Á ferð og flugi

GunnarÞað er mikið um ferðalög framundan næstu vikurnar.  Í fyrramálið förum við félagarnir, undirritaður, Leslie, Nishantha og Kumara í úttektarferð um suður Sri Lanka.  Við erum að taka út starfsemi löndunarstöðva sem Íslendingar hafa byggt til uppbyggingar fiskimannasamfélaga hér á landi.  Við munum gista í bæ sem heitir Matara næstu nótt og komum til baka til Colombo á föstudagskvöld.

En bloggari mun stoppa stutt við og aðfararnótt laugardagsins flýgur hann í austur til Bankok í Tælandi.  Þaðan verður flogið í vestur til Uganda í Afríku.  Þetta verður langt og strangt ferðalag og lending á Entebbe um sólarhring eftir brottför hér.

Eftir tvær vikur í Uganda verður haldið til Sri Lanka aftur og sama dag og eiginkonan lendir hér í borg frá London, hún er að koma í heimsókn hingað, lendir bloggari úr flugi frá Uganda via Tæland. 

 Á myndinni hér að ofan er bloggari að drekka úr kókóshnetu í einkennisklæðnaði við úttekt á löndunarstað.  Sú neðri sýnir hóp manna draga inn landnót.

Nótin dregin


Kvótakerfið, enn og aftur

Hagræn stjórnun fiskveiða

Umhverfið í kringum setningu kvótalaga einkennist af gríðalegu tapi útgerðar og leituð því menn að hagrænni stjórnun fiskveiða.  Ekki ríkti samkomulag hagsmunaaðila um málið, þar sem ausfirðingar sóttu á kvótaleiðina en vestfirðingar voru á móti.

Haustið 1983 stóð sjáverútvegurinn frammi fyrir þríþættu vandamáli:

1.       Þorskstofninn var i mikilli lægð þannig að stórdraga þurfti úr veiðum

2.       Mikill hallarekstur

3.       Lengi hafði ríkt ósamstaða í röðum hagsmunaaðila um hvernig haga skyldi stjórnun botnfiskveiða og ekki hafði komið til stjórnmálalegt frumkvæði að úrlausn málsins (Kristinn Hugason 2001)

Það var ljóst á þessum árum að fiskiskipastóllinn var allt of stór miðað við veiðistofna og því varð að leita leiða til að draga úr veiðigetu og auka hagkvæmni.  Ekki þurfti kvótakerfi til að ákveða hámarksafla, enda hægt að gera það með hvaða kerfi sem var.

Hefðbundnar leiðir til fiskveiðastjórnunar hafa verið að takmarka veiðagetu fiskveiðiflotans til að vernda fiskistofna fyrir ofveiði, með útgáfu veiðileyfa.  Þessi leið hefur hinsvegar kallað á miklar og óhagkvæmar fjárfestingar í flotanum, til að auka veiðigetu einstakra skipa í ólympískri keppni um veiðar á takmörkuðum stofnum.  Evrópusambandið hefur brugðist við þessu vandamáli með því að takmarka tæknilega veiðagetu skipa, en Norðmenn hafa hinsvegar farið þá leið að miða eingöngu við lengd skipa.  Ekki hefur tekist að brúa þetta bil milli takmörkunar og hagkvæmni þar sem þessi leið virðist ætíð kalla á sóun með lélegri nýtingu fjármagns.

Takmörkun með setningu heildarkvóta á veiðar eru síðan önnur leið sem þjóðir hafa reynt.  Þessi leið hefur jafnframt kallað á aukna sóun fjármuna, þar sem keppt er um afkastagetu einstakra skipa til veiða á sameiginlegum kvóta.  Þetta hefur oft verið kallað ,,raunir almenninga" (Tragety of the Common) þar sem hver reynir að hámarka hag sinn án tillit til annarra þátttakenda í veiðunum eða sameiginlegra hagsmuna allra.

Íslendingar ákváðu hinsvegar að nota kerfi þar sem kvóta væri skipt upp á milli veiðiskipa sem hlutfalli af úthlutuðum heildarkvóta.  Útgerðarmönnum var svo í sjálfsvald sett hvernig, eða hvenær, þeir veiddu sína hlutdeild innan fiskveiðaársins.  Enn frekar hefur verið aukið við hagkvæmni þessa kerfis með því að heimila sölu og leigu á kvótum milli skipa.  Þetta hefur aukið hagkvæmni mikið þar sem kerfið hvetur hvern einstakling til að hámarka þann arð sem hann getur fyrir þær veiðiheimildir sem honum er fólgið.  Góð tengsl við markaði hefur verið einn helsti kostur þessa kerfis, sem hefur hámarkað afkomuna.

Kvótakerfið

Það er mikil einföldun að kenna kvótakerfinu um ástand veiðastofna, eins og t.d. þorsks.  Ef menn skoða málið af einhverri sanngirni blasir við að slíkar fullyrðingar standast ekki.  Í fyrsta lagi hafa stjórnvöld heimilað mun meiri veiði en ráðleggingar Hafró hafa verið í gegnum árin, en mestu munar um innkomu smábáta í gegnum tíðina, undir formerkjum réttlætis á kostnað hagkvæmni.  Smábátar voru undanþegnir kvóta í upphafi en höfðu sameiginlegan kvóta til að veiða úr sem stjórnvöld úthlutuðu þeim.  Veiði þeirra fór langt fram úr þessum áætlunum og sem dæmi var umframveiði smábáta 1984 um 70% og tæplega 130% árið 1985.  Aðeins síðust tvö ár eru undantekning frá umframveiði frá ráðgjöf Hafró ásamt árunum 1982 og 1983.  Umframveiðin fór sum árin yfir 120% og ekki fyrr en upp úr 1990 að ástandið fór að batna.

Það er því hrein rökleysa að kenna kvótakerfinu um ástand veiðistofna enda allat aðrar breytur áhrifavaldar.

Fullyrðingar um að veiðigeta flotans hafi stóraukist síðan kvótakerfið var sett á er vísað til föðurhúsanna.  Hvaðan hafa menn slíkar upplýsingar?  Málið er að engin hvati er í dag fyrir menn að hafa meiri afkastagetu en hagkvæmt er að nota til að sækja úthlutaðan kvóta.  Það þarf ekki nema að líta til togaraflotans til að sjá hverslags bábilja þetta er.

Kvótinn og landsbyggðin

Það má með sama hætti kalla fullyrðingar um breytingar á byggðamynstri á Íslandi sé kvótakerfinu um að ,,kenna"  Í fyrsta lagi er ekki víst að flutningur fólks úr fámenni í fjölmenni á Íslandi sé endilega slæmt.  Ekki hef ég séð nokkurn mann sýna fram á það, en fólk er einfaldlega að flytja til að auka lífsægæði sín, þar sem fjölmennið býður upp á fleiri tækifæri og aukna þjónustu.

En látum það liggja milli hluta og skoðum áhrif kvótakerfisins á búsetu Íslendinga undanfarin 25 ár.  Eina rannsóknin sem ég hef séð var gerð fyrir tveimur árum að Sigmundi Annasyni, þar sem hann ræddi við 1000 brottflutta Ísfirðinga.  Nánast engin tengsl virtust vera milli kvótakerfisins og ákvörðunar fólksins til að flytja á mölina.  Það verður einnig að skoða þá staðreynd að atvinnuleysi hefur verið óþekkt á Vestfjörðum síðan kvótakerfið var sett á, og þurft að flytja inn til landsins starfsfólk í fiskvinnslu í stórum stíl.

Skuldir sjávarútvegsins

Rætt er um að skuldir sjávarútvegsins hafi stór aukist eftir setningu kvótalaga.  Undirritaður hefur skoðað ársreikninga þeirra sjávarútvegsfyrirtækja sem voru í kauphöllinni á sínum tíma.  Öll hafa þau dregið sig þaðan út undanfarin ár.  Ekkert var athugavert við skuldastöðu þessara fyrirtækja.  Það er þekkt í viðskiptafræði að fyrirtæki reikna út hagkvæmustu blöndu skulda, hlutafjár og lausafjár.  Ekkert benti til annars en skuldastaða þessara fyrirtækja væri eðlileg og hagkvæm.  Það að heildarskuldir greinarinnar hafi hækkað skiptir engu máli.  Það er arðsemi fyrirtækjanna sem máli skiptir.  Þar greina íslensk sjávarútvegsfyrirtæki sig algerlega frá flestum erlendum, en arðsemi sjávarútvegs er alger undantekning á Íslandi og Nýja sjálandi. 

 Réttlæti

Það sem virðist helst fara fyrir brjóstið á fólki er aðferðin sem notuð var við að úthluta kvótanaum á sínum tíma.  Það er skiljanlegt enda um afdrifaríka ákvörðun að ræða, sem engin gerði sér grein fyrir 1984.  Stjórnvöld fóru þá leið að afhenda veiðiréttinn til þeirra sem voru í greininni á þessum tíma.  Það er ekki svo fráleit aðferð en skipti ekki höfuðmáli til að ná megin markmiðum kerfisins, að auka hakvæmni sjávarútvegs.

Hinsvegar gengur ekki endalaust að líta í baksýnisspegilinn og geta ekki tekið þátt í upplýstum umræðum um málefni sjávarútvegs vegna þessa.  Þetta er búð og gert og ekkert sem gert verður héðan af mun breyta því sem orðið er hvað þetta varðar.  Menn hafa selt sig út úr greininni og það skiljanlega farið fyrir brjóstið á mörgum, en á móti kemur hefur það losað um fjármagn til margvíslegra annarra nota, og bætt hagkvæmni þeirra sem eftir sitja í sjávarútveg.  Færri stærri fyrirkæki gefa íslendingum mikið tækifæri til sóknar í þessari grein.  Rétt er að taka því fram að meira en 80% af kvótanum hefur skipt um hendur og því eru það nýir aðilar sem koma inn eftir kvótakerfið sem halda verulegum hluta veiðiheimilda.

Ég hef litla samúð með þeim sem göslast í að gera út kvótalaust með því að leigja til sín heimildir á uppsprengdu verði.  Allt liggur þetta fyrir þegar lagt er af stað og því ákvörðun þessara manna sjálfra.  Hvort sem það eru útgerðarmenn eða sjómenn sem ráða sig í slíkt pláss.  Þetta er takmörkuð auðlind og því verður alltaf takmarkaður aðgangur að henni.  Þeir hæfustu munu halda velli og það er grundvöllurinn af þessu öllu.


Nýjársdagur

Í dag er nýjársdagur árið 2547.  Þetta er ein mesta hátíð ársins á Sri Lanka og gefið frí á mörgum vinnustöðum upp undir viku.  Félagar mínir í rannsóknarstofnun sjávarútvegsins eru í viku fríi en við hjá ICEIDA gefum aukafrí á morgun, mánudag.  Tímann nota ég í meistararitgerðina og sit sveittur frá morgni til kvölds við lestur og skriftir.

Ég stóð þó upp um ellefu leitið í morgun og skrapp á goflvöllinn.  Ég var alveg dolfallinn þegar ég ók upp úr kjallaranaum heima og kom á auðar göturnar.  Engin umferð og meira að segja slökkt á umferðarljósunum.   Varla maður á ferlin nema einstaka hópar að spila krikket á götunum.  Þetta var notaleg sýn á Colombo.  Ég prufaði meira að segja að sveigja bílnum á hægri kantinn til að þóknast litla heilanum, en hér er vinstri umferð.

Ég var að hugsa hvor ég ætti að strengja nýjársheit?   


Fiskveiðistjórnunarkerfið

Umræðan

Umræða um fiskveiðistjórnunina hefur verið mikil undanfarna áratugi en þó ekki alltaf með fræðilegum röklegum hætti, allavega í fjölmiðlum.  Hér skal gerð tilraun til að setja málið fram með þeim hætti að skapa megi faglega umræðu um þetta mikla hagsmunamál Íslendinga.

Rányrkja

Fræðimenn hafa komið sér upp hugtökum til að lýsa umhverfi fiskveiðistjórnunar og til að skapa grunn af fræðilegri umfjöllun um sviðið.  Í fyrsta lagið ber að nefna hagfræðilega rányrkju fiskimiða sem notuð er um veiði þar sem kostnaður fer fram úr tekjum af veiðunum.  Líffræðileg rányrkja er hinsvegar veiði sem gengur á stofna og að lokum stuðlar að hruni þeirra.  Þetta eru sjálfstæð fyrirbæri sem geta farið saman eða skilist að þar sem TAC (total allowable catces - leyfður heildarafli) er hægt að ná án þess að það sé hagkvæmt.  Heildartakmark fiskveiðistjórnunar er hinsvegar að hámarka fiskveiðiarð til langs tíma litið, og þar af leiðandi að ganga ekki of nærri fiskistofnum. 

Fiskveiðistjórnunin

Fiskveiðistjórnun er flókið fyrirbæri þar sem margir þættir koma saman.  Fyrirbærið tengist ráðleggingum Hafró um hámarksalfa, ákvörðun stjórnvalda er byggð á ráðgjöfinni, lokun veiðisvæða, reglur um notkun veiðafæra, landhelgi, kvótakerfi, eftirlit Fiskistofu og Landhelgisgæslunnar ásamt ýmsum reglum um t.d. útflutning á fiski.  Til að ræða þessi mál er nauðsynlegt að skilja umræðuna í sundur og ræða hvert atriði fyrir sig.  Því miður hefur oft farið lítið fyrir því og umfjöllunin oft snúist um upphrópanir og lýðskrum þar sem þessu er öllu hrært saman í einn graut.

Hafró

Ráðleggingar Hafró eru byggðar á lífræði og koma sem slíkar pólitík ekkert við.  Það er nauðsynlegt að halda upp öflugri umræðu um stofnunina og verk hennar, en það hefur t.d. ekkert með kvótakerfið að gera. 

Stjórnvöld

Ákvörðun stjórnvalda um hámarkskvóta og reglusetning á veiðum er hinsvegar litað pólitík.  Eðlilega þar sem stjórnmálamaðurinn þarf að taka tillit til fleiri sjónarmiða en vísindalegra.  Hann getur þurft að ganga gegn þjóðarhag til að tryggja afkomu smærri byggðalaga, eins og reynt er að gera með byggðakvóta.  Þar takast á hagkvæmni og réttlæti, en margar reglur sem ganga út á réttlæti draga úr hagkvæmni.

Lokun veiðisvæða og aðgengi að landhelgi

Framkvæmdavaldið setur reglur um lokun veiðisvæða, aðgengi að landhelgi og notkun veiðifæra.  Þarna togast á sömu kraftar þar sem litið er til hagkvæmni til að tryggja rétta nýtingu auðlindar á sama tíma og réttlætishugtakið skýtur oftar en ekki upp kollinum.  Endalaus átök eru um veiðar á smáfiski á Vestfjarðamiðum og veiðar á hrygningafiski fyrir suðurlandi.  Slíkt er eðlilegt þar sem um greinilega hagsmunaárekstra milli aðila er að ræða.

Kvótakerfið

Kvótakerfið hefur verið notað á Íslandi síðan árið 1984.  Haustið 1983 stóð sjávarútvegurinn frammi fyrir miklum vanda.  Þorskstofninn var í mikilli lægð eftir rányrkju fyrri ára og hallarekstur var gríðarlegur.  Fiskveiðiflotinn var allt of stór og langt umfram veiðiþol fiskistofna.  Þetta kom meðal annars til af afskiptum stjórnvalda, s.s. skuttogaravæðingu landsins, sem sennilega er ein mestu mistök sem gerð hafa verið í fiskveiðimálum Íslendinga.  Ríkið bætti svo betur um þar sem það lét byggja fjóra nýja togara sem síðar voru seldir hæstbjóðendum.  Þetta var gert til að bjarga tilteknum skipasmíðastöðvum og var gert fyrir atbeina þá verandi iðnaðarráðherra. 

Kvótakerfið var því sett á sem hagstjórnartæki til að tryggja fiskveiðiarð með því minnka fiskiskipaflotann og tryggja framleiðni í greininni.  Vandamálið var aldrei að ákvarða hámarksafla enda hægt að gera það með mörgum aðferðum.  Fram að þeim tíma var búið að reyna ýmis kerfi eins og ,,skrapdagakerfið"  Myndin hér að neðan sýnir sókn (tonnaúthaldsdagar sem margveldi stærðar skipa í tonnum og fjölda úthaldsdaga) og flotastærð árin fyrir kvótasetningu meðan það kerfi var við líði.  Þessi vaxandi umfram afköst í veiðisókn jók á kostnað á sóknareiningu og dró úr arðsemi veiðanna, öllum til tjóns.

Línurit

 

 

 

 

 

 

 

Mynd 1 Samanburður á sókn og flota 1978 - 1983

Fræðileg skilgreining

Fræðimenn hafa skipt aðferðum fiskveiðistjórnunar upp í tvo megin hópa til að geta fjallað um hugtök og breytur sem þeim tengjast; bein stjórnun (command-and-control approach) og hvatningarstjórnun (incentive-based appoach) 

Bein stjórnun

,,Bein stjórnun" kemur sem skipun að ofan (top-botton - frá stjórnvöldum) og tækin sem notuð eru við stjórnun er hámarksafli, einstaklingskvóti sem ekki er framseljanlegur, draga úr afkastagetu (minni vélarstærð o.s.f.) og tímatakmarkanir (sóknarkerfi).  Slíkt kerfi er ágætt til að stjórna hámarksafla en afleitt þegar kemur að hagvæmni þar sem tenging við t.d. markaði er engin.  Ekki er gerlegt að aðlaga slíka stjórnun að þörfum markaðarins þar sem upplýsingar til stjórnvalda þyrftu að vera yfirþyrmandi til að hægt væri taka tillit til allra þátta.

Hvatningastjórnun

,,Hvatningastjórnun" hinsvegar stjórnast að neðan (down-up) þar sem þarfir markaðarins streyma inn og ákvarða viðbrögð veiðimanna.  Hvatningastjórnun byggir á eignarhaldi á nýtingu þar sem framseljanlegir kvótar (Individual Transferable Quatas - ITQs) eru í höndum útgerðaraðila.  Útgerðaaðili í Vestmannaeyjum sem vill hámarka ávinning sinn af veiðum með útflutning í gámum til Bretlands, þarf að geta treyst því að hann hafi umboð til að veiða það magn sem honum er úthlutað, hvenær sem hann kýs að gera það innan fiskveiðiársins.  Hann bíður því eftir heppilegu tækifæri og veiðir fiskinn og flytur út þegar von er á minna framboði annars staðar frá og verðin eru honum hagstæðust.  Einnig veitir þetta möguleika á langtíma samvinnu milli aðila í virðiskeðju til að afhenda vöru með stöðuleika, sem er sífellt mikilvægara í markaðsmálum.

Gott dæmi um þetta atriði er markaðurinn í Grimsby í Bretlandi.  Í rannsókn sem norskir vísindamenn gerðu á fiskmarkaðinum þar 2006 kom í ljós að Íslendingar höfðu nánast lagt hann undir sig.  Norðmenn höfðu farið halloka í viðskiptum á þessum mikilvæga markaði og hlutdeild þeirra sífellt minnkað.  Þegar ástæðu þessa var leitað kom í ljós að Norðmenn þóttu óáreiðanlegir í afhendingu á afla.  Stundum kom fiskur inn í gusum frá þeim sem gerði verðið mjög óstöðugt, en flestir aðilar á markaði sækjast eftir stöðuleika til langs tíma.  Ástæða var sú að vegna stjórnkerfis fiskveiða í Noregi er ekki gert ráð fyrir eignarhaldi á veiðirétti og því var harmleikur almenninga „Tragety of the Common" allsráðandi.  Hinsvegar báru kaupendur Íslendingum vel söguna og töldu þá afhenda vöru með öryggi og hægt að treysta framboði frá þeim.  Kaupendur höfðu því snúið sér til Íslendinga, og töldu réttlætanlegt að greiða hærra verð fyrir fisk þaðan en frá Noregi, vegna gæða þjónustunnar og aflans.

Framseljanlegir kvótar - ITQs

Margar rannsóknir hafa verið gerðar á ITQs í fiskveiðum og eru niðurstöður flestar á einn veg, að slík stjórnun komi í veg fyrir bæði líffræðilega- og hagfræðilega rányrkju fiskistofna.  Í bókinni „Primary Industries Facing Global Markets" eru tilteknar margar rannsóknir um allan heim sem benda til þessa.  Engar rannsóknir er að finna sem sýnir yfirburði ,,beinnar stjórnunar" og í niðurstöðu yfir kaflann sem fjallar um þessi mál er talað um að hún sé einmitt gagnrýnd fyrir að hafa mistekist sem stjórntæki, bæði við líffræðilega- og hagfræðilega þætti.

Í bókinni er jafnframt bent á annmarka ITQs, svo sem brottkasti, misnotkun á leiguheimildum og þar sem slíkt kerfi veldur búsifjum svæða, þó hagur samfélagsins í heild sé tryggður.  Einnig er minnst á mikilvægt atriði sem er hvernig fiskveiðiarðurinn dreifist meðal þjóðarinnar.  Hér erum við einmitt komin að atriðum sem erfitt hefur verið að ræða um þar sem öllu er blandað saman og ekki hægt að halda sig við hvern þátt fyrir sig.

Brottkast

Brottkast er mælt á Íslandi og hefur Hafró komið sér upp aðferðafræði til að fylgjast með umfangi þess frá togurum, línu- og netabátum.  Ég hvet alla til þess að kynna sér þetta áður en vaðið er út í umræðuna um þetta málefni.  Vitneskja sakar ekki fyrir þann sem leitar sannleikans, en þetta eru ekki mál til að ræða við Gróu á Leiti eða nota í pólitískum loddaraskap. 

Misnotkun á leiguheimildum

Misnotkun á leiguheimildum er örugglega staðreynd á Íslandi.  Rétt er að huga að aðferðum sem lágmarka það, án þess að valda greininni í heild tjóni með reglum sem koma í veg fyrir hagkvæmni.  Það er mjög mikilvægt að aðilar í sjáarútveg hafi tök á því að hámarka hag sinn á markaði, og leiga getur gert útslagið með slíkt.  Fyrr er nefnt dæmi frá Grimsby sem sýnir hversu mikilvægt er fyrir aðila á markaði að hafa sveigjanleika og frelsi til athafna.

Lýðfræðilegar breytingar

Mikil lýðfræðileg breyting hefur orðið á Íslandi undanfarna áratugi þar sem fólk flytur úr fámenni í stærri bæi.  Margir kenna kvótakerfinu um en slíkt byggir á veikum grunni.  Rétt er að benda á að þessar breytingar hafa  gengið yfir allan heiminn og undanfarin örfá ár hafa 500 milljónir manna flutt úr dreifbýli í þéttbýli í heiminum.  Fólk hefur flutt úr sveitum í borgir og smábæir hafa í sumum tilfellum lagst af vegna breytinga í umhverfi.  Ég las nýlega grein þar sem bent er á að landflutningar hafi gert mörg sjávarþorp óhagkvæm á Íslandi, þar sem skipaflutningar skiptu áður miklu máli.  Ef stjórnvöld hefðu ekki haldið við skipaflutningum með alls kyns niðurgreiðslum og eigin skiparekstri, hefðu þessi byggðarlög lent í ógöngum fyrr, jafnvel fyrir kvótakerfið. 

Landshlutabundin kvóti

Kvótakerfi sem bundið er við landshluta væri erfitt í framkvæmd.  Ekki þarf annað en minnast á samþykkt bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar frá mars 2008 þar sem skorað er á Sjávarútvegsráðuneytið að útdeila byggðarkvóta beint, og taka þennan beiska kaleik frá sveitarfélögunum.  Vilji menn ganga á hag almennings í landinu til að viðhalda byggð, verður að gera það fyrir opnum tjöldum og draga alla hluti fram í dagsljósið.  Pólitísk úthlutun á gæðum er aldrei til góða.  Þar er betra að notast við markaðinn, sem þrátt fyrir miskunnarleysi sitt, mismunar ekki aðilum og tryggir hagkvæmni. 

Skipting fiskveiðiarðs

Skipting fiskveiðiarðs milli landsmanna er mikilvægt atriði og á fullan rétt á sér í umræðunni.  Slíkt er hápólitískt mál og varðar alla íbúa landsins og taka verður tillit til þess að auðlindin er sameign þjóðarinnar.  Ég er ekki með lausn á því hvernig það er best tryggt en bendi hinsvegar á mikilvægi þess að sá arður sem til skipta kemur sé sem mestur.

Eftirlit með auðlindinni

Eftirlitsþáttur með settum lögum og reglum er algerlega nauðsynlegur.  Ekki er hægt að reka neins konar fiskveiðikerfi án þess að tryggja að farið sé eftir leikreglum.  Fiskistofa og Landhelgisgæslan eru eftirlitsaðilar með fiskveiðiauðlindinni. 

Lagt hefur verið álag á útflutning á gámafisk undanfarin ár, þar sem tíu prósent álag á kvóta hefur verið sett á fisk sem fluttur hefur verið út óunninn.  Gjaldið var fellt niður nýlega enda hæpið að refsa mönnum fyrir að selja fisk þangað sem besta verðið fæst fyrir hann.  Frumframleiðsla (primary processing) hefur í sumum tilfellum minnkað útflutningsverðmæti, þar sem eftirspurn eftir ferskum fiski er sífellt að aukast, og besta geymsluaðferðin er að vinna hann sem minnst.

Að lokum

Þetta er á engan veg tæmandi umræða um fiskveiðistjórnunina en aðeins tæpt á helstu atriðum.  Þetta er flókið mál og þarf að skoða frá mörgum sjónarhornum.  Aðal atriðið er þó að halda umræðunni á skipulögðum nótum og forðast alhæfingar og upphrópanir.  Heildarmyndin er flókin en verður skiljanlegri ef menn halda sig við skipulag í umræðunni.  Kvótakerfið sem slíkt ber oftar en ekki á góma en það er aðeins einn hluti af fiskveiðistjórnunarkerfi Íslands.


Ofbeldismenn

Ofbeldi bílstóra undanfarna daga hefur algerlega gengið fram af mér.  Þegar ég las um fyrirhugaðar aðgerðir fyrir framan Alþingishúsin á mbl í gær, var ég viss um að þetta væri lélegt aprílgabb.  Mér datt ekki í hug að þetta væri raunverulegt og menn ætluðu sér að sturta tuga tonnum af möl á torgið og síðan kæmu torfærujeppar og spóluðu í öllu saman.

Það má vera að bílstjórar hafi samúð með málstaðnum, en hún hlýtur að fara þverrandi meðal almennings.  Þó ekki sé nema vegna þeirra áhættu sem þeir valda samborgurum sínum og óþægindum.

Hvar eru nú allir snillingarnir sem töluðu um að losna við vörubílana af þjóðvegunum.  Þeir yllu svo miklum kostnaði, langt umfram það sem þeir greiddu, að notkun þeirra á vegum væri ekki réttlætanleg.  Ríkið ætti bara að endurvekja Ríkisskip og svo biðu menn eftir vorskipinu.

Dettur einhverjum í hug að þessir bílstjórar greiði fyrir eldsneytið?  Eðlilega velta þeir auknum kostnaði út í verðlagið og neytandinn borgar.  Þannig virkar þetta og áhyggjuefnið er hnattrænt þar sem olíumarkaðir gilda fyrir allan heiminn. 

Ég skoðaði  athugun sem gerð var í fyrra um tekjur ríkisins af vörubílum og átætluðum kostnaði sem þeir valda.  Vörubíll veldur kostnaði með sliti á þjóðvegum, mengun (staðbundið vandamál), losun gróðurhúsalofttegunda (hnattrænt vandamál), slysum og hávaða.  Allt er þetta kostnaður sem samfélagið verður fyrir með akstri vörubíla.  Tekjurnar koma inn í staðin í gegnum eldsneytisgjald, þungaskatt og virðisaukaskatt.  Tveir fyrrnefndu skattstofnar eru í krónutölu og breytast því ekki við olíuverðshækkun.  Vsk hinsvegar er tekin af nánast öllum vörum og þjónustu, undantekningar og mishár skattstofn, og því eru tekjur ríkisins ákveðnar af heildar neyslu í landinu.  Heildar summu er eytt þannig að ef minkar á einum stað þá eykst það annarsstaðar.  Ef vsk af eldsneyti væri einhliða lækkaður myndu neytendur eyða sem lækkuninni nemur í meira eldsneyti.  Þannig yrði ríkið af tekjum, sem er í sjálfu sér ágætt, ef sparnaður kæmi í staðin.  Til dæmis væri hægt að draga úr framkvæmdum í vegamálum eða þjónustu Vegagerðarinnar.

Þetta skilja ekki ofbeldismennirnir og halda því áfram að níðast á samborgurum og misnota mikilvæg lýðréttindi til ólöglegra mótmæla.  Mótmæli eiga hinsvegar að vera friðsamleg og að sjálfsögðu lögleg.  Umræddar aðgerðir eru hvorugt.


Ofbeldi vörubílstjóra

Þessar aðgerðir vörubílstjóra eru óþolandi.  Þarna eru menn að misnota lýðréttindi til að mótmæla á friðsaman hátt, rétt sem aðeins lítill hluti jarðarbúa hafa.  Nota ofbeldi og stofna meðborgurum sínum í stór hættu fyrir nú utan öll óþægindin sem fólk verður fyrir.

Ég hef fulla samúð með kröfu bílstjóra vegna reglusetninga um vökulög, þar sem taka á upp kerfi sem nauðsynlegt er út í Evrópu, þar sem menn eru að aka þúsundir kílómetra á hverjum legg.  Ísland er hreinlega ekki nógu stórt, landfræðilega, til að bera slíkar reglur.

Hinsvegar þegar kemur að eldsneytisverði er við einhvern annan að sakast en íslensk stjórnvöld.  Eldsneytisgjaldið er í krónutölu og hækkar því ekki við hærra olíuverð.  Það ætti að vera morgunljóst en ef menn eru að tala um virðisaukann, þá er það allt annað mál.  Ef hann væri lækkaður á eldsneyti myndi ríkið tapa þeim tekjum, þar sem ekki skiptir máli hvar virðisaukinn er tekinn.

Miklar umræður voru um landflutninga í fyrra og voru margir sem töluðu fyrir ríkisstyrktum sjóflutningum, þar sem landflutningar greiddu ekki fyrir þann kostnað sem þeir valda. 

Með lægri vsk og afnámi þungaskatts gætu tekjur af landflutningum orðið minni en kostnaður samfélagsins af þeim er.  Samkvæmt upplýsingum sem ég hef stendur það í járnum í dag að flutningabíll greiði þann kostnað sem hann veldur.  Í formi slits á vegum, mengunar (staðbundið vandamál) hávaða og öðrum óþægindum, slysum og útblæstri gróðurhúsaloftegnda (hnattrænt vandamál)

Það virðist vera af viðtölum við forystumenn þessara bílstjóra að ábyrgð þeirra og skilningur sé í lágmarki.  Ég vona að ekki þurfi að koma til stórslyss áður en almenningi verður nóg boðið af þessu ofbeldi.


mbl.is Margra kílómetra bílaröð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðgerðir vörubílstjóra

Þessar aðgerðir vörubílstjóra eru óþolandi.  Þarna eru menn að misnota lýðréttindi til að mótmæla á friðsaman hátt, rétt sem aðeins lítill hluti jarðarbúa hafa.  Nota ofbeldi og stofna meðborgurum sínum í stór hættu fyrir nú utan öll óþægindin sem fólk verður fyrir.

Ég hef fulla samúð með kröfu bílstjóra vegna reglusetninga um vökulög, þar sem taka á upp kerfi sem nauðsynlegt er út í Evrópu, þar sem menn eru að aka þúsundir kílómetra á hverjum legg.  Ísland er hreinlega ekki nógu stór, landfræðilega, til að bera slíkar reglur.

Hinsvegar þegar kemur að eldsneytisverði er við einhvern annan að sakast en íslensk stjórnvöld.  Eldsneytisgjaldið er í krónutölu og hækkar því ekki við hærra olíuverð.  Það ætti að vera morgunljóst en ef menn eru að tala um virðisaukann, þá er það allt annað mál.  Ef hann væri lækkaður á eldsneyti myndi ríkið tapa þeim tekjum, þar sem ekki skiptir máli hvar virðisaukinn er tekinn.

Miklar umræður voru um landflutninga í fyrra og voru margir sem töluðu fyrir ríkisstyrktum sjóflutningum, þar sem landflutningar greiddu ekki fyrir þann kostnað sem þeir valda.  Með lægri vsk og afnámi þungaskatts gætu tekjur af landflutningum orðið minni en kostnaður samfélagsins af þeim er.  Samkvæmt upplýsingum sem ég hef stendur það í járnum í dag að flutningabíll greiði þann kostnað sem hann veldur.  Í formi slits á vegum, mengunar (staðbundið vandamál) hávaða og öðrum óþægindum, slysum og útblæstri gróðurhúsaloftegnda (hnattrænt vandamál)

Það virðist vera af viðtölum við forystumenn þessara bílstjóra að ábyrgð þeirra og skilningur sé í lágmarki.  Ég vona að ekki þurfi að koma til stórslyss áður en almenningi verður nóg boðið af þessu ofbeldi. 


mbl.is Mikill þátttaka í mótmælum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Back to the golf

Afastrákar 017Það er ágætt að vera komin í vanafarið hér í Colombo, eftir frábært frí heima á Íslandi meðal fjölskyldu og vina. 

Hluti af vana einverunnar hér er gríðarlegt regluverk og skipulagðir dagar.  Lítið sem ekkert drukkið af áfengi, sofnað klukkan tíu á kvöldin og farið á fætur kl. 5:45 og sprangað við dagmál hitabeltis Sri Lanka.

Ein aðal ástæðan fyrir regluverkinu er golfáhugi skrifara.  Eftir að hafa hangið á bjargbrún uppgjafar við að ná tökum á golfsveiflunni var lagst í vísindaleg vinnubrögð.  Ekki hafði dugað til að sækja kennslu mörgum sinnum í viku og hvorki rak né gekk við að að tileinka sér þessa stórmerkilegu íþrótt, og því lagst í akademískt nám.  Og síðan að skilgreina hugtök og breytur og hvernig væri hægt að hafa áhrif á þær til árangurs.

Akademíkin kenndi skrifara að íþróttin byggi á afslöppun, yfirvegun og tækni, en alls ekki á aflsmunum eða átökum.  Nauðsynlegt er að hafa mikla sjálfsstjórn, vera afslappaður og geta tæmt hugann um leið og hárrétt vöðvaminni sveiflunnar er framkvæmt.  Nota stóra heilann við almenna hugsun og spekulasjón og til að kenna litla heilanaum að taka yfir við sveifluna sjálfa, sem hann nær ekki að framkvæma á þeirri örskot stund sem hún tekur.  Grundvöllur þess að litli heilinn geti framkvæmt rétta sveiflu, og bætt hana við aukna æfingu, er yfirvegun og afslöppun.  Við ákafa og æsing tekur sá stóri ósjálfrátt yfir og kemur í veg fyrir rétta hreyfingu og orsakar mistök í sveiflunni.

Golf í Kandy 027Þegar kraftur og ákafi fer saman má segja að andstæða yfirvegunar og afslöppunar sé fundinn.  Það að ná innri ró til að geta endurtekið síendurteknar hreyfingar með það í huga að bæta ferli sveiflunnar, sé markmiðið útaf fyrir sig.  Ef við skilgreinum hugtökin um að vera yfirvegaður og afslappaður sem;  ,,að vera andlega og líkamlega afslappaður og líkamstarfsemina þannig að hugur nái tök á athöfn" má ímynda sér að nota mætti breytur eins og spennu vöðva og hjartslátt til að mæla ástandið.  Hvortveggja er auðvelt að mæla og reyndar finnur maður það á þess að nota einhver tæki til þess.

Þá er komið að því að hafa áhrif á þessar breytur til að hámarka árangur í golfi.  Það hefur ekki farið fram hjá skrifara að kaffi eykur hjartsláttur sem oft fylgir líkamleg spenna.  Þannig var þeim drykki hent út fyrir alllöngu síðan og te sett inn í staðin.

Áfengi er örvandi en það hefur einnig áhrif daginn eftir neyslu, mismikið eftir magni en þó einhver eftir aðeins tvo til þrjá bjóra.  Flestir hafa fundið fyrir skort á afslöppun og yfirvegun við aksturs bifreiðar daginn eftir gleðskap.  Einnig því óöryggi og spennu sem fylgir því að fljúga til Ísafjarðar í vondu veðri og hristast í Djúpinu á leið inn á Skutulsfjörð við sömu aðstæður.  Það var ekkert annað að gera en ýta áfenginu út, meðan golfið er stundað.  Þess má milli telur skrifari besta mál að njóta þessara lystisemda lífsins.

Reglulegur svefn og holt mataræði skapar yfirvegun og ró, þó skorti hér á vísindalega útlistingu á því.  Ekki það hún liggi ekki fyrir en erfitt er að koma því til skila í stuttu máli.

Golf í Kandy 034Skrifari tók einnig eftir því hversu gaman var að bregða út af regluverkinu í fríinu á Skíðaviku heima um páskana.  Ef drukkið er alla daga og borðaður veislumatur verður það venjulegt og leiðigjarnt.  Hinsvegar sem tilbreytingu á réttum stöðum og stundum verður það stórkostlega skemmtilegt.  Gleðskapur og veislur eru ólíkar golfi hvað varðar árangur.  Í golfi bæta menn sig og sífellt er verið að mæla árangurinn.  Því meira sem spilað er, ef rétt er á haldið, eykst leiknin.  Slíku er ekki að dreifa við gleðskapinn og þó hann sé stundaður stíft í tugi ára verða menn ekki endilega betri eða auka árangurinn.


Frí á Ísafirði

Páskar 2008 025Það er gaman að vera í fríi heima á Ísafirði um páska.  Að þessu sinni með nægum snjó  og frábæru skíðaveðri.  Og fyrir utan að hitta fjölskylduna eru allir vinirnir sem maður hefur vanrækt síðustu átta mánuðina.

Það er gaman að velta fyrir sér þeim hópum sem maður tilheyrir.  Fyrrum Rótarýmenn  hitti ég daginn eftir komuna til Ísafjarðar, þar sem ég sá um erindi kvöldsins á fundi hjá þeim.  Næsta laugardag hittist matarklúbburinn sem ég hef verið í um áraraðir þar sem boðið var upp á hrefnu og svartfugl.

Síðan var kvöldverður á miðvikudag í dymbilviku með Hallgrími Bláskó, heimsfrægum gönguklúbbi sem ég tilheyri.  Klúbburinn hefur gengið Hornstrandir þverar og endilangar og hefur lagt að baki tvær ferðir til útlanda.  Hann hefur það fyrir mottó að ef hægt er að velja um tvær leiðir, er sú erfiðari farin.

SumarhúsBáða laugardagana hitti ég félaga mína í gufuklúbbnum í Bolungarvík.  Okkur tókst ekki að gera út um kvótamálin frekar en endranær, þrátt fyrir að ráðherrann væri mættur seinni laugardaginn.  En félagar í gufuklúbbnum eru sammála um olíuhreinsistöð í Dýrafirði en erfiðari mál,eins og kvótaumræðan, verður að bíða eftir frekari eftirgjöf hormóna þessara vösku manna.

Okkur hjónum var boðið til veislu á Kúabúið sem er svona nokkurskonar Valhöll Tungudals, þar  eigum við sumarhús og eyðum venjulega öllum stundum frá vori til hausts innan um birkigróður og góða nágranna.

Ég tilheyri einnig hópi mikkilla skíðamanna er haldið hafa uppi skíðamenningu í fjöllum Tungudals, eftir að Seljalandsdalur var og hét.  Á milli ferða ræðum við heimsmálin og sögur fljúga milli manna, sannar og lognar.  Einstaka sinnum er dreypt á tappa af eðal viskí eða rommi laumað í súkkulaði drykk.  Allt fyrir stílinn og góða skapið.

Þá eru ónefndir vinir sem eiga svo bágt að búa í Reykjavík, og sækja mann á Keflavíkurflugvöll og annar sem skýtur yfir manni skjólshúsi milli flugvéla.

VeislurFramundan er áframhaldandi vinna á Sri Lanka fram eftir sumri.  Ég reikna með því að skreppa til Uganda í apríl til að skoða aðstæður þar en eftir sumarfrí í ágúst geri ég ráð fyrir að halda þangað til vinnu við svipuð verkefni og áður á Sri Lanka.


Frjálslyndir og hagfræðin

KHGÉg heyrði viðtal við þingmann Frjálslandaflokksins RÚV í gær, Kristinn H. Gunnarsson.  Þar átaldi hann stjórnvöld fyrir að hafa ekki undirbúið þjóðina undir þau slæmu tíðindi sem dynja yfir þessa stundina.  Fall krónunnar og hlutabréfamarkaðarins.  Ríkisstjórnin hefði setið með hendur í skauti sér á meðan Róm brennur.  Fréttamaður spurði þá Kristinn hvað hann hefði viljað gera í þessu ástandi.  Ekki stóð á svarinu frá þingmanninum.

Draga úr peningamagni í umferð og slá á þenslu í þjóðfélaginu.  

Semsagt að halda stýrivöxtum háum!  Stýrivextir eru notaðir til að ákvarða peningamagn í umferð og virkar almennt vel til að slá á þenslu þar sem dýrara verður að slá lán og sparnaður verður meira aðlaðandi.  Hinsvegar ætti þingmaðurinn að átta sig á þeirri staðreynd að peningamálin eru í höndum Seðlabankans og þar á bæ skrifa menn bara ríkisstjórninni bréf ef þeir ná enni verðbólgumarkmiðum sem þeim eru sett.  Slík bréf hafa verið nokkur undanfarin misseri.  Í öðru lagi hefur Seðlabankinn einmitt haldið vöxtum á endurhverfum lánum mjög háum, 13,75% og ekki öllum líkað það vel.  Kristinn er sem sagt mjög ánægður með aðgerðir Seðlabankans en virðist bara ekki vita að hann hefur verið að beita þessum einu vopnum sínum.

Þingmaðurinn ætti kannski frekar að beina spjótum sínum til ríkisstjórnarinnar sem eytt peningum á báða bóga með Keyniskum boðaföllum.  Ríkið hefur þanið sig út á undanförnum árum velgengni í þjófélaginu og þannig mun það sitja upp með stærri sneið af þjóðarbúskapnum þegar kreppir að.  Það hefur alltaf verið erfitt að bakka með ríkisútgjöld þegar  búið er að koma þeim á.  

Sem frjálshyggjumaður myndi ég þiggja alla aðstoð, jafnvel frá K.H.G. til að stöðva útþenslu ríkisins og þá forsjárhyggju sem í henni felst.  Hinsvegar get ég róað þingmanninn með því að peningamálin eru ekki lengur í höndum stjórnmálamanna, guði sé lof.  Stjórnmálamenn eru óheppilegir til að taka vaxtaákvörðun þar sem þær eru oftar en ekki óvinsælar.  Ef þær eru skynsamlegar.

Við munum sjá það á næstunni að einstaklingar munu slá á sína eyðslu sem dregur úr þenslu, en ríkið mun fara í allt aðra átt.  Eina ljósið í þessari stöðu er hugsanleg innspýting í atvinnulífið með byggingu álvera og annarra stóriðju.  Olíahreinsistöð á Vestfjörðum væri mjög gott tækifæri til að vega upp á móti samdrætti í atvinnulífi landsmanna samfara þeirri kreppu sem nú virðist hreiðra um sig. 


Skíðaveisla á Ísafirði

Páskar 2008 001Það hefur viðrað vel fyrir skíði síðan ég kom heim á Ísafjörð.  Glampandi sól og blíða og færið eins og best verður á kosið um helgina.  Á föstudeginum var Sandfellið með mátulegu púðurlagi þá hófst keppni við brettakrakkana að nýta það vel í frjálsri skíðamennsku.  Það er toppurinn og tekur meira í en troðnar slóðir.

Í norðri blasti gamla góða brekkan við, yfir Seljalandsdal.  Rústir lyfturnar sem við félagarnir höfðum nánast klárað að byggja þegar hún fór í snjóflóði 1999.  Fyrir utan nokkur snjósleðaför upp í brekkuna var hún sem óspjölluð mey og blasti við í sólskyninu.  Brekkan var áskorun um að marka spor okkar í hana.

Við lögðum þrír af stað klukkna níu á laugardagsmorgun.  Við sukkum í hné í hverju spori en puðið gleymdist í spjalli í góðra vina hópi og með skíðin á bakinu þjörkuðum við upp í skál.  Útsýnið þaðan á sólríkum morgni þegar fjörðurinn skartar sínu fegursta í vetrarham er ólýsanlegt.  Það vekur upp gamlar minningar frá skíðun í þessari bestu, og bröttustu, brekku íslenskrar skíðasögu.  Hér ólumst við upp á skíðum og áttum okkar bestu stundir.

Páskar 2008 003Í þetta sinn var rennslið niður erfitt.  Það hafði myndast skán í efsta lagi og mjúkt púður undir.  Við köllum þetta brotasnjó og þarf að hafa sig allan við til að ráða við það.  En gaman var það og neðar lagaðist færið og þar var hægt að hleypa á fulla ferð þannig að hvein í eyrum.

Síðan drifum við okkur beint upp í Tungudal þar sem troðnar brekkur og púður var valið til skiptis.  Við hefðum getað haldið á fram á kvöld, en skíðamenn mæta alltaf í gufu á laugardagseftirmiðdögum.  Þar látum við þreytuna líða úr okkur undir skemmtilegum umræðum og sögum.  þetta var mín fyrsta gufa í 10 mánuði og því um mikilvæga upprifjun að ræða.  Stimpla sig inn og halda á með söguna síðan í fyrra vor.

 

 

Páskar 2008 002


Heim í heiðadalinn

IMG_0747Það er engin smá tilhlökkun að koma heim eftir rúma sjö mánaða fjarrveru frá heimaslóðum.  Fjarri fjölskyldu og vinum og þessu venjulega skemmtilega basli innan um fólk sem manni þykir vænt um.  Það sem hæst stendur er að hitta í fyrsta skiptið nýjan afkomenda, Þorgeir, sem kom í heiminn í nóvember og afi hans hefur aldrei séð hann.  Það er heldur ekki lítil tilhlökkun að hitta grallarann og fjörkálfinn hann Jón Gunnar og rifja upp skemmtileg kynni úr Tungudal frá síðasta sumri.  

Fyrir nú utan allt hitt.  Konu og börn, kuldann og vinina.  Ég mæti að sjálfsögðu í gufu á laugardaginn og allt verður eins og áður.  Síðan er það kvöldverður með matarklúbbnum.  Gönguklúbburinn mun hittast um páskana og ræða óðráðna framíð og nýjar áskorannir.

Það er með ólíkindum hvað ég sakna kuldans.  Ég varð alveg ær að lesa bloggið hans Ívars vinar míns um ferð þeirra félaga, Ívars og Stebba, á Tindfjöll við Þórsmörk s.l. laugardag.  Frost, púðursnjór og endalaust útsýni yfir fegursta land heimsins.

Ég lauk þessum degi vel í Colombo.  Við fórum hálfan hring á Royal eftir vinnu á þessum frábæra golfvelli.  Þó sveiflan hafi verið fjær en vonast var til var stutta spilið og púttin hvetjandi til afreka í framtíðinni.

En framundan eru skíðin og svallið um páskana.  Verið viðbúin áhlaupinu.  Það mun fara verulega fyrir mér um páskana á Ísafirði.   


Raunir almenninga

Túnfiskur 002Undanfarði hef ég fengið tækifæri til að hitta marga úr fiskiðnaði Sri Lanka, sem tengist verkefni sem við Íslendingar erum að stýra.  Í þessari viku hef ég átt fundi með fjölda útgerðamanna og heimsótt fiskmarkaði í leiðinni.  Það er margt sem flýgur um  hugann við náin kynni af vanþróuðum sjávarútveg þar sem lítið fer fyrir regluverki og eftirliti.  Frjáls aðgangur að auðlindinni og lítil þekking sem flæðir um virðiskeðjuna er einkennandi.  Þetta er svona draumastaða fyrir Vinstri græna og Frjálslandaflokkinn.  Útópían og fagnaðarerindið sem þeir hafa verið að breiða út undanfarin ár og áratugi.

Hér hafa engar marktækar stofnmælingar átt sér stað og menn alveg lausir við átök um fiskifræðinga og vitlausa ráðgjöf þeirra.  Slíkt er ekki til í orðaforðanum hér og þar sem aðgangur er galopin og allir sem vilja geta keypt sér bát og hafið veiðar, enda eru orð eins og sægreifar og kvótabrask ekki til umræðunni.

 

 

Túnfiskur 003En skildi þá ekki allt vera dásamlegt og smjör drjúpi af hverju strái?

Það sem vantar hér er fiskveiðiarður.  ,,Raunir almenninga" eru í algeymi þar sem allt fer í kostnað við útgerðina og lítið er til skipta.  Fiskimenn eru fátækir og útgerðarmenn barma sér.  Engin stendur upp úr þar sem "Tragety of the Common" sér til þess að sótt er þar til engin arður er til. 

Það hefur alltaf vantað inn i umræðu andstæðinga kvótakerfis, hvað eigi að koma í staðin verði það lagt af.  Ef menn eru að boða frjálsan aðgang "Free Access" að fiskimiðum þá er auðvelt að sjá hverju það skilar.  Eini munurinn á fiskveiðum í þróunarlöndum og þeim þróuðu, þar sem fiskveiðistjórnun er lítil eða ómarkviss, er að ríku þjóðirnar dæla peningum inn í sjávarútveginn sem einhverskonar byggðastefnu.  Það hefur aldrei legið fyrir Íslendingum að geta það þar sem fiskveiðar eru of mikilvægar í þjóðarbúskapnum.  Þannig að við myndum lenda í flokki með þróunarlöndunum. 

 

Túnfiskur 007Það má vel vera að sýnin sé rómantísk þar sem veiðimenn geta bara gert það sem þeim dettur í hug og sækja sjóinn og brosað í stafni við sæfeykta strönd.  En ég upplifi það ekki þannig þegar litast er um í slíku umhverfi.  Fiskveiðistjórnun sem ekki lýtur lögmálum hagfræðinnar er dæmd til að sólunda auðlindum.  Öllum til tjóns þegar upp er staðið.

 

 

 

 

Túnfiskur 016


Mýrin

Það er gaman að segja frá því að þessi mynd er til sölu á flestum DVD verslunum hér á Sri Lanka.  Hér heitir hún Jar City og virðist seljast vel, enda still upp á áberandi stöðum í verslunum.  Ég keypti eintak um daginn og voru gæði myndar og tals (Íslenska) mjög góð.

Ég er hinsvegar ekki viss um að mikið fari fyrir höfundarlaunum á selda mynd hér en verð á nýlegri bíómynd er um hundrað og fimmtíu krónur íslenskar.

En ég hafði gaman af myndinni, þó hún væri ansi þunglyndisleg. 


mbl.is Baltasar: Getur breytt öllu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nuwara Eliya

Grand HotelEnn og aftur var skroppið til fjalla, nánar tiltekið til Nuwara Eliya til að spila golf.  Við gistum á lúxus hóteli sem byggt er um miðja síðustu öld í nýlendustíl.  Allt minnir á England og maður sér fyrir sér nýlenduherrana njóta veðurblíðunnar í fjöllunum þegar hitinn er kæfandi niður í Colombo.

Við ókum á föstudagskvöldi og náðum síðbúnum kvöldverði á Grand Hotel.  Við komum út skömmu eftir birtingu á laugardagsmorgun og hitastigið var sex gráður.  Maður fann lyktina af kuldanum.  Svona eins og heima og ekki laust við smá heimþrá.  Golfvöllurinn er í nokkurra mínútna göngu við vorum byrjaðir að spila fyrir kl. átta.  Fallegur sólskinsdagur og náttúrufegurðin ólýsanleg.  Við fengum okkur hádegisverð í klúbbnum eftir góðan hring á vellinum.  Það var ekki svitadropi á okkur enda hitastigið rétt um 25° C.  Í golfferðum er bara drukkið límonaði, þó maður leyfi sér rauðvínstár að kvöldi.  Smá Viskí fyrir svefninn, en menn fara í háttinn upp úr klukkan tíu.

Nuwara Eliya er langt fyrir ofan regnskóginn sem umlykur mest alt Sri Lanka.  Teakrar teygja sig yfir hæðótt landslagið ,,Hill Country" og allt er iðagrænt.  Enn er hagstætt að heimsækja svæðið og verðlag ótrúlega  hagstætt fyrir Íslendinga.  Það breytist hinsvegar í apríl þegar vertíðin byrjar upp til fjalla.  Verðlag þrefaldast en þá er reyndar allt í blóma og svæðið skartar sínu fegursta.

Á golfvellinum

 Árni við golfklúbbinn

 

 

 

 

 

 

 

Eftir góðan hring á sunnudagsmorgun og hádegisverð á hótelinu var ekið af stað í bæinn.  Við komum við í teverksmiðju þar sem hægt er að kaupa úrvals te á góðu verði.  Single Estate Fine Te frá Mackwoods verksmiðjunni sem er í nærri 2000 metra hæð.  Bragðmesta og besta teið er ræktað hátt upp í fjöllum.  Ég keypti nóg til að færa vinum mínum heima sem kunna að meta þennan eðaldrykk.  Sjálfur hætti ég að drekka kaffi fyrir þremur mánuðum síðan og nú er drykkurinn te.  Bjórinn settur út á gaddinn og límonaði tekið inn.  Það er ekki pláss fyrir bjór með vinnu, ritgerðarsmíð og golfsveiflu.  Svo hann varð að víkja. 

Baksveifla í golfi

Nuwara Eliya

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 12
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband