginn.  Almennur frídagur til að halda upp á fyllerí mánans.  Eins gott að fylla á ísskápinn með bjór og kjöti þar sem hvorugt má selja á slíkum hátíðardegi.

Næsta skokk-thema verður Rolling Stones.  Ég ætla að vona að vofan af sýslumanninum fræga elti mig ekki á þeim hlaupum.  Ekki það að sá ágæti aðalvíkingur væri slæmur skokkfélagi, en það gæti truflað rómatíkina.

Reykjarfjörður


Meira um hernaðinn á Sri Lanka

MV ManyoshiStríðsátökin eru efst á baugi hér á Sri Lanka, enda greinilega komið að vendipunkt í átökum stjórnarhersins í baráttunni við Tamil Tígrana.  Stjórnin hefur unnið hvern stór-sigurinn í sumar þar sem sjóorrusta í síðustu viku ber ber höfuð og herðar yfir velgengni stjórnarhersins þar sem sjóherinn er í aðalhlutverki.  Í byrjun september sigldu fimm herskip frá höfnum víðsvegar um landið, svo lítið bar á, og stefndu til hafs.  Með handtöku skæruliða og uppljóstum þeirra fréttist af væntanlegum herflutningum til Tígranna.  Herför sjóhersins var vandlega skipulögð aðgerð og þurfti mikinn undirbúning til að hrinda henni í framkvæmd þar sem reiknað var með allt að fjórum vikum á sjó.  Fyrir fimm herskip þarf mikið af birgðum fyrir áhafnir og skip og gæta þurfti þess að ekki bæri mikið á athöfnum sjóhersins til að koma skæruliðum á óvart.

Eftir viku siglingu í suð- austur var flotinn kominn nálægt ströndum Sumatra, í 1.400 mílur frá Sri Lanka, þegar fyrsta óvinaskipið kom í ljós.  Það reyndist vera flutningaskipið MV Manyoshi og eftir stöðvunarmerki sem ekki var hlýtt, hófu herskipin skothríð á skipið þar til það var alelda og sökk skömmu síðar.  Næsta sólahringinn náðu herskipin tveimur í viðbót sem hlutu sömu örlög.

Skipið brennurÁhættan í þessari aðgerð var gífurleg.  Flotadeildin er lungað úr herskipaflota Sri Lanka og þau voru ekki tiltæk þær rúmlega tvær vikur sem aðgerðin tók.  Hernaðaraðgerð undan ströndum annars ríkis er einnig áhættusöm, en mönnum hér ber saman um að um vel heppnaða og skipulagða herfræði var að ræða.

Þessi aðgerð hefur þrengt verulega að Tígrunum og árás flughersins á skotvopnabirgi þeirra í síðustu viku hefur lamað herstyrk þeirra, a.m.k. tímabundið.  Spurningin er hvernig Tígrarnir bregðast við þeirri stöðu sem þeir virðast komnir í.  Munu þeir hefja árásir á óbreytta borgara eða efnahagslega mikilvæg skotmörk, eins og sumir hafa haldið fram.  Ljóst er á yfirlýsingu varnarmálaráðherra landsins, bróðir forsetans, að nú verði hné látið fylgja kviði enda eina leiðin til að koma á friði í landinu sé með hernaði og sagan sýni að friðarviðræður séu ekki til neins.  Forsetinn virðist styðja þessa yfirlýsingu þannig að stefna stjórnvalda er að koma á friði fyrir næstu kynslóð, með hernaðaraðgerðum.

Ekki eru allir sammála þessari herfræði þar sem utanríkisráðherra landsins lýsti því yfir nýlega að deilan yrði ekki leyst með hernaði, heldur með pólitískum leiðum.  Sendiherra Bandaríkjanna hér í landi var harðorður í garð stjórnvalda í síðustu viku vegna hernaðarins og mannréttindabrota og sagði að átökin yrðu aldrei leyst með hernaði.  Hann ætti kannski að ráðleggja sínum mönnum í Washington í þessum efnum hvað Írak varðar.  Nýlega sá ég viðtal við hershöfðingja Breta í Afganistan, sem var yfirmaður breska hersins í Norður Írlandi síðustu fimm ár borgarastyrjaldarinnar þar.  Hann sagði að sú deila hefði sprottið af pólitískum rótum og hefði því þurft pólitíska lausn.  Herfæðin þar hefði gengið að halda hlutunum í skefjum meðan pólitísk lausn var fundinn.

AðmírállinnMörgum hér finnst kostnaðurinn við hernaðinn vera óverjandi og þjóðfélagið sé komið á hliðina vegna þess, með rauð ljós blikkandi á öllum varðstöðvum hagkerfisins.  Fjárlagahallinn er gríðarlegur og brugðist er við því með erlendum lántökum og peningaprentun.  Slíkt eykur verðbólgu sem nú er um 18% á ársgrundvelli sem veldur kostnaðarhækkunum á lífsnauðsynjum.  Hernaður veldur bara kostnaði en ekki vexti í hagkerfinu, þar sem hann hvorki eykur þjónustu eða framleiðslu samfélagsins.

Stjórnin hefur sýnt mikla grimmd í átökum við Tígrana og má benda áatvik sem átti sér stað í sumar, þegar lögreglan handtók tvö hundruð tamíla í Colombo, sem líklegir þóttu sem ,,sellur", og fluttu nauðuga til tamílasvæða í norðri.  Ítrekuð mannréttindabrot stjórnarinnar hafa fælt frá þróunarstofnanir, og liggur við að Íslendingar séu einir eftir, ásamt Japönum og Kínverjum.  Eftir mikið örlæti þróunarstofnanna og NGO um allan heim eftir Tsunami með hundruðum milljónum dollara strykjum og aðstoð við uppbyggingu samfélagsins hefur þessi innsprauta í hagkerfið nánast horfið.  Sri Lanka komin á svartan lista hjá flestum vestrænum þjóðum og njóta minnkandi samúðar þeirra.

Forsetinn er farinn til New York til að halda ræðu í allsherjarþingi S.Þ. og reyna að útskýra málstað Sri Lanka og hvers vegna hernaðurinn við Tígrana er nauðsynlegur.  Ég vona hans vegna að hann komi pontu næst á eftir forseta Írans, enda mun hann líta út sem engill við hliðina á þeim brjálæðing. 

Það er mikilvægt fyrir Sri Lanka að ríkisstjórnin nái að vinna sig út úr þessum málum.  Kostnaðarhækkanir á lífsnauðsynjum eru miklar með vaxandi verðbólgu og tiltrú manna á samfélagið er í lágmarki.  Það hvílir hálfgerður drungi yfir þjóðinni og dagblöðin eru full af neikvæðum fréttum og bölsýni.


Stríðið á Sri Lanka

Úr ViktoríugarðinumÉg fór að skokka í Viktoríugarði eftir vinnu í dag.  Þrátt fyrir að ég væri með Megas í ipodinum þá glumdu trúarsöngvar í hátölurum mosknanna um sexleytið. Það kom upp í hugann orð fréttamanns á BBC um daginn að þó allir múslímar væru ekki hryðjuverkamenn mætti segja að allir hryðjuverkamenn væru múslímar.  Það er reyndar mikið til í þeirri fullyrðingu og ógnvekjandi að hugsa til þessara manna sem ganga gegn öllu því sem maður trúir á og ber mesta virðingu fyrir.  Reyna að þvinga vesturlandabúa til að ganga gegn frelsi og mannvirðingu með hótunum um ofbeldi og yfirgang.

 

 

 

 

KumaranEn það eru fleiri hryðjuverkamenn en múslímar.  Sá hryðjuverkamaður sem er númer tvö á lista yfir hættulegustu menn heimsins, næst á eftir Oshama Bin Laden, er tamili og er hindúatrúar.  Hann heitir Kumaran Padmanadan og stjórnar ásamt félaga sínum, Velupillai Prabhakaran, hernaði Tamil Tígra á Sri Lanka.  Hann er meðal annarra illvirkja talinn bera ábyrgð á morði á Indverska formetisráðherranum Rajiv Gandhi fyrir nokkrum árum.  Reyndar eru áhöld um hvort Kumaran hafi náðst í Tælandi í vikunni, en það hefur ekki verið staðfest.

Það hefur reyndar fokið í flest skjól hjá Tamil Tígrum síðustu mánuði og stjórnarherinn hefur náð verulegum árangri í sókn gegn þeim.  Stjórnarherinn hefur náð tveimur mikilvægum héruðum á austurströndinni á sitt vald, Batticaloa og Tricomaliee.  Mikil áhersla er lögð á að byggja upp samfélagið í þessum stríðshrjáðu héruðum og þegar ICEIDA hugðist draga til baka áætlanir um uppbyggingu löndunarstöðva þarna í sumar, brugðust stjórnvöld ókvæða við.  Hart var lagt að okkur að halda áætlun og standa við fyrirhugaða uppbyggingu, sem var gert og tilboð í byggingu sex stöðva voru opnuð í síðustu viku.  Vandamálið er hinsvegar að óaldarflokkar ganga enn lausir og mikið er um mannrán og morð, sem ekki tengjast endilega átökum Tamila og Sinhala.

Sri Lanka mapÁsamt uppgjöf á þessum svæðum er hart sótt að Tígrunum annars staðar en helstu svæði þeirra eru í norður hluta landsins.  Um síðustu helgi sökktu herskip stjórnarhersins þremur flutningaskipum um þúsund mílur suður af Sri Lanka, fullum af hergögnum fyrir Tígrana.  Í gær sprengdu orrustuþotur stjórnarhersins upp mikilvægt vopnabúr í Jaffna og kom tilskipun frá foringjanum, Prabbhakaran, að hermenn hans ættu að spara skotfæri eins og mögulegt væri.  Í gær var jafnframt gerður upptækur stór frystitrukkur, fullur af sprengiefni sem nota átti til hryðjuverka. 

Því miður hefur þetta aðeins aukið trumbuslátt hernaðar hér á Sri Lanka og með auknu sjálfstrausti ríkisstjórnarinnar eykst tiltrú á að hernaðarlausn náist í þessari deilu.  Það sem ég óttast er að þegar Tígrarnir verða reknir út í horn muni þeir beita örþrifaráðum.  Þeir hafa framið mörg illvirki en margir óttast að svokallaðar ,,sellur" séu virkar og bíði fyrirmæla.  Þeir eru með sprengibeltin sín tilbúin og bíða bara eftir stikkorðinu til að klæðast því og sækja á fórnarlambið með sjálfsmorðsárás.

 

Maður er hinsvegar orðin vanur hernaði hér, enda herlög í gildi.  Sendiráðið er við hliðina á forsetahöllinni og mikill viðbúnaður þar.  Gatan er lokuð fyrir almennri umferð og þurfum við því að fara framhjá vopnuðum vörðum til að komast til og frá vinnustaðnum.  Í morgun var eitthvað múður í vörðunum og þurfti bílstjórinn að ræða lengi við þá til að komast í gegn.  Hann sagði mér að ný vakt hefði tekið við sem væri óvön og þekkti því fastagesti götunnar eins og okkur.  Í hádeginu var ég spurður spjörunum úr áður en ég fékk að fara um varnarhliðið.

Hindu musteriÉg velti því stundum fyrir mér hvort öryggi felist í þessari nálægð við þann stað sem Tígrarnir gæfu mest fyrir að gera óskunda í.  Hvort gæslan yfirstigi aðdráttaraflið.


Efnahagsmál á Sri Lanka

Sri Lanka mapÉg hef gaman af að fylgjast með umræðu um efnahagsmál hér á Sri Lanka.  Margt minnir á gamla tíma að heiman sem lítill söknuður er frá.

Í hádeginu fékk ég gott tækifæri til að bæta við þekkingu á efnahagsmálum landsins þegar ég hlustaði á erindi á Rótarýfundi þar sem ræðumaður dagsins var Country Director of World Bank á Sri Lanka.

Hú dró upp ófagra mynd af ástandinu hér í landi þar sem fátækt hefur aðeins dregist árlega saman um 1.1% á tíunda áratug síðustu aldar, en hagkerfið hefur aukist um 3% að jafnaði á sama tíma.  Það segir okkur að ójöfnuður er að aukast sem er þvert á mörg önnur lönd í Asíu, t.d. Malasíu, Tæland og Víetnam.  Í Kína og Kóreu hefur ójöfnuður aukist aðeins meir en hagkerfið, en tölurnar eru bara allt aðrar.  Í Kína hefur hagkerfið aukist um 8.8% á umræddum tíma og fátækt minkað um 8.3%

Bankastjóri W.B. á Sri Lanka taldi að stríðið í landinu hefði mest að segja um öfugþróun hér í landi miðað við önnur Asíuríki.  Ef þeir peningar og orka sem fara í stríðsreksturinn færi í stefnumótun og uppbyggingu á mannauð og skipulagi væri myndin önnur.  Reyndar tel ég að ósamstaða og pólitískt ástand, sem að hluta til er vegna innbyrðis átaka þjóðfélagshópa (sinhalee, tamila, múslíma og kristinna), eigi stóran hluta að máli.  Sem dæmi er ríkisstjórnin sett saman af alls kyns flokkum og trúarhópum ásamt ýmsum hagsmunahópum.  Ráðherrar eru 120, af 108 manna þingliði og slíkt ástand kallar á endalausa málamiðlun og spillingu.  Guð veit að Íslendingar þekkja vinstri stjórnir en þetta ástand tekur því langt fram.

Það vakti ennfremur athygli mína hlustandi á erindi hennar að svæðið sem ég fór um í gær og sagði frá í bloggi mínu, vesturströnd Sri Lanka, er einmitt það sem mestar framfarir eru á.  Það er því engin tilviljun að ferðalagið vakti athygli mína með jákvæða ásýnd og velmegun miðað við annað sem ég hef séð hér í landi.

Hundalíf á Sri LankaOft kemur upp í hugann, eftir góðan morgunverð við að lesa dagblöðin, er á hversu lágu plani efnahagsumræðan oft er.  Þar eru Vinstri Grænir gerðir góðir og þó víðar væri leitað.  Sem dæmi var haft eftir forystumanni stjórnarandstöðunnar, UNP, að ástæða erfiðleika í efnahagsmálum væri ,,kostnaður" ríkisins við innflutning á alls kyns óþarfa, eins og eplum og appelsínum.  Nær væri að rækta þetta innanlands og ,,ríkið" gæti þannig sparað peningana sem færu í þennan óþarfa og notað í annað.  Þessir menn gera landbúnaðarpólitík Íslendinga góða.

Annað sem ég rakst á þar sem haft er eftir þingmanni sama flokks að ríkið hefði ,,tapað"  106 milljarði rupees í fyrra, og 71 milljarði á þessu ári vegna gengislækkunar gjaldmiðilsins gagnvart dollar.  Þetta er náttúrulega stórmerkileg hagfræði og minnir mig á annað sem ég rakst nýlega á í samræðum við vel gefið og menntað fólk hér í bæ.  Þau töldu að verðgildi gjaldmiðils réði algerlega verðlagi í viðkomandi landi.  Samkvæmt því væri allt tíu sinnum dýrara á Íslandi en í Danmörku.  Öll svona rök gera mann orðlausan.  Reyndar er ekkert óeðlilegt við að venjulegt fólk skilji ekki hagfræði, enda um ólíkinda tól að ræða.  En þá kröfu verður að gera til þingmanna að þeir skilji grundvallar atriði hagkerfisins, alla vega áður en þeir láta hafa eftir sér á forsíðum dagblaða.  Málið er að bæði dæmin sem nefnd voru hér að framan voru tekin af forsíðu Financial Times hér á Sri Lanka.

Ráðhúsið í ColomboÁ Rótarý fundinum voru borðfélagar mínir að spyrja um Ísland og hverju við lifðum á.  Snúið að svara því þar sem við lifðum á sjávarútveg en nú væri fjármálaþjónusta mikilvægust.  Þeir töldu að sjálfsögðu að við hlytum þá að vera í einhverju ólöglegu.  Ekki væri hægt að græða á fjármálaþjónustu nema stunda einhverja glæpi. Það ríkir töluverð svarsýni meðal þjóðarinnar.

Það er gott að vera Íslendingur.


Í fiskimannaþorpi

Ráðuneyti 052Í dag fórum við félagarnir norður í land til að afhenda löndunarstöð, sem Íslendingar hafa byggt, með formlegum hætti til fiskimannasamfélagsins í Kandakuliya.  Íslendingar hafa byggt ellefu byggingar á átta stöðum til að styrkja fiskimannasamfélög á Sri Lanka.  Byggingarnar hafa verið afhentar samvinnufélögum fiskimanna til afnota, en þær þjóna margskonar tilgangi.  Meðal annars er aðstaða til lagfæringar á veiðifærum, hreinlætisaðstaða (oft sú eina boðlega í þorpinu), fundarstaður, geymsla fyrir utanborðsmótora og skrifstofa fyrir samvinnufélagið.

Í dag var sú ánægjulega undantekning að húsnæðið í Kandaluliya var afhent nýstofnuðu kvenfélagi þorpsins.  Í þorpinu eru tvö samvinnufélög fiskimanna sem barist hafa á banaspjótum og gátu ekki komið sér saman um rekstur löndunarstöðvarinnar.  Höggvið var á hnútinn með sameiginlegu kvenfélagi þorpsins, sem tók forlega við rekstri hússins í dag.  Stjórn félagsins bauð okkur upp á hressingu eftir mikil hátíðarhöld, og voru konurnar spenntar fyrir þeim möguleikum sem húsið gæti fært þeim.  Þær ætla að nota hluta þess undir barnaheimili sem gerir þeim kleift að koma börnum sínum í pössun og geta þá aðstoðað menn sina við útgerðina.  Þær geta til dæmis unnið við lagfæringar á netum eins ofið reipi úr kókós sem notuð eru í veiðarfæri.  Kvenfélagið hugðist einnig koma sér upp bókasafni í húsinu til að bæta aðgengi að þekkingu í samfélaginu.

SteintaflanÞað var mikið af konum þarna í dag og ólíkt því sem ég hafði séð á myndum af fyrri afhendingum á löndunarstöðvum, höfðu þær sig mikið í frammi.  Áður sá maður karlmennina fremst en konur og börn í bakgrunninum utan við bygginguna.  Nú voru þær komnar alla leið í míkrófóninn til að halda ræður.  Ísland var nefnt í hverri setningu, reyndar var það eina sem ég skildi þar sem allt fór fram á Shinalee.

Sjómenn á þessum slóðum róa á litlum trefjaplastbátum með utanborðsmótor.  Flestir róa með net og leggja á sjóinn seinnipart dags og landa aflanum í dagrenningu.  Í sumum löndunarstöðvunum sem við höfum afhent er uppboðsmarkaður við hliðina, þar sem fiskurinn er seldur fiskihöndlurum sem síðar koma þeim áfram á markað, oftast í boxi aftan á mótorhjóli.

Það vakti athygli okkar hversu mikið var af vel byggðum fallegum húsum á þessum slóðum.  Íbúar svæðisins eru að miklu leyti kaþólskir og sækja margir þeirra vinnu til Ítalíu.  Þar vinna þeir margvísleg þjónustustörf og senda nánast alla hýruna heim til ættingjanna.  Þetta dugar til að byggja myndarlegt hús og koma sér vel fyrir að öðru leiti.  Þetta á að sjálfsögðu ekki við um Stjórn kvennfélagsinsfiskimennina sem eru með lægst launuðustu stéttum landsins, kunna ekki ensku og hafa enga möguleika á vinnu erlendis.

Á heimleiðinni, um fjögurra tíma akstur hvora leið, komum við í tveimur löndunarstöðvum sem við höfum byggt.  Önnur var afhent í apríl s.l. og hin verður afhent við hátíðlega athöfn á næstunni.  Við erum bjartsýnir á að þessi grunnstofnun fyrir sjávarþorpin bæti lífsgæði íbúana og auki möguleika þeirra til að byggja upp betra samfélag.

 

 
Hátíðarhöld við afhendingu

 

Sendiráðsbílinn


Skál fyrir Skotlandi

 Mackwoods verksmiðjanVið hjónin skruppum til Nuwara Eliya yfir helgina. Litla England eins og það hefur verið kallað, hjarta teræktar á Sri Lanka og þó víðar væri leitað. Við dvöldum tvær nætur á St. Andrews, 117 ára gömlu hóteli sem byggt er í skoskum nýlendustíl.  Við létum ekkert minna en svítuna duga með allar máltíðir innifaldar.

 

Á leiðinni upp eftir stoppuðum við í Kandy, sem er fyrrum höfuðborg landsins, og er hjarta Búddismans í heiminum.  Þar er tönnin úr Budda er geymd, sem er það eina áþreifanlega sem til er af þessum mikla heimspekingi, en henni var bjargað af prins rétt áður en bálför hans fór fram.  Við fórum í musterið þar sem tönnin er geymd, og þurftum að berja frá okkur leiðsögumenn sem vildu sýna okkur musterið.  Það verður að segjast eins og er að ágengni innfæddra á ferðamannastöðum hér er óþolandi og beita þarf hörðu til að losna við þá.

hýbíli TamílaÞegar við komum upp úr regnskóginum, í um 1500 metra hæð, tóku við fögur engi og hæðir sem minna óneitanlega á England.  Á leiðinni upp er farið í gegnum múslima byggðir og moskur á hverju strái.  Þegar ofar dregur er ekið um byggðir þar sem Tamílar eru í meirihluta, en þeir eru Hindúar.

Þegar Bretar hófu terækt í Nuwara Eliya fluttu þeir inn Tamíla frá Indlandi þar sem illa gekk að nota innfædda til vinnu.  Þeir hafa ílents þarna og eiga ekkert sameiginlegt við þá Tamíla sem kenndir eru við Tígra og búa á norðurhluta eyjarinnar og halda úti hernaði við stjórnvöld.

Við komum við í teverksmiðju og fengum að skoða hana undir leiðsögn starfsmanns. Fyrst sýndi hún okkur runna fyrir utan og útskýrði fyrir okkur hvernig nokkur blöð á dag eru tekin af hvert sinn. Aðeins blöð með réttum blæ eru tínd og alls ekki öll á sama tíma.  Þannig verður þessi vinna seint vélvædd, en Tamílakonurnar sem sjá um tínsluna eru með lægst launuðustu stéttum landsins.  Á innan við sólarhring eru laufblöðum terunnans breytt í ýmsar gerðir af te. Allt eftir smekk og tísku á hverjum stað og tíma, en hvert tefyrirtæki á sína platekru með sína verksmiðju.  Við fengum að smakka afurðina hjá Mackwoods Estate á tehúsi handan við götuna frá verksmiðjunni. 

Vinna í verksmiðjunniMér varð hugsað til þess þegar ég sá hýbýli fólksins sem vinnur við tetínslu og í verksmiðjunni, hvað hugtakið auðhyggja (kapítalismi) stendur fyrir.  Þetta úthrópaða orð sem notað hefur verið sem ímynd um mannvonsku og græðgi, er mjög svo misskilin.  Málið er að breytingin sem varð á högum almennings við auðhyggju var ótrúleg.  Fyrir þann tíma var almenningur algerlega undir yfirstéttinni kominn og hafði enga möguleika nema þjóna þeim til að fá að borða.  Konungar tóku vald sitt frá guði og tryggðu undirgefni með því að halda almúganum við hungurmörk.  Auðhyggjan snérist um að almúginn gat þénað meira en til nauðþurftar og gat lagt fyrir til seinni tíma.  Búið afkomendur undir lífið og tryggt eigið öryggi í ellinni.  Þetta fólk á platnekrum Nuwara Eliya á enga möguleika á slíku, það kemst hreinlega aldrei lengra en að uppfylla frumþarfirnar, það er múlbundið í viðjum fátæktar og hefur ekki notið lystisemda auðhyggjunnar, eins og Íslendingar hafa gert í ríkum mæli undanfarna áratugi.  Auðhyggja hefur aldrei snúist um að nota vinnuafl til að auðgast á því eins og svo oft er haldið fram.  Heldur að almenningur geti þénað meira en til nauðþurftar og byggi þannig upp vaxandi hagkerfi, öllum til góðs.

Stína á St. AndrewsHótelið var ótrúlega flott og hafði þennan gamla djúpa karakter.  Stundum fannst manni þjónarnir vera fleiri en viðskiptavinirnir og allt viðmót starfsmanna var til fyrirmyndar.  En það sem mestu máli skipti var að í rúmlega tvö þúsund metra hæð yfir sjávarmáli var hitastigið fyrir neðan 20 gráður á Celsíus.  Rok og rigning daginn út og inn og notalegt að finna hitaflöskuna sem þjónustufólkið setti í rekkjuna á kvöldin til að halda á okkur hita inn í draumalandið.  Ég skildi loksins þjóðverjana sem elska Ísland, þrátt fyrir rigningu og rok.  Þetta var hreinlega dásamlegt.  Það eina sem vantaði upp á þegar ég sat í djúpum hægindastól eftir heitt bað með viskí glas í hendi, var að reykja pípu.  Við vorum komin á skosku hálöndin, í rok og rigningu og skotinn Adam Smith og kenningar hans leituðu á hugann.


Á skjálftavaktinni

Ráðherra og ráðuneytisstjórinnRáðstefnan sem ég sótti í dag í NARA hét ,,Workshop on the Ocean Observation Center at NARA and its Contributions Towards Ocean Research and Environmental Security". Hún var haldin í tilefni opnunar nýrrar deildar hjá stofnunni, sem heitir snarað yfir á ylhýra málið okkar, vöktunarstöð sjávarins.  Stofnunin fylgist með jarðskjálftum í Indlandshafi, stormum, skýstrókum ásamt hugsanlegum meiriháttar mengunarslysum.  Markmiðið er að lágmarka tjón af náttúrhamförum með upplýsingaöflun og gefa út viðvaranir. Það er því merkileg tilviljun að jarðskjálftar hristu Indónesíu í gær og dag og setti reyndar ráðstefnuna á annan endann.

Háverðugur sjávarútvegsráðherra átti að ávarpa samkunduna klukkan hálf tíu í morgun en var kallaður á neyðarfund hjá forsetanum vegna atburða síðasta hálfan sólarhringinn. En skyndilega komu boð um að ráðherra myndi mæta og ákveðið að bíða með prógrammið á meðan.  Við fengum að horfa á skemmtilega bíómynd með Al Gore í aðalhlutverki á meðan við biðum.  Fyrir framan okkur hafði neyðarstöðin verið sett upp til að sýna ráðstefnugestum herlegheitin, fjórar tölvur með alls kyns línuritum og súlum.  Allt í einu hvað við viðvörunarhljóð  og rautt ljós blikkaði.  Það hafði orðið jarðskjálfti útaf Indónesíu upp á 7.8 á Rikter.  Reyndar fór neyðarbúnaður af stað tvisvar eftir þetta, áður en dagurinn var allur, en hann lætur vita af öllum jarðskjálftum sem eru 6 eða meira á Rikter skala.

Á skrifstofu ráðuneytisstjóraNú var ráðherra mættur og byrjaði á að heilsa Árna með virktum og tók hann síðan með sér til sætis við háborðið. Þar voru þeir í góðum félagsskap með ráðuneytisstjóranum og stjórnarformanni NARA. Ráðherrann hélt langa langa ræðu á Singalee.  Það eina sem ég skildi var að hann nefndi Árna reglulega þannig að Íslendingar eru honum ofarlega í huga.  Reyndar snúa öll okkar þróunarverkefni hjá ICEIDA að sjávarútveg og við erum þeir einu sem sinnum þeim málaflokki á Sri Lanka.  Það kom því ekki á óvart að við vorum einu útlendingarnir á ráðstefnunni og óhætt að segja að einkar gott samband hefur myndast milli Íslendinga og Sri Lankana á þessu sviði.

Mikil umræða hefur verið um viðvörun sem gefin var út í gærkvöldi með rýmingu á landsvæðum á suður odda landsins.  Á blaðamannafundi eftir ávarp ráðherra þar sem hann ásamt forsvarsmönnum NARA sátu fyrir svörum var talað um úlfur úlfur viðbrögðum hjá fólki.  Ráðherra og stjórnendur NARA vörðust þó og töldu betra að hafa vaðið fyrir neðan sig.  Betra væri að gefa óþarfa viðvörun en skella skolleyrum við hættu sem gæti valdið óskaplegu tjóni.  Ef viðvörunarkerfi og áætlun hefði verið til í desember 2004 hefði manntjón orðið verulega minna en raunin varð.

höfuðstöðvar NARAEftir hádegið var tæknilegur hluti ráðstefnunnar og gaman að sjá hvernig vísindamenn stofnunarinnar afla gagna sem breyta má í upplýsingar sem síðar verða að þekkingu.  Gervihnattaverkefnið okkar bar margoft á góma, enda félagar mínir Raul og Rajapaksa innstu koppar í búri á ráðstefnunni.


Skjálfti í vinnunni....

Tilboðin opnuðÞað var viðburðaríkur dagur í vinnunni í dag. Reyndar hafði ég tíma fyrir hádegisverði með eiginkonunni þar sem sushi nigiri varð fyrir valinu hjá mér. Þrátt fyrir að hafa sett upp heila verksmiðju með Ívari vini mínum til að framleiða þennan góða mat í tuga tonna tali er þessi japanski matur alltaf mitt uppáhald.

Eftir hádegi opnuðum við hjá ICEIDA tilboð í átta löndunarstöðvar sem við munum byggja í Ampara.  Það var fjöldinn allur af verktökum viðstaddir og varð að hleypa þeim inn í fundarherbergið í hollum. Ampara er á austur ströndinni og farið að nálgast átakasvæði í stríðinu við Tamila. Næst opnum við tilboð í sex stöðvar í Battilacoa, og þar erum við komin á landsvæði sem stjórnarherinn náði valdi yfir fyrir nokkrum mánuðum síðan. Ríkisstjórnin leggur mikla áherslu á uppbyggingu á þessum svæðum til að koma daglegu lífi í réttar skorðu og minka þannig líkur á meðaumkun með Tamilum, en þeir eru margir á þessu landsvæði.  Þessu framlagi Íslendinga er því fagnað.  Ég mun segja betur frá þessu löndunarstöðva verkefni seinna en í dag var formlega verið að hefja Gervihnattaverkefnið.

Við Árni með ráðherra, ráðaneytisstjóra ofl.Ég hef áður sagt frá því verkefni sem er á minni ábyrgð gagnvart ICEIDA og gengur út á að sækja gögn í gegnum gervihnetti og búa til upplýsingar til að spá fyrir um staðsetningu flökkufiska eins og túnfisks.  Þó vinna við verkefnið sé þegar hafin var það formlega sett af stað í sjávarútvegsráðuneyti Sri Lanka í dag.

Fyrst var fundur yfirstjórnar verkefnisins sem setti mig ásamt tveimur haffræðingum frá NARA (Hafró Sri Lanka), sem tæknilega stjórnendur verkefnisins. Við það tækifæri var ráðuneytisstjóri sjávarútvegsráðuneytisins viðstaddur ásamt stjórnarformanni NARA og tækninefndinni.

Seinna var fundur með sjávarútvegsráðherranum, ráðuneytisstjóranum, stjórnarformanni Nara ásamt okkur Árna. Íslendingum var mikið hrósað fyrir framlag okkar til sjávarútvegs á Sri Lanka og las ráðherrann upp þrjár síður af lofrullu og tæknilegri lýsingu á verkefninu.  Ráðherrann var frekar lágróma og þurfti að leggja sig allan fram um að ná því sem hann las upp.  Í sófanum sem við höfðum setið áður var hópur fólks kominn og fylgdi því töluvert skvaldur.  Seinna frétti ég að þetta væru ráðgjafar ráðherrans og biðu eftir að ná á hann, enda átti ríkisstjórnarfundur að hefjast innan stundar.

Árni og SjávarútvegsráðherraMér varð nú hugsað til vinar míns Einar Kristins og hvort ekki væri rétt að hann drifi sig í heimsókn til Sri Lanka og hitti fyrir starfsbróður sinn sem virðist vera nokkuð ánægður með samskiptin við Íslendinga.  Það er gaman að segja frá því að núverandi forseti (hér er franska kerfið í gangi) var áður sjávarútvegsráðherra og kom tvisvar til Íslands sem slíkur.

Fundurinn var varla búinn þegar boð byrjuðu að streyma inn um öflugan jarðskjálfta út af Indónesíu.  Við vorum innan um réttu mennina þar sem upplýsingar um jarðskjálfta og flóðöldur eru mótteknar hjá NARA, sem síðan kemur þeim til stofnunnar sem dreifir þeim til almennings.  Stjórnarformaðurinn var því ágæt uppspretta upplýsinga, en eiginkona mín hafði hringt með áhyggjur þar sem fréttin var komin á BBC.  Ég gat því róað hana með öruggar fréttir af því sem væri að gerast.

Allt í einu bankaði ráðherrann í öxlina á mér með gsm síma í hendinni, með þær fréttir að skjálftinn hefði verið enn stærri en í fyrstu var talið, eða 8,2 á Ricter.  Í nokkur augnablik voru menn áhyggjufullir og fylgdust með atburðum í sjónvarpi en sem betur fór reyndist engin hætta á flóðbylgju.  Við félagarnir urðum ráðherranum samferða fram á gang og reyndar í lyftunni niður á jarðhæð í ráðuneytinu.

Ráðherra fylgism með fréttumEn framundan er spennandi verkefni að vinna að með ágætum vísindamönnum.  Annar þeirra er Sinhalee og trúir á Budda en hinn er Tamili og er hindúi.  Á morgun verð ég allan daginn í höfuðstöðvum NARA á ráðstefnum um haffræði, en þar sem verkefnið okkar tengist þeirri grein er reiknað með að ég sýni áhuga og sitji allan daginn og meðtaki fróðleik um hafstrauma, sjávarhita og þörunga.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.9.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 9
  • Frá upphafi: 287349

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband